Hæstiréttur íslands

Mál nr. 181/2002


Lykilorð

  • Málamyndagerningur


Dómsatkvæði

 

Fimmtudaginn 17. október 2002.

Nr. 181/2002.

Aðalsteinn Aðalsteinsson

(Magnús Guðlaugsson hrl.)

gegn

Sólrúnu Þórunni Bjarnadóttur

(Grétar Haraldsson hrl.)

 

Málamyndagerningur.

S eignaðist íbúð á árinu 1996 við Austurbrún í Reykjavík. Bjó hún á þeim tíma í íbúðinni ásamt sambúðarmanni sínum, E, syni A. Í febrúar 1997 heimilaði S að íbúðin yrði sett að veði til tryggingar tveimur skuldabréfum, sem voru gefin út af fyrirtækinu G. Varð ekki ráðið af málatilbúnaði A að dregið væri í efa að S hafi gert þetta að beiðni E, svo og að hann hafi verið þátttakandi í rekstri umrædds félags. Þá hafði S einnig gengist í sjálfskuldarábyrgð með E fyrir skuld forsvarsmanns G. Vegna vanskila á greiðslu umræddra skulda var íbúð S seld nauðungarsölu í september 1999 og fékk A boð kaupanda íbúðarinnar framselt sér. Í mars 2000 rituðu A og S undir skjal þar sem A afsalaði íbúðinni til S. Bar A því við í málinu að þessi ráðstöfun hafi verið gerð til málamynda enda hafi hann eftir sem áður í raun verið eigandi íbúðarinnar. A og E slitu sambúð í september 2000 og í október sama árs gaf S út afsal til móður sinnar fyrir íbúðinni. Ekki var talið að A hafi sýnt fram á að afsalið til S fyrir íbúðinni hafi verið gert til málamynda. Með því að málatilbúnaður A var að öllu leyti reistur á því að þessi eignarheimild S að íbúðinni hafi verið gerð til málamynda og S því verið óheimilt gagnvart honum að ráðstafa síðar íbúðinni á þann hátt sem hún gerði, gat engu breytt um niðurstöðu málsins hvort S hafi átt frekari hagsmuna að gæta af rekstri fyrirtækisins G en upplýst var um fyrir héraðsdómi, svo sem A hafði leitast við að sýna fram á fyrir Hæstarétti. Var S því sýknuð af kröfum A í málinu.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 17. apríl 2002. Hann krefst þess að stefnda verði dæmd til að greiða sér 5.515.791 krónu með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 15. mars 2000 til þess dags, sem dómur er kveðinn upp í málinu, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefnda krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Eins og nánar greinir í hinum áfrýjaða dómi eignaðist stefnda á árinu 1996 íbúð að Austurbrún 2 í Reykjavík. Bjó hún á þeim tíma í íbúðinni ásamt sambúðarmanni sínum, Eiríki Jóhanni Aðalsteinssyni, syni áfrýjanda. Í febrúar 1997 heimilaði stefnda að íbúðin yrði sett að veði til tryggingar tveimur skuldabréfum, sem voru gefin út af Gæludýrahúsinu ehf. 4. og 11. þess mánaðar og samtals að fjárhæð 3.050.000 krónur. Í héraðsdómi segir að ágreiningslaust hafi verið í málinu að stefnda hafi gert þetta að beiðni Eiríks Jóhanns, svo og að hann hafi verið þátttakandi í rekstri umrædds félags. Verður ekki ráðið af málatilbúnaði áfrýjanda fyrir Hæstarétti að þetta sé dregið í efa, en hann hefur nú á hinn bóginn lagt fram samkomulag frá 6. febrúar 1997 milli stefndu og Eiríks Jóhanns annars vegar og tveggja nafngreindra manna hins vegar, sem þá munu hafa verið forsvarsmenn Gæludýrahússins ehf. Samkvæmt þessu samkomulagi áttu stefnda og Eiríkur Jóhann að verða með ýmsum nánar tilgreindum skilyrðum eigendur að 20% hlut í félaginu til endurgjalds fyrir að veita því heimild til að veðsetja íbúðina að Austurbrún 2 á framangreindan hátt, en ekkert liggur fyrir í málinu um hvort þessi skilyrði hafi síðar verið uppfyllt. Af gögnum málsins verður ráðið að stefnda hafi þessu til viðbótar gengist í maí 1997 með Eiríki Jóhanni í sjálfskuldarábyrgð fyrir skuld annars þessara forsvarsmanna Gæludýrahússins ehf. við Íslandsbanka hf. samkvæmt skuldabréfi að fjárhæð 500.000 krónur.

Í málatilbúnaði stefndu er staðhæft að hún hafi haldið utan til náms haustið 1997, þar sem hún hafi meira eða minna dvalið næstu árin, en Eiríkur Jóhann búið áfram í áðurnefndri íbúð. Vanskil urðu á greiðslum af fyrrgreindum skuldabréfum, sem stefnda hafði heimilað Gæludýrahúsinu ehf. að veðsetja íbúð hennar fyrir, í öðru tilvikinu frá miðju ári 1997 en í hinu frá því í nóvember 1998. Þá urðu vanskil frá mars 1998 á greiðslum af skuldabréfinu, sem stefnda hafði gengist í sjálfskuldarábyrgð fyrir, og fékk Íslandsbanki hf. gert fjárnám fyrir skuldinni 6. nóvember sama árs í íbúð stefndu. Vegna þessara vanskila var íbúðin seld nauðungarsölu á uppboði 22. september 1999 fyrir 4.200.000 krónur. Óumdeilt er að áfrýjandi fékk boð kaupanda íbúðarinnar framselt sér með því að greiða kaupandanum 1.000.000 krónur til viðbótar fjárhæð boðsins, auk þess sem áfrýjandi greiddi Íslandsbanka hf. 298.771 krónu til að ljúka fyrrnefndri skuld, sem stefnda var í sjálfskuldarábyrgð fyrir með Eiríki Jóhanni.

Hinn 31. mars 2000 rituðu áfrýjandi og stefnda undir skjal með fyrirsögninni „Kaupsamningur og afsal“, þar sem áfrýjandi afsalaði til stefndu íbúðinni að Austurbrún 2. Sagði þar meðal annars að umsamið kaupverð væri að fullu greitt við útgáfu afsalsins. Í málinu ber áfrýjandi því við, svo sem nánar greinir í héraðsdómi, að þessi ráðstöfun hafi verið gerð til málamynda, enda hafi hann eftir sem áður í raun verið eigandi íbúðarinnar. Stefnda ber á hinn bóginn fyrir sig að þetta afsal hafi verið gert að frumkvæði áfrýjanda, sem hafi aldrei rætt við hana um framangreindar ráðstafanir hans. Hafi hún litið svo á að með þessu hafi áfrýjandi verið að koma í veg fyrir tjón, sem hún hefði að öðrum kosti orðið fyrir vegna ábyrgða, sem hún hafi gengist undir að beiðni Eiríks Jóhanns.

Samkvæmt gögnum málsins slitu stefnda og Eiríkur Jóhann sambúð í september 2000. Hinn 20. október sama árs gaf stefnda út afsal til móður sinnar fyrir íbúðinni að Austurbrún 2 án þess að stefnda hafi svo séð verði fengið greiðslu fyrir. Áfrýjandi telur að með þessu hafi stefnda slegið eign sinni á íbúðina, sem hún hafi engan rétt átt til. Í málinu krefur hann stefndu um endurgreiðslu þess, sem hann hafi látið af hendi vegna kaupa á íbúðinni, en þar er um að ræða fyrrgreindar greiðslur að fjárhæð samtals 5.498.771 króna, auk 17.020 króna, sem hann hafi greitt vegna þinglýsingar afsalsins til stefndu.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður fallist á með héraðsdómara að áfrýjandi hafi ekki sýnt fram á að afsalið 31. mars 2000 til stefndu fyrir íbúðinni að Austurbrún 2 hafi verið gert til málamynda. Með því að málatilbúnaður áfrýjanda er að öllu leyti reistur á því að þessi eignarheimild stefndu að íbúðinni hafi verið gerð til málamynda og stefndu því verið óheimilt gagnvart honum að ráðstafa síðar íbúðinni á þann hátt, sem áður greinir, getur engu breytt um niðurstöðu málsins hvort stefnda hafi átt frekari hagsmuna að gæta af rekstri Gæludýrahússins ehf. en upplýst var um fyrir héraðsdómi, svo sem áfrýjandi hefur leitast við að sýna fram á fyrir Hæstarétti með því að leggja fram fyrrgreint samkomulag frá 6. febrúar 1997. Verður niðurstaða héraðsdóms því staðfest.

