Hæstiréttur íslands
Mál nr. 119/2004
Lykilorð
- Kærumál
- Málsóknarumboð
- Samaðild
- Vanreifun
- Frávísunarúrskurður felldur úr gildi
|
|
Föstudaginn 30. apríl 2004. |
|
Nr. 119/2004. |
Landeigendur Reykjahlíðar ehf. (Jónas A. Aðalsteinsson hrl.) gegn Fjarska ehf. (Hreinn Loftsson hrl.) |
Kærumál. Málsóknarumboð. Samaðild. Vanreifun. Frávísunarúrskurður felldur úr gildi.
L ehf. kærði úrskurð héraðsdóms þar sem máli þess á hendur F ehf. til heimtu greiðslu á tveimur reikningum vegna leigu fyrir afnot af landi var vísa frá dómi sökum vanreifunar. Fyrir Hæstarétt voru lögð gögn um málsóknarumboð til L ehf. frá þinglýstum eigendum Reykjahlíðar. Ekki var fallist á að aðild Landsvirkjunar eða íslenska ríkisins væri nauðsynleg þannig að vísa bæri málinu frá dómi af þeim sökum. Þá var fallist á með F ehf. að lýsing L ehf. á málsatvikum í stefnu væri ekki svo skilmerkileg sem skyldi en þó væri grundvöllur málatilbúnaðar félagsins í aðalatriðum skýr. Væru því ekki efni til að vísa málinu frá dómi af þessum sökum. Var hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 9. mars 2004, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 19. og 30. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. febrúar 2004, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinum kærða úrskurði verði hrundið og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnislegrar meðferðar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur og honum dæmdur kærumálskostnaður.
Eins og nánar er rakið í hinum kærða úrskurði gerðu íslenska ríkið og eigendur jarðarinnar Reykjahlíðar í Skútustaðahreppi 18. mars 1971 samning þar sem meðal annars var kveðið á um að jarðhitaréttindi í landi Reykjahlíðar, innan marka samkvæmt uppdrætti er fylgdi samningnum, sem og „aðstaða til mannvirkjagerðar til nýtingar hans“ skyldi „héðan í frá ríkissjóði til frjálsra umráða og ráðstöfunar.“ Var Kröfluvirkjun síðar reist á umræddu landsvæði. Með samningi 26. júlí 1985 seldi og afsalaði íslenska ríkið Landsvirkjun jarðgufuaflstöðina við Kröflu ásamt eignum, sem aflstöðinni tilheyrðu. Af málatilbúnaði aðila verður ráðið að ekki sé ágreiningur um að varnaraðili, sem er einkahlutafélag, hafi verið stofnað á árinu 2000, sé alfarið í eigu Landsvirkjunar og hafi þann tilgang að reka og leigja aðgang að flutningskerfi til fjarskipta, sem tekur til landsins alls, en engin gögn eru í málinu um þessi atriði.
Í stefnu heldur sóknaraðili því fram að varnaraðili hafi reist skúr við Kröflu til að annast fjarskipti. Kemur þar fram að sóknaraðili telji Landsvirkjun heimilt á grundvelli framangreindra samninga að reka fjarskiptaskúr undir eigin þjónustu á svæðinu sé það nauðsynlegt til nýtingar jarðhita. Hins vegar sé ljóst að fjarskiptaskúr varnaraðila, sem reistur hafi verið í skjóli réttinda Landsvirkjunar, sé ekki nýttur í þágu jarðhitavinnslunnar. Fari þar fram á vegum varnaraðila starfsemi, sem honum sé óheimilt að stunda á landi Reykjahlíðar án samþykkis landeigenda. Telji landeigendur sig eiga kröfu til eðlilegrar þóknunar fyrir þessi afnot af landi sínu. Hafi sóknaraðili því gert varnaraðila reikninga vegna landleigu, sem miðist við helming áætlaðra tekna þess síðarnefnda vegna leigu á aðstöðu fyrir fjarskiptastöðvar í skúrnum, er aftur taki mið af gjaldskrá Landssíma Íslands hf. og leigugjaldi af aðstöðu fyrir sex slíkar stöðvar. Sé málið höfðað til heimtu greiðslu samkvæmt reikningum þessum.
