Hæstiréttur íslands
Mál nr. 703/2015
Lykilorð
- Kærumál
- Lögbann
- Aðildarskortur
|
|
Miðvikudaginn 4. nóvember 2015. |
|
Nr. 703/2015.
|
Alfacom General Trading ehf., Gholamhossein Mohammed Shirazi og Kamran Keivanlou (Þórhallur Haukur Þorvaldsson hrl.) gegn Austurstræti 5 ehf. og (Hilmar Magnússon hrl.) Borgun hf. (Stefán A. Svensson hrl.) |
Kærumál. Lögbann. Aðildarskortur.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem vísað var frá dómi kröfu sóknaraðila um að lagt yrði fyrir sýslumann að leggja á lögbann í samræmi við lögbannsbeiðni þeirra. Þá var hafnað kröfu sóknaraðila um að felld yrði úr gildi ákvörðun sýslumanns um að synja lögbannsbeiðni þeirra. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar var fallist á niðurstöðu hans um frávísun fyrrnefndrar kröfu sem fyrst var höfð uppi við málflutning málsins í héraði og einnig staðfest að kröfugerð sóknaraðila í beiðni þeirra til héraðsdóms hafi ekki staðið því í vegi að fjallað yrði efnislega um þá kröfu þeirra að felld yrði úr gildi fyrrnefnd ákvörðun sýslumanns. Jafnframt var fallist á með héraðsdómi að sóknaraðilarnir K og G væru ekki réttir aðilar að málinu og bæri því að hafna kröfu þeirra. Þá var tiltekið að sóknaraðili A hefði ekki sýnt fram á að réttarreglur um refsingu eða skaðabætur fyrir ætlaða röskun hagsmuna hans tryggði ekki nægjanlega þann rétt hans sem lögbanninu var ætlað að vernda. Hinn kærði úrskurður var því staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson og Greta Baldursdóttir og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 12. október 2015, en kærumálsgögn bárust réttinum 26. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 29. september 2015 þar sem vísað var frá dómi kröfu sóknaraðila um að lagt yrði fyrir sýslumanninn á höfuðborgarsvæðinu að leggja á lögbann í samræmi við lögbannsbeiðni þeirra. Þá var hafnað kröfu sóknaraðila um að felld yrði úr gildi ákvörðun sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu 21. júlí 2015 um að synja lögbannsbeiðni þeirra. Kæruheimild er í 1. mgr. 35. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl., sbr. 4. mgr. 91. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Sóknaraðilar krefjast þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og sýslumanninum verði gert að leggja á lögbann í samræmi við beiðni þeirra. Þá krefjast þeir málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar er fallist á niðurstöðu hans um frávísun þeirrar kröfu sóknaraðila sem fyrst var höfð uppi við flutning málsins í héraði að ,,lagt verði fyrir sýslumann að leggja á lögbann“. Þá er jafnframt staðfest að kröfugerð sóknaraðila í beiðni þeirra til héraðsdóms standi ekki í vegi því að fjallað verði efnislega um þá kröfu þeirra að felld verði úr gildi ákvörðun sýslumanns um að synja lögbannsbeiðninni, sbr. 33. gr. laga nr. 31/1990. Einnig er með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar fallist á að sóknaraðilarnir Kamran Keivanlou og Gholamhossein Mohammed séu ekki réttir aðilar að málinu og beri af þeim sökum að hafna síðastgreindri kröfu þeirra.
Með skírskotun til 1. töluliðar 3. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990 hefur sóknaraðilinn Alfacom General Trading ehf. ekki sýnt fram á að réttarreglur um refsingu eða skaðabætur fyrir ætlaða röskun hagsmuna hans tryggi ekki nægjanlega þann rétt hans sem lögbanninu er ætlað að vernda. Þegar af þeirri ástæðu verður hinn kærði úrskurður staðfestur á þann hátt sem í dómsorði greinir.
Sóknaraðilar greiði varnaraðilum kærumálskostnað eins og í dómsorði segir.
Dómsorð:
Hafnað er kröfu sóknaraðila, Alfacom General Trading ehf., Gholamhossein Mohammed Shirazi og Kamran Keivanlou, um að felld verði úr gildi ákvörðun sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu 21. júlí 2015 um að synja beiðni þeirra um lögbann.
