Hæstiréttur íslands
Mál nr. 18/2017
Lykilorð
- Líkamstjón
- Málsástæða
- Matsgerð
- Gjafsókn
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson og Karl Axelsson og Árni Kolbeinsson fyrrverandi hæstaréttardómari.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 10. janúar 2017. Hann krefst þess að viðurkennd verði skaðabótaskylda stefnda vegna líkamstjóns sem hann varð fyrir í slysi 27. ágúst 2013 í starfi hjá stefnda. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, án tillits til gjafsóknar sem honum hefur verið veitt.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Réttargæslustefndi gerir engar kröfur í málinu.
Áfrýjandi hefur lagt fyrir Hæstarétt matsgerð manns sem dómkvaddur var 28. apríl 2017. Í matsbeiðni er þess óskað að matsmaður svari 14 nánar tilgreindum spurningum. Þær spurningar lúta að vali á gleri í skilveggi og hvort heimilt sé að nota í þá gler að tiltekinni gerð eða þykkt. Þá lúta spurningar í matsbeiðni að því hvert sé burðarþol glersins, sem notað var í skilveggi þá sem áfrýjandi og samstarfsmaður hans voru að fjarlægja gler úr er slys varð, og hver séu brotþolsmörk þess við tilteknar aðstæður, þýðingu þess að notað hefði verið öryggisgler í stað þess sem notað var og loks hver beri ábyrgð á vali á gleri í skilveggina á staðnum þar sem slysið varð. Nokkrar spurninganna lúta þó að atvikum málsins, verklagi við að skipta um gler og þýðingu þess ef tilgreindur öryggisbúnaður hefði verið notaður. Þótt ekki sé tiltekið í matsbeiðni hvað sanna eigi með matsgerð, sbr. 1. mgr. 61. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, er ljóst að hennar er öðrum þræði aflað til þess að renna stoðum undir málsástæðu áfrýjanda um að glerið í skilveggjunum hafi ekki uppfyllt öryggiskröfur og ekki mátt nota það í slíka veggi. Þær málsástæður komu fyrst fram í greinargerð áfrýjanda til Hæstaréttar. Ekki eru skilyrði samkvæmt 2. mgr. 187. gr. laga nr. 91/1991 til að heimilt sé að reisa úrlausn málsins fyrir Hæstarétti á hinum nýju málsástæðum og verður þeim hafnað. Að öðru leyti breytir framangreind matsgerð ekki þeim grundvelli sem hinn áfrýjaði dómur, sem skipaður var sérfróðum meðdómsmönnum, er reistur á. Með vísan til forsendna dómsins verður hann staðfestur.
Rétt er að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður en um gjafsóknarkostnað áfrýjanda fer sem í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda, A, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 1.000.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 10. október 2016.
Mál þetta, sem dómtekið var mánudaginn 26. september 2016, var höfðað 18. september 2015 af A, [...], á hendur Byggingarfélagi Gylfa og Gunnars hf., Hólmaþingi 9, Kópavogi, og til réttargæslu Tryggingamiðstöðinni hf., Síðumúla 24, Reykjavík.
Stefnandi gerir þær dómkröfur að viðurkennd verði með dómi skaðabótaskylda stefnda, Byggingarfélags Gylfa og Gunnars hf., á líkamstjóni sem hann varð fyrir þann 27. ágúst 2013, í vinnu hjá stefnda. Þá er krafist málskostnaðar eins og málið væri ekki rekið sem gjafsóknarmál.
Stefndi, Byggingarfélag Gylfa og Gunnars hf., krefst sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar. Af hálfu réttargæslustefnda, Tryggingamiðstöðvarinnar hf., eru engar kröfur gerðar í málinu.
Málsatvik
Stefnandi, [...], starfaði í viðhaldsdeild hins stefnda félags, Byggingarfélags Gylfa og Gunnars hf. Þann 27. ágúst 2013 var hann að störfum í skrifstofuhúsnæði að Borgartúni 27 í Reykjavík, en verkstjóri á staðnum, B, hafði falið honum og starfsfélaga hans, C, að fjarlægja glervegg, sem afmarkaði þar skrifstofurými. Í stefnu kemur fram að þeir hafi byrjað á verkinu á milli klukkan 12 og 13 þennan dag og að verkstjórinn hafi gefið þeim fyrirmæli um að ljúka því fyrir klukkan 16. Samkvæmt gögnum málsins var tvöfalt gler í veggnum sem um ræðir, nánar tiltekið tvær glerskífur, 4 til 6 mm þykkar, með bili á milli, og var hver eining 90 cm breið og 270 cm á hæð. Stefnandi hafði sett sogskálar á eina slíka glerskífu og var að losa hana úr falsi að neðanverðu þegar glerið brotnaði og hlaut hann við það alvarleg skurðsár á framhandleggjum.
Lögregla var kölluð á vettvang og kemur fram í skýrslu hennar að rætt hafi verið við samstarfsfélaga stefnanda, C, sem hafi lýst því hvernig slysið atvikaðist og hefði komið fram hjá honum að glerin gætu oft verið nokkuð stíf eða föst í falsinu svo að stundum þyrfti svolítið átak til að losa þau. Þá ræddu lögreglumenn við stefnanda á slysadeild og kvaðst hann hafa sett sogskálarnar frekar neðarlega á glerið til að losa það úr falsinu. Hann hefði síðan ætlað að draga neðri hluta glersins úr rammanum og hefðu þeir C ætlað að bera það á sinn stað. Glerið hefði hins vegar setið nokkuð fast og hefði myndast spenna ofarlega í því við verkið. Það hefði síðan brotnað yfir handleggina á honum þegar hann dró það út.
Í skýrslu lögreglu kemur fram að haft hafi verið samband símleiðis við Vinnueftirlit ríkisins og hefði því verið lýst fyrir starfsmanni þar hvernig slysið átti sér stað. Hefði sá starfsmaður beðið um að skýrsla yrði rituð um atvikið, en miðað við lýsingar lögreglu hefði hann ekki talið ástæðu til að eftirlitsmenn kæmu á vettvang.
Stefnandi var fluttur á bæklunarskurðdeild Landspítala. Samkvæmt vottorði D, bæklunar- og handaskurðlæknis, reyndust sex sinar, auk sveifarslagæðar, hafa skorist í sundur á hægri framhandlegg og ein sin í vinstri úlnlið. Stefnandi gekkst undir bráðaaðgerð á sjúkrahúsinu og greri skurðsár vinstra megin vel, en hægra megin urðu miklir samvextir. Hann gekkst aftur undir skurðaðgerðir í mars og september 2014, þar sem sinar voru losaðar og fluttar til.
Stefnandi gekkst undir örorkumat sem E lögfræðingur og F bæklunarlæknir önnuðust. Í matsgerð þeirra, sem dagsett er 8. júlí 2015, kemur fram að þrátt fyrir skurðaðgerðir búi stefnandi við „réttiskerðingu“ á hægri þumli og baugfingri, minnkaðan kraft og kulvísi í báðum höndum. Einkennin séu töluvert meiri í hægri hendi en þeirri vinstri. Var tímabundin örorka metin 100% frá slysdegi til 27. nóvember 2013, frá 10. mars 2014 til 10. júní 2014 og frá 22. september 2014 til 21. apríl 2015. Varanleg læknisfræðileg örorka var metin 40 stig.
Stefndi hafði keypt slysatryggingu launþega og frjálsa ábyrgðartryggingu hjá réttargæslustefnda, Tryggingamiðstöðinni hf. Var bótaskylda úr launþegatryggingu viðurkennd, en bótaskyldu vegna ábyrgðartryggingar hafnað. Stefnandi skaut málinu til Úrskurðarnefndar í vátryggingamálum sem komst að þeirri niðurstöðu 10. febrúar 2015 að hann ætti ekki rétt á bótum úr ábyrgðartryggingu stefnda hjá réttargæslustefnda.
Í málinu liggur fyrir matsgerð G, byggingarfræðings og húsasmíðameistara, og H, dósents í vélaverkfræði, frá í febrúar 2016. Hinir dómkvöddu matsmenn voru m.a. spurðir eftirfarandi spurningar: „Hvernig hefði verið hættuminnst að fjarlægja glerrúðuna, þ.e. með hvaða vinnuaðferð hefði verið auðveldast og hættuminnst að fjarlægja glerrúðuna úr falsinu ... ?“ Þá var spurt hvort sú aðferð sem notuð var, og lýst er í lögregluskýrslu, hafi verið nægilega örugg vinnuaðferð. Í niðurstöðu matsmanna er að finna eftirfarandi svar: „Ef horft er til þeirrar hættu að gler brotni við að taka það úr glerveggjum má ætla að hættuminnst sé að starfsmaður/menn hafi ákveðna fjarlægð frá glerinu og hagi vinnu sinni þannig að það takmarki hættu á að gler falli niður á þá ef til komi og brotni. Það er mat matsmanna að öruggast sé að sogskál sé sett efst á glerið og sá sem vinnur við að losa það frá gúmmílistum í falsi standi á tröppum og byrji á því að beita átaki efst á glerinu þar til gler losni efst fyrst, síðan væri sogskál færð neðar til að losa gler þar og neðar. Aldrei megi beita miklu átaki við að losa glerið. Síðan væru tveir við að taka glerið úr falsi með einni sogskál á efri hluta glersins og önnur sogskál á neðri hluta þess. Þessi aðgerð sem hér er lýst tekur lengri tíma en sú aðferð sem beitt var og hefur verið beitt samkvæmt lýsingum málsaðila. Þegar fjöldi glerja er tekinn úr falsi og það er yfirleitt laust í falsinu er hætta á að sú aðgerð sem matsþolar lýsa verði notuð, enda kannski eðlilegri með hliðsjón af reynslu þeirra.“ Nánar verður gerð grein fyrir niðurstöðum matsgerðar í niðurstöðukafla dómsins.
Stefnandi gaf skýrslu fyrir dóminum við aðalmeðferð málsins og gerði grein fyrir menntun sinni og starfsreynslu. Hann kvaðst vera [...]. Hann hefði hafið störf hjá stefnda árið 2012, en unnið við húsasmíðar fram að því, þ. á m. við glerjun húsbygginga. Hann hefði þó fyrst komið að því í starfi sínu hjá stefnda að setja upp og taka niður glerveggi eins og þann sem hann var að vinna við er slysið varð. Þennan dag hefði B verkstjóri beðið þá C að taka niður skilrúmsveggina sem um ræðir og hefði það verið hans skilningur að ljúka ætti verkinu fyrir lok vinnudags. Hann hefði beitt því verklagi sem venjulegt var við svona verk og honum hefði verið kynnt þegar hann byrjaði að vinna við þetta. Hann kvaðst vita til þess að gler voru endurnotuð við uppsetningu skilrúmanna og jafnframt vita til þess að gler hefði brotnað við þessa vinnu.
Vitnið B verkstjóri kvaðst ekki muna hvort ætlunin hefði verið að ljúka verkinu þennan dag, en enginn þrýstingur hefði verið frá verkkaupanum að ljúka því á ákveðnum tíma. Hann taldi verkið hafa verið unnið með venjulegum vinnuhraða og, eins og það var orðað: „Maður vinnur ekki hratt með gler.“ Vitnið lýsti því verklagi sem viðhaft var við að fjarlægja gler eins og unnið var við í umrætt sinn. Hann kvað verkið yfirleitt hafa verið unnið af einum manni, en þó hefðu tveir komið að vinnu við stærri rúður, upp undir 1,20 m á breidd. Hefðbundið vinnulag hefði verið að byrja að setja sogskálar á miðja rúðu, en ef rúðan sat föst hefðu sogskálarnar verið færðar ofar og togað í. Vitnið lýsti því að eftir slysið hefði verið hætt að nota 4 mm gler í skilrúmsveggina. Þá hefði hann haft frumkvæði að því að útvega framhandleggshlífar úr leðri sem starfsmenn notuðu nú við vinnu með gler.
Vitnið C kvaðst í umrætt sinn hafa verið að losa lista, sem festir voru á karma glerveggsins, en stefnandi hefði komið á eftir honum og fjarlægt glerrúðurnar. Hann kvaðst ekki hafa séð þegar slysið varð, aðeins heyrt brothljóð. Hann kvað verkið ekki hafa verið unnið undir tímaþrýstingi og ekki hraðar en gengur og gerist. Vitnið kvaðst vera lærður húsasmiður og hafa unnið hjá stefnda frá hausti 1985. Hann hefði „þó nokkuð oft“ unnið við að taka gler úr veggeiningum eins og þarna var verið að gera.
Auk stefnanda og framangreindra vitna komu dómkvaddir matsmenn fyrir dóm við aðalmeðferð málsins og staðfestu matsgerð sína.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi byggir á því að stefndi, Byggingarfélag Gylfa og Gunnars hf., beri skaðabótaábyrgð á líkamstjóni sem hann varð fyrir í vinnuslysinu sem um ræðir, á grundvelli vinnuveitandaábyrgðar og sakarábyrgðarreglu skaðabótaréttar. Í stefnu er vísað til 23. gr. a skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. 1. gr. laga nr. 124/2009, og segir að þar sé kveðið á um stranga sakarábyrgð vinnuveitanda og að almennt hvíli á vinnuveitanda sönnunarbyrði fyrir því að skerða eigi bótarétt starfsmanns vegna eigin sakar. Þá miði löggjöf á sviði vinnuréttar að því að vinnuveitandi beri ábyrgð á því að ákvæði laga og stjórnvaldsreglna sem lúti að vinnustaðnum og vinnuumhverfi, þ.m.t. reglur sem lúti að öryggi starfsmanna, séu í heiðri hafðar. Vinnuveitandi ráði skipulagi og framkvæmd starfa á vinnustað, en starfsmaður hafi lítið um það að segja. Vísar stefnandi í þessu sambandi til ákvæða laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, nr. 46/1980, og ummæla í greinargerð með frumvarpi sem varð að lögum nr. 124/2009, um breyting á skaðabótalögum.
Stefnandi kveðst aðallega byggja á því að stefndi hafi brotið gegn eftirlitsskyldu sem vinnuveitandi hafi á vinnustað. Er í því sambandi vísað til 65. gr., 65. gr. a og 66. gr. laga nr. 46/1980, 27. gr. reglugerðar nr. 920/2006, um skipulag og framkvæmd vinnuverndarstarfs á vinnustöðum, og a-liðar 3. gr., 4. og 5. gr. reglugerðar nr. 367/2006, um notkun tækja, þar sem kveðið sé á um ábyrgð vinnuveitanda á því að gerð sé skrifleg áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustað. Um það starf sem stefnandi vann, þegar slysið varð, sé eftirfarandi vitað: Vinnan hafi falist í því að fjarlægja gler úr vegg. Glerið hafi átt það til að sitja fast í falsinu svo að átak hafi þurft til að losa það. Glerið hafi átt það til að brotna, auk þess sem almenn vitneskja sé um að glerbrot geti verið hnífbeitt. Miðað við þessa greiningu hafi hæglega verið hægt að gera sér grein fyrir þeirri hættu, sem stafaði af framkvæmd verksins sem stefnanda hafi verið skipað að vinna. Eðlilegt hefði verið að draga úr hættu við verkið með forvörnum, s.s. hlífðarbúnaði. Telur stefnandi sogskálar sem stefnandi notaði við verkið vera „tæki“ í skilningi a-liðar 3. gr. reglugerðar nr. 367/2006.
Þá byggir stefnandi á því að með því hvernig honum var gert að standa að vinnu sinni hafi verið brotið gegn ákvæðum reglna nr. 499/1994, um öryggi og hollustu þegar byrðar eru handleiknar, einkum 1. gr., sbr. 3., 4., 5. og 9. gr. þeirra reglna. Er einnig vísað til 3. gr. og a-liðar 4. gr. reglna nr. 497/1994, um notkun persónuhlífa. Í I. viðauka þeirra reglna sé jafnframt að finna skrá um persónuhlífar, þ.m.t. handa- og handleggjahlífar, þar sem með séu taldir hanskar til hlífðar gegn viðkomu (stungu, skurði, titringi o.þ.h.). Úrskurðarnefnd í vátryggingamálum hafi við meðferð máls stefnanda vísað til þess að hann hafi haft persónuhlífar á höndum, vinnuhanska, sem stefndi hafi úthlutað honum. Um hafi verið að ræða þunna tauhanska, sem veiti sáralítið viðnám gegn beittu gleri eða alls enga vörn gegn beittri egg eða brotbrún á gleri. Augljóst sé að hanskarnir hafi ekki hentað til að varna þeirri áhættu sem verkinu fylgdu. Skylda vinnuveitanda til að útvega fullnægjandi persónuhlífar geti ekki talist uppfyllt með því að afhenda almenna vinnuhanska til innivinnu. Vísar stefnandi til dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 472/2011 í þessu sambandi. Þá kveðst stefnandi skírskota til skilyrðiskenningar skaðabótaréttar og þess að hann hefði ekki orðið fyrir líkamstjóni hefði hann verið með fullnægjandi hlífðarbúnað, t.d. uppháa hanska, líkt og kjötiðnaðarmenn nota. Kveðst hann fullyrða að enginn slíkur hlífðarbúnaður hafi verið til hjá vinnuveitanda hans, aðeins venjulegir vinnuvettlingar.
Samkvæmt því sem að framan greinir telur stefnandi stefnda hafa brotið gegn meginreglum laga nr. 46/1980, einkum 13. og 14. gr., 23. gr. og 1. mgr. 37. gr. laganna. Vísar stefnandi til reglna skaðabótaréttar um mat á gáleysi í því sambandi. Atvinnurekanda beri að tryggja að gætt sé fyllsta öryggis, góðs aðbúnaðar og hollustuhátta á vinnustað, sbr. 13. gr. laga nr. 46/1980. Fulltrúa atvinnurekanda á staðnum, B verkstjóra, hafi borið að hafa eftirlit með og sjá til þess að gætt væri fyllsta öryggis á vinnustaðnum og við framkvæmd verksins, sbr. 20.-23. gr. laganna, þ.m.t. að ganga úr skugga um að tveir starfsmenn gætu örugglega unnið verkið saman. Það hafi falið í sér vítavert gáleysi, sem atvinnurekandi beri ábyrgð á, að gefa starfsmönnunum fyrirmæli um að drífa verkið af, sérstaklega í ljósi þess hvers eðlis verkið var. Sýnt sé að slys verði þegar menn flýta sér um of. Verkstjórinn hafi þrýst á stefnanda og samstarfsmann hans að flýta sér og lagt kapp á að klára verkefnið fyrir lok venjulegs vinnudags, að beiðni verkbeiðanda. Sök vinnuveitanda sé hlutlægt séð fyrir hendi þar sem brotið hafi verið gegn framangreindum reglugerðar- og lagaákvæðum, með því að tryggja ekki nægilega öryggi stefnanda við vinnu hans. Er um þetta vísað til dóma Hæstaréttar í málum nr. 375/2010, 335/2010 og 662/2006. Þá bendir stefnandi á að líta verði til þess hve mikil hætta hafi verið á tjóni er slysið varð og vísar í því sambandi til dóma Hæstaréttar frá árinu 1968 bls. 1034, 1976 bls. 14 og dóma réttarins í málum nr. 280/2004, 251/2005, 665/2010 og 104/2012. Stefnda og verkstjóra á vinnustaðnum hafi átt að vera ljóst að hætta gat stafað af því að fjarlægja rúður úr „gerefti“ sem þær voru í, en fram komi í gögnum málsins að áður hafi brotnað rúður við slíkt verk.
Stefnandi byggir nánar á því að greina verði á milli þeirra skyldna sem hvíli á vinnuveitanda annars vegar og starfsmönnum hans hins vegar. Þegar líkamstjón megi rekja til þess að vinnuveitandi hafi ekki farið eftir reglum sem gilda um öryggi á vinnustað, beri hann ábyrgð á slysi sem verði á starfsmanni hans, hvort sem slysinu er valdið af gáleysi eða ásetningi. Vinnuveitanda sé skylt að tryggja að aðstæður á vinnustað tefli ekki öryggi starfsmanna í tvísýnu, sbr. 13. gr. laga nr. 46/1980. Þær skyldur sem lög leggi á starfsmann megi ekki vera svo þungbærar, að þær geri að engu skyldur vinnuveitanda lögum samkvæmt. Reglur, um að vinnuveitandi tryggi öryggi á vinnustað, nái ekki markmiðum sínum á skilvirkan hátt ef ekki er jafnframt fallist á bótaábyrgð hans ef út af bregður. Þetta fái stoð í 3. mgr. 5. gr. tilskipunar nr. 89/391/EBE, sem og dómi EFTA dómstólsins í máli nr. E-2/10, svo sem nánar er rakið í stefnu. Ekki hafi verið uppi óvenjulegar eða ófyrirsjáanlegar aðstæður þegar slysið varð og eigi vinnuveitandi því að bera meginábyrgð á öryggi og heilsu starfsmanna sinna. Stefnandi hefði ekki orðið fyrir líkamstjóni ef öllum öryggisreglum hefði verið fylgt. Því hafi ekki verið fyrir að fara stórfelldu gáleysi eða eigin sök hans. Er enn í þessu efni vísað til 23. gr. laga nr. 50/1993. Þá vísar stefnandi til dóms Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-1292/2012, þar sem skipt hafi máli um niðurstöðu málsins að vinnuveitandi hafi haft vitneskju um þá hættu sem var til staðar við verkið. Telur stefnandi að svo hafi verið í máli þessu og vísar í því sambandi til tölvupóstsamskipta fyrirsvarsmanns stefnda og lögmanns réttargæslustefnda, sem liggja fyrir í málinu, og ummæla sem höfð voru eftir C, samstarfsmanni stefnanda, í lögregluskýrslu. Telur stefnandi að vegna þessa hefði brýnni nauðsyn en ella verið til að tryggja öryggi starfsmanna við það verk, sem unnið var, svo að tjón hlytist ekki af. Það hefði hæglega mátt gera með fullnægjandi persónuhlífum og skilvirku áhættumati í samræmi við þau laga- og reglugerðarákvæði, sem að framan greinir.
Loks byggir stefnandi á því að sönnunarbyrði í málinu hvíli á stefnda þar sem vinnuslysið hafi ekki verið tilkynnt Vinnueftirliti ríkisins, fyrr en eftir slysið og ekki með fullnægjandi hætti. Er jafnframt vísað til meginreglna skaðabótaréttar um sérfræðiábyrgð í þessu sambandi. Stefndi hafi brotið gegn skyldu sinni samkvæmt 1. mgr. 79. gr. laga nr. 46/1980. Engin rannsókn hafi farið fram á vinnuaðstöðunni af hálfu sérfræðinga Vinnueftirlits ríkisins. Af lögregluskýrslu verði ekkert ráðið um orsök slyssins. Stefndi beri hallann af þessu vegna þeirra skyldna sem á honum hvíli sem vinnuveitanda, sbr. t.d. 17. gr. laga nr. 46/1980. Leggja verði lýsingar stefnanda á málsatvikum til grundvallar, sbr. dóm Hæstaréttar í málinu nr. 581/2000. Þá hafi verkstjóri stefnda borið sérfræðiábyrgð og áhættumat hafi ekki farið fram, s.s. að framan greinir, sbr. 65. gr., 65.gr. a og 66. gr. laga nr. 46/1980.
