Hæstiréttur íslands
Mál nr. 438/2017
Lykilorð
- Ábyrgð
- Stjórnarskrá
- Eignarréttur
- Veðskuldabréf
- Ógilding samnings
- Tilkynning
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir og Benedikt Bogason og Skúli Magnússon héraðsdómari.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 6. júlí 2017. Hann krefst viðurkenningar á að veðsetning hans samkvæmt veðskuldabréfi útgefnu af Taniu Írisi Melero 8. apríl 2008, upphaflega tryggðu með 6. veðrétti og uppfærslurétti í eigninni Túnhvammi 11 í Hafnarfirði skuli felld niður og stefnda gert að aflýsa veðskuldabréfinu af eigninni innan 15 daga frá dómsuppsögu að viðlögðum 25.000 króna dagsektum frá þeim tíma þar til aflétting fer fram. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, án tillits til gjafsóknar sem honum hefur verið veitt.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður en um gjafsóknarkostnað áfrýjanda fer svo sem í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda, Ásgeirs Sumarliðasonar, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 1.000.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 19. apríl 2017.
Mál þetta, sem dómtekið var 22. mars 2017, er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjaness með stefnu birtri fyrir stefnda þann 28. júní 2016.
Stefnandi er Ásgeir Sumarliðason, kt. [...], Túnhvammi 11, 220 Hafnarfirði.
Stefndi er Brú Lífeyrissjóður starfsmanna sveitarfélaga, kt. [...], Sigtúni 42, 105 Reykjavík.
Stefnandi gerir þær dómkröfur að viðurkennt verði með dómi að veðsetning stefnanda samkvæmt veðskuldabréfi nr. 102410, skjal nr. X-3153, útgefnu af Taniu Íris Melero, kt. [...], þann 8. apríl 2008, upphaflega tryggt með 6. veðrétti og uppfærslurétti í eigninni Túnhvammi 11, fastanúmer 208-0306, 220 Hafnarfirði, skuli felld niður og stefnda gert að aflýsa veðskuldabréfinu af eigninni innan 15 daga frá dómsuppsögu að viðlögðum 25.000 króna dagsektum frá dómsuppsögu þar til aflétting fer fram.
Stefnanda var veitt gjafsóknarleyfi, dags. 3. október 2016, og gerir stefnandi kröfu um að stefnda verði gert að greiða honum málskostnað að mati dómsins, eins og mál þetta væri eigi gjafsóknarmál, samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.
Stefndi gerir þær dómkröfur að verða sýknaður af öllum kröfum stefnanda. Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefnanda að mati dómsins.
I
Málsatvik
Upphaf málsins er að Tania Íris Melero, þáverandi tengdadóttir stefnanda, sótti um lánveitingu hjá stefnda. Þar sem lántakandi átti sjálf ekki fullnægjandi veð, leitaði hún eftir því við stefnanda að hann myndi veita henni veðheimild í fasteign hans að Túnhvammi 11 í Hafnarfirði, fyrir veðskuldabréfi að höfuðstól 5.000.000 króna. Stefnandi skrifaði undir veðskuldabréfið sem útgefið var 8. apríl 2008, sem þinglýstur eigandi. Undir bréfið rituðu einnig Valgerður Guðmundsdóttir, maki stefnanda og Valur Ásgeirsson, sonur stefnanda og maki lántaka. Mun Valur hafa annast að fá framangreindar undirritanir undir bréfið og undirritanir votta.
Veðskuldabréfið er verðtryggt samkvæmt vísitölu neysluverðs með 30 ára lánstíma, upphaflega tryggt með 6. veðrétti og uppfærslurétti í allri fasteign stefnanda. Þann 27. apríl 2009 var gerð breyting á lánsskilmálum lánsins þar sem gjaldföllnum afborgunum svo og vöxtum og kostnaði var bætt við höfuðstól. Enn var gerð skilmálabreyting á lánsskuldbindingunni hinn 14. júní 2010 er greiðslu gjalddaga var frestað frá 1. maí 2010 að telja fram til sama tíma á árinu 2011.
Í lánareglum stefnda segir að lánsupphæð sé að lágmarki 500.000 krónur, en geti verið allt að 5.000.000 króna. Umsækjendur sem þess óski geti þó fengið hærra lán að undangengnu sérstöku greiðslumati.
Áður en lánveitingin var samþykkt var aflað verðmats á fasteign stefnanda, lagt fram veðbókarvottorð og gerður lánshæfisútreikningur um veðandlagið. Þá var lántaki, stefnandi og maki hans, látin undirrita skjal: „Ábending vegna veðleyfis“. Í þeirri ábendingu kom meðal annars fram að sé ekki greitt af láninu verði tilkynningar sendar til lántaka en ekki veðsala, en fari lánið í lögfræðilega innheimtu sé veðsala sent afrit aðvörunar til lántaka. Jafnframt var bent á að veðsalar gætu lent í því að missa eigur sínar á nauðungaruppboði ef vanskil yrðu og að veðsalar ættu ekki að veita veðleyfi nema þeir bæru mikið traust til þess aðila sem lánið tæki.
Þann 23. nóvember 2011 var samþykktur greiðsluaðlögunarsamningur milli lántaka og lánadrottna hennar, þar sem fallist var á eftirgjöf allra samningskrafna hennar, meðal annars á framangreindri skuld hennar við stefnda.
Þann 6. febrúar 2015 fór lögmaður stefnanda þess á leit við stefnda að skuldin yrði einnig felld niður gagnvart stefnanda og að henni yrði aflýst af fasteigninni, þar sem ljóst væri að stefnandi gæti ekki vegna sjúkdóms síns, greitt af þeirri skuld. Skuldin nam, í október 2014, 10.403.063 krónum. Með tölvupósti stefnda til lögmanns stefnanda, dags. 13. febrúar 2015, var þeirri beiðni stefnanda hafnað.
Með greiðsluáskorun, dags. 25. mars 2015, var skorað á stefnanda að greiða skuldina innan 20 daga, en tekið fram að ekki væri krafist dráttarvaxta eða innheimtukostnaðar. Með bréfi lögmanns stefnanda, dags. 15. september 2015, var þess farið á leit við stefnda að hann myndi bíða með aðgerðir vegna nauðungarsölu. Beiðni um nauðungarsölu á fasteigninni var dagsett 30. mars 2016.
Undir rekstri málsins óskaði stefnandi eftir mati á heilsufari stefnanda, og var Torfi Magnússon taugalæknir skipaður af dómara til að framkvæma það mat. Skilaði matsmaður sinni matsgerð, dags. 6. janúar 2017. Í niðurstöðum matsgerðar hans kemur fram að ganga verði út frá því að á fyrri hluta árs 2008, eða þegar stefnandi undirritaði veðskuldabréfið, hafi hann verið fær um að skilja þá gerninga sem hann undirritaði og þær fjárhagslegu ráðstafanir sem í þeim fólust.
Auk framangreindra skjala liggja fyrir í málinu upplýsingar um sjúkdóm þann sem stefnandi er haldinn, afrit skattskýrslna lántaka og sonar stefnanda, yfirlit yfir greiðslur frá lífeyristryggingum til stefnanda, læknisvottorð Grétars Guðmundssonar læknis, dags. 12. nóvember 2016, yfirlýsingar um heilsufar stefnanda frá Sigríði Guðbrandsdóttur, dags. 22. nóvember 2016, Báru Magnúsdóttur, dags. 22. nóvember 2016 og Brynjars Bergmann Péturssonar, dags. 2. desember 2016, auk afrita af tilkynningum stefnda til stefnanda.
Fyrir dóminn komu og gáfu skýrslu, Valgerður Guðmundsdóttir, maki stefnanda, Valur Ásgeirsson, sonur stefnanda, Hildur Dögg Ásgeirsdóttir, dóttir stefnanda, Sigríður Guðmundsdóttir, Brynjar Bergmann Pétursson og Torfi Magnússon taugalæknir. Símaskýrslu fyrir dómi gáfu Bára Magnúsdóttir og Grétar Guðmundsson læknir.
II
Málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi byggir á því að í lánareglum stefnda segi að lánsupphæð til sjóðsfélaga geti verið allt að 5.000.000 króna, en að þeir umsækjendur sem þess óski geti þó fengið hærra lán að undangengnu sérstöku greiðslumati. Af lánareglum stefnda að dæma hafi verið um hámarkslán samkvæmt reglum sjóðsins að ræða, ef ekki fór fram sérstakt greiðslumat. Byggt sé á því að stefnandi hljóti að hafa gert eða hafi átt að gera einhvers konar greiðslumat hjá lántaka áður en honum voru lánaðar fimm milljónir króna. Geti vart staðist að einungis hafi verið leitað eftir því hvort veðrými væri nægjanlegt á lánsveði stefnanda, án nokkurrar annarrar skoðunar. Síðar hafi komið í ljós að fjárhagsstaða lántaka hafi verið afar slæm á þessum tíma. Hafi stefnda borið að kynna sér greiðslugetu lántaka áður en lánið var veitt þar sem um hámarkslán án undangengins sérstaks greiðslumat hafi verið að ræða.
Stefnandi bendir á að þegar veðið hafi verið veitt hafi stefnandi verið 68 ára að aldri og hafi þá glímt við viðvarandi martraðir og svefntruflanir auk þess sem hann hafi verið farinn að gleyma ýmsum hlutum, oft verið illa áttaður og ekki í tengslum við raunveruleikann. Síðar hafi komið í ljós að hann þjáist af svokölluðum Lewy Body Dementia en sá sjúkdómur væri blanda af Parkinson- og Alzheimersjúkdómum. Stefnandi hafi því ekki verið í neinu ástandi til þess að gera sér grein fyrir þeim skuldbindingum sem hann hafi undirgengist, enda vitræn skerðing hans töluverð sökum langvarandi svefntruflana og eðlis sjúkdómsins sem og augljósra vandkvæða sem hann hafði í sínu daglega lífi á þeim tíma sem hann ritaði undir skjölin.
Þá hafi stefnandi verið kominn á eftirlaun og ekki haft mikið á milli handanna og eiginkona stefnanda, Valgerður, verið eina fyrirvinnan auk þess sem aðstæður stefnanda hafi á þessum tíma verið farnar að draga töluvert úr aflahæfi hennar. Hafi hún starfað við eigin rekstur og tekjuöflun hennar eingöngu ráðist af færni hennar til að sinna sínu starfi og hún ekki átt réttindi vegna vinnutaps.
Aðstæður stefnanda við veðsetninguna hafi því verið með þeim hætti að hann hefði aldrei getað greitt af umræddri lánveitingu kæmi til vanskila af hálfu lántaka en stefnandi hafi verið undir mikilli pressu af hálfu lántaka og sonar síns um að samþykkja veðsetninguna. Jafnframt hafi hann ekki átt aðra kosti en að samþykkja skilmálabreytingar lánsins árin 2009 og 2010, en stefnandi hafi þá enga grein gert sér fyrir því hvað hann var að samþykkja, enda sjúkdómur hans þá orðinn enn alvarlegri.
Stefnandi bendir á, að í öllu lánaferlinu hafi hann aldrei hitt fyrir neinn starfsmann stefnda. Honum hafi ekki verið veitt nein fræðsla um það sem hann var að skrifa undir og ekki verið tryggt með neinum hætti að hann áttaði sig á þeim skuldbindingum sem hann hafi verið að taka á sig. Stefnandi hafi þó ritað undir sérstaka yfirlýsingu sem sonur hans hafi verið sendur með heim til hans ásamt skjölum til undirritunar án þess að hann fengi færi á að lesa þau yfir eða ráðfæra sig við nokkurn. Á þessum tíma hafi heldur ekki verið orðið ljóst hve alvarlega veikur stefnandi var orðinn og hafi hann því sjálfur tekið ákvarðanir í sínum málum á þessum tíma.
Stefnandi bendir einnig á að hvorki hann né eiginkona hans hafi haft menntun eða reynslu í tengslum við gerð fjármálagerninga og því enga þekkingu eða getu til þess að meta þá áhættu sem þau voru að taka. Hið sama gildi um son stefnanda og tengdadóttur þeirra, hvorugt þeirra hafi haft þekkingu eða getu til þess að gera stefnanda grein fyrir þeirri áhættu sem veðsetning við þessar aðstæður hafi falið í sér. Reyndar hafi hagsmunir lántaka og sonar hans verið það ríkir af því að fá lánið til að greiða upp neysluskuldir að engin tilraun hafi verið gerð til annars en að fá lánsskjölin undirrituð. Þá hafi jafnframt með engum hætti verið tryggt eða kannað af hálfu stefnda að stefnandi væri fær til undirritunar. Stefnandi Ásgeir hafi þannig aldrei komið að efni samningsins, þar sem hann fór ekki á fund stefnda til að rita undir skjölin. Ekkert fé hafi runnið til hans vegna þessarar lánveitingar og lántaki nýtt umrædda lánveitingu til greiðslu neysluskulda og hafi stefnanda ekki verið kunnugt um þau áform fyrr en síðar og jafnframt ekki um fjárhagsstöðu tengdadóttur sinnar og sonar, sem ekki hafi verið góð á þessum tíma.