Rétt er að aðilarnir beri hvort sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 8. mars 2002.

Mál þetta, sem dómtekið var 1. þessa mánaðar, er höfðað 19. maí 2001 af Aðalsteini Aðalsteinssyni, Sunnuflöt 31, Garðabæ, gegn Sólrúnu Þórunni Bjarnadóttur, nú til heimilis að Ásbúð 46, Garðabæ.

Stefnandi krefst þess, að stefndu verði gert að greiða honum 5.515.791 krónu, ásamt vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 15. mars 2000 til dómsuppsögudags, en með dráttarvöxtum frá þeim degi til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar.

Stefnda krefst sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi hans.

I.

Með skiptagerð, dagsettri 16. desember 1996, varð stefnda í máli þessu eigandi íbúðar í fjöleignarhúsinu að Austurbrún 2 hér í borg eftir Þórunni Aðalbjörgu Einarsdóttur, frænku stefndu, samkvæmt gjafaafsali frá 10. júlí 1992, en Þórunn lést 17. desember 1995. Var skiptayfirlýsingu þessa efnis þinglýst í fasteignabók Reykjavíkur 20. desember 1996. Stefnda hafði fengið leyfi fyrrgreindrar frænku sinnar til að fara í íbúðina um haustið 1995 og skömmu síðar flutti þangað Eiríkur Jóhann Aðalsteinsson, sonur stefnanda, en þau munu hafa búið saman í íbúðinni fram á haust 1997, er stefnda hélt utan til náms.

Í ársbyrjun 1996 mun umræddur Eiríkur hafa komið að rekstri Gæludýrahússins ehf. Með veðskuldabréfi 4. febrúar 1997 tókst félagið á hendur lán að fjárhæð 2.350.000 krónur og aftur með veðskuldabréfi frá 11. sama mánaðar, að fjárhæð 700.000 krónur. Veitti stefnda leyfi til veðsetningar umræddrar íbúðar sinnar og var báðum skuldabréfunum þinglýst á eignina. Lánardrottinn samkvæmt bréfunum var Fjármála- og fyrirtækjaþjónustan, er framseldi bréfið, sem var að höfuðstól 2.350.000 krónur, til Lífeyrissjóðs lækna, en hitt bréfið til Samvinnusjóðs Íslands hf.  Greiðslufall varð á afborgunum af bréfunum og þá gerði Íslandsbanki hf. fjárnám í íbúðinni 6. nóvember 1998 samkvæmt skuldabréfi, útgefnu af Guðmundi J. Sigurgeirssyni, sem mun hafa verið eignaraðili að Gæludýrahúsinu ehf., en Eiríkur og stefnda voru sjálfskuldar-ábyrgðarmenn á bréfinu. Nam höfuðstóll fjárnámskröfunnar 393.866 krónum. Fram kemur í málinu, að kröfu vegna þessa skuldabréfs var lýst í þrotabú Eiríks. Fékk hann senda kvittun, dagsetta 15. mars 2000, um fullnaðargreiðslu kröfunnar.

Svo fór að lokum, að krafist var nauðungarsölu á íbúðinni. Samkvæmt frumvarpi að úthlutunargerð, dagsettu 17. nóvember 1999, skiptist söluverð íbúðarinnar þannig, að í hlut ríkissjóðs komu 45.430 krónur, fasteignagjöld námu 56.553 krónum, 4.244 krónur runnu til brunatryggingar, Lífeyrissjóður lækna skyldi fá í sinn hlut 2.927.017 krónur vegna veðbréfs á 1. veðrétti, Samvinnusjóður Íslands 857.085 krónur fyrir veðbréf á 2. veðrétti og Íslandsbanki hf. 309.671 krónu upp í fjárnám á 3. veðrétti. Nam söluverðið því samtals 4.200.000 krónum. Stefnandi gekk inn í nauðungarsöluboð vegna sölu eignarinnar og leysti hana til sín.