Í greinargerð fyrir héraðsdómi telur varnaraðili að málavaxtalýsing í stefnu sé ófullkomin og gefi ekki rétta mynd af atvikum máls. Hafi skúr til að hýsa aðstöðu til fjarskipta verið reistur á Kröflufjalli á árunum 1976 til 1977 enda sé allri orkuvinnslu Kröfluvirkjunar og flutningi raforku stýrt úr stjórnstöð Landsvirkjunar í Reykjavík og fjarskipti því nauðsynleg orkuvinnslu á svæðinu. Þá sé símsamband nauðsynlegt vegna reksturs virkjunarinnar og hafi Landsvirkjun því frá upphafi heimilað Landssíma Íslands að setja upp tæki í skúrnum ásamt loftneti fyrir NMT farsímakerfi og síðar GSM farsímakerfi. Þá hafi Landsvirkjun heimilað uppsetningu loftnets fyrir svonefnt Tetra-kerfi og loks hafi björgunarsveit á svæðinu fengið að setja upp loftnet. Um 1990 hafi skúrinn verið endurnýjaður og enn með traustara húsi á síðasta áratug fyrri aldar. Því sé ranglega haldið fram í stefnu að varnaraðili hafi komið upp þessari aðstöðu á Kröflufjalli. Það hafi Landsvirkjun gert og síðan afhent varnaraðila. Hafi hann ekki bætt við húsakost „frá því hann tók við aðstöðunni í upphafi árs 2001.“ Ekki eru gögn í málinu um þetta framsal Landsvirkjunar til varnaraðila eða hvaða réttindi eða skyldur hafi fylgt því. Eftir framsal aðstöðunnar til varnaraðila hafi hann ákveðið að innheimta gjald vegna framangreindra afnota Landssíma Íslands hf. og Tetraísland ehf. Fjarskiptafélags en afnot björgunarsveitarinnar séu endurgjaldslaus.
Varnaraðili reisir frávísunarkröfu sína á því að umboð sóknaraðila til málshöfðunar þessarar sé ófullnægjandi. Í hinum kærða úrskurði er rakið hvaða gögn lágu fyrir héraðsdómi um málsóknarumboð þinglýstra eigenda Reykjahlíðar til sóknaraðila vegna höfðunar máls þessa. Með bréfi 30. mars 2004 lagði sóknaraðili fyrir Hæstarétt viðbótargögn um þetta atriði. Er þar annars vegar um að ræða umboð Jóns Ármanns Péturssonar til sóknaraðila 24. mars 2004, þar sem meðal annars er staðfest umboð til sóknaraðila til að höfða þetta mál. Hins vegar lagði sóknaraðili fram leyfi til einkaskipta á búi Maríu S. Þorsteinsdóttur 9. febrúar 2004 ásamt umboðum erfingja hennar, þeirra Bryndísar Jónsdóttur og Ólafs H. Jónssonar, frá 24. mars 2004 til sóknaraðila til höfðunar máls þessa. Verður ekki betur séð af gögnum málsins en að þar með liggi fyrir fullnægjandi málsóknarumboð til sóknaraðila frá þinglýstum eigendum Reykjahlíðar.
Þá reisir varnaraðili frávísunarkröfu sína á því að efnisleg úrlausn málsins varði hagsmuni Landsvirkjunar og íslenska ríkisins með þeim hætti að aðild þeirra að málinu sé nauðsynleg. Þar sem málinu sé ekki jafnframt beint gegn þeim beri að vísa því frá dómi samkvæmt 2. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991. Eins og að framan er rakið eru ekki í málinu gögn um hvaða réttindi eða skyldur fylgdu framsali Landsvirkjunar á hinum umdeildu fjarskiptamannvirkjum til varnaraðila en óumdeilt er að hann fékk þessi mannvirki framseld frá Landsvirkjun. Beinir sóknaraðili kröfu sinni að varnaraðila vegna nýtingar þeirra mannvirkja. Verður að fallast á það með héraðsdómi að eins og málið liggur fyrir séu ekki efni til að vísa því frá af þessum sökum.
Loks reisir varnaraðili frávísunarkröfu sína á því að málið sé svo vanreifað af hálfu sóknaraðila að í bága brjóti við 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991. Fallast má á það með varnaraðila, með vísan til þess sem að framan er rakið, að lýsing sóknaraðila á málsatvikum í stefnu sé ekki svo skilmerkileg sem skyldi. Þá er ekki ljóst af málatilbúnaði sóknaraðila hvort hann telur endurgjaldslaus afnot Landsvirkjunar af umræddum fjarskiptabúnaði varnaraðila óheimil og því grundvöll fjárkröfu. Í aðalatriðum er grundvöllur málatilbúnaðar sóknaraðila þó skýr. Hann krefur varnaraðila um greiðslu fyrir afnot af landi eða landsgæðum, sem ekki falli undir þær heimildir, sem landeigendur hafi afsalað sér með fyrrgreindum samningi við íslenska ríkið 18. mars 1971. Þá byggir sóknaraðili fjárhæð kröfu sinnar á tveimur reikningum, sem fram voru lagðir við þingfestingu málsins. Í stefnu er gerð grein fyrir því á hvaða forsendum reikningar þessir eru reistir. Eru því ekki efni til að vísa málinu nú frá dómi af þessum sökum.
