Hæstiréttur íslands
Mál nr. 612/2007
Lykilorð
- Kærumál
- Kröfugerð
- Vanreifun
- Frávísunarúrskurður staðfestur
|
|
Miðvikudaginn 5. desember 2007. |
|
Nr. 612/2007. |
Sigurður B. Markússon Straumsbúið sf. Íslenskir aðalverktakar hf. Sína Þorleif Þórðardóttir Leifur Sörensen Gréta Elín Sörensen og Birgir Sörensen (Ragnar Aðalsteinsson hrl.) gegn Alcan á Íslandi hf. (Hákon Árnason hrl.) íslenska ríkinu og (Óskar Thorarensen hrl.) Hafnarfjarðarkaupstað(Jón Höskuldsson hrl.) |
Kærumál. Kröfugerð. Vanreifun. Frávísunarúrskurður staðfestur.
Sóknaraðilar kærðu frávísunarúrskurð héraðsdóms. Hæstiréttur staðfesti hinn kærða úrskurð með vísan til forsendna hans að því er varðaði fyrstu og aðra kröfu sóknaraðila þar sem ekki yrðu samhliða hafðar uppi kröfur um viðurkenningu á að tiltekin starfsemi væri óheimil til frambúðar vegna óhagræðis fyrir sóknaraðila og að þeim yrði jafnframt bætt tjón vegna þess óhagræðis að fullu. Kröfur þessar væru ósamrýmanlegar þar sem rök stæðu ekki til að verða við þeim báðum samtímis. Þá var ekki talið að ráðið yrði af gögnum málsins hvort það landsvæði sem kröfugerð sóknaraðila tæki til væri í óskiptri sameign þeirra tveggja jarða sem sóknaraðilar áttu og ef svo væri ekki, hvernig afstöðu hvorrar jarðar um sig til svæðisins væri háttað. Var málið talið svo vanreifað að þessu leyti að ekki yrði komist hjá því að vísa því frá héraðsdómi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 5. nóvember 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 16. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. október 2007, þar sem máli sóknaraðila gegn varnaraðilum var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðilar krefjast þess að úrskurður héraðsdóms verði felldur úr gildi um annað en málskostnað og lagt fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefjast þeir kærumálskostnaðar.
Varnaraðilinn Alcan á Íslandi hf. kærði úrskurð héraðsdóms fyrir sitt leyti 5. nóvember 2007. Hann krefst þess að úrskurðurinn verði staðfestur um annað en málskostnað, sem sér verði dæmdur ásamt kærumálskostnaði.
Varnaraðilarnir íslenska ríkið og Hafnarfjarðarkaupstaður krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
I.
Sóknaraðilar eru eigendur jarðanna Óttarsstaða I og Óttarsstaða Vestri, sem einnig munu nefndir Óttarsstaðir II. Jarðirnar eru í Hafnarfirði og liggur land þeirra sunnan og vestan við athafnasvæði varnaraðilans Alcan á Íslandi hf. við Straumsvík. Sóknaraðilar telja að starfsemi álbræðslunnar við Straumsvík takmarki með ólögmætum hætti möguleika sína til eðlilegra afnota og hagnýtingar nánar skilgreinds hluta jarðanna sem næst liggur álbræðslunni og að á því beri varnaraðilar ábyrgð. Af því tilefni höfðuðu þeir mál þetta 26. mars 2007 og hafa uppi þríþættar kröfur, sem nánari grein er gerð fyrir í hinum kærða úrskurði. Varnaraðilar kröfðust frávísunar málsins og studdu þá kröfu margvíslegum málsástæðum og lagarökum er lutu að ætluðum annmörkum á málatilbúnaði sóknaraðila, einkum varðandi kröfugerð þeirra, aðild til sóknar í málinu og fyrirsvar varnaraðilans íslenska ríkisins eins og nánar er rakið í hinum kærða úrskurði. Sóknaraðar andmæltu kröfum um frávísun. Í hinum kærða úrskurði er gerð grein fyrir málsástæðum og lagarökum þeirra sem að þessu lúta.
II.
Allar þrjár kröfur sóknaraðila eru viðurkenningarkröfur og er varakrafa gerð vegna hverrar þeirra um sig. Fyrsta krafan lýtur að viðurkenningu á að óheimilt sé að reka álbræðslu varnaraðilans Alcan á Íslandi hf. þannig að frá starfseminni stafi gastegundir og reykur, sem mengi loft, vatn og/eða land á jörðum sóknaraðila og takmarki þar með not þeirra á 456,2 ha svæði. Jafnframt þessu verði viðurkennt að sú takmörkun sem felist í 12. gr. aðalsamnings milli íslenska ríkisins og Alusuisse 28. mars 1966 á ábyrgð varnaraðilans Alcan á Íslandi hf. á tjóni innan svæðis svonefndrar takmarkaðrar ábyrgðar, eins og það er skilgreint í samningnum, sé ólögmæt og ógild gagnvart sóknaraðilum. Varðandi þessa fyrstu aðalkröfu er höfð uppi varakrafa þar sem krafist er viðurkenningar á að rekstur álbræðslunnar sé óheimill þannig að frá henni stafi mengun er takmarki not minna landsvæðis innan jarða sóknaraðila og er þá miðað við 253,3 ha er falla innan svonefnds þynningarsvæðis. Önnur krafa sóknaraðila er að viðurkennt verði að varnaraðilum sé skylt gegn afsali á landinu að kaupa af sóknaraðilum eða greiða þeim sem skaðabætur andvirði 456,2 ha af landi jarðanna og greiða fyrir það fjárhæð sem jafngildi markaðsverðmæti landsins sem byggingarlands fyrir íbúðarhúsnæði. Hér er höfð uppi sú varakrafa að andvirði landsins nemi mismun á markaðsverðmæti byggingarlands undir íbúðarhúsnæði annars vegar og iðnaðarhúsnæði hins vegar. Þriðja krafa sóknaraðila lýtur að viðurkenningu á því að varnaraðilar séu skaðabótaskyldir gagnvart sóknaraðilum vegna skerðingar á notum hluta jarðarinnar af völdum álbræðslunnar frá 1. apríl 1997 til dómsuppsögudags. Í þessari þriðju kröfu er aðallega miðað við bætur vegna skerðingar nota á 456,2 ha lands en til vara á 253,3 ha.
III.
Fyrsta dómkrafa sóknaraðila lýtur að því að viðurkennt verði að óheimilt sé að reka álbræðsluna í Straumsvík þannig að mengun frá henni takmarki not tilgreinds hluta jarða sóknaraðila. Önnur dómkrafan lýtur hins vegar að því viðurkennt verði að varnaraðilum sé gegn útgáfu afsals skylt að kaupa af sóknaraðilum eða bæta þeim sama landsvæði og fyrsta krafan tekur til miðað við tilteknar forsendur um verðmat. Ekki verður samhliða höfð uppi krafa um viðurkenningu á að tiltekin starfsemi sé óheimil til frambúðar vegna óhagræðis fyrir sóknaraðila og að þeim verði jafnframt bætt tjón vegna þess óhagræðis að fullu. Kröfur þessar eru ósamrýmanlegar þar sem ekki er unnt að verða við þeim báðum samtímis. Verður því með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar staðfest sú niðurstaða hans að vísa beri fyrstu og annarri kröfu sóknaraðila frá héraðsdómi. Er þá ekki þörf á að taka afstöðu til annarra málsástæðna aðila er varða þessar kröfur.
IV.
Í þinghaldi 10. október 2007, þegar fram fór í héraði munnlegur málflutningur um frávísunarkröfu varnaraðila, voru lögð fram af hálfu sóknaraðila þinglýsingarvottorð vegna jarðanna Óttarsstaða Vestri og Óttarsstaða I. Samkvæmt þeim skiptist eignarhald að fyrrnefndu jörðinni þannig að sóknaraðilinn Leifur Sörensen á 16,67%, sóknaraðilinn Gréta Elín Sörensen 16,67%, sóknaraðilinn Sína Þorleif Þórðardóttir 50% og sóknaraðilinn Birgir Sörensen 16,67%. Eignarhald að síðarnefndu jörðinni skiptist þannig samkvæmt þinglýsingarvottorði að Landsbanki Íslands hf. er talinn eigandi 2/6 hluta, sóknaraðilinn Sigurður Markússon eigandi 1/6 hluta en sóknaraðilinn Straumsbúið sf. eigandi 3/6 hluta. Í sama þinghaldi var lagt fram afsal 25. nóvember 1999 þar sem Landsbanki Íslands hf. afsalar sóknaraðilanum Íslenskum aðalverktökum hf. eignarhluta sínum í jörðinni. Sóknaraðilar hafa þannig gert viðhlítandi grein fyrir eignarhaldi sínu að hvorri jörðinni um sig, enda þótt ekki hafi gætt fulls samræmis í því hvernig fyrirsvari fyrir Straumsbúið sf. hefur verið háttað. Jörðin Óttarsstaðir Vestri er samkvæmt þessum gögnum í óskipti sameign fjögurra af sóknaraðilunum sjö en Óttarsstaðir I í óskiptri sameign hinna þriggja. Af hálfu sóknaraðila er því haldið fram að allt land jarðanna tveggja sé í óskiptri sameign. Fyrir því hafa hins vegar ekki verið lögð fram nein gögn en vísað til ummæla í dómi Hæstaréttar sem birtur er á bls. 1511 í dómasafni réttarins 1992 þar sem segir: „Útland jarðarinnar Óttarsstaða er í óskiptri sameign Óttarsstaða I. og Óttarsstaða II.“ Verður af gögnum málsins ekki ráðið hvort það landsvæði sem kröfugerð sóknaraðila tekur til sé í óskiptri sameign jarðanna tveggja og sé ekki svo hvernig afstöðu hvorrar jarðar um sig til þessa svæðis sé þá háttað. Verður fallist á með varnaraðilum að málið sé að þessu leyti svo vanreifað að ekki verði hjá því komist að vísa því frá héraðsdómi. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur um annað en málskostnað.
