Hæstiréttur íslands

Mál nr. 812/2015


Lykilorð

  • Kærumál
  • Frávísunarúrskurður staðfestur
  • Aðildarhæfi


                                     

Fimmtudaginn 7. janúar 2016.

Nr. 812/2015.

RR-Skil

(Jóhannes Karl Sveinsson hrl.)

gegn

Samskilum ehf. og

(Þorsteinn Einarsson hrl.)

íslenska ríkinu

(Ólafur Helgi Árnason hrl.)

Kærumál. Frávísunarúrskurður staðfestur. Aðildarhæfi.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem máli R á hendur S ehf. og íslenska ríkinu var vísað frá dómi. R, sem rak skilakerfi framleiðenda og innflytjenda raf- og rafeindatækja í samræmi við ákvæði laga um meðhöndlun úrgangs nr. 55/2003, höfðaði mál til greiðslu kostnaðar sem R taldi sig hafa orðið fyrir vegna söfnunar úrgangs umfram það sem R taldi sér skylt samkvæmt lögunum. Talið var að líta yrði á R sem almennt félag og að slík félög nytu aðildarhæfis að einkamáli samkvæmt 1. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991, óháð opinberri skráningu um stofnun og slit þeirra. Í málinu lágu hins vegar fyrir upplýsingar sem gáfu til kynna að R hefði verið slitið og hafði félagið ekki mótmælt því sem röngu. Var R því ekki lengur talið njóta aðildarhæfis í skilningi ákvæðisins og málinu vísað frá héraðsdómi.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir, Benedikt Bogason og Karl Axelsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 1. desember 2015, en kærumálsgögn bárust réttinum 15. desember sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 17. nóvember 2015, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðilum var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Stofnun og slit almenns félags eins og um ræðir í tilviki sóknaraðila er ekki háð opinberri skráningu. Að því gættu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur um frávísun málsins frá héraðsdómi. Það leiðir af þeirri niðurstöðu að sóknaraðila brestur aðildarhæfi að hvorki verður dæmdur málskostnaður í héraði né kærumálskostnaður.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur um annað en málskostnað.

Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 17. nóvember 2015.

                Mál þetta, sem var tekið til úrskurðar þann 20. október sl., var höfða með stefnum birtum 11. júní 2013. Stefnandi er RR-Skil, Síðumúla 31 í Reykjavík. Aðalstefndi er Samskil ehf. Klettagörðum 9 í Reykjavík og varastefndi er íslenska ríkið.

Dómkröfur stefnanda eru aðallega að aðalstefndi, Samskil ehf., verði dæmdur til að greiða sér 16.147.201 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 231.155 krónum frá 31. janúar 2010 til 28. febrúar 2010, en af 487.168 krónum frá þeim degi til 31. mars 2010, en af 656.117 krónum frá þeim degi til 30. apríl 2010, en af 1.236.181 krónum frá þeim degi til 31. maí 2010, en af 1.548.512 krónum frá þeim degi til 30. júní 2010, en af 2.153.640 krónum frá þeim degi til 31. júlí 2010, en af 2.675.405 krónum frá þeim degi til 31. ágúst 2010, en af 3.127.809 krónum frá þeim degi til 30. september 2010, en af 3.583.601 krónum frá þeim degi til 31. október 2010, en af 4.491.868 krónum frá þeim degi til 30. nóvember 2010, en af 5.257.460 krónum frá þeim degi til 31. desember 2010, en af 5.665.776 krónum frá þeim degi til 31. janúar 2011, en af 5.901.606 krónum frá þeim degi til 28. febrúar 2011, en af 6.411.533 krónum frá þeim degi til 31. mars 2011, en af 6.872.459 krónum frá þeim degi til 30. apríl 2011,en af 7.365.595 krónum frá þeim degi til 31. maí 2011, en af 8.406.241 krónum frá þeim degi til 30. júní 2011, en af 9.432.420 krónum frá þeim degi til 31. júlí 2011,en af 9.253.830 krónum frá þeim degi til 31. ágúst 2011, en af 10.578.617 krónum frá þeim degi til 30. september 2011, en af 12.456.431 krónum frá þeim degi til 31. október 2011, en af 13.512.497 krónum frá þeim degi til 30. nóvember 2011, en af 14.810.211 krónum frá þeim degi til 31. desember 2011, en af 16.147.201 krónum frá þeim degi til greiðsludags.

