Hæstiréttur íslands

Mál nr. 691/2016

B og C (Steinn S. Finnbogason hdl.)
gegn
A (Hilmar Magnússon hrl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Lögræði
  • Dómkvaðning matsmanns

Reifun

B og C kærðu úrskurð héraðsdóms þar sem tekin var til greina beiðni A um dómkvaðningu manns til að meta hvort A væri fær um að ráða persónulegum högum sínum eða fé í skilningi a. liðar 4. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Talið var að slíkur vafi væri fyrir hendi um niðurstöðu málsins að rétt væri að verða við beiðni A. Þá þótti varakrafa B og C um að dómkveðja yfirmatsmenn samkvæmt 1. mgr. 64. gr. laga nr. 91/1991 ekki eiga við, þar sem ekki lá fyrir undirmatsgerð í málinu. Var hinn kærði úrskurður því staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Viðar Már Matthíasson og Þorgeir Örlygsson. 

Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 5. október 2016, en kærumálsgögn bárust réttinum 12. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 4. október 2016, þar sem tekin var til greina krafa varnaraðila um að dómkvaddur yrði matsmaður til að „gefa læknisfræðilegt álit á því hvort varnaraðili sé fær um að ráða persónulegum högum sínum eða fé“ í máli sóknaraðila á hendur honum, þar sem krafist er að hann verði sviptur fjárræði. Kæruheimild er í 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðilar krefjast þess aðallega að kröfu varnaraðila um dómkvaðningu matsmanns verði hafnað, en til vara að lagt verði fyrir héraðsdóm að dómkveðja tvo yfirmatsmenn til að leggja mat á framangreint efni. Þá krefjast þau kærumálskostnaðar úr ríkissjóði. 

Varnaraðili krefst aðallega staðfestingar hins kærða úrskurðar, en til vara að lagt verði fyrir héraðsdóm að dómkveðja tvo matsmenn í fyrrgreindum tilgangi. Í báðum tilvikum krefst hann kærumálskostnaðar úr ríkissjóði.

Sóknaraðilar lögðu fyrir héraðsdóm 1. mars 2016 kröfu um að varnaraðili, sem er bróðir þeirra, yrði sviptur fjárræði ótímabundið með vísan til a. liðar 4. gr. lögræðislaga. Í hinum kærða úrskurði er greint frá því að velferðarsvið Reykjavíkurborgar hafi á árinu 2015 krafist þess að varnaraðili yrði sviptur fjárræði og hafi af því tilefni verið leitað eftir mati nafngreinds geðlæknis um hagi hans, en að fengnu mati, þar sem talið hafi verið að ekki væru uppfyllt læknisfræðileg skilyrði til að svipta varnaraðila fjárræði, hafi það mál verið fellt niður. Undir rekstri þessa máls hafi dómari ákveðið að leita aftur álits sama geðlæknis um hagi varnaraðila. Í þetta sinn hafi læknirinn komist að þeirri niðurstöðu að varnaraðili væri svo á sig kominn andlega að leggja yrði eindregið til að hann yrði sviptur fjárræði að minnsta kosti í tvö ár. Að þessu fram komnu krafðist varnaraðili þess að dómkvaddur yrði matsmaður til að „gefa læknisfræðilegt álit á því hvort varnaraðili sé fær um að ráða fjárhagslegum hagsmunum sínum". Með hinum kærða úrskurði varð héraðsdómur við þeirri kröfu gegn andmælum sóknaraðila.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður staðfest niðurstaða hans um að skilyrði séu til að afla matsgerðar um framangreint efni. Um varakröfu sóknaraðila fyrir Hæstarétti er þess að gæta að í fyrrnefndu máli, sem rekið var um kröfu velferðarsviðs Reykjavíkurborgar um að varnaraðili yrði sviptur fjárræði, lét geðlæknir, sem áður var getið, frá sér fara álit í skjali, sem bar fyrirsögnina „læknisvottorð“ og var dagsett 7. apríl 2015. Í upphafi þess var þó tekið upp orðrétt meginmál bréfs Héraðsdóms Reykjavíkur til læknisins frá 11. mars sama ár, þar sem fram kom að hann hafi verið „dómkvaddur til þess að leggja geðlæknisfræðilegt mat á það álitaefni hvort varnaraðili sé ófær um að ráða fé sínu“ og var jafnframt vísað til 62. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála um hvernig læknirinn ætti að standa að þessu verki. Af öðru efni skjalsins verður ekki annað séð en að læknirinn hafi fylgt ákvæðum þessarar lagagreinar við framkvæmd verksins og verður því að líta svo á að skjalið hafi að réttu lagi verið matsgerð dómkvadds manns. Þegar héraðsdómur leitaði á hinn bóginn undir rekstri þessa máls eftir áliti sama geðlæknis var það gert með bréfi, þar sem beðið var „um læknisvottorð til afnota í lögræðismáli“. Þótt fram hafi komið í svari læknisins 22. ágúst 2016 að hann hafi í tengslum við verk sitt haldið matsfund, sem hann nefndi svo, var hér ekki um að ræða matsgerð í skilningi laga nr. 91/1991. Liggur því fyrir í máli þessu ein matsgerð dómkvadds manns. Hennar var aflað í öðru dómsmáli, þar sem aðilar voru ekki þeir sömu og að þessu máli. Að því virtu getur ekki átt hér við að dómkveðja yfirmatsmenn samkvæmt 64. gr. laga nr. 91/1991, svo sem sóknaraðilar hafa krafist til vara, og verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.

Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist kærumálskostnaður úr ríkissjóði eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Kærumálskostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun skipaðs talsmanns sóknaraðila, Steins S. Finnbogasonar héraðsdómslögmanns, og skipaðs verjanda varnaraðila, Hilmars Magnússonar hæstaréttarlögmanns, 124.000 krónur til hvors um sig.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 7. október 2016.

I

Með kæru, dagsettri 5. október 2016, en móttekinni í dag, hefur Steinn S. Finnbogason hdl., fyrir hönd sóknaraðila, B, kt. [...], og C, kt. [...], kært úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur í ofangreindu máli, en úrskurðurinn var kveðinn upp í þinghaldi 4. október sl. og úrskurðarorðið þannig skráð í þingbók:

„Fallist er á kröfu varnaraðila um að dómkvaddur verði sérfróður matsmaður til að gefa læknisfræðilegt álit á því hvort varnaraðili sé fær um að ráða persónulegum högum sínum eða fé í skilningi a-liðar 4. gr. lögræðislaga nr. 71/1997.“

                Úrskurðurinn var kveðinn upp með heimild í 3. mgr. 112. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 8. gr. laga nr. 78/2015, og færði dómari munnlega rök fyrir niðurstöðu sinni. 

II

Atvik málsins eru þau að með bréfi 1. mars 2016 kröfðust sóknaraðilar, sem eru systkini varnaraðila, þess að varnaraðili yrði sviptur fjárræði ótímabundið. Krafa þeirra byggist á því að uppfyllt séu skilyrði a-liðar 4. gr. lögræðislaga, en „varnaraðili sé alls ófær um að ráða fjármunum sínum vegna alvarlegs heilsubrests og líkamlegs og andlegs vanþroska“ eins og segir í kröfubréfi þeirra. Jafnframt er þar ítarlega greint frá heilsufari og félagslegum aðstæðum varnaraðila, fjárhagserfiðleikum hans til margra ára og ábyrgðarleysi í fjármálum. 

                Skipaður verjandi varnaraðila mótmælti kröfunni og taldi að ekki væru fyrir hendi skilyrði a-liðar 4. gr. lögræðislaga til að verða við henni. 

                Í þinghaldi í málinu 8. mars sl. ákvað dómari með vísan til 2. mgr. 11. gr. lögræðislaga að leita eftir vottorði frá D félagsráðgjafa um félagslegar og fjárhagslegar aðstæður varnaraðila, en umræddur félagsráðgjafi starfar hjá Þjónustumiðstöð [...], sem rekin er af Reykjavíkurborg, og hefur um árabil annast málefni varnaraðila. Greinargerð félagsráðgjafans var lögð fram í þinghaldi 3. maí sl. Í sama þinghaldi ákvað dómari að afla vottorðs E geðlæknis til að ganga úr skugga um hvort uppfyllt væru skilyrði lögræðislaga til að verða við beiðni sóknaraðila, en E hafði á árinu 2015 einnig verið verið fenginn til að leggja mat á sömu atriði í lögræðismálinu nr. L-9/2015: Velferðarsvið Reykjavíkurborgar gegn varnaraðila. Niðurstaða mats læknisins í málinu nr. L-9/2015, var að ekki væru uppfyllt læknisfræðileg skilyrði til að svipta varnaraðila fjárræði. Í framhaldi af framlagningu þess var málið fellt niður. Í síðari matsgerð læknisins, sem lögð var fram í þinghaldi í máli þessu 31. ágúst sl., var það hins vegar álit læknisins að varnaraðili væri haldinn mjög alvarlegri persónuleikatruflun sem félli undir skilgreininguna F60.2 – félagsleg persónuleikaröskun. Til viðbótar hefði varnaraðili sýnt af sér merki um andlegan vanþroska og algert innsæisleysi í gerðir sínar. Lagði læknirinn mjög eindregið til að varnaraðili yrði á grundvelli alvarlegrar persónuleikaröskunar sviptur fjárræði til a.m.k. tveggja ára til að byrja með. 

