Hæstiréttur íslands

Mál nr. 672/2007


Lykilorð

  • Verksamningur
  • Vanefnd
  • Matsgerð


                                     

Fimmtudaginn 23. október 2008.

Nr. 672/2007.

Íslenska ríkið

(Othar Örn Petersen hrl.)

gegn

Tryggingamiðstöðinni hf.

(Jóhannes Karl Sveinsson hrl.)

 

Verksamningur. Vanefndir. Matsgerð.

Með verksamningi 11. september 2001 tók félagið K ehf. að sér gagnvart íslenska ríkinu að framkvæma endurbætur á byggingu Þjóðminjasafns Íslands við Suðurgötu í Reykjavík, ásamt stækkun byggingarinnar, en upphafleg verklok voru áætluð 1. október 2002. Var eftirlit ríkisins á vegum Framkvæmdasýslu ríkisins. Í samræmi við útboðsskilmála gaf tryggingafélagið T út verkábyrgð fyrir K ehf. í tengslum við verkið. Þegar líða tók á verktímann fór að halla undan fæti hjá K ehf. sem sagði sig á endanum frá verkinu með samningi við Framkvæmdasýslu ríkisins. Í kjölfar þess gerðu íslenska ríkið og T með sér samkomulag 13. desember 2002 sem miðaði að því að tryggja framgang verkefna samkvæmt eldri verksamningi ríkisins og K ehf. svo unnt yrði að ljúka verkinu. Hafði samningurinn meðal annars að geyma ákvæði um skyldur beggja aðila í því sambandi, svo og ákvæði um uppgjör milli T og íslenska ríkisins vegna verksins. Í samningnum kom fram að T tæki að sér nánar tilgreindar skyldur K ehf. sem lutu einkum að stjórnun og rekstri vinnustaðarins, auk þess sem Framkvæmdasýsla ríkisins fengi framselda samninga undirverktaka K ehf. Greindi aðila á um uppgjör verksins en ljóst var að verklok drógust mjög og kostnaður varð hærri en upphaflegi verksamningur ríkisins og K ehf. gerði ráð fyrir. Í dómi Hæstaréttar kom fram að um skyldur og réttindi málsaðila færi eftir samkomulagi þeirra 13. desember 2002. Talið var að T hefði samkvæmt uppgjörsákvæði  í samningi aðila ekki einungis átt kröfu á greiðslum samkvæmt upphaflegum einingarverðum í verksamningi K ehf. og ríkisins, heldur einnig því sem sá samningur hefði fært félaginu umfram samningsfjárhæð ef til vanefnda kæmi af hálfu ríkisins. Af matsgerð sem lá fyrir í málinu mátti ljóst vera að stórfelldar vanefndir ríkisins hefðu veitt K ehf. rétt á greiðslum umfram samningsfjárhæð ef það félag hefði unnið verkið eftir 13. desember 2002 en ekki T. Ekki var unnt að meta nákvæmlega hverjar þær fjárhæðir hefðu orðið en samkvæmt niðurstöðu matsmanna yrði að telja heildarkostnað þann er T varð fyrir vegna verksins sanngjarnan og eðlilegan miðað við umfang verksins og tafir á því. Sönnunarbyrði fyrir því að krafa T í málinu væri hærri en K ehf. hefði öðlast vegna sömu vanefnda yrði að leggja á ríkið og hefði sú sönnun ekki tekist. Var niðurstaða héraðsdóms um að íslenska ríkið skyldi greiða T umkrafða fjárhæð vegna uppgjör aðila á verkkostnaði staðfest.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Gunnlaugur Claessen og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 28. desember 2007 og krefst aðallega sýknu, en til vara að krafa stefnda verði lækkuð og dráttarvextir dæmdir frá uppsögu dóms. Hann krefst einnig málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst aðallega staðfestingar hins áfrýjaða dóms, en til vara að áfrýjandi verði dæmdur til að greiða 65.533.753 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. nóvember 2004 til greiðsludags. Hann krefst einnig málskostnaðar á báðum dómstigum.

Áfrýjandi hefur stefnt til réttargæslu fyrir Hæstarétti Hornsteinum arkitektum ehf., Línuhönnun hf., Rafhönnun hf., VSÓ ráðgjöf ehf., Verkfræðistofu Guðmundar og Kristjáns hf. og Hönnun hf. Tveir þeir síðastnefndu hafa nú sameinast undir nafninu VGK Hönnun hf. Áfrýjandi gerir engar kröfur á hendur réttargæslustefndu. Þeir hafa skilað greinargerðum til Hæstaréttar, en ekki látið málið frekar til sín taka. Af hálfu allra réttargæslustefndu er krafist málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Í júní 2001 leitaði Framkvæmdasýsla ríkisins fyrir hönd áfrýjanda sem verkkaupa eftir tilboðum í að framkvæma endurbætur innanhúss á byggingu Þjóðminjasafns Íslands við Suðurgötu í Reykjavík ásamt stækkun byggingarinnar. Verkið skyldi framkvæma samkvæmt meðfylgjandi útboðsgögnum og öðrum gögnum, sem þar var vísað til. Meðal þeirra var útboðslýsing, ítarleg verklýsing, útboðsteikningar, tilboðsskrá, Íslenskur staðall ÍST-30 auk ýmissa annarra gagna. Fram kom að eftirlit áfrýjanda yrði á vegum Framkvæmdasýslu ríkisins, eftirlitsaðili yrði ráðinn til að sinna því og að verktaki skyldi framkvæma verkið í samráði við hann. Framkvæmdir gætu hafist sumarið 2001 og skyldi að fullu vera lokið eigi síðar en 1. október 2002. Af hálfu stefnda er haldið fram að um tæknilega flókið verk hafi verið að ræða, sem að miklu leyti hafi falist í gagngerri breytingu innanhúss á gamalli byggingu þar sem ríkar kröfur hafi verið gerðar til faglegrar og listrænnar útfærslu.

Hinn 11. september 2001 mun áfrýjandi hafa tekið tilboði Kraftvaka ehf. í verkið og verksamningur þar með kominn á. Samningsfjárhæð mun hafa verið 429.848.832 krónur. Í útboðslýsingu var tekið fram að upphæðin verðbættist ekki. Kraftvaki ehf. samdi síðan við nokkra undirverktaka um að þeir ynnu tiltekna hluta heildarverksins, en aðra hugðist aðalverktakinn vinna sjálfur. Hann hóf framkvæmdir 17. september 2001. Í samræmi við útboðsskilmála setti Kraftvaki ehf. áfrýjanda tryggingu fyrir því að sá fyrrnefndi innti af hendi skyldur sínar í samræmi við samning þeirra. Sú trygging var fengin hjá stefnda og var að fjárhæð 64.500.000 krónur.

Síðari hluta árs 2002 var ljóst orðið að Kraftvaka ehf. tækist ekki að ljúka við verkið, en verulegur hluti þess var þá enn óunninn. Gerðu félagið og Framkvæmdasýsla ríkisins fyrir hönd áfrýjanda samning 1. desember 2002 um að verktakinn segði sig frá verkinu miðað við 23. október sama ár og að fjárhagslegt uppgjör skyldi miðast við þann dag. Félagið áskildi sér jafnframt rétt til að krefjast skaðabóta vegna tjóns, sem það taldi sig hafa orðið fyrir vegna samningsins, en ekki er fram komið að á það hafi reynt. Með samningnum framseldi Kraftvaki ehf. til áfrýjanda sjö nánar tilgreinda samninga sína við undirverktaka og efnissala og yfirtók áfrýjandi samningsskuldbindingar gagnvart þeim að fengnu samþykki þeirra. Þá segir í samkomulaginu að stórir verkþættir, sem Kraftvaki ehf. hafi sjálfur ætlað að vinna yrðu boðnir út að nýju eða „samið við einhverja aðila skv. nánara samkomulagi.“ Í lokagrein samkomulagsins segir að Kraftvaki ehf. framselji gildandi verktryggingu undirverktaka til stefnda, sem ábyrgist verkið í heild gagnvart áfrýjanda. Uppgjör á tjóni áfrýjanda vegna samningsrofa við Kraftvaka ehf. muni verða gert við stefnda, en þar til hann losni frá ábyrgð sinni haldi hann veðum samkvæmt tryggingabréfi og innistæðu á bankareikningi, sem Kraftvaki ehf. setti til tryggingar skaðleysi stefnda af því að veita umrædda tryggingu. Af hálfu stefnda var samkomulagið undirritað til staðfestingar á skuldbindingu samkvæmt lokagrein þess.

Kraftvaki ehf. mun hafa fengið greiðslustöðvun í desember 2002 og var bú félagsins tekið til gjaldþrotaskipta í janúar 2003.

II

Af hálfu stefnda er fram komið að á þessu tímamarki hafi legið fyrir að greiðsluskylda hans gæti orðið virk, en þó aldrei fyrir hærri fjárhæð en nam hámarki verktryggingarinnar. Þá hafi verið unnið fyrir rúmlega helming samningsverðsins, en af því sem eftir stóð hafi áfrýjandi yfirtekið samninga við undirverktaka að fjárhæð um 115.000.000 krónur. Eftirstöðvar samningsverka, sem Kraftvaki ehf. skyldi vinna, hafi numið nærri 71.500.000 krónum. Stefndi hafi litið svo á að hagkvæmt gæti verið fyrir hann að yfirtaka þennan hluta verksins í stað þess að greiða út verktrygginguna, 64.500.000 krónur, og minnka þannig tjón sitt. Það ætti eins við þótt kostnaður færi verulega fram úr áætlun. Áfrýjandi hafi einnig talið hagkvæmt fyrir verkefnið í heild að þannig yrði farið að, meðal annars vegna þess að þá þyrfti ekki að bjóða út eftirstöðvar þess á ný með töfum og kostnaði, sem því fylgdi. Það væri þannig beggja hagur að stefndi tæki beinan þátt í verkinu.

Málsaðilar gerðu samkomulag 13. desember 2002 og lýstu þar í 1. lið því markmiði sínu að tryggja framgang verkefna samkvæmt áðurnefndum samningi áfrýjanda og Kraftvaka ehf. frá september 2001. Verklok innanhúss skyldu verða fyrir 15. maí 2003 og utanhúss eigi síðar en 16. júní sama ár. Í 3. og 5. lið sagði að stefndi tæki á sig nánar tilgreindar skyldur Kraftvaka ehf., sem einkum lutu að stjórnun og rekstri vinnustaðarins, og að stefndi ráði Hönnun hf. til að sinna byggingarstjórn. Í 4. lið sagði meðal annars að haft skyldi samráð við áfrýjanda um útboð einstakra verkhluta sem og samninga við verktaka. Samkvæmt 6. lið skyldi VSÓ ráðgjöf ehf. annast eftirlit með verkinu af hálfu áfrýjanda og fara yfir og samþykkja reikninga. Í 7. lið sagði að Framkvæmdasýsla ríkisins greiddi reikninga samkvæmt 2. og 4. lið samkomulagsins, en stefndi samkvæmt 3. og 5. lið. Í 8. lið sagði: „Að verki loknu fer uppgjör þannig fram að lagður er saman kostnaður við vinnu verktaka skv. lið 2 og 4 í þessu samkomulagi og rökstuddur umframkostnaður FSR við umsjón. Frá þessari upphæð er dreginn kostnaður eins og hann hefði orðið skv. samningi FSR við Kraftvaka ehf. Ef uppgjörsupphæð er hærri en samningsupphæð mun TM greiða þennan mismun en þó aldrei hærri upphæð en sem nemur tryggingarfjárhæð skv. samningi V-01073. Ef uppgjörsupphæð er lægri en samningsupphæð greiðir FSR TM mismuninn.“

Aðilana greinir á um túlkun samningsins og þá einkum 8. lið hans, svo sem nánar greinir hér á eftir.

III

Samkvæmt því, sem áður greinir, skyldu verklok innanhúss verða sem næst fimm mánuðum eftir gerð samkomulagsins 13. desember 2002, en utanhúss átti verkum að vera lokið um mánuði síðar. Umsaminn verktími fór hins vegar mjög úr böndum og lauk verkinu ekki fyrr en í september 2004 eða nærri 21 mánuði eftir gerð samkomulagsins. Málsaðilar eru ekki á eitt sáttir um ástæður þess að svona fór eða hvor þeirra eigi að bera ábyrgð á því að kostnaður varð mun hærri en gera mátti ráð fyrir í upphafi.