Eins og málið liggur fyrir eru ekki rök til þess að víkja frá þeirri aðalreglu 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 að stefnanda máls í héraði verði gert að greiða stefnda málskostnað þegar máli er vísað frá dómi. Verður sóknaraðilum því gert að greiða varnaraðilanum Alcan á Íslandi hf., sem kært hefur úrskurð héraðsdóms, málskostnað í héraði eins og í dómsorði greinir, en ákvæði hins kærða úrskurðar um málskostnað verður staðfest að öðru leyti. Sóknaraðilum verður gert að greiða varnaraðilum kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur um annað en málskostnað.
Sóknaraðilar, Sigurður B. Markússon, Straumsbúið sf., Íslenskir aðalverktakar hf., Sína Þorleif Þórðardóttir, Leifur Sörensen, Gréta Elín Sörensen og Birgir Sörensen, greiði sameiginlega varnaraðilanum Alcan á Íslandi hf. 150.000 krónur í málskostnað í héraði. Málskostnaður í héraði fellur niður milli sóknaraðila og varnaraðilanna íslenska ríkisins og Hafnarfjarðakaupstaðar.
Sóknaraðilar greiði sameiginlega varnaraðilum hverjum um sig 150.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. október 2007.
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar miðvikudaginn 10. október sl., hafa stefnendur, Sigurður B. Markússon, Óðinsgötu 32b, Reykjavík, Kristinn Sveinsson, Hólastekk 5, Reykjavík, Straumbúið sf., Straumi, Hafnarfirði, Íslenskir aðalverktakar hf., Höfðabakka 9, Reykjavík, Sína Þorleif Þórðardóttir, Hjallahlíð 31, Mosfellsbæ, Leifur Sörensen, Smyrlahrauni 20, Hafnarfirði, Gréta Elín Sörensen, Bragagötu 30, Reykjavík og Birgir Sörensen, Kirkjuteig 18, Reykjavík, höfðað fyrir dóminum 26. mars 2007, gegn stefndu, Alcan á Íslandi hf., Straumsvík, Hafnarfirði, íslenska ríkinu og Hafnarfjarðarkaupstað, Strandgötu 6, Hafnarfirði.
Dómkröfur stefnenda í málinu eru eftirfarandi;
að óheimilt sé án samþykkis stefnenda að reka álbræðslu stefnda, Alcan á Íslandi hf., í Straumsvík þannig, að frá starfseminni stafi gastegundir og reykur, sem mengi loft, vatn og/eða land á jörð stefnenda, Óttarsstöðum í Hafnarfirði, og takmarki þar með not lands jarðarinnar á 456,2 hektara svæði og jafnframt verði viðurkennt að sú takmörkun sem felst í 12. gr. aðalsamnings milli íslenska ríkisins og Alusuisse hinn 28. mars 1966 á ábyrgð Alcan á Íslandi hf. (áður ÍSAL) á tjóni innan svæðis takmarkaðrar ábyrgðar, eins og það er skilgreint í greindum samningi, í landi Óttarsstaða sé ólögmæt og ógild gagnvart stefnendum sem eigendum jarðarinnar Óttarsstaða.
Stefnendur gera þær dómkröfur TIL VARA að viðurkennt verði með dómi gagnvart öllum stefndu, þ.e. íslenska ríkinu, Alcan á Íslandi hf. og Hafnarfjarðarkaupstað;
að óheimilt sé án samþykkis stefnenda að reka álbræðslu stefnda, Alcan á Íslandi hf., í Straumsvík þannig, að frá starfseminni stafi gastegundir og reykur, sem mengi loft, vatn og/eða land á jörð stefnenda, Óttarsstöðum í Hafnarfirði, og takmarki þar með not lands jarðarinnar á 253,3 hektara svæði, sem nefnt er ,,þynningarsvæði” í starfsleyfi til handa stefnda, Alcan á Íslandi hf., en þynningarsvæðið er allt innan svæðis takmarkaðrar ábyrgðar að undanskildum 3,8 hekturum.
Þá gera stefnendur ennfremur eftirfarandi dómkröfur;
að viðurkennt verði með dómi á hendur öllum stefndu
að stefndu sé skylt, öllum saman in solidum eða tveimur saman in solidum eða einum þeirra, að kaupa af stefnendum eða greiða þeim í skaðabætur andvirði 456,2 hektara af landi jarðarinnar Óttarsstaða, en þar af eru 452,4 hektarar á svæði takmarkaðrar ábyrgðar sem afmarkað er í aðalsamningi stefndu íslenska ríkisins og móðurfélags Alcan á Íslandi hf. (Alusuisse) frá árinu 1966 og 3,8 hektarar innan þynningarsvæðis en utan svæðis takmarkaðrar ábyrgðar, og greiða fyrir landsvæðið fjárhæð sem jafngildir markaðsverðmæti landsins sem byggingarlands fyrir íbúðarhúsnæði á endanlegum dómsuppsögudegi máls þessa gegn afsali á landinu eða til vara, að stefndu sé skylt, öllum saman in solidum eða tveimur saman in solidum eða einum þeirra, að greiða stefnendum sameiginlega og óskipt fjárhæð sem nemi mismuninum á markaðsverðmæti miðað við dómsuppsögudag fyrrnefndra 456,2 hektara lands úr landi Óttarsstaða sem byggingarlands undir íbúðarhúsnæði annars vegar eða sem byggingarlands undir iðnaðarhúsnæði hins vegar;
að stefndu séu in solidum eða hver fyrir sig skaðabótaskyldir gagnvart stefnendum vegna skerðingar á notkun aðallega 456,2 en til vara 253,3 hektara lands jarðarinnar Óttarsstaða af völdum álbræðslunnar frá 1. apríl 1997 til endanlegs dómsuppsögudags máls þessa.
Þá er krafist málskostnaðar alls til handa stefnendum óskipt samkvæmt framlögðum reikningi eða samkvæmt ákvörðun dómsins úr hendi stefndu in solidum eða hvers um sig að teknu tilliti til hagsmuna í húfi, vandasemi verksins og þess tíma sem undirbúningur og rekstur þess tekur.
Dómkröfur allra stefndu eru aðallega að máli þessu verði vísað frá dómi en til vara að þeir verði sýknaðir af öllum kröfum stefnenda. Í báðum tilvikum krefjast stefndu málskostnaðar in solidum úr hendi stefnenda.
Að undangengnum munnlegum málflutningi 10. október sl. var tekin til úrskurðar krafa stefndu um að málinu yrði vísað frá dómi. Stefnendur gera þær kröfur í þessum þætti málsins að frávísunarkröfu stefndu verði hrundið og að stefnendur verði dæmdir til að greiða málskostnað af þessum þætti málsins.
I.
Ríkisstjórn Íslands og Swiss Aluminium Limited (Alusuisse), síðar Alcan Holdings Switzerlands Ltd. (Alcan Holdings eða móðurfélagið) rituðu 28. mars 1966 undir samning, svonefndan aðalsamning, þar sem dótturfélag Alusuisse, Íslenska Álfélagið, þá ISAL, nú Alcan á Íslandi hf., tók að sér byggingu og rekstur álbræðslu í Straumsvík í Hafnarfirði. Samhliða gerð samnings þessa gerðu Landsvirkjun og ISAL og Hafnarfjarðarkaupstaður og ISAL einnig samninga (rafmagnssamning og hafnar- og lóðarsamning). Með samningunum var samið um ýmis atriði sem viðkomu rekstri álvers á Íslandi. Í aðalsamningi var samið um flest þau atriði sem helst voru talin skipta máli varðandi byggingu og rekstur álversins, s.s. byggingartíma, afköst og umfang starfseminnar, öryggi í rekstri, tolla- og gjaldeyrismál, starfslið hennar, innlend viðskipti o.fl. Með gr. 12.01 var ISAL veitt ákveðin undanþága frá ábyrgð á tjóni sem hlytist af gastegundum og reyk frá álverinu innan svæðis svokallaðrar takmarkaðrar ábyrgðar eins og það var nánar skilgreint í ákvæðinu og fylgiskjali C með hafnar- og lóðarsamningi. Í rafmagnssamningi var samið um afhendingu og sölu á rafmagni frá Landsvirkjun til ISAL og með hafnar- og lóðarsamningi var ISAL látin í té lóð undir álverið í Straumsvík í landi Hafnarfjarðarkaupstaðar og hafnaraðstaða í víkinni. Jafnframt þessu var ritað undir svonefnda aðstoðarsamninga milli ISAL og Alusuisse þar sem ISAL var tryggð tæknileg, viðskiptaleg og stjórnarleg aðstoð af hálfu Alusuisse við byggingu og rekstur álbræðslunnar. Að lokum var ritað undir samninga um framkvæmdatryggingu milli ríkisstjórnar Íslands og Alusuisse þar sem Alusuisse lagði fram sérstaka tryggingu fyrir því að fyrsti áfangi álversins yrði byggður á réttum tíma. Einnig voru stofnskrá og samþykktir ISAL samþykktar á þessum tíma og gerðar að fylgiskjölum með aðalsamningi.
