Hæstiréttur íslands

Mál nr. 230/1999


Lykilorð

  • Skaðabætur
  • Nauðungarsala
  • Fjallskil


                                                                                                                 

Fimmtudaginn 28. október 1999.

Nr. 230/1999.

Auðbjörn Flosi Kristinsson

(Hreinn Pálsson hrl.)

gegn

íslenska ríkinu

(Sigrún Guðmundsdóttir hrl.)

Skaðabætur. Nauðungarsala. Fjallskil.

A stefndi ríkissjóði til greiðslu bóta fyrir tjón, sem hann taldi sig hafa orðið fyrir við uppboð óskilahrossa. Þar sem A tókst ekki að sanna þá fullyrðingu sína, að hann hefði verið réttur eigandi þeirra hrossa, sem seld voru á umræddu uppboði, var ríkissjóður sýknaður af kröfum hans.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Arnljótur Björnsson og Markús Sigurbjörnsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 10. júní 1999 og krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér aðallega 500.000 krónur en til vara 250.000 krónur með 0,5% ársvöxtum frá 19. nóvember 1994 til 1. mars 1995, en dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara að kröfur áfrýjanda verði lækkaðar og málskostnaður felldur niður.

Fyrir Hæstarétt hefur áfrýjandi lagt yfirlýsingu Runólfs Jónssonar 31. mars 1999, þess efnis að hann hafi í október 1992 selt áfrýjanda fjögur folöld og hafi tvær hryssur úr þessum hóp verið boðnar upp sem óskilahross 19. nóvember 1994. Þá hefur áfrýjandi einnig lagt fram yfirlýsingu Ragnars Elíssonar 15. júní 1999, þar sem fram kemur að hann hafi í júní 1993 selt áfrýjanda þriggja vetra fola, brúnhöttóttan skottóttan. Er í yfirlýsingum þessum greint frá mörkum umræddra hrossa, eins og þau voru þegar áfrýjandi fékk þau.

Eins og fram kemur í hinum áfrýjaða dómi lagði áfrýjandi engin gögn fyrir héraðsdóm um eignarrétt sinn að þeim hrossum, sem seld voru á uppboði sýslumannsins á Akureyri 19. nóvember 1994 og málið varðar, en af hálfu stefnda hefur verið mótmælt sem ósönnuðu að áfrýjandi hafi verið eigandi þeirra. Varðandi vottorðin, sem áfrýjandi hefur lagt fyrir Hæstarétt og fyrr er getið, er til þess að líta að þau hafa ekki verið staðfest fyrir dómi. Af öðru þeirra verður ekki ráðið hvort sá hestur, sem þar er fjallað um, sé sá sami og seldur var á uppboði umrætt sinn. Í hinu vottorðinu er að vísu fullyrt að áfrýjanda hafi verið seldar tvær hryssur, sem síðar hafi verið boðnar upp sem óskilahross, en ekkert kemur fram um hvort útgefandi þess hafi í raun séð hrossin, sem boðin voru upp af sýslumanninum á Akureyri 19. nóvember 1994. Hafa heldur engin gögn verið lögð fram um eignarrétt þeirra, sem þessar yfirlýsingar gefa, að umræddum hrossum. Að þessu gættu geta vottorðin ekki gegn andmælum stefnda talist sönnun fyrir eignarrétti áfrýjanda að hinum umdeildu hrossum.

Samkvæmt framangreindu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti, eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Auðbjörn Flosi Kristinsson, greiði stefnda, íslenska ríkinu, 150.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 12. mars 1999.

Mál þetta, sem dómtekið var 19. febrúar síðastliðinn að loknum munnlegum málflutningi, er höfðað með stefnu, þingfestri 30. júní 1998.

Stefnandi er Auðbjörn Flosi Kristinsson, kt. 211159-2789, Melasíðu 8b, Akureyri.

Stefndi er íslenska ríkið, kt. 540269-6459, Reykjavík.

Stefnandi krefst þess aðallega, að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda skaðabætur, að fjárhæð 500.000 krónur, auk 0,50% ársvaxta frá 19. nóvember 1994 til 1. mars 1995, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til greiðsludags. Þess er krafist, að dráttarvextir verði lagðir við höfuðstól kröfunnar á 12 mánaða fresti, í fyrsta sinn 1. mars 1996. Að lokum er krafist málskostnaðar, þ.m.t. matskostnaðar, úr hendi stefnda, auk 24.5% virðisaukaskatts á málflutningsþóknun, þar sem stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur.

Stefndi krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda og að stefnda verði tildæmdur málskostnaður að mati dómsins. Til vara er gerð krafa um lækkun á stefnukröfum málsins og í því tilviki verði málskostnaður látinn niður falla.

Málinu var vísað frá dómi með úrskurði 18. desember 1998 á þeim grundvelli, að hinn þriggja mánaða málshöfðunarfrestur samkvæmt 88. gr. laga nr. 90/1991 hafi verið liðinn, er stefnandi höfðaði mál þetta. Úrskurðurinn var felldur úr gildi með dómi Hæstaréttar 13. janúar síðastliðinn og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.

I.

Málavextir

Í október 1994 kveðst stefnandi hafa saknað þriggja hrossa sinna. Hafi þau verið á beit á afrétti í Glæsibæjarhreppi, skammt frá Hraukbæ, en þar hafi stefnandi haft aðstöðu fyrir þau. Kveðst stefnandi hafa farið að grennslast eftir þeim, en án árangurs. Dagana 12. og 14. október sama ár voru fimm hross auglýst í óskilum í Hrafnagilsdeild Fjallskiladeildar Eyjafjarðarsveitar í dagblaðinu Degi af hálfu fjallskilastjóra. Lýsing þeirra var svohljóðandi:

„Jarpur hestur ómarkaður ca. 2-3 vetra. Brúnn hestur, ómarkaður, veturgamall. Brúnskjóttur hestur, ómarkaður, ca. 3 vetra. Jörp hryssa og mósótt hryssa, báðar með markinu lögg aftan vinstra og lögg aftan hægra, 2-5 vetra.“

Þann 12. nóvember 1994 auglýsti sýslumaðurinn í Eyjafjarðarsýslu nauðungarsölu fjögurra óskilahrossa, og var lýsing þeirra hin sama og áður greinir, að því undanskildu, að fyrstnefndi hesturinn hafði verið felldur út úr henni. Var nauðungarsalan, sem fram fór að beiðni hreppstjóra Eyjafjarðarsveitar, auglýst í Hraungerðisrétt, Eyjafjarðarsveit, og skyldi fram fara 19. nóvember 1994 kl. 11.00.

Nokkru eftir nauðungarsöluna kveðst stefnandi hafa þekkt aðra hryssuna sem sína í hesthúsi. Að sögn stefnanda kvaðst eigandinn hafa keypt hryssuna af manni þeim, sem hafði verið slegin hún á nauðungarsölunni 19. nóvember 1994. Kveður stefnandi, að þá hafi sér orðið ljóst, að þau þrjú hross, sem hann hafði saknað, hefðu verið seld á umræddu uppboði. Fram er komið í málinu, að öll hrossin voru seld á samtals 92.000 krónur. Af þeirri fjárhæð var greiddur ýmis áfallinn kostnaður, en eftirstöðvarnar, 16.421 króna, voru lagðar inn á bankareikning.

