Hæstiréttur íslands
Mál nr. 113/2015
Lykilorð
- Ákæra
- Frávísunarkröfu hafnað
- Líkamsárás
- Ærumeiðingar
- Skilorð
- Skaðabætur
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Karl Axelsson og Hjördís Hákonardóttir settur hæstaréttardómari.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 2. febrúar 2015 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að ákærði verði sakfelldur samkvæmt ákæruliðum I og II en niðurstaða hins áfrýjaða dóms um sakfellingu verði að öðru leyti staðfest, en refsing þyngd.
Ákærði krefst þess aðallega að ákærulið I verði vísað frá héraðsdómi, til vara að hann verði sýknaður, en að því frágengnu að refsing hans verði milduð. Þá krefst hann þess aðallega að einkaréttarkröfu verði vísað frá héraðsdómi, en til vara að hún verði lækkuð.
Brotaþoli, A, krefst þess aðallega að ákærða verði gert að greiða sér 1.200.000 krónur með vöxtum eins og dæmdir voru í héraði, en til vara að ákvæði héraðsdóms um einkaréttarkröfu hennar verði staðfest.
I
Samkvæmt c. lið 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála skal í ákæru greina svo glöggt sem verða má hver sú háttsemi er sem ákært er vegna, hvar og hvenær brotið er talið framið, heiti þess að lögum og aðra skilgreiningu og loks heimfærslu þess til laga. Í dómaframkvæmd Hæstaréttar hafa fyrirmæli þessa lagaákvæðis verði skýrð svo að verknaðarlýsing í ákæru verði að vera það greinargóð og skýr að ákærði geti ráðið af henni hvaða refsiverðu háttsemi honum er gefin að sök og við hvaða lagaákvæði hann er talinn hafa gerst brotlegur.
Í ákærulið I er ákærða gefið að sök að hafa brotið gegn 225. gr. og 233 gr. b. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með ólögmætri nauðung og stórfelldum ærumeiðingum. Því er lýst hvar háttsemin átti sér stað og hvenær, með hvaða hætti og hverjar afleiðingar hennar hafi verið. Með þessu er fullnægt framangreindum formskilyrðum ákæru. Það heyrir síðan undir efnishlið málsins hvort sú háttsemi sem ákært er fyrir sé refsisverð samkvæmt 225. gr. og 233. gr. b. almennra hegningarlaga. Er því hafnað kröfu ákærða um að vísa þessum ákærulið frá héraðsdómi.
II
Með 2. gr. laga nr. 27/2006, um breytingu á almennum hegningarlögum (heimilisofbeldi), var 191. gr. almennra hegningarlaga felld brott. Þótti ákvæðið í framkvæmd ekki hafa náð því markmiði „að vernda friðhelgi og æru einstaklinga í samskiptum við aðra fjölskyldumeðlimi“, eins og segir í athugasemdum með frumvarpi að lögunum. Þess í stað var með 3. gr. laganna lögfest nýtt ákvæði í XXV. kafla almennra hegningarlaga, 233. gr. b., með það að „markmiði að gera þá refsivernd gegn stórfelldum ærumeiðingum, sem núgildandi 1. mgr. 191. gr. almennra hegningarlaga átti að mæla fyrir um, virka þannig að raunhæfara sé að ná þeim refsiréttarlegu og réttarpólitísku markmiðum sem eðlilegt er að leggja til grundvallar í þessu sambandi.“ Þá kemur þar meðal annars einnig fram „að markmið opinberra aðgerða til að sporna við heimilisofbeldi ... er fyrst og fremst að veita þeim einstaklingum réttarvernd sem hafa þolað langvarandi eða endurtekið ofbeldi af hálfu þeirra sem teljast nákomnir.“ Við mat á þeim verknaði sem falli þar undir sé meðal annars litið til tengsla geranda og þolanda og hvort hann sé vegna þeirra til þess fallinn að skerða sjálfsvirðingu brotaþola eða hafa í för með sér niðurlægingu eða skert sjálfsmat hans. Ennfremur má geta þess að með 1. gr. framangreindra laga nr. 27/2006 var nýrri málsgrein bætt við 70. gr. almennra hegningarlaga um að það skuli að jafnaði leiða til þyngingar refsingar ef brot beinist gegn karli, konu eða barni sem eru nákomin geranda og þau tengsl þykja hafa aukið á grófleika verknaðarins.
III
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms að því er varðar ákærulið I verður staðfest niðurstaða hans um háttsemi ákærða og unað við heimfærslu hennar til refsiákvæðis.
Að því er varðar efnishlið ákæruliðar II verður héraðsdómur staðfestur um sakarmat og heimfærslu brotsins til 217. gr. almennra hegningarlaga með vísan til forsendna. Í umrætt sinn var sonur aðila, B, fæddur árið 2008, viðstaddur, eins og lýst er í ákæru, og reyndi að stöðva föður sinn þegar hann setti kodda fyrir vit móður hans. Með háttsemi sinni sýndi ákærði barninu vanvirðingu og andlega ógnun, enda allt ofbeldi þar sem börn eru á heimili jafnframt ofbeldi gagnvart börnum. Ber að heimfæra háttsemi ákærða til 1. og 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Samkvæmt 233. gr. b. almennra hegningarlaga varðar allt að tveggja ára fangelsi að móðga eða smána maka sinn eða fyrrverandi maka, barn sitt eða annan mann sem er nákominn geranda, enda verði verknaðurinn talinn fela í sér stórfelldar ærumeiðingar. Ótvírætt er að atvikið var á milli nákominna enda voru aðilar gift til margra ára og áttu saman þrjú börn. Með vísan til þess sem áður hefur verið rakið um markmið með setningu 233. gr. b. almennra hegningarlaga sem og þegar litið er til þess að valdbeiting ákærða var til þess fallin að gera lítið úr móðurinni í viðurvist barnsins, þykir brotið einnig verða heimfært til 233. gr. b. laganna.
Niðurstaða héraðsdóms um ákærulið III er ekki til endurskoðunar hér fyrir dómi. Þá verður niðurstaða héraðsdóms um ákærulið IV staðfest með vísan til forsendna.
IV
Við ákvörðun refsingar er litið til 77. gr. almennra hegningarlaga í ljósi þess að ákærði hefur verið sakfelldur fyrir brot gegn 217. gr., 225. gr., 233. gr. b. almennra hegningarlaga og gegn 1. og 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga. Þá beindust verknaðir hans í öllum tilvikum gegn eiginkonu og í tveimur tilvikum einnig gegn ungu barni þeirra. Verður tekið mið af 3. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga. Á hinn bóginn verður litið til þeirra atriða sem nefnd eru í héraðsdómi um drátt á meðferð málsins og jafnframt til þess dráttar sem varð á meðferð þess á milli dómstiga. Verður refsing ákærða, sem ákveðin er fangelsi í 12 mánuði, því skilorðsbundin eins og greinir í dómsorði.
Niðurstaða héraðsdóms um einkaréttarkröfu brotaþola og sakarkostnað er staðfest.
Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns og þóknun réttgæslumanns brotaþola, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti allt eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Ákærði, X, skal sæta fangelsi í 12 mánuði en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún falla niður að liðnum tveimur árum frá uppsögu dóms þessa að telja, haldi ákærði almennt skilorð samkvæmt 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Ákvæði héraðsdóms um einkaréttarkröfu brotaþola, A, og sakarkostnað skulu vera óröskuð.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 977.010 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Bjarna Haukssonar hæstaréttarlögmanns, 620.000 krónur, og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Margrétar Gunnlaugsdóttur hæstaréttarlögmanns, 248.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness mánudaginn 5. janúar 2015,
Mál þetta, sem þingfest var 23. október 2014 og dómtekið 8. desember sl., er höfðað með ákæru útgefinni af ríkissaksóknara þann 4. september 2014 á hendur X, kennitala [...], [...], [...], „fyrir eftirgreind hegningar- og barnaverndarlagabrot framin árið 2012 á þáverandi heimili hans að [...], [...]:
I.
Fyrir ólögmæta nauðung og stórfelldar ærumeiðingar gagnvart eiginkonu sinni A, kennitala [...], með því að hafa, þriðjudaginn 7. febrúar, með ofbeldi neytt hana inn í baðherbergi og gripið um upphandleggi hennar með þeim afleiðingum að hún hlaut mar á báðum upphandleggjum.
Telst þetta varða við 225. gr. og 233. gr. b. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
II.
Fyrir líkamsárás, stórfelldar ærumeiðingar og barnaverndarlagabrot með því að hafa, aðfaranótt sunnudagsins 8. júlí, veist með ofbeldi að eiginkonu sinni, A, þar sem hún lá í hjónarúmi þeirra ásamt B, kennitala [...], 3 ára syni þeirra og sett kodda fyrir vit A svo henni lá við köfnun, en B reyndi að stöðva ákærða með því að öskra á hann og klóra.
Telst þetta varða við 217. gr. og 233. gr. b. almennra hegningarlaga og 1. og 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.
III.
Fyrir brot gegn frjálsræði manna, líkamsárás og stórfelldar ærumeiðingar með því að hafa, miðvikudaginn 21. nóvember, haldið eiginkonu sinni, A, nauðugri í tæpa klukkustund og veist að henni með ofbeldi, tekið af henni síma, togað í hana, hrist og ýtt við henni, og í hjónarúm þeirra, tekið hana úr öðrum skónum, slegið hana með „Tempur“ kodda í lærið, tekið hana hálstaki og að lokum hent henni út úr húsinu.
Telst þetta varða við 217. gr., 226. gr. og 233. gr. b. almennra hegningarlaga en til vara við 225. gr. og 233. gr. b. almennra hegningarlaga.
IV.