Af hálfu áfrýjanda er einkum á því byggt að með samkomulaginu hafi stefndi axlað áhættu af því að kostnaður við verkið yrði meiri en hann reiknaði þá með. Forsendur áfrýjanda fyrir því að gera samninginn hafi verið þær að umsamin einingaverð í samningi við Kraftvaka ehf. frá 2001 myndu gilda áfram. Þetta hafi stefnda verið ljóst. Engu að síður hafi hann ýmist samið um önnur einingaverð eða greiðslur fyrir tímavinnu við þá verktaka, sem hann réði til að vinna einstaka hluta verksins. Á því verði hann sjálfur að bera ábyrgð. Þá hafi skýrlega verið tekið fram í 4. lið samkomulagsins 13. desember 2002 að stefndi skyldi hafa samráð við Framkvæmdasýslu ríkisins um útboð einstakra verkhluta og samninga við verktaka. Þetta hafi stefndi ekki virt og sé ábyrgð hans enn meiri af þeim sökum.

Stefndi bendir á að VSÓ ráðgjöf ehf. hafi haft eftirlit með framkvæmd verksins af hálfu áfrýjanda og fylgst nákvæmlega með öllu sem gerðist, meðal annars á tíðum verkfundum, þar sem engum athugasemdum hafi verið hreyft, hvorki við val á verktökum né ákvæði um endurgjald í samningum við þá. Kveðst stefndi hafa lagt sig fram við að skila vönduðu verki og að framkvæmdin gengi eins vel og kostur væri. Til að greiða fyrir því hafi hann gengið mun lengra en samningsskyldur hans kváðu á um. Þannig hafi hann til dæmis greitt reikninga frá verktökum samkvæmt 2. og 4. lið samkomulagsins umfram skyldu með það í huga að áfrýjandi myndi endurgreiða þann kostnað í lokin. Framkvæmd verksins hafi farið algerlega úrskeiðis af ástæðum, sem áfrýjandi beri einn ábyrgð á, en þar skipti mestu að hönnun ýmissa verkhluta hafi ekki verið tilbúin þegar á reyndi og miklar breytingar verið gerðar meðan á verkinu stóð, sem hafi tafið það mjög. Allar forsendur fyrir upphaflegum og óverðbættum samningsgreiðslum til Kraftvaka ehf. hafi því brostið og ókleift að fá verkið unnið fyrir lægri greiðslur en þær, sem inntar voru af hendi. Kostnaður hefði einnig margfaldast fyrir Kraftvaka ehf. vegna vanefnda áfrýjanda, hefði félagið unnið verkið en ekki stefndi. Áfrýjanda beri því að greiða raunkostnað við það, að undanskildum kostnaði samkvæmt 3. og 5. lið samkomulagsins, sem stefndi hafi dregið frá kröfu sinni. Þá hafi áfrýjandi í raun viðurkennt skilning stefnda á samkomulagi þeirra með tveimur fyrirvaralausum greiðslum, samtals 35.000.000 krónur, inn á heildarverð verksins eftir að hafa fengið bréf stefnda 18. mars 2004, en þá var verkinu ekki enn lokið.

Við úrlausn um það hvað felst í 8. lið samkomulagsins 13. desember 2002 reynir einkum á texta 1. og 2. málsliðar hans. Samkvæmt þeim skyldi að verki loknu lagður saman kostnaður við vinnu verktaka samkvæmt 2. og 4. lið að viðbættum svokölluðum umframkostnaði áfrýjanda við umsjón, og frá þeirri upphæð síðan dreginn „kostnaður eins og hann hefði orðið skv. samningi FSR við Kraftvaka ehf.“ Hver kostnaðurinn hefði orðið samkvæmt samningi við Kraftvaka ehf. liggur ekki fyrir, en niðurstaða um það hefði ráðist meðal annars af því hvort viðsemjandi hans væri talinn hafa vanefnt samninginn og það veitt verktakanum rétt til frekari greiðslna en samningsfjárhæðarinnar einnar. Samkvæmt því er hafnað þeirri málsástæðu áfrýjanda að upphafleg einingaverð hafi verið það eina sem stefndi átti rétt á samkvæmt nefndu samkomulagi án tillits til þess hvort um vanefndir hafi verið að ræða hjá áfrýjanda sem gátu gefið stefnda rétt til frekari greiðslna.

IV

Af hálfu stefnda er á því byggt að miklar tafir hafi orðið vegna breytinga á verkinu á verktímanum. Staðhæfing hans um síðbúnar breytingar fær stoð í drögum að svokallaðri verklokaskýrslu VSÓ ráðgjafar ehf. 22. febrúar 2005 þar sem segir meðal annars: „Ýmsar breytingar voru gerðar á verkinu meðan á framkvæmdum stóð og eru þær tíundaðar í verkfundagerðum. Aðeins nokkurra breytinga verður getið hér, því of langt mál er að telja þær allar upp.“ Síðan er þess meðal annars getið að breytingar hafi verið gerðar á gólfplötum 2. og 3. hæðar, nánast öll loftaplön verið endurskoðuð „vegna árekstra í tæknikerfum“, þaki kaffistofu og gluggum breytt, einnig hurðum innanhúss og reykhólfandi búnaði, reyklosandi búnaði bætt við, herbergjaskipan á 1. hæð breytt svo og ýmsu í nýju anddyri, svo sem hurðum, gólfefni, upphitun og uppbyggingu þaks, stálhandriðum breytt og „brúm breytt úr því að vera með gólf úr gleri í parketgólf.“ Þá er getið um mikla lagnaskurði á lóð og stokka þar vegna loftræstikerfa.

Stefndi hefur einnig byggt á því að forsenda fyrir ákvæði um stuttan verktíma í samkomulagi 13. desember 2002 hafi verið sú að hönnun alls verksins væri lokið. Þannig hafi legið fyrir svofelld bókun á verkfundi 28. nóvember 2002: „Hönnuðir hafa unnið við að afgreiða þau atriði sem óleyst eru og er vonast til að þeirri vinnu verði lokið strax í byrjun næstu viku. ... Ný teikningasett og teikningaskrár eru væntanlegar frá hönnuðum.“ Starfsmenn VSÓ ráðgjafar ehf. hafi fært þessa fundargerð til bókar eins og aðrar verkfundagerðir. Þessi forsenda hafi algerlega brugðist og í mörgum verkþáttum hafi verulega skort á að hönnun væri lokið þegar ráðast átti í verkin.

Stefndi óskaði eftir því 26. júní 2006 að dómkvaddir yrðu matsmenn til að svara spurningum, sem nánar greinir í héraðsdómi, en þær lutu einkum að útboðsgögnum, töfum á verkinu og ástæðum fyrir þeim, hönnun og skipulagningu verksins og auknum kostnaði og ástæðum fyrir honum. Verkfræðingarnir Guðbrandur Steinþórsson og Páll Ólafsson voru dómkvaddir til starfans og skiluðu þeir matsgerð 23. janúar 2007. Í henni segir meðal annars að verkfundagerðir beri með sér að hönnunargögnum var verið að breyta fram á síðasta dag og að sein afhending breyttra teikninga og annarra verkfyrirmæla hafi óhjákvæmilega valdið einhverjum töfum á sumum verkþáttum. Þá hafi biðtími eftir svörum við fyrirspurnum byggingarstjóra stefnda um hönnun og vinnu við verkið orðið misjafnlega langur eða frá 1 – 2 vikum upp í 10 – 18 vikur. Einnig hafi ófyrirséð vandkvæði komið upp við framkvæmd verksins sem tvímælalaust hafi valdið stórfelldum töfum. Stærstu einstöku þættirnir, sem það eigi við um, séu raflagnir og terrazzolögn, sem nánar er lýst í héraðsdómi. Mjög mikil aukaverk eða um 80% magnaukning hafi óhjákvæmilega krafist lengri verktíma. Hvað varðar hönnun sérstaklega telja matsmenn að í þessu verki hafi breytingar meðan unnið var við það orðið mun stórfelldari en almennt gerist og tvímælalaust hindrað að verktakinn gæti skipulagt verkið á hagkvæman hátt og það leitt til umtalsverðra tafa. Nokkrir þættir eru síðan taldir upp sem „sýnishorn af þeim atriðum sem matsmenn telja óhjákvæmilega hafa tafið verkið.“ Tafir á hönnun og breytingar frá upphaflegum hönnunargögnum telja þeir hafa seinkað terrazzolögn um 5 mánuði og að auki tafið aðra verkliði að sama skapi. Þá hafi ákvarðanir hönnuða um tiltekinn lið er laut að trésmíði legið fyrir í júlí 2003 og um nokkra aðra í lokaútgáfu í júní 2004. Hönnun á stálverki hafi verið breytt allt fram í júní 2004 og 11 vikur hafi tekið að fá leyst úr úrlausnaefnum varðandi niðurtekin loft. Hönnun ýmissa annarra verkliða tafðist einnig verulega eins og nánar greinir í matsgerð hinna dómkvöddu manna. Í niðurstöðu matsmanna segir að eðlileg framvinda hafi ekki náðst við verkið sem hafi aðallega verið vegna röskunar af sífelldum og óvæntum breytingum á því, endurskoðun á hönnun og fjölda aukaverka. Þá segir í matsgerðinni að hvergi komi fram að aðgerðir stefnda hafi valdið seinkun á verkinu.

Áfrýjandi hefur ekki leitað eftir yfirmati til að hnekkja matsgerðinni. Hún er ítarleg og engir annmarkar eru fram komnir sem geta dregið úr sönnunargildi hennar hvað framanritað varðar. Samkvæmt því verður lagt til grundvallar að þær miklu tafir á verkinu og kostnaður, sem af þeim leiddi, séu á ábyrgð áfrýjanda málsins.

V

Stefndi kveðst reisa aðalkröfu sína á því hver raunkostnaður hans hafi orðið við verkið. Telur hann þá viðmiðun réttmæta samkvæmt grunnreglu verktakaréttar um ákvörðun endurgjalds þegar ekki hafi verið samið um fast verð, enda geti upphafleg einingaverð ekki átt við að virtum vanefndum áfrýjanda. Þá sé ókleift að greina nákvæmlega hve mikið hver þáttur tafði framvindu verksins og hvaða kostnaður féll til vegna einstakra vanefnda. Af þessum sökum beri áfrýjanda að endurgreiða stefnda allan útlagðan kostnað af verkinu utan þess sem stefndi eigi að greiða samkvæmt 3. og 5. lið samkomulagsins frá 13. desember 2002. Heildarkostnað kveður hann nema 245.692.441 krónu, en frá dragist innborganir áfrýjanda, 91.089.444 krónur. Einnig dragist frá stjórnunarkostnaður, 24.440.362 krónur samkvæmt 3. og 5. lið samkomulags aðila og sé aðalkrafan, 130.162.635 krónur þannig ákveðin.

Skyldur og réttindi málsaðila markast af samkomulagi þeirra 13. desember 2002. Í III. kafla að framan var komist að þeirri niðurstöðu að stefndi átti samkvæmt 8. lið ekki einungis kröfu á greiðslum samkvæmt upphaflegum einingaverðum í verksamningi Kraftvaka ehf., heldur einnig því sem sá samningur hefði fært félaginu umfram samningsfjárhæð ef til vanefnda kæmi af hálfu áfrýjanda. Verksamningurinn hefur að geyma ákvæði um það hvernig með skuli fara vegna vanefnda hvort heldur er af hálfu verktaka eða verkkaupa. Má slá föstu að stórfelldar vanefndir, sem áfrýjandi bar ábyrgð á, hefðu veitt Kraftvaka ehf. rétt á greiðslum umfram samningsfjárhæð ef það félag hefði unnið verkið eftir 13. desember 2002 en ekki stefndi. Hverjar þær fjárhæðir hefðu nákvæmlega orðið liggur ekki fyrir og þar með ekki heldur hvort þær hefðu orðið hinar sömu eða svipaðar og stefndi krefst. Í héraðsdómi, sem skipaður var sérfróðum meðdómsmönnum, er greint frá því að matsmenn hafi metið heildarkostnað stefnda við verkið og talið hann sanngjarnan og eðlilegan miðað við umfang verksins og tafir á því. Fjárhæðum, sem stefndi dró frá heildarkostnaði, hefur ekki verið mótmælt tölulega Þá greiddi áfrýjandi athugasemdalaust í tvö skipti að kröfu stefnda samtals 35.000.000 krónur inn á heildarverkið í mars og apríl 2004, en sú gerð hans fær ekki samrýmst málsástæðum sem hann byggir á í málinu. Að því virtu, sem að framan er rakið, og stórfelldum vanefndum áfrýjanda, verður hann að bera sönnunarbyrði fyrir því að krafa stefnda sé hærri en sú sem Kraftvaki ehf. hefði öðlast vegna sömu vanefnda áfrýjanda gagnvart honum ef á hefði reynt. Sú sönnun hefur ekki tekist. Þá er ekki hald í þeirri viðbáru áfrýjanda að stefndi hafi ekki virt skyldu sína til að hafa samráð um ákvarðanir samkvæmt 4. lið samkomulagsins. Í því fólst ekki að leitað skyldi samþykkis áfrýjanda við ákvörðunum stefnda, auk þess sem sá fyrrnefndi hélt uppi daglegu eftirliti á staðnum og framgangur verksins og staða þess var rædd á tíðum verkfundum án þess að fulltrúi áfrýjanda gerði athugasemdir við þessi atriði. Að virtu öllu því, sem að framan greinir, en að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms, verður niðurstaða hans staðfest.

Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og nánar segir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, íslenska ríkið, greiði stefnda, Tryggingamiðstöðinni hf., 800.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 2. október 2007.

I

Mál þetta, sem dómtekið var 10. september 2007, var höfðað 14. desember 2005.  Stefnandi er Tryggingamiðstöðin hf., Aðalstræti 6-8, Reykjavík, en stefndi er íslenska ríkið.  Réttargæslustefnandi er íslenska ríkið og réttargæslustefndu eru eftirtaldir: Hornsteinar arkitektar ehf., Ingólfsstræti 5, Reykjavík, Línuhönnun hf., Suðurlands­braut 4a, Reykjavík, Verkfræðistofa Guðmundar og Kristjáns hf., Laugavegi 178, Reykjavík, Rafhönnun hf., Ármúla 42, Reykjavík, VSÓ Ráðgjöf ehf., Borgartúni 20, Reykjavík og Hönnun hf., Grensásvegi 1, Reykjavík.

Dómkröfur stefnanda eru þær aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 130.033.753 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 9., sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. nóvember 2004 til greiðsludags.   Til vara er þess krafist að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 65.533.753 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 9., sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verð­tryggingu frá 1. nóvember 2004 til greiðsludags.  Þá krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til að greiða honum málskostnað.

Dómkröfur stefnda eru þær aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda en til vara að krafa stefnanda verði lækkuð verulega og að dráttarvextir verði dæmdir frá dómsuppsögudegi.  Í báðum tilvikum er þess krafist að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað.

Engar kröfur eru gerðar á hendur réttargæslustefndu en réttargæslustefndu, Horn­steinar arkitektar ehf., Verkfræðistofa Guðmundar og Kristjáns hf., VSÓ Ráðgjöf ehf. og Rafhönnun hf. gera þær kröfur að réttargæslustefnandi verði dæmdur til að greiða þeim málskostnað.

II

Mál þetta varðar uppgjör á verkkostnaði við endurbætur á húsnæði Þjóðminjasafnsins við Hringbraut, Reykjavík.  Framkvæmdasýsla ríkisins bauð verkið út í júní 2001 fyrir hönd stefnda, íslenska ríkisins og stefnandi, Tryggingamiðstöðin hf., gaf út verkábyrgð fyrir verktakann, Kraftvaka ehf., sem hlaut verkið sem kallaðist: Þjóðminjasafn Íslands, endurbætur og stækkun, annar áfangi. 

Samkvæmt upphaflegum verksamningi og útboðsgögnum átti að skila verkinu hinn 1. október 2002.  Þegar líða tók á verktíma fór að halla undan fæti hjá Kraftvaka ehf. og með samkomulagi Kraftvaka ehf. og Framkvæmdasýslu ríkisins 1. desember 2002 sagði Kraftvaki ehf. sig frá verkinu frá og með 23. október 2002.  Var bú Kraftvaka ehf. tekið til gjaldþrotaskipta 9. janúar 2003.

Í fyrrgreindu samkomulagi aðila frá 1. desember 2002 segir í 5. grein að Kraftvaki framselji gildandi verktryggingar undirverktaka til stefnanda sem ábyrgist verkið í heild gagnvart verkaupa samkvæmt nánara samkomulagi.  Þá segir að uppgjör á tjóni verkkaupa vegna samningsrofs við Kraftvaka fari fram milli verkkaupa og stefnanda. Undirritaði stefnandi þetta samkomulag.

Stefnandi kveður að þegar Kraftvaki ehf. hafi sagt sig frá verkinu hafi verið ljóst að greiðsluskylda gæti vaknað hjá stefnanda vegna verktryggingarinnar sem hafi verið að hámarki 64.500.000 krónur.  Þegar Kraftvaki ehf. hafi sagt sig frá verkinu hafi greiðslustaða verið þannig að heildarsamningsverk hafi numið 433.000.000 krónum.  Þegar hafi verið unnið fyrir 246.500.000 krónur og hafi eftirstöðvarnar því numið 186.500.000 krónum.  Hafi stefndi, með samningum við undirverktaka Kraftvaka ehf., yfirtekið undirverktakasamninga að fjárhæð 115.000.000 þannig að eftirstöðvar samningsverka hafi numið um það bil 71.500.000 krónum að teknu tilliti til magnbreytinga.

Að mati stefnanda hafi því allt bent til að verulega hagkvæmt gæti verið fyrir stefnanda að yfirtaka þennan hluta verksins í stað þess að greiða út verktryggingu.  Þannig hafi kostnaður mátt fara meira en 80% fram úr áætlun án þess að stefnandi þyrfti að leggja út jafnháa fjárhæð og numið hafi verktryggingunni.  Þá hafi Fram­kvæmdasýsla ríkisins talið verulega hagkvæmt fyrir verkefnið í heild að svona yrði farið að, því þá þyrfti ekki að bjóða eftirstöðvar verksins út aftur.  Því hafi það verið álitið beggja hagur að stefnandi kæmi beint að verkinu.

Í kjölfar afsagnar Kraftvaka ehf. gerðu stefnandi og Framkvæmdasýsla ríkisins með sér samkomulag sem þeir undirrituðu hinn 13. desember 2002.  Í 1. gr. samkomu­lagsins kemur fram að markmið þess sé að tryggja framgang á þeim verkefnum sem skilgreind séu í verksamningi Framkvæmdasýslu ríkisins og Kraftvaka ehf. og að verklokum hafi verið breytt þannig að allri vinnu innan dyra skuli lokið fyrir 15. maí 2003 og vinnu að utan eigi síðar en 16. júní 2003.

Í 2. gr. samkomulagsins segir að Framkvæmdasýsla ríkisins fái framselda undir­verktaka samninga Kraftvaka ehf. samkvæmt samkomulagi þar um dagsettu 1. desember 2002.  Í 3. gr. samkomulags segir að stefnandi taki að sér skyldur Kraftvaka varðandi stjórnun og samræmingu og að stefnandi ráði réttargæslustefnda, Hönnun hf., til að sinna bygginga­stjórn.

Í 4. gr. samkomulagsins segir að réttargæslustefndi, Hönnun hf., muni gera tillögur að verktökum til að ljúka þeim verkþáttum sem ekki séu innifaldir í samningum undirverktaka samkvæmt 2. gr. og ekki verði boðnir út að nýju og að hafa skuli samráð við Framkvæmdasýslu ríkisins um útboð einstakra hluta sem og samninga við verktaka.  Í 5. gr. segir að stefnandi muni sjá um verkliðinn rekstur vinnustaðar samkvæmt útboðsgögnum nr. 1.1.3 þar með talið hefðbundna aðstöðu fyrir verktaka samkvæmt 2. og 4. gr. sam­komu­lagsins.  Þá muni stefnandi sjá um greiðslu orkureikninga og annað sem tilgreint sé í lið 1.1.3 nema um annað verði samið.

Í 6. gr. segir að eftirlit af hálfu Framkvæmdasýslu ríkisins sé í höndum réttargæslustefnda, VSÓ Ráðgjafar ehf., og fari eftirlitið yfir og samþykki reikninga.  Í 7. gr. segir að Framkvæmdasýsla ríkisins greiði reikninga samkvæmt 2. og 4. gr. samkomulagsins en stefnandi greiði kostnað vegna 3. og 5. gr. samkomulagsins.  Þá segir að engin aukaverk megi vinna nema með skriflegu samþykki Framkvæmdasýslu ríkisins.

Í 8. gr. samkomulagsins er fjallað um uppgjör og skyldi það fara þannig fram að lagður sé saman kostnaður við vinnu verktaka samkvæmt 2. og 4. gr. og rökstuddur umframkostnaður Framkvæmdasýslu ríkisins við umsjón.  Frá þeirri fjárhæð skuli draga kostnað eins og hann hefði orðið samkvæmt samningi Framkvæmdasýslu ríkisins við Kraftvaka ehf.  Ef sú fjárhæð yrði hærri en samningsupphæð myndi stefnandi greiða mismuninn, þó aldrei hærri upphæð en nemi tryggingarfjárhæð, sem var 64.500.000 krónur.  Ef uppgjörsfjárhæðin yrði lægri en samningsupphæð myndi Framkvæmdasýsla ríkisins greiða mismuninn.  Samkvæmt 9. gr. skyldu aukaverk greidd sérstaklega af Framkvæmdasýslu ríkisins.

Samkvæmt því sem nú hefur verið rakið yfirtók stefnandi stöðu byggingarstjóra en Framkvæmdasýsla ríkisins yfirtók helstu samninga Kraftvaka við undirverktaka.  Fyrirsvarsmaður Kraftvaka ehf., Unnsteinn Eggertsson hélt áfram við verkið sem undirverktaki og tók fyrirtæki hans Kvarði yfir rafverktöku af Kraftvaka ehf.  Í febrúar 2003 yfirtók skiptastjóri Kraftvaka ehf. rekstur Kvarða en hætti því í mars 2003 og þá tók stefnandi við rafverktöku og réði Afltak ehf. til verksins.

Verkið tafðist verulega og ber aðilum ekki allskostar saman um af hvaða ástæðum það var en verklok urðu ekki fyrr en í september 2004 og fór magntöluuppgjör fram í desember 2004.

Stefnandi kveðst fljótlega eftir að framangreint samkomulag var undirritað milli aðila hafa farið að greiða reikninga frá verktökum samkvæmt 2. og 4. gr. samkomulagsins þrátt fyrir að stefndi ætti að greiða þá.  Hafi stefnandi gert þetta í þeirri trú að uppgjör færi síðar fram á grundvelli samningsins en stefnandi taldi þetta fyrirkomulag vera mjög til einföldunar og tryggði öruggari framgang verksins, stefnda til hagsbóta.

Stefnandi kveður stefnda hafa greitt inn á verkkostnaðinn eftir því sem hann féll til og samkvæmt samskiptum aðila hafi skilningur virst vera sá að stefndi skyldi greiða allt sem til félli að frádregnu því hámarki sem stefnandi skyldi bera, 64.500.000 krónur.

Í kjölfar tölvupósts, sem stefnandi sendi fyrirsvarsmanni Framkvæmdasýslu ríkisins 18. mars 2004, þar sem varað var við því að framkvæmdir yrðu stöðvaðar ef greiðslur bærust ekki frá stefnda, greiddi stefndi 20.000.000 króna í mars 2004 og 15.000.000 króna í apríl 2004.