Aðalsamningi var veitt lagagildi hér á landi með lögum nr. 76/1966 um lagagildi samnings milli ríkisstjórnar Íslands og Swiss Aluminium Ltd um álbræðslu í Straumsvík. Framleiðsla hófst í álverinu á árinu 1969 en álverið var formlega vígt á árinu 1970. Frá þeim tíma hafa fimm viðaukasamningar verið gerðir við aðalsamninginn, sem allir hafa hlotið lagagildi á Íslandi, sbr. lög nr. 19/1970, nr. 42/1976, nr. 104/1984, nr. 111/1985, og nr. 155/1995. Núgildandi starfsleyfi stefnda, Alcan á Íslandi hf., var gefið út af umhverfisráðherra 7. nóvember 2005 og gildir til 1. nóvember 2020.
Stefnendur lýsa yfir að þeir séu allir eigendur jarðarinnar Óttarsstaða í Hafnarfirði. Sigurður B. Markússon, Straumsbúið sf. og Íslenskir aðalverktakar hf. séu eigendur Óttarsstaða I en Sína Þorleif Þórðardóttir, Leifur Sörensen, Gréta Sörensen og Birgir Sörensen séu eigendur Óttarsstaða II. Land jarðarinnar sé í óskiptri sameign allra stefnenda og komi þeir fram sameiginlega gagnvart stefndu. Á jörðinni hafi lengi verið búið. Elstu heimildir um jörðina séu frá 1379. Jörðin Óttarsstaðir hafi komist í eigu Viðeyjarklausturs 9. september 1457, a.m.k. að hluta. Um miðja 16 öld hafi jörðin komist í konungseign. Óttarsstaðir hafi verið seldir úr konungseign 28. ágúst 1839 og verið í einkaeign upp frá því. Tilheyri jörðin svokölluðum Hraunajörðum og að jörðinni liggi Lónakot og Hvassahraun að vestan og Straumur að austan. Landamerki jarðarinnar gagnvart Straumi hafi verið lesin á manntalsþingi 9. júní 1890 og samþykkt af eigendum Krísuvíkur. Landamerki milli Óttarsstaða og Lónakots hafi verið þinglýst 9. júní 1890 og landamerki milli Óttarsstaða og Hvassahrauns lesin á manntalsþingi sama dag. Stefnendur lýsa yfir að enginn ágreiningur sé um landamerki jarðarinnar.
Stefnendur gera grein fyrir því að stefnendur hafi áformað að taka land sitt til eðlilegra afnota og hagnýtingar sem byggingarland eftir því sem íbúabyggð í Hafnarfirði hafi þróast í átt að Straumsvík og landi Óttarsstaða. Hafi þeim orðið ljóst eftir viðræður við stjórnvöld í Hafnarfirði að þeir fengju ekki að nota landið í þeim tilgangi. Komið hafi í ljós að með samningi milli ríkisstjórnar Íslands og Swiss Aluminium Ltd um álbræðslu við Straumsvík, sem veitt hafi verið lagagildi hér á landi með lögum nr. 76/1966 hafi stefnda, Alcan á Íslandi hf., verið heimilað að haga starfsemi sinni þannig að loft, jörð og/eða vatn á svæði takmarkaðrar ábyrgðar innan jarðarinnar og síðar svæði takmarkaðrar ábyrgðar að viðbættum 3,8 hektara þynningarsvæðis utan fyrrnefnds svæðis úr landi jarðarinnar hafi verið mengað með eitruðum lofttegundum frá álbræðslunni og hafi mengunin útilokað að unnt væri að nota landið í fyrirhuguðum tilgangi. Um þetta hafi stefnendum ekki verið tilkynnt. Með fyrrgreindum samningi og samþykki stefnda, Hafnarfjarðarkaupstaðar, hafi verið komið í veg fyrir að landið yrði nothæft til íbúðarbyggðar, sem hafi verið í eðlilegu framhaldi af þróun íbúðarbyggðar í Hafnarfirði og á höfuðborgarsvæðinu. Hafi bæjaryfirvöld í Hafnarfirði synjað stefnendum um byggingarleyfi á jörðinni. Hafi stefnendur lagt fyrir skipulagsyfirvöld skipulagshugmyndir um allt að tuttugu þúsund manna byggð í landi Óttarsstaða og óskað eftir afstöðu bæjaryfirvalda. Í úrskurði Skipulagsstofnunar ríkisins frá 26. júlí 2005 um mat á umhverfisáhrifum vegna stækkunar álvers í Straumsvík sé m.a. vísað til umsagnar Heilbrigðiseftirlits Hafnarfjarðar þar sem segi að innan svæðis takmarkaðar ábyrgðar verði ekki heimiluð íbúðarbyggð.
Lögmaður stefnenda hafi 5. júlí 2005 haft símleiðis samband við aðstoðarforstjóra stefnda, Alcan á Íslandi hf., um málefnið og þ.á m. hugsanleg kaup stefnda, Alcan á Íslandi hf., á landi því sem hin takmarkaða ábyrgð næði til. Lögmaður stefnenda hafi 29. nóvember 2005 ritað stefnda, íslenska ríkinu, bréf og gert grein fyrir sjónarmiðum um að ekki hafi verið samið við landeigendur um afnot af landi því er hin takmarkaða ábyrgð næði til er samningurinn frá 1966 hafi verið undirritaður. Hafi þess verið krafist að stefndi, íslenska ríkið, staðfesti að það myndi láta stöðva rekstur álbræðslunnar í Straumsvík eða a.m.k. þann þátt starfseminnar sem ylli mengun á landi stefnenda. Hafi þess verið krafist að stöðvunin tæki gildi 1. maí 2006. Stefnda, Alcan á Íslandi hf., hafi verið sent afrit af bréfinu. Lögmaður stefnenda hafi ritað iðnaðarráðherra f.h. íslenska ríkisins bréf 13. janúar 2006 til að vekja athygli á að ekki hafi borist svar við bréfinu frá 29. nóvember 2005. Þá hafi lögmaður stefnenda ritað umhverfisráðherra bréf 13. janúar 2006 þar sem grein hafi verið gerð fyrir því að svo virtist sem lögð hafi verið kvöð á land Óttarsstaða. Iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið hafi 13. febrúar 2006 ritað lögmanni stefnenda bréf þar sem því hafi verið lýst að ekki væri unnt að verða við kröfum stefnenda. Var á það bent að öllum hugsanlegum bótakröfum yrði að beina að stefnda, Alcan á Íslandi hf.
Lögmaður stefnanda ritaði stefnda, Alcan á Íslandi hf., bréf 3. mars 2006 þar sem afrit af bréfi iðnaðar- og viðskiptaráðuneytisins frá 13. febrúar 2006 var meðfylgjandi. Var óskað eftir afstöðu stefnda, Alcan á Íslandi hf., til hugsanlegra kaupa á landinu. Stefndi, Alcan á Íslandi, ritaði lögmanni stefnenda bréf 24. mars 2006 þar sem kröfum stefnenda var hafnað að svo stöddu. Eftir ítrekun með bréfi lögmanns stefnenda 14. nóvember 2006 var kröfum stefnenda endanlega hafnað með bréfi stefnda, Alcan á Íslandi hf., 14. desember 2006.
II.
Stefndi, Alcan á Íslandi hf., byggir frávísunarkröfu sína á því að kröfugerð og málatilbúnaður stefnenda uppfylli ekki kröfur laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, um skýran og glöggan málatilbúnað. Þá séu kröfur stefnenda óljósar og þannig úr garði gerðar að stefnendur hafi ekki lögvarða hagsmuni af því að fá dómsúrlausn um þær. Því verði ekki komist hjá því að vísa málinu frá dómi.
Um kröfu um að rekstur álversins sé óheimill. Stefnendur krefjist aðallega þeirrar viðurkenningar gagnvart öllum stefndu að óheimilt sé að reka álbræðslu stefnda, Alcan á Íslandi hf., þannig ,,að frá henni stafi gastegundir og reykur, sem mengi loft, vatn og/eða land á jörð stefnenda, Óttarsstöðum í Hafnarfirði, og takmarki þar með not lands jarðarinnar á 456,2 hektara svæði...” eða til vara á 253,3 hektara svæði. Samhliða þessari kröfu (ekki til vara) sé einnig krafist að stefndu sé skylt ,,að kaupa af stefnendum eða greiða þeim skaðbætur andvirði 456,2 hektara af landi jarðarinnar Óttarsstaða ... og greiða fyrir landsvæðið fjárhæð sem jafngildir markaðsverðmæti landsins sem byggingarlands fyrir íbúðarhúsnæði...” gegn afsali fyrir landinu. Af málatilbúnaði stefnenda verði ráðið að báðar þessar kröfur eigi rót að rekja til þeirrar skerðingar sem þeir telji sig hafa orðið fyrir vegna útblásturs gastegunda og reyks sem stafi af starfrækslu álvers stefnda í Straumsvík í Hafnarfirði. Stefndi telji ljóst að jafnvel þó að talið verði að gastegundir og reykur frá álveri stefnda takmarki not lands stefnenda, sé ekki hægt að taka báðar framangreindar kröfur til greina. Ef fallist verði á þá kröfu stefnenda að óheimilt sé að haga rekstri álversins á þann hátt að frá því stafi gastegundir og reykur sem takmarki not Óttarsstaðalandsins, hafi stefnendur enga hagsmuni af því að krefjast þess jafnframt að stefndu verði gert skylt að kaupa eða greiða skaðabætur fyrir þetta sama land gegn afsali, enda verði að ætla að stefnendur þurfi þá ekki að sæta takmörkunum sem stefnendur telji að stafi frá stefnda. Jafnframt verði að telja að ef fallist yrði á kröfu um að stefndu yrði gert að kaupa eða greiða skaðabætur fyrir landið, hafi stefnendur enga hagsmuni af því að krefjast þess einnig að óheimilt sé að frá álverinu stafi gastegundir og reykur sem takmarki not þessa sama lands. Stefnendur hafi því ekki hagsmuni að lögum af því að hafa samhliða uppi báðar kröfurnar í málinu, sbr. 25. gr. laga nr. 91/1991. Í raun hafi stefnendur uppi valkvæða kröfugerð þar sem dómara sé eftirlátið að taka afstöðu til þess hvora kröfuna hann taki til greina en slíkt sé einnig í andstöðu við ákvæði 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991, sbr. einkum d. liður. Því verði að vísa báðum kröfunum frá dómi.
