Hæstiréttur íslands

Mál nr. 493/2017

A (Arnbjörg Sigurðardóttir lögmaður)
gegn
íslenska ríkinu (Guðrún Sesselja Arnardóttir lögmaður)

Lykilorð

  • Skaðabætur
  • Lagaskil

Reifun

A sótti um bætur samkvæmt lögum nr. 69/1995 á grundvelli matsgerðar um varanlegan miska og örorku sem hún hafði hlotið vegna alvarlegra kynferðisbrota af hálfu T á árunum 2008-2010. Hafði T áður verið sakfelldur fyrir brotin með dómi Hæstaréttar í máli nr. 388/2014. A fékk greitt sem nam hámarksfjárhæð bóta samkvæmt lögum nr. 69/1995 en höfðaði mál á hendur Í til heimtu frekari bóta. Laut ágreiningur aðila að því hvort miða ætti ákvörðun bóta A við verknaðarstund eða við síðara tímamark þannig að ákvæðum laga nr. 69/1995 yrði beitt að teknu tilliti til breytinga sem gerðar höfðu verið á hámarksfjárhæðum þeirra með lögum nr. 54/2012. Héraðsdómur taldi að taka yrði mið af almennum lagaskilareglum við úrlausn málsins og miða fjárhæð bóta A við þá hámarksfjárhæð sem gilt hefði samkvæmt lögum nr. 69/1995 fyrir gildistöku laga nr. 54/2012. Var Í því sýknað af kröfum A. Hæstiréttur staðfesti héraðsdóm með þeirri áréttingu að ekki hefði verið tekið fram í lögum nr. 54/2012 að hækkun bótafjárhæða skyldi markað gildissvið með öðrum hætti en leiddi af almennum lagaskilareglum.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Karl Axelsson og Gunnlaugur Claessen fyrrverandi hæstaréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 1. ágúst 2017. Hún krefst þess aðallega að stefnda verði gert að greiða sér 4.900.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 2.400.000 krónum frá 12. janúar 2015 til 26. júní 2015, af 7.400.000 krónum frá þeim degi til 19. ágúst 2015 en af 4.900.000 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Til vara krefst áfrýjandi þess að stefnda verði gert að greiða sér 2.500.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 5.000.000 krónum frá 26. júní 2015 til 19. ágúst sama ár en af 2.500.000 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Í báðum tilvikum krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar sem henni hefur verið veitt á báðum dómstigum.

Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og aðallega málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara að hann verði látinn niður falla.

Fyrir Hæstarétti hefur áfrýjandi fallið frá þeirri málsástæðu að ákvarðanir um greiðslu á grundvelli laga nr. 69/1995 um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota byggist ekki á reglum skaðabótaréttar heldur kröfuréttar.

Ekki var tekið fram í lögum nr. 54/2012, um breytingu á lögum nr. 69/1995, að hækkun bótafjárhæða, samkvæmt 7. gr. þeirra, skyldi markað gildissvið með öðrum hætti en leiðir af almennum lagaskilareglum. Að þessu gættu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur með vísan til forsendna hans.    

Rétt er að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður.

Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda, A, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, 600.000 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 8. maí 2017

I

Mál þetta, sem dómtekið var 31. mars 2017, er höfðað með stefnu áritaðri um birtingu 28. júní 2016. Stefnandi er A, [...],[...], en stefndi er íslenska ríkið, Arnarhvoli við Lindargötu, Reykjavík.

Stefnandi krefst þess aðallega að stefnda verði gert að greiða henni 4.900.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 2.400.000 krónum frá 12. janúar 2015 til 26. júní sama ár en af 7.400.000 krónum frá þeim degi til 19. ágúst sama ár og af 4.900.000 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Til vara krefst stefnandi þess að stefndi greiði stefnanda 2.500.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 5.000.000 króna frá 26. júní 2015 til 19. ágúst sama ár en af 2.500.000 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Þá er þess krafist að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað auk virðisaukaskatts að mati dómsins, eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.

Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda og að málskostnaður verði látinn falla niður.

Með bréfi innanríkisráðuneytisins, dagsettu 24. febrúar 2016, var stefnanda veitt gjafsókn í máli þessu. Gjafsóknin var takmörkuð við rekstur málsins fyrir héraðsdómi, sbr þó 4. og 5. gr. 127. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

II

Helstu málavextir eru óumdeildir. Með dómi Hæstaréttar Íslands uppkveðnum 23. október 2014 í máli réttarins nr. 388/2014 var Tomasz Czarny sakfelldur fyrir alvarleg kynferðisbrot gegn stefnanda. Brotin voru framin á árunum 2008 til 2010 þegar stefnandi var barn að aldri. Stefnanda í máli þessu voru dæmdar miskabætur úr hendi dómfellda að fjárhæð 3.500.000 krónur sem bera skyldu vexti samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 1. ágúst 2008 til 5. ágúst 2013 en dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Undir rekstri málsins setti réttargæslumaður stefnanda fram kröfu um greiðslu bóta úr hendi stefnda á grundvelli laga nr. 69/1995, um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota,  með bréfi sem barst bótanefnd 5. mars 2013. Hinn 12. desember 2014 sendi lögmaður stefnanda bréf til bótanefndar þar sem þess var krafist að stefndi greiddi stefnanda miskabætur að fjárhæð 3.000.000 króna, ásamt vöxtum og dráttarvöxtum, í samræmi við dóm Hæstaréttar. Bótanefnd ákvað á fundi sínum 17. desember 2014 að stefndi skyldi greiða stefnanda 600.000 krónur í miskabætur. Var þar lagt til grundvallar að á verknaðarstundu hefði hámark greiðslu úr ríkissjóði vegna miskatjóns verið 600.000 krónur, sbr. c-lið 2. mgr. 7. gr. laga nr. 69/1995. Í samræmi við niðurstöðu bótanefndar greiddi stefnanda 600.000 krónur 6. janúar 2015.

