Hæstiréttur íslands
Nr. 2022-43
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Kynferðisbrot
- Nauðgun
- Tilraun
- Sönnun
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Björg Thorarensen og Karl Axelsson.
2. Með beiðni 30. mars 2022 leitar ákæruvaldið leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 4. sama mánaðar í máli nr. 164/2021: Ákæruvaldið gegn X á grundvelli 1. mgr., sbr. 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.
3. Gagnaðili var ákærður fyrir kynferðisbrot með því að hafa á salerni veitingastaðar haft samræði við brotaþola með því að notfæra sér að hún gat ekki spornað við verknaðinum sökum ölvunar en af þessu hafi brotaþoli hlotið húðblæðingu á hægri handlegg við handarkrika, mar og eymsli á hægri öxl og marbletti á hægri fótlegg. Var háttsemin í ákæru heimfærð undir 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
4. Með dómi héraðsdóms var gagnaðili sakfelldur fyrir brot gegn 2. mgr. 194. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga. Var refsing hans ákveðin fangelsi í 18 mánuði og honum gert að greiða 1.500.000 krónur í miskabætur. Með dómi Landsréttar var gagnaðili sýknaður og einkaréttarkröfu vísað frá héraðsdómi. Landsréttur vísaði til þess að hann væri einn til frásagnar um það sem gerðist á salerninu. Hafi hann verið staðfastur í þeirri frásögn sinni að brotaþoli hafi komið með honum þangað án þvingunar og hann hætt kynlífsathöfnum með henni um leið og hann áttaði sig á að hún væri ekki fær um að taka þátt í kynlífi. Þá sýndi myndskeið að brotaþoli hafi ekki verið áberandi ölvuð þegar hún gekk inn á salernið. Ekki lægi fyrir að samdráttur hafi verið með gagnaðila og brotaþola eða að hún hafi nokkurn tíma gefið honum til kynna að hún vildi stunda með honum kynlíf. Hefði ákæruvaldinu ekki tekist að sanna gegn eindreginni neitun gagnaðila að hann hafi gerst sekur um að hafa haft samræði við brotaþola með því að notfæra sér að hún gat ekki spornað við verknaðinum sökum ölvunar.
5. Leyfisbeiðandi byggir á því að málsmeðferð fyrir Landsrétti hafi verið stórlega ábótavant og að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi og efni til, sbr. 3. málslið 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Leyfisbeiðandi vísar til þess að ekkert hafi verið fjallað um þá málsástæðu gagnaðila að óheimilt hefði verið að sakfella hann fyrir tilraunarbrot í héraði og vörnum hans því orðið áfátt. Þá hafi leyfisbeiðandi krafist þess fyrir Landsrétti að hinn áfrýjaði dómur, þar sem gagnaðili var sakfelldur fyrir tilraun til nauðgunar, yrði staðfestur um sakfellingu og refsing hans þyngd en ekki hafi verið krafist sakfellingar samkvæmt ákæru sem miðaðist við fullframningu brots. Í reifun dómkrafna leyfisbeiðanda í dómi Landsréttar hafi þess eingöngu verið getið að krafist væri refsiþyngingar. Af þeim sökum hafi á það skort að nægilega glögglega væri gerð grein fyrir því hvers krafist væri í málinu, sbr. c-lið 2. mgr. 183. gr., sbr. 210. gr. laga nr. 88/2008. Enn fremur hafi Landsréttur farið út fyrir kröfugerð leyfisbeiðanda með því að fjalla einungis um hvort gagnaðili hafi gerst sekur um fullframið nauðgunarbrot en ekki tilraun til þess. Leyfisbeiðandi telur þessa meðferð meðal annars stangast á við b-lið 2. mgr. 203. gr. og 208. gr. laga nr. 88/2008. Loks uppfylli dómur Landsréttar ekki skilyrði f-liðar 2. mgr. 183. gr., sbr. 210. gr. sömu laga um röksemdir fyrir því hvað teljist sannað í máli og með hverjum hætti en í honum hafi ekki verið fjallað um þá háttsemi sem gagnaðili var sakfelldur fyrir í héraðsdómi.
6. Á samningu hins áfrýjaða dóms eru þeir annmarkar að hvorki er gerð grein fyrir þeirri kröfu leyfisbeiðanda að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur um sakfellingu gagnaðila fyrir tilraun til nauðgunar né afstaða tekin til þeirrar kröfu með beinum hætti. Í dóminum er að auki ekki fjallað um þá málsástæðu gagnaðila að vörnum hans fyrir héraðsdómi hafi verið áfátt þar sem skilyrðum c-liðar 1. mgr. 152. gr. og 1. mgr. 180. gr. laga nr. 88/2008 hafi ekki verið fullnægt með því að sakfellt var fyrir tilraunarbrot samkvæmt 20. gr. almennra hegningarlaga án þess að ákært hafi verið fyrir það. Á hinn bóginn er til þess að líta að niðurstaða Landsréttar um sýknu er að stærstum hluta reist á mati á sönnunargildi munnlegs framburðar. Það mat verður ekki endurskoðað fyrir Hæstarétti, sbr. 5. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Að því virtu og forsendum Landsréttar um hvaða atvik máls teljist sönnuð verða annmarkar á dóminum ekki taldir leiða til þess að alveg nægjanleg efni séu til að beita heimild 3. málsliðar 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008, líkt og leyfisbeiðandi krefst á grundvelli þess að dómurinn verði talinn bersýnilega rangur að efni eða formi. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.