Aðalkrafa stefnanda gagnvart varastefnda, íslenska ríkinu, er sú, verði aðalstefnda Samskilum ehf. ekki gert að þola dóm í aðalsök, að varastefndi verði dæmdur til að greiða 16.147.201 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af sömu fjárhæðum og í aðalsök, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af allri fjárhæðinni frá 12. febrúar 2012 til greiðsludags.

Til vara krefst stefnandi þess að stefndu verði dæmd til að greiða sameiginlega 16.147.201 krónur sem skiptist þannig;

a. að varastefndi, íslenska ríkið, greiði 9.432.420 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 231.155 krónum frá 31. janúar 2010 til 28. febrúar 2010, en af 487.168 krónum frá þeim degi til 31. mars 2010, en af 656.117 krónum frá þeim degi til 30. apríl 2010, en af 1.236.181 krónum frá þeim degi til 31. maí 2010, en af 1.548.512 krónum frá þeim degi til 30. júní 2010, en af 2.153.640 krónum frá þeim degi til 31. júlí 2010, en af 2.675.405 krónum frá þeim degi til 31. ágúst 2010, en af 3.127.809 krónum frá þeim degi til 30. september 2010, en af 3.583.601 krónum frá þeim degi til 31. október 2010, en af 4.491.868 krónum frá þeim degi til 30. nóvember 2010, en af 5.257.460 krónum frá þeim degi til 31. desember 2010, en af 5.665.776 krónum frá þeim degi til 31. janúar 2011, en af 5.907.606 krónum frá þeim degi til 28. febrúar 2011, en af 6.411.533 krónum frá þeim degi til 31. mars 2011, en af 6.872.459 krónum frá þeim degi til 30. apríl 2011, en af 7.365.595 krónum frá þeim degi til 31. maí 2011, en af 8.406.241 krónum frá þeim degi til 30. júní 2011, en af 9.432.420 krónum frá þeim degi til 12. febrúar 2012, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af sömu fjárhæð frá þeim degi til greiðsludags.

b.að aðalstefndi, Samskil ehf., greiði 6.714.781 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 1.146.197 krónum frá 31. ágúst 2011 til 30. september 2011, en af 3.024.011krónum frá þeim degi til 31. október 2011, en af 4.080.078 krónum frá þeim degi til 30. nóvember 2011, en af 5.377.791krónum frá þeim degi til 31. desember 2011, en af 6.714.781 krónum frá þeim degi til greiðsludags.

Í öllum tilvikum krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi beggja stefndu að skaðlausu.

Í greinargerð gerir aðalstefndi aðallega þá kröfu að málinu verði vísað frá dómi, til vara að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda en til þrautavara að hann verði sýknaður að svo stöddu. Í öllum tilvikum krefst hann greiðslu málskostnaðar úr hendi stefnanda.

Varastefndi krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda og greiðslu málskostnaðar úr hendi hans en til vara að kröfur stefnanda verði stórlega lækkaðar og málskostnaður verði látinn falla niður. Varastefndi gerir ekki kröfu um frávísun en tók fram við málflutning um frávísunarkröfuna að hann teldi að frávísun gagnvart aðalstefnda leiddi sjálfkrafa til frávísunar á kröfum á hendur honum þar sem kröfur á hendur varastefnda komi þá fyrst til skoðunar að aðalstefndi hafi verið sýknaður.

Frávísunarkröfu aðalstefnda var hafnað með úrskurði dómsins kveðnum upp 23. maí sl. Í þinghaldi þann 10. september gerði aðalstefndi kröfu á nýjan leik um að máli þessu yrði vísað frá dómi en til vara að það yrði fellt niður auk greiðslu málskostnaðar úr hendi stefnanda Varastefndi gerir sömu kröfur og aðalstefndi. Stefnandi mótmælti kröfum stefndu. Í þinghaldi þann 20. október sl. var aðilum gefinn kostur á að reifa nánar sjónarmið varðandi framkomna kröfu um frávísun eða niðurfellingu málsins og að því loknu var málið tekið til úrskurðar.

Helstu atvik og ágreiningsefni málsins eru þau að stefnandi fékk í desember 2008 leyfi til að starfa sem skilakerfi samkvæmt ákvæðum laga nr. 55/2003, um meðhöndlun úrgangs, sbr. breytingu á þeim með lögum nr. 73/2008, sem tóku gildi 1. janúar 2009. Hlutverk skilakerfis samkvæmt nefndum lögum var að kosta geymslu raf- og rafeindatækjaúrgangs, tryggja söfnun og móttöku slíks úrgangs og að hann væri meðhöndlaður af aðilum með gilt starfsleyfi svo sem nánar var kveðið á um í 18. gr. laganna. Framleiðendur og innflytjendur raf- og rafeindatækja báru ábyrgð á að fjármagna og tryggja meðhöndlun úrgangs slíkra tækja. Samkvæmt þágildandi ákvæði 15. gr. laga nr. 55/2003, sbr. b-lið 2. gr. laga nr. 73/2008 skyldu þeir uppfylla skyldur sínar með rekstri eigin skilakerfis eða með aðild að sameiginlegu skilakerfi fleiri framleiðenda og innflytjenda. Markmið með stofnun stefnanda var að reka skilakerfi framleiðenda og innflytjenda raf- og rafendatækja í samræmdi við þágildandi ákvæði III. kafla lag aum meðhöndlun úrgagns nr. 55/2003 svo sem segir í 1. gr. samþykkta þess sem fylgdu umsókn þess til skráningar til fyrirtækjaskrár sem hann sendi ríkisskattstjóra 10. júlí 2008. Aðilar að félaginu geta skv. 4. gr. samþykkta þess verið einstaklingar eða lögaðilar sem falla undir skilgreiningu á framleiðendum og innflytjendum raf- og rafeindatækja í 3. gr. laga nr. 55/2003. Samtök iðnaðarins, Samtök atvinnulífsins, Félag íslenskra stórkaupmanna og Samtök verslunar og þjónustu höfðu forgöngu um félagsstofnunina í júlí 2008.

Til að byrja með var stefnandi eina skilakerfið á landinu en í september 2009 fékk aðalstefndi, Samskil ehf., einnig starfsleyfi frá Umhverfisstofnun til að starfa sem skilakerfi.

Eftir að aðalstefndi hóf rekstur komu upp vandkvæði við að ákvarða skiptingu kostnaðar af söfnun úrgangs þar sem báðir aðilar störfuð á sama svæði og hvorum um sig var skylt að taka við úrgangi, óháð því hvort framleiðandi eða innflytjandi hans var aðila að viðkomandi skilakerfi. Sérstök stýrinefnd, sem starfaði samkvæmt lögum 55/2003, hafði umsjón með starfsemi skilakerfanna. Hafði nefndin m.a það hlutverk að reikna hlutfall þess úrgangs sem einstökum skilakerfum bæri að standa straum af kostnaði við að safna.

Lögum nr. 55/2003 var breytt á ný með lögum nr. 58/2011, sem tóku gildi 7. júní 2011. Tilgangur lagabreytinganna var m.a. sá að leysa vandamál og skýra reglur varðandi skiptingu kostnaðar af söfnun úrgangs. Í þeim tilgangi var m.a. kveðið á um það í nýrri málsgrein 34. gr. laganna, sem varð 4. málsgrein greinarinnar, að safni skilakerfi umfram markaðshlutdeild sína í heildarmagni þá stofnist krafa á hendur skilakerfum sem hafi safnað minna en sem nemur hlutdeild þeirra í heildarmagni. Nánari ákvæði um uppgjör á kröfum samkvæmt ákvæðinu skyldi setja í reglugerð en auk þess er í greininni kveðið nánar á um skyldu stýrinefndar til að reikna út markaðshlutdeild hvers skilakerfis.

