Hæstiréttur íslands

Nr. 2023-112

Fasteignasalan Tröð ehf. (Björn Jóhannesson lögmaður)
gegn
GBV 17 ehf. og M9 ehf. (Lúðvík Bergvinsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Fasteignasala
  • Þóknun
  • Samningur
  • Virðisaukaskattur
  • Aðildarskortur
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Karl Axelsson, Ása Ólafsdóttir og Björg Thorarensen.

2. Með beiðni 2. nóvember 2023 leitar Fasteignasalan Tröð ehf. leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 6. október sama ár í máli nr. 275/2022: GBV 17 ehf. og M9 ehf. gegn Fasteignasölunni Tröð ehf. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um þóknun úr hendi gagnaðila vegna vinnu í tengslum við sölu á einkahlutafélaginu Álsey, sem var í eigu gagnaðila, á grundvelli söluþjónustusamnings auk viðbótarþóknunar vegna virðisaukaskattsinneignar.

4. Með héraðsdómi var fallist á kröfur leyfisbeiðanda en með dómi Landsréttar var gagnaðilum gert að greiða leyfisbeiðanda þóknun samkvæmt söluþjónustusamningi en þeir sýknaðir af kröfu um viðbótarþóknun vegna virðisaukaskattsinneignar. Við upphaf viðskiptanna var gengið út frá því að salan tæki einvörðungu til lóðar sem var í eigu Álseyjar ehf. Síðar var ákveðið að selja í hennar stað allt hlutafé í félaginu. Leyfisbeiðandi byggði á því að aðilar hefðu auk þóknunar samkvæmt sölusamningi samið um viðbótarþóknun vegna virðisaukaskattsinneignar Álseyjar ehf. Gagnaðilar féllust ekki á það og höfnuðu frekara vinnuframlagi frá leyfisbeiðanda og fólu öðrum aðila að ljúka sölunni. Landsréttur hafnaði kröfu gagnaðila um sýknu vegna aðildarskorts. Þá taldi rétturinn að leggja bæri til grundvallar að vinna leyfisbeiðanda í þágu gagnaðila hefði verið það langt á veg komin þegar frekara vinnuframlagi hans var hafnað að honum bæri réttur til þóknunar samkvæmt samningi þeirra. Hins vegar var ekki fallist á leyfisbeiðandi hefði sýnt fram á að gagnaðilar hefðu skuldbundið sig til að greiða leyfisbeiðanda hina umkröfðu viðbótarþóknun.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi um skuldbindingargildi og túlkun samninga og jafnframt hversu ríkar kröfur skuli gera til sönnunarmats undir þessum kringumstæðum. Því til viðbótar varði málið sérstaklega mikilvæga hagsmuni sína. Leyfisbeiðandi telur jafnframt að ástæða sé til að ætla að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til einkum að því er varðar sönnunarmat réttarins á efni samkomulags aðila um viðbótarþóknun vegna virðisaukaskattsinneignar.

6. Að virtum gögnum málsins er hvorki unnt að líta svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.