Stefnandi reyndi árangurslaust að fá hrossin í sínar hendur með því að tala við starfsmenn sýslumannsembættisins, þáverandi hreppstjóra Eyjafjarðarsveitar og kaupanda hrossanna, en þær tilraunir báru ekki árangur. Er það var fullreynt, leitaði stefnandi til lögmanns, er ritaði sýslumanni bréf 1. febrúar 1995 og krafðist þess, að tólf vikna innlausnarfrestur samkvæmt 4. mgr. 59. gr. laga nr. 6/1986 um afréttarmálefni, fjallskil o. fl. yrði virtur og stefnanda skilað hrossunum. Það erindi var ítrekað með bréfi 7. mars sama ár. Svarbréf sýslumanns er dagsett sama dag og var kröfunni hafnað með vísan til þess, að umræddur innlausnarfrestur ætti við um þá peninga, sem fengist hefðu fyrir hrossin á uppboðinu. Þeir peningar, að frádregnum kostnaði, væru til reiðu þeim, er gæti sannað eignarrétt sinn á hrossunum.

Stefnandi lagði fram matsbeiðni í Héraðsdómi Norðurlands eystra 6. apríl sama ár, þar sem þess var farið á leit, að dómkvaddir yrðu tveir hæfir og óvilhallir menn til að meta hrossin þrjú. Farið var fram á, að matsmenn létu uppi rökstutt og skriflegt álit um a) hvort lýsing hrossanna í umræddri auglýsingu gæti átt við, hvað varðar lit, aldur og mark, en hið síðastnefnda ætti við um hryssurnar tvær. Sérstaklega skyldi látið uppi, hvort stefnandi, sem eigandi, hefði mátt ráða af þessari lýsingu, að um hross í hans eigu væri að ræða, og b) að mat yrði lagt á verðgildi hrossanna út frá útliti, kostum og ætterni.

Matsmennirnir, Benedikt Ólafsson hdl. og Ármann Gunnarsson dýralæknir, skiluðu matsgerð í júlí. Um fyrri matslið segir svo:

1. Brúnhöttóttur hestur, skottóttur og nösóttur, móhringeygður á báðum augum. Aldur: 5 vetra. Mark: Biti aftan hægra, stig aftan vinstra (óglöggt mark á vinstra eyra).

2. Mósótt/móálótt hryssa, verður grá. Aldur: 3ja vetra. Mark: Geirskorið aftan á báðum eyrum.

3. Jörp hryssa, rauðjörp nú en gæti hafa verið dekkri síðastliðið haust. Aldur: 3ja vetra. Mark: Glögglega geirskorið á hægra eyra en óglöggt mark á vinstra eyra.

Var það álit matsmanna, að matsbeiðandi, sem eigandi greindra hrossa, hefði ekki mátt ráða af ofangreindri lýsingu, að um hross væri að ræða í hans eigu.

Verðmæti hrossanna mátu þeir sem hér segir:

1. Brúnhöttótti hesturinn

kr. 100.000

2. Móálótta hryssan

kr.  60.000

3. Jarpa hryssan

kr.  90.000

Samtals

kr. 250.000

Stefnandi höfðaði mál á hendur sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar með stefnu, þingfestri 2. maí 1996, aðallega til afhendingar hrossanna, en til vara til greiðslu skaðabóta. Dómur féll í málinu 29. október sama ár og var stefndi sýknaður vegna aðildarskorts, en málskostnaður felldur niður.

Stefnandi krafði stefnda um bætur með bréfi 26. maí 1998, en þeirri kröfu var hafnað með bréfi ríkislögmanns 3. næsta mánaðar.

II.

Málsástæður og lagarök stefnanda

Af hálfu stefnanda er á því byggt, að með því að sinna ekki beiðnum hans og hafna að hann næði lögvörðum rétti sínum og heimti á ný þau þrjú hross, sem seld höfðu verið á uppboði, hafi honum verið valdið tjóni, sem stefnda beri að bæta. Þegar metið sé, hvort stefndi hafi með einhverju móti átt að gera sér grein fyrir, að meðal hrossa þeirra, sem auglýst voru í óskilum af hálfu fjallskilastjóra og síðar þeirra þriggja hrossa, sem sýslumaður auglýsti nauðungarsölu á, væru hans hross, sé nærtækast að vitna til niðurstöðu matsmanna, en hún sé sú, að stefnandi hafi ekki mátt ráða af lýsingunni, að um hross væri að ræða í hans eigu.

