Hæstiréttur íslands
Mál nr. 354/2012
Lykilorð
- Kynferðisbrot
- Skaðabætur
|
|
Fimmtudaginn
1. nóvember 2012. |
|
Nr. 354/2012. |
Ákæruvaldið (Kolbrún
Benediktsdóttir saksóknari) gegn Jóhanni Inga Gunnarssyni (Ólafur Rúnar Ólafsson hrl.) (Þyri Steingrímsdóttir hrl. réttargæslumaður) |
Kynferðisbrot. Skaðabætur.
X var
sakfelldur fyrir kynferðisbrot með því að hafa haft samræði og önnur
kynferðismök við A og við það notfært sér að hún gat ekki spornað við
verknaðinum sökum ölvunar og svefndrunga, sbr. 2. mgr. 194. gr. almennra
hegningarlaga nr. 19/1940. Var refsing X ákveðin fangelsi í tvö ár. Þá var
honum gert að greiða A 1.000.000 krónur í miskabætur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús
Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson, Gunnlaugur Claessen, Helgi I. Jónsson og
Viðar Már Matthíasson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til
Hæstaréttar 2. maí 2012 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu
ákæruvaldsins er þess krafist að refsing ákærða verði þyngd.
Ákærði krefst aðallega ómerkingar hins
áfrýjaða dóms og að málinu verði vísað heim í hérað til aðalmeðferðar og
dómsálagningar að nýju. Til vara krefst hann sýknu af kröfum ákæruvaldsins og
að einkaréttarkröfu verði vísað frá héraðsdómi, en að því frágengnu að refsing
verði milduð og einkaréttarkrafa lækkuð.
A krefst þess að ákærða verði gert að
greiða sér 1.200.000 krónur með vöxtum eins og dæmdir voru í héraði.
I
Ákærða er gefið að sök að hafa
aðfaranótt sunnudags 26. júní 2011 haft samræði og önnur kynferðismök við A og
við það notfært sér að hún hafi ekki getað spornað við verknaðinum sökum
ölvunar og svefndrunga. Í ákæru er brotið talið varða við 2. mgr. 194. gr.
almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Ákærði viðurkennir að hafa haft samfarir
við A umrætt sinn, en ber við að hún hafi verið vakandi og samfararnir farið
fram með fullum vilja og samþykki hennar. Sjálf kveðst hún hafa sofið en vaknað
við það að höfuð hennar hafi slegist reglubundið í vegg eða rúmgafl við atgang
ákærða og þá fyrst hafi hún náð að verjast honum. Í hinum áfrýjaða dómi var komist
að þeirri niðurstöðu að A hafi vegna svefndrunga og áfengisáhrifa ekki verið
fær um að sporna gegn athöfnum ákærða. Var framburður hennar um þetta og atvik
að öðru leyti metinn trúverðugur en framburður ákærða að sama skapi
ótrúverðugur.
Í héraðsdómi var litið til ölvunar A og
annarra þátta sem máli skiptu við mat á því hvert rænustig hennar hafi verið
þegar ákærði hafði við hana samfarir. Eins og þar er lýst kom hann undir morgun
að læstum dyrum herbergis síns þar sem A hafði komið sér fyrir. Tvö vitni hafa
lýst því að hann hafi í fimm til tíu mínútur barið og sparkað í hurðina og
veggi herbergisins auk þess að hrópa og kalla á A áður en hún opnaði og hann þá
komist inn. Kvaðst hún hafa rumskað við lætin, náð að opna, en sofnað strax
aftur. Ákærði mun fljótlega eftir þetta hafa haft samfarir við A, sem eru
tilefni sakargifta á hendur honum. Óumdeilt er að hún hafi í beinu framhaldi af
þessu forðað sér klæðlítil út úr húsinu og þar skammt frá hringt í lögreglu
eftir aðstoð. Aðspurð um þann tíma sem leið frá því hún fór út úr húsinu þar
til lögregla kom að henni svaraði hún fyrir dómi að liðið hafi „kannski
korter“. Af skýrslu lögreglumanns, sem kom á vettvang, verður ráðið að útkall
hafi borist kl. 7.38. Í lögreglubíl á leið á sjúkrahús var tekið af henni
öndunarsýni og var niðurstaðan sem svaraði 0,65 af vínanda í blóði. Verður
ráðið að það hafi verið rétt fyrir klukkan 8. Blóðsýni var tekið úr henni
klukkan rúmlega 11 sama morgun og sýndi það 0,2 að teknu tilliti til vikmarka.
Að virtum þessum mælingum má ætla að magn vínanda í blóði A hafi verið 0,70
til 0,80 á því tímamarki er ákærði hafði við hana samfarir, en þá er annars
vegar litið til líklegrar tímalengdar frá ætluðu broti ákærða þar til mælt var
og hins vegar niðurbrots vínanda úr blóði hennar á um þremur klukkustundum
milli mælinga, sem og almennrar þekkingar og reynslu um niðurbrot vínanda úr
blóði.
II
Í skýrslu fyrir héraðsdómi kom fram hjá
A að hún hafi vaknað að morgni laugardags 25. júní 2011 með tæplega tveggja ára
gamalli dóttur sinni, sem væri „svo sem árrisul eins og börn eru.“ Verður miðað
við að hún hafi vakað í um sólarhring þegar það atvik varð sem málið er
sprottið af. Fram er komið að þennan sama laugardag hafi hún og vinir hennar
keypt áfengi í vínbúð, en hún kvað þau öll hafa hafið áfengisdrykkju um kl. 17
og hafi hún drukkið bæði bjór og vín. Síðan hafi verið haldið annað og þau öll
drukkið þar enn meira vín og bjór og nokkur „skot“ verið tekin. Sjálf hafi hún
drukkið „jafnvel fleiri en þrjú“ slík. Eftir það hafi hún og tveir vinir hennar
þegið boð ákærða um að halda gleðskapnum áfram á heimili hans. Þegar þar var
komið eru tímasetningar á reiki, en ákærði taldi þau hafa farið þangað „kannski
3 til 4“ um nóttina, en vitnið C, sem var með í för, nefndi tímasetninguna
„svona tvö, þrjú, ég er ekki alveg viss.“ Allir samkvæmisgestirnir fóru í
heitan pott við húsið sem mun hafa gerst fljótt eftir komu þeirra. A og öðrum
vitnum bar saman um að áfengisbirgðir hafi verið teknar með á staðinn og C
lýsti því svo að „við vorum alveg með helling af víni með okkur ... sterkt og
bjór.“ Þau sögðust hafa drukkið áfengi í pottinum, en A kvaðst eingöngu hafa
drukkið bjór þegar þar var komið og gert það ótæpilega. Af framburði ákærða og
vitna, svo og áðurnefndum tímasetningum snemma næsta morguns, er ljóst að þau
hafi öll dvalið í heita pottinum í að minnsta kosti tvær klukkustundir. Auk
áfengisdrykkju er fram komið að A og tvö vitni reyktu saman einn marijuana vindling í pottinum. Þá lýsti A því að hitinn í
pottinum hafi magnað upp hjá henni áfengisvímu og þreytu. Kvað hún ástand sitt
í lokin hafa verið orðið þannig að hún „varð að komast að sofa.“ Fór A úr heita
pottinum inn í húsið í sturtu og ákærði á eftir henni, þar sem kynferðisleg
samskipti urðu milli þeirra eins og lýst er í héraðsdómi. Hún kvaðst hafa
bundið endi á þau og gert ákærða „mjög ljóst“ að hún samþykkti ekki að ganga
lengra en orðið var. Sú afstaða hennar hafi enn frekar verið undirstrikuð með
því að læsa herbergisdyrunum áður en hún lagðist til svefns. Hún hafi eftir það
verið „dauð, búin, sofandi ... og ... einhvern veginn í samhengisleysu fyrir
mér þá heyri ég mikil læti ... það er mikill hávaði ... svo þegar ég vakna þá
er ... ekkert í ... samhengi annað en bara hvaða læti eru þetta og ég stend upp
og opna og svo leggst ég bara aftur niður ... ég veit ekki einu sinni hvort ég
opnaði almennilega augun“.
Ákærði bar að allir þátttakendurnir í
gleðskapnum hafi verið ölvaðir. Vitnið C sagði að A hafi verið „blindfull eins
og ég“ og að „þessi jóna bætti nú ekki alveg úr skák“. Vitnið B bar að A hafi
verið „töluvert ölvuð ... þegar hún fer upp úr pottinum ... hún virðist ekkert
vera dauðadrukkin þegar hún kemur upp úr“. Fimmtán til þrjátíu mínútum síðar
hafi hann verið viðstaddur þegar A opnaði eftir hamagang ákærða og sagði B hana
hafa opnað „rifu þarna á hurðinni og hún var þá alveg steinsofandi ábyggilega,
ég sá það alveg greinilega á henni.“ C, sem stóð þar hjá, lýsti þessu svo að A
hafi opnað dyrnar og greinilega verið illa áttuð, en „þá fór hún bara aftur inn
og lagðist“.
Að framan var lýst mati A á
ölvunarstigi sínu og ástandi að öðru leyti þegar þarna var komið. Héraðsdómur
mat framburð hennar trúverðugan um að hún hafi ekki getað spornað við athæfi
ákærða vegna ölvunar og svefndrunga. Ganga má út frá því að auk ölvunar hafi
svefnleysi í heilan sólarhring, þreyta, fíkniefnaneysla og áhrif heita pottsins
á líkamsstarfsemi, hvert um sig og allt í senn, stuðlað að þeim höfga og svefni
sem hún kveðst hafa fallið í. Að virtu öllu framanröktu eru ekki efni til að
hrófla við mati héraðsdóms á trúverðugleika framburðar A um þetta. Verður
samkvæmt því, sem fram er komið, ekki litið svo á að ósamræmi sé í
framangreindri lýsingu á ástandi hennar þegar brotið var framið og upplýsingum
um vínandamagn í blóði hennar eftir þeim mælingum, sem gerðar voru af lögreglu
og lækni og áður var vikið að. Samkvæmt þessu og að öðru leyti með vísan til
forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest niðurstaða hans um sakfellingu
ákærða samkvæmt ákæru, svo og um refsingu hans.
Fyrir Hæstarétt hefur verið lagt
vottorð dr. Berglindar Guðmundsdóttur sálfræðings 15. ágúst 2012 um stöðu og
líðan A frá því fyrra vottorð sama sálfræðings var gert 21. nóvember 2011. Í
vottorðinu segir að frá þeim tíma hafi A sætt meðferð vegna alvarlegra
afleiðinga sem áðurgreint atvik hafi haft á heilsu hennar. Þar kemur einnig
fram að meðferðinni verði haldið áfram, en hvorki sé unnt að segja með vissu
hve langan tíma hún muni taka né hvort bati náist. Að þessu virtu eru miskabætur
til hennar hæfilega ákveðnar 1.000.000 krónur með vöxtum og dráttarvöxtum eins
og dæmdir voru í héraði.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað
verður staðfest.
Ákærða verður gert að greiða
áfrýjunarkostnað málsins, þar á meðal ferðakostnað skipaðs verjanda síns, svo
og málsvarnarlaun verjandans og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, sem
ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti, allt eins og segir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður um
refsingu ákærða, Jóhanns Inga Gunnarssonar, og sakarkostnað.
Ákærði greiði A 1.000.000 krónur með
vöxtum eins og segir í héraðsdómi.
Ákærði greiði áfrýjunarkostnað málsins,
samtals 1.193.876 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns,
Ólafs Rúnars Ólafssonar hæstaréttarlögmanns, 815.750 krónur, ferðakostnað
verjandans, 46.310 krónur, og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Þyríar Steingrímsdóttur hæstaréttarlögmanns, 125.500
krónur.
Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 20. mars 2012.
Mál
þetta, sem dómtekið var 27. janúar sl., er höfðað með ákæruskjali
ríkissaksóknara, útgefnu 17. október 2011, á hendur Jóhanni Inga Gunnarssyni, kt. [...], [...],[...];
„fyrir
nauðgun, með því að hafa aðfaranótt sunnudagsins 26. júní 2011, á þáverandi
heimili sínu að [...] á Akureyri, haft samræði og önnur kynferðismök við A og
við það notfært sér að A gat ekki spornað við verknaðinum sökum ölvunar og
svefndrunga.
Telst
þetta varða við 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 3.
gr. laga nr. 61/2007.
Þess
er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls
sakarkostnaðar.
Einkaréttarkrafa:
Af
hálfu A, kennitala [...], er þess krafist að ákærði verði dæmdur til greiðslu
miskabóta að fjárhæð kr. 1.200.000 auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga um vexti og
verðtryggingu nr. 38/2001 frá 26. júní 2011 þar til mánuður er liðinn frá
birtingu skaðabótakröfu en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 9. gr., sbr. 1. mgr.
