Hæstiréttur íslands

Mál nr. 231/2010


Lykilorð

  • Kærumál
  • Greiðsluaðlögun


                                                        

Mánudaginn 31. maí 2010.

Nr. 231/2010.

A

(sjálfur)

gegn

Héraðsdómi Reykjavíkur

(enginn)

Kærumál. Greiðsluaðlögun.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu A um heimild til að leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar. Talið var að með kaupum sínum á þremur íbúðum, tveimur sem hann hafi ætlað að breyta og selja aftur og einni fyrir fjölskylduna, hafi A tekið fjárhagslega áhættu sem ekki hafi verið í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárskuldbindinganna var stofnað, sbr. 2. tölulið 1. mgr. 63. gr. d. laga nr. 21/1991. Var hinn kærði úrskurður því staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Garðar Gíslason og Jón Steinar Gunnlaugsson.

 Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 8. apríl 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 13. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 25. mars 2010, þar sem hafnað var beiðni sóknaraðila um að honum yrði veitt heimild til að leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar. Kæruheimild er í 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að fallist verði á beiðni hans um heimild til að leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar.

Sóknaraðili óskaði 21. desember 2009 eftir nefndri heimild til að gera nauðasamning til greiðsluaðlögunar við lánardrottna sína samkvæmt X. kafla a. laga nr. 21/1991, sbr. lög nr. 24/2009. Í beiðninni kom fram að hann væri menntaður [...] og hefði starfað við iðn sína þar til hann hefði lent í umferðarslysi [...], sem hafi gert honum það ókleift. Frá árinu 2005 hafi hann starfað hjá [...], en tekjur aldrei verið miklar. Félagið hafi komist í þrot og verið úrskurðað gjaldþrota 9. ágúst 2007 og afskráð 27. mars 2008. Læknir hafi gefið út vottorð um að litlar sem engar líkur væru á að ástand hans batnaði svo að hann yrði aftur vinnufær. Hann hafi gengið í sjálfsskuldarábyrgð vegna yfirdráttar á reikningi [...] hjá Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis fyrir 1.000.000 krónum og standi sú skuld í 1.931.707 krónum. Hann sé einnig í ábyrgð fyrir Visa kreditkorti félagsins hjá Íslandsbanka hf. upp á 800.000 krónur auk vaxta og kostnaðar og standi sú skuld í 1.332.810 krónum. Hann hafi stofnað til 2.500.000 króna skuldar við Húsasmiðjuna hf. árið 2002 og greiði afborganir, vexti og verðbætur vegna hennar.

Í beiðni sóknaraðila kom fram að fyrir umferðarslysið í janúar 2005 hafi hann ekki verið í greiðsluvandræðum. Hann hafi því sumarið 2005 keypt tvær íbúðir við [...] í Reykjavík sem hann hafi ætlað að breyta. Hann hafi hafist handa við miklar breytingar á báðum íbúðunum en veikindi hans hafi versnað á sama tíma. Þörf hafi verið á nýju deiliskipulagi fyrir svæðið en það hafi dregist og hann orðið tekjulaus vegna veikindanna. Honum hafi verið ráðlagt að selja íbúðirnar tvær, sem hafi átt að vera auðseljanlegar, og hann því keypt þriðju íbúðina fyrir fjölskylduna að [...], Reykjavík. Til þess að fjármagna þau kaup hafi hann fengið 3.000.000 króna lán hjá Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis og lán hjá Frjálsa fjárfestingabankanum hf. að fjárhæð 19.300.000 krónur, sem nú standi í 8.743.314 krónum, auk skuldabréfs upp á 600.000 krónur hjá NBI hf. á nafni móður sinnar. Lánin hafi lent í vanskilum og gert hafi verið árangurslaust fjárnám hjá honum 8. október 2008, bú hans tekið til gjaldþrotaskipta 10. desember 2008 og skiptum lokið 19. mars 2009. Skuldirnar sem eftir standi að loknu gjaldþroti séu honum ofviða.

Í kæru til Hæstaréttar leggur sóknaraðili áherslu á að lánastofnunin Frjálsi fjárfestingabankinn hf. hafi metið áhættuna og tekið ákvörðun um lánveitingar til hans á þeirri forsendu að hann gæti staðið við skuldbindingar sínar, enda yrði auðvelt að koma íbúðunum við [...] í verð. Í venjulegu árferði hefði þetta gengið eftir þar sem íbúðir á því svæði séu að öllu jöfnu góð söluvara. Á þeim tíma sem hann hafi tekið ákvarðanir um kaup og sölu fasteigna hafi fyrrgreindur banki talið þær skynsamlegar. Hann hafi ekkert aðhafst í fjármálum sínum nema eftir ráðum sérfræðinga bankans.

Í forsendum og niðurstöðu hins kærða úrskurðar er því lýst að sóknaraðili hafi lagt fram greiðsluáætlun samkvæmt 63. gr. c. laga nr. 21/1991. Hins vegar verður að fallast á þá niðurstöðu úrskurðarins að með kaupum sínum á þeim þremur íbúðum sem að framan er lýst hafi sóknaraðili tekið fjárhagslega áhættu sem ekki hafi verið í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárskuldbindinganna var stofnað, sbr. 2. tölulið 1. mgr. 63. gr. d. nefndra laga. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur með vísan til forsendna hans.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 25. mars 2010.

Með bréfi er barst dóminum 21. desember 2009 hefur A, kt. [...], [...], [...] Reykjavík, óskað heimildar til að leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar samkvæmt lögum nr. 21/1991, sbr. lög nr. 24/2009. 