Ákvæði hins kærða úrskurðar um málskostnað skal vera óraskað.
Sóknaraðilar greiði óskipt 400.000 krónur í kærumálskostnað til hvors varnaraðila fyrir sig, Austurstrætis 5 ehf. og Borgunar hf.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 26. september 2015.
I
Mál þetta, sem barst dóminum 30. júlí 2015, var tekið til úrskurðar 10. september sl.
Sóknaraðilar eru Alfacom General Trading ehf., Garðastræti 17, Reykjavík, Gholamhossein Mohammad Shirazi, með lögheimili í Íran, og Kamran Keivanlou, Skildinganesi 62, Reykjavík.
Varnaraðilar eru Austurstræti 5 ehf., Austurstræti 7, Reykjavík og Borgun hf., Ármúla 30, Reykjavík.
Endanlegar kröfur sóknaraðila eru þær að ákvörðun sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu, dagsett 21. júlí sl., um að synja lögbannsbeiðni sóknaraðila og að lagt verði fyrir sýslumann að leggja á lögbann í samræmi við beiðnina. Þá krefst sóknaraðili aðallega málskostnaðar að mati dómsins en til vara að hann verði felldur niður.
Varnaraðilar krefjast þess að kröfum sóknaraðila verði hafnað. Þá krefjast þeir málskostnaðar óskipt úr hendi sóknaraðila, og krefst varnaraðilinn Austurstræti 5 ehf. álags á málskostnað.
II
Málavextir
Með beiðni til sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu, dagsettri 7. júlí 2015, kröfðust sóknaraðilar þess að lagt yrði lögbann við tilteknum afhöfnum varnaraðila. Nánar tiltekið var þess krafist að sýslumaður „leggi lögbann við því að gerðarþolinn Austurstræti 5 ehf. hagnýti sér réttindi eða sinni skyldum sínum skv. þjónustu- og samstarfssamningi á milli 101 Austurstrætis ehf. og gerðarþolans Austurstrætis 5 ehf., sem dags. er 21. janúar 2015 og kveður á um að síðarnefnda félagið þjónusti allar posagreiðslur fyrir 101 Austurstræti ehf., að Austurstræti 7, sjá grein 7 í fskj. 23. Þá er þess krafist að lagt verði lögbann við því að gerðarþolinn Borgun ehf. annist milligöngu um eða veiti atbeina sinn að því að greiðslur skv. samningnum séu inntar af hendi í gegnum greiðslukortavélar (posa) gerðarþolans Borgunar hf., þ.e. að lagt verði lögbann við notkun greiðslukortakerfis (posakerfis) gerðarþola Borgunar hf. í leiguhúsnæði 101 Austurstræti ehf. að Austurstræti 7, á grundvelli þjónustusamnings á milli gerðarþolans Austurstrætis 5 ehf. og Borgunar hf., og að stöðvaðar verði allar millifærslur fjármuna á reikning Austurstrætis 5 ehf., vegna notkunar greiðslukortakerfisins.“
Forsaga málsins er sú að sóknaraðilinn, Alfacom General Trading ehf. annars vegar og Ásgeir Kolbeinsson og einkahlutafélagið Bakkagrandi hins vegar, gerðu með sér kaupsamning, dagsettan 16. október 2013, um að fyrrnefnda félagið keypti allt hlutafé einkahlutafélagsins 101 Austurstrætis af hinum síðarnefndu. Eigendur Alfacom General Trading ehf. eru sóknaraðilar málsins, Kamran Keivanlou og Gholamhossein Mohammed Shirazi. Einkahlutafélagið 101 Austurstræti rekur skemmtistaðinn Austur, sem staðsettur er í Austurstræti 7 í leiguhúsnæði í eigu fasteignafélagsins Eikar hf. Samkvæmt vottorði fyrirtækjaskrár sitja í stjórn 101 Austurstrætis ehf. sóknaraðilarnir Kamran og Gholamhossein Mohammed, ásamt framangreindum Ásgeiri og Kolbeini Péturssyni. Kamran gegnir stöðu stjórnarformanns félagsins og framkvæmdastjóri er Ásgeir. Ásgeir og Gholamhossein Mohammed fara sameiginlega með prókúru félagsins. Fljótlega eftir samningsgerðina komu upp deilur varðandi rekstur skemmtistaðarins Austurs milli stjórnarmanna. Hefur sóknaraðilinn Alfacom General Trading ehf. ekki greitt eftirstöðvar kaupverðsins og er nú fyrir dóminum rekið mál vegna ætlaðra vanefnda hans á kaupsamningnum. Þá er til úrslausnar í sama máli gagnkrafa sóknaraðilans um riftun á helmingi hlutafjárins.