Ólögmæta nauðung, líkamsárás, stórfelldar ærumeiðingar og barnaverndarlagabrot með því að hafa, mánudaginn 26. nóvember, með ofbeldi dregið eiginkonu sína, A, inn í bílskúr og ætlað að loka dyrunum er C, kennitala [...], greip í A henni til varnar, en ákærði tók í þær til að stía þeim í sundur og kastaði þeim fram og tilbaka í bílskúrnum svo þær lentu á ísskáp og á bílskúrsgólfið. Ákærði greip síðan í úlpu og axlir A þar sem hún lá og skellti henni ítrekað á bílskúrsgólfið, steig á læri hennar, tók hana hálstaki og skeytti engu um þótt C og B, 4 ára sonur ákærða og A, reyndu að stöðva ákærða, B með því að halda í ákærða og bíta hann. Af atlögunni hlaut A yfirborðsáverka og eymsli á hálsi og baki, mar og eymsli á brjóstkassa, öxl, vinstri upphandlegg og hægri mjöðm. C hlaut yfirborðsáverka á hálsi og tognun og ofreynslu á brjósthrygg.
Telst þetta varða við 217. gr., 225. gr. og 233. gr. b. almennra hegningarlaga og 1. og 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.
Einkaréttarkrafa:
Af hálfu A er þess krafist að ákærði verði dæmdur til að greiða henni skaða- og miskabætur að fjárhæð kr. 1.560.185 ásamt vöxtum af kr. 1.200.000 skv. 8. gr. sbr. 4. gr. laga nr. 38/2001 frá 21. nóvember 2012 þar til mánuður er liðinn frá birtingu skaðabótakröfu þessarar en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 9. gr. laga 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.“
Ákærði kom fyrir dóminn við þingfestingu málsins og neitaði sök. Þá hafnaði hann bótakröfunum. Hófst aðalmeðferð þann 8. desember sl. og var málið dómtekið að málflutningi loknum.
Málsatvik.
Ákæruliður I.
Samkvæmt dagbók lögreglu var hún kölluð á heimili aðila vegna heimilisofbeldis 7. febrúar 2012. Segir í dagbókarfærslunni að A hafi hringt og sagt mann sinn ganga berserksgang á heimilinu, hann hafi verið búinn að brjóta hurðir og börnin væru mjög hrædd. Þegar lögreglan kom á staðinn voru ákærði, A, þrjú börn þeirra og faðir A á heimilinu. Bókað er að ákærði hafi verið rólegur þegar lögregla kom og hafi samþykkt að yfirgefa heimilið. Faðir A hafi sagst hafa orðið vitni að því þegar ákærði tók reiðikast. Þá er bókað að ekki muni hafa verið um líkamlegt ofbeldi að ræða.
Í tölvupósti þann 19. febrúar 2013, frá A til lögreglu, segir að hún sé að senda lögreglu ljósmyndir af áverkum sem hún hafi fengið þegar ákærði þvingaði hana inn á salerni. Segir í tölvupóstinum að ákærði hafi viljað ná af henni síma og þegar hún hafi neitað því hafi ákærði tekið í upphandleggina á henni, hirst hana og hent til og dregið hana svo inn á baðherbergi þar sem hann hafi þrýst henni afturábak yfir klósettkassa og heimtað símann. Faðir hennar hafi gengið á milli.
Ákæruliður II.
Ekki er ágreiningur um að ákærði hafi farið inn í svefnherbergi umrætt sinn og sett kodda fyrir andlit brotaþola. Hafi þau áður rifist. Þá er ekki ágreiningur um að þriggja ára barn þeirra hafi verið í rúminu og orðið hrætt við lætin.
Ákæruliður III.
Ekki er ágreiningur um helstu atvik þessa ákæruliðs. A mun hafa komið heim til sín í þeim tilgangi að sækja heilsufarsbók sonar síns en lent í rifrildi og átökum við ákærða í framhaldi.
Ákæruliður IV.
Varðandi þennan ákærulið er óumdeilt að A og C komu að [...] umrætt sinn í þeim tilgangi að sækja yngri börn aðila. Hafi ákærði neitað að afhenda börnin þar sem hann taldi þau mega vera hjá sér en móðir þeirra vildi taka þau með sér. Ákærði hafði sótt börnin á leikskóla fyrr um daginn. Átök urðu í kjölfar inni í bílskúr og ber aðilum í flestu saman um atvik þar utan að aðilar eru ósammála um hvernig átökin áttu sér stað.
Samkvæmt frumskýrslu lögreglu barst beiðni um aðstoð lögreglu að [...], [...], klukkan 17:40 þann 26. nóvember 2012 vegna heimilisófriðar. Lögreglu bárust upplýsingar um að þolandi væri kominn að [...] á [...] og hitti lögreglan brotaþola þar ásamt þremur börnum hennar sem höfðu flúið af heimili þeirra til móður brotaþola. Upplýsti brotaþoli lögreglu um að maður hennar hefði lagt hendur á hana daginn þar áður. Hún væri búin að vera hjá móður sinni frá því deginum áður. Þennan dag hafi ákærði hins vegar sótt tvö yngstu börnin í skólann og farið með þau heim til þeirra. Brotaþoli hafi fengið vinkonu sína með sér til hans í þeim tilgangi að sækja börnin. Við þá heimsókn hafi orðið átök á milli aðila eins og greinir í ákæruliðnum.
Skýrslur fyrir dómi.
Ákæruliður I.
Ákærði kvað rifrildi hafa verið svo mörg að hann geti ekki lýst þessu atviki sérstaklega. Hann kvaðst þó aldrei hafa neytt brotaþola inn í eitthvað eða komið henni eitthvað þar sem hún kæmist ekki í burtu. Frekar hafi hann þurft að ýta henni burtu til að komast sjálfur út í gengum tíðina en þau séu að tala um langan tíma. Ákærði man til þess að lögreglan hafi komið einu sinni á heimili þeirra og beðið sig um að fara, sem ákærði hafi gert. Ákærði kvað föður brotaþola oft hafa verið á staðnum þegar þau rifust. Dagbók lögreglu frá 7. febrúar 2012 var borin undir ákærða. Mundi ákærði eftir því að hafa brotið hurð í eitt skipti þegar hann var á leið út. Það væri ekki það fyrsta sem hann hefði brotið. Ákærði kvaðst, aðspurður um marbletti á upphandlegg brotaþola, hafa tekið í handleggi brotaþola þegar hún hafi slegið til hans og það hafi í einhverjum tilvikum séð á henni. Ákærði mundi þó ekki í hvaða skipti það hafi verið. Ákærði kvaðst ekkert vita um ljósmyndir sem faðir brotaþola hafi tekið en hann hafi séð myndirnar. Myndirnar séu sennilega frá því að þau rifust eitthvert skiptið. Það hafi farið í taugarnar á ákærða að brotaþoli hafi alltaf tekið upp símann og hringt í foreldra hans til að klaga ákærða og láta vita af því hversu vondur hann væri við hana. Í það sinn hafi ákærði örugglega tekið símann af brotaþola og hent honum fram á gang. Aðspurður um það hvort áverkarnir á ljósmyndunum væru eftir hann, svaraði ákærði „örugglega“ en hann myndi ekki eftir þessu atviki. Hann myndi að þetta hafi endað inni á baðherbergi. Ákærði sagðist ekki geta lýst þessu tilviki frekar. Þau hafi endað inni á baðherbergi af því að þau voru að rífast og til að fá frið fyrir föður hennar sem bjó hjá þeim á þessum tíma. Faðir hennar hafi ekki skipt sér af þessu. Ákærði kvaðst ekki hafa beitt hana ofbeldi inni á baðherbergi en yfirleitt hafi hann viljað komast burtu sjálfur þegar þau rifust. Aðspurður um ljósmyndirnar kvað ákærði þær geta átt við um þetta atvik en hann muni að hann hafi séð svona mar á brotaþola, hann gæti þó ekki fullyrt það. Framburður ákærða fyrir lögreglu um að hann hafi tekið símann af brotaþola umrætt sinn með valdi var borinn undir ákærða. Einnig framburður föður hennar um aðkomu hans inni á baðherberginu. Kvaðst ákærði ekki geta tengt þetta við dagsetningar en hann hafi tekið símann af henni en ekki beitt hana kverkataki. Ákærði kvaðst muna að hann hafi tekið símann af henni inni á baðherberginu, hann hafi verið orðinn leiður á því að hún tæki alltaf upp símann. Þau hafi bara verið að rífast og hann hafi ekkert haft að gera inni á baðherbergi, þau hafi bara verið komin þangað.
Vitnið A kom fyrir dóminn. Gætt var ákvæða a-liðar 1. mgr. 117. gr. laga nr. 88/2008. Lýsti vitnið því að ákærði hafi brjálast eins og venjulega, brotið sófaborð og hurð og verið ógnandi. Hann hafi tekið um hendurnar á vitninu og hrist það til upp við vegg og dregið það síðan inn á baðherbergi. Ákærði hafi haldið vitninu með bakið upp við stóran klósettkassa. Ákærði hafi tekið símann af vitninu inni á baðherbergi og hent honum í vegg. Börnin hafi verið heima og verið skíthrædd. Lögreglan hafi komið á vettvang og hún lýst ofangreindu fyrir lögreglunni. Vitnið hafi ekki lýst ofbeldi fyrir lögreglunni því að hún hafi verið orðin vön þessari háttsemi ákærða að hrista hana og henda henni upp að vegg. Hann hafi ekki barið sig með krepptum hnefa. Vitnið hafi verið með handarför á báðum handleggjum eftir þetta og hafi faðir vitnisins tekið ljósmyndir af áverkunum. Faðir hennar hafi komið að þeim inni á baðherbergi. Vitnið kvað ekki mikið hafa þurft til til þess að ákærði missti stjórn á sér. Vitnið hafi fundið spennuna og þá reynt að koma börnunum undan. Ekkert eitt hafi þurft til frekar en annað til að ákærði missti stjórn á sér.
Vitnið D kom fyrir dóminn. Gætt var ákvæða a-liðar 1. mgr. 117. gr. laga nr. 88/2008. Kvaðst vitnið rugla dagsetningum nokkuð saman en vitnið sé fyrrverandi tengdafaðir ákærða. Kvað vitnið svo mörg rifrildi hafa verið á milli ákærða og brotaþola að erfitt væri að muna hvert tilvik. Það myndi þó eftir atviki þar sem ákærði gekk berserksgang og braut hurð. Varðandi þetta tilvik vissi vitnið ekki um upphafið þar sem það hafi verið inni í sínu herbergi en það hafi á þessum tíma búið hjá aðilum. Ástæða þess að vitnið hafi farið inn á baðherbergi var að það hafi heyrt mikil öskur í ákærða og hljóð í brotaþola. Þegar vitnið kom inn á baðherbergið hafi ákærði verið búinn að þvinga brotaþola á milli sturtuklefa og klósetts og haldið henni með kverkataki og reynt að ná símanum af henni. Vitnið hafi þá gengið á milli þeirra og ákærði farið út. Vitnið kvaðst þá hafa tekið ljósmyndir af áverkum brotaþola en minnti að þær hafi verið teknar daginn eftir. Staðfesti vitnið að ljósmyndir sem liggja frammi í málinu af handlegg séu þær myndir.
Vitnið E lögreglumaður kvaðst lítið muna eftir þessu atviki þar sem langt væri um liðið en hringt hafði verið á lögreglu vegna heimilisofbeldis. Vitnið mundi að ákærði hafi verið á staðnum þegar vitnið kom á heimilið, konan, börn og faðir konunnar. Vitnið kvaðst ekki muna eftir hverjum það hafi bókað í dagbók lögreglu að ekki hafi verið um líkamlegt ofbeldi að ræða.
Ákæruliður II.
Ákærði lýsti þessum ákærulið svo að þau hafi verið að rífast. Þau hafi verið komin upp í rúm og einhver orðaskipti hafist. Brotaþoli hafi kunnað að ýta á veika punkta hjá ákærða og kallað hann ofbeldismann. Ákærði hafi spurt hana hvort hún væri eitthvað betri og hún þá svarað því til að það sæist aldrei á honum. Hann hafi þá spurt hvort það væri í lagi að gera svona og tekið kodda og sett yfir andlit hennar og tekið hann strax aftur frá. Það hafi tekið nokkrar sekúndur. Við lætin hafi drengurinn vaknað og orðið skelkaður. Ákærði kvaðst ekki muna hvort drengurinn hafi klórað eða bitið en drengurinn hafi verið hræddur. Brotaþoli hafi orðið reið og pirruð yfir þessu en hún hafi bara legið í rúminu en hann myndi ekki eftir því að hún hafi sparkað. Ákærði taldi að hann hafi svo bara farið burtu. Aðspurður kvað ákærði koddann hafa verið fiðurkodda. Ákærði neitaði því að hafa beitt brotaþola ofbeldi í þetta skipti. Aðspurður um framburð sinn hjá lögreglu um viðbrögð brotaþola þegar hann setti koddann fyrir andlit hennar, kvað hann hana hafa orðið brjálaða og öskrað eitthvað. Ákærði kvaðst hafa beðið brotaþola afsökunar á eftir. Framburður ákærða hjá lögreglu var aftur borinn undir ákærða um viðbrögð brotaþola. Ákærði kvað hana örugglega hafa sparkað út í loftið við þetta og það sé rétt að hann hefði ekki viljað vera sjálfur í þessari stöðu.
Vitnið A lýsti atvikum svo að ákærði hafi verið mjög æstur umrætt sinn og vakið börnin. Vitnið hafi því farið inn í herbergi til að hugga son þeirra og legið þar í myrkri. Ákærði hafi komið inn, brjálaður, tekið sængina af þeim og slegið henni í þau. Ákærði hafi hent niður snyrtiborði og brotið ljós fyrir ofan þau. Á einhverjum tímapunkti hafi ákærði komið upp í rúmið og tekið kodda vitnisins, tempúr-kodda, og haldið honum yfir andliti vitnisins þar til það hafi átt erfitt með að ná andanum. Vitnið kvaðst ekki vera visst um það hvort ákærði hefði hætt ef drengurinn hefði ekki verið vakandi. Vitnið kvaðst hafa náð drengnum, hlaupið inn á bað og læst sig þar inni og hringt í móður sína. Vitnið hafi sagt móður sinni að ákærði hafi sett kodda yfir andlit vitnisins og reynt að drepa það. Vitnið kvaðst ekkert hafa getað gert þegar ákærði hélt koddanum yfir því. Vitnið hafi sparkað og reynt að ýta ákærða af sér. Vitnið kvaðst vera 160 cm á hæð og um 62 kg á þyngd.
Vitnið F, móðir brotaþola, kom fyrir dóminn og kvaðst hafa verið þetta sinn heima með elsta dreng aðila. A hafi hringt til sín grátandi og sagt sér að hún væri búin að læsa sig inni á salerni með tvö yngri börnin. Hafi hún sagt vitninu að ákærði hafi látið kodda yfir höfuð sitt og litli strákurinn slegið ákærða. Vitnið vissi þá að faðir brotaþola hafði hringt í ákærða og reynt að róa hann niður og sagt honum að vitnið væri að hringja í lögreglu. Brotaþoli hafi verið hrædd og óttast um líf sitt. Vitnið hafi heyrt grátinn í börnunum. Þá tali yngsti drengurinn sagt við vitnið daginn eftir að pabbi hafi sett kodda yfir andlitið á mömmu. Hann hafi líka sagt sér að hann hafi klórað og lamið pabba sinn. Þetta sæti í drengnum og hann ræði oft um það að það hafi lamið föður sinn, klórað og bitið.
Vitnið G lögreglumaður kvaðst hafa komið á heimili aðila umrætt sinn. Hafi mikið uppistand verið á heimilinu, konan mjög smeyk og börnin hrædd. Ákærði hafi verið farinn út úr húsi þegar lögreglan kom og starfsfélagi hans rætt við ákærða utandyra. Brotaþoli hafi rætt um að ákærði hafi veist að sér og reynt að kæfa sig með sæng eða einhverju en vitnið mundi ekki eftir því að konan hafi lýst því nánar. Vitnið staðfesti skýrslu sína.
Vitnið H lögreglumaður kvaðst hafa komið á heimilið umrætt sinn og brotaþoli sagt þeim að ákærði væri farinn út úr húsi. Vitnið hafi fundið ákærða bak við hús og talað til hans en ákærði ekki svarað sér. Vitnið hafi þá farið inn í húsið og rætt við konuna. Þeir G hafi síðan leitað að ákærða utandyra en ekki fundið hann. Brotaþoli hafi sagt að hún hafi verið hrædd og flúið inn á bað eftir að ákærði hafi sett kodda yfir andlit hennar.
Ákæruliður III.
Ákærði kvaðst muna eftir þessu atviki. Brotaþoli hafi komið heim og ákærði verið heima. Hann hafi verið að horfa á sjónvarpið. Brotaþoli hafi komið til hans og farið að rífast við sig. Þau hafi rifist inni í svefnherbergi eða herbergi drengsins og hún síðan farið út. Hann hafi ekki haft áhuga á því að hafa brotaþola inni á heimilinu. Þau hafi eitthvað tosast á en ákærði hafi ekki verið að ýta henni til eða frá. Ákærði sé stór og hún ýti honum ekkert. Ákærði kvað rétt að hann hafi slegið brotaþola með tempur-kodda. Hann hafi ætlað að slá koddanum í rúmið til að leggja áherslu á orð sín, en hann farið í lærið á brotaþola. Ákærði hafi ekki ætlað að slá í hana og beðist fyrirgefningar. Hann vilji ekki meiða neinn. Þau hafi fyrst rifist inni í stofu, hann hafi elt hana inn á gang þar sem hún var að taka saman eitthvert dót og rifrildið hafi bara verið úti um allt hús. Þau hafi rifist og endað inni í hjónaherberginu og síðan inni í herbergi eldri drengsins. Hún hafi þar ýtt í ákærða, sem hafi rekið sig í hníf sem festur var upp á korktöflu og hann dottið niður. Hann hafi fest hnífinn aftur upp. Ákærði kvaðst hafa séð síma brotaþola í rúminu eftir að hún var farin og hann farið með símann til hennar síðar ásamt einhverju dóti sem annað hvort barnið vantaði í skólann daginn eftir. Ákærði kvað aðspurður brotaþola hafa sparkað í sig inni í svefnherbergi og hann þá tekið af henni annan skóinn. Síðar í skýrslunni kvað ákærði skóinn hafa dottið af henni þegar hann greip í fót hennar og hann hent skónum hinum megin í herbergið. Hún hafi því farið á öðrum skónum út. Venjulega sé gengið inn í húsið í gengum bílskúrinn en þau hafi endað inni í anddyri og brotaþoli farið þaðan út á öðrum skónum. Ákærði sagði brotaþola tala um að þetta hafi tekið klukkustund en honum hafi fundist þetta taka styttri tíma. Ákærði kvaðst ekki muna hvort hún hafi farið með það dót sem hún kom til að sækja. Ákærði kvaðst ekki hafa haldið brotaþola inni í húsinu, hann hafi viljað að hún færi út. Ákærði kvaðst ekki hafa tekið brotaþola hálstaki umrætt sinn. Ákærði kvaðst ekki hafa hent brotaþola út en hann hafi örugglega sagt við hana að „drulla sér út“ þegar hún fór. Þá kvað hann það rétt eftir sér haft hjá lögreglu að hafa ýtt henni út eins og óþekkum krakka.