Í þessu sambandi bendir stefnandi á að ekkert greiðslumat hafi verið framkvæmt á lántaka, og því hafði stefnandi engar forsendur haft til þess að meta hvort lántaki væri fær um að standa í skilum. Í lánareglum sjóðsins komi fram að veitt sé lán að allt að 5.000.000 króna án undangengins greiðslumats. Gefi þetta til kynna að einhvers konar almennt greiðslumat hafi átt að fara fram á fjárhæðum undir 5.000.000 króna, en sérstakt greiðslumat hafi átt að fara fram ef fjárhæðin færi fram úr því marki og sé það í samræmi við samkomulag um ábyrgðir sem ýmsar lánastofnanir hafi gengist undir og telja verði að hafi mótað ákveðnar viðmiðunarreglur innan lánamarkaðarins þrátt fyrir að sumar lánastofnanir hefðu ekki enn innleitt það sérstaklega. Telja verði að það hafi myndast ákveðin venja í tengslum við þær reglur og endurspegli þær jafnframt það sem eðlilegt megi telja sem góða og gegna viðskiptahætti á þeim tíma.
Þá telur stefnandi að stefnda hefði mátt vera ljóst að aðilar sem aldrei komu nálægt samningsgerðinni og voru ekki í neinum samskiptum við stefnda hefðu engin tök á því að afla sér sjálfir upplýsinga um fjárhagslega stöðu lántaka og getu hans til að efna skuldbindingar sínar. Miðað við þáverandi fjárhagsstöðu lántaka, tildrög lántökunnar og nýtingu lánsins til greiðslu neysluskulda hafi verið ljóst að lántaki hefði aldrei staðist slíkt greiðslumat. Það sé raunar með ólíkindum að ekki hafi farið fram greiðslumat hjá stefnda áður en lánið var veitt til að kanna hvort hann gæti staðið undir afborgunum af lánsfjárhæðinni. Ekkert slíkt mat á greiðslugetu lántakanda hafi hins vegar verið kynnt stefnanda máls þessa og sé það andstætt góðri viðskiptavenju.
Stefnandi bendir á, að stefndi hafi engar tilkynningar eða áminningar sent til stefnanda um vanskil gjaldanda líkt og reglur og viðmið stefnda kveði á um. Stefndi sé einn stærsti lífeyrissjóður landsins og hafi verið í yfirburðastöðu við samningsgerð aðila, enda hafi hann haft yfir að ráða starfsfólki með sérþekkingu á lánastarfsemi. Ótvíræðar skyldur hvíli á fjármálafyrirtækjum um að rétt sé að staðið og vandað sé til verka við lánveitingar og veðsetningar en ljóst sé að slíkt hafi ekki verið gert.
Þá telur stefnandi að stefndi hafi ekki sýnt þá aðgæslu sem á honum hafi hvílt og jafnframt ekki sinnt upplýsingaskyldu sinni gagnvart stefnanda. Ekki hafi verið farið eftir ákvæðum laga um ábyrgðarmenn nr. 32/2009 og hafi stefnandi engar tilkynningar fengið sendar til sín um ábyrgð sína, stöðu lánsins eða að lánið hefði verið gefið eftir á hendur aðalskuldara, fyrr en í upphafi árs 2015. Skeytingarleysi stefnda gagnvart hagsmunum stefnanda hvað þetta varði sé algjört og skýrt brot á ákvæðum laga um ábyrgðarmenn, einkum 7. gr. þeirra laga. Skýrt sé, að eftir gildistöku laga nr. 32/2009 hafi borið að gera stefnanda grein fyrir stöðu lántakanda þegar skilmálabreytingar lánsins voru gerðar, skv. 5. gr. laganna. Lögin hafi tekið gildi þann 4. apríl 2009, en fyrri skilmálabreyting lánsins hafi verið gerð þann 27. apríl 2009 og sú síðari 14. júní 2009. Rík skylda hafi hvílt á stefnda að upplýsa um stöðu mála við skilmálabreytingar eftir gildistöku laganna. Það hafi stefndi ekki gert og beri hallann af því.
Byggt var á því í málflutningi stefnanda að ljóst væri að skortur stefnda á tilkynningum til stefnanda væri veruleg vanræksla í skilningu 2. mgr. 7. gr. laga nr. 32/2009 og ætti að valda því að veðábyrgð félli niður.
Stefnandi telur að líta verði til 3. mgr. 9. gr. laga um ábyrgðarmenn. Þar komi fram að nauðasamningur til greiðsluaðlögunar og samningur um greiðsluaðlögun, sem kveði á um lækkun kröfu á hendur lántakanda eða aðalskuldara, hafi sömu áhrif til lækkunar á kröfu á hendur ábyrgðarmanni. Með því að krafa stefnda á hendur lántaka hafi verið felld niður af stefnda, eigi samkvæmt lagaákvæðinu það sama við um ábyrgðarmann kröfunnar, þ.e. stefnanda. Stefndi hafi haft val um það hvort hann gæfi eftir kröfu sína á hendur lántaka og hafi kosið að gera það og samkvæmt tilvitnuðu ákvæði eigi hann því ekki lengur kröfu á hendur ábyrgðarmanni og beri þegar af þeirri ástæðu að fella umrætt veð úr gildi.
Þá sé upplýst að stefnandi sé haldinn heilabilun og langt leiddur af þeim sjúkdómi. Stefnandi njóti umönnunar heimavið sem er meginþáttur lífsgæða hans með hjálp eiginkonu en dveljist langdvölum á spítala eða stofnunum. Hafi eiginkona stefnanda þurft að hætta að vinna og séu fjárráð heimilisins afar takmörkuð og ljóst að þau geti aldrei greitt umrædda kröfu og jafnframt ekki eignast annað heimili. Með því að halda veðsetningunni til streitu sé verið að gera afleiðingar þeirra mun alvarlegri en fyrir aðra sem gengist hafi undir sambærilegar ábyrgðir.
Byggt er á því í málinu af hálfu stefnanda, að þrátt fyrir hina almennu reglu um að samningar skuli standa sé það enn fremur viðurkennt sjónarmið að einstaklingar eiga ekki að vera bundnir við samninga sem gangi gegn almennum reglum, lögum og almennu siðferði. Líkt og staðið hafi verið að umræddri lánveitingu og veðsetningu þá sé ljóst að það fari gegn þeim meginreglum sem uppi hafi verið í samfélaginu um lánveitingar sem og almennu siðferði að halda umræddri veðsetningu til streitu.
Stefnandi byggir jafnframt á því að ákvæði 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga eigi við í málinu, enda bersýnilega ósanngjarnt og andstætt góðri viðskiptavenju að stefndi haldi rétti sínum til tryggingar í eign stefnanda, í ljósi þeirra atvika sem uppi hafi verið við samningsgerðina og þess hvernig staðið var að veðsetningunni.
Enn fremur sé á því byggt að bæði atvik sem voru til staðar við samningsgerðina og síðari atvik geri það bersýnilega ósanngjarnt að stefndi haldi tryggingarrétti sínum í eign stefnanda, enda hafi verið um að ræða veðsetningu á eignarhlut eldri borgara um háa fjárhæð sem hafi verið framkvæmd án greiðslumats á skuldara og engin samskipti hafi verið höfð við veðsala. Sé veðsetningunni haldið til streitu verði það til þess að stefndi og kona hans standa uppi húsnæðislaus í afar erfiðum aðstæðum sökum veikinda stefnanda. Sé staða við samningsgerð með þeim hætti að stefndi verði að bera hallann af því að hafa lagt fyrir stefnanda að ábyrgjast fjárskuldbindingu sem ljóst hafi verið að hvorki lántaki né stefnandi hefðu getað staðið undir og án nokkurra samskipta við veðsala, sem á þeim tíma hafi verið ófær um að meta skuldbindingargildi þeirrar lánveitingar.
Stefnendur byggja enn fremur á því að það sé óheiðarlegt í skilningi 33. gr. laga nr. 7/1936, sbr. lög nr. 11/1986, að halda umræddri veðsetningu til streitu, enda sé ljóst að hvorki stefnandi né lántaki hafi haft getu til að standa undir greiðslum af þeirri lánveitingu sem veðsetningunni var ætlað að tryggja.
Þá sé á því í máli þessu að það sé andstætt viðurkenndum réttarsjónarmiðum og eðli máls ef stefnandi verði í ljósi allra aðstæðna bundinn við veitingu tryggingar í íbúðarhúsi sínu. Það fái ekki staðist þær meginreglur sem íslenskt réttarkerfi byggist á. Stefndi hafi verið með yfirburðastöðu gagnvart stefnanda og látið hjá líða að eiga í nokkrum samskiptum við stefnanda og séu þær staðreyndir, ásamt ástandi stefnanda við veitingu veðsins sem og aðstæðum hans nú, þess eðlis að haldi veðsetningin gildi sínu fari slík niðurstaða gegn meginreglum íslensks réttar, eðli máls og réttlætisvitund sem íslenskt samfélag byggist á.
Um lagarök er vísað til meginreglna kröfuréttar og samningaréttar, til ákvæða laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, einkum 33. gr. og 36. gr. Þá er vísað til laga um ábyrgðarmenn nr. 32/2009 og meginreglna laga og eðli máls. Krafan um málskostnað styðst við 130. gr. og 131. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og um varnarþing til 1. mgr. 35. gr. sömu laga.
III
Málsástæður og lagarök stefnda
Af hálfu stefnda er á því byggt að umrædd veðsetning hafi verið í samræmi við hvort tveggja gildandi reglur stefnda og í samræmi við viðurkennd viðhorf og viðmið að því er varði veðsetningar í þágu annarra og að veðsetningin verði ekki felld niður af slíkum ástæðum. Hafi stefnda sem lánveitanda hvorki borið skylda til að afla greiðslumats á lántaka samhliða lánveitingunni né til að framkvæma slíkt greiðslumat í þágu veðeiganda, þ.e. hjá stefnanda.
Stefndi bendir á að samkvæmt gildandi reglum stefnda hafi ekki verið skylt að framkvæma greiðslumat á skuldara ef lánsfjárhæð var einungis að tiltekinni fjárhæð, eða 5.000.000 króna, svo sem hér hafi átt við. Með öllu sé hafnað skilningi stefnanda á því að með orðalaginu: „Að undangengnu sérstöku greiðslumati“ hafi falist að í öðrum tilvikum hafi átt að gera einhvers konar almennt greiðslumat. Fái sá skilningur hvorki stoð í umræddu orðalagi né í gögnum málsins að öðru leyti. Með tilvísuðu orðalagi sé augljóslega átt við að þegar lánsfjárhæð fari yfir ákveðin mörk þá skuli framkvæma greiðslumat, þ.e. að ráðast í aðgerð sem feli í sér þá sérstöku ráðstöfun að meta greiðslugetu lántakans með aðferðum sem um slíkt gildi, og hafi það augljóslega ekki átt við. Að öðru leyti verði skylda til að framkvæma greiðslumat hvorki leidd af lögum né öðrum heimildum.
Stefndi bendir á að hann hafi ekki verið aðili að sérstöku samkomulagi um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga frá 1. nóvember 2001 sem samtök, sem nú tilheyri Samtökum fjármálafyrirtækja, hafi átt aðild að ásamt Neytendasamtökunum og viðskiptaráðherra. Megi um það atriði benda á til hliðsjónar dóm Hæstaréttar í máli nr. 196/2015.
Þá mótmælir stefndi því sem fram komi hjá stefnanda, að stefndi „hljóti að hafa gert eða átt að gera einhvers konar greiðslumat á lántaka“, þótt slíkt hafi ekki verið áskilið samkvæmt reglum stefnda eða öðrum fyrirmælum. Sé því jafnframt alfarið hafnað að stefnandi hafi mátt ráðgera, eða átt kröfu til, að slíkt mat færi fram stefnanda til hagsbóta, umfram skyldur sem verði leiddar af reglum þeim sem stefndi starfaði eftir. Hafi stefnandi enga sönnun fært fram fyrir slíku og ekki vísað til þess að slíkt eigi sér stoð að lögum eða leiði af öðrum réttarheimildum. Þá sé því mótmælt sem röngu og ósönnuðu að venja hafi staðið til slíks eða að slíkt hafi leitt af sjónarmiðum um góða viðskiptahætti. Gildi því einu hvort lántaki hefði staðist slíkt greiðslumat eður ei og verði áhættan af framangreindu því ekki felld á stefnda.
Stefndi bendir á að samkvæmt umsókn lántaka um greiðsluaðlögun, hafi ástæður greiðsluerfiðleika lántaka fyrst og fremst verið atvik og aðstæður sem komu til eftir að umrædd lánveiting átti sér stað og verið almenns eðlis og stefnda að sjálfsögðu óviðkomandi. Ekki liggi fyrir að lántaki hefði ekki getað staðið undir greiðslubyrði vegna lántökunnar og hafi stefnandi í engu fært fram sönnun þar að lútandi eða gögn og beri hann halla af því.
Af hálfu stefnda er því alfarið hafnað að veðsetning á fasteign stefnanda verði felld úr gildi á þeim grundvelli að stefnandi hafi átt við veikindi að stríða og hafi af þeim ástæðum verið ófær um að samþykkja veðsetninguna eða að stefndi hafi vanrækt að kanna andlega heilsu stefnanda í umrætt sinn. Að auki sé því hafnað að stefndi hafi átt frumkvæði að því að umrædd fasteign yrði veðsett, en samkvæmt 4. mgr. reglna stefnda hafi eingöngu verið áskilið hlutrænt verðmætamat á fasteign sem boðin hafi verið fram til veðsetningar.
Stefndi byggir á því að ekkert í aðdraganda umræddrar lánveitingar og veðsetningar fasteignarinnar hafi gefið stefnda tilefni til að efast um hæfi stefnanda til að taka á sig þá skuldbindingu sem um ræddi. Sé því ljóst að stefnda hafi á engan hátt borið að gera ráðstafanir í þá veru sem stefnandi geri ráð fyrir í málatilbúnaði sínum, þ.e. að framkvæma sérstaka könnun á hæfi stefnanda eða leiði slíkt af eðli málsins. Þá sé og ljóst að ekkert hafi að öðru leyti gefið tilefni til slíkra ráðstafana, þ.m.t. fjárhæð lánsins eða lánsumsókn. Áréttað sé að í vottun undirritana stefnanda og maka hans á veðskuldabréfið, og raunar einnig á skilmálabreytingar, sé fjárræði stefnanda staðfest, en maki stefnanda áriti umrædd skjöl án athugasemda. Þá sé með tilliti til málatilbúnaðar stefnanda með öllu ósannað að hann hafi af heilsufarslegum ástæðum á umræddum tíma verið ófær um að gangast undir umrædda skuldbindingu eða að hún hafi ekki verið í samræmi við vilja hans, hvað sem líði meintum þrýstingi frá lántaka og syni stefnanda, sem einnig sé mótmælt sem ósönnuðu. Þá sé sérstaklega mótmælt að framangreint hafi þýðingu varðandi undirritanir stefnanda á skilmálabreytingar, enda hafi ekki verið um nýjar skuldbindingar að ræða af hálfu stefnanda.
Stefndi bendir á að stefnanda hafi verið bent á eðli ráðstöfunarinnar og áhættu sem af henni leiddi, en um venjubundna og einfalda ráðstöfun hafi verið að ræða sem ekki hafi kallað á sérstaka þekkingu af hálfu viðkomandi. Því sé einnig mótmælt að stefnda hafi borið skylda að viðhafa frekara samráð eða samstarf við stefnanda í tilefni af ráðstöfuninni. Hvað sem framangreindu líði njóti engra gagna við í málinu varðandi fjárhagsstöðu stefnanda á umræddum tíma.
Stefndi byggir á því að hafa sent tilkynningar eða áminningar um vanskil, sbr. 7. gr. laga nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn, þótt ekki liggi fyrir staðfesting á því. Hafi stefndi því ekki vanrækt að gera stefnanda grein fyrir stöðu lántaka við skilmálabreytingar lánsins. Því sé mótmælt að slíkt hafi þau réttaráhrif sem stefnandi geri ráð fyrir. Vísar stefndi til fjögurra framlagðra dómsskjala sem eru tilkynningar til stefnanda um vanskil lánsins, í fyrsta lagi hinn 27. október 2008, og síðan hinn 30. janúar 2009 og 17. mars 2009, en í framhaldi þess hafi verið gerð breyting á greiðsluskilmálum skuldabréfsins sem stefnandi hafi samþykkt. Af þessu sé ljóst að stefnanda hafi hvort tveggja verið tilkynnt um vanskil veðskuldabréfsins og honum verið ljós staða þess þegar skilmálabreytingar voru staðfestar. Að auki sé á því byggt af hálfu stefnda að stefnanda hafi verið sendar árlega tilkynningar í um stöðu ábyrgðar sinnar á grundvelli d-liðar 7. gr. laga nr. 32/2009, sbr. staðlað form slíkrar tilkynningar í framlögðu dómsskjali.
Stefndi hafnar því að meintur skortur á tilkynningum, sem þó er hafnað, geti haft þau réttaráhrif að veðsetning stefnanda falli niður eða teljist ógild. Slíkt leiðir ljóslega ekki af ákvæði 7. gr. laga nr. 32/2009, sbr. 3. og 4. mgr. greinarinnar, sbr. og til hliðsjónar Hrd. 196/2015.
Því sé einnig mótmælt af stefnda að máli skipti varðandi umrædda veðsetningu að lántaki hafi fengið samþykktan samning um greiðsluaðlögun samkvæmt lögum um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010. Með ákvörðun umboðsmanns skuldara frá 21. júní 2011 hafi umsókn lántaka um greiðsluaðlögun verið samþykkt. Niðurstaða umboðsmanns skuldara hafi verið sú að leggja til fulla eftirgjöf samningskrafna. Hafi stefnanda verið tilkynnt að vegna nefnds samnings um greiðsluaðlögun myndi stefndi ekki fá kröfu sína greidda úr hendi lántaka og myndi því reyna á þá tryggingu sem stefnandi hefði lagt fram vegna lánveitingarinnar.
Af hálfu stefnda sé á því byggt að samþykkt greiðsluaðlögunar lántaka hafi í engu áhrif á réttarstöðu veðréttar stefnda í fasteign stefnanda. Í fyrsta lagi að samkvæmt frumvarpi til samnings um greiðsluaðlögun hafi eftirgjöf samningskrafna lántaka ekki tekið til ábyrgðarmanna. Að því leyti teljist stefndi hvorki aðili að umræddri greiðsluaðlögun né verði litið svo á að hann hafi sjálfur gefið eftir kröfu sína á hendur skuldara, svo sem ráðgert sé af hálfu stefnanda. Þegar af þeim ástæðum hafi greiðsluaðlögunin ekki áhrif á réttarstöðu stefnda í máli þessu. Í öðru lagi að umrædd veðsetning teljist til eignarréttinda stefnda, þ.e. veðtrygging fyrir skaðlausri greiðslu ef til kæmi greiðslufall skuldara, sem njóti verndar 72. gr. stjórnarskrárinnar, nr. 33/1944.
Þá sé ljóst að ákvæði 3. mgr. 9. gr., sbr. 12. gr., laga nr. 32/2009, sbr. og síðar lög nr. 101/2010 um breytingu á þeim lögum, raski ekki umræddri veðsetningu, sem stofnað hafi verið til fyrir gildistöku laganna. Megi hafa til hliðsjónar grunnreglur um bann við afturvirkni laga og um friðhelgi eignarréttar, sbr. Hæstaréttardóma í máli nr. nr. 462/2010 og máli nr. 274/2010. Gildi þá einu hvort umrædd greiðsluaðlögun hafi átt sér stað eftir gildistöku laga nr. 32/2009 og laga nr. 101/2010, enda hafi lögin ekki tekið til veðsetningar stefnda. Sé það meginregla að nauðasamningur taki til krafna á hendur skuldara en haggi ekki rétti lánardrottins skuldarans til að ganga að tryggingu sem þriðji maður kann að hafa sett fyrir efndum skuldbindingar til fullnustu á henni allri eða til að krefja ábyrgðarmann um fulla greiðslu skv. 5. mgr. 60. gr. laga nr. 21/1991 og 3. þætti þeirra laga að öðru leyti.
Stefndi hafnar því að fella beri veðsetningu stefnanda á fasteigninni niður á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, eða á grundvelli annarra sambærilegra sjónarmiða. Einnig sé því hafnað að umrædd veðsetning fari gegn „almennum reglum, lögum eða almennu siðferði“, svo sem ætla megi af málatilbúnaði stefnanda, eða gegn viðurkenndum réttarsjónarmiðum eða eðli máls. Því sé mótmælt að stefndi hafi verið í einhvers konar yfirburðastöðu gagnvart stefnanda, en umrædd lánveiting, sem veitt hafi verið á grundvelli umsóknar þar sem veð stefnanda var boðið fram, hafi á engan hátt falið slíkt í sér. Sé málatilbúnaður stefnanda að þessu leyti ómarktækur.
Stefndi mótmælir því að það teljist „bersýnilega ósanngjarnt og andstætt góðri viðskiptavenju“ að bera trygginguna í fasteign stefnanda fyrir sig með tilliti til III. kafla laga nr. 7/1936, hvort sem litið sé til atvika við samningsgerðina eða atvika sem síðar séu talin hafa komið til. Í því sambandi sé sérstaklega mótmælt að aðstæður stefnanda, hvort sem er aldur hans eða fjárhæð lánsins, geti eins og hér stendur á haft slík áhrif. Af hálfu stefnda séu ítrekuð áður framkomin sjónarmið um að stefnandi hafi gert sér fulla grein fyrir afleiðingum þess ef umrædd veðsetning væri samþykkt og undirritað skjal þar um og jafnframt að ósannað sé að stefnandi hafi ekki verið fær um að standa að umræddum löggerningi á umræddum tíma eins og áður greini. Sérstaklega sé í því sambandi mótmælt að óheiðarlegt geti talist að bera umrædda veðsetningu fyrir sig, sbr. 33. gr. laga nr. 7/1936. Þá sé mótmælt vísun til annarra meginreglna um að það beri að fella veðsetninguna niður.
Um lagarök er vísað til meginreglna fjármuna-, samninga-, kröfu- og veðréttar, þ.á m. um réttar efndir skuldbindinga, frelsi manna til að bindast samningum við aðra, laga nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn, laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., og laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Einnig er vísað til laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda. Um málskostnað er vísað til XXI. kafla laga nr. 91/1991.
IV
Niðurstaða
Ágreiningslaust er að stefnandi er alvarlega veikur í dag en stefnandi byggir á því að þau veikindi hafi verið til staðar í apríl 2008 þegar hann ritaði undir hið umþrætta veðskuldabréf.
Stefnandi aflaði matsgerðar undir rekstri málsins. Í matsgerð Torfa Magnússonar taugalæknis og í skýrslu hans fyrir dómi kom fram að af læknisfræðilegum samtímagögnum, sem hann hefði aflað sér, yrði ekki ráðið að stefnandi hafi búið við merkjanlega skerðingu á hugrænni getu á árinu 2008 og hafi stefnandi því verið fær um að skilja þá gerninga sem hann undirritaði og þær fjárhagslegu ráðstafanir sem í þeim fólust. Taldi matsmaður að líklegast væri að vitræn skerðing stefnanda hafi hafist á árinu 2010. Þótt af framburði þeirra vitna sem gáfu skýrslu fyrir dómi megi telja mögulegt að sjúkdómur stefnanda hafi hugsanlega gert vart við sig fyrr, þá hefur ekkert fram komið sem breytir niðurstöðu hins faglega mats um að stefnandi hafi verið fær um að skilja þær fjárhagslegu ráðstafanir sem hann undirgekkst á þeim tíma og er því ekki hægt að fallast á þá málsástæðu stefnanda.
Á umsóknareyðublaði, sem stefnandi undirritaði í tilefni lánsumsóknarinnar, kemur fram að greiðslumat skuli fylgja ef lánsfjárhæð er hærri en 5.000.000 króna. Sömu upplýsingar eru í lánareglum stefnda um að hærra lán en 5.000.000 króna verði ekki veitt nema að undangengnu greiðslumati hjá lántaka. Ekki er í reglum stefnda gert ráð fyrir því að fram fari neitt annað greiðslumat eða að fram fari greiðslumat hjá veðsala en þess er krafist að með lánsumsókn fylgi undirrituð yfirlýsing eiganda veðs um að hann skilji í hverju ábyrgð hans sé fólgin. Slík yfirlýsing fylgdi undirrituð af stefnanda og maka hans.
Stefndi er ekki aðili að samkomulagi frá 1. nóvember 2001, um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga, milli Samtaka banka og fleiri aðila, og ekkert hefur komið fram í málinu um að hann hafi með öðrum hætti verið skuldbundinn til þess að hlíta ákvæðum þess samkomulags.
Samkvæmt framangreindu hefur ekki verið sýnt fram á það af hálfu stefnanda, að stefndi hafi við umrædda lánveitingu og töku veðs til tryggingar láninu, vanrækt skyldur sínar samkvæmt þeim lögum og reglum sem um starfsemi hans giltu. Þá hefur ekki verið sýnt fram á það af hálfu stefnanda, að önnur atvik hafi átt að gefa stefnda sérstakt tilefni til þess að fara fram á greiðslumat hjá lántaka eða stefnanda.
Ekki er fallist á þá málsástæðu stefnanda, að með því að stefndi hafi útbúið lánshæfisútreikning um veðhæfni á veðandlaginu hafi verið um ítarlegra mat að ræða en fjárhæð umþrættrar lánveitingar hafi gefið tilefni til og þar með hafi stefndi brotið eigin lánareglur. Í lánareglum stefnda kemur fram að aðeins sé lánað gegn veði í íbúðarhúsnæði sem miðist við allt að 65% af fasteignamati þeirrar eignar eða 65% af verðmati löggilts fasteignasala. Umræddur útreikningur er einungis til staðfestingar framangreindu.
Stefnandi telur óheiðarlegt af stefnda að bera fyrir sig skuldbindinguna og sé hún því ógild samkvæmt 33. gr. laga nr. 7/1936 og að það sé ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að stefndi beri hana fyrir sig, sbr. 1. mgr. 36. gr. þeirra laga.
Ekkert í málinu gefur það til kynna að lánveitingin eða hvernig að henni var staðið hafi á nokkurn hátt verið að frumkvæði stefnda eða að stefnda hafi með einhverjum hætti verið kunnugt um aðstæður lántaka eða veðsala þannig að 33. gr. samningslaga geti komið til álita.
Við mat á því hvort það teljist ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera fyrir sig veðsetninguna, ber að líta til efnis samnings, stöðu samningsaðila, atvika við samningsgerðina og atvika sem síðar koma til, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga nr. 7/1936, og meta þau atriði heildstætt. Um efni samnings liggur ekki annað fyrir en að um hafi verið að ræða hefðbundna lánveitingu sem gerð var í samræmi við reglur stefnda. Þótt stefndi sé lífeyrissjóður sem stundi lánveitingar þá felur sú staðreynd ekki ein og sér í sér ósanngirni. Upplýst er í málinu að sonur stefnanda hafði veg og vanda af því að koma umræddum samningi í gegn. Sú framkvæmd var ekki á ábyrgð stefnda. Aðstæður, sem valda ógjaldfærni lántaka eða veðsala eftir að lánveitingin átti sér stað, eru ekki á ábyrgð stefnda. Verður veðsamningnum samkvæmt þessu ekki vikið til hliðar með vísan til 36. gr. laga nr. 7/1936. Þá var ekki skýrt frekar af hálfu stefnanda með hvaða hætti víkja beri samningnum frá með vísan til viðurkenndra réttarsjónarmiða, meginreglna íslensks réttar, eðli máls og réttlætisvitundar sem íslenskt samfélag byggist á.
Stefnandi byggir á því með vísan til 3. mgr. 9. gr. laga nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn að veðábyrgðin hafi fallið niður þegar stefndi samþykkti að fella niður lánið gagnvart lántaka í samræmi við samning lántaka um greiðsluaðlögun skv. lögum nr. 101/2010. Þá hafi stefndi vanrækt tilkynningar til stefnanda skv. 1. mgr. 7. gr. laga nr. 32/2009 og í málflutningi stefnanda var á því byggt að um verulega vanrækslu væri að ræða skv. 2. mgr. 7. gr. laganna sem ætti að valda því að ábyrgðin félli niður.
Fyrir liggur í málinu að þann 14. júní 2010 var gengið frá skilmálabreytingu lánsins með samþykki stefnanda og maka hans þar sem frestað var gjalddögum og næsti gjalddagi ákveðinn þann 1. maí 2011. Vanskil urðu frá og með þeim gjalddaga. Lántaki fékk samþykkta umsókn um greiðsluaðlögun þann 21. júní 2011. Skuldinni var lýst, sem fékk stöðu samningskröfu gagnvart lántaka. Greiðsluaðlögun lauk þann 23. nóvember 2011, með fullri eftirgjöf allra samningskrafna á hendur lántaka.
Í 3. mgr. 9. gr. laga nr. 32/2009 segir: „Þrátt fyrir ákvæði 4. mgr. 60. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. skal nauðasamningur eða önnur eftirgjöf, þ.m.t. nauðasamningur til greiðsluaðlögunar og samningur um greiðsluaðlögun, sem kveður á um lækkun kröfu á hendur lántaka eða aðalskuldara hafa sömu áhrif til lækkunar kröfu á hendur ábyrgðarmanni.“ Undanþága 12. gr. laga nr. 32/2009 um afturvirkni laganna tekur ekki til 9. gr. laganna, sem hefur því afturvirk áhrif að þessu leyti samkvæmt orðanna hljóðan.
Um gildi afturvirkni nefnds ákvæðis hefur áður reynt á í dómum Hæstaréttar, sbr. dóm nr. 274/2010 og dóm nr. 462/2010. Í niðurstöðum nefndra dóma segir að hafi verið stofnað til veðréttarins fyrir gildistöku laganna, þá séu þau veðréttindi varin af 72. gr. stjórnarskrárinnar. Til veðréttinda þessa máls var stofnað fyrir gildistöku laga nr. 32/2009 og verða þau veðréttindi því ekki felld niður með vísan til framangreinds. Breytir engu að mati dómsins þótt skilmálabreytingar hafi verið gerðar á láninu eftir gildistöku laga nr. 32/2009 og stefnanda þá mátt vera kunnugt um nefnd lög. Þá er ekki hægt að fallast á það með stefnanda að með samþykki samnings við lántaka hafi falist samþykki á niðurfellingu veðsins, enda segir skýrt í samningnum að um eftirgjöf samningskrafna sé að ræða.
Samkvæmt 12. gr. laga nr. 32/2009 hefur ákvæði 1. mgr. 7. gr. laganna um tilkynningar, afturvirk áhrif. Í málinu liggja fyrir þrjár tilkynningar frá stefnda til stefnanda sem dagsettar eru fyrir gildistöku laga nr. 32/2009 sem var þann 4. apríl 2009. Koma þær tilkynningar því ekki til skoðunar um hvort gætt hafi verið ákvæða 1. mgr. 7. gr. laganna.
Stefndi lagði fram afrit bréfs eða form af tilkynningu sem er ódagsett og án tilgreinds viðtakanda þar sem vísað er til d-liðar 7. gr. laga nr. 32/2009. Með því bréfi eru afrit af þremur „lánayfirlitum ábyrgðarmanns“, stíluð á stefnanda og dagsett 31.12.2013, 2014 og 2015. Stefndi bar að hafa sent stefnanda þannig tilkynningar um hver áramót. Í athugasemdum með frumvarpi að lögum nr. 32/2009 kemur fram að lánveitandi beri sönnunarbyrðina fyrir því að tilkynningarskyldu hafi verið gætt. Ekki liggur fyrir sönnun þess að stefndi hafi sent stefnanda framangreind yfirlit og hvað sem öðru líður hafi ekki verið send yfirlit þann 31.12.2009, 2010, 2011 og 2012. Um vanrækslu stefnda er að ræða samkvæmt framangreindu á því að senda út upplýsingar, skv. d-lið 1. mgr. 7. gr. laga nr. 32/2009.
Samkvæmt a-lið 1. mgr. 7. gr. laga nr. 32/2009 skal lánveitandi senda út svo fljótt sem kostur er skriflega tilkynningu til ábyrgðarmanns um vanskil lántaka. Eins og rakið var hófust vanskil lánsins þann 1. maí 2011. Ekki hefur verið sýnt fram á það að stefnanda hafi verið tilkynnt um þau vanskil. Stefndi sendi stefnanda greiðsluáskorun dags. 25. mars 2015, með vísan til 3. og 4. mgr. 7. gr. laga nr. 32/2009, sem þó liggur ekki sönnun fyrir. Fram kom í því bréfi að ekki væri litið á greiðsluaðlögunartíma lántaka sem vanskil skv. a-lið laganna og tekið fram að ekki væri krafist dráttarvaxta eða innheimtukostnaðar. Ætla verður að stefnanda hafi verið vanskilin ljós eitthvað fyrr, enda er vitnað í stöðu lánsins þann 20. október 2014 í bréfi lögmanns stefnanda dagsettu 6. febrúar 2015, en ljóst má vera af framangreindu að stefndi vanrækti alveg að senda stefnanda tilkynningu um vanskil skv. a-lið 1. mgr. 7. gr. laga nr. 32/2009.
Með niðurfellingu á samningskröfu lántaka í lok nóvember 2011 varð ljóst að stefnandi bæri einn ábyrgð á greiðslu lánsins. Umrætt tilvik er, vegna ákvæða 3. mgr. 9. gr. laga nr. 32/2009, ekki að finna í 1. mgr. 7. gr. laganna sem skilyrði tilkynningar, en má með lögjöfnun færa undir ákvæði b- og c-liðar 1. mgr. 7. gr., enda segir í athugasemdum í frumvarpi með 7. gr. að meginsjónarmið laganna sé að lánveitandi tilkynni ábyrgðarmanni um öll þau atvik sem áhrif geti haft á forsendur ábyrgðar ábyrgðarmanni í óhag. Samkvæmt framangreindu hefði stefnda verið rétt að tilkynna stefnanda um niðurfellingu lánsins gagnvart lántaka.
Samkvæmt öllu framangreindu er fallist á það með stefnanda að stefndi hafi vanrækt tilkynningarskyldu sína skv. 1. mgr. 7. gr. laga nr. 32/2009. Stefnandi gerir hins vegar ekki kröfu á hendur stefnda um skaðleysi vegna þeirrar vanrækslu, sbr. 2. mgr. 7. gr. laga nr. 32/2009, heldur krefst hann viðurkenningar á því að ábyrgð skuli felld niður á grundvelli verulegrar vanrækslu.
Í dómi Hæstaréttar nr. 229/2015 reyndi á hvað teldist veruleg vanræksla í þessum efnum, en samkvæmt niðurstöðum dómsins eru tryggingarréttindi varin af 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar og ljóst að þau eignarréttindi geta ekki á grundvelli 2. mgr. 7. gr. laga nr. 32/2009 fallið niður, nema að sýnt sé fram á að stefndi hafi valdið ábyrgðarmönnum öðrum og meiri skaða en bættur verður með úrræðum 3. og 4. mgr. 7. gr. sömu laga.
Stefndi hefur krafist nauðungarsölu á fasteign stefnanda. Í þeirri beiðni er krafist dráttarvaxta og kostnaðar frá því að vanskil urðu. Ákvæðum 3. og 4. mgr. 7. gr. er ætlað að taka til niðurfellingar dráttarvaxta og innheimtukostnaðar. Stefnandi hefur ekki í málatilbúnaði sínum sýnt fram á að stefndi hafi valdið honum öðru og meira tjóni en bæta má með nefndum úrræðum og er því ekki hægt að fallast á það með stefnanda að um verulega vanrækslu stefnda hafi verið að ræða í skilningi 2. mgr. 7. gr. laga nr. 32/2009.
Með vísan til alls framangreind verður stefndi sýknaður af kröfum stefnanda í máli þessu.
V
Málskostnaður
Með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður málskostnaður milli aðila felldur niður.
Stefnandi nýtur gjafsóknar innanríkisráðuneytis í málinu frá 3. október 2016. Allur gjafsóknarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, sem er útlagður kostnaður, 43.680 krónur, og málflutningsþóknun lögmanns stefnanda, Atla Más Ingólfssonar hdl., sem þykir hæfilega ákveðin 1.700.000 krónur að teknu tilliti til virðisaukaskatts.
Dóm þennan kveður upp Bogi Hjálmtýsson héraðsdómari.
Dómsorð:
Stefndi, Brú Lífeyrissjóður starfsmanna sveitarfélaga, er sýkn af kröfum stefnanda, Ásgeirs Sumarliðasonar.
Málskostnaður fellur niður, en gjafsóknarkostnaður stefnanda, þar með talin þóknun lögmanns hans, Atla Más Ingólfssonar héraðsdómslögmanns, 1.743.680 krónur, greiðist úr ríkissjóði.