Hæstiréttur íslands

Mál nr. 25/2006


Lykilorð

  • Kærumál
  • Nauðungarsala
  • Lausafjárkaup
  • Galli
  • Riftun


Miðvikudaginn 8

 

Miðvikudaginn 8. febrúar 2006.

Nr. 25/2006.

Sýslumaðurinn í Reykjavík

(Einar Karl Hallvarðsson hrl.)

gegn

Steindóri Einarssyni

(Kristján Stefánsson hrl.)

 

Kærumál. Nauðungarsala. Lausafjárkaup. Galli. Riftun.

S keypti bifreið við nauðungarsölu en krafðist síðar riftunar kaupanna vegna þess að bifreiðin hefði verið verulega gölluð en sýslumaður hafnaði beiðninni. Krafðist S þess í málinu að framangreind ákvörðun sýslumannsins yrði felld úr gildi. Talið var að ákvæði 1. mgr. 65. gr. laga nr. 90/1991 yrðu skilin þannig að kaupandi við lausafjáruppboð gæti krafist m.a. riftunar kæmi slík krafa fram áður en söluverði hefði verið ráðstafað, en óumdeilt var í málinu að S hafði gert riftunarkröfu sína fyrir það tímamark.  Þegar haft var í huga að S hafði við uppboðið takmarkað færi á að skoða umrædda bifreið var talið að bifreiðin hefði verið í mun verra ástandi en S hafði ástæðu til að ætla þegar hann gerði boð í hana og því hafi hún verið haldin galla í skilningi c. liðar 1. mgr. 19. gr. laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup. Hafi sá galli verið það verulegur að S hafi verið rétt að rifta kaupunum, sbr. 1. mgr. 39. gr. sömu laga. Var ákvörðun sýslumanns því felld úr gildi.

 

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Markús Sigurbjörnsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 30. desember 2005, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 10. janúar 2006. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 21. desember 2005, þar sem felld var úr gildi ákvörðun sóknaraðila 3. mars 2005 um að hafna kröfu varnaraðila um riftun á kaupum bifreiðarinnar ZV 787 við nauðungarsölu 29. janúar sama ár. Kæruheimild er í 79. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. Sóknaraðili krefst þess að framangreind ákvörðun hans verði staðfest og varnaraðila gert að greiða málskostnað í héraði ásamt kærumálskostnaði.

Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sér dæmdur kærumálskostnaður.

I.

Samkvæmt gögnum málsins var bifreiðin ZV 787 seld nauðungarsölu á uppboði, sem sóknaraðili hélt á athafnasvæði Vöku ehf. í Reykjavík 29. janúar 2005. Gerðarþoli við nauðungarsöluna var Perla ehf., en svo virðist sem gerðarbeiðendur hafi verið Olíufélagið ehf. og tollstjórinn í Reykjavík. Fyrrnefndi gerðarbeiðandinn studdi beiðni um nauðungarsölu við fjárnám, en sá síðarnefndi hafði sett fram þrjár beiðnir, þar af tvær með stoð í fjárnámum og eina á grundvelli lögveðréttar. Þessum fjárnámum hafði verið þinglýst, en þau stóðu að baki samningsveði, sem SP Fjármögnun hf. naut í bifreiðinni.

Bifreiðin ZV 787 mun vera af gerðinni Jeep Grand Cherokee, smíðuð árið 2001, en fyrst skráð hér á landi í ágúst 2002. Óumdeilt virðist vera að bifreiðin hafi fundist utan vega í Mosfellsbæ og verið flutt þaðan á uppboðsstað 25. janúar 2005. Henni fylgdu ekki lyklar, en eins mun hafa verið ástatt um 31 af þeim 75 öðrum bifreiðum, sem selja átti við sama uppboð. Samkvæmt vitnaskýrslu, sem starfsmaður Vöku ehf. gaf fyrir héraðsdómi, voru bifreiðirnar hafðar til sýnis á uppboðsstað frá kl. 10 að morgni 29. janúar 2005, en uppboðið hófst kl. 13.30. Í samræmi við venju hafi bjóðendur getað skoðað bifreiðirnar að utan, en almennt hafi þær verið læstar og ekki gefinn kostur á því að athuga vélar þeirra. Hafi bjóðendur ekki fengið færi á að gangsetja þær bifreiðir, sem lyklar fylgdu.