Ágreiningur máls þessa á rætur að rekja til þess að stefnandi telur að hann hafi staðið straum af kostnaði af söfnun úrgangs umfram það sem honum sé skylt samkvæmt lögum nr. 55/2003 og jafnframt að aðalstefndi hafi safnað minna en honum bar. Því eigi stefnandi rétt á greiðslu úr hendi aðalstefnda. Stefnandi vísar í því sambandi til ákvæða laga nr. 55/2003, með nefndum breytingum, einkum 34. gr. þeirra sbr. 11. gr. laga nr. 58/2011. Kröfur sínar á hendur varastefnda byggir stefnandi á almennum reglum skaðabótaréttar þar sem hann telur að bæði stýrinefnd og umhverfisráðuneytið hafi vanrækt skyldur sínar samkvæmt nefndum lögum og með því valdið stefnanda tjóni. Í stefnu rökstyður stefnandi nánar fjárhæð krafna sinna og rekur þær málsástæður aðra sem hann telur að styðji málatilbúnað sinn.

Aðalstefndi byggir byggir sýknukröfu sína á því ekki sé lagaheimild fyrir kröfu af því tagi og á því tímabili sem kröfugerð stefnanda lýtur að auk þess sem hann mótmælir fjárhæð kröfunnar. Varastefndi hafnar því að hafa vanrækt skyldur sínar og vísar jafnframt til þess, til stuðnings sýknukröfu sinni, að stýrinefnd sé sjálfstæð nefnd sem starfi á eigin ábyrgð og varastefndi beri, hvað sem sök hennar líði, ekki ábyrgð á starfsemi nefndarinnar. Ekki er þörf á að rekja frekar málsástæður til stuðnings efnislegum kröfum aðila, með vísan til e-liðar 114. gr. laga nr. 91/1991 sbr. 10. gr. laga nr. 78//2015.

Í þinghaldi þann 10. september sl. krafðist aðalstefndi þess að máli þessu yrði vísað frá dómi eða til vara að það yrði fellt niður. Byggir hann kröfu sína á því að stefnandi hafi ekki lengur aðildarhæfi skv. 1. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 þar sem félaginu hafi verið slitið.

Meðal gagna sem aðalstefndi lagði fram í því þinghaldi var tölvuskeyti frá fyrirtækjaskrá, dagsett 28. ágúst 2015. Þar kemur fram að þann 10. ágúst sl. hafi fyrirtækjaskrá borist tilkynning frá stefnanda um slit félagsins. Fyrirtækjaskrá hafnaði beiðni aðalstefnda um að afhenda honum afrit tilkynningarinnar þar sem ekki væri búið að skrá hana en upplýsti aðalstefnda jafnframt um að tilkynningin yrði gerð opinber að lokinni skráningu.

Aðalstefndi mótmælti því að tilkynning um slit á félaginu yrði tekin til skráningar og staðhæfir að ekki hafi löglega verið staðið að slitum stefnanda. Kemur fram í bréfi hans til fyrirtækjaskrár að annað mál sé í gangi fyrir dómstólum þar sem aðalstefndi hafi uppi fjárkröfu á hendur stefnanda.

Krafa aðalstefnda um frávísun þessa máls frá dómi byggir á því að stefnandi hafi ekki lengur aðildarhæfi þar sem félaginu hafi verið slitið. Tilkynning stefnanda til fyrirtækjaskrár um að það hafi verið gert ásamt ósk um að félagði verði tekið af skrá um starfandi félög, sé nægileg sönnun þess að svo hátti til um stefnanda nú. Öfugt við það sem gildi um hlutafélög og ýmis önnur skráningarskyld félög, sé það ekki skilyrði þess að aðildarhæfi falli niður að skráning á slitum hafi farið fram, heldur nægi það eitt að félaginu hafi í raun verið slitið.

Verði ekki fallist á frávísun málsins krefst aðalstefndi þess að málið verði fellt niður. Vísar aðalstefndi til meginreglna réttarfars til stuðnings þessari kröfu sinni og b-liðar 1. mgr. 105. gr. laga n r. 91/1991 og meginreglu 3. mgr. 22. gr. sömu laga.