Að gættu því sem að framan greinir ber að fella hinn kærða úrskurð úr gildi og leggja fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. Verður varnaraðili dæmdur til að greiða sóknaraðila málskostnað í héraði vegna þessa þáttar málsins ásamt kærumálskostnaði, sem er ákveðinn í einu lagi eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og er lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.
Varnaraðili, Fjarski ehf., greiði sóknaraðila, Landeigendum Reykjahlíðar ehf., samtals 150.000 krónur í málskostnað í héraði og kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. febrúar 2004.
I
Mál þetta var höfðað 25. október 2003 og tekið til úrskurðar um frávísunarkröfu stefnda þann 23. febrúar 2004.
Stefnandi er Landeigendur Reykjahlíðar ehf., kt. 550402-3860, Reykjahlíð, Mývatni en stefndi er Fjarski ehf., kt. 561000-3520, Bústaðarvegi 7, Reykjavík.
Dómkröfur stefnanda eru að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 2.113.000 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 1.716.000 krónum frá 19. apríl 2003 til 3. október 2003 en af 2.112.000 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar.
Dómkröfur stefnda eru þær aðallega að máli þessu verði vísað frá dómi. Til vara krefst hann þess að hann verði sýknaður af öllum dómkröfum stefnanda og til þrautavara að dómkrafa stefnanda verði lækkuð verulega og vaxtakrafa felld niður eða lækkuð. Í öllum tilvikum krefst stefndi málskostnaðar.
Í þessum þætti málsins er eingöngu til umfjöllunar krafa stefnda um frávísun og krefst stefnandi þess að þeirri kröfu verði hafnað og málskostnaðarákvörðun bíði efnisdóms í málinu.
II
Með samningi 18. mars 1971 sömdu eigendur jarðarinnar Reykjahlíðar í Skútustaðahreppi, Suður-Þingeyjasýslu, við íslenska ríkið um frjáls umráð og ráðstöfun íslenska ríkisins á jarðhitaréttindum í landi Reykjahlíðar gegn því að eigendurnir fengju ákveðið magn af heitu vatni þeim að kostnaðarlausu. Í kjölfar samningsins var hafist handa við byggingu Kröfluvirkjunar á umræddri jörð.Þann 26. júlí 1985 var undirritaður samningur milli ríkisstjórnar Íslands og Landsvirkjunar um kaup þess síðarnefnda á Kröfluvirkjun ásamt tilheyrandi gufuöflunarvirkjum og orkuveitum og tók Landsvirkjun við Kröfluvirkjun 1. janúar 1986.Óumdeilt er að stefndi er félag í eigu Landsvirkjunar sem stofnað var á árinu 2000 og er tilgangur félagsins að reka og leigja aðgang að flutningskerfi fjarskipta sem tekur til landsins alls. Eins og fram kemur í gögnum málsins var á árunum 1976-1977 settur skúr á Kröflufjall með fjarskiptabúnaði. Á árinu 1990 var skúrinn orðinn illa farinn og var endurnýjaður. Með leyfi frá byggingarnefnd Skútustaðahrepps 1. nóvember 2000 byggði svo Landsvirkjun þann fjarskiptaskúr sem um er fjallað í þessu máli og við hann stendur lágt fjarskiptamastur. Landsvirkjun hefur síðan framselt stefnda fjarskiptaskúr þennan. Þann 12. desember 2000 kærði Sigfús Illugason, fyrir hönd eigenda og ábúenda, fyrrgreinda ákvörðun byggingarnefndar Skútustaðahrepps, að veita leyfi til byggingar skúrsins, til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, en sú kæra hefur ekki fengið meðferð úrskurðarnefndarinnar. Stefnandi kveður ástæðu þess vera þá að hann hafi beitt sér fyrir því að framangreindri kæru væri frestað til að reyna sættir með aðilum en stefndi kveður stefnanda hafa dregið kæruna til baka.Fram kemur hjá stefnda að haustið 2002 hafi undirstöður fjarskiptamastursins, sem stendur við fjarskiptaskúrinn, gefið sig. Sé slíkt mastur forsenda þess að rekstraröryggi framleiðslu- og dreifikerfis Landsvirkjunar sé nægilega tryggt. Kveðst stefndi hafa ætlað að reisa nýtt mastur á sama stað og hafi hann fengið til þess leyfi skipulagsyfirvalda með fyrirvara um samþykki landeigenda. Það leyfi hafi ekki fengist og því hafi hann fallið frá frekari áformum um að reisa stærra mastur og ákveðið þess í stað að endurreisa það gamla.