Við uppboðið var beitt ákvæðum auglýsingar nr. 42/1992 um almenna skilmála fyrir uppboðssölu á lausafjármunum o.fl., sem gefin var út með stoð í 1. mgr. 65. gr. laga nr. 90/1991. Varnaraðili keypti þar bifreiðina ZV 787 fyrir 1.950.000 krónur. Ekki verður annað ráðið af gögnum málsins en að hann hafi staðgreitt söluverðið á uppboðinu í samræmi við 5. gr. skilmálanna. Í aðilaskýrslu varnaraðila fyrir héraðsdómi kvaðst hann hafa skoðað bifreiðina eins og kostur var áður en hún var boðin upp, en ekki hafi verið unnt að fara inn í hana. Hafi verið sprunga í framrúðu bifreiðarinnar, dæld á afturbretti og hjólbarðar talsvert slitnir, auk þess sem illa hafi verið hirt um hana, en að öðru leyti hafi ekkert virst vera athugavert við ástand hennar. Þá kom fram í skýrslu varnaraðila að hann hafi nokkrum sinnum áður keypt bifreið á uppboði, en hann hafi enga sérþekkingu á bifreiðum og aldrei sinnt viðgerðum á þeim.

Varnaraðili mun hafa fengið bifreiðina ZV 787 geymda á uppboðsstað til 1. febrúar 2005 þegar hún var flutt á verkstæði, þar sem ætlunin var meðal annars að útbúa lykla að henni. Samkvæmt málatilbúnaði varnaraðila reyndist ekki unnt að sinna þessu á því verkstæði og hafi bifreiðin verið flutt á annað 9. sama mánaðar. Þar hafi komið í ljós veruleg skemmd á vél bifreiðarinnar, því stimpilstöng í henni hafi verið brotin og gengið út um vélarblokkina. Ekki sé unnt að gera við blokkina og sé áætlaður kostnaður af nýrri 1.150.000 krónur. Eins atvikum var hér háttað hafi verið útilokað að verða var við þessa skemmd á vélinni fyrr en bifreiðinni var lyft upp á síðara verkstæðinu, sem farið var með hana á. Varnaraðili kveðst hafa greint sóknaraðila frá þessu 10. eða 11. febrúar 2005, en með bréfi 22. sama mánaðar gerði hann kröfu um riftun kaupanna eða afslátt af verði bifreiðarinnar, sem sóknaraðili tók fyrir 3. mars 2005. Að fram komnum mótmælum tollstjórans í Reykjavík og SP Fjármögnunar hf. gegn kröfunni tók sóknaraðili ákvörðun um að hafna henni. Varnaraðili leitaði úrlausnar Héraðsdóms Reykjavíkur um þá ákvörðun og var mál þetta þingfest af því tilefni 22. apríl 2005. Úrskurður gekk í málinu 29. júní 2005, en með dómi Hæstaréttar 29. ágúst sama ár í máli nr. 320/2005 var sá úrskurður ómerktur ásamt meðferð málsins frá þingfestingu þess í héraði. Var það tekið á ný til meðferðar 7. október 2005 og hinn kærði úrskurður upp kveðinn 21. desember sama ár.

II.