Vitnið A lýsti þessum ákærulið þannig að það hafi verið farið frá ákærða á þessum degi en þurft að fara heim til að sækja læknagögn fyrir yngsta drenginn en hann hafi átt tíma í læknisskoðun daginn eftir. Ákærði hafi verið heima, brjálaður, þar sem hún var farin frá honum. Vitnið hafi farið inn í sjónvarpsherbergi og verið að leita að gögnunum þegar ákærði hafi komið, tekið lyklaborð og brotið þannig að oddhvassir endar hafi staðið út. Ákærði hafi beint lyklaborðinu að vitninu og það ætlað að koma sér inn á svefnherbergisganginn þegar ákærði hafi tekið í vitnið og byrjað að henda því til og frá í veggina. Vitnið hafi lent inni í herbergi hjá elsta syni þeirra. Ákærði hafi tekið veiðihníf sem var uppi á vegg, tekið hann úr hulstrinu og beint að vitninu og öskrað af hverju hann ætti ekki að gera þetta. Vitnið hafi svarað því til að það viti það ekki, það gæti ekki meira. Ákærði hafi hent vitninu aftur fram á gang og síðan inn í svefnherbergi. Þar hafi ákærði hent vitninu aftur á bak í rúmið, lyft vitninu upp og hent því aftur í rúmið. Það hafi hann endurtekið nokkrum sinnum. Ákærði hafi tekið tempúr-koddann og lamið vitnið með honum í mjaðmir og læri. Vitnið hafi þá reynt að finna síma sinn í vasanum og reynt þannig að hringja en ákærði hafi séð það og tekið símann af vitninu. Ákærði hafi sest klofvega ofan á vitnið þannig að það hafi verið fast með hendurnar meðfram líkamanum. Ákærði hafi tekið koddann og ætlað að setja yfir andlit vitnisins. Ákærði hafi síðan troðið fingrum sínum upp í munn brotaþola og brotaþoli kúgast við það. Vitnið hafi þá bitið ákærða til blóðs og ákærði þá öskrað að vitnið væri ekkert betra en hann með ofbeldið. Ákærði hafi tekið annan skóinn af vitninu og hent honum í vegginn við hliðina á því. Ákærði hafi hent henni aftur fram og utan í alla veggina þar. Þegar þau voru komin fram að anddyrinu, hafi ákærði hent vitninu þar til og að lokum hent því út úr húsinu á öðrum skónum. Vitnið kvaðst aldrei hafa fengið tækifæri til að finna gögnin sem það kom til að sækja. Hafi þessi atlaga staðið yfir í um klukkustund. Vitnið kvaðst ekki hafa getað yfirgefið húsið, það hafi ekki roð í ákærða, hann hafi svo mikla yfirburði. Ákærði hafi sífellt öskrað á vitnið: „Hvað gerir þig að betri manneskju en mig?“ Vitnið kvaðst hafa verið í þykkri dúnúlpu sem var rennd upp í háls og því hafi ekki séð mikið á því. Það hafi þó verið með handarför á handleggjunum eftir þetta. Ákærði hafi tekið vitnið hálstaki með lófanum en utan yfir úlpuna. Vitnið kvaðst hafa farið eftir þetta til móður sinnar og skýrt henni frá atvikum. Þá hafi vitnið einnig sagt I og C, vinkonum sínum, frá þessu atviki. Vitnið kvaðst hræðast ákærða mikið og hafa lifað í mörg ár við ofbeldið en falið það. Þau séu búin að vera saman frá því að þau voru unglingar og hún falið ofbeldið en þegar hún var orðin hrædd um líf sitt hafi hún sagt frá. Aðspurt kvað vitnið ákærða hafa tekið símann af sér og minnti vitnið að ákærði hafi komið síðar með símann til vitnisins.
Vitnið F, móðir brotaþola, gaf skýrslu fyrir dóminum. Kvaðst vitnið hafa verið heima hjá ákærða og brotaþola fyrr þennan dag en hún hafi verið að sækja ferðatösku þar sem elsti sonur aðila átti að fara utan daginn eftir með vitninu. Hafi ákærði komið með ferðatösku og vitnið spurt hvort hann ætti ekki aðra stærð af tösku. Ákærði hafi reiðst og grýtt töskunni inn svefnherbergisganginn með þeim afleiðingum að hún brotnaði. Yngri börnin hafi verið viðstödd. Vitnið kvaðst ætíð hafa getað talað ákærða til þegar hann var í ham og því hafi vitnið reynt það í þetta sinn en ekki tekist. Ákærði hafi verið mjög reiður og óviðræðuhæfur. Vitnið kvað dóttur sína hafa komið heim til sín eftir þetta og gist þar með börnin. Brotaþoli hafi þurft að sækja eitthvað heim til ákærða síðar um daginn en vitnið mundi ekki hvað það var. Faðir brotaþola hafi hringt í sig nokkru eftir að brotaþoli fór og hafi haft áhyggjur af henni þar sem hún svaraði ekki síma. Hann hafi sagt vitninu að hann ætlaði heim til hennar þar sem hún hafi verið búin að vera nokkuð lengi á heimilinu án þess að svara í símann. Brotaþoli hafi komið nokkru síðar heim og vitnið þá hringt í föður brotaþola og látið vita að hún væri komin. Hafi brotaþoli verið um klukkustund í burtu, vitnið mundi það ekki nákvæmlega. Vitnið kvað brotaþola hafa átt mjög erfitt andlega eftir þetta en hún hafi flutt alfarið heim til vitnisins daginn áður en síðasta atvikið átti sér stað. Yngsta barnið tali mjög mikið um atvikin, þegar hann var að bíta og klóra föður sinn þegar hann væri vondur við mömmu, og sitji atvikin mjög í barninu. Eldri börnin séu lokaðri og ræði minna um þetta. Vitnið kvað ástandið á heimili brotaþola hafa verið mjög erfitt síðustu ár og brotaþoli oft hringt til sín og beðið um að elsta barnið mætti koma og gista þegar brotaþoli fann að spennan eða ástandið var að fara í þennan farveg. A sé búin að eiga mjög erfitt andlega eftir þetta en í dag sé hun sterkari en nokkru sinni áður.
D kvaðst hafa hringt í brotaþola margoft þennan dag og brotaþoli ekki svarað símanum. Honum hafi ekki litist á það og hringt í móður brotaþola og spurt um hana. Móðir hennar hafi sagt sér að brotaþoli hafi farið heim til sín um klukkustund áður. Vitnið hafi þá sagt að þá væri ekki allt í lagi og lagt af stað heim til þeirra. Rétt áður en hann kom á heimili þeirra hafi móðir brotaþola hringt í sig og sagt sér að brotaþoli væri komin til baka. Hafi þar liðið um klukkustund.
Vitnið I mundi til þess að brotaþoli hafi hringt til sín og sagt sér frá atviki þegar ákærði tók af henni símann. Þá kvað vitnið ástandið hafa verið mjög erfitt eftir að brotaþoli flutti út af heimilinu. Vitnið kvaðst oft vera heima hjá brotaþola þegar ákærði kæmi eða skilaði börnunum og oft væru læti en brotaþoli treysti sér ekki til að vera ein á heimilinu þegar ákærða væri von. Því væri vitnið stundum heima hjá brotaþola að hennar beiðni.
Ákæruliður IV.
Fyrir dóminum lýsti ákærði þessu atviki svo að hann hafi sótt börnin á leikskóla og farið með þau heim. Tveir vinir telpunnar hafi komið í heimsókn og þau verið að leika sér inn í herbergi. Ákærði hafi verið að horfa á sjónvarpið með yngsta barninu. Allt í einu hafi brotaþoli og vinkona hennar komið inn án þess að heilsa og kallað á stelpuna og sagt henni að hún væri að fara í mat til ömmu sinnar og þar fengi hún prinsessubók eða eitthvað. Ákærði hafi mótmælt þessu og sagst vera búinn að skipuleggja annað. A hafi farið inn í herbergi og C hafi farið inn til J. J hafi komið fram og C sagt vinum J að fara heim. Í því hafi ákærði tekið yngsta barnið upp og labbað inn í svefnherbergi ásamt J. Ákærði hafi reynt að loka hurðinni að sér en ekki náð því og staðið upp við hurðina með bakið. Þá hafi ákærði og A verið farin að rífast og öskra. B hafi orðið æstur og J farið að gráta því að hún hafi viljað fá prinsessubókina sína. Ákærði hafi því opnað hurðina og hleypt þeim fram. A hafi þá skellt hurðinni á höndina á sér og hann orðinn afskaplega sár og pirraður og viljað hafa krakkana hjá sér. Ákærði hafi farið fram og verið ósáttur við A fyrir að taka börnin. Hann hafi farið fram í bílskúr þar sem þau hafi verið að klæða sig og fara út. Allir hafi verið farnir út en A verið í bílskúrshurðinni á leiðinni út úr skúrnum og ákæri þá togað í öxlina á henni og öskrað á hana. Í því hafi C komið inn í bílskúrinn og tekið utan um A. Ákærði hafi sagt henni að láta A vera. Hann hafi togað þær í sundur, haldið C og togað í A. A hafi hrasað um skótau sem var þar og hann hrasað með henni. Það gæti verið að hann hafi lent með hnéð á maganum eða lærinu á henni. Ákærði hafi aldrei hrist hana né slengt henni niður. C hafi sagt við sig að hún myndi hringja í lögreglu og hann hafi sagt henni að það væri fínt. Hann hafi staðið þarna og öskrað og um leið og hann varð var við B hafi hann hætt. Enginn tilgangur hafi verið með því að taka A inn í bílskúr nema þá að klára málið þar, þar sem krakkarnir hafi verið komnir út. Ákærði kvað rétt vera að ísskápur væri í bílskúrnum og það gæti verið að þau hafi lent utan í honum. Ákærði kvað möguleika á því að B hafi reynt að bíta sig en hann hafi ekki orðið var við það, hann hafi komið aftan að sér. Ákærði kvað vel geta verið að eymsli í brjóstkassa brotaþola hafi komið þegar hann datt en það hafi verið óvart. Ákærði kvaðst vera 198 cm á hæð og líklega verið um 115 kg á þessum tíma. Ákærði kvað þau hafa verið að skilja á þessum tíma. Enginn umgengnissamningur hafi verið kominn á en ákærði hafi haft tíma til að vera með börnin þennan dag og viljað það. Ákærði neitaði því að áverkar á C væru af hans völdum. Hann hafi aldrei orðið var við að hún hafi dottið.