Hinn 5. júní 2014 var haldinn stjórnarfundur í 101 Austurstræti ehf. þar sem kosið var um hvort víkja ætti framkvæmdastjóra félagsins, Ásgeiri, frá störfum og loka aðgangi hans og gjaldkera félagsins að reikningum þess, vegna ætlaðrar misnotkunar Ásgeirs á fjármunum félagins. Sóknaraðilar, Kamran og Gholamhossein Mohammed, kusu með tillögunni en Ásgeir á móti. Kolbeinn sat hjá við atkvæðagreiðsluna. Hinn 27. júní 2014 skráði fyrirtækjaskrá, að beiðni sóknaraðila, inn athugasemd um að ágreiningur ríkti um stöðu framkvæmdastjóra félagsins. Boðað var til stjórnarfundar á ný hinn 30. september 2014 og aftur greitt atkvæði um hvort víkja ætti framkvæmdastjóra þess frá störfum. Sem fyrr greiddu sóknaraðilar, Kamran og Gholamhossein, atkvæði með tillögunni. Kolbeinn greiddi atkvæði gegn henni en Ásgeir tók ekki þátt í kosningunni. Fyrirtækjaskrá hafnaði hinn 31. október 2014 skráningu tilkynningar um breytingu á framkvæmdastjórn, þar sem talið var ákvörðunin hafi ekki verið tekin á ályktunarbærum fundi. Sú ákvörðun hefur verið kærð til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins.
Með bréfi til Íslandsbanka hf., dagsettu 19. nóvember 2014, kröfðust sóknaraðilar, Kamran og Gholamhossein Mohammed, þess að bankareikningum félagsins yrði lokað Með bréfi bankans, dagsettu 24. s.m., til beggja málsaðila var tilkynnt að bankaviðskiptum félagsins yrði sagt upp frá og með 1. janúar 2015 þar sem traust ríkti ekki lengur á milli aðila sökum ágreinings stjórnarmanna. Sá frestur var framlengdur til 1. febrúar s.á. en þann dag var öllum reikningum félagsins hjá bankanum lokað. Þá sagði varnaraðilinn Borgun hf. upp þjónustusamningi sínum við félagið með bréfi, dagsettu 27. nóvember 2014, frá 30. janúar 2015 á þeim grundvelli að ekki væru forsendur fyrir áframhaldandi viðskiptum milli varnaraðilans og félagsins vegna uppsagnar á bankaviðskiptum félagsins hjá Íslandsbanka hf.
Hinn 22. desember 2014 voru Ásgeiri Kolbeinssyni framkvæmdastjóra og Kolbeini Péturssyni stjórnarmanni send ábyrgðarbréf að tilstuðlan sóknaraðila, Kamrans og Gholamhosseins Mohammeds, þar sem skorað var á þá sem stjórnarmenn félagsins að mæta á tilgreindum tíma í aðalútibú Arion banka hf. og ljá því atbeina sinn að stofnaðir yrðu nýir reikningar fyrir félagið, sem lytu að sameiginlegri prókúru beggja núverandi prókúruhafa félagsins. Ekki var brugðist við þeirri áskorun.