Þar að auki sé alls óvíst, og raunar ólíklegt, jafnvel þó að fallist yrði á kröfu þessa, að stefnendur fengju að nýta landið með þeim hætti sem þeir kjósi og tilgreint sé í stefnu, þ.e. undir íbúðarbyggð. Samkvæmt skipulags- og byggingarlögum, nr. 73/1997 fari meðstefndi, Hafnarfjarðarkaupstaður, með skipulagsvald á svæðinu og samkvæmt aðalskipulagi Hafnarfjarðarkaupstaðar 2005-2015 sé ekki gert ráð fyrir íbúðarbyggð á Óttarsstaðalandinu og raunar sé meiri hluti þess lands innan Óttarsstaða sem falli undir þynningarsvæði óskipulagt og í fresti samkvæmt 20. gr. nefndra laga. Í því felist að jafnvel þótt rekstri álversins yrði þannig fyrir komið að frá því hætti að stafa gastegundir og reykur yfir land stefnenda þýddi það ekki að takmörkun á nýtingu landsins yrði aflétt, sérstaklega ef álverið starfaði þrátt fyrir allt áfram á svæðinu í breyttri mynd. Stefnendur hafi því enga þá hagsmuni af kröfugerð þessari sem heimili þeim að bera hana undir dóm til úrlausnar, enda myndi réttarstaða þeirra í reynd ekki breytast neitt hvað varði nýtingu á svæðinu, þó að krafa þeirra yrði tekin til greina.
Stefndi hafi 7. nóvember 2005 fengið útgefið af umhverfisráðuneytinu starfsleyfi til reksturs allt að 460.000 tonna álvers, og þar með áframhaldandi reksturs álversins í núverandi mynd, en framleiðslugeta þess sé nú um 180.000 tonn á ári. Starfsleyfið gildi til ársins 2020 en gert sé ráð fyrir endurskoðun þess að jafnaði á fjögurra ára fresti, í fyrsta skipti í nóvember 2009. Í starfsleyfinu sé stefnda heimilt að losa flúoríð, ryk og brennisteinsdíoxíð í tilteknu magni eins og þar komi fram. Ekki sé hægt að fallast á dómkröfur stefnenda um að óheimilt sé að reka álbræðslu stefnda þannig að frá starfseminni stafi gastegundir og reykur sem takmarki not Óttarsstaðalandsins, án þess að gera jafnframt kröfu um að starfsleyfi verksmiðjunnar til losunar framangreindra lofttegunda verði fellt úr gildi eða ógilt, og stefna þar með einnig umhverfisráðherra til varnar í málinu. Ótæk væri sú staða ef stefndi hefði undir höndum gilt starfsleyfi sem heimilaði útblástur tiltekinna gastegunda og reyks, en um leið hefði gengið dómur sem kvæði slíkt óheimilt. Ljóst sé því að óhjákvæmilegt sé að vísa kröfunni frá dómi.
Þá felist í þessari kröfugerð stefnenda að dómurinn sé í raun spurður lögspurningar um heimild stefnda til þess að reka álverið með þeim hætti sem það hafi verið rekið hingað til. Slík kröfugerð sé í andstöðu við ákvæði 1. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991. Að öðru leyti sé kröfugerð þessi of óskýr og óljós til þess að á hana verði lagður dómur. Þannig sé þess krafist að stefndi hætti að reka álbræðslu þannig að hún mengi og takmarki not lands jarðarinnar ,,...á 456,2 hektara svæði...” án nokkurrar tilgreiningar á því hvert það svæði sé. Þá séu notuð hugtök í kröfugerðinni sem ekki sé skýrt hvað í felist, s.s. ,,gastegundir”, ,,reykur” og ,,mengun”. Slík kröfugerð sé í andstöðu við ákvæði 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991, einkum d. lið og 4. mgr. 114. gr. laganna.
Um kröfu um að takmörkun 12. gr. aðalsamnings sé ólögmæt og ógild. Stefnendur krefjist þess einnig ,,...að sú takmörkun sem felst í 12. gr. aðalsamnings milli íslenska ríkisins og Alusuisse hinn 28. mars 1966 á ábyrgð Alcan á Íslandi (áður ISAL) á tjóni innan svæðis takmarkaðrar ábyrgðar, eins og það er skilgreint í greindum samningi, í landi Óttarsstaða sé ólögmæt og ógild gagnvart stefnendum...”. Stefndi telji stefnendur ekki hafa lögvarða hagsmuni af því að hafa kröfugerð þessa uppi samhliða kröfugerð um kaupskyldu eða skyldu til greiðslu skaðabóta. Ljóst sé að við úrlausn um það hvort kaupskylda eða skylda til greiðslu skaðabóta sé fyrir hendi verði að taka afstöðu til þess hvort sú takmörkun sem felist í 12. gr. aðalsamnings milli ríkisstjórnar Íslands og Alusuisse sé lögmæt og gild gagnvart stefnendum. Ekki verði komist að þeirri niðurstöðu að á stefndu hvíli kaupskylda eða skylda til greiðslu skaðabóta nema jafnframt verði komist að þeirri niðurstöðu að sú takmörkun sem felist í 12. gr. aðalsamnings sé ólögmæt og ógild gagnvart stefnendum. Því sé óþarfi að hafa uppi kröfu þessa samhliða kröfu um viðurkenningu á kaupskyldu eða skyldu til greiðslu skaðabóta.
Jafnframt sé ljóst að kröfugerð þessi sé of óljós og óákveðin til þess að hægt sé að taka hana til greina. Kröfugerðin skilgreini ekki hver sú takmörkun sé sem krafist sé að sé ólögmæt og ógild gagnvart stefnendum, heldur sé vísað til skilgreiningar utan kröfugerðarinnar á því hver sú takmörkun sé, þ.e. til 12. gr. aðalsamnings íslenska ríkisins og Alusuisse frá 1966. Hér verði að hafa í huga að þess sé ekki krafist að ákvæðið í heild sé ólögmætt eða ógilt gagnvart stefnendum, heldur aðeins sú takmörkun sem í því felist. Með sama hætti sé vísað til skilgreiningar utan kröfugerðarinnar sjálfrar á því hvert sé svæði takmarkaðrar ábyrgðar. Ljóst sé því að ekki sé hægt að taka kröfugerð þessa upp sem dómsorð í málinu, enda ráðist það af ákveðnum þáttum utan dómsorðsins hvað í því felist. Kröfugerð sem þessi sé því ekki í samræmi við 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991, sbr. einnig 4. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991. Hafa verði í huga að aðilar aðalsamningsins séu ríkisstjórn Íslands f.h. íslenska ríkisins og móðurfélag Alcan, nú Alcan Holding (áður Alusuisse). Móðurfélaginu sé hins vegar ekki stefnt í málinu eins og nauðsynlegt sé hyggist stefnendur freista þess að fá kröfu sinni framgengt, enda hafi móðurfélagið hagsmuni af úrlausn um það hvort ákvæðið sé skuldbindandi fyrir stefnendur. Beri því að vísa kröfugerð þessari frá dómi.
Um varakröfu um að rekstur álversins sé óheimill. Sömu sjónarmið og rakin hafi verið eigi við um varakröfu stefnenda um að óheimilt sé án samþykkis stefnenda að reka álbræðslu þannig að hún mengi og takmarki þar með not Óttarsstaðalandsins á 253,3 hektara svæði, svokölluðu þynningarsvæði og sé vísað til þess sem á undan greini eftir því sem við eigi.
Krafa um kaup eða skaðabætur. Krafa stefnenda um að stefndu sé skylt ,,...að kaupa af stefnendum eða greiða þeim skaðabætur að andvirði 456,2 hektara af landi jarðarinnar Óttarsstaða... og greiða fyrir landsvæðið fjárhæð sem jafngildir markaðsverðmæti landsins sem byggingarlands fyrir íbúðarhúsnæði... gegn afsali á landinu...” sé sama marki brennd og aðrar kröfur stefnenda sem að framan hafi verið fjallað um. Stefnendur hafi ekki lögvarða hagsmuni af því að hafa kröfu þessa uppi samhliða kröfu um að viðurkennt verði að óheimilt sé án samþykkis stefnenda að reka álbræðslu stefnda þannig að frá henni stafi gastegundir og reykur sem takmarki not Óttarsstaðalandsins, eins og áður hafi verið rakið.