Því er lýst í beiðni að umsækjandi búi ásamt sambýliskonu sinni B í leiguhúsnæði að [...] ásamt 13 ára dóttur þeirra. Hann hafi starfað sem [...] til ársins 2005 en hann hafi lent í bílslysi 8. janúar 2005 og ekki getað snúið aftur til vinnu sinnar. Eftir slysið vann hann hjá [...]. og var jafnframt stjórnarmaður í því fyrirtæki. Fyrirtækið var úrskurðað gjaldþrota þann 9. ágúst 2007. Orsakir fjárhagserfiðleika umsækjanda megi helst rekja til veikinda eftir slysið og atvinnumissis.

Skuldari hefur lagt fram ítarlega greiðsluáætlun í samræmi við 2. mgr. 63. gr. c laga nr. 21/1991, sbr. lög nr. 24/2009. 

Eina eign skuldara er bifreið að andvirði 100.000 krónur. Nettó laun skuldara eru 164.536 krónur á mánuði og heildartekjur eru 245.069 krónur. Nettó laun maka eru 184.413 krónur á mánuði og heildartekjur eru 196.913 krónur.

Helstu samningskröfur skv. greiðsluáætlun eru skuldir við Kaupþing, Tollstjóra, Frjálsa Fjárfestingarbankann, Húsasmiðjuna, auk fjölda annarra skulda. Eftirstöðvar samningsskulda samkvæmt greiðsluáætlun eru tæplega 42 milljónir og gjaldfallnar kröfur eru rúmlega 40 milljónir.

Greiðslugeta, að teknu tilliti til framfærslukostnaðar, er 58.189 krónur á mánuði.

Skuldari kveðst ekki hafa gripið til neinna ráðstafana sem riftanlegar væru samkvæmt lögum nr. 21/1991.

Forsendur og niðurstaða

Leitað er greiðsluaðlögunar samkvæmt lögum nr. 24/2009 um breytingu á lögum nr. 21/1991. Samningskröfur eru allháar og er langstærstur hluti þeirra gjaldfallinn. Uppfylltar eru þær almennu kröfur sem settar eru í 34. gr. laga nr. 21/1991. Þá hefur verið lögð fram greiðsluáætlun er uppfyllir þau skilyrði sem sett eru í 63. gr. c sömu laga, sbr. c-lið 2. gr. laga nr. 24/2009.

Fram kemur í beiðni að skuldari hafi lent í bílslysi hinn 8. janúar 2005 og eftir slysið hafi hann ekki getað snúið aftur til vinnu sinnar sem [...]. Hann hafi starfað hjá [...] eftir slysið eða þar til fyrirtækið var úrskurðað gjaldþrota þann 9. ágúst 2007. Þá hafi verið farið fram á gjaldþrotaskipti hjá skuldara í desember 2008 og hafi skiptum lokið í mars 2009.

Á skattframtali skuldara árið 2006, fyrir tekjuárið 2005, kemur fram að skuldari hafi haft 1,6 milljónir í tekjur það ár. Á því tekjuári keypti skuldari fasteignirnar að [...] og [...] í Reykjavík að verðmæti samtals 31.810.000 krónur samkvæmt fasteignamati. Á skattframtölum áranna 2007 og 2008, tekjuárin 2006 og 2007, voru tekjur skuldara annars vegar 900.000 krónur og hins vegar 800.000 krónur. Á tekjuárinu 2007 keypti skuldari fasteignina að [...] í Reykjavík að verðmæti kr. 22.340.000 samkvæmt fasteignamati. Tekjur skuldara samkvæmt framtali 2009, tekjuárið 2008, voru tæplega 2,2 milljónir í formi bótagreiðslna frá Tryggingastofnun ríkisins.  

Þegar litið er til fjárhagslegrar stöðu skuldara á þeim tíma er fasteignirnar voru keyptar, verður að telja að skuldari hafi með þeirri miklu skuldasöfnun sem átti sér stað á þessum tíma hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt. Hann hafi tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma er til fjárskuldbindinganna var stofnað, sbr. 2. tl. 1. mgr. 63. gr. d laga nr. 21/1991, sbr. lög nr. 24/2009. Þá hlaut skuldara að vera það ljóst að með því að kaupa fasteignina að [...] án þess að vera búinn að selja fasteignirnar að [...] væri hann að taka fjárhagslega áhættu, enda gat skuldari ekki vitað hvenær fasteignirnar að [...] seldust og á hvaða kjörum.

Með vísan til gagna málsins og þegar tekið er mið af tekjum skuldara samkvæmt skattframtölum áranna 2006-2009, fyrir tekjuárin 2005-2008, átti skuldara að vera ljóst að hann var á engan hátt fær um að standa við fjárskuldbindingar sínar á þeim tíma sem til þeirra var stofnað, sbr. 3. tl. 1. mgr. 63. gr. d laga nr. 21/1991, sbr. lög nr. 24/2009. Þegar gögn málsins eru virt heildstætt er ljóst að skuldari fullnægir ekki skilyrðum laganna til greiðsluaðlögunar. Ber því að hafna beiðni skuldara um greiðsluaðlögun.

Með vísan til þess er að ofan hefur verið rakið, sbr. 2. og 3. tl. 1. mgr. 63. gr. d laga nr. 21/1991, sbr. lög nr. 24/2009 um greiðsluaðlögun samningskrafna, er það niðurstaða dómsins að ekki verði hjá því komist að hafna beiðni skuldara um heimild til að leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar.

Allan V Magnússon héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð

Hafnað er beiðni A um heimild til að leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar.