Hæstiréttur íslands
Mál nr. 428/1999
Lykilorð
- Kærumál
- Málskostnaðartrygging
|
|
Föstudaginn 5. nóvember 1999. |
|
Nr. 428/1999. |
Helgi Jóhannsson (Ásgeir Thororddsen hrl.) gegn Maríu Svandísi Guðnadóttur (Jón Einar Jakobsson hdl.) |
Kærumál. Málskostnaðartrygging.
M höfðaði mál gegn H, þar sem hún krafðist þess að fellt yrði úr gildi árangurslaust fjárnám, sem gert var hjá henni að kröfu H. H krafðist þess að M yrði gert að setja málskostnaðartryggingu vegna málsins. Talið var að M hefði ekki hnekkt líkum, sem fjárnámið veitti fyrir því að hún væri ófær um að greiða málskostnað, ef sá kostnaður yrði felldur á hana í málinu. Var M gert að setja málskostnaðartryggingu.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 13. október 1999, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 21. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 1. október 1999, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að varnaraðila yrði gert að setja málskostnaðartryggingu í máli sínu samkvæmt 15. kafla laga nr. 90/1989 um aðför gegn sóknaraðila. Kæruheimild er í 3. mgr. 95. gr. laga nr. 90/1989, eins og þeim var breytt með 102. gr. laga nr. 92/1991, sbr. o. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að varnaraðila verði gert að setja tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar í málinu. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Í málinu krefst varnaraðili þess að fellt verði úr gildi árangurslaust fjárnám, sem sýslumaðurinn í Reykjavík gerði hjá henni fyrir kröfu sóknaraðila 15. júlí 1999. Varnaraðili hefur ekki hnekkt líkum, sem það fjárnám veitir fyrir því að hún sé ófær um að greiða málskostnað, ef sá kostnaður verður felldur á hana í þessu máli. Með vísan til b. liðar 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 94. gr. laga nr. 90/1989, verður varnaraðila því gert að setja innan tveggja vikna frá uppsögu þessa dóms tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar að fjárhæð 70.000 krónur í því formi, sem héraðsdómari metur gilt.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.
Dómsorð:
Varnaraðila, Maríu Svandísi Guðnadóttur, er gert að setja innan tveggja vikna frá uppsögu þessa dóms tryggingu í því formi, sem héraðsdómari metur gilt, að fjárhæð 70.000 krónur fyrir greiðslu málskostnaðar í máli nr. Y-6/1999 fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 1. október 1999.
Í þessum þætti málsins telst Helgi Jóhannsson sóknaraðili en María Svandís Guðnadóttir varnaraðili. Vísað verður til málsaðila með nafni til einföldunar og til að koma í veg fyrir misskilning.
Krafa Helga Jóhannssonar lýtur að því, að Maríu Svandísi Guðnadóttur verði gert að setja málskostnaðartryggingu að fjárhæð 70.000 krónur.
Helgi Jóhannsson byggir kröfu sína á því, að í 94. gr. aðfararlaga nr. 90/1989, segi, að almennar reglur um meðferð einkanála í héraði skuli gilda um mál, sem rekin séu samkvæmt 15. kafla laganna, eftir því sem við geti átt. Núgildandi lög um meðferð einkamála nr. 91/1991 hafi ekki verið lögfest, þegar aðfararlögin tóku gildi, en engu að síður verði að skýra ákvæði 94. gr. aðfararlaga svo, að það taki einnig til núgildandi laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Hæstiréttur hafi slegið því föstu í dómum frá árinu 1995 bls. 2379 og frá árinu 1996 bls. 1642, að þannig skuli skýra umrætt ákvæði aðfararlaga.
Af 1 tl. b í 133. gr. eml. megi ráða, að setja skuli málskostnaðartryggingu, sé hennar krafist, ef leiða megi líkur að því, að stefnandi sé ófær um greiðslu málskostnaðar. Sama hljóti að gilda um mál, sem rekin séu samkvæmt 94. gr. aðfararlaga, samkvæmt þeim Hæstaréttar, sem vísað sé til hér að framan. Mál þetta sé rekið hér fyrir dómi í því skyni að fá ógilta árangurslausa aðfarargerð frá 15. júlí sl., en þar hafi eignaleysi Maríu Svandísi Guðnadóttur verið staðreynt. Ekki þurfi frekari sannanir fyrir því, að Maríu Svandísi Guðnadóttur sé ófær um að greiða málskostnað í máli því sem hér sé til meðferðar, fari svo, að fallist verði á málskostnaðarkröfu Helga Jóhannssonar. Því sé skilyrðum tilvitnaðs ákvæðis 133. gr. eml. fullnægt.
Varnaraðili María Svandís Guðnadóttir gerði þá dómkröfu í þessum þætti málsins, að hafnað yrði kröfu sóknaraðila, Helga Jóhannssonar um, að varnaraðila yrði gert að setja málskostnaðartryggingu.
Byggir hún kröfu sína í fyrsta lagi á því, að skilyrðum tilvitnaðs ákvæðis 133. gr. eml. sé ekki fullnægt. Virða verði lagaákvæðið í því ljósi, að það falli undir almenn mannréttindi að fá úrlausn dómsmála um réttarágreining og eigi sér stoð í mannréttindasáttmála Evrópu, sem Ísland sé aðili og einnig í samræmi við viðurkennd jafnréttissjónarmið. Því verði að skýra ákvæðið þröngt, ella væri réttaröryggi hins almenna borgara stefnt í tvísýnu.