Þá sé með kröfu þessari krafist greiðslu fyrir tiltekið landsvæði með fjárhæð sem jafngildi markaðsverðmæti landsins sem byggingarlands fyrir íbúðarhúsnæði gegn útgáfu afsals. Í þessu felist að krafist sé greiðslu sem ekki sé ákveðin, heldur muni síðar verða ákveðið með einhverjum hætti. Verði fallist á kröfugerð þessa eigi enn eftir að komast að því hvert markaðsverðmæti landsins sé. Slík kröfugerð standist hins vegar ekki ákvæði 1. mgr. 80. gr. og 4. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991, en samkvæmt síðarnefnda ákvæðinu megi ekki í dómi skírskota til sannana eða atvika sem kunni síðar að koma fram. Kröfu þessari beri því að vísa frá dómi.
Þá sé þessi kröfugerð að öðru leyti óskýr og óljós. Þannig sé þess krafist að stefndu beri ýmist einum, tveimur eða öllum saman in solidum að kaupa eða greiða skaðabætur. Vísað sé til þess að stefndu beri að greiða andvirði samtals 456,2 hektara lands án nánari tilgreiningar á því hvert andvirðið sé. Einnig sé vísað til skilgreiningar á svæði takmarkaðrar ábyrgðar og þynningarsvæðið án þess að þau svæði séu skilgreind eða staðsetning þeirra tilgreind sérstaklega. Kröfugerð þessi sé því ekki dómtæk í núverandi búningi.
Varakrafa um greiðslu mismunar. Krafa um að stefndu beri að greiða stefnendum mismun á markaðsverðmæti landsins sem byggingarlands undir íbúðarhúsnæði annars vegar eða sem byggingarlands undir iðnaðarhúsnæði sé sama marki brennd og á undan greinir, þ.e. krafan sé of óljós og óskýr til að hægt sé að taka hana til greina og hafi stefnendur ekki lögvarða hagsmuni af því að bera hana uppi. Auk þess sé málatilbúnaður stefnenda vegna þessarar kröfu verulega vanreifaður og engin sjónarmið rakin að baki þessari kröfu stefnenda.
Viðurkenning á skaðabótaskyldu. Skaðabótakrafa vegna skerðingar á notkun lands Óttarsstaða frá 1. apríl 1997 til endanlegs dómsuppsögudags sé sömuleiðis vanreifuð, enda hafi stefnendur ekki sýnt fram á að nokkur not landsins hafi verið skert eða meint skerðing verið af völdum stefnda. Í málatilbúnaði sé engin tilraun gerð til þess að sýna fram á að stefnendur hafi orðið fyrir tjóni, hvers eðlis það tjón eigi að hafa verið né heldur hvenær það hafi átt að hefjast.
Vanreifun á aðild stefnenda. Að lokum segi í stefnu að Óttarsstaðalandið skiptist í Óttarsstaði I og II og virðist hluti stefnenda vera eigendur að landi Óttarstaða I og annar hluti vera eigendur að landi Óttarsstaða II. Ekki sé upplýst hvort úrskiptar spildur, ef um þær sé að ræða, séu einungis í eigu hluta stefnenda eða allra. Engin gögn hafi verið lögð fram um eignarhald á jörðinni eða hvort og hvenær þá einstakir stefnendur hafi eignast land Óttarsstaða. Ekki verði ráðið af gögnum málsins hvernig jarðirnar tvær liggi með tilliti til hinnar, þ.e. hvernig Óttarsstaðir I liggi með tilliti til Óttarsstaða II og svæðis takmarkaðrar ábyrgðar eða þynningarsvæðis, t.d. hvor þeirra, eða báðar, liggi innan svæðis takmarkaðrar ábyrgðar eða þynningarsvæðis, eða hvort allar úrskiptar spildur, ef um þær sé að ræða, geri það. Þannig sé óljóst hvort allir stefnenda geti haldið því fram að hafa þurft að þola takmarkanir á notum landsins af völdum stefndu eða einungis sumir. Málatilbúnaður stefnenda sé því verulega vanreifaður að þessu leyti.
Stefndi, íslenska ríkið, byggir frávísunarkröfu sína m.a. á því að stefnendur hafi ekki gætt ákvæða 5. mgr. 17. gr. laga nr. 91/1991 um fyrirsvar. Stefnendur stefni iðnaðarráðherra og fjármálaráðherra f.h. íslenska ríkisins. Fyrir utan aðalsamninginn frá 1966 hafi þær ákvarðanir sem stefnendur byggi á gagnvart íslenska ríkinu verið teknar af öðrum en iðnaðarráðherra. Fyrirsvar fjármálaráðherra sé ekki útskýrt í stefnu. Umhverfisráðherra fari með yfirstjórn skipulags- og mengunarvarnarmála, þ.á m. útgáfu starfsleyfa. Kröfur og málatilbúnaður stefnenda byggi að stórum hluta á ákvörðunum Hollustuverndar ríkisins, umhverfisráðherra og Umhverfisstofnunar í tengslum við útgáfu starfsleyfis og ákvörðun þynningarsvæðis. Iðnaðarráðherra, iðnaðarráðuneyti eða undirstofnanir þess hafi ekki átt þátt í því ákvörðunarferli enda gengi slíkt gegn skýrri og lögbundinni verkaskiptingu ráðuneyta. Þynningarsvæði vegna álversins í Straumsvík hafi verð ákvarðað af Hollustuvernd ríkisins árið 1997, sem þá hafi heyrt undir umhverfisráðherra. Starfsleyfi meðstefnda, Alcan á Íslandi hf., frá árinu 1995 hafi verið unnið samkvæmt tillögu Hollustuverndar ríkisins og gefið út af umhverfisráðherra sem yfirmanni mengunarvarnarmála og málefna hollustuvarna. Loks hafi starfsleyfi meðstefnda, Alcan á Íslandi hf., frá árinu 2005, þar sem ítrekað hafi verið ákvæði um þynningarsvæði, verið gefið út af Umhverfisstofnun sem sé undirstofnun umhverfisráðuneytis. Af framangreindu megi ráða að iðnaðarráðherra eigi ekki aðild að máli varðandi kröfur þær er varði þynningarsvæði og byggi á starfsleyfum meðstefnda, Alcan á Íslandi hf. (frá árinu 1995). Að mati stefnda eigi kröfur þessar og málsástæður sem þeim tengist að beinast að umhverfisráðherra og Umhverfisstofnun. Umhverfisráðuneytið hafi formlega verið stofnað með lögum nr. 3/1990. Hafi þá fjöldi mála færst undir umhverfisráðuneyti, sbr. 13. gr. reglugerðar nr. 96/1969, sbr. auglýsing nr. 5/1990. Enn fleiri verkefni hafi verið færð undir ráðuneytið síðar. Núgildandi reglugerð um Stjórnarráð Íslands sé nr. 3/2004. Um málaflokka sé vísað til 13. gr. reglugerðarinnar, sérstaklega 4. tl. Umhverfisstofnun hafi tekið til starfa 1. janúar 2003, sbr. lög nr. 90/2002. Umhverfisstofnun starfi undir yfirstjórn umhverfisráðuneytis. Umhverfisstofnun annist verkefni á grundvelli laga, þ.á m. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998. Samkvæmt reglugerð 785/1999 gefi Umhverfisstofnun og heilbrigðisnefndir út starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem geti haft í för með sér mengun.
Kröfur stefnenda séu viðurkenningarkröfur. Á því sé byggt af hálfu stefnda að ekki sé fullnægt skilyrðum laga nr. 91/1991 til að hafa uppi slíkar viðurkenningarkröfur í málinu, sbr. m.a. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991. Að mati stefnda hafi stefnendur ekki lögvarða hagsmuni af því að fá leyst úr kröfum sínum. Til þess séu kröfur stefnenda m.a. of óskýrar og óljósar. Til staðar sé gilt starfsleyfi fyrir álverið sem byggist á lögum en starfsleyfi þess hafi ekki verið hnekkt eða reynt að hnekkja því. Þá sé málatilbúnaður stefnenda að talsverðu leyti byggður á forsendum um nýtingu lands og spám um íbúðarbyggð sem ekki séu í neinum tengslum við skipulag Hafnarfjarðarkaupstaðar og að mati stefnda alls óraunhæfar. Skipulag bæjarins sé ákveðið af Hafnarfjarðarkaupstað, sbr. lög nr. 73/1997. Hagsmunaaðilar hafi rétt til að gera athugasemdir varðandi skipulag, en hafi enga heimild til þess að skipuleggja landsvæði sjálfir. Bendi stefndi á að meiri hluti þess lands innan Óttarsstaða sem falli undir þynningarsvæði sé óskipulagt og í bið. Þá skorti að mati stefnda einnig varðandi bótakröfur stefnenda það grundvallarskilyrði að sýnt sé fram á tjón, en með öllu sé ósannað að mati stefnda að stefnendur hafi orðið fyrir tjóni eða þá hvert ætlað tjón sé.
Þá telji stefndi kröfugerð stefnanda fela í sér lögspurningar sem séu andstæðar 1. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991, m.a. um það hvort álverið verði rekið áfram. Fyrr sé að því vikið að til staðar sé gilt starfsleyfi fyrir álverið sem byggist á lögum og hafi því ekki verið hnekkt. Einnig sé á það bent að málið byggist nokkuð á forsendum sem stefnendur gefi sér en eigi sér ekki stoð í skipulagi eða öðru.