Vitnið A lýsti þessu svo að hún hafi verið í vinnu og frétt að ákærði hafi sótt börnin á leikskóla. Vitnið hafi ekki þorað eitt heim til ákærða til að sækja börnin og því beðið vinkonu sína, C, að koma með sér. Ákærði hafi verið búinn að vera drukkinn lengi áður og ekki verið í neinu standi til að vera með börnin. Þær hafi komið heim til ákærða en ákærði farið með krakkana inn í herbergi og lokað að sér. Vitnið hafi reynt að opna hurðina en ákærði lokað á sig. Börnin hafi verið farin að öskra og gráta þar inni. Þá hafi C hringt í lögregluna. Ákærði hafi allt í einu hleypt yngri drengnum fram þar sem hann hafi verið farinn að ráðast á föður sinn. Nokkru síðar hleypti hann stelpunni fram. Þau hafi verið komin inn í bílskúr, börnin farin út ásamt C þegar ákærði hafi tekið í úlpu vitnisins og dregið það inn í bílskúrinn og ætlað að loka hurðinni á eftir þeim. C hafi þá stokkið á vitnið og haldið utan um það. Ákærði hafi hent þeim fram og til baka í bílskúrnum, á ísskáp, hurð og veggi. Þær hafi lent á gólfinu og ákærði þá látið C í friði. Ákærði hafi tekið með báðum höndum um herðar eða axlir vitnisins og hent því aftur og aftur niður í steypt gólfið í bílskúrnum. C hafi komist á fætur og líklega hlaupið út til að athuga með börnin. Ákærði hafi haldið vitninu í gólfinu og staðið með fótinn á læri vitnisins og dregið vitnið upp og hrint því aftur í gólfið. Ákærði hafi tekið vitnið hálstaki þarna og C komið og sagt að búið væri að hringja á lögregluna. Sonur þeirra hafi komið inn og staðið fyrir aftan pabba sinn og reynt að bíta hann til að reyna að stoppa hann. Eins og hendi væri veifað hafi ákærði hætt og farið inn. Þær hafi farið út, tekið börnin og farið heim til móður vitnisins. Lögreglan hafi komið þangað. Vitnið ásamt C hafi farið í kjölfar þess á slysadeild. Vitnið kvaðst hafa verið með marbletti eftir þetta en það hafi einnig verið með eldri marbletti frá 21. nóvember. Vitnið kvað líðan sína ekki vera góða. Það væri enn skíthrætt við manninn eftir þetta og sagðist alltaf hafa einhvern heima hjá sér þegar hann skilar eða sækir börnin. Í þau örfáu skipti sem það hafi ekki verið þá hafi hún alltaf haft einhvern í símanum til að fylgjast með. Vitnið væri með öryggiskerfi heima hjá sér og gægjugat sem það gæti ekki verið án. Forsjá barnanna væri sameiginleg og með hálfsmánaðar umgengni. Vitnið kvaðst hafa fengið aðstoð frá áfallateymi LHS og farið í nokkur skipti til K. Þá hafi vitnið farið til L sálfræðings í nokkuð mörg skipti. Vitnið væri gríðarlega hrætt og kvíðið og alltaf með áhyggjur af börnunum þegar þau væru hjá ákærða. Maðurinn væri lasinn og ætti við drykkjuvandamál að stríða. Vitnið kvaðst hafa átt við svefnvandamál að stríða, sofið illa og lítið í tvö ár og hafi þurft að kljást við martraðir í nokkra mánuði með ákærða um hálsinn á sér. Vitnið kvað yngsta drenginn enn í dag ræða um árásir föður síns og tala um að hann hafi klórað pabba sinn til að hjálpa vitninu. Enn tali drengurinn um það þegar hann var að hjálpa móður sinni. J, sem sé í miðjunni af börnunum, sé lokaðri en yngri drengurinn en vitninu hafi verið sagt að hún þurfi aðstoð síðar meir en þetta hafi verið mjög erfitt fyrir hana. J og eldri drengurinn fái enn aðstoð í skólanum og komi prestur reglulega til að ræða við þau vegna þessa á vegum skólans. Vitnið kvað þau alltaf hafa gengið fyrst inn í bílskúrinn þegar gengið væri inn í húsið og þaðan væri innangengt inn í íbúðina. Það hefði verið þeirra reglulegi inngangur. Vitnið kvaðst hafa flutt af heimilinu 20. nóvember 2012. Börn þeirra væru fædd árin 2002, 2006 og 2008.
Vitnið C lýsti þessu svo fyrir dóminum að hún hafi farið, að beiðni A, heim til hennar þennan dag til þess að sækja börnin. A hafi ekki þorað að fara ein en ákærði hafi sótt börnin á leikskóla en elsti drengurinn hafi ekki verið heima. Þegar þær komu heim hafi ákærði farið með börnin inn í svefnherbergi og neitað að afhenda þau. Ákærði og A hafi deilt um það en eftir nokkra stund hafi ákærði ýtt yngra barninu út úr herberginu og lokaði sig og J aftur inni í herberginu. Eftir eftir nokkra stund hafi ákærði hleypt J út úr herberginu. Þær hafi þá flýtt sér út með börnin. Þegar þau voru komin öll út, hafi vitnið orðið vart við að ákærði kippti aftan í A, þar sem hún var að fara út um bílskúrshurðina, og tekið hana inn í bílskúrinn. Vitnið hafi því hent sér á A og haldið í hana en vitnið hafi verið hrætt um líf A ef ákærði næði að loka þau inni í bílskúrnum. Ákærði hafi rifið í þær báðar, þar sem vitnið hélt sér í A, og hent þeim til og frá í bílskúrnum. Þær hafi lent á ísskáp og dottið í gólfið en ákærði hafi rifið þær í sundur. Ákærði hafi haldið í axlarhæð í úlpu A og slegið henni aftur og aftur í gólfið og öskrað í sífellu: „Hvað gerir þig svona miklu betri en mig?“. Minnti vitnið að ákærði hafi sett vinstra hné sitt ofan á A á meðan hann var að lyfta henni upp og hafi vitnið líka orðið fyrir höggi þá þar sem það hélt enn í A. B, fjögurra ára, hafi hangið aftan á pabba sínum og beðið hann um að láta mömmu sína vera. Vitnið hafi öskrað á ákærða og sagt honum að lögreglan væri á leiðinni. Vitnið kvaðst hafa séð áverka á brotaþola eftir árásina. Þá hafi ákærði tekið A hálstaki þannig að hann herpti að barka hennar með hálsmáli úlpunnar. Á einhverjum tímapunkti hafi vitnið komist út að leita að J og tekið B með sér. J hafi setið bak við bíl í hnipri og grátið. B hafi hlaupið strax aftur inn í bílskúr. Vitnið hafi sagt J að bíða og ekki koma inn í bílskúrinn en vitnið hafi farið aftur inn í bílskúrinn og hafi ákærði þá skyndilega hætt árásinni og farið inn í húsið. Þau hafi þá öll farið inn í bíl og farið heim til móður A. Vitni hafi þá aftur hringt í lögregluna og látið vita að þær væru á leiðinni á annan stað. Lögreglan hafi síðan komið og tekið af þeim skýrslur. Í kjölfar hafi þær A farið á slysadeild.
Vitnið L, geðhjúkrunar- og fjölskyldufræðingur, kvað A hafa verið vísað til sín frá K, sálfræðingi hjá bráðadeildinni. Hafi vitnið unnið með A eftir langvarandi heimilisofbeldi en hún hafi þá búið heima hjá móður sinni og stjúpföður. Hafi vitnið unnið með sjálfsmynd A en hún hafi t.d. átt við martraðir að stríða eftir að hún fór frá ákærða. Hafi vitnið hitt A sjö sinnum auk þess að heimaverkefni hafi verið unnin hjá A. Staðfesti vitnið vottorð sitt.
Vitnið M lögreglumaður kvaðst hafa gert frumskýrslu í málinu vegna þessa atviks. Tilkynnt hafi verið um heimilisofbeldi og lögreglan hitt þolanda hjá foreldrum hennar.
Vitnið N lögreglumaður sagðist hafa farið í útkall vegna tilkynningar um heimilisofbeldi heima hjá ákærða. Vitnið hafi hitt konu sem sagðist hafa orðið fyrir ofbeldi af hálfu eiginmanns síns. Þar hafi vinkona hennar einnig verið. Vinkonan hafi sagt sér að þær hafi farið heim til ákærða til að sækja börnin þar sem ákærði hafði sótt þau á leikskóla. Þar hafi ákærði læst sig inni í herbergi með börnin. Síðan hafi ákærði hleypt yngsta barninu út þar sem hann hafi bitið ákærða. Þær hafi síðan komist út og farið heim til móður A.
Vitnið O læknir kom fyrir dóminn og staðfesti vottorð sín. Vitnið kvaðst hafa hitt A við komu á slysadeild. Lýsti hann þeim áverkum sem sýnilegir voru og koma fram í vottorði vitnisins. A hafi lýst fyrir sér árás ákærða eins og tekið er upp í vottorðinu. Kvað vitnið áverkana samrýmast vel frásögn A. Hún hafi verið miður sín yfir þessu og sagt sér að þetta hafi margoft komið fyrir áður. Vitnið kvaðst hafa skoðað C þegar hún leitaði á slysadeild. C hafi lýst atvikum eins og haft er eftir henni í vottorði vitnisins. C hafi verið aum í vinstri hlið en einkennin verið minni en hjá A. Áverkar á henni samrýmist frásögn hennar af atburðinum.
