Hæstiréttur íslands

Mál nr. 187/2005


Lykilorð

  • Kærumál
  • Kröfugerð
  • Lögbann
  • Frávísunarúrskurður felldur úr gildi


Miðvikudaginn 11

 

Miðvikudaginn 11. maí 2005.

Nr. 187/2005.

Optimar Ísland ehf.

(Óttar Pálsson hdl.)

gegn

Jónasi G. Jónassyni og

Þorsteini Inga Víglundssyni

(Lára V. Júlíusdóttir hrl.)

 

Kærumál. Kröfugerð. Lögbann. Frávísunarúrskurður felldur úr gildi.

O fékk lagt lögbann við því að J og Þ framleiddu og/eða seldu ísstrokka í ísþykknivélar af tiltekinni gerð, með vísan til trúnaðarákvæðis í ráðningarsamningum þeirra við forvera O. Í kjölfarið höfðaði O mál til staðfestingar á lögbanni og dóms um bann við þeim athöfnum sem lögbannið var lagt við. Vísaði héraðsdómur málinu frá dómi, þar sem kröfugerðin væri ekki í samræmi við d. og e. liði 1. mgr. 80. gr. laga um meðferð einkamála. Með því að leysa yrði úr atriðum varðandi skýrleika og umfang lögbannsins í efnisdómi í málinu, voru engin efni að mati Hæstaréttar til að vísa frá dómi kröfu O um staðfestingu á lögbanninu. Þá þótti ekki ástæða til annars en að farið yrði á sama hátt með þá kröfu O er laut að banni við þeim athöfnum sem lögbann hafði verið lagt við. Var því frávísunarúrskurður héraðsdóms felldur úr gildi.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Guðrún Erlendsdóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.

 Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 22. apríl 2005, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 3. maí sl. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. apríl 2005, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðilum var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að kveða upp efnisdóm í málinu. Þá krefst sóknaraðili kærumálskostnaðar.

Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

I.

Samkvæmt gögnum málsins voru varnaraðilar starfsmenn hjá Ískerfum hf., sem fékkst við framleiðslu og sölu á svonefndum ísþykknivélum og öðrum kælibúnaði til afnota um borð í fiskiskipum og við landvinnslu sjávarfangs. Varnaraðilinn Jónas G. Jónasson var framkvæmdastjóri félagsins og varnaraðilinn Þorsteinn Ingi Víglundsson sölu- og markaðsstjóri þess, en ráðningarsamninga höfðu þeir gert við félagið hvor fyrir sitt leyti 27. október 2000 og 10. apríl 2001. Í samningunum voru sambærileg ákvæði um trúnaðarskyldu varnaraðilanna, þar sem meðal annars var tiltekið að þeir væru bundnir þagnarskyldu um viðskipta- og atvinnuleyndarmál félagsins og væri þeim óheimilt að veita þriðja manni upplýsingar um þau eða hagnýta þær sjálfir í þrjú ár eftir lok starfa hjá félaginu. Þá var einnig mælt fyrir um ævarandi þagnarskyldu varnaraðilanna um upplýsingar varðandi önnur nánar tilgreind atriði í sambandi við framleiðslu félagsins, svo og að þeim væri ávallt óheimilt að hagnýta sér slíkar upplýsingar eða gera þriðja manni það kleift. Með samningi 30. maí 2003 seldi Ískerfi hf. sóknaraðila allar vörubirgðir, lausafjármuni til afnota við framleiðslu og atvinnurekstur, framleiðsluaðferðir sínar, tæknilegar upplýsingar, einkaleyfi, skrásett vörumerki, auðkenni og viðskiptasambönd. Í samningi þessum var meðal annars mælt fyrir um að sóknaraðili fengi framseldan rétt til að „framfylgja og fullnusta ákvæði ráðningarsamninga núverandi og fyrrverandi starfsmanna seljanda um trúnaðarskyldur, hugverkaréttindi og samkeppnishömlur.“ Að sögn varnaraðila var þeim báðum sagt upp störfum hjá Ískerfum hf. 30. apríl 2003 og þeim vikið þegar af vinnustað.