Af öllu framangreindu leiði að stefnandi hafi orðið fyrir tjóni, sem vinnuveitandi hans beri ábyrgð á. Stefnandi telur sig eiga lögvarða hagsmuni af því að viðurkenningarkrafa hans verði tekin til efnislegrar úrlausnar, þar sem sýnt hafi verið fram á að hann hafi hlotið varanlegt líkamstjón í vinnuslysinu. Verði fallist á dómkröfur hans verði hægt að meta líkamstjón samkvæmt ákvæðum skaðabótalaga nr. 50/1993, en stefnandi telur tjón sitt hafa verið vanmetið.
Nánar um lagarök vísar stefnandi til reglna skaðabótaréttar um herta sakarreglu, með hliðsjón af ábyrgð vinnuveitanda á öryggi á vinnustöðum, en vinnuaðstæður hafi verið hættulegar. Þá er vísað til reglna skaðabótaréttar um vinnuveitendaábyrgð og húsbóndaábyrgð, um uppsafnaða sök og nafnlaus mistök og til reglunnar um sennilega afleiðingu. Þá byggir stefnandi á 23. gr. a laga nr. 50/1993, auk annarra ákvæða laga og reglugerða, sem að framan greinir.
Málsástæður og lagarök stefnda
Stefndi byggir á því að samkvæmt reglum skaðabótaréttar beri stefnanda að sanna að slysið verði rakið til atvika sem vinnuveitandi hans, stefndi í máli þessu, beri ábyrgð á. Sú sönnun hafi ekki tekist samkvæmt gögnum málsins. Því beri að sýkna hann af kröfum stefnanda.
Stefndi kveður ákvæði 23. gr. a skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. 1. gr. laga nr. 124/2009, um breyting á þeim lögum, lúta að þröngum heimildum til að skerða bótarétt starfsmanns sem hefur orðið fyrir líkamstjóni í starfi sínu. Komi þar fram að réttur hans til skaðabóta verði ekki skertur vegna meðábyrgðar nema hann hafi af stórkostlegu gáleysi eða ásetningi átt þátt í því að tjónsatburður varð. Á hinn bóginn sé í engu hróflað við þeirri meginreglu skaðabótaréttar um ábyrgð vinnuveitanda að tjónþoli hafi sönnunarbyrðina um það að skilyrðum skaðabótaskyldu sé fullnægt. Það eigi sér því enga stoð í téðu lagaákvæði að rík sönnunarbyrði hvíli á vinnuveitanda í slysamálum eins og hér um ræðir.
Stefnandi hafi í umrætt sinn verið að losa milliveggseiningu úr gleri ásamt samstarfsfélaga sinum, sem að framan greinir. Við verkið hafi verið viðhaft venjubundið og viðurkennt verklag þegar einingar, eins og hér um ræðir, eru losaðar. Vissulega hafi verið þekkt að brúnir glers geta verið beittar og til þess fallnar að skera hendur, t.d. ef tekið er um þær með berum höndum. Til að varna því að þurfa að taka um glerið með höndunum hafi stefnandi og samstarfsfélagi hans notað sérstök áhöld, svonefndar blöðkur, þ.e. handföng með sogskálum sem eru fest á glerflötinn. Þótt skriflegt áhættumat hafi ekki legið fyrir um þennan verkþátt hafi þeir sem komu að verkinu þekkt hættuna sem gat stafað af beittum glerbrúnum og hagað verklagi sínu í samræmi við það. Því hafi skortur á skriflegu áhættumati um þennan tiltekna verkþátt ekki valdið slysinu.
Svo sem fram komi í gögnum málsins sé vitað að það kunni að koma fyrir við meðferð eða meðhöndlun glers að það springi eða brotni. Af þeim sökum sé rétt og nauðsynlegt að notaðar séu blöðkur eða sogskálar til að koma í veg fyrir að hendur séu í beinni snertingu við gler og þannig reynt að bægja frá þeirri hættu, ef gler brotnar, að skurðbrúnir þess skerist í hendur þeirra sem handleika það. Aðstæður hafi hins vegar verið mjög sérstakar þegar glerið brotnaði yfir stefnanda með þeim afleiðingum að hann skarst á úlnliðum beggja handa. Slysatilvik af þessu tagi séu fátíð og ekki unnt að sjá þau fyrir í þeim mæli að unnt sé að gera þá kröfu að stefndi hafi átt að gera ráð fyrir áhættuþætti sem þessum í skriflegu áhættumati, sbr. 27. gr. reglugerðar nr. 920/2006. Bótaábyrgð stefnda verði því ekki reist á því að ekki hafi legið fyrir skriflegt áhættumat fyrir þann verkþátt sem stefnandi vann við þegar slysið varð.
Þótt um það megi deila hvort handföng þau sem notuð voru þegar einingin var losuð teljist til tækja í skilningi reglugerðar nr. 367/2006 sé ljóst að slysið verði ekki rakið til notkunar handfanganna eða sérstakrar slysahættu við notkun þeirra. Þvert á móti hafi handföngin verið notuð gagngert til að létta mönnum störfin og draga úr slysahættu þegar glerið var handleikið. Slysið verði því ekki rakið til þess að skort hafi sérstakar forvarnir eða notkun hlífðarbúnaðar á grundvelli þeirrar reglugerðar sem hér um ræðir.