Stefndi kveðst hafa verið tilbúinn að semja um leigugreiðslur vegna nýs masturs sem hann hafi ekki getað byggt vegna þess að ekki hafi náðst samkomulag við stefnanda. Hann neitar alfarið þeirri fullyrðingu stefnanda að hann hafi ljáð máls á því að greiða leigu fyrir þá aðstöðu sem hann hafi á Kröflufjalli, en sú aðstaða sé sú sama og Landsvirkjun hafi áður haft.
Í máli þessu er stefnandi að krefja stefnda um leigugjald vegna afnota af landi stefnanda fyrir fjarskiptaskúr sem stefnandi heldur fram að sé aukatekjulind fyrir stefnda, sem sé algerlega óháð samningi landeigenda og ríkisstjórnarinnar frá 1971 og samningi ríkisstjórnarinnar og Landsvirkjunar frá 1985. Sé þessi starfsemi stefnda óheimil án samþykkis stefnanda.
Eins og rakið hefur verið er í þessum þætti málsins eingöngu til umfjöllunar krafa stefnda um frávísun málsins.
III
Stefnandi byggir mál sitt á því að umbjóðendur hans séu þinglýstir eigendur jarðarinnar Reykjahlíðar í Suður-Þingeyjarsýslu. Sem eigendur jarðarinnar hafi þeir einkaforræði á því sem byggt sé á landi þeirra og vilji aðrir nýta sér það verði slíkt að gerast með þeirra samþykki.Kveður stefnandi að Landsvirkjun, eigandi stefnda, hafi einungis aðstöðurétt að landi stefnanda til þess að nýta þar jarðvarma. Í samningi milli eigenda Reykjahlíðar og íslenska ríkisins frá 1971 hafi ekki verið samið um rétt Landsvirkjunar eða dótturfélaga þess til að nýta landið undir fjarskiptaþjónustu. Stefnandi telur hins vegar að Landsvirkjun hafi skýlausan rétt til að reka fjarskiptaskúr undir eigin þjónustu ef það sé nauðsynlegt til nýtingar jarðhita Reykjahlíðar. Hins vegar sé ljóst að fjarskiptaskúr stefnda, sem reistur hafi verið í skjóli réttinda Landsvirkjunar, hafi ekki verið nýttur í þágu jarðhitavinnslu. Sé skúrinn aukatekjulind fyrir stefnda algerlega óháð samningi landeigenda og ríkisstjórnarinnar frá árinu 1971 og samningi ríkisstjórnarinnar og Landsvirkjunar frá árinu 1985. Sé því um að ræða starfsemi sem stefnda sé óheimilt að stunda á landi stefnanda án hans samþykkis.Stefnandi kveðst þó ekki ætla að krefjast þess að umræddur fjarskiptaskúr verði fjarlægður með beinni aðfarargerð heldur geri hann kröfu um eðlilega þóknun fyrir afnot af landi umbjóðenda sinna. Miðist stefnufjárhæðin við það gjald sem stefndi taki af viðskiptavinum sínum vegna þeirrar aðstöðu sem hann sjálfur leigi út til sinna viðskiptavina. Landssíminn leigi út svipaða aðstöðu í fjarskiptaskúrum sínum á 22.000 krónur á mánuði og megi fastlega gera ráð fyrir að stefndi leigi aðstöðu sína á sambærilegu verði. Í fjarskiptaskúr stefnda sé aðstaða fyrir allt að 6 fjarskiptastöðvar. Mánaðartekjur stefnda af fjarskiptaskúrnum nemi því 132.000 krónum á mánuði fyrir leigu á aðstöðu auk þess sem stefndi leigi út bandbreiddir um fjarskiptanet sitt. Gera megi ráð fyrir að stefndi hafi verulegar aukatekjur af þeirri starfsemi til viðbótar fyrrgreindu aðstöðugjaldi.Að virtum áætluðum tekjum stefnda af fjarskiptaskúrnum telur stefnandi sanngjarnt og eðlilegt að stefndi greiði sem samsvari leigu fyrir aðstöðu á þrem fjarskiptastöðvum, eða 66.000 krónur á mánuði sbr. 37. gr. húsaleigulaga nr. 36/1994. Leigutímabil sé frá janúar 2001 til ágúst 2003 eða 32 mánuðir og nemi krafan því 2.112.000 krónum.Stefnandi kveður að í 1. mgr. 45. gr. laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup komi fram sú meginregla að ef kaup séu gerð án þess