Samkvæmt 1. og 7. tölulið 1. mgr. 65. gr. laga nr. 90/1991, sbr. 3. og 8. gr. auglýsingar nr. 42/1992, skal við nauðungarsölu lausafjármuna á uppboði meðal annars beita almennt þeim skilmálum að munirnir séu seldir í því ástandi, sem þeir eru þegar hamar fellur, að engin ábyrgð sé tekin á ástandi þeirra eða heimild yfir þeim og að kaupandi geti ekki krafist riftunar kaupa, afsláttar eða skaðabóta eftir að sýslumaður hefur ráðstafað söluverði. Af þessu verður greinilega ályktað að kaupandi lausafjármuna við nauðungarsölu getur neytt síðastnefndra úrræða vegna vanefnda í sinn garð, sbr. einnig 1. mgr. 48. gr. laganna, enda komi hann á framfæri kröfu af því tilefni í tæka tíð, svo sem óumdeilt er í málinu að varnaraðili hafi gert. Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup takmarka fyrirvarar um ástand söluhlutar af þeim toga, sem að framan getur, almennar heimildir kaupanda til að bera fyrir sig vanefndir vegna galla á hlutnum, en girða þó ekki fyrir þær í nánar tilgreindum tilvikum, meðal annars ef ástand hlutarins er til muna verra en kaupandi hafði ástæðu til að ætla miðað við kaupverð og atvik að öðru leyti, sbr. c. lið ákvæðisins. Eftir því, sem við getur átt, gildir þetta einnig þegar notaðir lausafjármunir eru seldir á uppboði, sbr. 2. mgr. sömu lagagreinar, en samkvæmt lögskýringargögnum er þeirri reglu ætlað að taka jafnt til uppboðs við nauðungarsölu sem í öðrum tilvikum. Þegar ákvæðum 1. mgr. 19. gr. laga nr. 50/2000 er þessu til samræmis beitt um heimildir kaupanda til að bera fyrir sig galla á lausafjármunum, sem kaup hafa tekist um við nauðungarsölu á uppboði, verður sérstaklega að gæta að því að þar verður ekki rætt um seljanda, sem getur veitt eða vanrækt að gefa upplýsingar um söluhlut eða borið ábyrgð á ástandi hans, og ræðst söluverð af boði kaupanda án þess að fyrri eigandi láti nokkuð uppi um verðmæti hlutarins svo að áhrif geti haft. Vegna tilefnis nauðungarsölu verður kaupandi jafnframt að vera því að öðru jöfnu viðbúinn að ástand söluhlutar geti verið lakara þar en almennt gerist um sambærilega hluti.

Í málinu hafa ekki verið lögð fram gögn um útlit bifreiðarinnar ZV 787 þegar hún var seld við fyrrnefnt uppboð 29. janúar 2005 og hvað hefði eftir atvikum mátt álykta af því um ástand hennar. Varnaraðili hefur sem fyrr segir borið að sprunga hafi verið í framrúðu bifreiðarinnar, dæld á afturbretti og hjólbarðar slitnir, auk þess sem hún hafi borið þess merki að ekki hafi verið vel um hana hirt. Með því að þessari lýsingu hefur ekki verið hnekkt verður að leggja hana til grundvallar. Sóknaraðili hefur ekki andmælt því að sú skemmd hafi verið á vél bifreiðarinnar, sem varnaraðili heldur fram, eða að kostnaður af viðgerð hennar sé réttilega áætlaður 1.150.000 krónur. Sóknaraðili hefur heldur ekki andmælt staðhæfingum varnaraðila, sem að nokkru eru studdar gögnum, um að gangverð bifreiða af þeirri gerð, sem hér um ræðir, hafi snemma árs 2005 verið 2.200.000 til 2.400.000 krónur, en verðmæti bifreiðarinnar ZV 787, eins og hún reyndist vera, hafi verið um 450.000 krónur. Ljóst er að varnaraðili átti þess hvorki kost að gangsetja bifreiðina né skoða vél hennar fyrir kaupin. Því hefur ekki verið hnekkt að honum hafi verið útilokað að verða var við skemmdirnar á vélinni við þá ófullkomnu skoðun, sem hann gat gert á bifreiðinni. Af þessu öllu er sýnt að ástand bifreiðarinnar var til mikilla muna verra en varnaraðili hafði ástæðu til að ætla þegar hann gerði boð í hana.  Samkvæmt c. lið 1. mgr. 19. gr. laga nr. 50/2000 var bifreiðin því haldin galla þegar varnaraðili keypti hana. Sá galli var það verulegur að varnaraðila var rétt að rifta kaupunum, sbr. 1. mgr. 39. gr. laganna. Af þeim sökum verður staðfest niðurstaða hins kærða úrskurðar um að fella úr gildi ákvörðun sóknaraðila 3. mars 2005 um að hafna kröfu varnaraðila um riftun á kaupum bifreiðarinnar.

Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila málskostnað í héraði og kærumálskostnað, sem ákveðinn er í einu lagi eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Felld er úr gildi ákvörðun sóknaraðila, sýslumannsins í Reykjavík, 3. mars 2005 um að hafna kröfu varnaraðila, Steindórs Einarssonar, um riftun á kaupum hans á bifreiðinni ZV 787, sem seld var nauðungarsölu á uppboði 29. janúar sama ár.

Sóknaraðili greiði varnaraðila samtals 250.000 krónur í málskostnað í héraði og kærumálskostnað.

 

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 21. desember2005.

Málið barst héraðsdómi upphaflega hinn 18. mars sl. með bréfi lögmanns sóknaraðila. Það var tekið til úrskurðar 13. júní sl. og var úrskurður upp kveðinn 29. s.m. Úrskurðurinn var felldur úr gildi með dómi Hæstaréttar í málinu nr. 320/2005. Lagt var fyrir héraðsdómara að taka málið til löglegrar meðferðar. Málið var flutt að nýju hinn 5. desember sl. 

Sóknaraðili málsins er Steindór Einarsson, kt. 040764-3489, Reykjavík.

Varnar­aðili er sýslumaðurinn í Reykjavík, Skógarhlíð 6, Reykjavík.

Dómkröfur sóknaraðila eru aðallega, að ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík frá 3. mars 2005 verði hrundið og að rift verði sölu bifreiðarinnar ZV-787, sem er af gerðinni Jeep Cherokee Laredo 3,1 td. en bifreiðin var seld á uppboði þann 29. janúar 2005. Til vara krefst sóknaraðili þess, að veittur verði 1.150.000 kr. afsláttur af sölu­verði bifreiðarinnar ZV-787. Til þrautavara krefst sóknaraðili þess, að veittur verði afsláttur af söluverði bif­reiðar­innar ZV-787, að mati réttarins. Þá er krafist málskostnaðar.

Dómkröfur varnaraðila eru að ákvörðun hans frá 3. mars 2005 verði staðfest og að hafnað verði riftunarkröfu og afslátt­ar­kröfum sóknaraðila vegna nauðungarsölu bifreiðarinnar ZV-787 þann 29. janúar 2005. Þá er krafist málskostnaðar.

Málavextir.

Sóknaraðili keypti bifreiðina ZV-787, sem skráð er ný þann 22. ágúst 2002, á nauðungaruppboði sem varnaraðili hélt í Vöku þann 29. janúar 2005. Kaupverðið var 1.950.000 krónur. Í ljós kom að vél bifreiðarinnar var ónýt, þ.e. gat er á blokk vélarinnar. Með bréfi sóknaraðila 22. febrúar 2005 til varnaraðila krafðist hann riftunar eða verulegs afsláttar af söluverðinu, en greiðsla söluverðsins hafði ekki farið fram. Varnaraðili tók þessar kröfur sóknaraðila fyrir 3. mars 2005 og hafnaði þeim með vísan til þess að lausafjármunir séu seldir á uppboðum í því ástandi sem að þeir eru þegar hamar fellur og kaupandi geti ekki krafist afsláttar þegar hann kaupi notaðan hlut á uppboði sbr. 2. mgr. 37. gr. laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup. Lýsti sóknaraðili því þá yfir að hann myndi bera ákvörðunina undir héraðsdóm.

Málsástæður og lagarök.

Sóknaraðili byggir á að hann hefði ekki getað séð umrædda vélarbilun, sem kosti 59% af uppboðsandvirði að lagfæra, við skoðun. Þá sé ekki hægt að gera þá kröfu til hans að hann hafi mátt gera ráð fyrir svo sjaldgæfri og óvenjulegri vélarbilun, sem sé svo kostnaðarsamt að gera við, í nýlegri bifreið með gæðavél frá Daimler-Chrysler. Hann hafi miðað boð sitt í bifreiðina við sýnilegt ástand bifreiðarinnar og það ástand sem ráð hafi mátt ráð fyrir. Hafi verðið verið í samræmi við viðmiðunarverð Bíl­greinasambandsins á sambærilegum bifreiðum miðað við sýnilegt og fyrirsjáanlegt ástand hennar og jafnvel í hærri kantinum.