Varastefndi tekur undir kröfur aðalstefnda um og vísar til sömu sjónarmiða.

Stefnandi mótmælir því að frávísunarkrafan nái fram að ganga og byggir á því að afskráning úr fyrirtækjaskrá sé forsenda þess að félaginu teljist vera slitið. Þótt tilkynning þar að lútandi hafi verið send fyrirtækjaskrá hafi afskráning ekki enn farið fram og því njóti félagið enn aðildarhæfis samkvæmt 1. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991.

Niðurstaða

Með tilkynningu til fyrirtækjaskrár ríkisskattstjóra þann 10. júlí 2008 sótti stefnandi um skráningu stefnda. Ekki kemur fram í tilkynningunni í hvaða félagaformi félagið er rekið. Í samþykktum þess, sem samþykktar voru á stofnfundi félagsins sama dag, er heldur ekki getið um félagaform en í tölvupósti til fyrirtækjaskrár, upplýsir stjórnarmaður félagsins að félagði sé stofnað að frumkvæði Samtaka verslunar- og þjónustu, Félags íslenskra stórkaupmanna, Samtaka iðnaðarins og Samtaka atvinnulífsins og það sé rekið á sambærilegum grundvelli og slík félög. Þá segir í 2. gr. samþykkta stefnanda að markmið félagsins sé að reka skilakerfi framleiðenda og innflytjenda raf- og rafeindatækja í samræmi við III. kafla lag um meðhöndlun úrgangs nr. 55/2003. Þá er í II. og III. kafla samþykkta félagsins að finna nánari ákvæði um hlutverk félagsins og réttindi og skyldur félagsmanna.

Af ofangreindu er ljóst að stefnandi er án vafa félag sem nýtur aðildarhæfis samkvæmt 1. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 svo lengi sem því hefur ekki verið slitið. Af sömu gögnum er enn fremur ljóst að stefnandi er hvorki hlutafélag né annars konar félag sem í lögum eru gerðar kröfur um skráningu til að öðlast aðildarhæfi, sbr. m.a. 1. mgr. 15. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög og 1. mgr. 10. gr. laga nr. 138/1994 um einkalhlutafélög. Af því verður jafnframt dregin sú ályktun að almennar reglur um aðildarhæfi félaga eiga við um stefnanda. Þær reglur kveða á um það að félög njóti aðildarhæfis við stofnun þeirra, án þess að gerðar séu kröfur um opinbera skráningu og jafnframt að slík félög missa aðildarhæfi sitt sé þeim slitið, óháð því hvort þau hafi verið afskráð úr fyrirtækjaskrá.

Í tilkynningu til fyrirtækjaskrá þann 10. ágúst s.l. tilkynnti stefnandi um slit félagsins. Fyrirtækjaskrá hefur staðfest móttöku þeirrar tilkynningar en hefur synjað aðalstefnda um afrit af henni. Stefnandi hefur ekki lagt tilkynninguna fram fyrir dómi þrátt fyrir áskorun þar að lútandi frá aðalstefnda. Þótt bæði sé umdeilt og óljóst hvort slit stefnanda hafi farið fram í samræmi við ákvæði samþykkta félagsins hefur stefnandi ekki mótmælt því að að félaginu hafi í raun verið slitið og að félagið hafi tilkynnt fyrirtækjaskrá um það. Þegar af þessari ástæðu nýtur stefnandi ekki lengur aðildarhæfis samkvæmt 1. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 og ber því að vísa málinu frá dómi af þeim sökum, enda hefur stefnandi ekki borið því við að skilanefnd eða einhver annar aðili eigi að taka við réttindum þess sbr. 23. gr. sömu laga.

Í samræmi við niðurstöðu málsins verður stefnanda gert að greiða aðal- og varastefnda málskostnað, sem telst hæfilega ákveðinn 400.000 krónur til hvors aðila um sig að teknu tilliti til virðisaukaskatts.

Ingibjörg Þorsteinsdóttir héraðsdómari kvað upp þennan úrskurð.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

                Máli þessu er vísað frá dómi. Stefnandi greiði aðalstefnda og varastefnda hvorum um sig 400.000 krónur í málskostnað.