Hæstiréttur íslands

Mál nr. 177/1999


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
  • Gæsluvarðhald. D. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


                                                         

Þriðjudaginn 4. maí 1999.

Nr. 177/1999.

Lögreglustjórinn í Reykjavík

(Egill Stephensen saksóknari)

gegn

Gauta Ólafssyni

(enginn)

Kærumál. Gæsluvarðhald. C. og D. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

Úrskurður héraðsdóms um að G sætti gæsluvarðhaldi var staðfestur með vísan til c. og d. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Arnljótur Björnsson og Markús Sigurbjörnsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 28. apríl 1999, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 29. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 28. apríl 1999, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt þar til dómur gengur í máli ákæruvaldsins gegn honum, en þó ekki lengur en til miðvikudagsins 9. júní nk. kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Kæru varnaraðila, sem hefur ekki að öðru leyti látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti, verður að skilja svo að hann krefjist þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.

Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur.

Með skírskotun til forsendna hins kærða úrskurðar verður fallist á það með héraðsdómara að skilyrðum c. og d. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 sé fullnægt til þess að verða við kröfu sóknaraðila um gæsluvarðhald. Þegar af þessari ástæðu verður hinn kærði úrskurður staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 28. apríl 1999.

Lögreglan hefur krafist þess að kærða, Gauta Ólafssyni, kt. 100764-7769, Bárugötu 22, Reykjavík, verði með vísan til c og d liða 1. mgr. og 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 gert að sæta gæsluvarðhaldi þar til dómur gengur í málum hans í Héraðsdómi Reykjavíkur, þó ekki lengur en til miðvikudagsins 9. júní nk. kl. 16:00.

 Miðvikudaginn 3. febrúar sl. var lögreglunni tilkynnt um að rán hefði verið framið í söluturni að Grundarstíg 12 í Reykjavík. Afgreiðslustúlka sem var ein við afgreiðslu í söluturninum skýrði svo frá að hún hefði þá skömmu áður skyndilega orðið vör við að maður væri kominn inn fyrir afgreiðsluborðið. Hafi hann verið með dúkahníf í hendinni og hettu á höfði og fyrir andliti. Hann hafi skipað henni að koma með peninga. Hún hafi afhent manninum peninga úr sjóðsvél og lottókassa. Er hún hafi verið að afhenda manninum peninga úr lottókassa hafi maðurinn otað hnífnum að henni þegar hann hafi séð að hún hafði ekki tæmt kassann.

Kærði hefur viðurkennt verknað þennan nema hann mótmælir því að hafa haft hníf í hendi. 

Þann 17. febrúar sl.var lögreglu tilkynnt um að rán hafi verið framið í söluturni að Garðarstræti 2, Reykjavík. Tvö vitni skýrðu svo frá hjá lögreglu að maður vopnaður hnífi með grímu fyrir andlitinu hefði stuttu áður komið inn í söluturninn. Hafi hann mundað hnífinn, m.a. slegið hnífnum tvisvar í afgreiðsluborðið og heimtað peninga. Hafi maðurinn haldið af vettvangi eftir að afgreiðslustúlkan hafi afhent honum um 15.000 krónur úr afgreiðslukassa söluturnsins.

Kærði hefur gengist við verknaðinum.

Framburður kærða er í samræmi við framburð vitna.

Geðrannsókn hefur farið fram á kærða. Þar kemur fram að kærði sé með sögu um hegðunarvandamál frá barnsaldri. Snemma hafi orðið vart við andfélagslega hegðun hans, skapofsa og hvatvísi. Á unglingaárum misnotaði hann áfengi og sniffaði.

Í niðurstöðu Kjartans J. Kjartanssonar geðlæknis segir auk þess orðrétt:

„Fangelsisdómar og afplánanir 1991 – 1996 eftir að hafa framið nauðgun, líkamsárás og vopnað rán. Hann hefur sögu um töluverð þunglyndiseinkenni, sem þó má skýra af aðstæðum hans og drykkju, fremur en þunglyndissjúkdómi.“

Að mati geðæknis er kærði með persónuleikatruflun af andfélagslegri gerð.  Þá sé hann haldinn áfengissýki, og sé með greinilega áfengisfíkn með stjórnleysi í drykkju.

Að mati læknisins kom ekkert fram í viðtölum hans við kærða um að kærði væri haldinn geðofsaeinkennum.  Niðurstaða hans er að kærði sé sakhæfur.

Samkvæmt sakavottorði kærða hefur hann tvisvar áður verið dæmdur til refsingar fyrir alvarleg ofbeldisbrot. Þann 24. október 1991 í 18 mánaða fangelsi fyrir nauðgun, sem Hæstiréttur breytti í 2 ára fangelsi 20. janúar 1992. Þá var hann dæmdur 3. nóvember 1993 í fangelsi í 2 ár og 6 mánuði fyrir rán.

Kærði hefur játað, bæði hjá lögreglu og fyrir dómi, að hafa framið rán miðvikudaginn 3. febrúar sl. og vopnað rán 17. febrúar sl.

Af rannsóknargögnum og sakferli kærða má ráða að líklegt sé að hann muni halda áfram brotum verði hann ekki hafður áfram í gæsluvarðhaldi og er því fallist á kröfu lögreglunnar með vísan til c- og d-liða 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

Með hliðsjón af eðli þeirra brota sem kærði hefur játað að hafa framið og með tilliti til heilsufars hans, þ.e. áfengisfíknar og stjórnleysis við áfengisneyslu eins og fram kemur í rannsókn á geðhögum kærða, þykir rétt að byggja niðurstöðu þessa ennfremur á 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

Samkvæmt framansögðu er kærði úrskurðaður til að sæta áfram gæsluvarðhaldi eins og krafist er og nánar greinir í úrskurðarorði.

Arngrímur Ísberg héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð:

Kærði, Gauti Ólafsson, kt. 100764-7769, sæti gæsluvarðhaldi þar til dómur gengur í málum hans í Héraðsdómi Reykjavíkur, þó ekki lengur en til miðvikudagsins 9. júní nk. kl. 16:00.