Vitnið K, hjúkrunarfræðingur hjá áfallamiðstöð LSH, kom fyrir dóminn og staðfesti vottorð sitt sem liggur fyrir í málinu. Kvað vitnið áfallamiðstöð LSH fá tilvísanir frá slysa- og bráðadeild ef starfsfólk þar meti ástand þess sem þangað leitar eftir áfall þannig að það þurfi frekari aðstoð. A hafi verið vísað til vitnisins og hafi þær hist þrisvar sinnum og einnig talað saman í síma frá 5. desember 2012 til 7. janúar 2013. Vitnið kvaðst hafa framkvæmt mat á sálrænu ástandi A, kvíða og depurðareinkennum og áfallastreitu. Áður en próf sé lagt fyrir um áfallastreitu er metið hvort viðkomandi hafi orðið fyrir áfalli áður en lengra sé haldið. Tvívegis hafi slíkt próf verið lagt fyrir A. Í fyrra skiptið hafi verið vísbending um mjög alvarlega áfallastreituröskun og aftur 13. desember 2012 hafi slík einkenni áfram verið til staðar. Varðandi depurðareinkenni þá fylgja þau gjarnan með þegar fólk skorar svo hátt við könnun á áfallastreitu en depurðareinkenni A hafi farið minnkandi þegar á leið. Varðandi kvíða þá hafi hann aukist mjög en það gæti verið vísbending um óvissu um framtíðarhorfur, hvar hún myndi búa og miklar áhyggjur vegna barnanna. Hafi A skorað 7. janúar 2013 gríðarlega hátt á kvíðaskalanum. Í framhaldi hafi A verið bent á að leita sér hjálpar hjá sálfræðingi, sem hún hafi gert. Áfallamiðstöðin veiti ekki slíka meðferð innan spítalans. Aðspurt kvað vitnið að þegar kvíðinn er svo mikill og depurðareinkenni koma fram þá sé ljóst að fólk þurfi langvarandi meðferðarvinnu. Það fari þó eftir öðrum utanaðkomandi aðstæðum.
Vitnið P félagsráðgjafi gaf símaskýrslu fyrir dóminum og kvaðst hafa rætt við börn A í kjölfar atviksins en vitnið hafi verið kallað til af hálfu barnaverndarnefndar. Vitnið hafi rætt fyrst við börnin heima hjá móðurömmu þeirra. Þau hafi verið í miklu áfalli og sjokki yfir því sem þau urðu vitni að. Þau hafi viljað tala um þetta og mikil geðshræring verið. Vitnið hafi síðar rætt við eldri drenginn og hafi hann staðfest að hann hafi orðið vitni að ofbeldi þótt hann hafi ekki orðið vitni að atvikinu 26. nóvember. Þá hafi verið ljóst að börnin hafi þurft áframhaldandi aðstoð sem hafi verið veitt af hálfu félagsmálayfirvalda. Vitnið kvað B hafa sagt sér að hann hafi bitið pabba sinn og ráðist á hann í síðasta tilvikinu. Vitnið staðfesti vottorð sitt.
Önnur sýnileg sönnunargögn.
Ákæruliður I.
Ljósmyndir af mari á vinstri og hægri upphandlegg liggja fyrir í málinu, ódagsettar auk dagbókarfærslu lögreglu.
Ákæruliður II.
Dagbókarfærsla lögreglu liggur fyrir þar sem móðir A óskar eftir aðstoð lögreglu á heimili aðila vegna heimilisofbeldis. Kemur þar fram að A hafi tjáð lögreglu að ákærði hafi sett sængina yfir höfuðið á henni og hún átt erfitt með að ná andanum um tíma. Hafi börn verið á heimilinu og verið brugðið við lætin en A mjög skelkuð.
Ákæruliður IV.
Vottorð O læknis, dagsett 4. janúar 2013, vegna C, liggur fyrir í málinu. Segir þar að C hafi leitað á bráðadeild eftir að hafa farið með vinkonu sinni til fyrrverandi sambýlismanns hennar til að sækja börn hennar til hans. Maðurinn hafi gengið í skrokk á brotaþola og við það skellt þeim báðum í gólfið nokkrum sinnum. Hafi C fengið högg á vinstri hlið líkamans og kvartaði hún yfir óþægindum í hálsi og herðablaði vinstra megin auk höfuðverks. Í liðnum „Greiningar“ er tiltekinn yfirborðsáverki á hálsi og tognun og ofreynsla á brjósthrygg.
Vottorð O læknis, dagsett 20. febrúar 2013, vegna A, liggur fyrir í málinu. Segir í vottorðinu að brotaþoli hafi komið á bráðamóttöku klukkan 21:06 þann 26. nóvember 2012. Lýsti brotaþoli langvarandi ofbeldi en sagðist ekki hafa leitað sér aðstoðar fyrr. Lýsti brotaþoli því að hún hafi orðið fyrir líkamsárás af hálfu barnsföður síns þennan sama dag á milli klukkan 17:00 og 18:00. Þá hafi hann beitt hana ofbeldi fimm dögum áður. Lýsti brotaþoli árás ákærða samkvæmt ákærulið IV. Í liðnum „Greiningar“ segir í vottorðinu að það sé yfirborðsáverki á hálsi, mar á brjóstkassa, mar á öxl og upphandlegg, yfirborðsáverki á baki og tekið fram að um sé að ræða líkamsárás þar sem aflsmunar er neytt - heima. Í samantekt og áliti segir að brotaþoli hafi virst í uppnámi eftir líkamsárásina. Það hafi verið að finna marbletti á vinstri upphandlegg. Að auki hafi verið að finna mar og tognunareinkenni víða á líkamanum.
Tvær upptökur frá Neyðarlínunni um beiðni um aðstoð að [...], þann 26. nóvember 2012, klukkan 17:40 liggur fyrir þar sem C hringir og óskar eftir aðstoð vegna heimilisofbeldis. Í seinna símtalinu bað C um að aðstoðin kæmi að [...] á [...], en þær hafi náð að flýja frá [...].
Ljósmyndir af heimili aðila, bílskúr og herbergi liggja fyrir.
Vottorð K hjúkrunarfræðings, dagsett 28. ágúst 2013, liggur fyrir. Segir þar að A hafi verið vísað til Áfallamiðstöðvar Landspítala af hjúkrunarfræðingi á slysa- og bráðadeild LSH en þangað hafi hún leitað eftir árás af hendi eiginmanns síns þann 26. nóvember 2012. Hafi A komið í þrjú viðtöl og síðan verið vísað í sálræna meðferð utan LSH. Segir í vottorðinu að fram hafi farið mat á sálrænum einkennum og líðan. Hafi þar komið fram að upplifun og viðbrögð A hafi endurspeglað þau viðmið sem lögð séu til grundvallar fyrsta viðmiðs í greiningu áfallastreituröskunar samkvæmt alþjóðlegum greiningarkerfum. Auk þess greiningarviðtals hafi þrír staðlaðir sjálfsmatskvarðar tvívegis verið lagðir fyrir A til að meta einkenni áfallastreituröskunar, depurð og kvíða. Notaður var PSS-SR sjálfsmatskvarði. Hafi niðurstöður úr þessum tveimur könnunum, sem gerðar voru 5. og 13. desember 2012, sýnt að vísbending væri um mjög alvarlega áfallastreituröskun. BDI-II kvarði, sem mælir alvarleika þunglyndiseinkenna, var lagður fyrir A 5. desember 2012 og 7. janúar 2013. Voru niðurstöður úr báðum prófum þær að vísbending væri um miðlungs einkenni. Voru einkennin þó minni í síðara prófinu. BAI sjálfsmatskvarði, sem metur kvíðaeinkenni, var lagður fyrir A 5. desember 2012 og 7. janúar 2013. Voru niðurstöður úr báðum prófunum þær að vísbendingar væru um alvarleg einkenni kvíða. Í samantekt segir að niðurstöður sjálfsmatskvarða hafi samsvarað vel frásögnum A í viðtölum. Hún hafi virst hreinskilin, trúverðug og samkvæm sjálfri sér. Í ljósi þess hve líðan A hafi verið slæm og út frá niðurstöðum sjálfsmatskvaða, hafi A verið ráðlagt að leita sálrænnar meðferðar vegna sinna einkenna en slík sálræn meðferð sé utan þeirrar þjónustu sem Áfallamiðstöðin veiti. Þá segir að ekki sé hægt að segja til með vissu hve áhrif árásarinnar verði þegar til lengri tíma sé litið en ljóst þyki að atburðurinn hafi haft djúpstæð og víðtæk áhrif á A.
Vottorð L sálfræðings, dagsett 20. maí 2013, liggur fyrir. Segir í vottorðinu að A hafi verið mjög kvíðin og óörugg með sig og fundist hún minni máttar, dregið sig í hlé og átt erfitt með að tjá sig um atburðinn og þá skömm sem hún hafi upplifað þegar hún leitaði sér hjálpar. Hafi A komið í nokkur viðtöl þar sem farið var yfir erfiðleika hennar og fyrrverandi eiginmanns. Hafi A greint frá andlegu og líkamlegu heimilisofbeldi sem hún hafi orðið fyrir af hendi fyrrverandi eiginmanns á meðan þau bjuggu saman en það hafi aukist í tengslum við drykkju hans. Undir það síðasta hafi ofbeldi einnig verið þó að hann væri ekki undir áhrifum áfengis. Kemur fram að á þeim tíma er A var í viðtölum hjá L hafi A búið hjá móður sinni og stjúpa með börnin sín þrjú þar sem hún hafi ekki treyst sér til að búa ein af ótta við að ákærði réðist aftur á hana og vegna ógnana sem hann hafi haft við hana í orðum. Hún treysti sér ekki til að hitta hann án stuðnings frá fjölskyldunni sem sé ávallt til staðar þegar hann sæki börnin. Þá segir í vottorðinu að framan af hafi A átt erfitt með svefn þar sem minningabrot frá árásinni komi í formi martraða og gerist það einstaka sinnum ennþá, þ.e. í maí 2013. Á þeim tíma séu þó breytingar til batnaðar og A sé að vinna sig út úr erfiðleikunum. Þá segir í lokin að A hafi sýnt miklar framfarir enda vel gefin kona og eigi auðvelt með að setja hluti í samhengi og leggi metnað í að vera góð fyrirmynd fyrir börnin sín og standa sig vel í vinnu til að sjá fyrir fjölskyldunni.
