Hæstiréttur íslands

Mál nr. 758/2009


Lykilorð

  • Kærumál
  • Fjármálafyrirtæki
  • Þagnarskylda


Miðvikudaginn 20. janúar 2010.

Nr. 758/2009.

Glitnir banki hf.

(Þórdís Bjarnadóttir hrl.)

gegn

Vilhjálmi Bjarnasyni og

Vilhjálmur Bjarnason

(Guðni Á. Haraldsson hrl.)

gegn

þrotabúi Fons hf.

(Óskar Sigurðsson hrl.)

Kærumál. Fjármálafyrirtæki. Þagnarskylda.

G hf. kærði úrskurð héraðsdóms þar sem fallist var á kröfu V um að G hf. skyldi afhenda honum gögn sem fylgt hafi kröfulýsingu skilanefndar G hf.  í þrotabú F hf. Þá kærði V hluta úrskurðarins þar sem hafnað var kröfu hans um að þrotabúið skyldi afhenda honum sömu gögn. Talið var að V hafi ekki sýnt fram á lögvarða hagsmuni af því að fá afhent gögn úr þrotabúi F hf. Þá var talið að G hf. gæti ekki neitað afhendingu gagnanna með því að bera fyrir sig bankaleynd samkvæmt 1. mgr. 58. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Því ákvæði væri ætlað að vernda persónulega og viðskiptalega hagsmuni þeirra er ættu viðskipti við fjármálafyrirtæki. Þrotabú F hf. væri gjaldþrota og hefði lýst því yfir að það tæki enga afstöðu til þess hvort G hf. veitti V aðgang að gögnunum. Var því fallist á kröfu V um að G hf. skyldi afhenda honum umbeðin gögn en hafnað að þrotabú F hf. skyldi afhenda honum sömu gögn.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen og Árni Kolbeinsson og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 18. desember 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 22. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 8. desember 2009, þar sem fallist var á kröfu varnaraðilans Vilhjálms Bjarnasonar um að sóknaraðili skuli afhenda honum gögn sem fylgt hafi kröfulýsingu skilanefndar Glitnis banka hf. í þrotabú Fons hf., en kröfurnar voru nr. 13-19 á kröfuskrá þrotabúsins. Í úrskurðinum var sömu kröfu á hendur þrotabúi Fons hf. hafnað. Kæruheimild er í d. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og hafnað kröfu varnaraðilans Vilhjálms Bjarnasonar um afhendingu gagna sem fylgt hafi kröfulýsingu skilanefndar Glitnis banka hf. í þrotabú Fons hf. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Varnaraðilinn Vilhjálmur Bjarnason kærði úrskurð héraðsdóms fyrir sitt leyti 21. desember 2009. Hann krefst þess að varnaraðilanum þrotabúi Fons hf. verði gert að afhenda honum fylgiskjöl krafna nr. 13-19 á kröfuskrá þrotabús Fons hf. ,,með því fororði, að persónulegar upplýsingar um einstaklinga og önnur fyrirtæki óskyld málsaðilum og fram koma í skjölum þessum verði afmáð.“ Þá krefst hann þess að úrskurður héraðsdóms verði staðfestur um skyldu sóknaraðila til að afhenda gögn. Ennfremur krefst hann kærumálskostnaðar.

Varnaraðilinn þrotabú Fons hf. krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Ákvæði 1. mgr. 58. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki varðandi þagnarskyldu starfsmanna þeirra og annarra sem vinna verk í þeirra þágu er ætlað að vernda persónulega og viðskiptalega hagsmuni þeirra er viðskipti eiga við þau. Eins og tekið er fram í skýringum við ákvæðið í athugasemdum sem fylgdu frumvarpi því er varð að lögum nr. 161/2002 er beiting þess ávallt háð mati, sem dómstólar framkvæma, sé málum skotið til þeirra. Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Kærumálskostnaður fellur niður.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 8. desember 2009.

Mál þetta barst dóminum með bréfi mótteknu 1. september 2009, var þingfest 2. október og tekið til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi þann 10. nóvember 2009.

Sóknaraðili er Vilhjálmur Bjarnason, Hlíðarbyggð 18, Garðabæ og varnaraðilar eru Glitnir banki hf. og þrotabú Fons hf.

Sóknaraðili krefst úrskurðar um að varnaraðilum verði gert skylt að afhenda sóknaraðila gögn sem fylgdu kröfulýsingu skilanefndar Glitnis banka hf. í þrotabú Fons hf., en umræddar kröfur eru nr. 13 – 19 á kröfuskrá þrotabús Fons ehf. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar.

Varnaraðili, Glitnir banki hf., krefst þess að beiðni sóknaraðila um öflun sönnunargagna, verði hafnað. Þá krefst varnaraðili málskostnaðar að mati dómsins.

Varnaraðili, Fons hf., krefst þess að kröfum sóknaraðila á hendur sér verði hafnað. Þá krefst varnaraðilinn málskostnaðar að skaðlausu.

I.

Sóknaraðili er hluthafi í Glitni banka hf., sem með ákvörðun Fjármálaeftirlits 7. október 2008 var settur undir skilanefnd sem tók yfir vald hluthafafundar bankans. Að því er fram kemur í erindi sóknaraðila til dómsins lánaði Glitnir banki hf. Fons hf. 24 milljarða króna, sem virðist nú tapaðar með öllu og sé kröfulýsing sem áður er nefnd og kemur fram á kröfuskrá nr. 13 – 19, vegna þess láns. Sóknaraðili hafi leitað eftir því að fá þessi gögn frá varnaraðilum, en þeir hafnað þeirri kröfu. Gögn um þetta liggja frammi í málinu og kemur þar fram að varnaraðilinn Glitnir banki hf. hafnar beiðninni með vísan til 58. gr. laga um fjármálafyrirtæki nr. 17/2002 og ber þannig fyrir sig bankaleynd, en varnaraðilinn Þrotabú Fons hf, vísar til 2. mgr. 80. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti og telur sóknaraðila ekki hafa sýnt fram á lögvarða hagsmuni af því að fá gögnin afhent.

II.

Sóknaraðili byggir á því að hann sem hluthafi í Glitni banka hf., hafi einkaréttarlega hagsmuni af því að vita hvernig hægt hafi verið að lána einum viðskiptamanni 24 milljarða króna. Sóknaraðili hafi lögvarða hagsmuni af því að fá aðgang að gögnum er varða þessa lánveitingu. Verið geti að hann höfði mál á hendur Glitni banka hf., ef umbeðin gögn sýni að stjórnarmenn hafi ekki gætt hagsmuna bankans og hluthafa hans þegar þessi fjármunir hafi verið lánaðir, en eins og fram komi í gögnum málsins hafi skilanefnd nú tekið yfir vald hluthafafundar í bankanum. Málið varði einnig þrotabú Fons hf., þar sem gögnin hafi borist skiptastjóra þess. Bent er á af hálfu sóknaraðila að reglur laga nr. 161/2002 um bankaleynd eigi að verja viðskiptavini, en ekki bankann. Viðskiptavinurinn í þessu til viki sé ekki lengur til, hafi orðið gjaldþrota og ný lögpersóna, þrotabúið, hafi tekið við.

III.

Varnaraðilinn Glitnir banki hf. vísar, varðandi kröfu sína um að hafnað verði kröfu sóknaraðila, til 58. gr. laga 161/2002, en í 1. mgr. komi fram að starfsmenn og aðrir þeir sem starfa í þágu fjármálafyrirtækja, séu bundnir þagnarskyldu um allt sem þeir fá vitneskju um í starfi sínu sem varðar viðskipta- eða einkamálefni viðskiptamanna. Þrotabú Fons hf. sé viðskiptavinur í skilningi þessa ákvæðis og þagnarskylda sé fyrir hendi þrátt fyrir gjaldþrot. Leiki minnsti vafi á um hvort um viðskiptamann sé að ræða í skilningi nefnds ákvæðis um þagnarskyldu, beri að túlka ákvæðið þröngt. Starfsmenn varnaraðila hafi talið rétt að fara varlega í að gefa upplýsingar, þar sem brot á ákvæði laga nr. 161/2002 um þagnarskyldu geti varðað þá refsiábyrgð. Vafi sé í málinu um hvort heimilt sé að veita upplýsingar og rétt að láta reyna á það fyrir dómi hvort sóknaraðili eigi rétt á upplýsingunum.

Í 2. mgr. 58. gr. laga nr. 161/2002 komi fram að sá sem veitir upplýsingum viðtöku sé jafnframt bundinn þagnarskyldu og sé ljóst að bankaleynd fylgi umbeðnum gögnum. Þá komi fram í lögunum að brot gegn ákvæðum 58. gr. geti varðað sektum eða fangelsi allt að 2 árum. Undanteningar frá þagnarskyldu sem taldar séu í lögunum eigi ekki við hér.