6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Þá er þess krafist að ákærði verði dæmdur til
greiðslu málskostnaðar að mati dómsins eða samkvæmt síðar fram lögðum
málskostnaðarreikningi að viðbættum virðisaukaskatti á málflutningsþóknun.“
Ákærði
krefst aðallega sýknu, en til vara að hann verði dæmdur til vægustu refsingar
sem lög leyfa. Þá krefst hann þess að
bótakröfu verði vísað frá, en til vara að hún verði lækkuð verulega.
Skipaður
verjandi ákærða krefst hæfilegra málsvarnarlauna.
I.
1.
Samkvæmt rannsóknargögnum, skýrslum ákærða og vitna við meðferð málsins, tókust
kynni með ákærða, Jóhanni Inga Gunnarssyni, og A haustið 2008 og varð þeim vel
til vina, en þau voru þá bæði í atvinnutengdu námi í Reykjavík. Þau luku hluta námsins á árinu 2009, en þá um
haustið eignaðist A dóttur sína, en hún var þá í sambúð með barnsföður sínum,
líkt og þegar atvik máls þessa gerðust þann 26. júní 2011.
Samkvæmt
nefndum gögnum fór A frá heimili sínu í Reykjavík laugardaginn 25. júní 2011,
ásamt vini sínum og nágranna, vitninu B, og lá leið þeirra m.a. til Akureyrar,
en þar höfðu þau ákveðið að taka þátt í hátíð samstarfsfélaga síðdegis og þá um
kvöldið. Á Akureyri bættist í hópinn
vinkona A, vitnið C, en einnig Jóhann Ingi Gunnarsson, ákærði í máli þessu. Liggur fyrir að áður en hátíðin hófst ók
ákærði A og vinum hennar í áfengisverslun og virðist þá fyrst hafa komið til
tals að þau færu öll á heimili hans og að þau gistu þar um nóttina, þar sem
annað heimilisfólk, þ. á m. foreldrar hans, væri ekki á heimilinu. Á nefndri hátíð, sem var haldin í útjaðri
bæjarins, var nokkur fjöldi gesta, en þar á meðal voru starfsfélagar ákærða og A,
en einnig aðrir gestir svo og foreldrar A.
Hófst hátíðin síðdegis með fordrykk, en að loknum hátíðarkvöldverði þá
um kvöldið og samsæti ákváðu A og nefndir vinir hennar, þ. á m. ákærði, að
halda skemmtan sinni áfram í miðbænum.
Héldu þau þar áfram áfengisneyslu, en þá um nóttina fóru þau öll með
leigubifreið að heimili ákærða, en þar héldu þau áfram skemmtan sinni í heitum
potti, á veröndinni. Verður ráðið að
komið hafi verið fram undir morgun þegar A afréð að fara úr pottinum með þeirri
ætlan að ganga til náða. Samkvæmt
skýrslum lagði A leið sína inn á baðherbergi heimilisins og fór þar í
sturtu. Er óumdeilt að ákærði fylgdi A eftir
og fór með henni inn í sturtuna.
Samkvæmt skýrslum voru vitnin C og B eftir þetta ein í heita pottinum í
15-20 mínútur eða allt þar til ákærði fór til þeirra og sagði þeim að nóg væri
komið og benti þeim í framhaldi af því á svefnherbergi í suðurenda
íbúðarhússins, gegnt fyrrnefndri verönd.
Samkvæmt gögnum hélt A, eftir viðskipti sín við ákærða í sturtunni, í
suðurenda hússins, en áhöld eru um hvort ákærði hefði strax fylgt henni þangað,
en óumdeilt er að hann tilkynnti B og C um það leyti, eins og áður sagði, að
tími væri til kominn að þau gengju til náða.
Er þannig ágreiningur með ákærða og A um hvort hún hefði fyrst haldið
til í því herbergi, sem sneri að veröndinni, og þá hvort þau hefðu átt þar í
samskiptum, áður en ákærði ræddi við C og B á veröndinni. Ágreiningslaust er hins vegar að A hafðist að
lokum við í litlu herbergi, sem samkvæmt vettvangsteikningu lögreglu er gegnt
því herbergi sem snýr að veröndinni, að hún læsti þar að sér, en jafnframt að
hún aflæsti eftir að ákærði knúði harkalega á hurðina og að hann fór þá þangað
inn til hennar, en hafði með sér dýnu.
Fyrir
liggur að A fór úr húsakynnum ákærða að morgni sunnudagsins 26. júní í
skyndingu og að hún hringdi kl. 07:37 í neyðarlínu og bað um aðstoð lögreglu
með þeim orðum að henni hefði verið nauðgað.
2.
Samkvæmt frumskýrslu lögreglu og öðrum gögnum hittu lögreglukonurnar María Jespersen og Kolbrún B. Jónsdóttir A þar sem hún var stödd
á leikvelli við [...], sem er skammt frá fyrrnefndu heimili ákærða. Í lögregluskýrslunni er því m.a. lýst að A hafi
verið í uppnámi og grátandi, að hún hafi verið klædd í dökkrauða íþróttatreyju
að ofan og í bláan bol sem hún notaði sem pils, en hún var skólaus. Segir í skýrslunni að A hafi í viðræðum við
lögreglukonurnar skýrt frá því að hún væri í fötum sem hún ætti ekki, og að hún
hefði gripið til þeirra þegar hún flúði af ætluðum brotavettvangi. Um frásögn A segir í skýrslunni að hún hafi
greint frá því að hún hefði verið í hófi í heimahúsi ásamt fleira fólki, þ. á
m.vini sínum, að hún hafi verið ölvuð og lagst til svefns í herbergi, en vaknað
við það að nefndur vinur hennar hefði verið að „eiga eitthvað við hana“. Hún hefði reiðst og hent vininum út úr
herberginu, læst að sér og sofnað aftur.
Hún hefði síðan vaknað við mikil læti og áttað síg á að nefndur vinur
var að hamast á hurðinni. Hún hefði
hleypt honum inn, en síðan sofnað á ný.
Hún hefði síðan vaknað upp á nýjan leik, en þá hefði vinurinn verið að
hafa við hana samfarir, svefndrukkna.
Hún hefði brugðist við með því að hrinda honum af sér og þá strax sakað
hann um nauðgun. Vinurinn hefði í fyrstu
orðið miður sín, en síðan neitað kæruefninu.
Hún hefði þá reiðst og í bræði sinni tekið sér skæri í hönd með þeirri
ætlan að klippa af honum typpið, en náð áttum og í framhaldi af því rokið út úr
húsinu og hringt á neyðarlínuna eftir aðstoð.
Samkvæmt
frumskýrslu lögreglu vildi A að svo stöddu ekki greina frekar frá atvikum máls,
þ. á m. ekki frá ætluðum brotavettvangi eða nafni brotamanns. Segir í skýrslunni að vegna þessa hefði A
verið gerð grein fyrir alvarleika málsins og að áríðandi væri að hún veitti
frekari upplýsingar eins fljótt og auðið væri.
Þá hafi A að fyrirlagi lögreglu látið í té öndunarpróf, en samkvæmt
skýrslunni var niðurstaða þess 0,65. Í
framhaldi af þessu hefði A verið ekið á neyðarmóttöku Sjúkrahússins á Akureyri,
en þar hefði hún m.a. hitt að máli rannsóknarlögreglumann, sem hefði veitt
henni frekari leiðbeiningar um framhald málsins, þ. á m. um kæruferli.
3.
Í fyrirliggjandi réttarlæknisfræðilegum gögnum frá neyðarmóttöku Sjúkrahússins
á Akureyri, sem skráð eru af Ingibjörgu G. Júlíusdóttur, hjúkrunarfræðingi, og
Alexander Smárasyni, fæðinga- og kvensjúkdómalækni, er skráð frásögn A um atvik
máls og hið ætlaða brot að morgni 26. júní 2011. Er þess getið í þessum gögnum að A hafi verið
án nærbuxna, en íklædd svonefndri samfellu.
Að öðru leyti hafi hún verið íklædd þeim fatnaði sem áður var lýst. Segir í nefndum gögnum að A hafi við skoðun,
kl. 08:45, lýst vaxandi eymslum í hægri þumli og er skráð að það sé talið vera
afleiðing þess að hann hafi krækst í og þvingast út á við. Þá segir að við frekari skoðun, kl. 18:45,
hafi verið 1 sm marblettur yfir hægri
mjaðmarspaða. Skráð er að A hafi greint
frá því að höfð hafi verið við hana kynmök, m.a. um leggöng, og segir að við
kvenskoðun, kl. 11:00, hafi verið vægur roði umhverfis leggangaop og væg
eymsli. Tekið er fram að A hafi verið
með [...], en skráð er að hún hafi haft orð á því að hún hefði ekki haft
samfarir við unnusta sinn í um viku.
Tekið er fram að við læknisskoðun hafi A verið mjög þreytt og timbruð,
en að auki hafi hún fengið grátköst fyrst þegar hún kom á sjúkrahúsið. Um andlegt ástand A segir í þessum gögnum að
hún hafi verið í losti, fjarræn, í óraunveruleikaástandi, yfirveguð, haft skýra
frásögn eftir því sem minni hennar leyfði, að hún hafi verið óttaslegin og í
hnipri. Um kreppuviðbrögð segir að hún
hafi verið með skjálfta og hroll, hjartslátt, svima, ógleði, magaverki og með
óþol fyrir snertingu.
Tekið
var blóðsýni úr A kl. 11:00. Samkvæmt
alkóhólrannsókn reyndist alkóhólmagn í blóðsýninu samkvæmt vottorði
rannsóknastofu í lyfjafræði 0,20. Tekið
er fram að vegna búsetu A hefðu nefndir sérfræðingar sjúkrahússins haft samband
við neyðarmóttöku Landspítala-Háskólasjúkrahúss í Reykjavík vegna eftirfylgni.
4.
Samkvæmt rannsóknargögnum tilkynnti A fyrrnefndum rannsóknarlögreglumanni þann
30. júní 2011 þá ákvörðun sína að leggja fram kæru á hendur þeim sem braut gegn
henni umræddan morgun. Var henni þá enn
leiðbeint um framgang málsins og kæruferlið.
Í framhaldi af því gaf A í viðurvist tilnefnds löglærðs réttargæslumanns
skýrslu hjá kynferðisbrotadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Við skýrslutökuna gaf hún í fyrsta skipti
upplýsingar um ætlaðan geranda og vitni á ætluðum brotavettvangi, að [...] á Akureyri. Þann sama dag tók lögreglan í Reykjavík
vitnaskýrslu af B, en lögreglan á Akureyri tók vitnaskýrslu af C 5. júlí sama
ár. Ákærði var yfirheyrður hjá lögreglu
þann 7. júlí sama ár, en hann óskaði ekki eftir tilnefningu verjanda.
5.
A gaf fyrrnefnda skýrslu hjá lögreglu 1. júlí 2011. Við skýrslutökuna lýsti hún málsatvikum með
líkum hætti og hér að framan hefur verið rakið, þ. á m. um tilefni ferðar
hennar til Akureyrar laugardaginn 25. júní 2011. Enn fremur lýsti hún samskiptum sínum við
fyrrnefnda vini, vitnin B og C, en einnig ákærða. Hún áréttaði að hún hefði fyrst haft kynni af
ákærða haustið 2008 og bar að þau hefðu verið ágætir vinir, en ekkert meira
verið á milli þeirra, þrátt fyrir að ákærði hefði oft verið að stíga í vænginn
við hana, en hún ekkert gert með það. A lýsti
atvikum nánar þannig að hún hefði eftir nefnda hátíðarsamkomu laugardagskvöldið
25. júní farið með nefndu vinafólki og ákærða á veitingastaði í miðbænum. Þau hefðu verið þar fram eftir nóttu, en þar
hefði hún drukkið áfengi helst til óhóflega, m.a. vín og bjór og svokölluð
áfengisskot. Síðar um nóttina hefði hún
ásamt nefndum vinum farið heim til ákærða, en þar hefðu þau m.a. öll farið í
heitan pott og haldið áfram skemmtan sinni.
Nánar
aðspurð hjá lögreglu kvaðst A á fyrrnefndri hátíð og aðfaranótt 26. júní hafa
drukkið töluvert magn áfengis. Hún
kvaðst hafa hafið áfengisneyslu síðdegis laugardaginn 25. júní með fordrykk, en
síðan á nefndri hátíð þá um kvöldið m.a. drukkið heila rauðvínsflösku og e.t.v.
tvo til þrjá bjóra. Í miðbænum kvaðst
hún hafa fengið sér áfengisskot og einhverja bjóra, en að lokum neytt áfengra
drykkja í heita pottinum við heimili ákærða.
Við
skýrslutökuna hjá lögreglu staðhæfði A að í heita pottinum hefði ákærði gerst
svolítið ágengur gagnvart henni og farið svolítið yfir strikið. Nánar lýsti hún því þannig að ákærði hefði
m.a. haft orð á því í viðurvist fyrrnefndra vina að hann hefði alltaf langað
mikið til að sofa hjá henni.