Sóknaraðili kveðst telja ljóst af ýmsum nánar tilgreindum gögnum, sem hann hafi fengið í hendur, að varnaraðilar hafi eftir lok starfa hjá Ískerfum hf. „framleitt og a.m.k. reynt að selja ísstrokka sem þeir hafa nefnt “Thick Ice Generator” í fjórum útgáfum eða stærðum T1-T4.“ Séu þessir ísstrokkar sambærilegir þeim, sem Ískerfi hf. og síðar sóknaraðili hafi framleitt, en hann telji útilokað að varnaraðilar geti hafa þróað slíkan búnað á svo skömmum tíma, sem liðið hafi frá starfslokum þeirra hjá Ískerfum hf., án þess að hagnýta sér atvinnuleyndarmál og aðrar trúnaðarupplýsingar um framleiðslu félagsins. Af þessum sökum leitaði sóknaraðili lögbanns við því að varnaraðilar „framleiði og/eða selji ísstrokka í ísþykknivélar af gerðinni Thick-Ice Generator (T1-T4) eða sambærilega vélahluti“ og tók sýslumaðurinn í Reykjavík beiðni hans um það fyrir 21. desember 2004. Gegn andmælum varnaraðila lagði sýslumaður á lögbann 4. janúar 2005 í samræmi við þessa beiðni.

Sóknaraðili höfðaði mál þetta gegn varnaraðilum með réttarstefnu, sem gefin var út 11. janúar 2005. Í henni krafðist sóknaraðili þess að fyrrnefnt lögbann yrði staðfest og varnaraðilum með dómi bannað að „framleiða og/eða selja ísstrokka í ísþykknivélar af gerðinni Thick-Ice Generator (T1-T4) eða sambærilega vélahluti.“ Með hinum kærða úrskurði varð héraðsdómari við kröfu varnaraðila um að málinu yrði vísað frá dómi.

II.

Eins og nánar greinir í úrskurði héraðsdómara hafa varnaraðilar reist kröfu sína um frávísun málsins á því að framangreind kröfugerð sóknaraðila fullnægi ekki ákvæðum 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991, þar sem hún sé of víðtæk og óljós, bæði um það til hvers bann taki og hve langan tíma það eigi að standa. Telja varnaraðilar enn fremur að krafa sóknaraðila gangi lengra en þörf krefji til að vernda réttindi hans og sé stórfelldur munur á hagsmunum hans og varnaraðila, sbr. 2. tölulið 3. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl.

Samkvæmt 36. gr. laga nr. 31/1990 verður gerðarbeiðandi við lögbannsgerð að höfða mál fyrir héraðsdómi innan nánar tiltekins frests til staðfestingar á lögbanni, enda hafi gerðarþoli ekki lýst því yfir að hann uni við það án málshöfðunar. Ber gerðarbeiðanda jafnframt að leita í sama máli dóms um kröfu sína, sem lögbanni hefur verið ætlað að vernda til bráðabirgða, hafi mál ekki verið áður höfðað um hana. Þessu til samræmis hefur sóknaraðili höfðað mál þetta og krafist í senn staðfestingar á lögbanni og dóms um bann við þeim athöfnum varnaraðila, sem hann telur brjóta gegn réttindum sínum og lögbannið var lagt við. Jafnvel þótt litið yrði svo á að lýsing sóknaraðila á háttsemi varnaraðila, sem sýslumaður féllst á að leggja lögbann við, væri ekki svo ljós sem áskilið er í d. lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991, gæti það ekki leitt til þess að kröfu sóknaraðila um staðfestingu lögbannsins yrði vísað frá héraðsdómi, enda væri um að tefla atriði, sem varðar niðurstöðu um þá kröfu að efni til. Ætti þetta ekki síður við ef fallist yrði á með varnaraðilum að sóknaraðili leiti staðfestingar á lögbanni, sem gengið hafi lengra en réttur hans hafi staðið til, eða að sýslumanni hefði verið rétt að synja um lögbann vegna ákvæðis 2. töluliðar 3. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990. Getur heldur engu breytt í þessum efnum að sóknaraðili hafi ekki tiltekið sérstaklega til hve langs tíma lögbann ætti að standa, enda reisir hann málatilbúnað sinn á því að áðurnefnd ákvæði ráðningarsamninga varnaraðila eigi að leiða til þess að þeim verði um alla framtíð óheimilt að haga gerðum sínum á þann hátt, sem lögbanninu er ætlað að varna. Eru samkvæmt þessu engin efni til að vísa frá dómi kröfu sóknaraðila um staðfestingu á lögbanninu.

Með síðari hluta kröfugerðar í héraðsdómsstefnu leitar sóknaraðili dóms um að varnaraðilum séu bannaðar sömu athafnir og lögbann hefur verið lagt við. Með því að leysa verður samkvæmt framansögðu úr atriðum varðandi skýrleika og umfang lögbannsins í efnisdómi í málinu, er ekki ástæða til annars en að farið verði á sama hátt með þessa dómkröfu sóknaraðila.

Samkvæmt framansögðu verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. Varnaraðilum verður gert að greiða sóknaraðila kærumálskostnað, eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.

Varnaraðilar, Jónas G. Jónasson og Þorsteinn Ingi Víglundsson, greiði í sameiningu sóknaraðila, Optimar Ísland ehf., 150.000 krónur í kærumálskostnað.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. apríl 2005.

I

Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar um framkomna frávísunarkröfu stefnda föstudaginn 8. apríl sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Optimar Íslandi ehf., kt. 700103-4550, Stangarhyl 6, Reykjavík, með stefnu, útgefinni af dómstjóranum í Reykjavík 11. janúar 2005 og þingfestri 18. janúar s.á., á hendur Jónasi G. Jónassyni, kt. 110459-6299, Heiðargerði 116, Reykjavík, og Þorsteini Inga Víglundssyni, kt. 100662-7799, Búlandi 4, Reykjavík.

         Dómkröfur stefnanda eru þessar:

         Að staðfest verði lögbann, sem sýslumaðurinn í Reykjavík lagði á, þann 4. janúar 2005, með lögbannsgerð nr. L-25/2004.

         Að stefndu verði með dómi bannað að framleiða og/eða selja ísstrokka í ísþykknivélar af gerðinni Thick-Ice Generator (T1-T4) eða sambærilega vélahluti.

         Þá er þess krafizt, að stefndu greiði stefnanda málskostnað að skaðlausu, þ.m.t. allan útlagðan og áfallinn kostnað við lögbannsbeiðnina, samkvæmt málskostnaðar­reikningi.

 

             Dómkröfur stefnda eru þær aðallega, að málinu verði vísað frá dómi, en til vara, að synjað verði kröfu stefnanda um staðfestingu lögbanns.  Jafnframt krefjast stefndu skaðabóta vegna lögbannsins.  Í báðum tilvikum krefjast stefndu málskostnaðar úr hendi stefnanda að mati dómsins eða samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.  

II

Málavextir

Hlutverk stefnanda er, samkvæmt skilgreiningu stefnanda, fyrirtæki, sem sérhæfir sig í framleiðslu og sölu á ísþykknivélum og öðrum tengdum vélum, s.s. forkælum og tönkum, sem einkum eru notaðar til kælingar og geymslu á sjávarfangi um borð í fiskiskipum og í landvinnslu.  Stefnandi kveður ísþykknivél breyta sjó, sem leiddur sé í gegnum ísstrokk í fínkrystallaðan ís eða ísþykkni.  Samanstandi vélin í meginatriðum af einum eða fleiri ísstrokkum, sem séu “hjartað” í vélinni, svo og tilheyrandi forkælum og/eða frystibúnaði, sem eftir atvikum geti verið innbyggður í vélina.  Þessi búnaður sé síðan samhæfður með stjórnbúnaði og samtengdur með lagnakerfi, þannig að úr verði heildstæð og starfhæf eining til framleiðslu á ísþykkni. Ráðist gæði vélarinnar aðallega af gæðum ísstrokksins. 

        Stefndu, sem báðir eru vélaverkfræðingar að mennt, störfuðu hjá fyrirtækinu Ískerfum hf., en það fyrirtæki var í sambærilegum rekstri og stefnandi, þ.e. það framleiddi og seldi ísþykknivélar.  Réðst stefndi, Jónas G. Jónasson, til fyrirtækisins 1. október 2000 og starfaði til aprílloka 2003, en stefndi Þorsteinn Ingi Víglundsson starfaði þar frá 1. apríl 2001 til aprílloka 2003.  Var þeim báðum sagt upp störfum, og fékk Jónas greidd laun á uppsagnarfresti til júlíloka 2003, en Þorsteinn fékk greidd laun út apríl 2003.

        Í ráðningarsamningum beggja stefndu er að finna eftirfarandi ákvæði í kafla ráðningarsamninganna um trúnaðarskyldu:

 “[...] er bundinn þagnarskyldu og trúnaði um allar upplýsingar er varða viðskipta- og/eða atvinnuleyndarmál VINNUVEITANDA, þ.m.t. viðskiptasambönd, vörur og viðskiptalegan rekstur. [...] má ekki án sérstakrar skriflegrar heimildar VINNUVEITANDA veita þriðja aðila slíkar upplýsingar eða hagnýta sér þær með einum eða öðrum hætti á meðan hann starfar fyrir vinnuveitanda og í næstu þrjú ár eftir að störfum hans lýkur.

[...] gerir sér ljóst mikilvægi þagnarskyldu og trúnaðar vegna ofangreindra upplýsinga og ennfremur sérstakt mikilvægi allra upplýsinga sem varða  hugmyndavinnu, einkaleyfa, þekkingu, aðferðir, tækni, verklag og vinnuferli (“know-how”) sem notað er hjá VINNUVEITANDA.

     Sama gildir um upplýsingar um formúlur, lýsingar, (skilgreinar), uppskriftir, uppdrætti, líkön og þess háttar sem [...] hefur aðgang að í starfi sínu hvort heldur slíkar upplýsingar stafa frá starfsfólki, VINNUVEITANDA, verktökum eða öðrum viðskiptaaðilum. [...] er bundinn ævarandi þagnarskyldu og trúnaði um þær upplýsingar sem taldar eru í málsgrein þessari auk þess er honum ávallt óheimilt að hagnýta sér eða gera þriðja aðila kleift að hagnýta sér slíkar upplýsingar með einum eða öðrum hætti.”

 

Í samningnum er enn fremur svohljóðandi ákvæði:

 “Ofangreind ákvæði gr. 6.2. gilda þó ekki um: a) vitneskju sem var almannaeign þegar hún er birt, b) vitneskju sem verður almannaeign með birtingu án þess að stríði gegn ákvæðum þessa samnings.”

 

        Með kaupsamningi, dags. 30. maí 2003, keypti stefnandi máls þessa birgðir og rekstrarfjármuni Ískerfa hf., í kjölfar mikils rekstrartaps fyrirtækisins, og tók jafnframt yfir rekstur þess, en Ískerfi hf. lögðu á sama tíma niður allan rekstur, en mun þó enn vera til og skráð sem hlutafélag.  Í kaupum stefnanda á Ískerfum hf. voru jafnframt innifalin hugverkaréttindi félagsins, þ.e. framleiðsluaðferðir seljanda, tæknilegar upplýsingar, einkaleyfi í eigu seljanda, skrásett vörumerki, að undanskildu nafni seljanda,og auðkenni (logo) ásamt viðskiptasamböndum og dreifinganeti.

        Þá er í kaupsamningnum, gr. 8.2., eftirfarandi ákvæði:

"Seljandi framselur kaupanda hér með réttinn til að framfylgja og fullnusta ákvæði ráðningarsamninga núverandi og fyrrverandi starfsmanna seljanda um trúnaðarskyldur, hugverkaréttindi og samkeppnishömlur."

        Kveður stefnandi þær ísþykknivélar, sem hann nú framleiðir og selur, vera með ísstrokkum, sem í grundvallaratriðum séu byggðir á þeim aðferðum og tækni, sem hann hafi keypt af Ískerfum hf.

        Stefnandi kveðst hafa gert framleiðslusamning við fyrirtækið York International B.V., þar sem stefnandi framleiði ísþykknivélar, sem York selji með sameiginlegu merki beggja félaganna til notenda, en York International B.V. sé hluti af York Refrigeration samsteypunni, sem sé einn af stærstu framleiðendum kæli- og frystibúnaðar í heimi.

        Stefnandi telur sig hafa heimildir fyrir því, að stefndu hafi, eftir að þeir létu af störfum hjá Ískerfum hf., brotið þagnarskyldu ráðningarsamninganna og ljóstrað upp um viðskiptaleyndarmál Ískerfa hf. í tölvupósti til York International B.V. í Hollandi.  Þá kveðst stefnandi hafa heimildir fyrir því, að stefndu hafi verið og séu að nýta sér trúnaðarupplýsingar og atvinnuleyndarmál Ískerfa hf. við framleiðslu og sölu á ísstrokkum.

        Stefnandi kveðst hafa skorað á stefndu að hætta nú þegar að nýta sér trúnaðarupplýsingar til framleiðslu og sölu á ísstrokkum og/eða ísvélum, sambærilegum þeim, sem stefnandi framleiði, með bréfum, dags. 17. september 2004.  Á það hafi stefndu ekki fallizt, og því hafi stefnandi ekki haft önnur ráð en að fara fram á lögbann, sem nú sé krafist staðfestingar á.

        Stefndu kveðast hafa, eftir að þeir létu af störfum hjá Ískerfum hf., hafið eigin hönnun og þróun á strokkum, sem þeir láti framleiða erlendis og selji síðan og vinni við það í dag.  Þeir ísstrokkar, sem þeir hafi þróað og selji, séu mun þróaðri en þeir 16 ísstrokkar og ískrapavélar, sem séu á markaðnum í dag, m.a. þeir ísstrokkar, sem stefnandi framleiði og selji í sínum vélum.  Hafi stefndu þróað nýja gerð af strokki, sem búi yfir eiginleikum, sem aðrir strokkar hafi ekki, þ.á m. ísstrokkar stefnanda.  Þeir ísstrokkar, sem stefndu selji, komi í 4 mismunandi stærðum,  geti notað 50% minna salt og henti því mun víðar en aðrir ísstrokkar, m.a. ísstrokkar stefnanda.  Sú vara, sem stefndu selji, sé því ekki sama varan og stefnandi framleiði.

        Snýst ágreiningur aðila um meint samningsbrot stefndu á ráðningarsamningi þeirra við Ískerfi hf.

III

Málsástæður stefnanda

Stefnandi byggir kröfu sína um staðfestingu lögbanns á því, að stefndu séu samkvæmt skýrum ákvæðum í ráðningarsamningi við Ískerfi hf. bundnir af því, eftir ráðningartíma sinn, að nýta sér ekki trúnaðarupplýsingar, er varði atvinnuleyndarmál Ískerfa hf., sem og formúlur, lýsingar, uppskriftir, uppdrætti, líkön og þess háttar, sem stefndu hafi verið trúað fyrir í störfum sínum.  Einnig hafi verið sérstaklega tilgreint í ráðningarsamningum stefndu, að þessi trúnaðarskylda næði til aðferða, tækni, verklags, vinnuferla o.fl.  Með kaupum á rekstri Ískerfa hf. hafi stefnandi tekið við þeim réttindum Ískerfa, sem varði trúnaðarskyldur, hugverkaréttindi og samkeppnishömlur starfsmanna þeirra, sbr. fyrrnefnd ákvæði kaupsamningsins. 

        Ráðningarsamningar stefndu séu byggðir upp með eftirfarandi hætti:  Annars vegar séu stefndu bundnir þagnarskyldu og trúnaði um viðskipta- og/eða atvinnuleyndarmál vinnuveitanda síns, og óheimilt sé að veita þriðja aðila eða hagnýta sér þær með einum eða öðrum hætti í næstu þrjú ár, eftir að störfum fyrir vinnuveitanda ljúki.  Hins vegar séu stefndu bundnir ævarandi þagnarskyldu og trúnaði um formúlur, lýsingar, skilgreiningar, uppskriftir, uppdrætti, líkön og þess háttar, sem þeir hafi komizt yfir í starfi fyrir vinnuveitanda sinn, og sé þeim óheimilt að hagnýta sér eða gera þriðja aðila kleift að hagnýta sér slíkar upplýsingar með einum eða öðrum hætti.  Hvað þennan þátt varði, komi fram í ráðningarsamningum við stefndu, að hin ævarandi þagnarskylda og trúnaður gildi ekki um vitneskju, sem hafi verið almannaeign þegar hún var birt, og vitneskju, sem verði almannaeign með birtingu, án þess að stríði gegn ákvæðum ráðningar­samningsins.

        Stefnandi kveði, með hliðsjón af þeim gögnum, sem lögð hafi verið fram við þingfestingu máls þessa, ljóst, að stefndu hafi framleitt og a.m.k. reynt að selja ísstrokka, sem þeir hafa nefnt “Thick Ice Generator” í fjórum útgáfum eða stærðum T1–T4.  Séu ísstrokkar þessir í öllum grundvallaratriðum sambærilegir ísstrokkum þeim, sem þeirra fyrrum vinnuveitandi hafi framleitt, og nú stefnandi, eftir að hann tók yfir framleiðsluna. Það sé tæknilega ómögulegt, að stefndu hafi þróað ísstrokka á jafn örskömmum tíma og raun beri vitni, án þess að hagnýta sér atvinnuleyndarmál og/eða formúlur, lýsingar, uppskriftir, uppdrætti, líkön og þess háttar þekkingu, sem þeir hafi öðlazt í störfum sínum fyrir Ískerfi hf.