Á árinu 2015 gekkst stefnandi undir mat á varanlegum miska og varanlegri örorku vegna fyrrgreindra brota og var dr. B, sérfræðingur í geðlækningum og embættislækningum, fenginn til að framkvæma matið. Samkvæmt niðurstöðu matsgerðar hans, dagsettrar 10. maí 2015, var varanlegur miski stefnanda metinn til 20 stiga og varanleg örorka metin 20% en stöðugleikapunktur var talinn hafa verið 8. maí 2014.

Með bréfi lögmanns stefnanda til bótanefndar, dagsettu 26. maí 2015, var gerð krafa um að stefndi greiddi stefnanda 5.000.000 króna í bætur vegna varanlegrar örorku og varanlegs miska. Bótanefnd ákvað hinn 14. ágúst 2015 að stefndi skyldi greiða stefnanda 2.500.000 krónur vegna varanlegrar örorku og varanlegs miska en einnig matskostnað hennar að fjárhæð 125.000 krónur samkvæmt sérstakri heimild í 2. mgr. 15. gr. laga nr. 69/1995. Takmörkun á greiðslu úr hendi stefnda við 2.500.000 krónur byggðist eins og áður á því að á verknaðarstundu hefði sú fjárhæð numið hámarksfjárhæð greiðslu úr ríkissjóði samkvæmt b-lið 2. mgr. 7. gr. laga nr. 69/1995.  Samkvæmt þessari niðurstöðu greiddi stefndi stefnanda 2.500.000 krónur 19. ágúst 2015.

Stefnandi telur bótanefnd ranglega hafa miðað fjárhæð bótagreiðslna við gildandi lög á verknaðarstundu en rétt hefði verið að líta til hámarks bótagreiðslna eins og það var eftir breytingu á lögum nr. 69/1995 með lögum nr. 54/2012. Þar sem ákvarðanir bótanefndar eru endanlegar á stjórnsýslustigi telur stefnandi sig ekki eiga aðra leið færa en að höfða mál þetta.

III

Stefnandi byggir dómkröfur sínar á því að rangt sé að miða ákvörðun miskabóta hennar við verknaðarstund, svo sem bótanefnd hafi gert, heldur beri að miða við síðari tímamörk þannig að beitt verði ákvæðum laga nr. 69/1995, um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota, eins og þau urðu eftir breytingu á þeim sem gerð var með lögum nr. 54/2012. Þá hafi hámarksgreiðsla vegna miskabóta orðið 3.000.000 króna, sbr. c-lið 2. mgr. 7. gr. laga nr. 69/1995, og 5.000.000 króna fyrir líkamstjón, sbr. b-lið 2. mgr. 7. gr. sömu laga. 

Krafa stefnanda byggist aðallega á því að greiðslur stefnda til þolenda afbrota séu í raun ekki greiðsla skaðabóta, heldur lögákveðnar greiðslur vegna skaðabótaskyldu annarra. Ákvarðanir um greiðslu úr hendi ríkissjóðs byggist því ekki á reglum skaðabótaréttarins, heldur reglum kröfuréttarins. Líta beri til þess hvenær krafa á hendur stefnda stofnist en það sé ekki endilega á sama tíma og krafa stofnist á hendur tjónvaldi. 

Stefnandi vísar til þess að löggjafinn hafi ákveðið að ríkissjóður skuli inna af hendi greiðslu til þolenda afbrota sem hafi verið dæmdar skaða- eða miskabætur í tilteknum tilvikum. Breytingalög nr. 54/2012 hafi tekið gildi við birtingu þeirra 22. júní 2012 en ekki hafi verið tekið fram í lögunum til hvaða brota nýju lögin skyldu taka, þ.e. um það hvort líta bæri til verknaðarstundar, kæru máls til lögreglu, dómsniðurstöðu eða annars tímamarks. Í þessu samhengi vísar stefnandi til þess að við setningu laga nr. 69/1995, skaðabótalaga nr. 50/1993 og breytingu á þeim með lögum nr. 37/1999 hafi þótt ástæða til að setja sérstakt ákvæði um það, til hvaða tjónsatvika lögin tækju. Það hafi hins vegar ekki verið gert í lögum nr. 54/2012 og því sé eðlilegast að miðað sé við að tilgreindar fjárhæðir taki til þeirra krafna sem stofnist eftir gildistöku þeirra.

Stefnandi byggir á því að ákvarðanir bótanefndar eigi sér ekki lagastoð og að þær séu ekki í takti við vilja löggjafans þar sem markmiðið með breytingalögunum hafi verið að bæta hag brotaþola, auk þess sem þar hafi verið vísað til sanngirnissjónarmiða. Ætlunin hafi verið sú að bæta stöðu þolenda kynferðisbrota með því að hækka hámarksgreiðslur á miskabótum.    

Við ákvörðun á miskabótum til stefnanda beri að miða við uppkvaðningu dóms Hæstaréttar Íslands, enda hafi hún þá fyrst eignast rétt til greiðslu úr ríkissjóði, sbr. 11. gr. laga nr. 69/1995. Kröfur stefnanda á hendur stefnda hafi ekki orðið til fyrr en við uppkvaðningu dómsins hinn 23. október 2014 og því beri að miða greiðslur stefnda til stefnanda við gildandi lög á þeim tíma.   