Þá byggir varnaraðili á lögum um hlutafélög nr. 2/1995, en í einstökum greinum þeirra laga sé getið um rétt hluthafa til aðgangs að gögnum, aðallega um að gögn sem skuli vera hluthöfum aðgengileg í eina viku fyrir boðaðan hluthafafund. Ekkert ákvæði laganna mæli fyrir um víðtækan aðgang hluthafa að bókum félags.

Varnaraðilinn Þrotabú Fons hf. byggir á því að sóknaraðili hafi ekki sýnt fram á að hann hafi lögvarinna hagsmuna að gæta af því að fá aðgang að skjölum þrotabús í skilningi 2. mgr. 80. gr. laga nr. 21/1991.

Óumdeilt sé í málinu að skilanefnd Glitnis banka hf. hafi lýst tilteknum kröfum í þrotabú Fons hf., í kjölfar innköllunar skiptastjóra. Skilanefndin hafi tekið við öllum heimildum stjórnar bankans samkvæmt ákvæðum laga um hlutafélög nr. 2/1995, samkvæmt ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 7. október 2008 og komi skilanefndin fram fyrir hönd bankans gagnvart þrotabúi Fons hf., en það geri sóknaraðili ekki. Hann geti því ekki átt rétt til aðgangs að skjölum búsins, frekar en aðrir hluthafar bankans eða annarra félaga sem kunni að eiga kröfur á hendur þrotabúinu. Hluthafar verði að sækja slíkt í gegnum félagið í samræmi við ákvæði hlutafélagalaga. Sóknaraðili verði því að eiga það við skilanefndina hvort hann fái aðgang að þessum gögnum og taki þrotabúið enga afstöðu í þeim efnum.

IV.

Gögn þau sem óskað er eftir afhendingu á í máli þessu eiga uppruna sinn hjá varnar­aðilanum Glitni banka hf.  Um er að ræða fylgiskjöl með kröfulýsingu bankans í þrotabú Fons hf. Fallast verður á það með varnaraðilanum þrotabúi Fons hf. að ekki hafi af hálfu sóknaraðila verið sýnt fram á lögvarða hagsmuni hans af því að fá afhent gögn úr þrotabúinu í skilningi 80. gr. laga nr. 21/1991.

Varnaraðilinn Glitnir banki hf. hefur hafnað kröfu um afhendingu gagnanna og ber fyrir sig bankaleynd og vísar til 58. gr. laga nr. 161/2002. Bankaleynd er fyrst og fremst ætlað að vernda viðskiptahagsmuni viðskiptavinar fjármálafyrirtækis, en ekki hagsmuni fjármálafyrirtækisins. Ljóst er að sá viðskiptavinur sem hér um ræðir er gjaldþrota og erfitt að sjá hvaða hagsmuni hann hefur af því að þeim upplýsingum sem hér er beðið um, sé haldið leyndum. Þá er að líta til þeirrar yfirlýsingar þrotabúsins að það taki enga afstöðu varðandi það hvort varnaraðilinn Glitnir banki hf. veiti sóknaraðila aðgang að gögnunum.

Verður því ekki séð með vísan til framangreinds, allra atvika málsins og gagna, að tilefni sé til að neita sóknaraðila um aðgang að gögnum þeim sem hann biður um, þ.e. gögnum þeim sem fylgdu kröfulýsingu varnaraðilans Glitnis banka hf. í þrotabú Fons hf., eins og nánar greinir í úrskurðarorði. Með vísan til allra atvika málsins þykir eðlilegt að hvort aðili beri sinn kostnað af málarekstrinum.

Guðni Á. Haraldsson hrl. flutti málið af hálfu sóknaraðila, Guðfinna Þórsdóttir hdl. af hálfu Glitnis banka hf. og Daði Ólafsson hdl. af hálfu þrotabús Fons hf.

Anna M. Karlsdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

Kröfum sóknaraðila á hendur þrotabúi Fons hf. er hafnað.

Varnaraðili, Glitnir banki hf., skal afhenda sóknaraðila, Vilhjálmi Bjarnasyni, gögn sem fylgdu kröfulýsingu skilanefndar Glitnis banka hf. í þrotabú Fons hf., en um­ræddar kröfur eru nr. 13 – 19 á kröfuskrá þrotabúsins.

Málskostnaður fellur niður.