Af samanburði á lýsingu í auglýsingu og niðurstöðu matsmanna þar um megi sjá, að lýsingin í auglýsingunni hafi verið mjög villandi og ekki unnt að lá stefnanda, að hann teldi sér hross þessi óviðkomandi. Fyrir dómi hafi matsmenn sagt, að torvelt hefði verið fyrir stefnanda að átta sig á, að um hross í hans eigu væri að ræða samkvæmt lýsingu í auglýsingunni. Komi fram í skýrslu Ármanns Gunnarssonar matsmanns, að lýsingin hafi ekki verið nákvæm og sérstaklega telji hann misbrest varðandi lýsingu á mörkum. Matsmaðurinn Benedikt Ólafsson segi, að eigandi hrossanna hafi ekki getað áttað sig á þeim sem sínum samkvæmt lýsingunni.

Stefnandi hafi byggt rétt sinn á að fá hrossin afhent á 4. mgr. 59. gr. laga nr. 6/1986 um afréttarmálefni, fjallskil o. fl., sbr. lög nr. 90/1991, en þar sé kveðið á um tólf vikna innlausnarrétt. Þeirri kröfu hafi verið komið á framfæri innan frestsins, er stefnandi hafði komist að raun um afdrif hrossanna. Sé afstaða sýslumanns byggð á stórfelldum misskilningi, sem sé í fullkominni andstöðu við almennan skilning á hugtakinu, sem sé fornt og hafi verið túlkað þannig, að uppboðskaupandi þurfi að vera við því búinn að skila viðkomandi grip til rétts eiganda, gefi hann sig fram innan tólf vikna frá uppboðsdegi.

Stefnandi gerir þá aðalkröfu, að honum verði bætt tjón sitt með 500.000 krónum. Beri sýslumaður og hreppstjóri, „sem um málið véluðu á sínum tíma“, ábyrgð á því sem starfsmenn stefnda, að stefnandi hafi ekki fengið neytt lögmælts innlausnarréttar. Telji stefnandi, að verðmæti hrossanna hafi verið a.m.k. 350.000 krónur á þeim tíma, sem nauðungarsala fór fram. Telji hann reyndar, að brúnhöttótti hesturinn sé einn og sér 150 - 200.000 króna virði. Þá hafi stefnandi haft margháttaða fyrirhöfn og orðið fyrir vinnumissi við að leita réttar síns með ótal ferðum til sýslumanns, hreppstjóra og annarra, sem að málinu komu.

Varakröfu sína byggir stefnandi á mati hinna dómkvöddu matsmanna, en það miðist við verðgildi hrossanna á uppboðsdegi.

Aðal- og varakrafa byggist á því, að allur aðdragandi og undirbúningur nauðungar­­sölunnar hafi verið hrapalegur, lýsing ónákvæm svo verulegu skakkaði og stefnanda ekki láandi, að hann þekkti ekki hrossin sem sín og loks hafi lögmæltum innlausnarrétti hans ekki verið sinnt af réttu yfirvaldi. Allt hafi þetta haft þær afleiðingar, að stefnandi hafi misst eignir sínar, hrossin, og eigi því rétt á að fá þau bætt vegna aðgerða eða aðgerðarleysis starfsmanna stefnda, sem beri ábyrgð sem vinnu­veitandi eða húsbóndi sýslumanns og hreppstjóra.

Um lagarök vísar stefnandi sérstaklega til 4. mgr. 59. gr. laga nr. 6/1986 og 3. mgr. 80. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu, hvað varðar gerð bótakröfu og einnig til ólögfestrar reglu skaðabótaréttarins um ábyrgð vinnuveitanda á skaðaverkum starfsmanna.