Hinn 21. janúar 2015 gerðu 101 Austurstræti ehf. og varnaraðilinn Austurstræti 5 ehf. með sér þjónustu- og samstarfssamning. Í stjórn Austurstrætis 5 ehf. situr framangreindur Ásgeir Kolbeinsson (sem varamaður) og Vilhelm Patrick Bernhöft en sá síðarnefndi gegnir jafnframt stöðu framkvæmdastjóra félagsins. Undir samninginn ritaði Ásgeir f.h. 101 Austurstrætis ehf. og Vilhelm f.h. Austurstrætis 5 ehf. Meginefni samningsins er að Austurstræti 5 ehf. skyldi sem þjónustusali taka á móti og varðveita allar rafrænar greiðslur (posagreiðslur) sem fram fara með greiðslukortum fyrir 101 Austurstræti ehf. Um er að ræða greiðslur vegna sölu áfengis og veitinga á fyrrnefndum skemmtistað. Skyldi leggja allar greiðslur frá varnaraðilanum Borgun hf., inn á sérgreindan „fjárvörslureikning“ á nafni Austurstrætis 5 ehf. Þá var þjónustukaupanda, þ.e. Austurstræti 101 ehf., heimilt að leggja reiðufé inn á sama reikning vegna starfsemi sinnar. Megintilgangur samningsins er sagður að tryggja rekstur félagsins á skemmtistaðnum Austri. Þá kemur fram í 2. gr. samningsins að þjónustusali, Austurstræti 5 ehf., hafi í gildi þjónustusamning við Borgun hf. en það fyrirtæki annast hina rafrænu greiðslumiðlun. Þá segir einnig að þjónustukaupi, þ.e. 101 Austurstræti ehf., sé ekki aðili að þeim samningi en þjónustusali skuldbindi sig til að nota samninginn eingöngu í þágu þjónustukaupa. Samkvæmt 1. gr. samningsins, skyldi hann gilda þar til niðurstaða í málaferlunum lægi fyrir eða yrði sagt upp með eins mánaðar fyrirvara.
Sóknaraðilar eru framangreindum samningi andvígir og hafa leitað ýmissa leiða til að koma í veg fyrir framkvæmd hans. Þannig var varnaraðila Borgun hf. sent bréf 30. janúar 2015, þar sem þess var krafist að fyrirtækið stöðvaði þegar í stað möguleika varnaraðilans, Austurstrætis 5 ehf., á því að færa fjárhæðir í gegnum greiðslukerfi Borgunar hf., þar sem sóknaraðilar litu svo á að Austurstræti 5 ehf.hefði engin lögskyld leyfi til að reka starfsemi í húsnæðinu að Austurstræti 7. Borgun hf. hafnaði þeirri kröfu 4. febrúar 2015 með vísan til þess að ekki lægju fyrir nægjanleg gögn til stuðnings henni. Annað bréf var sent Borgun hf. 1. apríl 2015 um ætlað brot á viðskiptaskilmálum Borgunar hf. með framleigu Austurstrætis 5 ehf. á posum til 101 Austurstrætis ehf. Í svarbréfi Borgunar, dagsettu 17. apríl 2015, var því hafnað að viðskiptaskilmálar hefðu verið brotnir. Ennfremur var Fjármálaeftirlitinu send tilkynning sama efnis en eftirlitið taldi ekki ástæðu til að aðhafast í málinu þar sem umrædd innheimtustarfssemi Austurstrætis 5 ehf. félli ekki undir leyfisskylda starfsemi. Þá voru sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu sendar ábendingar vegna rekstarleyfis Austurs. Hafnaði sýslumaðurinn með bréfi dagsettu 30. mars sl. að grípa til aðgerðar í málinu þar sem hann taldi að ekki væri um leyfislausan rekstur að ræða í skilningi 23. gr. laga nr. 85/2007. Þessi ákvörðun hefur verið kærð til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins.
Með bréfi lögmanns sóknaraðila til varnaraðila, Austurstrætis 5 ehf., dagsettu 20. apríl 2015, lýstu sóknaraðilar í nafni Austurstrætis 101 ehf. yfir riftun þjónustu- og samstarfssamningsins frá 21. janúar 2015. Var vísað til þess að Ásgeir hefði ekki haft heimild til samningsgerðarinnar. Enn fremur var varnaraðilanum Borgun hf. gert viðvart um riftunina.