Fyrir liggi, að María Svandís Guðnadóttir eigi fyrir skuldum sé það virt, að hún hafi ásamt öðrum keypt krána Saga bar á Spáni af Helga Jóhannssyni og skuldabréf það, sem mál þetta snýst um, hafi verið hluti af kaupverði barsins, auk peningagreiðslu að fjárhæð 1,2 milljónir króna. Þessum kaupum hafi verið rift vegna vanefnda Helga Jóhannssonar og sé málsókn í undirbúningi til að fá riftunina staðfesta og til endurgreiðslu þess fjár, sem greitt hafi verið í því sambandi.
Einnig verði að líta til þess, að ákvörðun sýslumanns um framgang þeirra aðfarar, sem mál þetta fjalli efnislega um, sé íþyngjandi stjórnvaldsákvörðun, sem lögum samkvæmt megi bera undir Héraðsdóm til endurmats. Í frumvarpi til aðfararlaga, sé skýrð sú breyting frá eldra fyrirkomulagi að veita heimild til beinnar aðfarar til fullnustu víxla, tékka og skuldabréfa. Þar komi skýrt fram, að þetta úrræði eigi ekki að stefna réttaröryggi skuldara í hættu, þar sem honum sé fær sú einfalda og auðvelda leið til að fá kröfu hnekkt, eftir lok aðfarar, með því að bera málið undir viðkomandi héraðsdóm. Ljóst sé, að eftir eldri skipan hefði Helgi Jóhannsson þurft að fá dóm fyrir kröfu sinni, til að aðför væri möguleg. Í slíku máli hefði stefnda átt þess kost að taka til varna, án þess að þurfa að leggja fram málskostnaðartryggingu. Færi svo, að staðfest yrði krafa Helga Jóhannssonar um málskostnaðartryggingu, fæli það í raun í sér verulega skerðingu á þeim sjálfssögðu mannréttindum, að geta tekið til varna gegn óréttmætum kröfum og væri stórt spor í öfuga átt og andstætt viðurkenndum mannréttindasjónarmiðum.
Loks byggir varnaraðili María Svandís á því, að í greinargerð frumvarps til aðfararlaga segi um 1. mgr. 84. gr. laganna, sem 94 gr. þeirra vísar til, að reglur einkamálalaga geti ekki allar átt við eftir eðli máls. Sú sé einmitt raunin, að því er varðar kröfu Helga Jóhannssonar í þessum þætti málins. Eðli málsins samkvæmt eigi tilvitnað ákvæði 133. gr. einkamálalaga ekki við hér með vísan til þess, sem að framan er rakið.
Forsendur og niðurstaða:
Sóknaraðili, Helgi Jóhannsson styður kröfu sína um það, að varnaraðila, Maríu Svandísi Guðnadóttur verði gert að setja málskostnaðartryggingu með vísan til 1.tl. b 133. gr. laga nr. 91/1991, eins og að framan er rakið og bendir á fyrirliggjandi árangurslausa aðfarargerð til stuðnings þeirri kröfu.
Það er álit dómsins, að túlka beri tilvitnað ákvæði 133. gr. eml. þröngt með hliðsjón af þeirri meginreglu, að öllum á að vera tryggð greið leið til að geta leitað til dómstóla um úrlausn réttarágreinings og takmörkun á þeim rétti verði að styðjast við enn ríkari hagsmuni.
Dómurinn lítur svo á, að aðfarargerð sú, sem liggur frammi í málinu og sóknaraðili vísar til, veiti ekki óyggjandi sönnur fyrir því, að varnaraðili geti ekki greitt þann málskostnað, sem hann kann að verða dæmur til að greiða sóknaraðila Í aðfarargerðinni er haft eftir varnaraðila, að hún eigi ekki eignir, sem tryggt geti kröfu þá, sem tryggja átti með aðfarargerðinni. Um er að ræða kröfu að höfuðstól 939.895 krónur, að viðbættum dráttarvöxtum og kostnaði, sem nam samtals samkvæmt aðfararbeiðni 1.233.084 krónum. Tildæmdur málskostnaður í málum, sem rekin eru samkvæmt 15. kafla aðfararlaga, nemur að jafnaði lágum fjárhæðum, enda málin yfirleitt ekki efnismikil og snúast um einöngruð afmörkuð álitaefni. Þau krefjast því sjaldnast mikillar vinnu af hálfu lögmanna málsaðila. Því veitir framlögð aðfarargerð ekki fullnægjandi sönnur fyrir því, að varnaraðili, María Svandís Guðnadóttir, sé ófær um að greiða þann málskostnað, sem hún kynni að verða dæmd til að greiða sóknaraðila, Helga Jóhannssyni í ágreiningsmáli þessu.
Með vísan til þessa er hafnað kröfu Helga Jóhannssonar um það, að Maríu Svandísi Guðnadóttur verði gert að setja málskostnaðartryggingu.
Skúli J. Pálmason héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Hafnað er kröfu Helga Jóhannssonar, um að Maríu Svandísi Guðnadóttur verði gert að setja málskostnaðartryggingu.