Verði ekki fallist á það með stefnanda að miða beri við dómsuppkvaðningu, byggir hún kröfur sínar á því að miða beri við þann dag þegar málið var kært til lögreglu. Samkvæmt 6. gr. laga nr. 69/1995 sé það skilyrði fyrir rétti til greiðslna úr hendi stefnda, að brot hafi verið kært til lögreglu án ástæðulauss dráttar og að tjónþoli hafi krafist bóta úr hendi tjónvalds. Réttur til greiðslu úr hendi stefnda verði því ekki til fyrr en framangreind skilyrði séu uppfyllt. Oftast myndi vera um mjög stuttan tíma að ræða, enda sé það skilyrði fyrir greiðslum úr ríkissjóði að kæra hafi ekki dregist án ástæðu. Í 3. mgr. 6. gr. laga nr. 69/1995, sbr. 1. gr. laga nr. 118/1999, segi þó að þegar veigamikil rök mæli með því, megi víkja frá þessum skilyrðum. Í greinargerð með breytingalögum nr. 118/1999 komi skýrt fram að þessari undantekningu hafi verið sérstaklega ætlað að bæta stöðu barna sem verði fyrir afbrotum, enda sé eðlilegt og afsakanlegt að það geti dregist að þau kæri mál, jafnvel fram á fullorðinsár. Ekki hafi þótt rétt að þau misstu rétt til greiðslu úr hendi stefnda af þeim sökum. 

Þannig hafi háttað til í þessu máli og hafi bótanefnd vikið frá skilyrðum 1. og 2. mgr. 6. gr. laganna, enda hafi stefnandi verið aðeins [...] ára þegar brotunum hafi lokið. Mál þetta hafi verið kært til lögreglu í byrjun árs 2013, þegar stefnandi hafi verið orðin [...] ára, og bótakrafa á hendur tjónvaldi hafi verið gerð í febrúar sama ár. Fyrir þann tíma hafi stefnandi ekki átt kröfu um greiðslu úr hendi stefnda. Þegar stefnandi hefði kært brotin, hefðu breytingalög nr. 54/2012 þegar tekið gildi og byggir stefnandi á því að rétt sé að miða við þær fjárhæðir, sem þá hafi verið mælt fyrir um í lögum, við ákvörðun á bótagreiðslu henni til handa. 

Stefnandi telur að þótt talið verði að réttur hennar til greiðslu úr hendi stefnda byggist á reglum skaðabótaréttarins, sé allt að einu ekki rétt að miða við verknaðarstund í máli þessu. Stefnandi vísar til þess að í 28. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 segi að lögin taki gildi 1. júlí 1993 og eigi við um skaðabótaábyrgð vegna tjóns sem verði eftir gildistöku þeirra. Í athugasemdum með 28. gr. í lagafrumvarpinu sé sérstaklega fjallað um það hvenær tjón teljist hafa orðið. Það sé einfalt þegar tjónsatvik sé skýrt afmarkaður skyndilegur atburður og skaðvænar afleiðingar komi strax í ljós en geti hins vegar orkað tvímælis í þeim tilvikum þegar afleiðingar komi ekki fram strax og tíma taki að staðreyna eftirköstin. Þá beri að skilja ákvæðið svo að reglur laganna um ákvörðun bóta fyrir líkamstjón eigi við þegar skaðlegar afleiðingar beri að höndum eftir gildistöku, án tillits til þess hvenær hin skaðvænlega hegðun hafi átt sér stað. Tjón sem gerist hægt eða smám saman verði almennt talið hafa orðið þegar skaðlegar afleiðingar verði greinilega sannreyndar. Því sé um að ræða frávik frá þeirri reglu að miða við tjónsatvik. 

Í þessu máli hafi afleiðingar komið fram á löngum tíma og ekki hafi verið unnt að staðreyna þær strax. Það megi m.a. ráða af vottorði C, sálfræðings í Barnahúsi, dagsettu 10. janúar 2014, þar sem fram komi að meðferð stefnanda hafi þá ekki verið lokið. Þá komi fram í matsgerð að stöðugleikatímapunktur hafi verið 8. maí 2014. 

Þar sem ekki hafi verið tekin afstaða til þess í gildistökuákvæði laga nr. 54/2012 til hvaða tjónstilvika breytingin skyldi taka, byggir stefnandi á því að eðlilegt sé að leggja viðmið laga nr. 50/1993 til grundvallar, enda séu bætur stefnanda grundvallaðar á þeim lögum. Því beri að miða greiðslur til stefnanda við þær fjárhæðir sem hafi verið í gildi þegar tjónið hafi verið orðið ljóst, þ.e. við stöðugleikatímapunkt 8. maí 2014. 

Með vísan til alls framangreinds byggir stefnandi á að hún hafi átt rétt á greiðslu 8.000.000 króna úr hendi stefnda vegna tjóns síns, 3.000.000 króna vegna miska samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. c-lið 2. mgr. 7. gr. laga nr. 69/1995, og 5.000.000 króna vegna varanlegs miska og varanlegrar örorku, sbr. b-lið 2. mgr. 7. gr. laga nr. 69/1995. Hún hafi nú þegar fengið greiddar 600.000 krónur 6. janúar 2015 og 2.500.000 krónur 19. ágúst 2015 og því nemi fjárhæð kröfu hennar 4.900.000 krónum. 