Þá hafi þungi glersins fráleitt verið slíkur að stefnandi og samstarfsfélagi hans hafi ekki getað handleikið það af fyllsta öryggi, auk þess sem þeir höfðu áðurnefndar blöðkur til að ná handfestu á glerinu. Sem fyrri greinir hafi slysið orðið með afar sérstökum og óvenjulegum hætti. Ekki verði séð að viðhlítandi persónuhlífar hafi verið fáanlegar sem hefðu getað komið í veg fyrir það. Er því mótmælt að slysið verði rakið til þess að ákvæða reglna nr. 499/1994 hafi ekki verið gætt af hálfu stefnda.
Því er jafnframt mótmælt sem röngu að stefnandi hafi ekki fengið viðeigandi persónuhlífar, sbr. 3. gr. og a-lið 4. gr. reglna nr. 497/1994. Með því að nota blöðkur hafi stefnandi ekki þurft að taka á sjálfu glerinu eða brúnum þess. Þá þekkist ekki við störf sem þessi að notaðir séu hanskar úr málmneti eins og notaðir eru við meðferð hnífa við kjötvinnslu, enda slíkir hanskar ekki þannig gerðir að þeir henti við glerísetningu eða glerúrtöku. Hætta á slysi eins og þarna varð hafi heldur ekki verið svo auðsæ eða yfirvofandi að hafi kallað á þess háttar hanska eða annan hliðstæðan hlífðarbúnað. Af leiðbeinandi skrá yfir persónuhlífar í I. viðauka við framangreindar reglur verði heldur ekki ráðið að fyrir hendi hafi verið þar til gerðar persónuhlífar til að koma í veg fyrir slys eins og stefnandi varð fyrir. Hið sama gildi um leiðbeinandi skrá í viðauka II yfir störf og starfssvið þar sem nauðsynlegt getur reynst að nota persónuhlífar. Ekki liggi fyrir í málinu af hálfu stefnanda hvers konar hlífðarbúnaður eða persónuhlífar hafi verið raunhæfur kostur fyrir hann að hafa á sér sem hefði varnað því að slysið varð.
Hanskar sem stefnandi notaði í umrætt sinn hafi verið úr gúmmíkenndu efni lófamegin og haft þannig góða núningsmótstöðu, auk þess sem þeir séu þjálir í allri notkun. Að því leyti hafi þeir hentað vel við það verk sem stefnandi var að vinna þótt þeir hafi ekki veitt mikla vörn við það hrapallega slys þegar glerið brotnaði og féll á hendur hans. Þegar litið sé til þess verks sem þarna var unnið við, og hversu lítil líkindi hafi verið á slysi, sé með engu móti unnt að fallast á að það leiði til skaðabótaábyrgðar stefnda að hanskarnir hafi ekki veitt nægilega vörn.
Staðhæfingum stefnanda, um að verkstjóri á staðnum hafi sýnt af sér vítavert gáleysi og brotið gegn ákvæðum 13. gr., sbr. 20.-23. gr., laga nr. 46/1980, er mótmælt sem röngum og ósönnuðum. Stefnanda og vinnufélaga hans hafi verið falið að ljúka verkinu, en til þess hafi þeir haft allan þann tíma sem verkið krafðist og engar fyrirskipanir verið gefnar um að ljúka því fyrir tiltekin tímamörk. Ekkert hafi staðið því í vegi að halda verkinu áfram eftir lok dagvinnutíma. Það sé því tilhæfulaust með öllu að slysahætta hafi aukist sökum þess að þeir hafi þurft að flýta sér um of við verkið. Því er jafnframt vísað á bug sem röngu að stefndi hafi brotið gegn ákvæðum laga og annarra stjórnvaldsfyrirmæla með því að hafa ekki tryggt öryggi stefnanda við vinnu sína með nægilega traustum hætti.
Þá er hafnað því sem fram kemur í málatilbúnaði stefnanda, að nauðsynlegt hafi verið fyrir hann að hafa annan mann sér til aðstoðar til að halda við glerið að ofanverðu þeim megin sem hann var. Á ljósmyndum sem eru meðal gagna málsins, sjáist greinilega að glereiningin sem stefnandi vann við að losa var tiltölulega mjó og því ástæðulaust að hafa annan mann viðstaddan til að halda við glerið. Enginn grundvöllur sé til að gera athugasemdir við það verklag sem viðhaft var við að losa um glerið og taka það úr falsinu.
Þá liggi ekkert fyrir í gögnum málsins um að starfsmenn stefnda hafi unnið einhver þau verk sem síðan hafi orðið þess valdandi að slysið varð. Því verði ekki séð að reglur skaðabótaréttar um uppsöfnuð eða nafnlaus mistök geti leitt til skaðabótaábyrgðar stefnda. Verkið hafi verið unnið þannig að lítil hætta hafi átt að vera á því að glerið myndi brotna, jafnvel þótt stundum þyrfti smáátak við að losa það, eins og haft var eftir samstarfsfélaga stefnanda í lögregluskýrslu. Verkstjórinn, B, og vinnufélagi stefnanda, hafi áralanga reynslu af því að setja upp og taka niður glereiningar eins og hér um ræðir og þekki því vel flestar þær hættur sem kunni að vera til staðar við slík verk. Samt sem áður hafi stefndi eða starfsmenn hans með engu móti getað áttað sig fyrir fram á því að glerið myndi brotna og valda slysi með þeim hætti sem raunin varð. Slysið verði því ekki rakið til þess að öryggisreglum hafi ekki verið fylgt þannig að ábyrgð verði felld á stefnda vegna ónógra varúðarráðstafana við framkvæmd verksins.