Þá sé á því byggt af hálfu stefnda að kröfugerð sé óskýr og óljós að miklu leyti og ekki í samræmi við d. og e. liði 1. mgr. 80. gr. og 4. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991. Ekki sé fyllilega ljóst hvað sé aðalkrafa og hvað sé varakrafa samkvæmt stefnu eins og kröfugerð sé sett upp. Þá sé á það bent vegna kröfu um að óheimilt sé án samþykkis stefnenda að reka álbræðslu að íslenska ríkið reki ekki álbræðslu. Þá séu hugtök í kröfugerð stefnenda eins og ,,gastegundir”, ,,reykur”, ,,sem mengi”, ,,takmarka þar með not”, ,,skerðingar á notkun”, mjög rúm og ekki nægilega útskýrð og að mati stefnda útilokað að dómsorð geti endurspeglað svo rúma kröfugerð. Skorti þar að mati stefnda allar viðmiðanir um það hvað felist í þessum hugtökum. Ekki sé nægjanleg grein gerð fyrir því í hverju meint takmörkun felist í 12. gr. aðalsamnings sem stefnendur reyni að fá hnekkt.
Fyrr sé að því vikið að þótt fallist yrði á kröfur stefnenda væri alls óvíst að stefnendur fengju að nýta landið eins og lýst sé í stefnu, sbr. aðalskipulag Hafnarfjarðarkaupstaðar. Sé þetta enn ein röksemd fyrir því að stefnendur eigi ekki lögvarða hagsmuni af því að fá leyst úr kröfum sínum. Að mati stefnda verði krafa um að óheimilt sé að reka álbræðsluna ekki gerð án þess að þeir geri jafnframt kröfu um að starfsleyfi verksmiðjunnar sem gildi til ársins 2020 verði fellt úr gildi. Stefnendur geri enga slíka kröfu fyrir dóminum. Ef fallist yrði á kröfur stefnenda stæði enn gilt og virkt starfsleyfi.
Þá telji stefndi að ekki verði samhliða höfð uppi krafa um að takmörkun 12. gr. aðalsamnings sé ólögmæt og ógild og höfð uppi krafa um kaupskyldu eða greiðslu skaðabóta gegn afsali. Stefnendur hafi ekki lögvarða hagsmuni af því að hafa báðar kröfur uppi í málinu samhliða, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991. Í raun sé um valkvæða kröfu að ræða sem sé andstæð aðallega d. lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 114. gr. laganna. Í stefnu sé þess ekki krafist að viðurkennt sé að ákvæði 12. gr. aðalsamningsins sé í heild ólögmætt og ógilt heldur hluti þess, en vanreifað sé í hverju krafan felist nákvæmlega og sé það að mati stefnda ekki í samræmi við d. og e. liði 1. mgr. 80. gr. og 4. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991.
Þá telji stefndi það einnig valkvæða kröfu sem standist ekki skilyrði 80. og 114. gr. laga nr. 91/1991 að gera bæði kröfu um kaupskyldu og skaðabætur.
Varðandi kröfu um að stefndu sé skylt ,,...að kaupa af stefnendum eða greiða þeim í skaðabætur andvirði 456,2 hektara af landi jarðarinnar Óttarsstaða...” og greiða fyrir landsvæðið fjárhæð sem jafngildir markaðsverðmæti landsins sem byggingarlands fyrir íbúðarhúsnæði ,,...gegn afsali á landinu.” sé á því byggt að stefnendur hafi ekki lögvarða hagsmuni af því að hafa þessa kröfu uppi auk kröfu um að viðurkennt verði að óheimilt sé án samþykkis stefnenda að reka álbræðslu, sbr. kröfugerð í stefnu. Telji stefndi að slík valkvæð krafa sem birtist efst á bls. 2 í stefnu sé andstæð 80. gr. og 114. gr. laga nr. 91/1991. Stefnendur hafi krafist þess að stefndu kaupi eða greiði skaðabætur sem þar sé lýst.
Krafa stefnenda vegna kaup- eða skaðabótakröfu þeirra gegn afsali sem jafngildi markaðsverðmæti landsins sem byggingarlands fyrir íbúðarhúsnæði á endanlegum dómsuppsögudegi gegn afsali á landi sé óvenjuleg að því leyti að þar sé gerð krafa um viðurkenningu á kaupskyldu eða greiðslu bóta en jafnframt sé tiltekið við hvaða verð miða eigi, en engin sönnunargögn liggi fyrir að mati stefnda um það hvert sé markaðsverðmæti landsins sem byggingarlands fyrir íbúðarhúsnæði eða undir íbúðarhúsnæði. Að mati stefnda sé því um algera vanreifun á þeim viðmiðunargrundvelli sem stefna miðist við. Slíkt sé andstætt 1. mgr. 80. gr., d. og e. liðum. Stefndi telji reyndar að samhliða kröfu um viðurkenningu á kaupskyldu eða á greiðslu skaðabóta geti ekki líka farið krafa um viðurkenningu á tiltekinni verðviðmiðun og sé því mótmælt. Virðist þetta einnig vera í andstöðu við það sem fram komi í stefnu þar sem segi á bls. 18 fyrir miðri síðu: ,,Í máli þessu eru ekki gerðar kröfur um tilteknar bætur eða ákveðið kaupverð fyrir greinda 456,2 hektara lands, sem falla undir svæði takmarkaðrar ábyrgðar.”
Þá liggi ekkert fyrir um að allt það landsvæði sem tilgreint sé í stefnu verði nýtt sem byggingarland fyrir atvinnu- eða íbúðarhúsnæði og sé þetta atriði því algerlega vanreifað í stefnu, en stefnendur hafi sönnunarbyrgði fyrir kröfum sínum. Sömu athugasemdir og gerðar hafi verið hér að framan séu einnig gerðar hér um að verðviðmiðun stefnenda séu algerlega óraunhæf. Forsendur stefnenda fyrir verðviðmiðun sem miðist við byggingarland fyrir íbúðarhúsnæði eigi sér ekki stoð í raunveruleikanum og sé því mótmælt. Að auki felist í þessu krafa um greiðslu sem ekki sé ákveðin, heldur verði ákveðin síðar. Þá eigi enn eftir að komast að því hvert markaðsverðmæti landsins sé en slíkt standist ekki ákvæði 1. mgr. 80. gr. og 4. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991.
Þá sé á því byggt að ekki sé nægjanlega gerð grein fyrir svæði ,,takmarkaðrar ábyrgðar” og ,,þynningarsvæðis” í stefnu.
Krafa um að stefndu beri að greiða mismun á markaðsverðmæti landsins sem byggingarlands undir íbúðarhúsnæði annars vegar eða sem byggingarlands undir iðnaðarhúsnæði hins vegar sé sama marki brennd og áður hafi verið rakið. Á það sé bent af hálfu stefnda að meginhluti þess lands innan Óttarsstaða sem falli undir þynningarsvæði sé óskipulagt og í bið. Krafa þessi sé allt of óljós og hafi stefnendur ekki lögvarða hagsmuni af því að fá leyst úr henni. Krafan sé vanreifuð og ekki í samræmi við 80. gr. laga nr. 91/1991.
Að mati stefnda sé krafa um viðurkenningu á skaðabótaskyldu vegna meintrar skerðingar á notkun aðallega 456,2 og til vara 253,3 hektara lands jarðarinnar Óttarsstaða af völdum álbræðslunnar frá 1.4. 1997 til endanlegs dómsuppsögudags verulega vanreifuð og ekki í samræmi við e. lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991. Tjón sé algerlega ósannað eða hvert það sé og ekki hafi verið sýnt fram á að nein not landsins hafi verið skert eða að stefndi beri ábyrgð á því ef svo væri.
Að lokum sé á því byggt að aðild stefnenda sé vanreifuð. Skorti verulega á upplýsingar um eigendur að landi Óttarsstaða I og Óttarsstaða II. Engin gögn hafi verið lögð fram um eignarhald á jörðinni eða hvort og hvenær einstakir eigendur hafi eignast landið Óttarsstaði. Ekki verði ráðið af gögnum málsins hvernig lega hinna tveggja landa Óttarsstaða liggi. Það sé óljóst hvort allir stefnendur geti haldið því fram að hafa þurft að þola takmarkanir á notum landsins eða einungis sumir. Þetta sé mikilvægt atriði að mati stefnda og sé málið algerlega vanreifað í stefnu að þessu leyti, sbr. 80. gr. laga nr. 91/1991.
Stefndi, Hafnarfjarðarkaupstaður, byggir frávísunarkröfu sína á því að stefnendur hafi ekki lögvarða hagsmuni af því að bera kröfur sínar undir dómstóla. Réttarstaða þeirra muni ekkert breytast við það varðandi nýtingu á Óttarsstaðalandi þó svo dæmt yrði í samræmi við aðal- eða varakröfu. Það ráðist af því að það sé stefndi sem fari með skipulagsvald á þessu landi sem og öðru landi innan staðarmarka kaupstaðarins. Vísist um það til skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 með síðari breytingum, sbr. t.d. 2. mgr. 3. gr. laganna þar sem segi að sveitarstjórnir annist gerð svæðis-, aðal- og deiliskipulagsáætlana. Kröfugerð stefnenda sé því í andstöðu við 1. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 og í raun við 2. mgr. 25. gr. laganna þar sem um staðfestingarmál sé að ræða.