                Í þinghaldi í málinu 23. september sl. lagði skipaður verjandi varnaraðila fram matsbeiðni, þar sem þess var krafist „að héraðsdómur kveðji til sérfróðan matsmann á grundvelli IX. kafla laga nr. 91/1991 til að gefa læknisfræðilegt álit á því hvort varnaraðili sé fær um að ráða fjárhagslegum hagsmunum sínum í skilningi a-liðar 4. gr. laga nr. 71/1991.“ Dómari taldi á þessu stigi að í framlagðri álitsgerð E geðlæknis hefði læknirinn þegar lagt mat á sama atriði og matsbeiðni hljóðaði um, og hafnaði því að mat færi fram. Eftir mótmæli varnaraðili við afstöðu dómara ákvað dómari að gefa aðilum kost á að tjá sig munnlega um kröfu varnaraðila við næstu fyrirtöku málsins 4. október sl. Lögmaður sóknaraðila lagði þá fram bókun, þar sem mótmælt var kröfu varnaraðila um að fram færi nýtt læknisfræðilegt mat. Í þinghaldinu kvað dómari upp úrskurð um að heimila skyldi umbeðið mat og færði munnlega rök fyrir þeirri niðurstöðu.

                Rök dómara voru þau helst að í málinu liggja nú fyrir tvær álitsgerðir sama geðlæknis, E, unnar með rúmlega eins árs millibili. Sú fyrri, sem dagsett er 7. apríl 2015, tók af tvímæli um að ekki væru uppfyllt þau læknisfræðilegu skilyrði sem a-liður 4. gr. lögræðislaga nr. 71/1997 mælir fyrir um til að svipta mætti varnaraðila fjárræði. Í hinni síðari, sem dagsett er 22. ágúst 2016, segir læknirinn á hinn bóginn að varnaraðili sé haldinn mjög alvarlegri persónuleikatruflun, auk þess sem hann hafi sýnt af sér merki um andlegan vanþroska og algert innsæisleysi í gerðir sínar. Leggur hann til að varnaraðili verði af þeim sökum sviptur fjárræði í a.m.k. tvö ár. 

                Samkvæmt 1. mgr. 11. gr. lögræðislaga nr. 71/1997 eru ríkar skyldur lagðar á dómara um að tryggja að mál til sviptingar lögræðis sé rækilega upplýst og að niðurstaða slíks máls verði byggð á traustum grunni. Þá segir í 2. mgr. sömu greinar að dómari skuli sjálfur afla sönnunargagna, svo sem læknisvottorðs ef slíkt vottorð hefur ekki fylgt kröfu um lögræðissviptingu. Ákvæði þessi miða að því að tryggilega verði upplýst hvort fyrir hendi séu þau skilyrði sem 4. gr. lögræðislaga mælir fyrir um til að unnt sé að verða við kröfu um lögræðissviptingu. 

                Eins og fram er komið liggja fyrir í máli þessu tvær misvísandi álitsgerðir sama geðlæknis, unnar með rúmlega árs millibili. Í þeirri fyrri taldi læknirinn að ekki væru uppfyllt skilyrði a-liðar 4. gr. lögræðislaga til þess að svipta varnaraðila fjárræði, en í þeirri síðari leggur hann eindregið til að svo verði gert og færir fyrir því læknisfræðileg rök. Í þessu ljósi, svo og með hliðsjón af dómi Hæstaréttar í málinu nr. 691/2013, telur dómari að slíkur vafi sé fyrir hendi um niðurstöðu málsins, að rétt sé að verða við beiðni varnaraðila um dómkvaðningu annars sérfróðs matsmanns til að leggja mat á hvort uppfyllt séu skilyrði a-liðar 4. gr. lögræðislaga til að verða við kröfu sóknaraðila. 

                Ingimundur Einarsson dómstjóri kvað upp úrskurðinn og er hann saminn í samræmi við fyrirmæli lokamálsliðar 3. mgr. 112. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 8. gr. lag nr. 78/2015.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Fallist er á kröfu varnaraðila um að dómkvaddur verði sérfróður matsmaður til að gefa læknisfræðilegt álit á því hvort varnaraðili sé fær um að ráða persónulegum högum sínum eða fé í skilningi a-liðar 4. gr. lögræðislaga nr. 71/1997.