A
greindi frá því að þegar leið á nóttina hefði hún áttað sig á því að hún var
orðin alltof drukkin og af þeim sökum afráðið að fara úr pottinum og í sturtu,
en í framhaldi af því hafi það verið ætlan hennar að ganga til hvílu. Hún sagði að ákærði hefði komið á eftir henni
inn í sturtuna og bar að þar hefði hún e.t.v. þýðst hann að einhverju marki en
síðan stoppað hann af og sagt honum það með skýrum hætti. Nánar aðspurð um háttsemina í sturtunni sagði
A að hún og ákærði hefðu þar kysst eitthvað en þau hefði bæði verið þar
nakin. Eftir nefnt samneyti við ákærða í
sturtunni kvaðst hún hafi farið inn í herbergi en ákærði þá fylgt henni eftir,
en samskiptum þeirra lýsti hún nánar þannig:
„Og ég segi bara ... nei þú getur sofið inni í einhverju öðru herbergi,
ég ætla að fá að sofa ein og hann er ekkert að taka það eitthvað sérstaklega
mikið í mál og þarna er ég bara ... varla að ég þú veist standa í
lappirnar. Ég er bara orðin mjög þreytt
og mjög drukkin. Þannig að ég hendi mér
inn í eitthvað, eitthvað rúm og hann fer fram að ná í eitthvað á meðan þá nýti
ég tækifærið og læsi að mér. Læsi
hurðinni því mér fannst bara ... ég veit ekki af hverju, ég var bara orðin of drukkin
og bara ekki að fara að gera neitt með honum og hann var bara of ágengur.“ Nánar aðspurð um það herbergið sem hún svaf
í kvaðst hún helst minnast þess að hafa séð þar mynd af ákærða en einnig af
kærustunni hans, en hún kvaðst hafa þekkt hana fyrir.
Í
skýrslu sinni hjá lögreglu bar A að áður en hún fór að sofa í herberginu hefði
hún veitt því eftirtekt að félagar hennar, vitnin B og C, voru ennþá í
pottinum. Nánar lýsti hún atvikum þannig
að hún hefði sofnað í herberginu en síðan vaknað upp við mikil læti: „Það var
bara verið að sparka, sparka upp hurðinni í herberginu sem ég er í ... ég vissi
ekkert alveg hvað var í gangi. Ég heyrði
bara að það var bara verið að sparka upp hurðina og ég heyrði eitthvað svona,
hann segir eitthvað svona, helvítis tíkin þú átt bara að sofa út á stétt eða og
þú veist þetta snýst ekki bara um að ríða eða eitthvað svona, þú veist ég
fattaði ekki samhengið. Ég heyrði vini
mína segja eitthvað, nei nú ertu genginn of langt ... ég stend upp og opna
hurðina ... bara aftur í rúmið og bara er out
aftur.“ Nánar aðspurð kvaðst A ekki geta
sagt til um hvað tímanum leið eftir þetta, en hún hefði farið að skynja það í
gegnum svefninn að eitthvað væri í gangi og þá þannig að verið var að snúa
henni og koma við líkama hennar; „ég var bara ... þreytt eða dauð eða hvað sem
fólk vill kalla það“. Hún áréttaði að
ákærði hefði á nefndri stundu verið að snúa henni til og koma við líkama
hennar, en að hún hefði varla áttað sig á hvað var að gerast. Hún hefði síðan vaknað við það að ákærði var
að snerta allan líkama hennar með höndum og munni, en að auki hafi hann m.a.
reynt að setja typpið í munninn á henni.
Hún hafi síðan alveg vaknað við það að hann var kominn á hana og var
búinn að setja liminn inn í leggöng hennar og var að hamast á fullu þannig að
höfuð hennar skelltist í vegginn; „það er bara mikill hamagangur þá ... höfuðið
á mér var að skellast í vegginn ... og þá allt í einu var bara eins og rynni af
mér á bara ... ég barði hann af mér og öskraði á hann“. Var það ætlan hennar að vegna þessara
viðbragða sinna hefði hún fengið áverka á hægri þumalinn. Við nefndar aðstæður kvaðst hún og alveg hafa
tryllst og m.a. gripið skæri sem voru þarna á vettvangi og hótað ákærða að hún
myndi klippa af honum typpið ef hann kæmi nálægt henni. Í framhaldi af þessu kvaðst hún hafa gripið
einhvern bol, en hún hefði verið íklædd hlýrasamfellu sem hafi verið smellt
undir og hefði hún áttað sig á því að ákærði hefði aldrei fært hana úr þeim
fatnaði heldur aðeins fært hann til hliðar.
Vegna þessa kvaðst hún hafa gripið bol á gólfinu og klætt sig í hann
líkt og pils. Einnig kvaðst hún hafa
tekið peysu sem hún átti þarna á vettvangi, en í henni hefði verið sími hennar
og hefði hún þannig klædd rokið út úr húsinu.
Hún kvaðst hafa hótað ákærða að ef hann elti sig myndi hún koma því til
leiðar að hann myndi ekki geta stundað þá atvinnu sína sem hann hefði menntað
sig til. Skömmu síðar kvaðst hún hafa
hringt til lögreglu en að athuguðu máli og vegna fyrrnefndrar vináttu við
ákærða og gífurlegra hagsmuna hans afráðið að skýra lögreglu þá strax ekki frá
athæfi hans. Hún kvaðst hins vegar hafa
samþykkt að fara með lögreglu á neyðarmóttöku á Sjúkrahúsinu á Akureyri. Hún kvaðst og hafa sent sms-skilaboð
í síma til C vinkonu sinnar þennan morgun með beiðni um að þegar hún færi úr
húsakynnum ákærða tæki hún með sér þau föt sem hún hefði skilið eftir, þ.e.
gallabuxur, skó og nærbuxur. Eftir
aðhlynningu á Sjúkrahúsinu á Akureyri kvaðst hún hafa farið til vinkonu sinnar
sem búsett er í bænum en jafnframt hringt í þáverandi kærasta sinn og
barnsföður. Hefði kærastinn komið og
verið henni til aðstoðar síðar þennan dag.
Af
hálfu brotaþola, A, var lögð fram skaðabótakrafa þann 15. ágúst 2011. Var ákærða birt krafan 16. sama mánaðar.
II.
1. Ákærði lýsti við yfirheyrslu hjá lögreglu 7.
júlí 2011 samskiptum sínum við fyrrum skólafélaga sinn, A, og vinafólk hennar,
með líkum hætti og hér að framan var rakið, í kafla I.1. Hann greindi þannig frá þátttöku sinni á
hátíðarsamkomu síðdegis laugardaginn 25. júní, viðveru á skemmtistöðum þá um
nóttina í miðbæ Akureyrar og loks áframhaldandi samveru þeirra í heitum potti
við heimili foreldra hans. Ákærði kvaðst
hafa verið í sambúð er atvik máls gerðust.
Ákærði skýrði frá því að þau hefðu öll farið nakin í pottinn og
staðhæfði jafnframt að A hefði þar slegið honum gullhamra og m.a. haft á orði
að hann væri vel vaxinn niður. Ákærði
sagði að síðar um nóttina hefði hann ásamt A farið úr pottinum, en hann kvaðst
hafa fylgt henni eftir inn á baðherbergið á heimilinu og síðan farið með henni
í sturtu. Kvað hann þau þar hafa kysst
og byrjað að stunda kynlíf, sem hann sagði að hefði staðið í um eina
mínútu. Hann kvað A hafa stoppað kynlíf
þeirra af með því að segja: „Hvað er að þér, þú átt konu.“ Vegna þessara viðbragða kvaðst hann strax
hafa hætt samræðishreyfingum, en A farið úr sturtunni og þurrkað sér, en síðan
farið inn í svefnherbergi sem bróðir hans hafði til umráða á heimilinu. Ákærði kvaðst hafa veitt því eftirtekt, er
hann fór úr baðherberginu, að vinir A, C og B, voru enn í pottinum. Hann kvaðst hafa farið inn í herbergið til A og
án orða byrjað að sleikja á henni kynfærin og staðhæfði að hún hefði þá fengið
fullnægingu. Ákærði sagði að eftir þetta
hefði hann haft vilja til að halda áfram kynlífinu en A þá stoppað hann af og
hann þá snarhætt frekari athöfnum.
Ákærði sagði að fyrir þessi samskipti hefði hann átt nokkuð náin
samskipti við A. Vísaði ákærði í því
sambandi til atviks þegar hann hefði farið með A á heimili hennar og bar að þar
hefðu þau kysst, en hætt atlotum með þeim orðum að þau mættu ekki gera
slíkt. Hann staðhæfði að eftir um 10
sekúndur hefðu þau byrjað aftur að kyssast.
Ákærði staðhæfði að lýst atlot hans með A aðfaranótt 26. júní hefðu ekki
verið henni á móti skapi, en um það sagði hann nánar: „... ég var ekkert að
upplifa einhvern veginn að ég væri að gera eitthvað gegn hennar vilja, engan
veginn“. Eftir lýst atlot í herberginu
kvaðst ákærði hafa farið út á veröndina til C og B og tilkynnt að réttast væri
fyrir þau að fara upp úr pottinum, en jafnframt sagt að þau mættu sofa í
fyrrnefndu herbergi bróður hans. Í
framhaldi af þessu hefði hann gengið frá pottinum, en þegar hann hefði komið
aftur inn í húsið hefði hann séð að A hafði farið inn í svefnherbergið hans,
sem er gagnstætt herbergi bróður hans, en jafnframt veitt því eftirtekt að hún
hafði þar læst að sér. Staðhæfði ákærði
að vegna þessa hefði hann í raun engan svefnstað haft í húsinu. Hann kvaðst því hafa orðið pirraður og reiður
og bankað á herbergishurðina allt þar til A aflæsti og opnaði, en í framhaldi
hefði hann náð í dýnu í herbergi systur sinnar og komið henni fyrir á
herbergisgólfinu við hliðina á rúminu þar sem A lá. Hann kvaðst hafa lagst fyrir á dýnunni, en
hann hefði verið þar án sængur eða kodda.
Við
yfirheyrslu lögreglu, sem ákærði vísaði m.a. til fyrir dómi, lýsti ákærði
athöfnum sínum og hugrenningum í umræddu herbergi nánar, en þar sagði hann
m.a.: „... eftir smástund, svona mínútu á gólfinu, af hverju leggstu ekki bara
upp í rúm hjá henni, þetta er nú mitt rúm og svo leggst ég við hliðina á henni
... ég byrjaði á því að skríða upp í og byrja að hvísla einhverjum
kynferðislegum orðum í eyrað á henni og hvað ég vilji gera, hún jánkar því ...
hún alveg respondaði þegar ég tala við hana, það er
ekkert hátt og snjallt sem hún sagði já og eitthvað þú veist, en ég fæ alveg
eitthvað svona uhum og þú veist með svona stunu,
kynferðishljóði einhverju þannig að ég tek því bara eins og hún sé, þú veist sé
bara einhvern veginn hennar ... og svo bara byrjaði ég hérna, byrjaði þetta
aftur kynlífið og svo eftir svona mínútu þá allt í einu snarstendur A upp og
alveg sturlast og spyr hvað er að mér og hvort ég viti ekki hvað ég sé búinn að
gera og ég skil ekki ennþá þann dag í dag hvað gerðist“. Aðspurður neitaði ákærði því að hann hefði
haft vitneskju um að A hefði verið sofandi þegar hann hóf kynlífsathafnir
sínar. Hann kvaðst hins vegar hafa haft
vitneskju um að A var mjög ölvuð en sagði að svo hefði einnig verið með
hann. Nánar aðspurður um kynferðismökin
í herberginu og hvort að það hefði verið í þriðja skiptið sem til þeirra hefði
komið þeirra í millum umrædda nótt svaraði ákærði: „... ég fékk að fara hálfa
leið í annað og fyrsta skiptið áður en hún stoppaði í þetta skiptið, af því að
henni, þú veist henni langaði líka að gera þetta en svo var bara spurning
hversu sterk samviskan er sko hjá henni, þannig upplifi ég þetta alltaf sko,
hef alltaf gert það, alla tíð gert“.
Ákærði bar að eftir hin harkalegu viðbrögð A hefði hann án árangurs
reynt að róa hana með orðum, en hún þá m.a. tekið fram skæri og hótað því að
stinga hann ef hann kæmi nærri henni.
Hann hefði enn reynt að róa hana, en hún aftekið skýringar hans með öllu
og hlaupið út úr húsinu. Hann hefði
fylgt á eftir, en hún þá öskrað til hans að ef hann vildi fá vinnu í þeirri
starfsgrein sem hann hafði menntað sig til skyldi hann láta staðar numið. Kvaðst ákærði þá hafa hætt eftirförinni.