Stefnandi kveður heildarkostnað sinn af verkinu nema 245.692.441 krónu og krefst þess að stefndi endurgreiði þá fjárhæð að frádregnum þeim kostnaði sem stefnandi sannanlega hafi tekið á sig með samningi aðila þann 13. desember 2002 og að teknu tilliti til þess sem stefndi hafi nú þegar greitt.  Sendi stefnandi stefnda kröfubréf 15. mars 2005.   Af hálfu stefnda var því bréfi svarað 29. mars 2005 og óskaði hann eftir fresti til að fara yfir kröfur stefnanda og lýsti því yfir að engin afstæða væri að svo stöddu tekin til krafna stefnanda og allur fyrirvari hafður uppi um réttmæti þeirra.  Lögmaður stefnanda sendi stefnda annað kröfubréf hinn 28. september 2005 og gaf stefnda frest til 15. október 2005 til að sinna erindinu.  Að öðrum kosti yrði málinu stefnt fyrir dómstóla.  Með bréfi 12. október 2005 var þess óskað af hálfu stefnda að beðið yrði með aðgerðir um sinn.   Með bréfi Framkvæmdasýslu ríkisins 12. desember 2005 til lögmanns stefnanda var kröfum stefnanda hafnað

Stefndi heldur því fram að stefnandi hafi ekki sinnt þeirri skyldu sinni samkvæmt samkomulagi aðila að hafa samráð við Framkvæmdasýslu ríkisins  um útboð einstakra hluta verksins sem og samningsgerð við undirverktaka.  Þess í stað hafi verið gerðir samningar við undirverktaka án nokkurrar aðkomu eða samráðs við Framkvæmda­sýslu ríkisins og hafi í þeim samningum verið samið um hærri einingarverð en gert hafi verið ráð fyrir í upphaflegum samningi við Kraftvaka ehf.  Hafi það verið forsenda samkomulags aðila að þau einingarverð myndu gilda áfram.  Þá hafi stefnandi eða réttargæslustefndi, Hönnun hf., fyrir hönd stefnanda samið um aukaverk án samþykkis eða vitundar Framkvæmdasýslu ríkisins.  Hins vegar muni öll aukaverk hafa verið gerð upp og virðist ágreiningur aðeins vera um viðbótarkostnað vegna annarra verka.

Stefndi kveður Framkvæmdasýslu ríkisins hafa gert stefnanda grein fyrir athuga­semdum sínum við framsettar kröfur strax á árinu 2004 þegar stefnandi hafi farið fram á það við Framkvæmdasýslu ríkisins að viðbótargreiðslur yrðu inntar af hendi án þess að gerð væri grein fyrir verkstöðu eða sundurgreindu uppgjöri.  Hafi Framkvæmda­sýsla ríkisins hafnað greiðsluskyldu á þeim atriðum sem ekki falli undir greiðslu­skyldu hennar samkvæmt samkomulaginu sem gert hafi verið 13. desember 2002.  Hafi þess allan tímann verið krafist af hálfu Framkvæmdasýslu ríkisins að krafa stefnanda væri rökstudd og sundurliðuð en stefnandi hafi ekki orðið við því.  Þrátt fyrir að kröfugerð stefnanda sé með öllu ósundurgreind sé ljóst að stærsti hluti krafnanna sé vegna þess að stefnandi hafi samið við undirverktaka og greitt þeim mun hærra einingarverð en upphaflegir samningar hafi gert ráð fyrir og hafi þessir samningar verið gerðir án samráðs og samþykkis Framkvæmdasýslu ríkisins.

Stefndi telur að þar sem efnisleg úrlausn máls þessa kunni að skipta máli fyrir marga aðila sem komið hafi að endurbótum Þjóðminjasafnsins, hefur stefndi stefnt til réttargæslu þeim sem komu að arkitektavinnu vegna framkvæmdanna, Hornsteinum arkitektum ehf., Línuhönnun hf., Verkfræðistofu Guðmundar og Kristjáns hf. og Rafhönnun hf.  Þá hefur stefndi stefnt til réttargæslu VSÓ Ráðgjöf ehf. sem sá um eftirlit með framkvæmd verksins fyrir hönd Framkvæmdasýslu ríkisins og Hönnun hf. sem sá um byggingarstjórn í umboði stefnanda.

Undir rekstri málsins óskaði stefnandi eftir dómkvaðningu matsmanna.  Óskaði hann eftir mati á útboði, útboðsgögnum, umfangi verks, aukaverkum og kostnaði vegna vinnu við viðgerðir og endurbætur.  Hinn 26. júní 2006 voru verkfræðingarnir Guðbrandur Steinþórsson og Páll Ólafsson dómkvaddir til verksins og er matsgerð þeirra dagsett 23. janúar 2007.

III

Stefnandi kveður kröfu sína vera tvíþætta en í báðum tilvikum byggja á samningi aðila frá 13. desember 2002, vanefndum á honum og bótaskyldu samkvæmt almennum reglum verktakaréttar.  Stefnandi geri aðallega þá kröfu að honum verði endur­greiddur allur kostnaður hans af verkinu, að frádregnum þeim kostnaði sem hann sannanlega eigi að bera samkvæmt samningi aðila frá 13. desember 2002.

Til vara krefjist stefnandi þess að heildarkostnaður hans af verkinu verði aðeins sú hámarksfjárhæð sem samið hafi verið um í 8. gr. samnings aðila frá 13. desember 2002, samtals að fjárhæð 64.500.000 krónur að viðbættum þeim kostnaði sem stefnandi sannanlega eigi að bera samkvæmt samningnum.

Í samningi aðila frá 13. desember 2002 sé tekið á skyldum hvors aðila við framkvæmd verksins og fjallað um uppgjör á milli þeirra við verklok.  Skyldi stefnandi greiða kostnað sem félli undir 3. og 5. gr. samningsins, en stefndi samkvæmt 2. og 4. gr. samningsins.  Stefnandi hafi þó fljótlega hafið að greiða kostnað vegna 4. gr. samningsins en uppgjör skyldi svo fara fram milli aðila samkvæmt 8. gr. samningsins.

Stefnandi kveðst byggja aðalkröfu sína á uppgjörsreglu 8. gr. samnings aðila. Í samkomulagi aðila sé markmiðinu lýst í 1. gr. með þeim hætti að verið sé að tryggja framgang verkefnisins og tekið fram að verklokum hafi verið breytt þannig að ljúka eigi frágangi að innan í maí 2003 en utanhúsvinnu eigi síðar en 16. júní 2003 eða sex mánuðum eftir undirritun samningsins.

Hafi þessar grundvallarforsendur verið alrangar og hafi fulltrúum stefnda mátt vera það ljóst enda hafi ýmsir þættir í hönnun verksins alls ekki verið tilbúnir og ekkert útlit fyrir að þeim gæti lokið innan tilsetts tíma.  Ekki sé deilt um að ástæður hinna miklu tafa í verkinu hafi verið þær að hönnun verksins hafi ekki legið fyrir að fullu þegar til átti að taka. Vegna þess hafi einstakir verkþættir tafist, afköst minnkað verulega og verkið orðið óhagkvæmara á allan hátt.  Sjá megi í fyrstu fundargerð, sem bókuð sé eftir að stefnandi kom að verkinu 18. desember 2002, að hönnuðir eigi eftir að taka afstöðu til fjölmargra atriða og að bráðnauðsynlegt sé að fá svör við öllum þeim atriðum sem komi fram á tilgreindum lista.  Í umsögn réttargæslustefnda, VSÓ Ráðgjafar ehf., 6. maí 2005 sé bæði staðfest að réttur hafi stofnast til aukagreiðslna vegna reksturs vinnustaðar í að minnsta kosti 14 ½ mánuð umfram það sem samið hafi verið um og að óumdeilt sé að á verktímanum hafi verið gerðar töluverðar breytingar á teikningum og verklýsingum. 

Um svo gríðarlega miklar tafir sé að ræða hlutfallslega að afkastarýrnun iðnaðar- og verkamanna sé óhjákvæmileg og kostnaður í engu samræmi við forsendur í tilboði einingaverða.  Samkvæmt yfirliti og greinargerð byggingarstjóra sem starfaði á vegum stefnanda á verkstað hafi þau atriði numið tugum þar sem fresta hafi þurft verkþáttum vegna þess að endanleg hönnun hafi ekki legið fyrir eða ákvarðanir dregist um einstök útfærsluatriði. Sérstaklega sé bent á verkáætlun sem legið hafi fyrir við gerð upp­haflegs samkomulags aðila og samsvarandi uppstillingu á því sem raunverulega varð.  Sé það augljóst að kostnaður hafi allur aukist við þennan drátt vegna þess að erfitt hafi verið að skipuleggja vinnu þar sem aldrei hafi séð fyrir endann á þeim verkefnum sem vinna þurfti.

Þá telur stefnandi það hafa þýðingu hér að verkgjaldið hafi verið óverðbætt samkvæmt ákvæðum útboðslýsingar.  Samkvæmt upphaflegum útboðsgögnum hafi verkinu átt að ljúka að fullu hinn 1. október árið 2002 en verklok í raun orðið tæpum tveimur árum síðar eða í september 2004.  Magntöluuppgjöri hafi verið lokið í desember 2004.  Á þessum tíma hafi vísitala byggingarkostnaðar hækkað úr 277,4 stigum í 302,1 stig og launavísitala úr 4.958 stigum í 5.498 stig.  Almennar kostnaðarhækkanir séu því á bilinu 8-10% á tímabilinu eftir að verkinu átti að ljúka og þar til því lauk í raun.

Þá hafi þáttur stefnanda í rekstri vinnustaðar og stjórnun verksins á staðnum orðið mun umfangsmeiri vegna dráttarins á verkinu. Sá kostnaðarliður hefði einnig margfaldast hjá Kraftvaka ehf.  Þá hafi þurft að greiða orkureikninga og sjá vinnu­staðnum fyrir ýmsum aðföngum í margfalt lengri tíma en samið hafi verið um.  Allt þetta hafi leitt til stórfelldrar kostnaðaraukningar.  Eins og gögn málsins beri með sér hafi liðurinn, rekstur vinnustaðar, kostað stefnanda 18,6 milljónir króna en stefndi hafi greitt 4 milljónir upp í þann lið.  Hér hafi því augljóslega stofnast réttur til að fá bætur í formi viðbótargreiðslna sem nemi útlögðum kostnaði.

Aðrir þættir hafi einnig farið verulega úr skorðum.  Eins og fram komi í gögnum málsins séu það einkum liðirnir, rafmagn, múrverk, flísalögn innanhúss, trésmíði innanhúss og trésmíði utanhúss.  Margir þessara liða verki saman og þurfi hver að bíða eftir öðrum þegar vinna stöðvist.

Vísað sé til greinargerðar byggingarstjóra, Sigurðar Einarssonar, varðaðandi tafir og vannýttan mannafla þar sem tíundaðir séu nákvæmlega þeir liðir sem töfðust, ástæður þeirra tafa og áhrif þessa alls á heildarframgang verksins.  Þá sé vísað til þess að stefndi hafi sýnt skilning sinn á samkomulagi aðila í verki með því að greiða inn á kostnað sem stefnandi hafði lagt út fyrir með tveimur greiðslum í mars og apríl 2004, samtals að fjárhæð 35.000.000 króna.  Með  því hafi stefndi viðurkennt ábyrgð sína á viðbótarkostnaðinum enda hafi honum, í ljósi samskipta við fulltrúa stefnanda, verið alveg ljóst hvernig stefnandi liti á málin og hafi greiðslan verið innt af hendi í framhaldi af skriflegri áréttingu þar að lútandi.  Málsástæða þessi eigi enn fremur við um varakröfuna í málinu.

Þegar afköst hafi rýrnað við að vinna verkefnið, með þeim truflunum og í þeim hægagangi sem um ræði, sé nánast útilokað að meta slíkar tafir til fjárhæða nákvæmlega.  Hvernig einstakar tafir hafi áhrif á verkið sé erfitt að greina og þegar um svo mörg atriði sé að ræða sem raun beri vitni standist engar forsendur fyrir skipulagningu þess og verðlagningu.  Verksamningur kveði skýrt á um að það sé skylda verkkaupa, stefnda, að standa að hönnun verksins og skila gögnum í tíma svo hægt sé að halda afköstum.  Þessi samningsskylda hafi verið brotin og sé það óumdeilt.  Undirbúningur framkvæmdarinnar virðist hafa verið í molum og á því beri sá ábyrgð sem verkið kaupi.  Eina spurningin sé hvernig meta eigi réttar bætur eða hækkun á endurgjaldi til Kraftvaka ehf. vegna þess að stefndi hafi ekki staðið við sínar skyldur.