Stefnandi gerir þá kröfu til vara að stefndi greiði henni 2.500.000 krónur vegna varanlegrar örorku. Krafan byggist á því að upphafstími örorku hafi verið 14. maí 2014 en fram að því hafi enn verið óljóst hvort stefnandi hefði orðið fyrir varanlegu tjóni vegna hinna alvarlegu brota sem hún varð fyrir. Fyrir 14. maí 2014 hafi henni því verið ómögulegt að gera kröfu um bætur vegna varanlegrar örorku og hljóti því að verða að líta til þeirra reglna sem þá giltu við ákvörðun um greiðslu stefnda til hennar. 

Í skaðabótalögum nr. 50/1993 sé almennt litið til stöðugleikatímapunkts við ákvörðun bóta vegna varanlegrar örorku. Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laganna skuli við ákvörðun fjárhæðar örorkubóta litið til aldurs tjónþola á þeim tíma sem upphaf varanlegrar örorku miðist við. Einnig skuli við ákvörðun um árslaun tjónaþola reikna þau til verðlags þess tíma sem upphaf varanlegrar örorku miðist við, sbr. 1. mgr. 7. gr. sömu laga. Þá beri bætur fyrir varanlega örorku vexti frá upphafsdegi metinnar örorku, sbr. 1. mgr. 16. gr. sömu laga. Einnig vísar stefnandi að þessu leyti til fyrri umfjöllunar um 28. gr. skaðabótalaga og byggir á því að sömu sjónarmið eigi hér við. Því beri að miða við gildandi lög á upphafstíma örorku. Sú regla eigi í það minnsta við um varanlega örorku, þótt því yrði hafnað að hún tæki til miskatjóns. Stefnandi bendir á að ekki hafi verið unnt að staðreyna varanlega örorku hennar fyrr en ástand hennar var orðið stöðugt, þ.e. 8. maí 2014. Tjón stefnanda hafi komið fram á löngum tíma og sé byggt á því að tjónið hafi ekki orðið fyrr en stöðugleika hefði verið náð og því hafi stefnandi ekki getað gert kröfu um bætur vegna þess fyrr. Þá hefðu lög nr. 54/2012 tekið gildi og er byggt á því að um greiðslur fari að lögum nr. 69/1995 eins og þau voru eftir þær breytingar. 

Með vísan til framangreinds byggir stefnandi á því að hún hafi átt rétt á greiðslu 5.000.000 króna vegna varanlegrar örorku, sbr. b-lið 2. mgr. 7. gr. laga nr. 69/1995. Hún hafi fengið greiddar 2.500.000 krónur 19. ágúst 2015 og nemi fjárhæð kröfu hennar mismuninum, þ.e. 2.500.000 krónum. 

Dráttarvaxtakrafa stefnanda er byggð á ákvæðum 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu. Upphafstími dráttarvaxta samkvæmt aðalkröfu miðast við það tímamark þegar mánuður var liðinn frá kröfubréfi, dagsettu 12. desember 2015, á grundvelli fyrrgreinds dóms Hæstaréttar Íslands, og þegar mánuður var liðinn frá því að stefndi var krafinn um greiðslu á grundvelli matsgerðar með bréfi, dagsettu 26. maí 2015, sbr. 3. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001. Tekið er tillit til innborgana 6. janúar og 19. ágúst 2015. 

Upphafstími dráttarvaxta í varakröfu miðast við þann dag þegar mánuður var liðinn frá því að stefnandi krafði stefnda um greiðslu á grundvelli matsgerðar með bréfi, dagsettu 26. maí 2015, sbr. 3. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001, að teknu tilliti til innborgunar 19. ágúst 2015. 

Málskostnaðarkrafa stefnanda er reist á XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, og krafa um að tekið verði tillit til virðisaukaskatts við ákvörðun málskostnaðar byggist á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.

IV

Stefndi hafnar öllum málsástæðum stefnanda og krefst sýknu af kröfum hennar í málinu. Stefndi vísar til þess að í tilviki stefnanda hafi fjárhæð bóta verið ákveðin með hliðsjón af ákvæðum 2. mgr. 7. gr. laga nr. 69/1995, um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota, þar sem settar séu takmarkanir á greiðsluskyldu ríkissjóðs. Frá gildistöku laganna 1996 og fram til 22. júní 2012 hafi hámarksfjárhæð miskabóta verið bundin við 600.000 krónur og hámark þess, sem ríkissjóður greiddi í bætur fyrir líkamstjón, hafi verð bundið við 2.500.000 krónur. Eftir gildistöku laga nr. 54/2012 hinn 22. júní 2012 hafi tilgreint hámark verið bundið við 3.000.000 króna í miskabætur og 5.000.000 króna í bætur fyrir líkamstjón. Það hafi verið mat stefnda, að þar sem brotin gegn stefnanda hafi verið framin í gildistíð eldra ákvæðis 2. mgr. 7. gr. laganna hafi borið að miða við þau takmörk, sem þá hafi verið í gildi, í samræmi við almennar lagaskilareglur og þá meginreglu skaðabótaréttar að fara skuli með skaðabótakröfu eftir þeim reglum sem hafi gilt þegar til hennar hafi verið stofnað og að krafan hafi stofnast á verknaðarstundu. Af hálfu stefnanda sé þess hins vegar krafist í aðalkröfu að miðað verði við þær fjárhæðir sem gilt hafi frá árinu 2012 og að henni verði greiddar bætur í samræmi við það eða allt að 8.000.000 króna að frádregnum 3.100.000 krónum sem henni hafi þegar verið greiddar. Varakrafa stefnanda byggi á sömu rökum en lúti hins vegar eingöngu að kröfu um bætur fyrir varanlegan miska og varanlega örorku, sbr. b-lið 2. mgr. 7. gr. laga nr. 69/1995.