Fyrir
dómi lýsti ákærði kynnum sínum af A með líkum hætti og hér að framan var rakið,
og áréttaði m.a. að þau hefðu þekkst frá hausti 2008. Hann áréttaði einnig að fyrir greint atvik í
lok júnímánaðar 2011 hefði hann átt í allnánum samskiptum við A og nefndi í því
sambandi tilvik er þau hefðu í lok árs 2010 í vistarverum foreldra hennar á
Akureyri átt í kossaflensi, en sagði að þau hefðu aldrei átt í
kynlífssambandi. Bar ákærði að A hefði
ekki viljað ganga lengra þar eð hann ætti unnustu. Ákærði sagði að er atvik máls þessa gerðust,
helgina 25.- 26. júní 2011, hefði hann ekki haft vitneskju um að A væri í
sambúð með barnsföður sínum. Vísaði
ákærði til þess að þau hefðu ýmist verið sundur eða saman. Ákærði kvaðst lítið sem ekkert hafa þekkt til
vina A, vitnanna C og B, en haft vitneskju um að A myndi taka þátt í umræddri
hátíð síðdegis og að kveldi laugardagsins 25. júní. Ákærði bar að margt manna hefði verið á
hátíðinni og kvaðst hann ekki stöðugt hafa verið í samskiptum við A eða vini
hennar, en um síðir hefðu mál þróast á þann veg að yngra fólkið, og þ. á m. þau
fjögur, hefði farið í miðbæ Akureyrar til áframhaldandi skemmtanahalds. Ákærði kvaðst hafa neytt áfengis umrætt kvöld
og jafnframt haldið drykkjunni áfram þá um nóttina ásamt A og vinum
hennar. Ákærði treysti sér ekki til að
segja til um hvenær þau fjögur komu á heimili foreldra hans þá um nóttina, en
bar að er þangað kom hefðu þau farið í sturtu en síðan farið nakin í útipott
þar á suðurveröndinni. Nánar aðspurður
ætlaði ákærði að klukkan hefði þá verið á bilinu þrjú til fjögur. Ákærði sagði að þau hefðu öll haldið áfram
áfengisdrykkjunni í pottinum, en að auki hefðu þau reykt þar einn vindling af maríhúana. Ákærði
bar að upphaflega hefðu A og vinir hennar ætlað að gista annars staðar en
afráðið að þiggja boð hans um gistingu þar á heimilinu. Ákærði kvaðst er líða tók á nóttina hafa
orðið nokkuð drukkinn en þó ekki átt í vandræðum með hreyfingar. Ákærði bar að A hefði einnig sýnilega verið
drukkin og vísaði til þess að öll hefðu þau verið búin að drekka áfengi allt
kvöldið og nóttina og í raun því öll verið ölvuð. Hann kvaðst ekki minnast þess sérstaklega að A
hefði verið völt á fótum.
Ákærði
sagði að engar snertingar hefðu átt sér stað milli hans og A í heita pottinum,
en hann kvaðst hafa fylgt henni eftir þegar hún fór upp úr og lagði leið sína
inn á baðherbergið og í sturtuna. Hann
kvað þau þar án orða hafa byrjað að kyssast.
Þá kvaðst hann hafa farið aftan að henni og haft við hana samfarir, og
bar að hún hefði þá viðhaft samræðishreyfingar á móti honum. Ákærði bar að eftir u.þ.b. eina til tvær
mínútur hefði A stoppað hann af og sagt að hún vildi ekki eiga mök við hann þar
eð hann ætti góða konu og að hún vildi því ekki taka þátt í þessu athæfi. Ákærði kvaðst strax hafa hætt samförunum, en A
hefði klárað að þvo sér en síðan hefði hún farið fram og inn í herbergið sem
bróðir hans hafði til umráða í húsinu.
Ákærði kvaðst skömmu síðar hafa fylgt A eftir inn í herbergið, en þá séð
hvar hún lá þar uppi í rúminu og ofan á rúmteppinu. Ætlaði ákærði að hún hefði þá verið íklædd
einhverjum fötum, en kvaðst þó ekki muna það í smáatriðum. Ákærði staðhæfði að þarna í herberginu hefði
hann bent A á að það væri rómantík í heita pottinum á veröndinni. Hefði A þá reist sig við og þau síðan bæði
fylgst með því í gegnum herbergisgluggann hvar vinir A voru að kyssast. Fyrir dómi bar ákærði að í raun hefðu engin
sérstök orð farið á milli þeirra í herberginu, en hann kvaðst hins vegar ekki
hafa munað eftir því þegar hann gaf skýrslu sína hjá lögreglu að þau hefðu fylgst
með lýstu athæfi vina A í pottinum.
Ákærði staðhæfði að eftir að þau hefðu fylgst með vinum A hefðu þau
látið vel hvort að öðru í herberginu og byrjað að kyssast og strjúka hvort
öðru. Hann sagði að hún hefði þó ekki
komið við kynfæri hans. Ákærði staðhæfði
að hann hefði veitt A munnmök, en síðan farið fram á að hún gerði það sama við
hann, en hún hafnað því með sömu orðum og hún hafði áður viðhaft, að hún vildi
ekki taka þátt í slíku athæfi. Kvaðst
ákærði því hafa hætt frekari kynrænum afskiptum af A. Ákærði áréttaði að er atvik máls gerðust
hefði A þekkt til sambýliskonu hans og bar að hann hefði skilið viðbrögð A á
þann veg að hún hefði haft vilja til að eiga með honum kynlíf en ekki treyst
sér til þess af samviskuástæðum. Ákærði
kvaðst eftir nefnd samskipti og viðbrögð hafa haft orð á því að hann ætlaði að
reka vinafólk A upp úr pottinum og því farið út úr herberginu. Hann kvaðst hafa gengið að útihurðinni og
kallað til C og B og sagt þeim að þau skyldu koma inn og bar að þau hefðu hlýtt
því boði. Kvaðst ákærði í framhaldi af
þessu hafa farið inn í herbergi systur sinnar og náð í dýnu. Vísaði ákærði til þess að hann hefði haft
leyfi föður síns til að hafa næturgesti, en bar að það hefði verið með því
skilyrði að aðeins herbergin í syðri hluta hússins yrðu notuð, þ.e. fyrrnefnt
herbergi bróður hans og hans eigið.
Ákærði kvaðst hafa haft í huga að A svæfi á dýnunni og staðhæfði að fyrr
um nóttina hefði hann verið búinn að segja henni frá því að þau ættu að sofa
saman í herbergi hans og að hann myndi ná í dýnu fyrir hana. Ákærði sagði að þegar hann hefði komið að
eigin herbergi, sem væri gegnt fyrrnefndu herbergi bróður hans, hefði hann
komist að því að A hafði fært sig þar yfir, en læst hurðinni. Ákærði kvaðst er þarna var komið sögu
einungis hafa verið með handklæði um sig og vísaði til þess að hrein nærföt
hefðu verið í herbergi hans. Sagði
ákærði að þessar aðstæður hefðu í hans huga verið fáránlegar og því hefði hann
bankað á hurðina og haldið því áfram þegar A svaraði ekki. Nánar aðspurður bar ákærði að eftir að hann
hvarf frá A í herbergi bróður síns hefðu liðið um ein til tvær mínútur þangað
til hann kom að herberginu læstu. Hann
kvaðst hafa bankað harkalega á hurðina í um tvær mínútur eða allt þar til A opnaði. Ákærði sagði að A hefði litið til hans þegar
hann kom inn í herbergið með dýnuna, en hann kvaðst hafa innt hana um ástæðu
þess að hún læsti að sér. Ákærði kvaðst
ekki hafa haldið orðræðu sinni áfram þar eð hann hefði ekki séð tilgang í því
að vera með pirring þegar þarna var komið sögu.
Hann kvaðst hafa lagt dýnuna á gólfið við hliðina á rúminu þar sem A hafði
komið sér fyrir, en fljótlega áttað sig á því að aðstæður hans voru ekki
þægilegar þar sem hann hefði verið án alls sængurfatnaðar. Ákærði lýsti atvikum nánar þannig að hann
hefði legið á dýnunni án orða í um mínútu, en vegna fyrrnefndra aðstæðna tekið
ákvörðun um að færa sig upp í rúmið til A.
Ákærði bar að A hefði strax fært sig til hliðar en minntist þess ekki
hvernig hún var þá klædd. Nánar lýsti
hann atvikum þannig: „... það byrjar svona smá koddahjal hjá okkur og ég spyr
hana m.a. hvort hún vilji að ég taki sig að aftan, og hún segir já við því og
þá byrjum við að kyssast og strjúka hvort öðru og svo höfum við þar samfarir,
sem enda með því að hún allt í einu brjálast við mig og þá bara snarhætti
ég“. Ítrekað aðspurður staðhæfði ákærði
að A hefði tekið fullan þátt í samförunum, og staðhæfði jafnframt að hann hefði
verið fullviss um að hún hefði verið samþykk kynlífsathöfnunum. Hún hefði þannig ekki verið hreyfingarlaus
eða lömuð á neinn hátt, en hann minntist þess ekki hvort hann hefði klætt hana
úr fötum. Ákærði staðhæfði að A hefði
verið með kynlífsstunur og bar að hún hefði á einum tímapunkti kropið klofvega
yfir honum og snúið baki að andliti hans og viðhaft samfarahreyfingar. Og eftir það hefðu þau skipt um stellingar og
hefði hún þá m.a. lagst á magann og hann byrjað að taka hana aftan frá. Ákærði kannaðist ekki við þá frásögn A, að
höfuð hennar hefði slegist við rúmgaflinn, en staðhæfði að undir lokin hefði
hún legið á bakinu og hann verið að hafa við hana samfarir. Við þessar aðstæður hefði hún skyndilega
brjálast og ýtt honum af sér. Ákærði bar
að viðbrögð A hefðu komið honum algjörlega á óvart miðað við fyrrnefnd
samskipti þeirra, sem hann ætlaði að í heild hefðu staðið yfir í um 2-3
mínútur. Vísaði ákærði þar um m.a. til
þess að þau hefðu fyrr um nóttina, í baðherberginu og í herbergi bróður hans,
haft náin samskipti, en að þar hefði samviskubitið stöðvað A til frekari
athafna. Lýsti ákærði hugrenningum sínum
nánar þannig: „...henni virtist langa þetta alveg jafnmikið og ég og þá sá ég
ekki ástæðu fyrir því að reyna ekki aftur, ég meina í versta lagi myndi hún
bara byrja aftur og segi síðan nei ... ég meina mig langaði bara að stunda
kynlíf með henni og henni virtist langa það líka ... þess vegna hvíslaði ég í
eyrað á henni hvort að hérna hún vildi að ég gerði þetta og hitt, ef hana hefði
ekki langað það þá hefði hún bara sagt nei, hún gat sagt já og hún gat sagt nei
... við vorum búin að vera á fylleríi allt kvöldið. Hún var samt ekkert eins og ég segi, hún
virtist ekki í vandræðum með að labba milli hurðar og rúmsins og hún gat alveg
svarað mér eðlilega þegar ég talaði við hana.“
Ákærði áréttaði að hann hefði í greint sinn ekki talið sig brjóta gegn A
á nokkurn hátt. Hann kvaðst þannig
aldrei hafa talið að hún hefði sofið áfengissvefni á meðan á kynlífsathæfinu
stóð í herbergi hans. Ákærði kvaðst hins
vegar hafa áttað sig á því að hún hefði talið að hann hefði brotið gegn henni
þar eð hún hefði undir lokin brjálast svo skyndilega. Bar ákærði að A hefði fyrst sagt að hann væri
búinn að eyðileggja allt og að hann ætti konu.
Ákærði sagði að hann hefði síðar velt þessum viðbrögðum A fyrir sér en
ekki áttað sig á þeim. Hefði hann talið
að skýringanna væri helst að leita til þess að hún hefði átt kærasta er atvik
gerðust og að hún hefði verið með kynsjúkdóm.
Helst hefði hann þó talið að hún hefði hreinlega ekki munað hvernig
athæfi þeirra byrjaði í herbergi hans í umrætt sinn. Að öðru leyti staðhæfði ákærði að frásögn A við
meðferð málsins og þar á meðal fyrir dómi væri þvættingur.
Ákærði
áréttaði að eftir að A var risin úr rekkju hefði hann reynt að hugga hana og
komast að því hverju viðbrögð hennar sættu en án árangurs. Hann áréttaði að hún hefði m.a. tekið fram
skæri og hótað honum með þeim, en í framhaldi af því hefði hún tekið einhver
föt á vettvangi og farið út úr húsinu.
Kvaðst hann hafa elt A en hætt því eftir að hún hafði í hótunum um að
hann myndi hafa verra af. Ákærði sagði
að auk þess hefði A krafist þess að hann þegði yfir því sem þeim hefði farið á
milli. Vegna þess kvaðst hann hafa sagt
ósatt um brottför A þegar fyrrnefnt vinafólk hennar innti hann eftir fjarveru
hennar daginn eftir. Ákærði treysti sér
ekki til að segja til um tímasetninguna þegar A hvarf úr húsakynnum hans að
öðru leyti en því að þá hefði verið komið fram undir morgun.
