Hæstiréttur íslands

Mál nr. 355/2007


Lykilorð

  • Ölvunarakstur
  • Svipting ökuréttar
  • Ákæra


Fimmtudaginn 20

 

Fimmtudaginn 20. desember 2007.

Nr. 355/2007.

Ákæruvaldið

(Sigríður J. Friðjónsdóttir, saksóknari)

gegn

Bjarna Jóhannessyni

(Hilmar Ingimundarson hrl.)

 

Ölvunarakstur. Svipting ökuréttar. Ákæra.

B var sakfelldur fyrir að aka undir áhrifum áfengis og sviptur ökurétti. Honum hafði fimm sinnum áður verið gerð refsing fyrir ölvunarakstur og átta sinnum fyrir akstur sviptur ökurétti. Með hliðsjón af sakarferli B þótti refsing hans hæfilega ákveðin 8 mánaða fangelsi auk þess sem ævilöng ökuréttarsvipting hans var áréttuð. 

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Páll Hreinsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 19. mars 2007 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst staðfestingar á sakfellingu og ökuréttarsviptungu ákærða en að refsing hans verði þyngd.

Ákærði krefst sýknu af ölvunarakstri og að refsing hans verði milduð.

Í ákæru málsins segir að vínandamagn í blóði ákærða hafi verið 1,71‰ en ekki 0,71 mg í lítra útöndunarlofts sem var niðurstaða öndunarsýnismælingar. Þetta var leiðrétt með bókun í héraðsdómi við fyrirtöku málsins 26. október 2006. Heimfærsla brots til lagaákvæða í ákæru var hins vegar rétt. Af hálfu ákærða hefur því ekki verið haldið fram að þessi misritun hafi komið niður á vörn hans. Þykir hún ekki eiga að valda frávísun ákærunnar frá héraðsdómi.

Samkvæmt málsgögnum hefur ákærði átta sinnum hlotið refsingu fyrir brot gegn umferðarlögum. Hann hefur fjórum sinnum verið dæmdur fyrir að aka ölvaður auk þess sem hann hefur undirgengist sátt einu sinni fyrir slíkt brot. Þá hefur hann átta sinnum verið dæmdur fyrir akstur sviptur ökurétti. Ákærði hefur tvisvar verið dæmdur í þriggja mánaða fangelsi og tvisvar í sex mánaða fangelsi fyrir að aka ölvaður sviptur ökurétti.

Með þessum athugasemdum og að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms er staðfest niðurstaða hans um sakfellingu og ákvörðun refsingar svo og sviptingu ökuréttar.

Af gögnum málsins verður ráðið að málið var þingfest 22. júní 2005 að ákærða viðstöddum. Málið var næst tekið fyrir 19. ágúst og þá 29. ágúst 2005 en ákærði mætti ekki til þessara þinghalda. Í síðara skiptið var málinu frestað um ótilgreindan tíma. Síðan lá meðferð málsins niðri og var það ekki tekið fyrir á ný fyrr en 9. október 2006. Þessi langi dráttur hefur ekki verið réttlættur með fullnægjandi hætti og er aðfinnsluverður.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað verður staðfest.

Ákærði verður dæmdur til greiðslu alls sakarkostnaðar fyrir Hæstarétti samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara um sakarkostnað og ákvörðun Hæstaréttar um málsvarnarlaun, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti, svo sem nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Ákærði, Bjarni Jóhannesson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 201.062 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttar­lögmanns, 186.750 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 17. janúar 2007.

Málið er höfðað með ákæru lögreglustjórans í Reykjavík, dagsettri 6. júní 2005 á hendur ákærða, Bjarna Jóhannessyni, [kt.], óstaðsettur í hús í Reykjavík, “fyrir umferðar­laga­brot, með því að hafa ekið bifreiðinni NK-587, aðfaranótt sunnudagsins 8. maí 2005, undir áhrifum áfengis (vínandamagn í blóði 1,71‰) og sviptur ökurétti um Sæbraut í Reykjavík, uns akstri lauk við gatnamót Sæbrautar og Höfðatúns.

Þetta telst varða við 1. mgr., sbr. 3. mgr., 45. gr. og 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr., umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 1. gr. laga nr. 48/1997.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og sviptingar ökuréttar skv. 101. og 102. gr. nefndra umferðarlaga, sbr. 25. gr. laga nr. 44/1993, 2. gr. laga nr. 23/1998 og 8. gr. laga nr. 84/2004.”

Af hálfu ákæruvaldsins var sú leiðrétting gerð á ákæru að þar eigi að standa í stað orðanna “vínandamagn í blóði 1,71” að alkóhól hafi verið 0,71 mg í lítra útönd­unarlofts frá ákærða.

Málavextir

Aðfaranótt sunnudagsins 8. maí 2005, kl. 3.55, var lögreglan við umferðareftirlit við Kirkjusand við Sæbraut. Var ökumanni bifreiðarinnar NK-587 gefið merki um að stöðva bifreið sína en hann sinnti því ekki heldur ók framhjá tveimur kyrrstæðum lögreglubifreiðum sem voru með forgangsakstursljós kveikt.  Í frumskýrslu Arnþrúðar Maríu Felixdóttur lögreglumanns, kemur fram að ökumaður bifreiðarinnar hafi aukið hraðann mjög mikið og hafi lögreglan þegar hafið eftirför á tveimur bifreiðum.  Ökumaðurinn hafi skömmu síðar stöðvað bifreiðina á Sæbraut við Höfðatún og reyndist þar vera ákærði á ferð.  Hann hafi verið tekinn tali og færður í handjárnum í lögreglubifreiðina.  Þar hafi hann blásið í S-D2 mæli en sá blástur hafi reynst ófullnægjandi en hafi þó gefið niðurstöðuna 1,40‰.  Var ákærði handtekinn og færður á lögreglustöðina þar sem hann gaf öndunarsýni í intoxilyzer sem hafi gefið niðurstöðuna 0,71 mg/l.  Liggur niðurstaða mælingarinnar fyrir í gögnum málsins.