Stefnandi vísar til þess að í skýrslu lögreglu komi fram að lögreglumaður hafi haft samband við Vinnueftirlit ríkisins á slysavettvangi til að tilkynna um atvikið. Viðbrögð Vinnueftirlitsins hafi verið þau að biðja um að lögregluskýrsla yrði rituð, en miðað við lýsingu á atvikum hafi af hálfu eftirlitsins ekki verið talin ástæða til að koma á vettvang. Samkvæmt þessu sé engum vafa undirorpið að Vinnueftirlitinu hafi verið tilkynnt um slysið nánast í sömu andrá og það varð og meðan verksummerki á slysstað voru óhreyfð. Undir þessum kringumstæðum hefði ekki þjónað neinum tilgangi fyrir stefnda að tilkynna einnig um slysið til Vinnueftirlitsins í því skyni að það myndi senda fulltrúa sinn á vettvang til að rannsaka slysið og tildrög þess. Eins og hér stóð á verði ekki fallist á að stefndi hafi brotið gegn 1. mgr. 79. gr. laga nr. 46/1980 þótt hann hafi ekki sjálfur tilkynnt Vinnueftirlitinu um slysið. Þá greini aðila ekki á um nein atvik sem teljist umdeild eða óljós og hefðu fengist upplýst við rannsókn Vinnueftirlitsins. Er því eindregið mótmælt af hálfu stefnda að skilyrði séu til að varpa sönnunarbyrði yfir á hann um atvik sem stefnandi hefur ella sönnunarbyrði um samkvæmt almennum sönnunarreglum skaðabótaréttar.
Stefndi kveður verk það sem stefnandi vann í umrætt sinn hafa verið einfalt og allir verkþættir þess séu þekktir. Stefnandi og samstarfsfélagi hans hafi verið reyndir smiðir og vitað til hlítar hvernig vinna skyldi verkið, þ. á m. hvaða tæki og tól þeir þyrftu til þess, svo og hvaða hætta kynni að vera fólgin í verkinu. Þeir hafi í reynd ekki þurft á neinum leiðbeiningum eða fyrirmælum að halda frá verkstjóra um það hvernig verkið skyldi innt af hendi. Þá sé ekki heldur um það að ræða að framkvæma hefði þurft sérstakt hættumat vegna þess. Telur stefndi fráleitt að ætla að fyrir hendi sé bótaábyrgð hans eða að sönnunarbyrði verði velt yfir á hann með vísan til einhvers konar „sérfræðiábyrgðar“ verkstjóra, sem hafi stjórnað framkvæmdum á slysstað, eða þess sem í stefnu sé jafnframt nefnt „sérfræðiábyrgð vinnuveitanda um öryggi á vinnustöðum“.
Niðurstaða
Í máli þessu er um það deilt hvort stefnandi, A, eigi rétt til bóta úr ábyrgðartryggingu stefnda, Byggingarfélags Gylfa og Gunnars hf., hjá réttargæslustefnda, Tryggingamiðstöðinni hf. Byggir stefnandi á því að stefndi hafi vanrækt skyldur sínar samkvæmt ákvæðum laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum nr. 46/1980 og reglum samkvæmt þeim. Er einkum vísað til þess að stefndi hafi vanrækt eftirlitsskyldu sína á vinnustaðnum, ekki hafi verið unnið áhættumat vegna verksins og hlífðarbúnaði starfsmanna verið áfátt.
Af hálfu stefnanda er byggt á því að á stefnda hvíli sönnunarbyrði um það hvort skilyrðum bótaskyldu sé fullnægt í málinu og er í því sambandi vísað til 23. gr. a skaðabótalaga, eins og því ákvæði var breytt með 1. gr. laga nr. 124/2009. Þá hafi stefndi vanrækt tilkynningarskyldu sína samkvæmt 1. mgr. 79. gr. laga nr. 46/1980 og eigi því að bera hallann af því að atvikið hafi ekki verið rannsakað sem skyldi. Ákvæði 1. mgr. 23. gr. a skaðabótalaga lýtur að meðábyrgð starfsmanns vegna líkamstjóns í vinnuslysum, en varðar ekki reglur um sönnunarbyrði. Þá liggur fyrir að lögregla hafði á vettvangi samband við starfsmann Vinnueftirlitsins, sem taldi ekki þörf á frekari aðgerðum, þar sem rituð yrði lögregluskýrsla um atvikið. Með matsbeiðni var þeirri spurningu beint til dómkvaddra matsmanna hvort hægt hefði verið að rannsaka vettvang slyssins í kjölfar þess og upplýsa orsök þess. Var það niðurstaða matsmanna, með hliðsjón af gögnum málsins og ljósmyndum af vettvangi, að erfitt hefði verið eða jafnvel ómögulegt að greina orsök slyssins með rannsókn á vettvangi, að öðru leyti en því að upplýsingar um þykkt glersins hefðu þá legið fyrir. Var talið óvíst að greining á glerjum hefði getað skilað afgerandi og fullnægjandi skýringu á því hvort galli eða skemmd hefði verið á eða í glerinu fyrir slysið. Með vísan til framangreinds verður ekki fallist á það með stefnanda að efni séu til að víkja frá almennum sönnunarreglum við mat á bótaskyldu stefnda í málinu.