Nánast sé ómögulegt að greina það nákvæmlega hvað hver þáttur hafi tafið verk­framvinduna.  Að mati stefnanda hefði verktaki aldrei verið bundinn við upphafleg einingaverð í ljósi hinnar miklu truflunar sem orðið hafi á verkinu af ástæðum sem ekki hafi verið á hans valdi.  Verði þá ekki séð annað og betra viðmið til mats á verkkostnaði en að skoða þann raunkostnað sem til hafi fallið við að ljúka verkinu. Þá standi það stefnda nær að sýna fram á að sá heildarkostnaður sem liggi ótvíræður fyrir sé óraunhæfur eða á einhvern hátt ósanngjarn sem viðmiðun endurgjalds til verktakans, sbr. grunnreglu verktakaréttar um ákvörðun endurgjalds þegar ekki hafi verið um fast verð samið. 

Kveðst stefnandi byggja á því að kostnaður stefnda af samningi við Kraftvaka ehf. hefði numið heildarfjárhæð eftirstöðva verksins frá því stefnandi gerði samning sinn við stefnda. Því beri stefnda að endurgreiða stefnanda allan útlagðan kostnað stefnanda af verkinu, utan þess kostnaðar sem stefnandi sannanlega hafði samið um að greiða samkvæmt 3. og 5. gr. samningsins.

Hefði stefndi þurft að greiða Kraftvaka ehf. heildarkostnað verksins, samtals 245.692.441 krónu. Draga beri frá innborganir stefnda, samtals að fjárhæð 91.089.444 krónur og endurgreiða stefnanda mismuninn 154.602.997 krónur, en að frádregnum stjórnunarkostnaði stefnanda sem hann hafi tekið að sér að greiða miðað við forsendur samkomulags aðila.

Við mat á stjórnunarkostnaði sé farin sú leið að finna útlagðan heildarkostnað við stjórnun verksins. Sú upphæð hafi numið 43.759.867 krónum.  Megi reikna með því að innifalinn í einingarverðum hafi verið ákveðinn stjórnunarkostnaður sem meta megi sem um það bil 10% af einingafjárhæð, eða 24.440.362  krónur, og sé því rétt að draga hana frá heildarkröfunni.  Til skýringar sé rétt að geta þess að stefnandi krefjist með því 19.319.505 króna (43.759.867-24.440.362) sem greiðslu fyrir stjórnun inni í heildarkröfu sinni.  Það sé mjög lág upphæð miðað við rauntölur og þann drátt sem á verkinu hafi orðið.

Krafa stefnanda sundurliðist svo:

  

Heildarkostnaður

kr. 245.692.441

Innborganir skv. magntölum

kr. ÷ 91.089.444

Stjórnun innifalin í einingaverðum

kr. ÷ 24.440.362

                                                                            Samtals:

kr. 130.162.635

 

Þá sé einnig byggt á því að stefnandi hafi ekki verið verktaki að verkinu.  Aðkoma stefnanda hafi eingöngu grundvallast á samningi aðila frá 13. desember 2002.  Það séu engin rök fyrir því að stefnandi beri það fjárhagslega tjón sem hafi orðið vegna tafa og kostnaðarauka við verkið.  Stefnandi hafi ekki tekið yfir skuldbindingar Kraftvaka ehf. og beri því ekki skyldur sem verktaki.  Engin allsherjar fjárhagsleg ábyrgð á verkinu hvíli á stefnanda og slík ábyrgð verði ekki lögð á stefnanda með stoð í samningi hans við stefnda.

Stefnandi kveðst krefjast dráttarvaxta af kröfu sinni frá því verkinu lauk, í september 2004, enda hafi stefnandi þá greitt alla framangreinda fjárhæð.  Við þær aðstæður hafi vaknað greiðsluskylda stefnda, sbr. 4., 7. og 8. gr. samnings aðila.  Til að sanngirni sé gætt sé dráttarvaxta krafist frá 1. nóvember 2004, enda gjalddagi allra reikninga fyrir verkið þá sannanlega liðinn.  Dráttarvaxtakrafa stefnanda byggist á 1. mgr. 5. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, enda hafi stefnda borið að endurgreiða stefnanda þá reikninga sem stefnandi greiddi, eigi síðar en á gjalddaga þeirra.

Stefnandi kveður varakröfu sína einnig byggjast á samningi aðila. Samkvæmt samningnum beri stefnanda að greiða kostnað sem falli undir 3. og 5. gr. samningsins. Að auki beri stefnanda að greiða mismun á uppgjörsupphæð og þeim kostnaði sem stefndi hefði þurft að greiða Kraftvaka ehf. (samningsupphæð) samkvæmt 8. gr. samningsins, en þó aldrei hærri fjárhæð en sem nemi tryggingafjárhæð verksamnings­ins, 64.500.000 krónur.

Eins og áður hafi komið fram sé kostnaður stefnanda af 3. og 5. gr. samningsins metinn á 24.569.244 krónur.  Ef gert sé ráð fyrir að stefndi komist upp með að standa við verksamninginn sem hann gerði við Kraftvaka ehf., þrátt fyrir brot sín á honum, sé ljóst að mismunur á uppgjörsupphæð og samningsupphæð sé meiri en sem nemi tryggingafjárhæðinni.  Stefnandi þurfi því að greiða hámarksgreiðslu samkvæmt 8. gr. samningsins eða 64.500.000 krónur.

Stefnandi hafi lagt út 245.692.441 krónu vegna verksins, en stefndi endurgreitt 91.089.444 krónur.  Eftir standi 154.602.997 krónur.  Af því beri stefnandi sjálfur 64.500.000 krónur (hámarksupphæð samkvæmt 8. gr. samnings aðila) og 24.569.244 krónur (kostnaður samkvæmt 3. og 5. gr. samningsins).  Stefnandi krefjist þess að fá greiddan mismuninn, 65.533.753 krónur.  Stefnandi krefjist dráttarvaxta af þeirri fjárhæð frá 1. nóvember 2004 með sömu rökum og greini í aðalkröfu.

Málskostnaðarkrafa stefnanda eigi sér stoð í 1. mgr. 129. gr.  og 1. og 3. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.  Um varnarþing vísist til 3. mgr. 33. gr. sömu laga.

IV

Stefndi kveður aðalkröfu sína um sýknu byggjast á því að ekki hafi verið sýnt fram á greiðsluskyldu stefnda á aðalkröfu, hvorki á grundvelli brostinna forsendna í samningi né þeim grundvelli að skaðabótaskylda að verktakarétti hafi stofnast, sem stefndi beri ábyrgð á.  Kveðst stefndi gera alvarlegar athugasemdir við framsetningu á kröfum stefnanda í málinu og hafna öllum málsástæðum stefnanda.

Stefndi kveður framsetningu kröfugerðar stefnanda vera í andstöðu við 80. gr. laga nr. 91/1991.  Sé því alfarið hafnað af hálfu stefnda að vegna erfiðleika við að meta fjárhæð meints kostnaðar stefnanda við rekstur verksins geti stefnandi gert kröfu um svokallaðan raunkostnað sinn og að stefnda beri að hnekkja honum telji stefndi hann úr hófi.  Hérna sé stefnandi að snúa sönnunarbyrðinni við enda virðist byggt á þeirri reglu að greiða skuli uppsett verð þegar ekki hafi verið samið fyrir fram.  Þar sem aðilar hafi samið um verkið fyrir fram og hvaða verð skyldi greitt þá geti stefnandi ekki byggt kröfugerð á meintum raunkostnaði eða á uppsettu verði.

Sé því sérstaklega hafnað sem byggt sé á í stefnu að stefndi hafi viðurkennt í verki skilning stefnanda á greiðsluskyldu á viðbótarkostnaði með greiðslum í mars og apríl 2004.  Eftirlitsaðili með verkinu, réttargæslustefndi VSÓ Ráðgjöf ehf., hafi gert fyrirvara við greiðslukröfur sem stefnandi hafi sett fram í mars sama ár og gert þá kröfu að verkstöðuyfirlit yrði lagt fram með reikningunum en við þeirri kröfu hafi ekki verið orðið af hálfu stefnanda.  Engu að síður hafi tvær greiðslur, að fjárhæð samtals 35 milljónir króna, verið inntar af hendi af hálfu Framkvæmdasýslu ríkisins eftir tölvupóst stefnanda þann 18. mars 2004 þar sem fram hafi komið sú óbeina hótun stefnanda að verkið yrði stöðvað ef ekki kæmi innágreiðsla.  Hafi greiðslan verið innt af hendi án viðurkenningar á kröfugerð stefnanda, sem hafi verið með öllu ósundurgreind og órökstudd og hafi hún eingöngu verið innt af hendi til að koma í veg fyrir að stefnandi stoppaði verkið og myndi með þeim hætti fresta verklokum enn frekar en orðið var.  Verði ekki dreginn víðtækari skilningur af greiðslunum en sá að stefndi hafi ekki viljað að verkið stöðvaðist á nýjan leik.  Engin viðurkenning felist í þeirri greiðslu.

Þeirri aðferðarfræði sem stefnandi byggi á við sönnunarmat, þ.e. um öfuga sönnunar­byrði vegna kröfu um viðbótargjald þegar samið hafi verið um fast verð, beri að hafna á grundvelli almennra sönnunarreglna við meðferð einkamála.  Það sé almenn regla í málum um uppgjör á verkkostnaði, að sá er vilji fá greitt umfram samning, líkt og stefnandi, verði að sanna réttmæti slíkrar viðbótar­kröfugerðar sem og umfang hennar.  Stefnanda hafi ekki tekist slík sönnun í þessu máli og engin haldbær gögn hafi verið lögð fram um slíkt.

Telji stefnandi sig hafa orðið fyrir tjóni eða auknum kostnaði á grundvelli brostinna samningsforsendna eða sakar samkvæmt skaðbótareglum verktakaréttarins, sem stefndi beri ábyrgð á, beri stefnanda að sýna fram á orsök þess tjóns eða kostnaðar og gera nákvæma útlistun á því í hverju tjónið eða kostnaðurinn liggi.  Í því liggi skylda um skýra og rökstudda kröfugerð og glöggan málatilbúnað.  Stefnandi hafi í stefnu brotið freklega gegn 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og sé engin tilraun gerð til þess að útskýra kröfugerðina að þessu leyti.

Kveðst stefndi styðja sýknukröfu sína við þá meginreglu verktakaréttarins að greiða skuli umsamið verð nema sannað sé að viðbótarkröfur eigi rétt á sér.  Þar sem sönnun á viðbótarkröfum hafi ekki tekist leiði það til þeirrar niðurstöðu að sýkna beri stefnda af kröfum stefnanda.  Í málum sem snúi að uppgjöri á verkkostnaði þekkist ekki að sönnunarbyrði sé snúið við, þannig að verkkaupi, stefndi í þessu máli, sem krafinn sé um viðbótargreiðslur, eigi að sýna fram á að framlagðar kostnaðartölur séu rangar eða ósanngjarnar.  Stefnandi sé hér í stöðu verktaka sem krefjist greiðslu meints kostnaðar umfram greiðslur samkvæmt samningi.  Beri stefnanda að sýna fram á að orsaka­samhengi sé að baki kröfum hans og því beri stefnanda að sanna meintan viðbótar­kostnað sinn með venjubundnum hætti.  Sé því þannig alfarið hafnað að stefndi beri að afsanna forsendur að baki kröfugerð stefnanda.  Þar sem slík sönnun stefnanda hafi ekki tekist beri að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda.

Stefndi kveður að stefnandi taki það sérstaklega fram í stefnu, og byggi á því við framsetningu kröfugerðar, að erfitt sé að greina það nákvæmlega hvað hver þáttur dró verk­framkvæmdina á langinn. Virðist sem það sé rökstuðningur fyrir kröfum stefnanda að þessir erfiðleikar eigi að vera þess valdandi að stefnda beri að greiða allan kostnað stefnanda af verkinu án þess að tekið sé tillit til þeirra vanefnda sem stefnandi, og réttargæslustefndi Hönnun hf., hafi orðið uppvís að.  Hafi þeir vanefnt samninginn með því að hafa ekkert samráð um gerð samninga við undirverktaka eða að fá aukaverk samþykkt sérstaklega eins og skylda hafi borið til.  Telji stefndi að slík kröfugerð og uppbygging málsástæðna samrýmist ekki ákvæðum 80. gr. laga nr. 91/1991 um skýran málatilbúnað auk þess sem kröfugerðin gangi ekki upp röklega.