Fyrir
dómi lýsti A því að kynni hennar og ákærða hefðu hafist haustið 2008. Lýsti hún samskiptum þeirra með líkum hætti
og hún hafði gert við skýrslugjöf hjá lögreglu, en sagði jafnframt að ákveðin
spenna hefði verið á milli þeirra án þess að meira yrði úr því.
A
sagði að fyrrnefnd hátíð á Akureyri hefði hafist síðdegis þann 25. júní, en hún
kvaðst hafa hafið áfengisneyslu um klukkan 17:00 ásamt öðrum gestum, þ. á m.
nefndum vinum sínum, C og B. Hún
áréttaði að er hátíðinni lauk umrætt kvöld hefði hún haldið áfram gleðskapnum
með vinum sínum, m.a. með áfengisdrykkju á vínveitingastöðum bæjarins, en að þá
hefði ákærði slegist í hópinn. Um síðir
hefði hún, ásamt nefndum vinum, farið í boði ákærða á heimili hans, þar sem þau
hefðu drukkið bjór, en að auki reykt einn maríhúanavindling
í heitum potti þar á veröndinni. Hún bar
að í pottinum hefðu þau spjallað drykklanga stund, en staðhæfði jafnframt að þá
hefði ákærði talað undir rós og m.a. haft orð á því að hann hefði áhuga á því
að þau tvö myndu einhvern tímann ná saman kynferðislega. Hún kvaðst hafa svarað ákærða og jafnframt
minnt hann á að hann væri í sambúð með góðri konu og hún vildi ekki spilla
þeirra sambandi.
Hún
var í lok yfirheyrslu spurð hvort hún hefði sagt í pottinum að ákærði væri
,,vel vaxinn niður“ og sagði að það hefði hún áreiðanlega gert.
A
vísaði til þess að er á leið hefði verið augljóst að áfengisdrykkjan var farin
að stíga ákærða til höfuðs, en hún kvaðst og sjálf hafa fundið að áfengisvíma
hennar magnaðist, en einnig þreyta.
Kvaðst hún um síðir hafa verið að niðurlotum komin, en ástandi sínu
lýsti hún nánar þannig: „Ég var það
ölvuð að ég varð að velja á milli þess að sofna á bakkanum á pottinum eða fara
inn í rúm.“ Vegna þessa ástands kvaðst
hún hafa afráðið að fara upp úr pottinum, og í framhaldi af því farið inn á
baðherbergið og í sturtu. Hún kvað
ákærða hafa fylgt henni eftir og nánar aðspurð minntist hún þess að þau hefðu
farið að kyssast í sturtuklefanum með hennar samþykki, en án sérstakra
orðaskipta. Þá sagði hún að þarna hefðu
örugglega átt sér stað einhverjar aðrar snertingar og atlot þeirra í
millum. Ítrekað aðspurð kvaðst A ekki
minnast þess að eiginlegar samfarir hefðu hafist með þeim í sturtuklefanum, en
sagði: „Ég get hins vegar sagt
að ég
hafi þýðst hann upp að einhverju vissu marki, en það kom að því alltaf að það
var stopp, nei, þetta gengur ekki
ég veit alveg að ég hugsaði það, ég veit
ekki alveg hvort það var þá að ég hafi sagt það upphátt, en við vorum
náttúrulega bæði í sambandi og mér fannst bara með öllu óviðeigandi
ég vildi
þetta ekki.“ Nánar um samskiptin við
ákærða á baðherberginu sagði A: „Það kæmi mér ekkert á óvart ef við hefðum
verið þú veist eitthvað að snertast, munnmök eða eitthvað, en ég get ekki
svarað því með vissu.“ Hún kvaðst ekki
minnst þess að ákærði hefði sett lim sinn í kynfæri hennar, en sagði að það
hefði þá ekki verið við ákærða að sakast, en áréttaði að hún minntist þessa í
raun ekki. A bar að eftir að hún fór úr
sturtunni hefði hún klætt sig í samfellu, þ.e. nærbol og nærbuxur, sem smellt
var saman. Hún sagði að er hún fór frá
ákærða í baðherberginu hefðu þau ekki sérstaklega rætt um það í hvaða herbergi
hún ætti að sofa það sem eftir lifði næturinnar, en staðhæfði að hún hefði tjáð
ákærða það í nefndum samskiptum að hún vildi sofa ein. Fyrir dómi bar A að minni hennar væri harla
gloppótt um atvik eftir að hún fór úr baðherberginu og bar að það mætti rekja
til þess að hún hefði, þegar þar var komið sögu, verið að niðurlotum komin
eftir langvarandi vöku og áfengisdrykkju.
Ítrekað aðspurð kvaðst hún minnast þess mjög óljóst að hafa staðið
stutta stund við einhverja herbergishurð og átt þar í einhverjum samræðum, en
treysti sér ekki til að segja við hvern eða lýsa atvikum frekar. Hún kvaðst hins vegar ekki kannast við að
hafa átt í samskiptum við ákærða inni í því herbergi er snéri að fyrrnefndri
verönd og í raun ekki minnast þess að hafa átt frekari samskipti við hann og
andmælti hún að því leyti andstæðri frásögn ákærða. Aðspurð kvaðst hún þannig alls ekki minnast
þess að hafa átt í frekari kynferðislegum samskiptum við ákærða og þá ekki í
öðru herbergi en hún læsti. Hún
kannaðist heldur ekki við að hafa fylgst með samskiptum C og B í heita pottinum
á veröndinni og neitaði því að ákærði hefði í framhaldi af því veitt henni
munnmök. Áréttaði hún að slík samskipti
þeirra í millum hefðu einungis átt sér stað inni á baðherberginu. Ítrekað aðspurð um þá ráðstöfun að læsa að
sér svefnherbergishurðinni áður en hún lagðist til hvílu svarði hún: „Ég man
ekki hvað það var og einhverra hluta vegna á þeim tímapunkti þótti mér það
heillavænlegast að læsa bara hurðinni, fara bara inn að sofa.“ A staðhæfði og áréttaði að eftir að ákærði
hafði brugðið sér frá hefði hún farið inn í umrætt herbergi og læst að
sér: „Ég hugsa með mér bara, að það væri
heillavænlegast að læsa að mér.
Það sé nú bara fullmikill ágangur á mig og ég
sé bara of drukkin þannig að ég ákveð bara að læsa.“ Hún áréttaði að í hennar huga hefði þetta
verið fyrsta herbergið sem hún fór inn í eftir að hún fór úr baðherberginu og
kvaðst hún í raun hafa sofnað þar ölvunarsvefni. Hún kvaðst ekki gera sér grein fyrir hversu
lengi hún hafði sofið þegar hún hefði vaknað við mikil læti og um það leyti
áttað sig á því að verið var að berja á herbergishurðina, en einnig á
herbergisvegginn. Atvikum lýsti hún
nánar þannig: „
ég heyrði raddirnar þú veist ég heyrði hans rödd (ákærða) og
ég heyrði C og B rödd líka.
Og ég stend upp.
Ég
bara opna hurðina og lagðist aftur niður og ég veit ekki í raun og veru hversu
langur tími líður eftir að ég verð fyrst vör við hann (ákærða) inni í
herberginu.“ Hún kvaðst ekki hafa áttað
sig á því hvort dimmt var í herberginu er þetta gerðist og í raun kvaðst hún
ekki hafa séð ákærða þar sem hún hefði vart opnað augun er hún fór fram úr
rúminu og opnaði, en hún kvaðst strax þar á eftir hafa lagst aftur upp í
rúmið. Hún kannaðist ekki við að hafa
tekið þátt í samræðum við ákærða eftir þetta, en þó ráma í að ákærði hefði
verið að reyna að ræða við hana og sagði að þá hefði hann setið á rúmstokknum
hjá henni. Hún kvaðst ekki minnast þess
að hann hefði í orðræðu sinni minnst á samræði og áréttaði að í raun hefði hún
alls ekki átt í samræðum við hann. Um
atvik máls eftir þetta og um upplifun sína kvaðst hún í raun aðeins hafa
slitróttar minningar. Hún staðhæfði að
vegna áðurlýsts ástands síns hefði hún aldrei getað spornað við kynferðislegu
athæfi ákærða, en þrátt fyrir það hefði hún reynt að malda í móinn, en ekki
komið upp orði. Hún kvaðst minnast þess
að ákærði hefði kysst líkama hennar og jafnframt notað hendur sínar. Hún kvaðst hafa legið á bakinu þegar hann
hafði samræði við hana og andmælti því alfarið að hafa verið ofan á ákærða við
nefndar athafnir hans. Hún staðhæfði að
hún hefði í raun fyrst komið til sjálfrar sín þegar höfuð hennar lamdist
reglubundið í vegginn eða rúmstokkinn, en atvikum lýsti hún nánar þannig: „Það var nú bara svolítið eins og að fá bara
adrenalínsprautu beint í hjartað, því að allt í einu þá var bara eins og ...
allur höfgi, allt bara svifi af mér og ég, ég brjálast held ég.
Hrindi honum af mér sem að hérna olli einhverjum áverkum á höndinni.“
Fyrir
dómi var framburður ákærða borinn undir A, sem rakinn var hér að framan, og þar
á meðal að hún hefði tekið fullan þátt í samförunum. Neitaði hún lýsingum ákærða alfarið og
staðhæfði að þar væri um að ræða tilbúning og þvætting af hans hálfu. Hún staðhæfði að samræðið hefði algerlega
verið andstætt hennar vilja, og áréttaði að hún hefði ekki getað rönd við reist
sökum svefnhöfgi og ölvunarástands.
Staðhæfði hún og að ákærði hefði mátt gera sér grein fyrir þessum óvilja
hennar, m.a. vegna orða hennar um að hún vildi sofa ein, og vísaði til þess að
þau orð hefðu fallið í kjölfar samskipta þeirra á baðherberginu. Þá staðhæfði hún að í raun hefði hún ekki átt
í samskiptum við ákærða eða aðra aðila eftir að hún læsti því herbergi sem hún
lagðist fyrir í.
A
sagði að eftir að hún vaknaði í svefnherbergi ákærða með þeim hætti sem hér að
framan var rakið hefði hún hótað ákærða, m.a. með skærum, en þar á eftir hefði
hún stokkið út úr húsinu klæðalítil og hringt í lögreglu. Var það ætlan hennar að lögreglan hefði komið
á vettvang um 15 mínútum eftir að hún hvarf úr húsakynnum ákærða, en hún kvaðst
þá hafa verið algerlega miður sín andlega.
A
kvaðst hafa tekið ákvörðun um að kæra athæfi ákærða til lögreglu eftir að hafði
ráðfært sig við nána vini. Staðhæfði hún
að það ferli hefði reynst henni mjög erfitt.
Vegna þessa hefði hún leitað sér aðstoðar sálfræðings og bar fyrir dómi
að hún væri enn að glíma við afleiðingar verknaðar ákærða.
Vitnið
C, fædd 1987, kvaðst hafa tekið þátt í hátíðarhaldi síðdegis laugardaginn 25.
júní 2011 í boði vinkonu sinnar, A.
Vitnið bar að um hundrað aðilar hefðu tekið þátt í hátíðinni, en þ. á m.
hefðu verið vinir A, þeir B og ákærði, en einnig foreldrar A. Um kvöldið kvað hún ákærða hafa setið til
borðs með A og félögum hennar. Hún
kvaðst hafa byrjað að neyta áfengis síðdegis þennan dag, líkt og A, og bar að
fyrr um daginn hefði ákærði ekið þeim í áfengisverslun. Sagði hún að þá hefði það fyrst komið til
tals að þau myndu fara á heimili hans síðar um kvöldið. Hún kvað þetta hafa gengið eftir, en í
millitíðinni hefðu þau fjögur farið á veitingastaði í miðbæ Akureyrar. Eftir að heim til ákærða var komið kvaðst hún
ásamt A hafa farið úr fötunum inni á baðherberginu, en sagði að í framhaldi af
því hefðu þær, líkt og ákærði og B, farið nakin í heitan pott þar á
veröndinni. Þar hefðu þau haldið áfram
áfengisneyslunni, en jafnframt reykt einn maríhúanavindling. Hún kvaðst hafa fundið til verulegra
áfengisáhrifa þegar þarna var komið sögu, en af þeim sökum kvaðst hún ekki
minnast allra atvika sem síðar gerðust.
Það var ætlan hennar að líkt hefði verið á komið með A, B og
ákærða. Hún sagði að vel hefði legið á
öllum í pottinum og bar að þar hefðu þau dvalið drykklanga stund. Hún bar að umræður hefðu verið á léttum nótum
og minntist þess ekki að ákærði, A eða B hefðu verið með kynferðislegt
tal. Hún kvaðst ekki fyllilega gera sér
grein fyrir hvenær hún fór upp úr pottinum, en sagði að þá hefði sólin verið
komin upp og ætlaði að klukkan hefði því verið um 06:00.