III.

Málsástæður og lagarök stefnda

Af hálfu stefnda er byggt á því, að eftir að hrossin komu fram í hrossasmölun seinni partinn í september 1994, hafi verið hafin víðtæk leit að eigendum þeirra. Hafi hrossin meðal annars verið send í aðalhrossaskilarétt Eyjafjarðarsveitar, Borgarrétt fremri, en þangað hafi komið fjöldi hestamanna. Þá hafi þau verið send suður á Ystu-Gerðisrétt. Jafnframt hafi verið haldið uppi víðtækum fyrirspurnum, bæði gegnum síma og með samtölum við einstaklinga, meðal annars á Akureyri. Þá hafi landsmarkaskrár verið skoðaðar og haft samband við utanhéraðsmenn. Þannig telji Hjörtur Haraldsson fjallskilastjóri, að gert hafi verið eins og hægt var, til að hafa uppi á eiganda hrossanna. Samkvæmt aðilaskýrslu telji stefnandi, að hann hafi á sínum snærum um 100 hross. Megi telja með ólíkindum, að hann hafi ekki á tímabilinu frá september 1994 til 19. nóvember sama ár fengið upplýsingar um óskilahross, en stefnandi hafi þó farið að sakna hrossa sinna í október 1994. Upplýsi stefnandi í skýrslu sinni, að hann hafi ekki átt mark sjálfur, þó að hann hafi verið með um 100 hross. Samkvæmt 63. gr. laga nr. 6/1986 sé hverjum búfjáreiganda skylt að hafa á búfé sínu glöggt mark, sbr. og fjallskilasamþykkt fyrir Eyjafjarðarsýslu, Akureyri, Dalvík, Ólafsfjörð og Siglufjörð nr. 402/1998, sbr. einnig reglugerð nr. 224/1987 um mörk, markaskrár og takmörkun á sammerkingum búfjár.

Svo sem fram komi í bréfi sýslumanns frá 7. mars 1995 hafi stefnandi getað fengið uppboðsandvirði hrossanna greitt með því að færa sönnur á eignarrétt sinn að þeim. Verði því ekki séð, að stefnandi eigi réttmæta kröfu í máli þessu. Beri því að sýkna stefnda af kröfum stefnanda á grundvelli aðildarskorts, sbr. 16. gr. laga nr. 91/1991.

Stefnandi byggi á því, að allur aðdragandi og undirbúningur uppboðssölunnar hafi verið hrapalegur og nefni, að lýsing hrossanna hafi verið ónákvæm, þannig að hann hafi ekki þekkt hross sín. Sé því einungis byggt á ónákvæmri auglýsingu hrossanna, en önnur atriði varðandi ætlaðan galla á aðdraganda og undirbúningi uppboðssölunnar því vanreifuð. Sé því haldið fram, að mikil vinna hafi verið lögð í að finna eiganda hrossanna. Hafi fjallskilastjóri fengið til liðs við sig fjóra menn til að skoða hrossin og lýsing hrossanna verið byggð á álitum þeirra, sem hafi verið einróma. Hafi öll vinnubrögð verið eins vönduð og mögulegt var og ekki hafi verið um neina saknæma hegðun að ræða. Hafi sýslumaður tekið í sína auglýsingu, svo sem eðlilegt hafi verið, lýsingu fjallskilastjóra á hestunum. Sé á það bent, að fjallskilastjóri starfi ekki á vegum stefnda. Verði fallist á þá málsástæðu stefnanda, að auglýsing og tilgreining hestanna hafi verið þannig, að ekki hafi verið unnt að þekkja hrossin af henni, þá sé því haldið fram, að uppboðið hefði getað sætt ógildingu í ljósi rangrar tilgreiningar á uppboðsandvirði. Því sé málshöfðunarfrestur löngu liðinn, sbr. 88. gr. nauðungarsölulaga. Verði ekki fallist á þessa málsástæðu stefnda, sé ljóst, að auglýsingin hafi tilgreint nægilega hross þau, er boðin voru upp. Hafi stefnandi því borið að gæta réttar síns. Það hafi hann ekki gert og við hann einan sakast.

