Hæstiréttur íslands

Nr. 2021-227

Jón Árni Jónsson (Sigurður Jónsson lögmaður)
gegn
Júlíönu Kristínu Kristjánsdóttur (Guðbjarni Eggertsson lögmaður)

Lykilorð

  • Kæruleyfi
  • Gjaldþrotaskipti
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Sigurður Tómas Magnússon, Ása Ólafsdóttir og Björg Thorarensen.

2. Með beiðni 8. september 2021 leitar Jón Árni Jónsson leyfis Hæstaréttar til að kæra úrskurð Landsréttar 30. ágúst sama ár í málinu nr. 476/2021: Jón Árni Jónsson gegn Júlíönu Kristínu Kristjánsdóttur, á grundvelli 2. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um að úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 12. júlí 2021 verði felldur úr gildi en með honum var bú leyfisbeiðanda tekið til gjaldþrotaskipta að kröfu gagnaðila, sbr. 1. tölulið 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991. Krafa gagnaðila var reist á árangurslausri kyrrsetningargerð sem fór fram hjá sýslumanninum á Suðurlandi 28. maí 2021. Gagnaðili hefur höfðað dómsmál á hendur leyfisbeiðanda og Tjaldholti slf. þar sem krafist er riftunar á kaupsamningi aðila 24. maí 2018 vegna fasteignarinnar Miðtúni 16 á Selfossi en gagnaðili telur að eignin hafi verið haldin tilteknum göllum sem staðreyndir hafi verið með mati dómkvadds manns. Í málinu krefst gagnaðili jafnframt skaðabóta vegna galla á fasteigninni en til vara afsláttar. Í úrskurði héraðsdóms kom meðal annars fram að það væri mat dómsins að gagnaðili hefði leitt að því nægjanlegar líkur að hann ætti fjárkröfur á hendur leyfisbeiðanda sem krafa hans um gjaldþrotaskipti hafi verið reist á. Þá væri óumdeilt að árangurslaus kyrrsetningargerð hafi verið gerð hjá leyfisbeiðanda að beiðni gagnaðila og hafi leyfisbeiðandi hvorki sýnt fram á að honum væri kleift að standa við skuldbindingar sínar við gagnaðila eða yrði það innan skamms. Með úrskurði Landsréttar var niðurstaða héraðsdóms staðfest. Talið var að með framlagðri matsgerð dómkvadds manns hefði gagnaðili sýnt nægilega fram á að hann ætti fjárkröfu á hendur leyfisbeiðanda vegna galla á fyrrnefndri fasteign.

4. Leyfisbeiðandi byggir á því að kæruefnið varði mikilvæga almannahagsmuni og hafi fordæmisgildi. Hann vísar til þess að það séu afar mikilvæg mannréttindi að vera fjár síns ráðandi. Gæta þurfi að því að þeir sem telji sig eiga óvissa fjárkröfu á hendur öðrum geti ekki sett fram háa fjárkröfu, gert árangurslausa kyrrsetningargerð og þannig knúið fram gjaldþrotaskipti á búi gagnaðila síns. Með því séu möguleikar hans takmarkaðir til að halda uppi vörnum gegn óréttmætum kröfum sem séu gerðar á hendur honum fyrir dómstólum. Jafnframt telur leyfisbeiðandi að hinn kærði úrskurður sé bersýnilega rangur að efni til þar sem rétturinn hafi gengið of nærri réttmætum hagsmunum hans með því að slá því föstu að matsgerð dómkvadds manns sé nægileg sönnun fyrir því að gagnaðili eigi kröfu á hendur honum. Leyfisbeiðandi hafi skilað greinargerð í málinu og meðal annars krafist yfirmats í því skyni að sýna fram á að málatilbúnaður gagnaðila fái ekki staðist. Leyfisbeiðandi telur því niðurstöðu Landsréttar ranga.

5. Að virtum gögnum málsins verður hvorki talið að kæruefnið varði mikilsverða almannahagsmuni né hafi slíkt fordæmisgildi að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 2. mgr. sömu lagagreinar í málinu. Beiðninni er því hafnað.