að kaupverðið leiði af samningi skuli kaupandi greiða fyrir söluhlut það gangverð sem sé á sams konar hlutum, seldum við svipaðar aðstæður, við samningsgerðina enda sé verðið ekki ósanngjarnt. Ef ekki sé um neitt slíkt gangverð að ræða skuli kaupandi greiða það verð sem sanngjarnt sé miðað við eðli hlutar, gæði og atvik að öðru leyti og sé umstefnd fjárhæð óumdeilanlega sanngjörn greiðsla. Sé fjarskiptaskúrinn á landfræðilega mikilvægum stað fyrir fjarskiptanet stefnda og tekjur hans af honum miklar. Hafi stefndi ekki mótmælt þessari fjárhæð eftir að honum hafi verið sent innheimtubréf. Hefði hann talið fjárhæðina ósanngjarna hafi honum borið að upplýsa stefnendur um það án tafar og leggja fram gögn því til sönnunar og þar sem hann hafi ekki gert það verði hann að bera hallann af tómlæti sínu sbr. 2. mgr. 10. gr. laga nr. 36/1994.Stefnandi kveður málið höfðað á hendur réttum aðila enda sé stefndi handhafi fjarskiptaskúrsins sem um er fjallað í máli þessu. Hins vegar séu hvorki Landsvirkjun né íslenska ríkið handhafar skúrsins og hafi því enga hagsmuni í málinu. Því sé réttum aðila stefnt. Um lagarök að öðru leyti en rakið hefur verið vísar stefnandi til meginreglu eignaréttar um einkaforræði þinglýsts eiganda á landi sínu. Varðandi vaxtakröfu sína vísar stefnandi til 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, sbr. 3. mgr. 5. gr. laganna. Kröfu sína um málskostnað styður stefnandi við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 og um varnarþing vísar hann til 33. gr. þeirra laga.IV
Frávísunarkröfu sína byggir stefndi á því að málatilbúnaður stefnanda uppfylli ekki skilyrði laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 og sé hann því ekki tækur til efnismeðferðar.Í fyrsta lagi byggir stefndi á því að aðrir en stefndi eigi beina og lögvarða hagsmuni af niðurstöðu máls þessa. Stefnandi byggi í máli þessu á samningi landeigenda Reykjahlíðar og íslenska ríkisins frá 1971 og samningi þess síðarnefnda við Landsvirkjun frá 1985, sbr. lög nr. 21/1974 og síðar lög nr. 102/1985. Þá bendir stefndi á 6. gr. laga um Landsvirkjun nr. 42/1983 og 2. gr. laga um virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal og stækkun Kröfluvirkjunar nr. 38/2002. Viðurkenni stefnandi berum orðum í stefnu skýlausan rétt Landsvirkjunar til að reka fjarskiptaskúr á Kröflufjalli ef það sé nauðsynlegt til nýtingar jarðhitans. Sé nauðsynlegt að fjarskiptasamband sé til staðar til stjórnunar á öllu orkukerfi Landsvirkjunar, þar með talið við Kröfluvirkjun.Stefndi telur einnig að símasamband sé nauðsynlegt og hafi Landsvirkjun því í upphafi heimilað Landssíma Íslands hf. að setja upp tæki í fjarskiptahúsinu ásamt loftneti vegna NMT farsímakerfis og síðar GSM farsímakerfis. Hafi Landsvirkjun verið nauðsynlegt að hafa símasamband á svæðinu en að auki hafi íbúar og ferðalangar á þessu svæði notið góðs af þessum sendum. Þá hafi Landsvirkjun heimilað uppsetningu loftnets fyrir Tetra-kerfi sem fyrirtækið noti í öryggisskyni og björgunarsveit á svæðinu hafi fengið að setja loftnet endurgjaldslaust í mastrið. Hér beri að hafa í huga þágildandi ákvæði 51. gr. fjarskiptalaga nr. 107/1999 nú efnislega samhljóða ákvæði 25. gr. fjarskiptalaga nr. 81/2003 sem beinlínis hvetji til og mæli með samnýtingu fjarskiptamannvirkja á afréttum og almenningum líkt og hér um ræði.