Hljóðupptaka liggur fyrir þar sem heyra má á tal ákærða og A á meðan ákærði er inni í herbergi með börnin og A að biðja hann um að sleppa þeim út. Þá heyrist mikill barnsgrátur.
Forsendur og niðurstöður.
Ákæruliður I.
Ákærði krafðist í fyrsta lagi frávísunar á þessum ákærulið frá dómi en til vara sýknu. Taldi hann lýsingu á háttsemi í ákæruliðnum ekki uppfylla skilyrði c-liðar 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008 þar sem segir að í ákæru skuli greina hver sé sú háttsemi sem ákært er út af, hvar og hvenær brotið sé talið framið, heiti þess að lögum og aðrar skilgreiningar og loks heimfærslu þess til laga og stjórnvaldsfyrirmæla, ef því er að skipta. Í ákærunni sé einungis sagt að ákært sé fyrir ólögmæta nauðung og stórfelldar ærumeiðingar með því að hafa 7. febrúar 2012, með ofbeldi, neytt brotaþola inn í baðherbergi og gripið um upphandlegg hennar með tilteknum afleiðingum. Taldi ákærði að það vantaði svo upp á skýrleika ákærunnar að það kæmi niður á vörnum hans. Þessu mótmælti sækjandi.
Í gögnum málsins, sem ákærði fékk afhent við þingfestingu málsins, liggur fyrir lýsing brotaþola á þessari háttsemi ákærða. Þá lýsti faðir brotaþola aðkomu sinni að þessu máli fyrir lögreglu við rannsókn málsins. Að auki lágu fyrir ljósmyndir, sem brotaþoli og faðir hennar sögðu teknar í kjölfar atviksins. Telur dómurinn að þrátt fyrir fátæklegar lýsingar í þessum ákærulið, sé háttseminni nægjanlega lýst þannig að ekki komi að sök við vörn ákærða fyrir dómi. Séu því skilyrði c-liðar 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008 uppfyllt. Verður krafa ákærða um frávísun á þessum ákærulið því hafnað.
Ákærði krafðist sýknu af þessum ákærulið, verði kröfu hans um frávísun hafnað. Ákærði kvað rifrildi hafa verið svo mörg að hann gæti ekki lýst þessu atviki sérstaklega. Þó mundi hann að lögreglan hafi komið einu sinni á heimili þeirra og beðið sig um að fara, sem ákærði hafi gert. Samrýmist það skráningu lögreglu í dagbók um atvikið á þessum tíma. Þá mundi ákærði eftir því að hafa brotið hurð umrætt sinn. Aðspurður fyrir dóminum hvort áverkarnir á ljósmyndunum væru eftir hann, svaraði ákærði: „örugglega“ en hann myndi ekki eftir þessu atviki en hann myndi eftir atviki sem hafi endað inni á baðherbergi þar sem þau voru að rífast og vildu frið fyrir föður brotaþola en hann hafi búið hjá þeim á þessum tíma. Ákærði neitaði því að hafa beitt brotaþola ofbeldi í það sinn og einnig að faðir brotaþola hafi skipt sér af þeim. Fer það í bága við framburð brotaþola og vitnisins D, sem kvaðst hafa í þetta sinn gengið á milli þeirra inni á baðherbergi. Þrátt fyrir tengsl brotaþola og vitnisins D telur dómurinn framburð hans trúverðugan. Þá kvaðst ákærði muna eftir því að hafa tekið síma af brotaþola inni á baðherbergi þegar þau rifust. Er framburður ákærða fyrir dóminum að nokkru óljós en styður framburð brotaþola um það að ákærði hafi dregið hana inn á baðherbergi umrætt sinn með þeim afleiðingum að hún var með marbletti á upphandleggjum eftir atvikið. Er framburður brotaþola fyrir dóminum trúverðugur og í samræmi við frásögn hennar hjá lögreglu og önnur gögn málsins. Telur dómurinn það hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem lýst er í þessum ákærulið. Verður ákærði því sakfelldur fyrir þessa háttsemi.
Brot ákærða er heimfært til 225. og 233. gr. b almennra hegningarlaga. Dómurinn telur sannað að ákærði hafi dregið brotaþola með sér inn á baðherbergi og haldið henni þar, þar til faðir brotaþola kom inn og gekk á milli þeirra. Þykir dóminum enginn vafi leika á því, að með því að hafa dregið brotaþola inn á baðherbergi og halda henni, eins og lýst er í ákærunni, sem stutt er framburði föður hennar, hafi hann hindrað hana í að komast út af baðherberginu. Með þessu hafi ákærði gerst brotlegur við 225. gr. almennra hegningarlaga. Ákærði beitti þar með líkamlegum yfirburðum sínum en hann er 198 cm á hæð og kvaðst hafa verið um 115 kg á þessum tíma en brotaþoli 160 cm á hæð og um 62 kg á þessum tíma.
Í ákæruliðnum er háttseminni lýst og heimfærð til 225. gr. almennra hegningarlaga. Þá er brotið í ákæru einnig heimfært til 233. gr. b. almennra hegningarlaga. Í því ákvæði segir að sá sem móðgar eða smánar maka sinn eða fyrrverandi maka, barn sitt eða annan mann sem sé nákominn geranda, og verknaður verður talinn fela í sér stórfelldar ærumeiðingar, skuli sæta fangelsi allt að tveimur árum. Í ákæru er ekki lýst broti gegn 233. gr. b. almennra hegningarlaga og þegar af þeirri ástæðu verður brot ákærða ekki heimfært undir það ákvæði laganna.
Ákæruliður II.
Ákærði neitar sök í þessum ákærulið. Ákærði lýsti því þó fyrir dóminum að hann og brotaþoli hafi rifist þetta kvöld, hún farið inn í rúm þar sem yngsta barnið þeirra var og hann komið á eftir henni. Framburði ákærða fyrir lögreglu og dómi ber ekki saman en fyrir lögreglu kvaðst hann ekki hafa farið upp í rúmið en fyrir dómi kvaðst hann hafa legið fallega uppi í rúminu. Hann hafi tekið fiðurkodda og sett augnablik fyrir andlit brotaþola og hann kannaðist við að drengurinn hafi grátið og verið hræddur. Var drengurinn þriggja ára. Brotaþoli kvað hins vegar ákærða hafa tekið tempúr-kodda, sem sé þungur, og þrýst honum að andliti sínu. Hafi hún verið hrædd um líf sitt og þegar hún komst undan hafi hún læst sig inni á baðherbergi með barnið og hringt í móður sína. Fær sá framburður stoð í framburði móður hennar sem kvað brotaþola hafa hringt í sig og sagt ákærða hafa sett kodda fyrir andlit sitt. Var framburður móður brotaþola trúverðugur um þetta. Framburður lögreglu um þetta atvik styður einnig framburð brotaþola og móður hennar. Hvort sem notaður var tempúr-koddi eða fiðurkoddi, viðurkenndi ákærði fyrir dóminum að hafa sett kodda fyrir andlit brotaþola og lýsti hann því einnig aðspurður að hún hafi spriklað við það. Þá staðfesti ákærði einnig að drengurinn hafi grátið og verið hræddur. Telur dómurinn, með vísan til trúverðugs framburðar brotaþola, móður hennar, lögreglu og ákærða sjálfs, að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem lýst er í þessum ákærulið. Er háttsemin heimfærð til 217. gr. og 233. gr. b almennra hegningarlaga auk 1. og 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga.
Brot þetta átti sér stað 8. júlí 2012 og var rannsókn lokið í febrúar 2013. Ákæra var gefin út 4. september 2014. Brot gegn 217. gr. almennra hegningarlaga fyrnist á tveimur árum. Samkvæmt ofangreindu er brotið ekki fyrnt. Er háttsemin því réttilega heimfærð til 217. gr. almennra hegningarlaga í ákæru. Eins og rakið er undir ákærulið I, telur dómurinn að þeirri háttsemi sem saknæm er samkvæmt 233 gr. b. laganna, sé ekki lýst í ákærulið þessum. Ekki verður heldur talið sannað að hún feli í sér og uppfylli skilyrði 233. gr. b. þannig að með henni hafi ákærði sýnt af sér stórkostlegar ærumeiðingar. Verður háttsemin því ekki heimfærð til 233. gr. b. almennra hegningarlaga. Eins og háttseminni er lýst í ákæruliðnum telur dómurinn hana hins vegar réttilega heimfærða til 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 en fyrir liggur af framburðum brotaþola, móður hennar og lögreglu að börnin hafi grátið og verið hrædd. Ákærða og brotaþola ber saman um að þriggja ára sonur þeirra hafi verið í rúminu umrætt sinn. Ákærði var ekki viss hvort drengurinn hafi reynt að klóra sig en taldi þó að það gæti verið, hann hafi auðvitað verið skelkaður. Af frásögn brotaþola og með vísan til þess að hún læsir sig inni á salerni með tvö yngstu börnin til að hringja á hjálp, og þess að bókað er í dagbók lögreglu um að börnunum hafi berið brugðið, telur dómurinn að með háttsemi sinni hafi ákærði brotið gegn þeim og því gerst brotlegur við nefnt ákvæði barnaverndarlaga. Þá styður framburður F, sem dómurinn telur trúverðugan, þrátt fyrir skyldleika við brotaþola, að brotið hafi verið gegn börnunum umrætt sinn. Verður ákærði því sakfelldur fyrir þessa háttsemi.