        Í þessu sambandi eigi í fyrsta lagi að hafa í huga, að samkvæmt upplýsingum stefnanda, hafi stefndu haft takmarkaða sérþekkingu af kæli- og frystigeiranum, áður en þeir hófu störf hjá Ískerfum hf.  Þá hafi þeir í námi sínu ekki lagt áherzlu á þennan afmarkaða og sérhæfða geira vélaverkfræði.  Í öðru lagi hafi Ískerfi hf., og Brunnar hf. þar áður, eytt hundruðum milljóna í þróunarkostnað og verið með mikla þróunarstarfsemi í fjölda ára til að komast á það stig að framleiða þær vélar, sem stefnandi framleiði í dag og selji.  Í þriðja lagi sé framleiðsla ísþykknivéla og ísstrokka svo sérhæfð, að ekki séu nema örfá fyrirtæki í öllum heiminum, sem framleiði ísstrokka og ísþykknivélar, og lítil ástæða væri fyrir stefnanda að stunda framleiðslu og sölu á vélum sínum, ef hann hefði ekki eitthvað sérstakt fram að færa, sem ekki væri á allra færi og vitorði.  Í fjórða lagi kveðist stefndu sjálfir hafa endurbætt framleiðslu stefnanda og vera nú með mun betri vöru, eða svo kallaða “þriðju kynslóð” af ísvélum.  Það hljóti því að vera augljóst, að enginn geti á svo skömmum tíma endurbætt vélar stefnanda, nema því aðeins að hafa haft yfir að ráða víðtækum upplýsingum um virkni og eiginleika véla stefnanda.  Yfir slíkum upplýsingum hafi stefndu haft að ráða, og yfir þeim upplýsingum hafi trúnaðarákvæðum í ráðningarsamningum verið ætlað að ná yfir.   

        Í ráðningarsamningum stefndu sé tekið fram, að ævarandi þagnarskylda og trúnaður gildi um formúlur, lýsingar, skilgreiningar, uppskriftir, uppdrætti, líkön og þess háttar, sem stefndu hafi komizt yfir í starfi sínu fyrir Ístækni hf., og að stefndu sé óheimilt að nýta sér slíkar upplýsingar.  Séu uppdrættir að ísvélum aðgengilegir almenningi í gegnum einkaleyfaumsóknir og einkaleyfi, sem birt hafi verið, verði slíkir uppdrættir hins vegar ekki almenningseign, þrátt fyrir slíka birtingu.  Hvað sem öðru líði, sé stefndu óheimilt að hagnýta atvinnuleyndarmál stefnanda í þrjú ár frá starfslokum.

        Á ákvæðum 27. gr. samkeppnislaga sjáist, að löggjafinn hafi séð sérstaka þörf á að lögbinda fortakslaust þær kvaðir, sem stefnandi vilji nú fá framfylgt, enda myndu ákveðnir þættir atvinnulífsins, sambærilegir þeim, sem stefnandi tilheyri, “standa berskjaldaðir fyrir fyrrum starfsmönnum og samkeppnisaðilum að stela öllu verðmæti fyrirtækisins á einu bretti” (sic í stefnu).  Ákvæði ráðningarsamninga stefndu séu byggð upp með sambærilegum hætti og ákvæði 2. og 3. mgr. 27. gr. samkeppnislaga.  Þannig sé þeim ætlað að koma á skýru réttarsambandi vinnuveitanda og starfsmanns og markmið þeirra að verja lögmæta hagsmuni vinnuveitanda.  Hafi stefndu enga ástæðu haft til að ætla, að þeir væru óbundnir af þessum ákvæðum ráðningarsamninganna, enda kveði þau skýrt á um, að gildistími þeirra sé óbundinn gildistíma ráðningarsamningsins að öðru leyti.  Verði því að telja, að jafnframt því að fara í bága við skýr ákvæði ráðningarsamnings, séu stefndu að brjóta gegn ákvæðum 27. gr. samkeppnislaga.