Fyrir
dómi kvaðst C ætla að um 30-60 mínútum áður en hún fór úr pottinum hefði A farið
upp úr, en einnig ákærði, og kvaðst hún því um stund hafa verið þar einsömul
ásamt B. Hún minntist þess ekki að hafa
séð umgang á þeim tíma í herberginu sem sneri að veröndinni. Hún sagði að ákærði hefði komið aftur út á
veröndina og hefðu hún og B þá farið úr heita pottinum, en ákærði lagt lok
yfir. Hún kvaðst hafa fylgt ákærða eftir
og bar að hann hefði sýnt þeim hvar þau skyldu sofa og hefðu þau í framhaldi af
því farið inn í svefnherbergi. Á þeirri
stundu kvaðst hún ekki hafa séð til A.
C
kvaðst hafa verið hálfsofandi þegar hún heyrði læti á ganginum fyrir framan
svefnherbergið og hafa áttað sig á því að þar var ákærði á ferð og heyrt að
hann var að sparka í vegg og banka mjög fast á svefnherbergishurðina gegnt því
herbergi sem hún og B höfðust við í.
Jafnframt kvaðst hún hafa heyrt hann öskra og þá áttað sig á því að A var
sofandi í herberginu þarna á móti. Hún
kvað atgang ákærða hafa staðið yfir í nokkrar mínútur, en þá hefði hún líkt og B
farið fram á ganginn til að gæta að hverju þetta sætti. Hún kvað ákærða hafa verið mjög áfjáðan í að
komast inn í herbergið og það jafnvel þrátt fyrir að hún legði það til að hann
legði sig í sófa þar sem A svæfi eftir atvikum ölvunarsvefni og gæti ekki
vaknað. Vegna þess kvaðst hún hafa tekið
þátt í því að banka á hurðina í þeim tilgangi að ná sambandi við A. Hún sagði að ákærði hefði verið mjög reiður
og hefði hann m.a. í atgangi sínum tekið niður myndir af veggjum þannig að þær
féllu ekki niður. Þá sagði hún að ákærði
hefði haft á orði að A gæti bara sofið úti á stéttinni fyrst hún hagaði sér með
þessum hætti. Hún sagði að ákærði hefði
gefið þá skýringu á athæfi sínu að hann vildi fá að sofa í eigin herbergi og
jafnframt að hann ætlaði að sofa þar á dýnu á gólfinu. Hún áætlaði að um 5-10 mínútur hefðu liðið
frá því að atgangur ákærða hófst þar til hurðin á herberginu opnaðist, en þá kvaðst
hún hafa séð A léttklædda, en þó ekki í sínum fötum, heldur íklædda einhverjum
bol að hún ætlaði. Hún treysti sér ekki
til að segja til um hvernig ákærði var klæddur er þetta gerðist. Hún sagði að A hefði verið mjög fámál þegar
hún opnaði rifu og haft á orði hvort ekki væri allt í lagi en síðan snúið aftur
og gengið að rúminu, en nánar lýsti hún ástandi A þannig: „hún var mjög líklega að vakna ... hún var svona bogin
eins og hún hafi verið
að vakna. Hún var full, mjög full
En ég veit ekki hvort hún var sofnuð eða jú
hún var mjög líklega að vakna. Ég bara
veit það ekki.“ Hún kvaðst hafa fylgst
með því er A lagðist upp í rúmið, en hún kvað dimmt hafa verið í
herberginu. Þá kvaðst hún hafa fylgst
með því að ákærði fór inn í herbergið á eftir A, og bar að hann hefði þá haft
með sér fyrrnefnda dýnu. Hún kvaðst mjög
fljótlega eftir þetta hafa horfið frá og farið aftur inn í fyrrnefnt
svefnherbergi ásamt B og ekki orðið vör við frekari atgang.
C
kvaðst hafa vaknað daginn eftir, um hádegisbilið, er ákærði hefði komið inn í
herbergið og vakið þau B með þeim orðum að þau þyrftu að fara að drífa
sig. Hún kvaðst hafa spurt ákærða um A,
en bar að hann hefði svarað því til að hún hefði verið farin þegar hann vaknaði
og hann hefði enga vitneskju um ferðir hennar.
Hún kvað sér hafa fundist þetta einkennilegt þar eð hún hefði séð að
skór og nærföt A voru enn í íbúðinni.
Síðar um daginn kvaðst hún hafa verið í sms-samskiptum
við A og fengið þau svör að allt væri í lagi með hana. Á mánudeginum kvaðst hún hafa rætt við A í
síma og þá heyrt frásögn hennar um að ákærði hefði nauðgað henni. Bar hún að A hefði verið í uppnámi og átt
erfitt með að skýra frekar frá málsatvikum.
Vitnið
B, fæddur 1989, lýsti fyrir dómi atvikum með líkum hætti og hér að framan var
rakið, að því er varðaði viðveru á hátíðarsamkomu og á vínveitingastöðum á
Akureyri 25. og 26. júní, en hann kvaðst þá hafa verið í fylgd vinkonu sinnar
og nágranna, A, en einnig vina hennar, C og ákærða. Hann kvaðst ekkert hafa þekkt til ákærða, en
bar að þá um nóttina hefði hann ásamt nefndum konum farið á heimili hans og
ætlaði að þá hefði klukkan verið um 02:30.
Hann sagði að nær strax hefðu þau farið í heitan pott sem þar var á
veröndinni, en bar að ákærði hefði lagt á það ríka áherslu að áður en farið
væri í pottinn yrðu allir að fara í sturtu og enn fremur þegar farið væri upp
úr. Hann sagði að þau hefðu farið nakin
í pottinn og átt þar góða stund við spjall, skemmtan og áfengisdrykkju. Hann sagði að þannig hefði allt verið á
vinsamlegum nótum, en minntist þess að ákærði hefði haft á orði að hann væri
svolítið skotinn í A og langaði mikið til að sofa hjá henni. Hann sagði að A hefði svarað ákærða með því
að segja að hann skyldi ekki vera með slíkt rugltal. Hann kvaðst hafa vitað að A átti kærasta er
atvik þessi gerðust og í raun hafa litið á þessar samræður sem vinatal án
sérstakrar merkingar. Hann bar að þau
fjögur hefðu verið undir töluverðum áfengisáhrifum, en án þess að vera
ofurölvi. Sagði hann að auk þess að
drekka bjór hefðu A, C og ákærði reykt saman einn maríhúanavindling. Hann sagði að komið hafi verið fram undir
morgun þegar A hefði haft orð á því að hún ætlaði að fara upp úr pottinum og
síðan að sofa. Hann sagði að er þetta
gerðist hefði A verið orðin töluvert ölvuð en ekki virst vera
dauðadrukkin. Í framhaldi af þessu
kvaðst hann hafa veitt því eftirtekt að hún gekk í rólegheitum frá pottinum og
inn í íbúðarhúsið. Kvaðst hann hafa
talið að hún ætlaði í sturtu en síðan að sofa.
Skömmu síðar kvaðst hann hafa fylgst með því er ákærði fór upp úr
pottinum. Eftir þetta kvaðst hann hafa
verið einn í pottinum með C, í um 15-20 mínútur, og bar að þau hefðu látið þar
vel hvort að öðru. Hann kvaðst ekki hafa
séð neinn umgang á veröndinni og þá ekki í því herbergi sem snéri að veröndinni
þann tíma sem leið þar til þau fóru bæði upp úr og í sturtu. Að því loknu kvað hann þau hafa farið inn í
herbergið sem snéri að veröndinni.
Nokkru eftir þetta kvaðst hann hafa heyrt skarkala frammi á ganginum og
er honum linnti ekki hefði hann gætt að málum og þá séð hvar ákærði var að
berja og hamra á herbergishurðina þar á móti, en einnig séð hann berja á
vegginn. Bar hann að ákærði hefði verið
nakinn við þessa iðju og greinilega mjög reiður. Hann sagði að á þessu hefði gengið í um fimm
mínútur, eða allt þar til A hefði opnað rifu á hurðina, en þá hefði hann séð að
dimmt var í herberginu. Hann lýsti
ástandi A nánar þannig: „... hún var þá alveg steinsofandi ábyggilega, ég sá
það alveg greinilega á henni ... hún pírði augun ... hún var þarna í náttfötum
eða í rauninni í bol og nærbuxunum“.
Hann kvaðst hafa staldrað stutt við eftir þetta, en farið aftur ásamt C inn
í fyrrnefnt herbergi, en þar hefðu þau sofnað og ekki orðið vör við frekari
umgang þennan morgun. Hann sagði að
ákærði hefði vakið þau daginn eftir um hádegisbilið með þeim orðum að foreldrar
hans væru væntanlegir og að þau yrðu af þeim sökum að drífa sig út úr
húsinu. Hann kvaðst hafa spurt ákærða um
A þar eð hún hefði ekki verið í húsinu þrátt fyrir að fötin hennar væru þar
enn. Hann sagði að ákærði hefði svarað
því til að hann hefði ekki vitneskju um það, en þó nefnt að e.t.v. hefði hún
skotist í vistarverur sem faðir hennar hafði til umráða í bænum. Um þetta leyti kvað hann C hafa fengið sms-símboð frá A, með beiðni um að hún tæki föt hennar með
sér, en að auki kvaðst hann hafa séð í eigin síma skilaboð frá henni þess efnis
að hún færi ekki frá Akureyri þennan dag eins og upphaflega hafði þó verið
ætlan þeirra. Síðar þennan dag kvaðst
hann hafa fengið fregnir af A og þá jafnframt að kærasti hennar væri kominn til
bæjarins. Vegna þessa kvaðst hann hafa
grunað að ekki væri allt með felldu og hefði hann fengið það staðfest 2-3 dögum
síðar, en þá hefði A skýrt honum frá ætluðu athæfi ákærða, en jafnframt farið
fram á að hann gæfi skýrslu á lögreglustöð þar sem hann hefði þá verið að
flytjast úr landinu.
Lögreglukonurnar
María Jespersen og Kolbrún B. Jónsdóttir staðfestu
fyrir dómi efni áðurrakinnar frumskýrslu lögreglu.
Bar
María Jespersen að A hefði verið illa til reika þegar
hún hitti hana á leikvelli við [...] að morgni sunnudagsins 26. júní. A hefði greinilega verið útgrátin og í miklu
uppnámi en einnig lítillega ölvuð. Hún bar að A hefði verið íklædd rennblautri
hettupeysu og í bol sem hún hefði notað sem pils, en hún hefði auk þess verið
berfætt. Hún kvaðst hafa skráð niður
frásögn A um ætlað kynferðisbrot en í framhaldi af því ekið henni á slysadeild
Sjúkrahússins á Akureyri. Aðspurð bar
hún að frásögn A hefði verið mjög skilmerkileg, en hún hefði m.a. borið að
gerandinn hefði verið náinn vinur hennar, en sagt að hún þyrfti að hugleiða það
nánar hvort hún myndi leggja fram kæru á hendur honum. Hún kvaðst miðað við aðstæður og áralanga
reynslu af málum eins og þessum hafa metið frásögn A mjög trúverðuga. Hafi hún
talað við margar stúlkur, sem hafi sakað menn um ,,...þessháttar athæfi og í
raun og veru bara verið að sjá eftir gjörðum næturinnar, ég fékk aldrei á
tilfinninguna með þessa stúlku að það væri eitthvað svoleiðis í gangi.“
Kolbrún
B. Jónsdóttir lýsti atvikum máls í öllum aðalatriðum á sama veg og nefnd
samstarfskona. Hún sagði að augljóst
hefði verið að A leið mjög illa og að hún var andlega niðurdregin, en þrátt
fyrir það hefði frásögn hennar verið skýr og greinargóð. Hún kvaðst hafa fundið áfengislykt af A. Hún hefði verið skólaus, en íklædd peysu og
bláum bol, sem hún hefði notað sem pils.
Vitnið
Alexander Kr. Smárason, fæðingar- og kvensjúkdómalæknir á Sjúkrahúsinu á
Akureyri, staðfesti fyrir dómi efni áðurrakinna læknisvottorða og
rannsóknargagna. Hann staðfesti m.a. að
eymsli hefðu verið á þumli og taldi líklegt að það hefði verið vegna þess að
strekkst hefði þar á vöðvum. Hann sagði
að roði hefði verið á kynfærum en bar að slíkt gæti komið til vegna þeirrar [...]
sem A var með, en einnig gæti slíkt komið vegna núnings við kynmök. Hann sagði að frásögn A hefði verið skýr um
það sem hún mundi, en bar að hún hefði að nokkru lýst minnisglöpum um atvik
máls. Um andlegt ástand A vísaði hann
til þess sem hann hefði skráð, en áréttaði að hún hefði verið í miklu sjokki og
liðið mjög illa yfir því sem gerst hafði.