Virðist krafa stefnanda reist á þeirri forsendu að allar tafir við verkið verði raktar til atvika sem stefndi, sem verkkaupi, beri ábyrgð á. Þessu sé alfarið hafnað enda hafi þetta ekki verið sannað af hálfu stefnanda.  Því sé sérstaklega hafnað að greinargerð sem unnin sé af byggingastjóra, réttargæslustefnda Hönnun hf., geti haft nokkuð sönnunargildi í málinu sökum augljósra hagsmunatengsla þess aðila við stefnanda. Því verði að líta alfarið fram hjá skýrslunni við sönnunarmat í málinu.

Með vísan til meginreglna um sönnunarfærslu verði stefnandi að bera allan halla af því að geta ekki sannað og rökstutt kröfugerð sína.  Stefnandi hafi ekki á neinn hátt sérgreint eða rökstutt þann dagafjölda sem verkið eigi að hafa tafist um vegna ástæðna sem varði stefnda sem verkkaupa.  Þess í stað séu hafðar uppi kröfur um allan meintan kostnað stefnanda af verkinu á ákveðnu tímabili, ósundurgreint.  Megi rekja stærstan hluta þess tíma sem verkið hafi tafist til tafa sem varði stefnanda og hans undir­verktaka sem samið hafi verið við án aðkomu Framkvæmdasýslu ríkisins.  Þá verði tafir á verkinu einnig raktar til þess að efni frá stefnanda og undirverktökum hans hafi ekki borist á réttum tíma, sbr. gler í glugga kaffistofu og í anddyri, efni í glervegg í safnbúð o.fl. Þetta liggi allt fyrir og komi fram í verkfundargerðum en ekki virðist hafa verið tekið tillit til þess í stefnu.  Þá bendir stefndi á að stefnandi og réttargæslustefndi Hönnun hf., hafi gerst sekir um endurteknar vanefndir vegna skorts á samráði við Framkvæmdasýslu ríkisins vegna einstakra verkhluta.  Geti stefndi ekki borið ábyrgð á slíkum vanefndum.  Allt leiði þetta til þess að hafna beri kröfum stefnanda í málinu.

Stefndi kveðst alfarið mótmæla því að forsendur fyrir samkomulagi stefnanda og Framkvæmdasýslu ríkisins frá 13. desember 2002 hafi verið rangar og að fulltrúum Framkvæmdasýslu ríkisins hafi mátt vera það ljóst.  Virðist þessi fullyrðing fyrst og fremst reist á því að ýmsir þættir í hönnun verksins hafi ekki verið tilbúnir.  Engin tilraun sé hins vegar gerð til þess í stefnu að sýna nánar fram á það hvað skort hafi á í hönnun og hvaða áhrif það hafi haft á framgang verksins.  Látið sé við það sitja að fullyrða að tímarammi og hönnun hafi brugðist algerlega og höfð uppi stóryrði í þá átt án þess að tilraun sé gerð til að rökstyðja það atriði nánar.  Stefnandi þyrfti í þessu sem öðru að rökstyðja kröfu sína og tilgreina hvaða atriði það hafi verið sem valdið hafi töfum og hvaða forsendur stefnandi telji að hafi verið rangar, sbr. 80. gr. laga nr. 91/1991.

Stefnandi virðist byggja kröfu sína um forsendubrest á greinargerð eigin byggingar­stjóra, dagsettri 27. september 2005.  Eins og rakið hafi verið hafi réttargæslustefndi, Hönnun hf., ríka hagsmuni af því að tafir og mistök við framkvæmd verksins verði ekki talið vera á ábyrgð þess félags.  Sökum augljósra hagsmunatengsla á milli réttargæslustefnda, Hönnunar hf., og stefnanda telji stefndi að greinargerðin hafi ekkert sönnunargildi og sé í raun aðilaskýrsla og hafi gildi samkvæmt því.  Þá bendi stefndi á að greinargerðin sé samin sérstaklega að beiðni stefnanda og sé eðli málsins samkvæmt ónákvæm þar sem hún sé unnin löngu eftir verklok.  Slíkt gagn sé alltof seint fram komið í málinu til að hægt sé að byggja á því sem raunverulegu gagni.

Auk þeirra atriða sem leiði til þess að skýrsla byggingarstjóra geti ekki haft sönnunargildi umfram þau atriði sem séu stefnanda í óhag, sbr. til hliðsjónar 45. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, bendi stefndi á að stefnandi hafi látið undir höfuð leggjast að gera stefndu viðvart um hina meintu ófullnægjandi hönnun meðan á verktímanum stóð.  Þegar af þeim ástæðum geti stefnandi ekki byggt rétt á meintum töfum sem raktar séu í greinargerðinni.  Þá bendi stefndu á að niðurstöður í greinargerð byggingarstjóra séu á margan hátt í ósamræmi við efni þeirra verkfundar­gerða sem greinargerðin virðist byggjast á.  Í þeim efnum megi nefna sem dæmi að fram komi í verkfundargerðum að tafir vegna gluggaísetningar og tafir vegna afhendingar aðfanga, sem hvort tveggja hafi verið á ábyrgð stefnanda, tefji framgang verksins þótt hið gagnstæða komi fram í greinargerðinni. Þá megi einnig sjá af verkfundargerðum að framsetning nýrrar verkáætlunar, sem hafi verið á ábyrgð réttargæslustefnda, Hönnunar hf., og þar með stefnanda hafi einnig tafist ítrekað en ekki sé minnst á það í niðurstöðum greinargerðarinnar.  Þá sé í greinargerð byggingarstjóra vísað til atriða sem ekki hafi tafið framkvæmd verksins þótt gagnstæð ályktun sé dregin í niðurstöðum.  Þetta eigi einnig við um teikningar en hluti endur­útgáfu þeirra séu eingöngu uppfærslur og minni háttar breytingar sem ekki hafi haft nein áhrif á verktímann eins og komi fram í fjölmörgum verkfundargerðum.  Með öllu framangreindu sé sýnt fram á að stefnanda hafi ekki tekist að sanna að forsendur fyrir verkinu hafi reynst rangar.  Af þeim ástæðum beri að sýkna stefnda.

Allan verktímann eftir að stefnandi tók yfir stjórnun verksins hafi aldrei borist athuga­semd eða kvörtun frá honum yfir því að tímarammi verksins stæðist ekki eða að hönnun væri ófullnægjandi.  Slíkar athugasemdir séu þó skilyrði þess að stefnandi geti byggt á því að forsendur og tímarammi upphaflegs samkomulags geti talist verulega rangar.  Hafi einhver réttur skapast til handa stefnanda vegna einhverra tafa eða annarra atriða sem varði stefnda hafi hann fallið niður vegna tómlætis stefnanda við að gera athugasemdir á verktímanum.  Vanræksla á slíkum tilkynningum séu í verk­takarétti talin forsenda þess að kröfur vegna viðbótarkostnaðar geti stofnast.  Sé þetta almenn regla í verktakarétti og megi um það vísa til ákvæða ÍST 30 sem stefndi telji að endurspegli venju á þessu sviði.  Vanræksla stefnanda á tilkynningu um meintar rangar forsendur eða tafir vegna ástæðna sem stefndi beri ábyrgð á leiði til þess að stefnandi geti ekki byggt rétt sinn á því.

Kveður stefndi að stefnandi hafi tekið við stjórnun á verkinu á grundvelli sömu hönnunargagna og Kraftvaki ehf. hafði grundvallað sitt tilboð á.  Hafi þessi gögn legið fyrir þegar stefnandi gerði samkomulagið við Framkvæmdasýslu ríkisins 13. desember 2002. Ekki hafi verið bent á sérstaka vankanta við þá hönnun sem valdið hafi tilteknum töfum.  Verkið hafi hins vegar dregist á langinn, meðal annars vegna breytinga- og aukaverka sem sérstaklega hafi verið greitt fyrir.  Engin tilraun sé gerð til þess að sundurgreina þessi atriði.

Þá byggi stefndi á því að í greiðslum fyrir breytinga- og aukaverk hafi verið innifalin greiðsla fyrir stjórnun og samræmingu verks og rekstur vinnustaðar. Stefnandi geti ekki krafist sérstakrar greiðslu fyrir þessa þætti allan þann tíma sem verkið fór fram yfir júní 2003, eins og upphaflegt verk hafi allt dregist fram yfir þann tímapunkt.  Að því marki sem breytinga- og aukaverk hafi verið unnin eftir þessi tímamörk samkomulagsins hafi stefnandi fengið að fullu greitt fyrir stjórnun og rekstur vinnustaðar og verði hann að sérgreina og sundurliða meint tjón sitt nánar til að fullnægja ákvæðum 80. gr. laga nr. 91/1991.

Það liggi fyrir að eftir að verksamningur komst á hafi verið gerðar tilteknar breytingar á verkinu og einhverjar teikningar því verið endurútgefnar og/eða nýjar teikningar gefnar út.  Hér hafi annars vegar verið um að ræða breytingar af hálfu stefnda og hins vegar breytingar á verkinu, gerðar til hagræðingar fyrir verktaka, stefnanda.  Því sé á hinn bóginn alfarið hafnað af hálfu stefnda að um ófullkomnar teikningar hafi verið að ræða í þessum tilvikum.  Ítrekað sé að þessar breytingar á teikningum hafi verið minni háttar og hvorki leitt til þess að verktími lengdist né aukins kostnaðar.

Þá sé með öllu óvinnandi vegur fyrir stefnda að skilja hver áhrif nýjar og breyttar teikningar hafi haft á framgang verksins nema stefnandi leggi fram rökstudd og sundurliðuð gögn þar sem komi fram með skýrum hætti hvaða áhrif einstök atriði hafi haft á framvindu verksins á verkstað. Einhliða málflutningur réttargæslustefnda, Hönnunar hf., sem eigi ríkra hagsmuna að gæta í málinu, geti ekki talist fullnægjandi gagn í þessu sambandi.  Þá geti skrá um útgefnar teikningar og svarlisti fyrirspurnar, sem stefnandi hafi lagt fram sem dómskjöl, ekki heldur talist fullnægjandi án nokkurs samhengis við feril verksins.  Á þeim forsendum sé því hafnað að nokkur ábyrgð vegna framangreinds geti fallið á stefnda enda hafi ekki verið sýnt fram á að hönnun hafi verið ábótavant.

Þá hafi stefnandi enga tilraun gert til að færa rök fyrir eða meta meinta afkastarýrnun sem stefnandi byggir á að hafi verið óhjákvæmileg afleiðing af því að verkið tafðist hjá iðnaðar- og verkamönnum.  Þess í stað sé fullyrt að afköst hafi minnkað en engin rök færð fyrir þeirri fullyrðingu að forsendur fyrir upphaflegum einingaverðum hafi brugðist.  Það hafi verið forsenda fyrir því að markmiðum samkomulagsins frá 13. desember 2002 yrði náð að samningar við verktaka samkvæmt 4. gr. samkomulagsins tækjust á upphaflegum einingaverðum.  Ekkert liggi fyrir um það í málinu að ekki hafi verið hægt að ljúka samningum við undirverktaka á upphaflegum einingaverðum en stefnandi beri alla sönnunarbyrðina fyrir því.

Stefnandi og réttargæslustefndi, Hönnun hf.,  hafi hins vegar ráðist í það í sameiningu og án nokkurs samráðs við Framkvæmdasýslu ríkisins, að ljúka verkinu með samningum við verktaka á grundvelli einingaverða sem aldrei hafi verið borin undir Framkvæmdasýslu ríkisins og að greiða reikninga verktaka án athugasemda.  Þar sem stefnandi hafi kosið að hafa Framkvæmdasýslu ríkisins ekki með í ráðum um þessa framkvæmd þrátt fyrir skýra samningsskyldu til þess geti hann ekki ætlast til að stefndi taki þátt í kostnaði sem af því hafi hlotist umfram upphafleg einingaverð. Umframkostnaður stefnanda vegna slíkra mistaka geti því ekki komið inn í uppgjör samkvæmt 8. tl. samkomulagsins.

Þá kveðst stefndi hafna því að meginskýring meints umframkostnaðar stefnanda liggi í því að útboðið á endurbótum Þjóðminjasafnsins hafi verið illa undirbúið og framkvæmd þess ábótavant.  Engin rök hafi verið lögð fram til að styðja fullyrðingar í stefnu um slíkt og þegar af þeirri ástæðu beri að hafna þeim málsástæðum.

