Hæstiréttur íslands
Mál nr. 699/2017
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Benedikt Bogason og Karl Axelsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 2. nóvember 2017, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 6. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 2. nóvember 2017, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi meðan mál hans er til meðferðar fyrir Hæstarétti þó eigi lengur en til miðvikudagsins 20. desember 2017 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur með þeim hætti sem í dómsorði greinir en mál ákæruvaldsins gegn varnaraðila verður flutt í Hæstarétti [...] nóvember næstkomandi.
Dómsorð:
Varnaraðili, X, sæti áfram gæsluvarðhaldi þar til dómur fellur í máli hans í Hæstarétti, þó eigi lengur en til föstudagsins 10. desember 2017 klukkan 16.
Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 2. nóvember 2017.
Ákæruvaldið krefst þess að varnaraðili, X, kt. [...], sæti áfram gæsluvarðhaldi uns dómur gengur í máli hans í Hæstarétti Íslands, þó ekki lengur en til mánudagsins 20. desember nk., klukkan 16. Kröfuna hefur uppi lögreglustjórinn á Akureyri, sem var falið það af vararíkissaksóknara þann 30. október.
Varnaraðili krefst þess að kröfunni verði hafnað, en til vara að varðhaldi verði markaður skemmri tími.
Varnaraðili var þann 9. ágúst sl. dæmdur í héraði til að sæta fangelsi í fjögur ár fyrir tilraun til manndráps. Hann áfrýjaði dómnum og er málflutningur á dagskrá Hæstaréttar [...] nóvember. Hann hefur setið í gæsluvarðhaldi frá 5. mars sl. Er byggt á því af hálfu sóknaraðila að skilyrði 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 séu enn til staðar.
Samkvæmt nefndu ákvæði má úrskurða mann í gæsluvarðhald ef sterkur grunur leikur á að hann hafi framið afbrot sem að lögum getur varðað 10 ára fangelsi, enda sé brotið þess eðlis að ætla megi varðhald nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna.
Þótt ákærði telji héraðsdóm hafa komist að rangri niðurstöðu og leitast við að færa fram rök fyrir því hér fyrir dómi, verður ekki fram hjá héraðsdómnum horft og ekki sætir hann endurskoðun annars staðar en á æðra dómstigi. Verður skilyrðið um sterkan grun talið uppfyllt með tilliti til niðurstöðu héraðsdóms um sakfellingu. Hæstiréttur Íslands hefur tvívegis, þ.e. í málum nr. 226/2017 og 276/2017 að uppfyllt sé í máli varnaraðila skilyrðið um nauðsyn varðhalds með tilliti til almannahagsmuna. Hefur engin breyting orðið þar á.
Refsing fyrir tilraun til brots gegn 211. gr. almennra hegningarlaga getur að lögum orðið ævilangt fangelsi.
Samkvæmt framansögðu ber að fallast á kröfu sóknaraðila. Ekki er ástæða til að marka varðhaldi skemmri tíma en krafist er.
Erlingur Sigtryggsson héraðsdómari kveður úrskurðinn upp.
ÚRSKURÐARORÐ:
Varnaraðili, X, sæti áfram gæsluvarðhaldi uns dómur gengur í máli hans í Hæstarétti Íslands, þó ekki lengur en til 20. desember nk., klukkan 16.