Ákæruliður III.
Ákærði neitaði sök í þessum ákærulið. Ákærði lýsti því fyrir dóminum að brotaþoli hafi komið á heimili þeirra og ætlað að sækja eitthvert dót. Þau hafi rifist og tosast eitthvað á. Ákærði mundi einnig til þess að þau hafi farið út úr sjónvarpsherbergi, inn á svefnherbergisgang, inn í barnaherbergi og síðan inn í svefnherbergi þeirra. Ákærði mundi einnig eftir því að hafa notað tempúr-kodda og barið honum í rúmið en koddinn farið óvart í brotaþola og hann beðist fyrirgefningar á því. Þá kannaðist ákærði við að sími brotaþola hafi orðið eftir í rúminu og að hún hafi farið út á öðrum skónum. Hann hafi örugglega sagt eitthvað ljótt við hana eins og „drullaður þér út“. Var framburður ákærða á reiki um atvik og fegraði hann sjálfan sig ítrekað þar sem hann lýsti því yfir að aldrei hafi staðið til að meiða neinn, það geri hann ekki. Hann lýsti því þó svo að hann hafi öskrað á brotaþola í látunum. Framburður brotaþola um atvik eins og hún lýsti þeim fyrir dómi samrýmist að mörgu leyti framburði ákærða. Þrátt fyrir það, verður ekki talið, gegn neitun ákærða, að ákæruvaldinu hafi tekist að sýna fram á að ákærði hafi brotið gegn frjálsræði brotaþola umrætt sinn. Verður heldur ekki talið sannað gegn eindreginni neitun ákærða að hann hafi gerst sekur um líkamsárás og stórfelldar ærumeiðingar. Ber því að sýkna ákærða af þessum ákærulið.
Ákæruliður IV.
Ákærði lýsti því svo fyrir dóminum að A hafi komið til að sækja tvö yngri börnin en þau hafi verið í góðu yfirlæti hjá sér. Hann hafi farið með þau inn í herbergi sem hafi endað á því að A hafi skellt hurðinni á handarbak hans. Þá hafi hann tekið aftan í úlpu hennar og dregið hana inn í bílskúrinn þar sem hún hafi verið síðust út á eftir C og börnunum og hafi bara ætlað að klára málið þar. Gat ákærði ekki skýrt það frekar hvað hann ætlaði að klára en viðurkenndi að þau hafi tosast eitthvað á og A og hann dottið um skótau. Er framburður ákærða ekki í neinu samræmi við áverkavottorð sem liggja fyrir í málinu.
Bæði A og C lýstu atvikum fyrir lögreglu og dóminum á sama hátt. Þá segja þær báðar frá, hjá lækni á bráðamóttöku sama dag, með sama hætti og fyrir dómi. Staðfesti O að áverkar á A og C væru í samræmi við framburð þeirra. Telur dómurinn framburð brotaþola í þessum ákærulið trúverðugan og í samræmi við önnur rannsóknargögn og framburði. Telur dómurinn sannað að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem lýst er í þessum ákærulið.
Brot ákærða gegn C er heimfært undir 217. gr. almennra hegningarlaga. Er háttsemin réttilega heimfærð til refsiákvæðis og verður ákærði sakfelldur fyrir hana.
Brot ákærða gegn A er heimfært til 225. gr. og 233. gr. b almennra hegningarlaga. Með vísan til röksemda í ákærulið I, er háttsemin réttilega heimfærð til 225. gr. almennra hegningarlaga. Sannað er að ákærði dró A aftur inn í bílskúrinn í þeim tilgangi að „klára málið“ eins og hann orðaði það sjálfur. Með þeirri háttsemi, sem hann sýndi henni, í viðurvist vinkonu hennar, telur dómurinn sannað að ákærði hafi með því og því sem gerðist í framhaldi, smánað A og sýnt af sér þá háttsemi sem lýst er í 233. gr. b. laganna. Er háttsemin því réttilega heimfærð til þess ákvæðis. Þá er háttsemi ákærða einnig heimfærð til 1. og 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga. Eins og atvikum hefur verið lýst voru tvö yngri börn ákærða og A á staðnum þegar ágreiningur aðila hófst, og má á hljóðupptöku heyra mikinn barnsgrát. Þá voru börnin vitni að atlögu ákærða að móður þeirra inni í bílskúrnum og reyndi yngra barnið að stöðva föður sinn með því að bíta hann en eldra barnið faldi sig fyrir utan húsið. Að þessu athuguðu og með vísan til framburðar ömmu barnsins, sem dómurinn telur trúverðugan, og þess að eldri börnin fá meðferð af hálfu skólans vegna afleiðinga heimilisofbeldis, sem ekki hefur verið véfengt af ákærða, þykir sannað að brotið hafi verið gegn börnunum með þeim hætti sem lýst er í 3. mgr. 99. gr. barnalaga. Verður ákærði því einnig sakfelldur fyrir þá háttsemi og gerð refsing fyrir.
Ákærði hefur verið sakfelldur fyrir brot gegn 225. gr., 217. gr. og 233. gr. b. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Voru brotin framin frá 7. febrúar til 26. nóvember 2012.
Samkvæmt sakavottorði hefur ákærða tvívegis verið gerð refsing fyrir ölvunarakstur en þau brot voru framin eftir að ákærði braut af sér samkvæmt ákæru. Verður ákærða því gerður hegningarauki nú og refsing ákvörðuð í samræmi við 77. og 78. gr. almennra hegningarlaga. Ákærði á sér engar málsbætur og hefur leitast við að gera lítið úr atlögum sínum að brotaþola. Með hliðsjón af öllu ofansögðu er refsing ákærða ákveðin fangelsi í níu mánuði.
Háttsemi ákærða nær yfir tæpa tíu mánuði. Var hann ekki kærður fyrr en 26. nóvember 2012. Samkvæmt rannsóknargögnum var rannsókn málsins lokið í mars 2013. Ákæra var ekki gefin út fyrr en 4. september 2014. Engin skýring hefur verið gefin á drætti þessum utan anna hjá ákæruvaldinu. Verður ákærða augljóslega ekki um það kennt. Með vísan til þessa þykir rétt að skilorðsbinda refsinguna þannig að hún falli niður að liðnum tveimur árum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Að þessum niðurstöðum fengnum verður ákærði dæmdur til að greiða allan sakarkostnað, sem er samkvæmt yfirliti 76.000 krónur, auk málsvarnarlauna skipaðs verjanda síns, Bjarna Haukssonar hrl., á rannsóknarstigi og fyrir dómi, sem eru hæfilega ákveðin 694.400 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.
Með vísan til 1. mgr. 218. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 216. gr., laga nr. 88/2008 verður ákærði einnig dæmdur til að greiða þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Katrínar Theodórsdóttur hrl., sem er hæfilega ákveðin 434.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.
Einkaréttarkrafa.
Í málinu gerir A kröfu um að ákærði verði dæmdur til að greiða henni 1.200.000 krónur í miskabætur ásamt tilgreindum vöxtum. Fallið var frá kröfu um greiðslu málskostnaðar við að halda kröfunni uppi en krafist greiðslu þóknunar skipaðs réttargæslumanns. Ákærði mótmælti kröfunni og taldi að vísa bæri henni frá dómi þar sem ekki hafi verið mætt af hálfu bótakrefjanda við þingfestingu málsins. Samkvæmt þingbók mætti sækjandi málsins fyrir hönd bótakrefjanda. Er þessari málsástæðu ákærða því hafnað.
Eins og rakið hefur verið í vottorðum K og L, hefur A orðið fyrir miklu tjóni, andlega og að einhverju leyti líkamlega eins og læknisvottorð O bera með sér. Hefur ákærði sannanlega valdið brotaþola verulegu tjóni andlega sem ekki séð er fyrir endann á. Voru brotin framin á heimili brotaþola þar sem hún gat á engan hátt varið sig eða borið hönd yfir höfuð sér, í tveimur tilvikum að börnum þeirra ákærða ásjáandi. Voru brot ákærða ófyrirleitin. Með vísan til þeirra vottorða, ásamt framburði A fyrir dómi og vitnanna F, I og C, þykir dóminum hæfilegar bætur henni til handa 800.000 krónur. Ekki liggur fyrir að afleiðingar brota ákærða hafi verið að fullu fram komnar fyrr en 26. nóvember 2012 er A kærði ákærða til lögreglu. Verður ákærði því dæmdur til að greiða vexti af ofangreindri fjárhæð samkvæmt 8. gr., sbr. 4. gr., laga nr. 38/2001 frá 26. nóvember 2012 til 27. mars 1013 en ákærða var birt bótakrafan 27. febrúar 2013. Ákærði greiði dráttarvexti frá 27. mars 2013 skv. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 38/2001 til greiðsludags.
Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan ásamt meðdómendunum Gunnari Aðalsteinssyni og Kristni Halldórssyni héraðsdómurum.
D ó m s o r ð :
Ákærði, X, sæti fangelsi í níu mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og skal hún niður falla að liðnum tveimur árum frá birtingu dómsins, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Ákærði greiði allan sakarkostnað, sem er samtals 770.400 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Bjarna Haukssonar hrl., 694.400 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.
Ákærði greiði þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Katrínar Theodórsdóttur hdl., 434.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.
Ákærði greiði A 800.000 króna í miskabætur ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. vaxtalaga frá 26. nóvember 2012 til 27. mars 2013, en með dráttarvöxtum skv. 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.