Verði ekki fallist á aðalkröfu stefnda um sýknu sé gerð sú krafa til vara að stefnukrafa verði lækkuð verulega.  Ekki sé gerð sú krafa að stefndi greiði stefnendum tiltekna fjárhæð heldur sé það lagt í mat dómsins að ákveða fjárhæð sem stefnda beri að greiða, byggða á gögnum málsins.  Í þessari kröfu ítreki stefndi þó að stefnandi geti ekki í neinu tilviki átt rétt til þess að bera ekki þá fjárhæð að lágmarki sem nemi verkábyrgðinni eða samtals 64.500.000 krónur.  Sé með öllu óskiljanlegt og engin tilraun gerð til að skýra það hvernig stefnandi reyni í aðalkröfu sinni að skorast undan skýrri samningsskyldu sinni að greiða verkábyrgðina.  Þess í stað sé þess krafist að stefndi greiði allan meintan raunkostnað stefnanda vegna verksins án þess að tekið sé tillit til verkábyrgðar stefnanda sem þó liggi óumdeild fyrir í málinu.  Hér sé um að ræða skýrt brot á verkábyrgð stefnanda.

Sá umstefndi kostnaður sem sé deiluatriði þessa máls sé kostnaður sem orðið hafi í kjölfar þess að skipt var um verktaka við framkvæmd endurbóta á Þjóðminjasafninu.  Litið virðist vera framhjá því í stefnu að það hafi verið verkábyrgðin sem hafi orðið þess valdandi í upphafi að stefnandi vildi frekar reyna að takmarka tjón sitt með því að taka yfir verkið frekar en að greiða verkábyrgðina út þegar ljóst hafi verið að Kraftvaki ehf. þyrfti að segja sig frá verkinu.  Megi í þessu sambandi vísa til skýrra ákvæða í samkomulagi aðila sem og ákvæða verkábyrgðarinnar.  Þá sé það enn fremur brot á skyldu stefnanda sem tryggingarfélags sem njóta eigi trausts þeirra sem móttaki einhliða ábyrgðaryfirlýsingar slíkra fyrirtækja líkt og Framkvæmdasýsla ríkisins hafi gert þegar vinna við endurbætur Þjóðminjasafnsins hófst.  Þegar á þessum forsendum verði stefnandi að bera sjálfur 64.500.000 krónur að lágmarki.

Verði fallist að einhverju leyti á kröfur stefnanda geri stefndi þá kröfu að dráttarvextir verði eigi dæmdir fyrr en frá dómsuppsögu, sbr. 9. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001.  Stefndi reisir kröfu um málskostnað á 129. til 131. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.

V

Eins og fram er komið eru engar kröfur gerðar á hendur réttargæslustefndu en Hornsteinar arkitektar ehf., Verkfræðistofa Guðmundar og Kristjáns hf., Rafhönnun hf. og VSÓ Ráðgjöf ehf. hafa skilað greinargerðum í málinu og krafist þess að réttargæslustefnandi greiði þeim málskostnað.  Í greinargerðum ofangreindra, annarra en Rafhönnunar hf., er tekið undir sýknukröfur stefnda, réttargæslustefnanda, í málinu.  Í ljósi þess að engar kröfur eru gerðar á hendur réttargæslustefndu, og ofangreindir réttargæslustefndu gera aðeins kröfu um málskostnað með vísan til XXI. kafla laga nr. 91/1991, þykja ekki efni til að rekja sérstaklega hvernig málavextir og málsástæður í máli þessu horfa við réttargæslustefndu eins og rakið er í greinargerðum þeirra.

VI

Í máli þessu deila aðilar um uppgjör á verkkostnaði vegna endurbóta á Þjóðminja­safni Íslands við Hringbraut í Reykjavík.  Ekki er deilt um aukaverk sem innt voru af hendi enda munu þau uppgerð. 

Aðkoma stefnanda að þessum verkefnum átti rót sína að rekja til þess að Kraftvaki ehf. hafði tekið verktryggingu hjá stefnanda sem er tryggingafélag.  Var tryggingin tekin vegna verksamnings Kraftvaka ehf. og Fram­kvæmda­sýslu ríkisins vegna 2. áfanga að endurbótum og stækkun á Þjóðminjasafni Íslands.  Í kjölfar þess að Kraft­vaki ehf. sagði sig frá verkinu lá fyrir að greiðsluskylda gæti vaknað hjá stefnanda vegna verkábyrgðarinnar og gerðu stefnandi og Framkvæmdasýsla ríkisins sam­komulag til að tryggja framgang á þeim verkefnum sem skilgreind voru í verk­samningi milli Kraftvaka ehf. og Framkvæmdasýslu ríkisins. 

Má draga þá ályktun af þessari niðurstöðu að báðir aðilar hafi séð sér hag í því að ganga svona frá málum því verkaupi komst þannig hjá því að leita að öðrum verktaka eða að bjóða verkið út að nýju.  Hvort tveggja hefði án efa leitt til mikils kostnaðar­auka auk þess sem verkið hefði óhjákvæmilega dregist.  Þá var stefnandi að vernda sína hagsmuni á grundvelli verktryggingarinnar.

Samkvæmt samkomulagi aðila tók stefnandi að sér skyldur Kraftvaka ehf. varðandi stjórnun og samræmingu og réð réttargæslustefnda, Hönnun hf., til að sinna byggingastjórn.  Þá skyldi stefnandi sjá um rekstur vinnustaðar samkvæmt útboðs­gögnum.  Réttargæslustefndi, Hönnun hf., átti svo að gera tillögur að verktökum til að ljúka þeim verkþáttum sem ekki voru innifaldir í samningum við undirverktaka sem Framkvæmdasýsla ríkisins tók að sér samkvæmt samkomulaginu.  Stefnandi átti svo að greiða kostnað vegna stjórnunar, samræmingar og reksturs vinnustaðar en Framkvæmdasýsla ríkisins átti að greiða reikninga verktaka.

Sú leið sem þarna var valin er einhvers konar blanda af verktakastarfsemi og reikningsvinnu en eins og að framan er rakið tók stefnandi að sér að ljúka vissum verkþáttum auk þess sem hann tók að sér stjórnun og umsjón verksins, þar með talið umsjón með undir­verktökum sem Framkvæmdasýsla ríkisins yfirtók frá Kraftvaka ehf.  Þrátt fyrir þessa verkaskiptingu mátti Framkvæmdasýslu ríkisins vera ljóst að stefnandi rak ekki verktakastarfsemi og hafði þannig ekki eigin starfslið með slíka reynslu.  Varð stefn­andi því að ráða utanaðkomandi starfsfólk og greiða þeim.  Þá hafði stefnandi takmarkaða möguleika á að reka á eftir undirverktökum þar sem engin bein samningstengsl voru þeirra á milli enda hafði Framkvæmdasýsla ríkisins yfirtekið samninga við þá.

Með samkomulaginu komst þannig á ákveðin verkaskipting milli stefnanda og Framkvæmdasýslu ríkisins og er hún rakin í drögum að verklokaskýrslu réttar­gæslustefnda, VSÓ Ráð­gjafar ehf., eftirlitsaðila Framkvæmdasýslu ríkisins.  Þar kemur fram að verk sem stefnandi átti að bera ábyrgð á voru, álgluggar, múrverk, trésmíði, stálsmíði, múr og terrasó, gólfefni, annað en parket, og lyftur.  Ekki er ágreiningur um að verkaupi átti að standa straum af kostnaði verktaka heldur deila aðilar fyrst og fremst um viðbótarkostnað vegna verksins umfram það sem upphaflegur samningur við Kraftvaka ehf. hljóðaði upp á.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hefur stefnandi orðið fyrir kostnaði vegna verkþátta sem unnir voru eftir að hann kom að verkinu.  Samkvæmt gögnum málsins eru upplýsingar um þann kostnað teknar úr bókhaldi stefnanda og er hann samtals að fjárhæð 245.692.441 króna.  Telur stefnandi að þetta sé kostnaður sem stefndi eigi að endurgreiða á grundvelli samkomulags aðila.  Frá þeirri fjárhæð dregur hann 91.089.444 krónur sem óumdeilt er að stefndi hefur greitt stefnanda vegna verkþáttanna.  Þá hefur stefnandi dregið frá kröfunni stjórnunarkostnað sem hann kveður innifalinn í einingarverðum samtals að fjárhæð 24.440.362 krónur og kveður það vera þann kostnað sem hann  hafi tekið að sér að greiða samkvæmt samkomulagi aðila.  Kostnaður þessi er sundurliðaður í yfirliti yfir kostnað á sama hátt og þeir gjaldaliðir sem krafa stefnanda byggir á, sbr. neðangreint.  Stjórnunarkostnaðurinn skiptist þannig að vegna tilboðsverka er hann 18.682.612 krónur en vegna aukaverka 5.757.750 krónur.

Kostnaður stefnanda og innborganir stefnda sundurliðast svo:

 

Verkþáttur

Kostnaður

Greitt

Aðstöðusköpun og verklok

18.672.758

4.037.656

Burðarvirki

2.801.182

3.112.424

Lagnir 

100.000

4.306.410

Rafmagn 

62.191.949

23.013.830

Múrverk og flísalögn innanhúss

45.253.871

19.548.915

Trésmíði innanhúss

49.996.468

20.732.858

Járnsmíði innanhúss

5.330.766

1.475.250

Málun innanhúss

1.567.293

3.043.374

Gólfefni

2.271.949

4.084.312

Trésmíði utanhúss

11.343.843

5.086.990

Múrverk utanhúss

2.172.382

2.396.425

Málun utanhúss

230.113

251.000

Stjórnun

43.759.867

0

Samtals

245.692.441

91.089.444

 

 

 

 

Stefndi byggir sýknukröfu sína á því fyrst og fremst að stefnandi hafi ekki sýnt fram á greiðsluskyldu, hvorki á grundvelli brostinna forsendna í samningi, né þeim grundvelli að skaðabótaskylda að verktakarétti hafi stofnast sem stefndi beri ábyrgð á.

Af samkomulagi aðila verður ekki annað ráðið en að aðilar hafi gert ráð fyrir að hægt væri að halda verkinu áfram miðað við þær forsendur sem lágu til grundvallar verksamningi Kraftvaka ehf. og Framkvæmdasýslu ríkisins og gerir uppgjörsregla samkomulagsins ráð fyrir að frá heildarkostnaði við verkið, frá og með þeim tímapunkti sem samkomulag aðila miðaðist við, væri dreginn sá kostnaður sem hefði orðið samkvæmt verksamningnum.  Væri kostnaðurinn hærri skyldi stefnandi greiða mismuninn, þó ekki hærri fjárhæð en verktryggingin hljóðaði upp á en stefndi skyldi greiða mismuninn ef kostnaðurinn væri lægri.  Var gert ráð fyrir því í þessari uppgjörsreglu að Framkvæmdasýsla ríkisins hefði greitt verktökum samkvæmt 2. og 4. gr. samningsins en stefnandi kostnað vegna stjórnunar, samræmingar og reksturs vinnustaðar samkvæmt 3. og 5. gr. samningsins.

Nú liggur fyrir að kostnaðurinn var mun hærri en upphaflegur verksamningur gerði ráð fyrir og deila aðilar um hvor þeirra eigi að bera þann kostnað.  Fyrir liggur og er óumdeilt að tafir urðu miklar á verkinu umfram umsamin verklok í júní 2003 en því lauk ekki fyrr en í september 2004.  Urðu tafirnar því 14 mánuðir en aðilum ber ekki allskostar saman um hver beri ábyrgð á þessum töfum eða hvaða áhrif þær höfðu á  kostnað við verkið. 

Í fyrirliggjandi matsgerð hinna dómkvöddu matsmanna eru tíundaðar ástæður fyrir töfum á verkinu.  Kveða matsmenn tafir verða raktar til ófullnægjandi hönnunar og endurútgáfu teikninga, langs biðtíma á svörum vegna fyrirspurna byggingar­stjóra, ófyrirséðra vandkvæða við framkvæmd verksins og vegna aukaverka.  Matsgerðinni hefur ekki verið hnekkt að er það niðurstaða dómsins að hún sé í samræmi við gögn málsins að þessu leyti.  Þykir þannig ljóst að hönnunargögnum var verið að breyta lengi fram eftir í verkinu og hafði það óhjákvæmilega í för með sér tafir á verkinu þótt ekki sé unnt að slá því föstu hve stóran þátt tafir að þessu leyti höfðu á hvern einstakan verkþátt. 