Þegar Landsvirkjun hafi framselt stefnda fjarskiptahúsið á Kröflufjalli hafi verið ákveðið að stefndi innheimti gjald vegna framangreindrar aðstöðu Landssímans og Tetra til að samræmis væri gætt. Sé það í samræmi við framangreind ákvæði fjarskiptalaga. Samkvæmt verðskrá stefnda sé gjald vegna aðstöðu í fjarskiptastöðinni á Kröflufjalli 7.238 krónur án virðisaukaskatts á mánuði fyrir lítinn tækjaskáp en 9.734 krónur án virðisaukaskatts fyrir stóran. Við þetta bætist síðan greiðsla fyrir raforkunotkun og greiðsla fyrir loftnet í mastri háð fjölda þeirra. Með vísan til framangreinds hafi Landsvirkjun og síðar stefnda ekki verið stætt á öðru en að leyfa samnýtingu á fjarskiptamannvirkjum þeim sem reist hafi verið eingöngu vegna nýtingar jarðhita við Kröflu. Sé ljóst að landeigendur hafi ekki beðið neitt tjón af þessari samnýtingu og sé nýting landsins ekki umfangsmeiri fyrir vikið.Í stefnu komi fram að stefnandi ætli ekki að láta fjarlægja fjarskiptaskúrinn enda ekki líklegt að hann hefði árangur sem erfiði. Hins vegar telur stefndi ljóst að slík aðgerð myndi varða beina og lögvarða hagsmuni Landsvirkjunar sem með samningum og heimildum í lögum nýti jarðhita á svæðinu til raforkuframleiðslu. Slíkt kynni einnig að varða hagsmuni íslenska ríkisins sem sé viðsemjandi landeigenda Reykjahlíðar um nýtingu jarðhitaréttinda. Verði í dómi talið að stefnda beri að greiða landeigendum fyrir þá aðstöðu sem veitt sé Landssímanum og Tetra kunni stefndi að grípa til þess ráðs að loka umræddum sendum og yrði Landsvirkjun þá að koma upp símkerfi á sinn kostnað og varði það beina hagsmuni fyrirtækisins.Stefnandi krefji stefnda um greiðslu vegna notkunar lands umbjóðenda hans. Málinu beini hann aðeins að stefnda en ekki Landsvirkjun sem þó augljóslega sé handhafi þeirra réttinda sem hér um ræðir til notkunar landsins. Stefndi annist þjónustu við Landsvirkjun á svæðinu í skjóli heimildar Landsvirkjunar til starfsemi á svæðinu. Heimild Landsvirkjunar byggist á samningi íslenska ríkisins og þeim rétti sem íslenska ríkið telji sig njóta samkvæmt þeim samningi. Sá hluti sem hér sé deilt um verði ekki skilinn frá þeim rétti sem að framan greini án þess að Landsvirkjun og íslenska ríkið eigi þess kost að koma að sínum sjónarmiðum. Hefði stefnandi því átt að stefna Landsvirkjun í máli þessu enda eigi það fyrirtæki einstakra, beinna og lögvarinna hagsmuna að gæta af úrlausn málsins og því verði ekki leyst úr málinu fyrir dómstólum án þess að þar eigi aðild sá sem kunni að eiga slíka hagsmuni. Sama eigi við um íslenska ríkið. Með því að stefndi hafi ekki gætt þess að beina kröfum sínum að þeim aðilum sé slíkur galli á málsókn hans að óhjákvæmilegt sé samkvæmt 2. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991 að vísa málinu frá héraðsdómi.Fallist dómurinn ekki á að málinu verði vísað frá af þessum sökum krefst stefndi þess að stefnanda verði gert að sýna sérstaklega fram á það að viðkomandi aðili eigi ekki lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins.Í öðru lagi byggir stefndi frávísunarkröfu sína á umboðsskorti stefnanda. Hafi hann ekki sýnt fram á það með fullnægjandi hætti að hann hafi heimild til að hafa uppi kröfur fyrir landeigendur Reykjahlíðar. Stefnandi hafi framvísað málssóknarumboði þar sem fram komi að landeigendur Reykjahlíðar veiti stefnanda umboð til að reka mál þetta. Undir skjalið riti eigendur Reykjahlíðar og sé ritað fyrir hönd þriggja eigenda og séu þau umboð sem stefnandi hafi nú lagt fram eftir að greinargerð stefnda var lögð fram ekki fullnægjandi umboð. Telur stefndi því málsóknarumboðið ófullnægjandi. Í þriðja lagi byggir stefndi frávísunarkröfu sína á því að lýsing málsástæðna stefnanda og annarra atvika sé svo óskýr og ófullkomin í stefnu að henni beri að vísa frá dómi með vísan til 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991. Sé stefnufjárhæðin byggð á gjaldi sem stefnandi telji stefnda taka af viðskiptavinum sínum vegna þeirrar aðstöðu sem leigð sé út til þeirra. Í því sambandi vísi stefnandi til gjaldskrár Landssíma Íslands en ekki til gjaldskrár stefnda. Haldi stefnandi því fram að sanngjarnt sé og eðlilegt að honum verði greiddur helmingur af þeim tekjum sem hann áætli að stefndi hafi af fjarskiptahúsinu á Kröflu. Taki stefnandi ekkert mið af kostnaði við rekstur stefnda né kostnaði við að byggja húsið. Hér sé um að ræða óvenju háa kröfu sem sé einhliða ákveðin af stefnanda. Þrátt fyrir það geri stefnandi ekki reka að því að útskýra eða sundurliða kröfu sína að öðru leyti en því að vísa til gjaldskrár Landssíma Íslands, 37. gr. húsaleigulaga nr. 36/1996 og 1. mgr. 45. gr. lausafjárkaupalaga nr. 45/2000. Haldi stefnandi því fram að um óumdeilanlega sanngjarna kröfu sé að ræða en leggi hvorki fram útreikninga né mat sérfróðra aðila eða annarra sem stutt gætu fullyrðingu stefnanda. Þá sé ekki vikið einu orði að því í stefnu að hve miklu leyti stefnandi telji starfsemi stefnda vera umfangsmeiri en sambærileg starfsemi Landsvirkjunar til þess tíma er stefndi hafi tekið við þeirri starfsemi. Stefnandi viðurkenni að Landsvirkjun hafi skýlausan rétt til þeirrar starfsemi og liggi því ljóst fyrir að stefnandi telji ekki að Landsvirkjun hefði borið að greiða aukalega fyrir þá starfsemi þrátt fyrir að hafa byggt á því á fyrri stigum málsins. Stefnandi hafi ekki sýnt fram á með gögnum eða öðrum rökum að um mun á starfsemi sé að ræða og þá hvernig meta skuli hann til fjár. Þá hafi stefnandi ekki útskýrt breytta afstöðu sína til heimildar Landsvirkjunar til fjarskiptaþjónustu á svæðinu. Sé málsatvikalýsing stefnanda einhliða sett fram og villandi. Stefndi telur málatilbúnað stefnanda brjóta gegn ákvæðum e liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991. Séu svo stórfelldir annmarkar á málatilbúnaði og röksemdafærslu stefnanda að vísa beri málinu frá dómi.VStefndi telur að Landsvirkjun og íslenska ríkið eigi einstakra, beinna og lögvarinna hagsmuna að gæta af úrlausn máls þessa og verði þeir því að eiga aðild að málinu og þar sem þess hafi ekki verið gætt sé óhjákvæmilegt samkvæmt 2. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991 að vísa málinu frá.
Stefnandi vísar í málatilbúnaði sínum til samninga þeirra sem landeigendur gerðu við íslenska ríkið á árinu 1971 og síðan samningi þar sem íslenska ríkið seldi Landsvirkjun Kröfluvirkjun á árinu 1985. Landsvirkjun framseldi stefnda fjarskiptaskúr þann sem um er fjallað í máli þessu en ekkert liggur fyrir um hvaða réttindi fylgdu með í því framsali. Eins og kröfugerð stefnanda er háttað virðist hann byggja á nýtingu stefnda á fjarskiptaskúr sem óumdeilt er að stefndi hefur fengið framseldan frá Landsvirkjun. Verður því ekki séð eins og mál þetta liggur fyrir dóminum að réttindi þau sem um er deilt í máli þessu varði hagsmuni Landsvirkjunar eða íslenska ríkisins þannig að aðild þeirra sé nauðsynleg í málinu.