Hann sagði að A hefði sagt frá því að hún hefði neytt áfengis þá um
nóttina og væri illa sofin. Hann bar að
lýst ástand A hefði ekki verið í neinu samræmi við það og sagði: „þetta var
miklu meira en það“.
Vitnið
Ingibjörg G. Júlíusdóttir, hjúkrunarfræðingur á Sjúkrahúsinu á Akureyri,
staðfesti fyrir dómi efni áðurrakinna rannsóknargagna frá neyðarmóttöku. Hún kvaðst hafa brugðist við útkalli umræddan
morgun og hitt A fyrir á sjúkrastofu þar sem hún hefði legið fyrir. Hún kvaðst hafa hlýtt á frásögn A og bar að
hún hafi verið samkvæm sjálfri sér um þau atriði sem hún mundi eftir. Um andlegt ástand A vísaði hún til
áðurrakinna gagna, en áréttaði að A hefði grátið og verið í hnipri og í miklu
uppnámi, en jafnframt reynt að harka af sér.
Hún kvaðst hafa metið það svo að A hefði ekki verið ölvuð, frekar hefði
það verið líkast því að hún hefði verið að þynnast upp og hefði það verið í
samræmi við frásögn um áfengisdrykkju þá um nóttina. Hún staðfesti að lokum að A hefði við komu á
sjúkrahúsið m.a. verið íklædd samfellu, og bar að hún hefði haldið því fram að
þannig hefði hún verið klædd þegar hinn ætlaði verknaður gerðist.
Vitnið
D, fædd 1985, kvaðst hafa fengið símhringingu að morgni 26. júní 2011 frá
vinkonu sinni, A, en þannig hefði hún fyrst fengið fregnir um það að hún væri
stödd á Sjúkrahúsinu á Akureyri. Í
framhaldi af því kvaðst hún hafa hitt A á sjúkrahúsinu, á milli klukkan 08:00
og 08:30, en erindið hefði m.a. verið að færa henni buxur. Hún kvaðst hafa hitt A þar sem hún lá fyrir á
sjúkrastofu og þá strax séð að hún var einungis skugginn af sjálfri sér. A hefði verið andlega niðurbrotin og alls
ólík sjálfri sér er hún hafi hitt hana daginn áður og því haft vitneskju um að
hún væri að fara á tiltekna hátíð. Hún
kvaðst hafa heyrt frásögn A af hinu ætlaða athæfi ákærða, en hún kvaðst ekki
hafa fundið áfengislykt af A í greint sinn.
Að
tilhlutan ákæruvalds gáfu skýrslu fyrir dómi E og F, en báðar eru þær búsettar
í Reykjavík og eru annars vegar vinkona og hins vegar mágkona brotaþola, A. Báðar kváðust þær hafa hlýtt á frásögn A um
ætlaða nauðgun ákærða. Þær staðhæfðu að A
hefði verið ólík sjálfri sér og miður sín andlega vegna ætlaðs verknaðar, en
ekki þykir þörf á að rekja framburð þeirra frekar.
Vitnið
Valur Magnússon rannsóknarlögreglumaður kvaðst hafa hitt A á Sjúkrahúsinu á
Akureyri að morgni sunnudagsins 26. júní.
Hann sagði að á þeirri stundu hefði hún ekki viljað gefa lögreglu
upplýsingar um ætlaðan geranda eða frekari upplýsingar um málavexti. Vegna þessa kvaðst hann hafa gefið A leiðbeiningar
um hvert hún gæti snúið sér ef hún vildi leggja fram kæru og bar að þann vilja
hefði hún sýnt í símtali þann 30. júní.
Hafi henni þá verið leiðbeint enn frekar og þ. á m. um að gefa skýrslu
hjá kynferðisbrotadeild lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu. Hann kvaðst í framhaldi af því hafa tekið
vitnaskýrslur en einnig skýrslu af ákærða með hefðbundnum hætti, en hún hefði
verið tekin upp með hljóði og mynd, eftir að ákærða hefði verið kynnt
réttarstaða, en hann hefði ekki óskað eftir tilnefningu verjanda. Nánar um efni skýrslunnar vísaði
lögreglumaðurinn m.a. til disklings lögreglu sem fylgir málskjölum ákæruvalds.
Að
ósk embættis ríkissaksóknara ritaði dr. Berglind Guðmundsdóttir sálfræðingur
vottorð þar sem lýst er mati á þeim afleiðingum sem ætlað brot hefur haft fyrir
A, en einnig um álit á meðferð hennar þegar til framtíðar væri litið. Vottorðið, sem dagsett er 21. nóvember 2011,
var lagt fram í dómi þann 5. desember sl.
Segir þar í upphafsorðum, að við gerð þess hafi verið stuðst við
móttökuskýrslu neyðarmóttöku Sjúkrahússins á Akureyri, niðurstöðu
greiningarmats, niðurstöðu sjálfsmatskvarða og nótur sem sálfræðingurinn ritaði
á meðan á viðtölunum stóð. Að auki var
samkvæmt vottorðinu stuðst við nótur Eyrúnar Jónsdóttur, hjúkrunarfræðings og
verkefnastjóra á neyðarmóttöku vegna kynferðisofbeldis á Landspítala, vegna
komu A þangað 12. og 19. júlí 2011. Í
samantektarkafla vottorðsins er vísað til þessara gagna. Þá er þess getið að sálfræðingurinn hafi hitt
asex sinnum á tímabilinu frá 18. ágúst
til 14. nóvember 2011 og segir að á því tímabili hafi endurtekið greiningarmat
farið fram á afleiðingum ætlaðs kynferðisbrots, en einnig segir að henni hafi
verið veittur sálrænn stuðningur og hugræn atferlismeðferð. Í vottorðinu segir nánar um greind atriði:
„Allt
viðmót A bendir til þess að hún hafi
upplifað mikla ógn, ofsaótta og bjargarleysi þegar meint kynferðisbrot átti sér
stað. Niðurstöður greiningarmats sýna að
A þjáist af áfallastreituröskun í kjölfar meints kynferðisbrots. Þykir ljóst að atburðurinn hefur haft víðtæk
og langvarandi áhrif á hana. Þau sálrænu
einkenni sem A upplifir í kjölfar áfallsins samsvara einkennum sem eru vel
þekkt hjá fólki sem hefur upplifað alvarleg áföll eins og stórslys, líkamsárás,
nauðgun eða hamfarir. Niðurstöður
sjálfsmatskvarða samsvara vel frásögnum hennar í viðtölum. Hún virðist ávallt hreinskilin, trúverðug og
samkvæm sjálfri sér.
Eins
og fram hefur komið er meðferðarvinna með A yfirstandandi. A hefur brugðist vel við þeirri
meðferðarvinnu sem hefur verið veitt, en hins vegar hefur hún upplifað verulegt
bakslag síðastliðnar vikur tengt dómsmáli um meint kynferðisbrot. Slíkt bakslag er nokkuð algengt hjá þolendum
ef þeir þurfa að takast á við áfallatengdar kveikjur, eins og t.d. að hitta
meintan geranda og að rifja upp atburðinn í dómsal. Því er talið mikilvægt að A vinni áfram að því að styrkja eigið
bjargráð við úrvinnslu áfalls. Gert er
ráð fyrir að A haldi áfram meðferðarvinnunni en ekki er hægt að segja með vissu
hve langan tíma meðferð tekur eða hvort bati náist.“
Dr.
Berglind Guðmundsdóttir staðfesti efni sálfræðimatsins fyrir dómi og bar að í
samtölum sínum við A hefðu engin önnur alvarleg áföll komið fram í lífi hennar
sem skýrt gætu fyrrnefnd einkenni áfallastreituröskunar. Hún sagði að ástand A hefði á tímabili verið
þannig að hún hefði þurft á svefnlyfjum að halda. Sagði hún að svefntruflanir gætu verið eitt
af einkennum áfallastreitu.
Vitnið
Eyrún Björg Jónsdóttir, hjúkrunarfræðingur á bráðadeild neyðarmóttöku
Landspítalans, bar fyrir dómi að A hefði samkvæmt tilvísun frá neyðarmóttöku
Sjúkrahússins á Akureyri tvívegis komið til eftirmeðferðar, þann 12. og 19.
júlí sl. Hún sagði að í viðtölunum hefði
greinilega komið fram vanlíðan hjá A og bar að það hefði verið í samræmi við
matskvarða sem hún hefði fyllt út um áfallastreitu og kvíða. Hún sagði að í kjölfar þessa hefði A fengið
viðeigandi stuðningsviðtöl.
III.
Ákærða
er í máli þessu gefin að sök nauðgun, með því að hafa aðfaranótt sunnudagsins
26. júní 2011 á þáverandi heimili sínu haft samræði og önnur kynferðismök við A
og við það notfært sér að hún gat ekki spornað við verknaðinum sökum ölvunar og
svefndrunga. Er brot ákærða talið varða
við 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 3. gr. laga nr.
61, 2007.
Ákærða
og brotaþola, A, greinir ekki á um að hann hafði samræði við hana þegar mjög
var liðið á nóttu. A staðhæfir að ákærði
hafi nauðgað sér og haft við sig samræði og aðra kynferðislega háttsemi, en
ákærði hefur borið að athæfi hans hafi verið með samþykki hennar og vilja að
öllu leyti.
Ákærði
og A þekktust vel er þau hittust síðdegis laugardaginn 25. júní í
hátíðarsamkvæmi, en A var þar m.a. í fylgd vina sinna, vitnanna C og B. Óumdeilt er að þau fjögur hófu neyslu áfengis
í samkvæminu og héldu um miðnættið í miðbæ Akureyrar. Þar héldu þau áfram skemmtan sinni, m.a. með
neyslu áfengra drykkja. Verður helst
ráðið að á milli kl. 02:30 og 03:00 hafi A og nefndir vinir hennar farið í boði
ákærða á heimili hans, en þar héldu þau gleðskapnum áfram, m.a með því að fara
saman nakin í heitan pott þar á veröndinni.
Héldu þau þar áfram neyslu áfengis, en einnig liggur fyrir að ákærði, A og
C reyktu saman einn maríhuanavindling.
Óumdeilt
er að A hafði ekki frekar en nefndir vinir hennar, vitnin C og B, áður komið í
húsakynni ákærða. Verður ráðið að þeim
hafi ekki alveg verið ljóst hvar ákærði hafði ætlað þeim svefnstað á heimilinu.
Samkvæmt
framburði ákærða og nefndra vitna lét ákærði tiltekin orð falla þegar þau voru
í heita pottinum, sem að mati dómsins gefa vísbendingar um að hann hafi haft
kynferðislegan áhuga á A. Þá verður af
framburði þeirra ráðið að mjög hafi verið farið að líða að degi þegar A fór upp
úr pottinum með þeim orðum að hún vildi draga sig í hlé og ganga til náða.
Fyrir
dómi lýsti A ástandi sínu er hún fór úr pottinum á þann veg, að hún hefði verið
mjög ölvuð og þreytt. Þá staðhæfði hún
að fíkniefnaneyslan hefði ekki bætt þar úr skák. Að virtum framburði ákærða en einnig vitnanna
B og C verður ráðið að svipað hafi verið komið fyrir þeim þegar þarna var komið
sögu og verður þetta lagt til grundvallar í málinu.
Óumdeilt
er að eftir að A fór úr pottinum lagði hún leið sína inn á baðherbergið, þar
sem hún fór í sturtu, og að ákærði fylgdi henni þangað eftir og að þar hófust
með þeim gagnkvæm atlot. Hefur A ekki
véfengt þau orð ákærða að hann hafi við nefndar aðstæður m.a. sett lim sinn í
leggöng hennar í stutta stund. Fyrir
dómi voru þau sammála um að ákærði hefði hætt samræðishreyfingum sínum um leið
og A fór fram á það. A sagði fyrir dómi
að er þetta gerðist hefði hún verið mjög þreytt, en afstöðu sína skýrði hún
nánar þannig að hún hefði ekki haft vilja til að halda atlotum sínum með ákærða
áfram. Sagði hún að þar hefði ekki síst
ráðið vitneskja hennar um að ákærði væri í sambúð, líkt og hún sjálf. Hún staðhæfði að þessa afstöðu hefði hún
skýrlega tjáð ákærða og jafnframt að hún vildi sofa ein það sem eftir lifði
nætur.
Við
aðalmeðferð málsins greindi ákærði frá athöfnum sínum eftir að A fór frá honum
á baðherberginu þannig, að eftir að hann hafði þurrkað sér hefði hann farið í
suðurhluta hússins, en þá séð hvar A hafði lagst fyrir í rúmi í herbergi bróður
hans. Samkvæmt frásögn ákærða og vettvangsteikningu lögreglu snýr glugginn í
þessu herbergi að áðurnefndri verönd.