Stefndi byggir á því að ekki leiki vafi á því að bótakröfur á hendur ríkissjóði á grundvelli laga nr. 69/1995 falli undir reglur skaðabótaréttarins, bæði lögfestar og ólögfestar. Þetta megi m.a. ráða af því að ríkissjóður bæti sérstaka bótaþætti eins og bætur fyrir líkamstjón og munatjón, sbr. 1. mgr. 2. gr. laganna, bætur fyrir missi framfæranda og kostnað við útför, andist þjónþoli vegna hins refsiverða verknaðar, sbr. 2. mgr. 2. gr. laganna og greiði miskabætur, sbr. 3. gr. þeirra. Allir þessir bótaþættir eigi grundvöll í skaðabótalögum nr. 50/1993. Þá greiði ríkissjóður vexti á bætur í samræmi við ákvæði skaðabótalaga.

Stefndi vísar til þess að í athugasemdum við frumvarp það, sem hafi orðið að lögum nr. 69/1995, segi um 1. gr. að gert sé ráð fyrir að samræmi sé milli kröfu tjónþola á hendur brotamanni og kröfu hans gagnvart ríkissjóði. Að mati stefnda verði þetta orðalag ekki skilið með öðrum hætti en þeim, að krafan gagnvart ríkissjóði sé því að fullu í samræmi við þá kröfu sem tjónþoli geti gert á hendur tjónvaldi og að fara skuli með hana að öllu leyti á sama hátt. Þá sé það ekki forsenda þess að bætur verði greiddar á grundvelli laganna, að fyrir liggi dómur um bótakröfu.  Samkvæmt 1. mgr. 11. gr. laga nr. 69/1995 sé dómur um bótakröfu bindandi fyrir ríkissjóð að því er varðar fjárhæð hennar, þó með þeirri takmörkun sem getið sé í 7. gr. Þetta útiloki þó ekki að tjónþoli geti krafist frekari bóta, hafi tjón hans ekki verið að fullu ljóst þegar mál var til dómsmeðferðar, sbr. ákvæði 2. mgr. 11. gr. laganna. Þá gildi ákvæði 1. mgr. 11. gr. aðeins að því marki að tjónvaldur hafi ekki viðurkennt kröfuna og fjárhæð hennar á einhvern hátt, t.d. þegar um sé að ræða samþykki hans fyrir greiðslu tiltekinna bóta eða þegar um útivistardóm sé að ræða, sbr. athugasemdir í lagafrumvarpinu.

Jafnframt bendir stefndi á að samkvæmt 9. gr. laga nr. 69/1995 sé ríkissjóði heimilt að greiða bætur, þrátt fyrir að tjónvaldur sé ókunnur, finnist ekki eða sé ósakhæfur. Þegar svo hátti til að krafa hafi ekki fengið dómsmeðferð, eins og í þeim tilvikum þar sem tjónvaldi hafi ekki verið refsað eða tjónþoli fari fram á frekari bætur en honum hafi verið ákveðnar með dómi, beri bótanefnd að taka sjálfstæða afstöðu til fyrirliggjandi kröfu eftir almennum reglum skaðabótaréttarins, sbr. 8. gr. laganna og orðalags í frumvarpi að lögunum. Þess sé sérstaklega getið í umfjöllun frumvarpsins um 8. gr. að við ákvörðun bóta skuli hafa til hliðsjónar tjónstakmörkunarreglur skaðabótaréttarins, t.d. varðandi eigin sök tjónþola og hvort hann hafi gert eðlilegar og viðeigandi ráðstafanir til að draga úr tjóni sínu.

Stefndi vísar til þess, að ef reglur kröfuréttarins væru látnar gilda um greiðslu bóta samkvæmt lögum nr. 69/1995, yrði misvægi á milli fyrningartíma krafna, allt eftir því hvort krafan hefði verið dæmd eða hvort hún hefði verið ákveðin sérstaklega af bótanefnd. Samkvæmt lögum nr. 150/2007, um fyrningu kröfuréttinda, fyrnist dómar og bótakröfur vegna líkamstjóns á 10 árum, sbr. 1. mgr. 9. gr. og 2. mgr. 21. gr. þeirra laga, en fyrningartími annarra krafna sé almennt fjögur ár, sbr. 3. gr. sömu laga. Samkvæmt 19. gr. laga nr. 69/1995 eignist ríkissjóður rétt til endurkröfu á hendur tjónvaldi vegna þess sem brotaþola hefur verið greitt og við framkvæmd endurkröfu hafi jafnan verið miðað við 10 ára tímamarkið að því er varðar fyrningu, hvort heldur sem krafan er byggð á ákvörðun bótanefndar eða er í samræmi við niðurstöðu dóms, enda hafi verið litið svo á að um skaðabótakröfur vegna líkamstjóns sé að ræða. Ef fallist væri á það með stefnanda að líta bæri á greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota sem almennar kröfur á sviði kröfuréttar en ekki á sviði skaðabótaréttar, teldist fyrningartími krafna, sem ekki væru ákveðnar með dómi, einungis vera fjögur ár. Þannig væri ósamræmi á milli réttinda ríkissjóðs til endurkröfu, allt eftir því hvort krafan hefði hlotið meðferð fyrir dómi eða ekki. Þetta ósamræmi gæti einnig beinst að tjónþola, hefði krafa hans ekki verið dæmd.