Í c. lið 1. mgr. 19. gr. laga um lausafjárkaup, sem samkvæmt 2. mgr. greinarinnar eigi við eftir því sem við getur átt ef notaðir hlutir eru seldir á uppboði, sé kveðið á um að hlutur teljist gallaður, ef ástand hans er til muna verra en kaupandi hafði ástæðu til að ætla miðað við kaupverð og atvik að öðru leyti. Þá sé kaupanda í 39. gr. sömu laga veitt heimild til að rifta kaupum, ef meta megi galla til verulegra vanefnda. Gagnályktun af 8. gr. auglýsingar um almenna skilmála fyrir uppboðssölu á lausafjármunum o.fl. nr. 41/1992 leiði til þeirrar niður­stöðu, að unnt sé að krefjast riftunar, sé það gert, áður en uppboðsandvirði sé ráð­stafað, en í ákvæðinu sé tekið fram, að eftir það, geti kaupandi ekki haft uppi kröfu um riftun, skaðabætur eða afslátt. Sama skilning beri að leggja í 7. tl. 65. gr. nsl. Þá sé gert ráð fyrir því í 48. gr. nsl. að rifta megi kaupum á nauðungaruppboði sé krafa um það sett fram, áður en uppboðsandvirði hefur verið ráðstafað.

Sóknaraðili byggir á að umrædd bifreið hafi verið haldin svo leyndum og ófyrirsjáanlegum galla að skilyrði þess að rifta megi kaupunum séu fyrir hendi.

Til stuðnings varakröfu og þrautavarakröfu vísar sóknaraðili til 8. gr. aug­lýsingar um almenna skilmála fyrir uppboðssölu á lausafjármunum nr. 42/1992 og til 65. gr. og 48. gr. nsl.

Málsástæður og lagarök varnaraðila.

Varnaraðili byggir á að kaup bifreiða á nauðungaruppboði séu almennt áhættusöm og skýrlega sé kveðið á um að munir séu seldir í því ástandi sem þeir eru þegar hamar fellur, sbr. 1. tl. 1. mgr. 65. gr. laga um nauðungarsölu nr. 90/1991 og 3. gr. auglýsingar um almenna skilmála fyrir uppboðssölu á lausafjármunum o.fl. nr. 42/1992. Sóknaraðili verði að bera hallann af því að hafa tekið áhættu af því að kaupa bifreiðina þrátt fyrir að hún hafi borið með sér að vera verulega löskuð. Því sé hvorki fyrir hendi réttur til riftunar eða afsláttar.

Þá byggir varnaraðili á að sóknaraðili hafi mátt ætla að margt gæti verið athugavert við ástand bifreiðarinnar mið við útlit hennar. Þá hafi engar upplýsingar legir fyrir um ástand hennar og engu hafi verið um það lofað. Því verði ekki byggt á að bifreiðin hafi verið haldin galla, sem metinn verði til vanefndar, sbr. 39. gr. laga nr. 50/2000. Þá séu skilyrði c-liðar 1. mgr. 19. gr. ekki uppfyllt þar sem sóknaraðili hafi mátt ætla að bifreiðin gæti verið í mjög slæmu ástandi, en hann hafi engu að síður keypt hana án þess að ganga úr skugga um hvort hún væri gangfær. Þá byggir varnaraðili einnig á að þrátt fyrir að 1. mgr. 19. gr. laga um lausafjárkaup eigi við um nauðungarsölu eftir því sem við geti átt þá gangi ákvæði nauðungarsölulaga og skilmálar samkvæmt auglýsingu nr. 42/1992 framar þar sem á milli skilur þegar um nauð­ungarsölu á notuðum hlut er að ræða samkvæmt 2. mgr. 19. gr. lausa­fjár­kaupa­laga. Þetta sé sérstaklega tekið fram í greinargerð. Þá sé skýrlega mælt þar fyrir um að ákvæði 1. mgr. séu frávíkjanleg í öðrum kaupum en neytendakaupum ef staðið sé að með sérgreindum hætti. Með hliðsjón af framangreindu og skýrum ákvæðum 65. gr. nauð­ungarsölulaga um að munir seljist í því ástandi sem þeir eru þegar hamar fellur sé ljóst að engin skilyrði séu til riftunar á umþrættum kaupum.

Þá byggir varnaraðili á að skýrlega sé mælt fyrir um það í 2. mgr. 37. gr. laga um lausa­fjárkaup að kaupandi notaðs hlutar á uppboði geti ekki krafist afsláttar.

Í öllum tilvikum telur varnaraðili að líta verði á réttarstöðu uppboðshaldara, en at­beini sýslumanns sem slíks miði fyrst og fremst að því að koma hlutum í verð til fulln­ustu kröfum annarra. Varnaraðili sé ekki í aðstöðu til að gera ráðstafanir til að tryggja að allir hlutir sem seldir séu megi teljast gallalausir og hafði enga upplýsingaskyldu um­fram nefnda uppboðsskilmála.

Þá byggir varnaraðili einnig á því að þótt byggt yrði á ákvæðum laga um lausa­fjár­kaup og þótt skilyrðum samkvæmt 19. gr. þeirra kæmu til álita eða önnur van­efnda­úrræði verði að líta til þess hversu stórbrotna áhættu sóknaraðili tók með kaup­un­um með því að taka þá áhættu að bjóða hátt verð í bifreið sem var mjög illa á sig komin og bar þess öll merki að skoða þyrfti ítarlegar eða a.m.k. gangsetja hana, sbr. al­mennar reglur kauparéttar og meginregla 20. gr. laga um lausafjárkaup um rannsóknarskyldu og grandsemi kaupanda.

Niðurstaða.

Í máli þessu krefst sóknaraðili þess aðallega að felld verði úr gildi ákvörðun sýslumanns frá 3. mars 2005 um að hafna kröfu hans um að rift verði sölu bifreiðarinnar ZV-787 sem sóknaraðili keypti á uppboði þann 29. janúar 2005 og að sölunni verði rift.

Við söluna giltu þeir uppboðsskilmálar sem kveðið er á um að gilda skuli við nauðungarsölu á lausafjármunum í 1.–7. tl. 1. mgr. 65. gr. laga um nauðungarsölu nr. 90/1991, sbr. auglýsing um almenna skilmála fyrir uppboðssölu á lausafjármunum o.fl. nr. 42/1992 en samkvæmt 1. tl. 1. mgr. 65. gr. laganna, sbr. 3. gr. auglýsingarinnar eru munir seldir í því ástandi sem þeir eru þegar hamar fellur og samkvæmt 7. tl. 65. gr. laganna, sbr. 8. gr. auglýsingarinnar er engin ábyrgð tekin á ástandi muna eða heimild yfir þeim og getur kaupandi ekki haft uppi kröfu um riftun, afslátt eða skaðabætur eftir að söluverðinu hefur verið ráðstafað.

Fyrir liggur að vél bifreiðarinnar YZ-787 sem er af gerðinni Jeep Cherokee Laredo 3,1 td., árg. 2001 en skráð ný 22. ágúst 2002, sem sóknaraðili keypti á 1.950.000 krónur, reyndist ónýt. Samkvæmt gögnum málsins er áætlaður kostnaður við skiptivél um 1.150.000. Þá liggur fyrir, samkvæmt yfirlýsingu bílapartasala sem sóknaraðili hefur aflað, að söluverð bifreiðarinnar í því ástandi sem hún er sé áætlað kr. 450.000.

19. gr. laga um lausafjárkaup nr. 50/2000 ber yfirskriftina: Hlutur seldur “í því ástandi sem hann er”. Sala á uppboði. Í 1. mgr. greinarinnar, sem samkvæmt 2. mgr. greinarinnar gildir eftir því sem við getur átt þegar notaðir hlutir eru seldir á uppboði, er kveðið á um að þótt söluhlutur sé seldur “í því ástandi sem hann er” eða með öðrum áþekkum fyrirvara teljist hann gallaður þegar hann er haldinn þeim ágöllum sem nefndir eru í a-c lið málsgreinarinnar. Hlutur er þannig gallaður þegar a. hann svarar ekki til þeirra upplýsinga sem seljandi hefur gefið um hann, eiginleika hans eða not og ætla má að þessi atriði hafi haft áhrif á það að kaup gerðust; b. ef seljandi hefur við kaupin vanrækt að gefa upplýsingar um atriði sem verulegu máli skipta varðandi hlutinn eða not hans og seljandi hlaut að þekkja til og kaupandi mátti ætla að hann fengi upplýsingar um, enda megi ætla að vanrækslan hafi haft áhrif á kaupin eða c. ástand söluhlutar er til muna verra en kaupandi hafði ástæðu til að ætla miðað við kaupverð og atvik að öðru leyti.