Hefur ákærði borið að hann hafi farið inni í herbergið til A, og að þar
hefðu þau m.a. í stutta stund fylgst með vitnunum C og B láta vel hvort að öðru
í heita pottinum, en í framhaldi af því og án orða sjálf átt náin kynferðisleg
samskipti, þ. á m. munnmök. Þessi
frásögn ákærða þykir eftir atvikum hafa nokkra stoð í gögnum málsins, m.a. í frumskýrslu
lögreglu þar sem skráð var fyrsta frásögn A um atvik máls. Um nefnd atlot bar ákærði að hann hefði haft
frumkvæði að atlotunum í herberginu, en A legið fyrir. Þá sagði hann að A hefði hafnað því að hafa
munnmök við hann og hefði hann farið að vilja hennar og hætt frekari afskiptum
af henni, að sinni. Fyrir dómi hefur A ekki
kannast við greinda frásögn ákærða, en borið að minni hennar væri harla
gloppótt um atvik eftir að hún fór frá ákærða í baðherberginu. Kvaðst hún minnast mjög óljóst að hafa staðið
stutta stund við herbergishurð og átt þar í einhverjum samræðum, en treysti sér
ekki til að segja hver það var og þá ekki til að lýsa atvikum þar frekar. Hún staðhæfði og áréttaði að áður lýst ástand
hennar og minnisleysi mætti rekja til þess að hún hefði verið að niðurlotum
komin eftir langvarandi vöku og áfengisdrykkju.
Ákærði
hefur skýrt frá því að eftir nefnd viðskipti við A í herbergi bróður hans hefði
hann farið út á veröndina í þeim tilgangi að tilkynna gestum sínum, B og C, að
tími væri til kominn að taka á sig náðir.
A
hefur skýrt frá því fyrir dómi að hún myndi það helst að eftir að hún fór frá
ákærða í baðherberginu hefði hún farið inn í lítið herbergi, læst þar hurðinni,
en síðan lagst til hvílu í rúmi sem þar var fyrir. Hún kvaðst þá hafa verið íklædd nærbuxum og
bol sem hneppt voru saman. Hún kvaðst
hafa veitt því eftirtekt að í þessu herbergi voru myndir af ákærða og
sambýliskonu hans.
Samkvæmt
frásögn vitnanna B og C fyrir dómi höfðust þau við í heita pottinum eftir að A
og ákærði hurfu inn í húsið og var það ætlan þeirra að um 15-20 mínútur hefðu
liðið þar til ákærði kom aftur út á veröndina og tilkynnti þeim að réttast væri
fyrir þau að koma upp úr og taka á sig náðir.
Samkvæmt frásögn þeirra fóru þau mjög fljótlega eftir þetta saman og að
fyrirlagi ákærða í fyrrnefnt herbergi bróður hans.
Að
virtum framburði nefndra vitna verður lagt til grundvallar að eftir lýsta
atburðarás hafi ákærði gengið hart fram í því að fá A til að opna fyrir sér
fyrrnefnda herbergishurð. Lýstu vitnin B
og C atganginum þannig að hann hefði verið nakinn eða fáklæddur og viðhaft
reiðihróp og köll, en einnig barið og sparkað á hurð og veggi af ákafa í um
5-10 mínútur. Vitnin báru að ákærði
hefði engum fortölum tekið og hefðu þau að lokum reynt að ná sambandi við A í
herberginu. Liggur fyrir að ákærði
linnti ekki látum fyrr en A opnaði rifu á herbergishurðina.
Við
meðferð málsins hefur A staðhæft að hún hafi sofnað í umræddu herbergi, en
vaknað við atgang ákærða, en að auki heyrt á tal vina sinna. Hún hefði því aflæst og opnað
herbergishurðina, en síðan nær strax lagst aftur til hvílu í rúminu.
Samkvæmt
framburði B var rökkur í herberginu er A opnaði hurðina. Sagði vitnið að það hefði verið líkast því að
A hefði verið að vakna upp af svefni þegar hún opnaði fyrir ákærða. Að mati dómsins er þetta í samræmi við
vitnisburð C. Verður að þessu virtu
framburður A lagður til grundvallar, að hún hefði verið sofandi í herberginu
þegar ákærði hóf umræddan atgang.
Óumdeilt er að ákærði fór á eftir A inn í svefnherbergið og lagðist þar
fyrir á dýnu sem hann hafði meðferðis, en að hún hafi þá þegar verið lögst
fyrir í rúminu.
Fyrir
dómi hefur ákærði neitað sök, eins og áður er rakið, en játað að hafa haft
samfarir við A og borið að það hafi verið með vilja hennar og samþykki. Hefur ákærði lýst aðdraganda kynferðismakanna
á þá leið að hann hafi í fyrstu legið á umræddri dýnu, í um það bil eina
mínútu, en síðan afráðið að fara upp í rúmið til A og þá haft kynlíf í huga og
því hvíslað kynferðislegum orðum í eyra hennar.
Ákærði hefur staðhæft að A hafi svarað með jáyrðum, en að auki tekið
fullan þátt í kynlífsathöfnum þeirra, þar á meðal samförunum, en síðan
skyndilega umturnast, andmælt athæfi hans ákaft og síðan hótað honum
líkamsmeiðingum. Ákærði hefur jafnframt
kannast við að A hafi rokið fáklædd á dyr með hótunum um velferðarmissi
hans. Hann hafi á engan hátt áttað sig á
orsök þessara viðbragða A.
Framburður
A hefur við meðferð málsins verið í algjörri andstöðu við frásögn ákærða. Hún hefur borið að hún hafi ekki getað
spornað við verknaði ákærða sökum ölvunar og svefndrunga og fyrst fyllilega
komist til sjálfrar sín er höfuð hennar rakst ítrekað í rúmgaflinn eða vegginn
vegna athæfis hans.
Samkvæmt
framangreindu er ágreiningslaust að A gerði ákærða skýrlega grein fyrir því,
eftir að þau höfðu sýnt hvort öðru gagnkvæm atlot inni á baðherberginu í skamma
stund, að hún vildi ekki ganga lengra og að hún vildi ekki stunda kynlíf með
honum. Frásögn ákærða og A er að auki
samhljóða um að hún hafi í þessu sambandi höfðað til samvisku þeirra beggja, og
nefnt að þau væru bæði í sambúð. Við
meðferð málsins hefur ákærði staðhæft að eftir lýst samskipti á baðherberginu
hefði A í annað sinn hafnað tilteknum kynferðisathöfnum eftir stutt atlot, en
að þau hefðu þá verið í herbergi sem snéri að verönd hússins. Ákærði hefur borið að hann hafi í bæði þessi
skipti farið að vilja A og hætt athæfi sínu og að engir eftirmál hefðu
orðið. A kannast við samskiptin á
baðherberginu, en kvaðst fyrir dómi ekkert muna eftir að þau hafi verið saman í
herbergi, áður en vinir hennar komu upp úr pottinum. Vitnin B og C hafa borið
að þau hafi ekki tekið eftir umgangi í umræddu herbergi, er snéri að veröndinni,
er þau voru ein í heita pottinum. Þau
hafa jafnframt sagt að þau hafi haft annað að sýsla á þeirri stundu.
Óumdeilt
er að A lagðist til hvílu eftir að hafa læst að sér og að þá hafi mjög verið
liðið á nóttu. A hefur við alla meðferð
málsins staðhæft að hún hafi vaknað upp af svefni er ákærði hóf atgang sinn við
herbergishurðina. Að virtum trúverðugum
framburði vitnanna B og C verður eins og áður er rakið þessi framburður A lagður
til grundvallar við úrlausn málsins.
Óumdeilt er að A lagðist til hvílu nær strax og hún hafði opnað fyrir
ákærða og að hann lagðist í framhaldi af því til hvílu á dýnu við hliðina á
rúmi hennar. Samkvæmt vætti B var dimmt
í herberginu. Fyrir dómi hefur A borið
að hún hafi vaknað á nýjan leik við lýst athæfi ákærða, og jafnframt
staðfastlega borið að það hafi verið í algjörri andstöðu við vilja hennar. Að áliti dómsins er frásögn A að þessu leyti
einlæg og trúverðug.
Fyrir
liggur að ákærði og A áttu kynferðisleg samskipti um nóttina með vitund beggja.
Jafnframt liggur fyrir að þeim lauk fljótt og að hennar frumkvæði. Gaf hún
ákærða strax um nóttina auðskilda skýringu á því. Þá liggur fyrir að A gekk til náða, læsti að
sér og opnaði ekki fyrir ákærða fyrr en eftir barsmíðar hans á hurð og veggi,
svo sem rakið hefur verið. Það að hún
læsti að sér var skýrt merki þess að hún vildi ekki frekari félagsskap um
nóttina. Þá þykir mega byggja á því að A
hafi verið nær svefni en vöku er hún opnaði eftir að barið hafði verið lengi að
dyrum. Hún lagðist þegar til svefns á
ný. Hún kveðst ekki hafa vaknað aftur
fyrr en höfuð hennar hafi skellst í vegginn, en muna brotakennt eftir því að
ákærði var að snúa henni til og hafa mök við hana, þótt hún væri þá svo á valdi
svefns og þreytu að hún hafi ekki vaknað nægilega til að sporna gegn því.
Ljóst
er að ákærði hafði kynferðismök við A eftir að hún opnaði herbergið. Horfa
verður til þess sem fyrir liggur um samskipti þeirra fram að því og viðbragða A
á því tímamarki sem hún kveðst hafa vaknað til fulls. Dómurinn álítur að þau hafi verið
uppgerðarlaus. Fær sú ályktun sérstaka
stoð í vætti Maríu Jespersen lögreglumanns um mat
hennar á frásögn A um morguninn. Lýsing
sérfræðinga, einkum og sér í lagi læknis og hjúkrunarfræðings sem önnuðust A þegar
eftir atburðinn, styrkir einnig trúverðugleika framburðar hennar. Hefur A verið sjálfri sér samkvæm frá upphafi
og frásögn hennar eindregin alla tíð. Er
hún að mati dómsins trúverðug, en að sama skapi ótrúverðug sú frásögn ákærða
fyrir dómi að þau A hafi haft kynmök með fullri þátttöku beggja í ýmsum
stellingum. Þykir frásögn A að svo
miklum mun trúverðugri að rétt þykir að leggja hana til grundvallar. Hlýtur ákærða að hafa verið ljóst að A, væri
vegna svefndrunga og áfengisáhrifa ekki fær um að sporna gegn athöfnum
hans. Hefur hann samkvæmt því gerst
sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru og er rétt færð til
refsiheimildar.
IV.
Ákærði,
sem er 27 ára, hefur ekki áður sætt refsingum.
Með hliðsjón af eðli brots ákærða og alvarleika, sbr. 1. tl. 1. mgr. 70. gr. laga nr. 19, 1940, þykir refsing hans
hæfilega ákveðin fangelsi tvö ár og eru ekki efni til að skilorðsbinda hana.
Ákærði
verður dæmdur til að greiða brotaþola miskabætur, með heimild í b-lið 1. mgr.
26. gr. laga nr. 50, 1993, sbr. 13. gr. laga nr. 37, 1999. Bótakrafa skipaðs réttargæslumanns fyrir hönd
brotaþola er höfð uppi í ákæru og liggur greinargerð um hana frammi í málinu. Var krafan reifuð og rökstudd enn frekar við
munnlegan málflutning. Til rökstuðnings
er m.a. vísað til áður rakinna vottorða sérfræðilækna en einnig sálfræðings um
afleiðingar verknaðar ákærða. Verður
ákærði að þessu virtu dæmdur til að greiða brotaþola, A, 800.000 krónur í
miskabætur með vöxtum eins og krafist er.
Samkvæmt
1. mgr. 218. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88, 2008 verður ákærða gert að
greiða sakarkostnað samkvæmt yfirliti ákæruvalds að fjárhæð 256.400
krónur. Jafnframt verður ákærða gert að
greiða málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns og þóknun réttargæslumanns
brotaþola auk ferðakostnaðar, en þær fjárhæðir eru tilgreindar í dómsorði að
meðtöldum virðisaukaskatti.
Gætt
var ákvæða 1. mgr. 184. gr. laga nr. 88, 2008 fyrir uppsögu dómsins.
Kolbrún
Benediktsdóttir aðstoðarsaksóknari flutti málið af hálfu ákæruvaldsins.
Málið
dæma héraðsdómararnir Ólafur Ólafsson, Erlingur Sigtryggsson og Þorsteinn
Davíðsson.
D Ó M S O R Ð :
Ákærði,
Jóhann Ingi Gunnarsson, sæti fangelsi í tvö ár.
Ákærði
greiði A 800.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu
nr. 38, 2001 frá 26. júní 2011 til 16. september 2011, en með dráttarvöxtum
samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði
greiði 976.650 krónur í sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs
verjanda síns, Ólafs Rúnars Ólafssonar hæstaréttarlögmanns 376.500 krónur og
þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola Þyríar
Steingrímsdóttur hdl. 313.750 krónur, auk 30.000 vegna ferðakostnaðar hennar.