Eins og fram kemur í gögnum málsins er stefnandi einkahlutafélag sem stofnað var af öllum þinglýstum eigendum eignarhluta í jörðinni Reykjahlíð í Skútustaðahreppi, Suður-Þingeyjasýslu og er tilgangur félagsins meðal annars að hagnýta náttúruauðlindir í landi Reykjahlíðar. Í málinu liggur frammi sérstakt málsóknarumboð þinglýstra landeigenda í Reykjahlíð til stefnanda til höfðunar málsins. Undir umboðið er skrifað fyrir hönd þriggja eigenda, þeirra Þuríðar Sigurðardóttur, Jóns Ármanns Péturssonar og Maríu Þorsteinsdóttur. Við þingfestingu málsins voru umboð þessara þriggja ekki lögð fram en bætt var úr því eftir að greinargerð stefnda lá fyrir og í þinghaldi þann 28. janúar 2004 voru þau lögð fram.Umboð Þuríðar Sigurðardóttur var gefið út 29. maí 1999 og samkvæmt því er Sigurði Jónasi Þorbergssyni veitt allsherjarumboð til að sjá meðal annars um allar eignir og innheimtu útistandandi skulda. Umboð Jóns Ármanns Péturssonar er gefið út í apríl 2003 til Péturs Gíslasonar þar sem honum er gefið umboð til að fara með atkvæði á fundum stefnanda. Þá er umboð Maríu Þorsteinsdóttur gefið út 18. nóvember 1996 til Ólafs H. Jónssonar þar sem honum er veitt umboð til að sjá um eignir og samninga og fara með atkvæði á fundum hjá Landeigendafélagi Reykjahlíðar. Við munnlegan málflutning um frávísunarkörfuna kom fram að umboðsgjafinn María Þorsteinsdóttir væri látin og skiptum á dánarbúi hennar væri ekki lokið. Liggur ekki fyrir í málinu samþykki dánarbúsins fyrir málarekstri þessum og fullnægjandi umboð fyrir undirskrift á málsóknarumboð fyrir hönd Jóns Ármanns Péturssonar skortir.Þrátt fyrir þessa ágalla þykja þeir vera þess eðlis að úr þeim megi bæta við meðferð málsins og leiða þeir því ekki til frávísunar málsins.Stefndi telur málatilbúnað stefnanda brjóta gegn ákvæðum e liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991. Í tilvitnuðu ákvæði segir að í stefnu skuli greina svo glöggt sem verða megi málsástæður sem stefnandi byggi málsókn sína á, svo og önnur atvik sem þurfi að greina til þess að samhengi málsástæðna verði ljóst og skal þessi lýsing vera gagnorð og svo skýr að ekki fari milli mála hvert sakarefnið sé.Stefnandi byggir á því að stefndi sé að nýta land hans án hans samþykkis. Þá kemur einnig fram hjá stefnanda að aldrei hafi verið samið um það við Landsvirkjun eða stefnda að þeir mættu nýta landið til fjarskiptaþjónustu. Þrátt fyrir þessa fullyrðingu kveður stefnandi að Landsvirkjun hafi skýlausan rétt til að reka fjarskiptaskúr undir eigin þjónustu ef það sé nauðsynlegt til nýtingar á jarðhita. Má ráða af málatilbúnaði stefnanda að hann telji að stefndi nýti umræddan fjarskiptaskúr með öðrum hætti en Landsvirkjun gerði en engin gögn liggja frammi um það hvort og þá hvernig nýting stefnda er öðruvísi. Er málatilbúnaður stefnanda að þessu leyti óskýr og erfitt að henda reiður á það á hvaða málsástæðum stefnandi byggir málsókn sína á hendur stefnda.Stefnandi telur sig sem eiganda lands þess, sem umræddur fjarskiptaskúr stendur á, eiga rétt á eðlilegri þóknun fyrir afnot stefnda af landinu. Fjárhæð kröfu sinnar rökstyður stefnandi með gögnum sem varða allt aðra aðstöðu en þá sem hér er fjallað um og telur hann að gera megi ráð fyrir að stefndi leigi út aðstöðu sína á sambærilegu verði og þar kemur fram og gera megi ráð fyrir að stefndi hafi verulegar aukatekjur af starfsemi sinni. Þykir stefnandi ekki hafa sýnt nægilega fram á grundvöll og fjárhæð meintra krafna sinna á hendur stefnda. Brestur mjög á að krafa hans sé rökstudd nægilega og studd viðhlítandi gögnum til þess að á hana verði lagður efnisdómur. Eins og málið er lagt fyrir dóminn verður að telja skýringar stefnanda á kröfum sínum og röksemdum ófullnægjandi og til þess fallnar að takmarka varnir stefnda. Þessi framsetning málsins og skortur á rökstuðningi leiðir til þess að málið er vanreifað af hálfu stefnda. Þykir málatilbúnaðurinn svo óskýr að ekki fái samrýmst e lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991, en það er grundvallarregla íslensks réttar að sá sem krefst réttinda sér til handa í dómsmáli verði að gera skýra grein fyrir þeim.
Þegar allt ofangreint er virt eru slíkir annmarkar á málatilbúnaði stefnanda að óhjákvæmilegt er að verða við kröfu stefnda um að vísa málinu frá dómi.
Eftir þessum úrslitum verður stefnandi dæmdur til að greiða stefnda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 100.000 krónur.
Af hálfu stefnanda flutti málið Guðmundur Ingvi Sigurðsson hdl. en af hálfu stefnda flutti málið Þórður Bogason hdl.
Greta Baldursdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Máli þessu er vísað frá dómi.
Stefnandi, Landeigendur Reykjahlíðar ehf., greiði stefnda, Fjarska ehf. 100.000 krónur í málskostnað.