Með kaupsamningi og afsali, dagsettu 31. mars 2000, afsalaði stefnandi íbúðinni til stefndu. Segir í þeim löggerningi, að umsamið kaupverð sé að fullu greitt við útgáfu afsalsins og að engar veðskuldir hvíli á eigninni. Þá kemur þar fram, að samhliða þinglýsingu afsalsins muni verða þinglýst kvöð á eignina, þar sem kaupandi skuldbindi sig til að leita eftir skriflegu samþykki seljanda til ,,skuldbindingar veðskulda á fasteignina.” Kvöð þessi, sem undirrituð er af báðum málsaðilum, er dagsett 6. september 2000. Samkvæmt henni skuldbatt stefnda sig til veðsetja ekki eignina, án samþykkis stefnanda. Skyldi stefnandi einn, eða sá sem leiddi rétt sinn frá honum með skriflegu umboði, vera til þess bær að aflétta kvöðinni af fasteigninni.

Þá liggur fyrir í málinu afsal frá 20. október 2000, þar sem stefnda afsalar móður sinni, Þuríði Stefánsdóttur, umræddri íbúð. Kemur þar, að umsamið kaupverð sé að fullu greitt og hvíli engar veðskuldir á eigninni.

Áðurnefndur sonur stefnanda og fyrrum sambýlismaður stefndu mun hafa búið í íbúðinni frá því hann flutti inn í hana um haustið 1995. Fram er komið í málinu, að stefnda hélt utan til náms um haustið 1997 og kom heim síðastliðið haust. Með bréfi fyrrum lögmanns stefndu, dagsettu 20. nóvember 2000, var Eiríki tilkynnt, að stefnda vildi hann á brott úr húsnæðinu eigi síðar en 1. desember sama ár, en þeirri kröfu virðist ekki hafa verið fylgt eftir.

Ítrekaðar sáttatilraunir hafa ekki borið árangur.

Stefnandi byggir málsókn sína á því, að um hafi verið að ræða málamyndagerning, er hann afsalaði íbúðinni að Austurbrún 2 til stefndu og krefur hana um greiðslu uppboðsandvirðis hennar og annarra skulda, sem hann kveðst hafa greitt fyrir hana. Stefnda mótmælir, að um málamyndagerning hafi verið að ræða og hafi stefnandi í raun einungis verið að greiða þær skuldir, sem sonur hans hafði stofnað til vegna rekstrar Gæludýrahússins ehf. og íbúðin hafi verið veðsett fyrir.

II.

Stefnandi byggir á því, að ótvírætt sé, að stefnda hafi með því framferði sínu, að færa fasteignina af sínu nafni yfir á nafn móður sinnar, brotið gegn samkomulagi sínu við stefnanda og að stefnda beri á því greiðsluábyrgð. Um sé að ræða greiðslur, sem stefnandi hafi innt af hendi vegna ábyrgða þeirra, sem stefnda hafi gengist í, bæði veðskuldir, sem stefnda hafi samþykkt sem veðsali á eignina, og sjálfskuldarábyrgðir, er hún hafi gengist í og ekki hafi greiðst að fullu við nauðungarsölu eignarinnar.

Stefndu hafi allan tímann verið ljóst, að sá gerningur, að færa eignina yfir á nafn hennar, hafi verið málamyndagerningur, tilkominn af þeirri ástæðu, að stefnandi treysti sér ekki til þess að greiða þá eignarskatta, sem á hann kynnu að falla vegna fasteignarinnar, svo og vegna þeirrar staðreyndar, að bú sonar hans var undir gjaldþrotaskiptum og stefnanda því ómögulegt að færa eignina yfir á nafn hans. Undirbyggi almenn sanngirnisrök og meginreglur kröfuréttar greiðsluskyldu stefndu gagnvart stefnanda, sem vilji eingöngu vera eins settur í fjárhagslegu tilliti og hann hefði verið, hefði hann ekki greitt upp þær ábyrgðir, sem stefnda hafi gengist í. Hafi tilgangur stefnanda einungis verið sá að hjálpa syni sínum og sambýliskonu hans út úr þeim fjárhagskröggum, sem þau hafi verið búin að koma sér í. Þá sé ótvírætt, að stefnda hafi afsalað íbúðinni til móður sinnar með málamyndagerningi.