Því sé hafnað af hálfu stefnda, að með innlausnarrétti samkvæmt 59. gr. laga nr. 6/1986 sé átt við rétt til efnda in natura, en ekki peningagreiðslu. Sé þar átt við, að eigandi, sem sannar eignarrétt sinn, eigi aðeins tilkall til að fá andvirði hinna seldu hrossa, en ekki þau sjálf. Því til stuðnings sé bent á 61. gr. sömu laga, þar sem beinlínis sé tekið fram, að andvirði seldra gripa greiðist eiganda, sanni hann eignarrétt sinn innan tiltekins tíma. Þá sé bent á, að fyrir uppboð flytjist eignarrétturinn til uppboðs­kaupanda við hamarshögg og sé hann ekki takmarkaður eða kvaðabundinn í tólf fyrstu vikurnar.

Mótmælt er fjárhæðum aðalkröfu og varakröfu og bent á, að öll hrossin hafi selst á 92.000 krónur. Sé aðalkrafan með öllu órökstudd tölulega og engin gögn færð henni til stuðnings. Ósannað sé um margháttaða „fyrirhöfn og vinnumissi“ stefnanda.

Vegna varakröfu stefnda sé ítrekað, að dómkröfur stefnanda séu órökstuddar. Þá beri einnig að lækka þær verulega vegna eigin sakar stefnanda, sem telja verði verulega í ljósi athafnaleysis hans. Þá er vöxtum og upphafstíma þeirra mótmælt.

IV.

Niðurstaða

Af hálfu stefnda er á því byggt, að stefnandi hafi ekki sýnt fram á eignarrétt sinn að hrossum þeim, er bótakrafa hans tekur til. Kom sú málsástæða stefnda fram þegar í greinargerð, sem lögð var fram í málinu 13. október 1998.

Í skýrslu stefnanda fyrir dómi 15. október 1996, sem aðilar eru sammála um að leggja til grundvallar við úrlausn málsins, kvaðst hann eiga um 100 hross, en þrátt fyrir það eigi hann ekkert mark sjálfur, heldur faðir hans. Kvaðst stefnandi hafa keypt umræddar merar af tengdaföður sínum í Skagafirði og hestinn „sunnan úr Rangárvallasýslu frá Strönd.“ Þess er ekki getið í skýrslunni, hvenær kaupin hafi átt sér stað og heldur ekki hvert kaupverð hrossanna hafi verið. Engin gögn hafa verið lögð fram í málinu af hálfu stefnanda um eignayfirfærslu hrossanna til hans.

Stefnandi hefur sönnunarbyrði fyrir því, að hann sé eigandi umræddra hrossa. Ekki er til að dreifa í máli þessu öðrum sönnunargögnum um eignarrétt stefnanda að hrossunum, en fullyrðingu hans sjálfs. Samkvæmt því verður að telja, að stefnanda hafi ekki, gegn mótmælum stefnda, tekist lögfull sönnun þess, að hann eigi hrossin, en það er skilyrði þess, að hann geti að lögum átt aðild að máli þessu og kröfu á hendur stefnda vegna nauðungarsölu hrossanna. Ber því þegar af þeirri ástæðu að sýkna stefnda á grundvelli aðildarskorts, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991.

Eftir þessum úrslitum verður stefnandi dæmdur til að greiða stefnda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 100.000 krónur.

Dóminn kveður upp Helgi I. Jónsson héraðsdómari.

Dómsorð:

Stefndi, íslenska ríkið, á að vera sýkn af kröfum stefnanda, Auðbjarnar Flosa Kristinssonar, í máli þessu.

Stefnandi greiði stefnda 100.000 krónur í málskostnað.