Þá kemur fram í matsgerð að verkið hafi tafist vegna þess hversu langur biðtími var  á svörum vegna fyrirspurna byggingastjóra sem fram komu á verkfundum um hönnun og fyrirmæli vegna vinnu við verkið.  Telja matsmenn að biðtími þessi hafi verið óhóflegur og engan vafa leika á að slíkt hafi haft letjandi áhrif á framvindu verksins.  Þá kemur fram hjá matsmönnum að ýmis ófyrirséð vandkvæði hafi komið fram við framkvæmd verksins sem valdið hafi töfum á því og nefna sérstaklega tvo stærstu liðina að þessu leyti, þ.e. raflagnir og terrassólögn.

Í upphafi voru raflagnir á ábyrgð Kvarða ehf. sem var undirverktaki Framkvæmda­sýslu ríkisins, sbr. 2. gr. samkomulags aðila.  Í febrúar 2003 gafst það félag upp við verkið og réð stefnandi Afltak ehf. til verksins og samdi við það félag.  Með þessu skuldbatt stefnandi sig enn frekar en gert var ráð fyrir í samkomulagi aðila.  Af gögnum málsins er ljóst að verk rafverktaka dróst á meðan verktakaskiptin áttu sér stað og bera gögn málsins með sér að lítið sem ekkert hafi verið unnið við raflagnir vegna verktakaskiptanna í tvo mánuði.  Hafði sú töf óhjákvæmilega í för með sér að raflagnavinna dróst verulega á langinn og olli töfum á öðrum verkþáttum. 

Fram kemur í verkfundargerðum í febrúar 2003 að verið væri að leita að nýjum rafverktaka.  Þá kom fram í verkfundargerð 26. mars 2003 að ráðinn hefði verið nýr rafverktaki, Afltak, og verður því ekki annað ráðið en að það hafi verið gert með fullri vitund verkkaupa, Framkvæmdasýslu ríkisins og eftirlitsaðila hans.  Engin yfirfærsla á ábyrgð virðist hafa farið fram og getur því stefnandi ekki borið ábyrgð á töfum og hugsanlegum kostnaði vegna þess að Kvarði fór frá verkinu.  Tafirnar sem urðu vegna verktakaskiptanna verða því ekki raktar til aðgerða eða aðgerðaleysis stefnanda.

Annar verkþáttur, sem olli stórfelldri röskun og seinkunum, var terrassólögn í anddyri og á fyrstu hæð.  Upphafleg verkáætlun gerði ráð fyrir að byrja á þessu verki í febrúar 2003 og ljúka henni í maí 2003.  Bera gögn málsins með sér að terrassólögn hafi verið breytt að ósk Framkvæmdasýslu ríkisins og lá ný verklýsing fyrir í febrúar 2003.  Þegar hún lá fyrir þurfti stefnandi að bjóða verkið út og semja við verktaka en fram kemur í gögnum málsins að einungis tveir aðilar geti tekið að sér slíkt verk.  Verkinu lauk í október 2003 og þarna olli breytt hönnun og verklýsing og nýtt útboð um fjögurra mánaða seinkun á þessum verkþætti auk röskunar á flestum öðrum verk­þáttum.  Þá þykir ljóst að stefnandi lenti í talsverðum aukakostnaði vegna breyttrar verklýsingar verkkaupa.

Þá liggur fyrir að talsvert var um aukaverk, sem óhjákvæmilega leiddu til þess að verkið tafðist enn frekar, og er óumdeilt að þessi aukaverk hafa verið gerð upp.  Þykir ljóst að aukaverk voru unnin í þágu verkkaupans og að hans beiðni og ábyrgð enda hefur stefndi þegar greitt fyrir öll slík verk.  Er því ljóst að verkkaupi ber ábyrgð á þeim drætti sem aukaverkin óhjákvæmilega höfðu í för með sér.

Að því virtu sem nú hefur verið rakið þykir ljóst að meginorsakir tafa á verkinu voru vegna atvika sem stefndi bar ábyrgð á og hefur stefndi ekki lagt fram haldbær gögn sem sýna fram á að stefnandi beri nokkra ábyrgð á þeim.  Öll hönnunarvinna var á ábyrgð verkkaupa og þegar ekki lágu fyrir fullnægjandi hönnunargögn gat seinkun á verkframvindu ekki verið á ábyrgð stefnanda.

Í matsgerð hinna dómkvöddu matsmanna er gert ráð fyrir þeirri verkaskiptingu sem greinir í drögum að verklokaskýrslu VSÓ og við útreikning á kostnaði við að ljúka verkinu notast matsmenn að jafnaði við samningsupphæðir eins og þær voru í hinum upphaflega samningi þar sem það er hægt.

Matsmenn telja útilokað að gefa sundurliðaða niðurstöðu á viðbótarkostnaði vegna einstakra liða og fara þá leið að reyna að meta heildarkostnað stefnanda af rekstri verksins samkvæmt samkomulagi stefnanda við Framkvæmdasýslu ríkisins.  Þar með sé talinn kostnaður vegna rekstrar og stjórnunar vinnustaðarins og aukakostnaður vegna verktakaskipta við raflagnir og breytingar við terrassólögn.  Er niðurstaða matsmanna, sem ekki hefur verið hnekkt, sú að raunkostnaður stefnanda að meðtöldum aukaverkum, við að ljúka sínum hluta verksins hafi verið 288.900.000 krónur.  Inni í þeirri fjárhæð eru aukaverk sem matsmenn meta til verðs að fjárhæð 51.310.000 krónur en eins og rakið hefur verið er ekki ágreiningur um þau verk.

Þar sem samningur við Kraftvaka ehf. var gerður í október 2001 telja matsmenn eðlilegt að miða við byggingavísitölu í október 2002 sem grunnvísitölu þegar verð eru uppfærð í nóvember 2004.  Niðurstaða matsgerðarinnar er því eftirfarandi:

 

Verkliður

kostnaður án/vsk

kostnaður m/ vsk.

 

 

 

Rekstur vinnustaðar

35.253.000

43.890.000

Múrverk án terrassó

13.198.000

16.432.000

Trésmíði innan og utanhúss

40.856.000

50.865.000

Stálsmíði

21.634.000

26.934.000

Rafmagnskerfi

51.584.000

64.223.000

Álgluggar                                                

  9.749.000

12.137.000

Gólf

2.192.000

2.729.000

Terrassó

16.345.000

20.350.000

                                                                      

Kostnaður með virðisaukaskatti er því samkvæmt matsgerð samtals 237.560.000 krónur. 

Af matsgerð verður ráðið að matsmenn fari þá leið að meta kostnað við heildarverkið og draga frá það sem greitt hafði verið inn á verkið áður en stefnandi kom að því og finna þannig út mat á kostnaði stefnanda við lúkningu verksins. Verður að fallast á það með matsmönnum að eðlilegt sé í ljósi þeirra miklu tafa sem urðu á verkinu að uppfæra verð miðað við byggingavísitölu eins og gert er í matsgerðinni.  Þykir niðurstaða matsgerðarinnar staðfesta svo ekki verði um villst að þær fjárhæðir sem stefnandi hefur greitt vegna verksins séu í raun sanngjarnar og eðlilegar miðað við umfang verksins og tafir á því. 

Þegar gögn málsins eru skoðuð, einkum bókanir á verkfundum, er ljóst að eftirlitsaðila Framkvæmdasýslu ríkisins, réttargæslustefnda VSÓ Ráðgjöf ehf., hlaut að vera kunnugt um að stefnandi var að gera samninga og ráða verktaka í samræmi við samkomulag aðila.   Þá átti ekki að fara fram hjá honum að verkið hafði tafist eða að stefnandi varð að gera nýja samninga vegna raflagna og terrassólagnar. Voru því engin sérstök efni til þess fyrir stefnanda að tilkynna stefnda um þetta sérstaklega.  Getur stefndi því ekki firrt sig ábyrgð á þeim forsendum að ekki hafi verið haft samráð við hann vegna þessa enda hefur verið sýnt fram á að kostnaðurinn var innan eðlilegra marka og sanngjarn.

Með vísan til þess sem nú hefur verið rakið þykir stefnandi hafa sýnt fram á það að sá kostnaður sem hann hefur haft af verkinu eftir að hann tók við stjórnun þess í kjölfar afsagnar Kraftvaka ehf. hefði orðið sá sami samkvæmt samningi FSR og Kraftvaka.  Þá þykir ljóst, í ljósi þessarar niðurstöðu, að forsendur samkomulags stefnanda og Framkvæmdasýslu ríkisins hafi orðið allt aðrar en aðilar gerðu ráð fyrir í upphafi og því er ekki unnt að styðjast við ákvæði samkomulagsins við uppgjör á milli aðila.  Þá er ljóst að kostnað vegna verktaka átti stefndi að greiða og ber honum að endurgreiða stefnanda það sem eftir stendur af þeim kostnaði.  Eins og fram er komið hefur stefnandi reiknað út þann kostnað sem hann tók að sér samkvæmt samningi aðila að fjárhæð 24.440.362 krónur og dregið hann frá kröfum sínum.  Þeim útreikningi hefur ekki verið andmælt og fær hann í raun stoð í niðurstöðu matsmanna að því leyti að samanlagður kostnaður vegna þátta sem lúta að rekstri vinnustaðar, verkloka og starfsemi byggingastjóra er metinn 43.890.000 krónur í matsgerð.   

Ekki verður fyllilega ráðið af fyrirliggjandi gögnum hvað fólst í verkábyrgð stefnanda, en almennt verður litið svo á að slík verkábyrgð standi til tryggingar þeim kostnaði sem leiðir af verktakaskiptum.  Eins og rakið hefur verið hefur því verið slegið föstu að viðbótarkostnaður sá sem stefnandi hefur þurft að greiða vegna verksins hefði líka fallið til hefði Kraftvaki ehf. haldið áfram með verkið.  Þykir stefndi því ekki hafa sýnt fram á það með óyggjandi hætti að hann hafi beðið tjón af verktakaskiptunum sem slíkum og verður hann að bera hallann af þeim sönnunarskorti.  Verður því ekki fallist á það að stefnandi þurfi að sæta frádrætti af kröfum sínum á grundvelli verkábyrgðarinnar.

Að því virtu sem nú hefur verið rakið verður aðalkrafa stefnanda tekin til greina eins og hún er fram sett með dráttarvöxtum eins og greinir í dómsorði en með hliðsjón af atvikum öllum þykir rétt, með vísan til 4. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, að upphafsdagur dráttarvaxta sé 14. desember 2005.  Þess ber að geta að í sundurliðun sinni á aðalkröfu gerir stefnandi ráð fyrir frádrætti vegna kostnaðar sem hann telur sig eiga að bera samkvæmt samkomulagi aðila að fjárhæð 24.440.362 krónur og samkvæmt því væri höfuðstóll kröfunnar 130.162.635.  Dómkrafan er hins vegar lægri og hljóðar upp á 130.033.753 og er þar miðað við að frádráttur þessi sé 24.569.244 krónur.  Þessi mismunur er óútskýrður í málatilbúnaði stefnanda en fjárhæð dómkröfunnar stendur.

Eftir þessum úrslitum verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 3.000.000 króna.

Þá verður stefndi dæmdur til að greiða réttargæslu­stefndu, Hornsteinum arkitektum ehf., Verkfræðistofu Guðmundar og Kristjáns hf., Rafhönnun hf., og VSÓ Ráðgjöf ehf. 200.000 krónur í málskostnað, hverjum fyrir sig.

Af hálfu stefnanda flutti málið Jóhannes Karl Sveinsson hrl. en af hálfu stefnda flutti málið Heiðar Ásberg Atlason hdl.

Greta Baldursdóttir héraðsdómari kveður upp dóminn ásamt meðdómsmönnunum Ásmundi Ingvarssyni verkfræðingi og Vífli Oddssyni verkfræðingi.

D Ó M S O R Ð

Stefndi, íslenska ríkið, greiði stefnanda, Tryggingamiðstöðinni hf., 130.033.753 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 14. desember 2005 til greiðsludags.

Stefndi greiði stefnanda 3.000.000 króna í málskostnað.

Stefndi greiði réttargæslustefndu, Hornsteinum arkitektum ehf., Verkfræðistofu Guðmundar og Kristjáns hf., Rafhönnun hf., og VSÓ Ráðgjöf ehf. 200.000 krónur í málskostnað, hverjum fyrir sig.