Stefnandi sundurliðar kröfu sína sem hér segir:

1. Stefnandi hafi þurft að greiða 4.200.000 krónur, er hann gekk inn í nauðungarsölukauptilboð.

2. Þá hafi stefnandi greitt 1.000.000 krónur þeim manni, sem framseldi honum nauðungarsöluboðið til að öðlast framsalið.

3. Einnig hafi stefnandi greitt 298.771 krónu vegna sjálfskuldarábyrgðar stefndu út af skuld Guðmundar J. Sigurgeirssonar við Íslandsbanka hf.

4. Að lokum hafi stefnandi greitt 17.020 krónur í þinglýsingarkostnað vegna afsalsins til stefndu.

Nemur höfuðstóll stefnukröfu því samtals 5.515.791 krónu.

Um lagarök vísar stefnandi til meginreglu kröfuréttarins um efndir fjárskuldbindinga, en hún fái meðal annars lagastoð í 5., 6. og 28. gr. kaupalaga nr. 39/1922. Um gjalddaga kröfu er einkum vísað til meginreglu 12. gr. sömu laga.

Stefnda reisir sýknukröfu á því, að hún hafi aldrei undirgengist þá skuldbindingu að mega ekki ráðstafa umræddri eign, heldur hafi hún einungis gengist undir þá kvöð að veðsetja hana ekki. Mótmælir hún því, að fyrrgreindur samningur málsaðila hafi verið til málamynda. Ástæða þess, að eignin hafi verið keypt eftir nauðungarsölu hafi verið sú, að stefnanda hafi verið ljóst, að sonur hans hafi komið því til leiðar, að stefnda hafi misst eignina á uppboði. Án þess að hafa rætt þetta við stefnanda telji stefnda, að hinn fyrrnefndi hafi með þessu ætlað að bæta henni þann skaða, sem sonur hans hafi valdið henni, enda stefnanda sem öðrum fullljóst, að hún veitti Eiríki, syni stefnanda, en ekki öðrum, þessi veðleyfi. Hafi stefnda ekki verið með í uppgjörinu og því ekki vitað, hvaðan féð nákvæmlega kom.

Stefnda telur, að hún hafi verið í fullum rétti til að selja móður sinni eignina og í því felist engin skuldbinding af hennar hálfu að greiða stefnanda það, sem hann lagði út vegna kaupanna. Eftir sem áður standi á eigninni kvöð um, að ekki megi veðsetja hana, nema með samþykki stefnanda. Hafi stefnda því á engan hátt farið út fyrir það, sem hún hafi undirgengist, er íbúðinni var afsalað til hennar.

Stefnda vísar til almennra reglna samninga- og kröfuréttar máli sínu til stuðnings.

III.

Stefnandi krefst þess í máli þessu, að stefnda greiði sér 5.515.791 krónu, en ekki er af hans hálfu gerð krafa um breytingu á eignarhaldi íbúðar þeirrar, er hér um ræðir, ógildingu kaupsamnings og afsals stefnanda á íbúðinni til stefndu, sem stefnandi heldur fram, að hafi verið málamyndagerningur, og þá er ekki krafist ógildingar eða niðurfellingar umræddrar kvaðar á henni.