Þá er á því byggt af hálfu stefnanda að stefndi hafi vanrækt skyldu sína til að vinna áhættumat vegna verksins, sbr. 65. gr. a laga nr. 46/1980 og 27. gr. reglugerðar nr. 920/2006, um skipulag og framkvæmd vinnuverndarstarfs á vinnustöðum. Sem að framan greinir er stefnandi [...] og hafði starfað við byggingarvinnu um áratuga skeið er slysið varð, þ. á m. við glerjun, sem telst venjubundið verk við byggingarvinnu. Hann hafði starfað við viðhaldsverkefni hjá stefnda í u.þ.b. ár, m.a. við að setja upp og taka niður gler í milliveggjum eins og hann vann við í umrætt sinn. Gerð hefur verið grein fyrir framburði stefnanda, C, samstarfsmanns hans, og B verkstjóra við aðalmeðferð málsins, en fram kom hjá þeim að verkið hefði verið unnið á hefðbundinn hátt. Þegar litið er til menntunar og starfsreynslu stefnanda og samstarfsmanns hans verður ekki talið að sérstök þörf hafi verið á því að vinna sérstakt áhættumat vegna þessa tiltekna verks. Var það jafnframt niðurstaða dómkvaddra matsmanna um þetta álitaefni að við slíka framkvæmd leggi vanir starfsmenn til ákveðið mat á áhættu, enda hafi verið notaðar sogskálar og hanskar við verkið og tröppur verið til staðar. Þá hafi vinna við að taka niður og setja upp glerveggi verið þekkt og sama verklag verið notað áður. Að mati dómsins geta sogskálar sem notaðar voru ekki talist vera tæki í skilningi a-liðar 3. gr. reglugerðar nr. 499/1994, um notkun tækja, eins og stefnandi byggir á, og var því ekki þörf á sérstöku áhættumati vegna notkunar þeirra. Kom jafnframt fram í svörum dómkvaddra matsmanna að sogskálar, ef rétt eru notaðar, séu bestu verkfæri sem hægt er að beita við glerjun.
Af hálfu stefnanda er jafnframt á því byggt að vinnuvettlingar sem honum voru fengnir til notkunar við vinnu sína geti ekki talist viðeigandi persónuhlífar, sbr. 9. gr. reglna nr. 499/1994, um öryggi og hollustu þegar byrðar eru handleiknar, og 3. gr. og a-lið 4. gr. reglna nr. 497/1994, um notkun persónuhlífa. Um er að ræða nitril húðaða tauvettlinga, en ljósmyndir af sams konar vettlingum eru meðal gagna málsins og lágu jafnframt frammi við aðalmeðferð þess. Í matsgerð er að finna umfjöllun dómkvaddra matsmanna um slíka vettlingana og kemur þar fram að þeir séu mikið notaðir við vinnu við glerjun, hvort heldur sem er fyrir glerveggi eða einangrunargler. Vettlingarnir gefi mjög gott grip og varni því að þeir sem vinna við gler skeri sig við lítils háttar núning, en komi þó ekki í veg fyrir að þeir geti skorið sig ef átak á glerkant er mikið eða gler brotnar og fellur á þá. Var það niðurstaða matsmanna að notkun vinnuvettlinganna við að taka gler úr glerveggjum væri fullnægjandi hlífðarbúnaður fyrir hendur þeirra sem verkið vinna. Með vísan til framangreinds þykir stefnandi ekki hafa sýnt fram á að honum hafi ekki verið fengnar viðeigandi persónuhlífar til notkunar við verkið. Breytir ekki þeirri niðurstöðu að eftir slysið hafi verkstjóri stefnda hlutast til um að starfsmönnum standi jafnframt til boða að nota armhlífar við vinnu sína.
Loks er á því byggt af hálfu stefnanda að verkstjóri hafi vanrækt starfsskyldur sínar á vinnustaðnum með því að hafa ekki séð til þess að gætt væri fyllsta öryggis við framkvæmd verksins, sbr. 13. gr., 14. gr., 20.-23. gr. og 1. mgr. 37. gr. laga nr. 46/1980. Í stefnu er því jafnframt haldið fram í þessu sambandi að verkstjóri hafi þrýst á starfsmennina að flýta verkinu. Af framburði stefnanda, samstarfsmanns hans, og verkstjórans, B, við aðalmeðferð málsins verður ekki ráðið að verkinu hafi verið hraðað umfram það sem venjulegt var. Staðhæfing í stefnu um að verkstjóri hafi beitt þrýstingi í þá veru fær hvorki stoð í framburði þeirra sem að verkinu komu né í gögnum málsins að öðru leyti og telst því ósönnuð. Sem að framan greinir var það niðurstaða dómkvaddra matsmanna að öruggast hefði verið að haga verklagi þannig að sogskál hefði verið sett efst á glerið og byrjað að losa það að ofan, en sogskálarnar síðan færðar niður á við, og að tveir menn fjarlægðu glerið úr falsinu, með sogskálum á efri og neðri hluta þess. Stefnanda mátti vera ljóst að hætta gat verið samfara verkinu, ekki síst með hliðsjón af menntun hans og starfsreynslu. Var honum og starfsfélaga hans í lófa lagið að haga vinnu sinni þannig að komast hefði mátt hjá því að glerið brotnaði, með því að bera sig að með þeim hætti sem lýst er í matsgerð. Verður ekki séð að verkstjóri hafi vanrækt starfsskyldur sínar á vettvangi vegna þess hvernig þeir höguðu verklagi sínu.
Samkvæmt framangreindu hefur ekki verið sýnt fram á að slysið sem stefnandi varð fyrir verði rakið til þess að starfsaðstæðum hafi verið ábótavant eða að stefndi hafi vanrækt að tryggja öryggi á vinnustað samkvæmt ákvæðum laga nr. 46/1980 og annarra reglna, sem vitnað er til af hálfu stefnanda. Verður stefndi því sýknaður af kröfum stefnanda í málinu.
Með hliðsjón af atvikum málsins þykir rétt að málskostnaður falli niður. Gjafsóknarkostnaður stefnanda, þ.m.t. þóknun lögmanns hans, Fjölnis Vilhjálmssonar hdl., 1.250.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, greiðist úr ríkissjóði.
Dóminn kveða upp Ragnheiður Harðardóttir héraðsdómari, Ásmundur Ingvarsson byggingarverkfræðingur og Jón Ágúst Pétursson byggingartæknifræðingur.
Dómsorð:
Stefndi, Byggingarfélag Gylfa og Gunnars hf., er sýkn af kröfum stefnanda, A.
Málskostnaður fellur niður. Gjafsóknarkostnaður stefnanda, þ.m.t. þóknun lögmanns hans, Fjölnis Vilhjálmssonar hdl., 1.250.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.