Að því er varðar varakröfu stefnanda, byggir stefndi á því að þótt í 6. gr. laga nr. 69/1995 sé kveðið á um kæru til lögreglu sem skilyrði greiðslu bóta úr ríkissjóði, sé það engu að síður svo, að við ákvörðun bóta beri að fara eftir almennum reglum skaðabótaréttarins, þ. á m. skaðabótalögum nr. 50/1993, sbr. 8. gr. laga nr. 69/1995. Því eigi við öll sömu sjónarmið og þegar hafi verið rakin um ákvörðun bóta í tengslum við aðalkröfu stefnanda. Samkvæmt reglum skaðabótaréttarins beri að miða við það þegar tjónsatvik verði og því beri að miða við þann tíma þegar brot gegn stefnanda áttu sér stað.

Með hliðsjón af framansögðu sé það mat stefnda að með bótakröfu brotaþola í sakamáli skuli að öllu leyti fara samkvæmt reglum skaðabótaréttarins en ekki samkvæmt almennum reglum kröfuréttar.

Að því er varðar þá málsástæðu stefnanda, að ekki sé tekið fram í frumvarpi að lögum nr. 54/2012 hvernig skilnaði við eldri ákvæði skuli háttað, vísar stefndi til þess að um það gildi almennar lagaskilareglur eins og jafnan þegar ekki séu höfð sérstök lagaskilaákvæði í lögum. Samkvæmt 27. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, sbr. lög nr. 33/1944, skuli birta lög. Í lögskýringum hafi verið litið á þetta ákvæði sem fyrirmæli um að lög skuli jafnan ekki vera afturvirk og því geti réttindi almennt ekki stofnast né verði skyldur lagðar á aftur í tímann. Af hálfu stefnda sé byggt á því að bótakrafa stefnanda hafi stofnast þegar brot gegn henni voru framin og þar með hafi hún eignast réttindi til greiðslu skaðabóta, hvort heldur sem er úr hendi tjónvalds eða ríkissjóðs, sbr. þó að uppfylltum skilyrðum 6. gr. laga nr. 69/1995. Því beri að fara með kröfur hennar eftir þeim reglum sem hafi verið í gildi á þeim tíma sem umrædd brot áttu sér stað. Af gögnum málsins megi ráða að stefnandi hafi átt við að etja hugræna vanlíðan á meðan á brotastarfsemi gegn henni stóð sem og eftir að henni lauk, í formi erfiðra minninga og eftirkasta eftir brotin. Ráða megi af þessu að tjón stefnanda hafi þá þegar verið komið fram að miklu leyti, þótt stöðugleikapunkti hafi ekki verið náð fyrr en á árinu 2014, svo sem fram komi í matsgerð. Að mati stefnda hafi það ekki þýðingu, þótt stöðugleikapunktur hafi verið síðar, enda sé það almennt svo í skaðabótamálum, að stofnun kröfu sé miðuð við tjónsatvik, þótt endanlegt tjón komi ekki í ljós að fullu fyrr en síðar.

Með vísan til alls framangreinds telur stefndi að ekkert hafi komið fram í málinu sem gefi tilefni til að ógilda ákvörðun bótanefndar um greiðslu bóta. Af hálfu stefnda hafi verið réttilega staðið að greiðslu bótanna með hliðsjón af lögum nr. 69/1995 eins og þau hafi verið þegar umrædd brot gegn stefnanda hafi átt sér stað. Því beri að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda.

V

                Svo sem þegar hefur verið rakið varð stefnandi fyrir alvarlegum kynferðisbrotum á árunum 2008 til 2010 þegar hún var barn að aldri. Með dómi Hæstaréttar Íslands, uppkveðnum 23. október 2014, var gerandinn sakfelldur fyrir brotin og jafnframt gert að greiða stefnanda 3.500.000 krónur í miskabætur með vöxtum og dráttarvöxtum. Stefndi greiddi stefnanda miskabætur að fjárhæð 600.000 krónur hinn 6. janúar 2015 í samræmi við ákvörðun bótanefndar frá 17. desember 2014. Þá greiddi stefndi stefnanda 2.500.000 krónur 19. ágúst 2015 í bætur vegna varanlegs miska og varanlegrar örorku í samræmi við ákvörðun bótanefndar 14. ágúst 2015. Við greiðslu bótanna var litið til þess hámarks sem ákvæði b- og c- liðir 2. mgr. 7. gr. laga nr. 69/1995, um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota, mæltu fyrir um á þeim tíma þegar brotin voru framin. Stefnandi byggir stefnukröfur sínar hins vegar á því að rangt sé að miða fjárhæð bótagreiðslna við gildandi lög á verknaðarstundu, svo sem bótanefnd hafi gert og bótagreiðslur stefnda hafi byggt á, heldur beri að líta til hámarks bótagreiðslna eins og það var eftir breytingu á lögum nr. 69/1995, um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota, sem gerð var með lögum nr. 54/2012. Lýtur ágreiningur aðila þannig að því, við hvaða tímamark skuli miða bótafjárhæðir til stefnanda.