        Í bréfi lögmanns stefndu til lögmanns stefnanda, dags. 28. september 2004, komi fram, að starfslok stefndu hjá Ískerfum hf. hafi verið með þeim hætti, að þeir séu óbundnir af samkeppnisákvæðum ráðningarsamninganna með vísan til 2. mgr. 37. gr. samningalaga nr. 7/1936, og að sá tími sé liðinn, sem stefndu hafi skuldbundið sig til að vinna ekki hjá samkeppnisaðilum Ískerfa hf.  Þá segi þar einnig, að sú yfirfærsla á ákvæðum ráðningarsamninga stefndu frá Ískerfum hf. til stefnanda standist ekki lög og sé óskuldbindandi fyrir gerðarþola.

        Varðandi þessi atriði bendi stefnandi á, að í samningi stefnanda og Ískerfa hf. hafi eingöngu verið framselt vald til að fullnusta tiltekin ákvæði ráðningarsamninganna, en ekki ráðningarsamningarnir sem slíkir.  Ekkert í lögum takmarki heimild Ískerfa hf. til slíks framsals.  Aðstöðunni verði ekki jafnað við framsal á samningi um störf launþega í þágu vinnuveitanda, enda sé þessum ákvæðum eingöngu ætlað að gilda eftir starfslok stefndu, þ.e.a.s. þegar hinu persónubundna sambandi vinnuveitanda og starfsmanns sé lokið.  Breyti það engu fyrir stefndu, hver fullnusti þessi ákvæði, stefnandi eða Ískerfi hf.  Þessi ákvæði ráðningarsamninganna setji stefndu engar sérstakar skyldur á herðar aðrar en athafnaleysi eftir starfslok.

        Ákvæði ráðningarsamninganna séu fortakslaus, hvað varði trúnaðar­skyldu stefndu og hagnýtingu trúnaðarupplýsinga eftir starfslok, og skipti í því sambandi ekki máli, hvernig starfslokum stefndu hafi verið háttað.  Eigi ákvæði 2. mgr. 37. gr. samningalaga nr. 7/1936, ekki við í máli þessu, enda eigi sú grein einungis við um samkeppnishömlur launþega, en ekki trúnaðarskyldur.

        Hvað sem framsali réttindanna líði, gildi hið fortakslausa ákvæði 27. gr. samkeppnislaga nr. 8/1993 um háttsemi stefndu, hvernig sem starfslokum sé háttað.

        Tjón stefnanda verði aldrei bætt nema að mjög litlum hluta með skaðabótum eða refsingum.  Stefnandi eigi því þann kost einan að krefjast staðfestingar lögbanns til að verja þá hagsmuni, sem ekki verði varðir á annan hátt.

        Fyrir stefnanda séu í húfi ríkir samkeppnishagsmunir, en á þeim markaði, sem hann starfi, ríki hörð og óvægin samkeppni. Þessir samkeppnishagsmunir verði ekki verðlagðir.  Þeir verði heldur ekki bættir eftir reglum skaðabótaréttar.  Auk þessa yrði mjög örðugt fyrir stefnanda að færa sönnur á og færa fram nákvæmar tölur til stuðning fjárhagslegu tjóni sínu í skaðabótamáli.

        Stefnandi eigi verulegra hagsmuna að gæta af því, að lögbannið fáist staðfest.  Fáist lögbannið staðfest, takmarki það ekki atvinnufrelsi stefndu, nema á mjög takmörkuðu sviði, eða einungis við framleiðslu og sölu ísstrokka.  Séu stefndu báðir menntaðir vélaverkfræðingar, og geti þeir því starfað á mjög fjölbreyttum starfs­vettvangi.  Yrði lögbannið því fjarri því að vera óhóflega íþyngjandi fyrir stefndu.

        Með hliðsjón af ofangreindu telur stefnandi sýnt, að skilyrðum 24. gr. laga nr. 31/1990 um lögbann hafi verið fullnægt.

        Stefnandi styður kröfur sínar við ákvæði framangreindra ráðningarsamninga, ólögfestar reglur um skuldbindingargildi samninga, 27. gr. samkeppnislaga nr. 8/1993, og lög um kyrrsetningu, lögbann o.fl. nr. 31/1990, einkum IV. kafla.

Málsástæður stefndu

Aðalkrafa stefndu er að málinu verði vísað frá dómi og er sú krafa einungis hér til umfjöllunar.