Þær fullyrðingar stefnenda sem ítrekað komi fram í stefnu og byggt sé á í málinu, þ.e. að óumdeilt sé að eðlileg þróun íbúðarbyggðar á þessum slóðum væri vestur með ströndinni, ,,ef ekki væri bannað að byggja þar vegna hagsmuna álbræðslunnar” séu rangar að áliti stefnda. Huga verði að því í þessu samhengi að ekki sé útilokað nú að þessi hluti verði deiliskipulagður með þeim hætti, þ.e. undir íbúðarbyggð. Mörk þynningarsvæðis samkvæmt starfsleyfi séu til bráðabirgða og hugsast geti að mörkin muni síðar ekki ná inn á Óttarsstaðaland, heldur einungis að mörkum landsins. Vísist til þess að við síðustu stækkunaráform meðstefnda, Alcan á Íslandi hf., hafi félagið talið minnkun þynningarsvæðisins mögulega þrátt fyrir mjög mikla stækkun verksmiðjunnar.
Umrætt svæði sé einnig kjörið til ýmiss konar atvinnureksturs. Mjög aðdjúpt sé við landið og góðir möguleikar á því að stækka höfnina í Straumsvík. Nægjanlegt vatnsmagn sé, sem fullvíst sé að fáist með borunum ásamt möguleikum á gufuorku af Krísuvíkur- og Trölladyngjusvæðinu. Lega landsins sé að öðru leyti góð til atvinnureksturs vegna nálægðar við aðrar hafnir og við flugvellina á Miðnesheiði og í Reykjavík. Þriðji möguleiki og ekki sá lakasti sé að þessi hluti Óttarsstaða verði skipulagður sem hafnarsvæði. Ógerlegt sé að stækka aðalhöfnina meira og einu þróunarmöguleikarnir í hafnarstarfsemi í Hafnarfirði felist í því að stækka höfnina í Straumsvík og yrði umrætt land Óttarsstaða þá að hluta a.m.k. hafnarsvæði. Þessir möguleikar á skipulagi séu allir til skoðunar hjá skipulagsyfirvöldum og sé þetta svæði því óskipulagt nú að mestu af þessum sökum með heimild í 20. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. Kröfugerð stefnenda sé samkvæmt þessu í andstöðu við ákvæði 1. mgr. 26. gr. og 4. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991 þar sem þessi réttindi, sem stefnt sé vegna, séu ekki orðin til og verði hugsanlega aldrei til. Beri því að vísa málinu frá dómi þegar af þessum ástæðum.
Þá sé kröfugerðin vanreifuð og of óskýr og óljós til þess að á hana verði lagður dómur. Nægi að nefna það grundvallaratriði að stefnendur byggi alla kröfugerð sína á því að land skipulagt undir íbúðarhúsnæði sé verðmeira en land skipulagt undir atvinnuhúsnæði, án þess að sýna fram á það með sönnunargögnum eða með öðrum hætti að svo sé. Þá sé ekki minnst á þann möguleika að skipuleggja megi þetta svæði sem hafnarsvæði og hvers virði landið yrði þá. Kröfugerð og málatilbúnaður stefnenda uppfylli ekki kröfur um skýran og glöggan málatilbúnað og samrýmist því ekki ákvæðum 80. gr. laga nr. 91/1991.
Stefndi líti svo á að það samrýmist ekki 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 og 1. mgr. 80. gr. laganna að hafa uppi þær dómkröfur samhliða aðal- og varakröfu að stefndu verði gert skylt að kaupa af stefnendum umrætt land eða greiða skaðabætur fyrir það eða til vara að stefndu verði að greiða mismuninn á markaðsverðmæti sem byggingarlands undir íbúðarhúsnæði annars vegar eða sem byggingarlands undir iðnaðarhúsnæði hins vegar. Stefnendur hafi augljóslega ekki hagsmuni af því að hafa uppi báðar þessar kröfur. Það beri því að vísa báðum þessum kröfum frá dómi.
Þar sem meðstefndi, Alcan á Íslandi hf., hafi starfsleyfi útgefið af Umhverfisstofnun og starfsemin fari óumdeilanlega að öllu leyti fram í samræmi við það beri að áliti stefnda að stefna einnig umhverfisráðherra til varnar í málinu til þess að fá leyfið fellt úr gildi. Beri því af þessari ástæðu að vísa málinu frá dómi. Þá beri einnig að stefna móðurfélagi meðstefnda, Alcan á Íslandi hf., Alcan Holding, þar sem það félag sé nú annar samningsaðila aðalsamningsins frá 28. mars 1966 sem stefnendur byggi á í málinu. Hafi stefnendur því ekki gætt að ákvæðum 5. mgr. 17. gr. laga nr. 91/1991.
Skaðabótakrafa vegna skerðingar á notkun umrædds lands frá 1. apríl 1997 til endanlegs dómsuppsögudags sé einnig vanreifuð þar sem stefnendur hafi ekki sýnt fram á að nein not landsins hafi verið skert eða að þeir hafi orðið fyrir tjóni. Þessari kröfu beri því að vísa frá dómi.
III.
Við munnlegan málflutning um frávísunarkröfu stefndu mótmælti lögmaður stefnenda kröfunni og þeim röksemdum sem hún byggði á. Stefnendur byggja á því að í stefnu sé á skilmerkilegan hátt rakinn málatilbúnaður og málsástæður stefnenda. Málatilbúnaður þeirra brjóti ekki gegn ákvæði 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991. Ennfremur séu dómkröfur þeirra skýrar, sbr. 4. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991, og þá séu þær í fullu samræmi við dómafordæmi Hæstaréttar Íslands. Stefnendur kveða hagsmuni sína af því að fá úrlausn dómstóla um kröfur sínar augljósa.
Að því er varðar reglur um fyrirsvar þá sé gætt að því að stefna þeim ráðherra f.h. íslenska ríkisins til fyrirsvars í málinu sem hafi mestra hagsmuna að gæta, en venjur standi til þess að haga fyrirsvari með þeim hætti. Ekki sé þörf á því að stefna öllum þeim ráðherrum sem hugsanlega eigi einhverja hagsmuni tengda málarekstri. Iðnaðarráðherra hafi á sinni hendi að gera alla samninga um rekstur álversins í Straumsvík. Þá sé fjármálaráðherra stefnt venju samkvæmt þegar málarekstur geti leitt til skaðabótaskyldu ríkisins.
Þá miði stefnendur við að kröfugerð þeirra endurspegli að gætt sé að hagsmunum allra stefndu í málinu. Eigendur landsins að Óttarsstöðum hafi borið skaða af hagsmunum stefndu. Krafist sé viðurkenningar á ólögmæti ráðstafana stefndu. Verið sé að ganga eins skammt í kröfugerðinni eins og framast sé unnt. Að því er varði einstök hugtök í kröfugerðinni þá sé gild regla að ekki þurfi að sanna þekkt hugtök, sbr. 3. mgr. 44. gr. laga nr. 91/1991. Að því er varði viðmiðunarverð í kröfugerðinni þá hefði það leitt til frávísunar ef miðað hefði verið við verð með óskilgreindum hætti. Hér sé miðað við stjórnarskrárbundin ákvæði varðandi verðviðmið, en hugtakið markaðsverðmæti taki mið af stjórnarskránni. Að því er varði sönnun á tjóni þá gildi sú regla að sá sem sviptur sé eign sinni þurfi ekki að sanna tjón sitt af nákvæmni. Dugi að sýna fram á að eitthvað tjón hafi átt sér stað. Það liggi fyrir í máli þessu.
Að því er varði skipulag á þrætusvæðinu þá hafi ekkert skipulag legið fyrir á svæðinu þegar samningar hafi verið gerðir á árinu 1966. Þá verði að líta til þess að ekki sé unnt að fresta gerð skipulags endalaust en það jafngildi í reynd eignarnámi.
Að því er varði aðild í málinu þá sé ljóst, miðað við kröfugerð stefndu, að þeir hafi ekki kynnt sér eignarheimildir að nærliggjandi svæði við álverið í Straumsvík, sem þó verði fyrir miklum áhrifum af rekstri álversins. Land Óttarsstaða sé í sameign allra eigenda að landinu, svo sem fram komi berlega í stefnu. Þá hafi áður gengið ágreiningsmál um hagsmuni tengda þessari jörð en í hæstaréttardómi frá árinu 1992, sem stefndi, Hafnarfjarðarkaupstaður, hafi verið aðili að, hafi komið fram um eignarhald á jörðinni.
Málatilbúnaður stefnenda miði við það að gengnum dómi í málinu endurheimti stefnendur land sitt að öllu leyti eða fái andvirði þess bætt. Gangi málið ekki til efnisdóms sé stefndi, íslenska ríkið, að taka land til sín án þess að endurgjald komi fyrir. Hafi stefndi, Alcan á Íslandi hf., ekki gætt að því að stefndi, íslenska ríkið, hefði full umráð yfir nauðsynlegu svæði þegar til samninga var gengið á árinu 1966. Séu því miklir hagsmunir af því fyrir stefnendur að fá dóm í málinu.
IV.
Stefnendur hafa í stefnu sett fram dómkröfur í þremur liðum. Varakröfur eru hafðar uppi að baki öllum kröfuliðunum. Allar eru kröfurnar viðurkenningarkröfur, en samkvæmt 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 er unnt að leita viðurkenningardóms um tilvist eða efni réttinda eða réttarsambands ef sá sem kröfu gerir telst hafa lögvarða hagsmuni af slíkri kröfu. Gildir þetta án tillits til þess hvort aðilanum væri þess í stað unnt að leita dóms sem fullnægja mætti með aðför.