                Stefnandi vísar til þess að greiðslur stefnda samkvæmt ákvæðum laga nr. 69/1995 séu í raun ekki bótagreiðslur heldur eigi þær undir reglur kröfuréttar, enda beri stefndi sem greiðandi bótanna ekki sjálfur skaðabótaskyldu þá sem greiðslurnar byggist á. Þegar litið er til fyrirmæla laga nr. 69/1995 um það til hvers beri að líta um greiðslur ríkissjóðs til þolenda afbrota er ekki unnt að fallast á þessa málsástæðu stefnanda. Ákvæði 1. mgr. 1. gr. laganna mæla fyrir um að ríkissjóður greiði bætur en ekki aðra tegund greiðslna vegna tjóns sem leiðir af broti á almennum hegningarlögum í samræmi við önnur ákvæði laga nr. 69/1995. Í athugasemdum við ákvæðið í lagafrumvarpinu segir að tjónþoli eigi lögvarða kröfu á hendur ríkissjóði til greiðslu bóta og að um mat á fjárhæð bótanna og eigin sök tjónþola gildi almennar reglur skaðabótaréttar. Þá er jafnframt áréttuð sú meginregla að samræmi sé milli kröfu tjónþola á hendur brotamanni og kröfu gagnvart ríkissjóði. Einnig er kveðið á um það í 8. gr. að við ákvörðun bóta samkvæmt lögunum gildi almennar reglur um skaðabótaábyrgð tjónvalds, að öðru leyti en því sem sérstaklega er tilgreint í lögunum sjálfum. Að virtum þessum tilvísunum laganna til reglna skaðabótaréttarins verður ekki ráðið annað en að þær reglur verði lagðar til grundvallar um eðli og meðferð bótakrafna samkvæmt þeim. 

                Stefnandi byggir jafnframt á því að þótt reglur skaðabótaréttar verði taldar eiga við um greiðslur stefnda, beri allt að einu að miða þær við síðara tímamark en tjónsatburðinn sjálfan. Stefnandi vísar til þess markmiðs löggjafans með setningu breytingarlaganna nr. 54/2012 að bæta hag brotaþola með vísan til sanngirnissjónarmiða. Þá bendir stefnandi á að ekki hafi þótt ástæða til að setja sérstakt ákvæði í breytingalögin um það til hvaða tjónsatvika þau tækju, svo sem gert hafi verið við setningu laga nt. 69/1995, skaðabótalaga nr. 50/1993 og laga nr. 37/1999 um breytingu á skaðabótalögunum. Því telur stefnandi að miða beri við uppkvaðningu fyrrgreinds dóms Hæstréttar Íslands, enda hafi stefnandi þá fyrst eignast rétt til greiðslu úr ríkissjóði, sbr. 11. gr. laga nr. 69/1995. Verði ekki á það fallist, telur stefnandi að miða eigi við það tímamark þegar málið var kært til lögreglu, enda sé það skilyrði fyrir rétti til greiðslu úr hendi stefnda samkvæmt 6. gr. laganna.

                Bætur sem greiddar eru eftir lögum nr. 69/1995 eru í meginatriðum ákvarðaðar eftir reglum skaðabótaréttar og því þarf að liggja fyrir skaðabótakrafa sem stofnast hefur með tiltekinni háttsemi. Í lögunum er ekki að finna sérstakar skaðabótareglur, heldur reglur sem mæla fyrir um greiðsluskyldu ríkissjóðs í tilteknum tilvikum á skaðabótum sem ákveðnar hafa verið eftir almennum reglum skaðabótaréttarins. Að þessu virtu verður ekki talið að ákvæði í 6. gr. laga nr. 69/1995, þar sem getið er skilyrða fyrir greiðslu bóta, hafi að geyma afmarkandi fyrirmæli um stofntíma bótakröfunnar. Þá verður 11. gr. laganna heldur ekki talin koma hér að haldi, enda liggur fyrir að ekki þarf ávallt að liggja fyrir dómur svo komið geti til greiðslu bóta úr ríkissjóði samkvæmt lögunum. Er það því mat dómsins að líta verði til almennra reglna skaðabótaréttarins við mat á því hvenær krafa stefnanda stofnaðist og er framangreindum málsástæðum stefnanda því hafnað.

Óumdeilt er að öll brot gagnvart stefnanda, sem mál þetta lýtur að, voru framin á árunum 2008 til 2010 og þá er því ekki sérstaklega mótmælt af hálfu stefnda að afleiðingar þeirra hafi komið fram á löngum tíma, svo sem ráðið verður af framlögðum gögnum málsins. Stefnandi byggir á því að þótt talið verði að réttur stefnanda til greiðslu úr hendi stefnda byggist á reglum skaðabótaréttarins, sé allt að einu rangt að miða við verknaðarstund við mat á því hvenær tjón stefnanda hafi orðið. Stefnandi bendir á að afleiðingar kynferðisbrotanna á stefnanda hafi komið fram á löngum tíma og ekki hafi verið unnt að staðreyna þær strax, auk þess sem framlögð gögn sýni að meðferð stefnanda vegna afleiðinganna hafi ekki verið lokið í janúar 2014, svo sem framlagt vottorð sálfræðings í Barnahúsi sýnir fram á. Stefnandi vísar einkum til þess sem fram kemur í athugasemdum lagafrumvarpsins um 28. gr. laganna þar sem fjallað er um það, hvenær tjón vegna brots teljist hafa orðið þegar skaðlegar afleiðingar koma ekki strax fram en tíma tekur að staðreyna eftirköstin og þau verða ekki ljós fyrr en eftir gildistöku skaðabótalaga.