        Frávísunarkrafa stefndu byggist á því, að kröfugerð stefnanda uppfylli ekki ákvæði 80. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, sbr. 4. mgr. 114. gr. sömu laga, þar sem hún sé allt of víðtæk og óljós, bæði hvað varði innihald bannsins og eins til hve langs tíma bannið eigi að gilda.  Enn fremur gangi krafan mun lengra en þörf sé á til að vernda rétt stefnanda, og stórfelldur munur verði á hagsmunum stefnanda og stefndu, sbr. 2. tl. 2. mgr. 24. gr. l. nr. 31/1990.

        Verði fallizt á kröfuna, eins og hún sé fram sett, sé verið að banna stefndu að selja nánast allt, sem komi að framleiðslu á ís.  Þeir megi til dæmis ekki selja strokka frá öðrum framleiðendum.  Með vísan til 2. mgr. 37. gr. samningalaga nr. 7/1936 hafi samkeppnisákvæði ráðningasamnings stefndu fallið úr gildi, þegar þeim var vikið úr starfi hjá Ískerfum.  Hanni þeir nýjan strokk, sem byggi á allt annarri tækni, megi þeir ekki framleiða hann eða selja, þar sem þeim sé bannað að selja eða framleiða sambærilega vélahluti.  Enn fremur sé engin tímatilgreining í banninu, þannig að eins og krafan sé fram sett ætti bannið að gilda um aldur og ævi.  Jafnvel þótt dómari kæmist að því, að stefndu hefðu gerzt brotlegir við ákvæði ráðningarsamninga við Ískerfi, nái bannið við uppljóstrun á viðskipta- eða atvinnuleyndarmálum í ráðningarsamningi aðeins til þriggja ára eftir starfslok.  Því sé kröfugerðin mun víðtækari en þau ákvæði, sem hún byggi á.

        Þar sem allar upplýsingar um ísstrokk Optimar séu opinberar í einkaleyfa­gagna­grunnum, sé með þessu verið að banna stefndu að útfæra eftir einkaleyfi, vegna þess að þeir hafi einhvern tímann unnið hjá Ískerfum.  Þetta sé réttur allra og beinlínis hvatt til þess með lögum um einkaleyfi.

IV

Forsendur og niðurstaða

Krafa stefnanda hljóðar um, að staðfest verði lögbann, sem sýslumaðurinn í Reykjavík lagði á þann 4. janúar 2005 með lögbannsgerð nr. L-25/2004.  Samkvæmt gögnum málsins var lögbann það, sem krafizt er staðfestingar á, lagt við því, að Jónas G. Jónasson og Þorsteinn Ingi Víglundsson framleiði og/eða selji ísstrokka í ísþykknivélar af gerðinni Thick-Ice Generator (TI-T4) eða sambærilega vélahluti.   Síðari hluti dómkröfunnar er samhljóða lögbanninu og lýtur að því, að stefndu verði með dómi bannað að framleiða og/eða selja framangreinda hluti.

        Krafa stefnanda byggir á ráðningarsamningi stefndu við fyrirtækið Ískerfi hf. um þagnarskyldu og trúnað og bann við því að hagnýta sér viðskiptaupplýsingar með einum eða öðrum hætti, m.a. í þrjú ár eftir að þeir ljúka störfum.  Þá er vísað til ævarandi þagnarskyldu um formúlur, lýsingar, uppskriftir, líkön o.þ.h. auk ævarandi banns við að hagnýta sér slíkar upplýsingar.

        Hvorki í lögbannsgerðinni né í kröfugerð stefnanda er tiltekin tímalengd, sem framleiðslu- og sölubanni er ætlað að gilda.  Má fallast á með stefndu, að krafa stefnanda sé óljós og illa skilgreind.  Hugtakið “sambærilegir vélarhlutir” er ekkert skilgreint og ógerlegt að glöggva sig á því, hversu víðtækt slíkt bann ætti að vera.  Er kröfugerðin ekki í samræmi við d- og e- liði 80. gr. einkamálalaga nr. 91/1991 um skýra kröfugerð og skýran og glöggan málatilbúnað.  Ber því að fallast á aðalkröfu stefndu og vísa málinu frá dómi.

        Eftir atvikum ber stefnanda að greiða hvorum stefndu kr. 100.000 í málskostnað.

        Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Málinu er vísað frá dómi.

        Stefnandi, Optimar Íslandi ehf., greiði stefndu, Jónasi G. Jónassyni og Þorsteini Inga Víglundssyni, hvorum um sig, kr. 100.000 í málskostnað.