Fyrsta aðalkrafa stefnenda lýtur að því að dæmt verði að stefndu sé óheimilt án samþykkis stefnenda að reka álbræðslu stefnda, Alcan á Íslandi hf., í Straumsvík þannig að frá starfseminni stafi gastegundir og reykur sem takmarki þar með not lands jarðarinnar á svæði takmarkaðrar ábyrgðar. Er krafan hér á eftir nefnd fyrsta krafa stefnenda. Samhliða þessari kröfu er gerð sú krafa að viðurkennt verði að sú takmörkun sem felist í 12. gr. aðalsamnings milli íslenska ríkisins og Alusuisse á þessu svæði sé ólögmæt og ógild gagnvart stefnendum. Í þessari fyrstu aðalkröfu er höfð uppi varakrafa varðandi kröfu um óheimilan rekstur álbræðslunnar og er í því tilviki miðað við að takmörkuð séu not á minna landsvæði og þá einungis miðað við svonefnt þynningarsvæði.
Í öðru lagi hafa stefnendur uppi viðurkenningarkröfu um að stefndu sé skylt að kaupa af stefnendum eða greiða þeim í skaðabætur andvirði þess hluta af landi jarðarinnar Óttarsstaða sem fellur að mestu leyti innan svæðis takmarkaðrar ábyrgðar og að fyrir þetta svæði verði greidd fjárhæð sem jafngildi markaðsverðmæti landsins sem byggingarlands fyrir íbúðarhúsnæði, allt gegn útgáfu á afsali fyrir landið. Er þessi krafa hér á eftir nefnd önnur krafa stefnenda. Í þessum kröfulið er höfð uppi varakrafa um að fjárhæðin sem greiða eigi nemi mismuni á markaðsverðmæti byggingarlands undir íbúðarhúsnæði annars vegar og iðnaðarhúsnæðis hins vegar.
Loks hafa stefnendur í þriðja lagi uppi dómkröfur um viðurkenningu á því að stefndu séu skaðabótaskyldir gagnvart stefnendum vegna skerðingar á notkun landsins. Þar er miðað við landsvæði innan svæðis takmarkaðrar ábyrgðar en til vara við landsvæði innan þynningarsvæðisins. Er krafan hér á eftir nefnd þriðja krafa stefnenda.
Stefnendur hafa í annarri dómkröfu uppi kröfu um viðurkenningu á kaupum á landsvæðinu eða greiðslu skaðabóta með þeim hætti að kaup eða bætur taki mið af markaðsverðmæti landsins sem bygginarlands fyrir íbúðarhúsnæði eða iðnaðarhúsnæði. Samkvæmt 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 er gerð sú krafa í einkamáli að stefnandi afmarki sakarefni sitt skýrlega í stefnu þannig að ekki fari milli mála hvert það sé. Í beinum tengslum við þessi ákvæði er kveðið á um í 4. mgr. 114. gr. laganna að sakarefni verði að vera nægjanlega ákveðið þannig að dómur verði felldur á það án tillits til þess hvernig atvik þróist í framtíðinni. Í nefndri 4. mgr. 114. gr. eru gerðar tvenns konar undantekningar frá þessari reglu, sem ekki eiga við í tilviki stefnenda. Eru það einu undantekningarnar frá því að niðurstaða sakarefnis ráðist af atvikum sem eru þegar að baki við uppkvaðningu dóms. Kröfugerð sem miðar við markaðsverðmæti lands sem byggingarlands fyrir íbúðarhúsnæði eða iðnaðarhúsnæði á dómsuppsögudegi er ákveðin, en unnt væri að sýna síðar fram á hvert væri markaðsverðmæti landsins, t.a.m. með dómkvaðningu matsmanna. Þó svo landið hafi enn ekki verið skipulagt breytir það ekki þeirri staðreynd að stefnendum er unnt að hafa uppi í máli dómkröfur um markaðsverðmæti lands sem taki mið af markaðsverðmæti sem byggingarlands fyrir íbúðarhúsnæði eða iðnaðarhúsnæði. Ræðst kröfugerðin þannig ekki af atvikum sem síðar koma fram. Með hliðsjón af þessu er það niðurstaða dómsins að kröfugerð stefnanda á þessum forsendum feli í sér nægjanlega ákveðið sakarefni, sbr. 1. mgr. 80. gr. og 4. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991.
Kröfugerð stefnenda felur í sér þá stöðu að tilteknir kröfuliðir fela í sér forsendu þegar tekin er afstaða til annarra kröfuliða. Málatilbúnaður stefnenda felur í sér að stefnendur telja að stefndu hafi ekki gætt að því að afla sér heimilda frá stefnendum er álbræðslu stefnda, Alcan á Íslandi hf., var fyrir komið á aðliggjandi landi. Frá álbræðslunni stafi gastegundir og reykur sem takmarki heimildir stefnenda til að nýta landið. Þær dómkröfur stefnenda er lengst ganga af þessu tilefni eru fyrsta krafa þeirra um að viðurkennt sé að óheimilt sé að reka álbræðsluna með þeim hætti er gert sé og önnur krafa þeirra um að viðurkennt verði að stefndu sé skylt að kaupa af stefnendum eða greiða þeim í skaðabætur andvirði tiltekins landsvæðis gegn afsali á landinu. Þegar komist er að niðurstöðu um hvort viðurkennt verði að stefndu sé skylt að kaupa af stefnendum landsvæðið eða greiða þeim bætur fyrir landið verður óhjákvæmilega komist að niðurstöðu um hvort einhverjar ráðstafanir stefndu hafi bakað þeim bótaskyldu gagnvart stefnendum. Enga sjálfstæða þýðingu hefur að gera sjálfstæða kröfu um að stefndu séu skaðabótaskyldir gagnvart stefnendum vegna skerðingar á notkun landsins, svo sem gert er í þriðja kröfulið í stefnu. Slík viðurkenningarkrafa hefur enga aðra þýðingu en að vera forsenda þegar tekin er afstaða til fyrri kröfunnar. Hafa stefnendur á þessum forsendum ekki lögvarða hagsmuni af kröfu um viðurkenningu á skaðabótaskyldu.
Í fyrsta og öðrum kröfulið lýstur síðan saman dómkröfum sem ekki verður leyst úr samhliða. Er annars vegar um að ræða kröfu um að viðurkennt verði að rekstur álbræðslunnar í núverandi mynd sé óheimill og hins vegar krafa um að viðurkennt sé að stefndu sé skylt að kaupa af stefnendum tiltekið landsvæði eða greiða þeim skaðabætur fyrir landið. Með annarri dómkröfunni, ef á hana yrði fallist, væri verið að bæta stefnendum það tjón sem þeir hafa orðið fyrir af völdum reksturs álbræðslunnar. Geta þeir ekki samhliða gert kröfu um viðurkenningu á óheimilum rekstri, þar sem með skaðabótunum væri verið að bæta þeim óheimilan rekstur álbræðslunnar í núverandi mynd. Er hér um valkvæða kröfugerð að ræða þar sem lög standa ekki til þess að heimilt sé að verða við báðum kröfunum samhliða. Með vísan til þessa og þess er áður greinir um samspil annarrar og þriðju dómkröfunnar, er óhjákvæmilegt annað en að vísa máli þessu í heild sinni frá dómi.
Stefnendur lýsa yfir að þeir séu eigendur að Óttarsstöðum I og II og sé landið í óskiptri sameign allra eigenda. Samkvæmt 12. gr. svonefnds aðalsamnings milli stefnda, íslenska ríkisins, og Alusuisse, sem undirritaður var 28. mars 1966 og stefnendur krefjast m.a. viðurkenningar á að feli í sér ólögmæta og ógilda takmörkun gagnvart þeim sem eigendum jarðarinnar, tekst ISAL, nú stefndi, Alcan á Íslandi hf., á hendur fulla ábyrgð á hverju því tjóni, sem hlýst af gastegundum og reyk frá bræðslunni innan svonefnds svæðis takmarkaðrar ábyrgðar, á eignum eða öðrum hagsmunum manna sem við undirritun samnings búa þar eða eiga þær eignir, svo og gagnvart þeim sem síðar kunna að öðlast framsal frá þeim, að svo miklu leyti sem um sé að ræða núverandi afnot þess eða afnot í framtíðinni önnur en búskapur og garðyrkja. Aðrir þeir, sem frá undirritun samnings taka sér bólfestu innan ofannefnds svæðis eða eignast þar eignir, taka með því á sig áhættu á hvers konar tjóni að því er varðar búskap og garðyrkju er hlýst af gastegundum eða reyk frá bræðslunni og ISAL ber ekki ábyrgð á. Stefndu byggja á því að aðild í málinu sé vanreifuð með því að ekki hafi verið gerð grein fyrir eignarheimildum einstakra eigenda að landinu. Stefnendur hafa leitast við að bæta úr þessu undir meðförum málsins og lagt fram veðbókarvottorð og óþinglýst afsal fyrir hluta eignarinnar. Höfði stefnendur mál þetta á nýjan leik er í ljósi þeirra takmörkuðu gagna er við nýtur um eignarheimildir að landinu og hvernig þeim háttar til og í ljósi ákvæða 12. gr. aðalsamningsins nauðsynlegt að stefnendur geri á skýran hátt grein fyrir því með hvaða hætti eignarrétti á landinu sé háttað.
Með hliðsjón af eðli lagaþrætunnar og stöðu aðila þykir rétt að hvor aðili um sig beri sinn kostnað af málinu.
Úrskurð þennan kveður upp Símon Sigvaldason héraðsdómari.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Máli þessu er vísað frá dómi.
Málskostnaður fellur niður.