Í athugasemdunum er þess getið að tjón, sem gerist hægt eða smám saman, verði almennt talið hafa orðið þegar skaðlegar afleiðingar verði greinilega sannreyndar. Hins vegar er þar jafnframt tekið fram að í sumum tilvikum verði að telja að tjónþoli hafi orðið fyrir tjóni sínu við ákveðinn skyndilegan atburð þótt skaðlegar afleiðingar hans verði eða komi í ljós að einhverju eða öllu leyti síðar. Um síðarnefnda aðstöðu er tekið sem dæmi þegar aðeins sjáist minni háttar áverkar á farþega strax eftir árekstur bifreiða en síðar komi fram að hann hafi orðið fyrir miklu varanlegu líkamstjóni. Í athugasemdunum er því slegið föstu að í því tilviki teljist tjónið hafa orðið við áreksturinn.

Það er mat dómsins að framangreind umfjöllun í athugasemdum við ákvæði 28. gr. skaðabótalaga renni frekar stoðum undir þá afstöðu stefnda að í tilviki stefnanda beri að líta til meginreglu skaðabótalaga um að miða stofnun bótakröfu við það tímamark þegar tjónsatvik verður. Hér ber að taka mið af því að umrædd tjónsatvik urðu á árunum 2008 til 2010 og eftir meginreglu skaðabótaréttar telst stefnandi þegar á þeim tíma hafa orðið fyrir tjóni vegna þeirra, þótt fyrir liggi að frekari afleiðingar hafi komið fram síðar. Að þessu leyti verður aðstöðu stefnanda frekast líkt við það þegar tjónþoli verður fyrir tjóni sínu við skyndilegan atburð þótt skaðlegar afleiðingar hans komi að einhverju leyti í ljós síðar. Að þessu virtu og þegar litið er til meginreglu íslensks réttar um að lög skuli að jafnaði ekki vera afturvirk og að hvorki réttindi né skyldur verði lagðar á aftur í tímann, þykir engu breyta þótt ekki sé að finna í lögum nr. 54/2012 sérstakar lagaskilareglur. Er þeim sjónarmiðum stefnanda að þessu leyti því hafnað. Samkvæmt framangreindu telst bótakrafa stefnanda því hafa stofnast þegar umrædd brot gagnvart henni voru framin og að því hafi hún þá eignast rétt á greiðslu bóta, hvort heldur sem er úr hendi tjónvalds eða stefnda að uppfylltum skilyrðum 6. gr. laga nr. 69/1995. Með sömu rökum og rakin hafa verið hér að framan þykir engu breyta um niðurstöðu málsins að þessu leyti þótt stöðugleikapunkti hafi enn ekki verið náð á árinu 2014. Þá þykja sjónarmið stefnanda um löggjafarviljann og sanngirni ekki fá breytt framangreindri niðurstöðu. Hin bætta staða tjónþola, sem lagabreytingarnar stefndu að, felst m.a. í hækkun á hámarki greiðslna ríkissjóðs til brotaþola og því markmiði verður náð, þótt gildistaka þeirra ákvæða fylgi almennum lagaskilareglum.

Að öllu framangreindu virtu þykir verða að taka mið af hinum almennu lagaskilareglum við úrlausn máls þessa. Því verður ekki fallist á það með stefnanda að um fjárhæð bótakrafna stefnanda fari samkvæmt ákvæðum laga nr. 69/1995, eins og þeim var breytt með lögum nr. 54/2012, heldur verður að miða við þá hámarksfjárhæð sem gilti í lögum nr. 69/1995 fyrir gildistöku laga nr. 54/2012. Svo sem getið er í stefnu greiddi ríkissjóður ekki hærri fjárhæð af dæmdum eða ákvörðuðum bótum, að vöxtum meðtöldum, fyrir gildistöku síðarnefndra laga en sem nemur 600.000 krónum vegna miska samkvæmt c-lið 2. mgr. 7. gr. laga nr. 69/1995 og 2.500.000 krónum vegna varanlegrar örorku og varanlegs miska samkvæmt b-lið 2. mgr. 7. gr. sömu laga. Óumdeilt er að stefndi greiddi stefnanda 600.000 krónur 6. janúar 2015 vegna miskatjóns stefnanda í samræmi við ákvörðun bótanefndar frá 17. desember 2014 og þá greiddi stefndi stefnanda 2.500.000 krónur 19. ágúst 2015 vegna varanlegs miska og varanlegrar örorku í samræmi við ákvörðun bótanefndar frá 14. ágúst 2015. Með vísan til alls framangreinds verður því, þegar af þessum sökum, að fallast á það með stefnda að hann hafi nú þegar greitt stefnanda þær bætur sem honum hafi borið að greiða stefnanda samkvæmt framangreindum ákvæðum laga nr. 69/1995, um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota. Bæði aðal- og varakrafa stefnanda eru byggða á þeim málsástæðum, sem dómurinn hefur hér að framan hafnað, og verður stefndi því sýknaður af öllum kröfum stefnanda í máli þessu.

Af hálfu stefnda er ekki gerð krafa um málskostnað úr hendi stefnanda, heldur krefst stefndi þess að málskostnaður verði látinn falla niður. Að því gættu og eftir atvikum öllum þykir rétt að málskostnaður milli aðila falli niður.

Svo sem áður er getið nýtur stefnandi gjafsóknar í málinu. Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. málflutningsþóknun lögmanns hennar, Arnbjargar Sigurðardóttur hrl., sem telst hæfilega ákveðin 950.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

Arnfríður Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

Uppkvaðning dómsins hefur dregist vegna embættisanna dómarans.

D ó m s o r ð:

Stefndi, íslenska ríkið, er sýkn af öllum kröfum stefnanda, A, í máli þessu.

Málskostnaður fellur niður.

Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. málflutningsþóknun lögmanns stefnanda, Arnbjargar Sigurðardóttur hrl., 950.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.