Sóknaraðili byggir kröfu sína um riftun á tilvitnuðum c-lið 19. gr., þ.e. að bifreiðin YZ-787 hafi verið í miklu verra ástandi en hann hafði ástæðu til að ætla.

Samkvæmt c-lið 1. mgr. 19. gr. laga nr. 50/2000 er seljandinn, eins og áður greinir, ávallt ábyrgur ef í ljós kemur að söluhlutur er að verulegu leyti í miklu verra ástandi en kaupandinn hafði ástæðu til að ætla. Í greinargerð með ákvæðinu kemur fram að við mat í þeim efnum verði m.a. að styðjast við kaupverðið, en einnig atvik að öðru leyti. Þá kemur þar fram að það sé ekki skilyrði þess að ákvæðið eigi við að um óheiðarleika af hálfu seljanda sé að ræða, en ósamræmið á milli raunverulegs ástands söluhlutar og þess sem kaupandinn mátti ætla verði að vera ótvírætt.

Eins og áður greinir keypti sóknaraðili bifreiðina YZ-787, sem er af gerðinni Jeep Cherokee Laredo 3,1 td., árg. 2001 en skráð ný 22. ágúst 2002 á uppboði 29. janúar 2005 fyrir kr. 1.950.000. Kveðst sóknaraðili hafa miðað verðið við sýnilegt ástand bifreiðarinnar og það ástand sem hann hafi mátt gera ráð fyrir. Heldur sóknaraðili því fram að verðið hafi verið í samræmi við viðmiðunarverð Bíl­greinasambandsins á sambærilegum bifreiðum og jafnvel í hærri kantinum.

Upplýst er að sóknaraðili átti þess ekki kost að prófa bifreiðina fyrir kaupin þar sem lyklar fylgdu henni ekki en fyrir liggur að algengt er að lyklar fylgi ekki bifreiðum sem seldar eru nauðungarsölu. Þá er upplýst að vélarbilunin var ekki sýnilegt við þá skoðun sem hægt var að framkvæma á sölustað en samkvæmt yfirlýsingu verkstæðisformanns bílaumboðsins Öskju ehf., sem hann staðfesti fyrir dóminum, er vélarbilun eins og sú sem hér um ræðir afar sjaldgæf og þykir verða við það að miða.

Samkvæmt öllu framanröktu er það niðurstaða dómsins að sóknaraðili hafi ekki mátt búast við að vél svo nýlegrar bifreiðar, sem bifreiðarinnar YZ-787, væri ónýt. Þykir engu þar um breyta að ytra útlit hennar hafi eitthvað verið áfátt. Bifreiðin sé því gölluð í skilningi c - liðar 1. mgr. 19. gr. laga nr. 50/2000, en ákvæði 7. tl. 1. mgr. 65. gr. laga nr. 90/1991, sbr. 8. gr. auglýsingar nr. 42/1992 girða ekki fyrir að sóknaraðili hafi getað haft uppi kröfu um riftun. Samkvæmt því verður ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík frá 3. mars 2005 felld úr gildi.

Eftir niðurstöðu málsins verður varnaraðili úrskurðaður til að greiða sóknaraðila 250.000 krónur í málskostnað.

Þorgerður Erlendsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík frá 3. mars 2005 um að hafna því að rift verði sölu bifreiðarinnar ZV- 787 af gerðinni Jeep Cherokee Laredo 3,1 td. sem seld var á uppboði þann 29. janúar 2005.

Varnaraðili greiði sóknaraðila 250.000 krónur í málskostnað.