Ákærði var vistaður í fangageymslu en fram kemur í skýrslu lögreglu að ekki hafi verið unnt að yfirheyra hann vegna ölvunarástands hans.  Þá leiddi athugun í ökuskírteinaskrá í ljós að ákærði var sviptur ökurétti ævilangt.  Í vistunarskýrslu sem liggur frammi í málinu er ástandi ákærða lýst svo að framburður hans hafi verið greinargóður, ölvaður, annarlegt ástand, jafnvægi stöðugt, málfar skýrt og sjáaldur útvíkkuð.

Þennan sunnudagsmorgun kl. 9.52 mætti ákærði til yfirheyrslu en kaus að tjá sig ekki um sakargiftir.

Samkvæmt sakavottorði ákærða var hann sviptur ökurétti ævilangt 28. júní 2002.

Verður nú gerð grein fyrir því sem fram hefur komið við aðalmeðferð málsins.

Ákærði viðurkennir að hafa ekið bifreið sviptur ökurétti en neitar því að hafa verið undir áhrifum áfengis umrætt sinn.  Kveðst hann ekki hafa neytt áfengis fyrir aksturinn og enga skýringu geta gefið á mælingu um vínandamagn í útblásturslofti.

Gunnar Helgi Stefánsson lögreglumaður, hefur skýrt frá því að hann hafi stjórnað umferðareftirliti við Sæbraut þar sem akbraut hafi verið lokað með tveimur lögreglubifreiðum.  Ákærði hafi komið akandi og virt stöðvunarmerki þeirra að vett­ugi.  Kvaðst vitnið þegar í stað hafa veitt honum eftirför auk þess sem önnur lög­reglubifreið hafi fylgt á eftir.  Ákærði hafi stöðvað bifreið sína við Höfðatún og hafi þá blásið í SD-mæli. Einnig hafi hann blásið í intoxilyzer-mæli á lögreglu­stöðinni.  Aðspurður kvaðst hann ekki muna hvernig ástand ákærða var en kvað akstur ákærða hafa verið stöðvaðan þar sem hann virti ekki stöðvunarmerki lögreglu.

Arnþrúður María Felixdóttir lögreglumaður, hefur skýrt frá því að ákærði hafi hunsað stöðvunarmerki þeirra lögreglumannanna og því hafi honum verið veitt eftirför.  Þegar ákærði hafði numið staðar hafi hann verið færður í lögreglubílinn og látinn blása í öndunarmæli sem hafi sýnt vísbendingu um að maðurinn væri ölvaður.  Hafi hann þá verið handtekinn og færður á lögreglustöðina.  Ákærði hafi verið áber­andi ölvaður, áfengisþefur hafi verið af honum, sjáöldur hans mjög opin og eins hafi hann verið drafandi í mæli.  

Haukur Ólafsson varðstjóri, sem hafði umsjón með alkóhólmælingunni í umrætt sinn og hefur gert um hana skýrslu, man ekki sérstaklega eftir þessu atviki. 

Hann segir vélina vera þannig úr garði gerða að hún stöðvi mælinguna sé eitthvað athugavert við hana.  Hann staðfestir skýrslu sína um þetta atvik.

Niðurstaða

Ákærði hefur neitað því að hafa ekið undir áhrifum áfengis.  Fyrir liggur að ástæða þess að lögregla stöðvaði akstur ákærða umrætt sinn var sú að hann virti ekki stöðvunarmerki lögreglu.  Var honum veitt eftirför og var hann í kjölfarið handtekinn vegna gruns um ölvunarakstur.  Arnþrúður María Felixdóttir lögreglumaður, kveður ákærða hafa verið áberandi ölvaðan og ekkert er fram komið í málinu sem bendir til þess að alkóhólmæling á útöndunarlofti úr ákærða hafi farið úrskeiðis.  Verður að telja það sannað að ákærði hafi ekið bílnum undir áhrifum áfengis í umrætt sinn.  Þá hefur ákærði játað að hafa verið sviptur ökurétti í þetta sinn og er það í samræmi við skjöl málsins.  Telst það vera sannað í málinu.  Hefur ákærði gerst brotlegur við þau refsiákvæði sem tilfærð eru í ákærunni.

Viðurlög og sakarkostnaður

Brot ákærða er margítrekað.  Þykir refsing hans vera hæfilega ákveðin fangelsi í 8 mánuði.  Þá ber að árétta ævilanga ökuréttarsviptingu ákærða frá þessum degi.  Loks ber að dæma ákærða til þess að greiða verjanda sínum, Hilmari Ingimundarsyni hrl., 300.000 krónur í málsvarnarlaun að meðtöldum virðisaukaskatti og 6.500 krónur í annan sakarkostnað.           

Málsmeðferðin hefur dregist vegna útivistar ákærða og fjarveru vitna.

Pétur Guðgeirsson héraðsdómari kvað upp dóminn.

DÓMSORÐ

Ákærði, Bjarni Jóhannesson, sæti fangelsi í 8 mánuði.

Ákærði er sviptur ökurétti ævilangt frá dómsuppsögu að telja.

Ákærði greiði verjanda sínum, Hilmari Ingimundarsyni hrl., 300.000 krónur í málsvarnarlaun og 6.500 krónur í annan sakarkostnað.