Í skýrslu stefnanda fyrir dómi kom fram, að hann hafi að eigin frumkvæði gengist í að fá framseldan rétt uppboðskaupanda til að kaupa íbúðina að Austurbrún 2 við nauðungarsölu á henni. Hafi hann gert þetta til að ,,bjarga unga fólkinu.” Er fram komið í málinu, að á þeim tíma hafi bú sonar stefnanda, Eiríks Jóhanns, verið til gjaldþrotameðferðar. Þá er óumdeilt, að eignin var veðbandslaus, er stefnda og Eiríkur hófu sambúð árið 1995, og að þær veðskuldir, sem stofnað var til og þinglýst á eignina, áttu allar rót að rekja til rekstrar Gæludýrahússins ehf. Er ómótmælt af hálfu stefnanda, að sonur hans verið þátttakandi í rekstri félagsins. Kom fram í skýrslu stefndu fyrir dómi, að hún hafi gefið leyfi sitt til veðsetninganna að beiðni Eiríks. Er á því byggt af hennar hálfu, að með afsali stefnanda á íbúðinni til hennar eftir uppboðskaupin hafi átt að bæta henni það tjón, sem hún hafði orðið fyrir vegna veðleyfa þeirra, sem hún hafði gefið í eigninni og sjálfskuldarábyrgðar hennar í þágu áðurnefnds einkahlutafélags.

Málamyndagerningur í lögfræðilegri merkingu er löggerningur, sem ekki er ætlað að hafa réttaráhrif samkvæmt efni sínu að skilningi beggja aðila. Byggir stefnandi samkvæmt framansögðu á því, að afsal hans á umræddri íbúð til stefndu hafi átt að hafa önnur réttaráhrif en þau, sem löggerningurinn mælir beinlínis fyrir um og ætla má að fylgja ættu honum samkvæmt almennum túlkunarreglum. Hefur stefnandi sönnunarbyrði fyrir þeirri staðhæfingu sinni, að um málamyndagerning hafi verið að ræða greint sinn.

Af skýrslum stefnanda og Lúðvíks Arnar Steinarssonar héraðsdómslögmanns, sem annaðist gerð umrædds kaupsamnings og afsals stefnanda til stefndu og kvaðar þeirrar, sem fyrr er getið, verður ekki ráðið, að stefnda hafi átt neinn hlut að tilurð þeirra. Er því ekki við annað að miða við úrlausn málsins en að um einhliða ráðstöfun stefnanda hafi verið að ræða, sem stefnandi naut að auki lögmannsaðstoðar við að útfæra. Þá verður ekki séð, að neinar ráðstafanir hafi verið gerðar af hálfu stefnanda til að baktryggja, að um málamyndagerning hafi verið að ræða. Veitir orðalag áðurnefndrar kvaðar heldur enga vísbendingu í þá átt .

Við mat á huglægri afstöðu stefndu þykir verða að líta til þess, að hún átti umrædda íbúð skuldlausa, er kom til þeirra veðskuldbindinga, sem urðu til þess, að eignin var seld nauðungarsölu. Er og ágreiningslaust í málinu, að það hafi verið fyrir beiðni  fyrirgreinds sonar stefnanda, að til þeirra var stofnað í þágu Gæludýrahússins ehf., enda er ekkert fram komið í málinu um, að stefnda hafi átt þar hagsmuna að gæta.

Stefnandi hefur meðal annars gefið þá skýringu á ofangreindri ráðstöfun, að hann hafi ekki viljað láta færa íbúðina á sitt nafn, þar eð hann hafi ekki treyst sér til að greiða þá eignarskatta, sem á hann kynnu að falla vegna eignarinnar. Að mati dómsins er hér ekki um haldbær rök að ræða, þar sem ekkert er fram komið í málinu, sem bendir til þess, að umrædd skattgreiðsla hefði verið stefnanda fjárhagslega ofviða. Þá átti stefnandi þess meðal annars kost að selja íbúðina og losna þannig við eignarskatts-greiðslu.

Þegar allt framangreint er virt er það niðurstaða dómsins, að gegn andmælum stefndu sé ósannað af hálfu stefnanda, að um málamyndagerning hafi verið að ræða greint sinn. Verður því að leggja til grundvallar, að umræddur kaupsamningur og afsal hafi þá merkingu, er orðalag hans segir til um. Leiðir það til þess, að sýkna ber stefndu af kröfum stefnanda í máli þessu.

Eftir atvikum þykir rétt, að hvor aðili beri sinn kostnað vegna málsins.

Dóminn kvað upp Helgi I. Jónsson héraðsdómari.

Dómsorð:

Stefnda, Sólrún Þórunn Bjarnadóttir, er sýkn af kröfum stefnanda, Aðalsteins Aðalsteinssonar, í máli þessu.

Málskostnaður fellur niður.