Hinn 9. júlí 2015 tók sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu á móti lögbannsbeiðni sóknaraðila. Með bréfi dagsettu 21. júlí 2015 hafnaði sýslumaður lögbannskröfu sóknaraðila. Í rökstuðningi sýslumanns kemur fram að sóknaraðilar þættu ekki hafa sýnt fram á að réttarreglur um refsingu eða skaðabætur tryggðu ekki hagsmuni þeirra, sbr. 3. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl., en hagsmunir þeir sem um væri deilt í málinu væru fjárhagslegir og þess eðlis að tjón á þeim yrði bætt með peningum. Í kjölfar synjunar sýslumanns á lögbannskröfu sóknaraðila beindu þeir kröfu til dómsins um að ákvörðun sýslumanns yrði felld úr gildi, sbr. 33. gr. laga nr. 31/1990. Við munnlegan málflutning var þess jafnframt krafist af hálfu sóknaraðila að lagt verði fyrir sýslumann að leggja á lögbann í samræmi við beiðnina.
III
Málsástæður sóknaraðila
Af hálfu sóknaraðila er vísað til þess að skráður framkvæmdastjóri 101 Austurstrætis ehf., Ásgeir Kolbeinsson, hafi undirritað umræddan þjónustu- og samstarfssamning við varnaraðilann Austurstræti 5 ehf. án nokkurrar vitneskju stjórnarformanns og stjórnarmanns 101 Austurstrætis ehf., þ.e. sóknaraðilanna Kamrans og Gholamhossein Mohammed. Samningurinn feli í sér grundvallarbreytingu á rekstrarfyrirkomulagi 101 Austurstrætis ehf. og sé ólögmætur, enda sé hann einungis undirritaður af hálfu framkvæmdastjóra félagsins og öðrum prókúruhafa þess, Ásgeiri, en ekki af báðum prókúruhöfum þess, þ.e. jafnframt af sóknaraðilanum, Gholamhossein Mohammed, eða þeim stjórnarmönnum sem heimild hafi til ritunar firma félagsins. Hann sé því ekki skuldbindandi fyrir félagið 101 Austurstræti ehf., sbr. meðal annars 44. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög, auk þess sem Ásgeir sé jafnframt stjórnarmaður í félagi varnaraðila, Austurstræti 5 ehf., og hafi því verið fullkomlega óheimilt að taka þátt í samningsgerð á milli félaganna tveggja, sbr. meðal annars 48. gr. fyrrgreindra laga. Þá sé samningurinn ekki til hagsbóta fyrir 101 Austurstræti ehf. eða hluthafa þess, heldur leiði hann þvert á móti til þess, að allar rekstrartekjur félagsins vegna reksturs skemmtistaðarins Austurs, renni nú óskiptar til varnaraðilans Austurstrætis 5 ehf.
Sóknaraðilar vísa til þess að með beiðni um lögbann leitist þeir við að vernda lögvarða hagsmuna sína sem hluthafar og stjórnarmenn í félaginu 101 Austurstræti ehf. Fyrir liggi að með umræddum samningi taki varnaraðilinn Austurstræti 5 ehf. að sér starfsemi í leiguhúsnæði 101 Austurstrætis ehf. að Austurstræti 7, Reykjavík, þar sem félagið reki skemmtistaðinn Austur á grundvelli sérstaks starfsleyfis 101 Austurstrætis ehf. Þar á meðal sé leyfi til veitinga- og skemmtanahalds á grundvelli laga nr. 85/2007, um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, sbr. 7. gr. þeirra, en slíkt rekstrar- og skemmtanaleyfi feli í sér skyldu leyfishafa til að stunda sjálfir þá starfsemi sem heimiluð sé samkvæmt leyfisbréfi. Félagið Austurstræti 5 ehf. hafi hins vegar engin slík leyfi til reksturs á staðnum. Telja sóknaraðilar að aðgerðir varnaraðila Austurstrætis 5 ehf. með atbeina varnaraðilans Borgunar hf. geti leitt til þess að sóknaraðilum verði öllum gert að sæta viðurlögum vegna rekstrar sem Austurstræti 5 ehf. standi fyrir í nafni skemmtistaðarins Austurs.
Sóknaraðilar mótmæla þeim sjónarmiðum sýslumanns að ekkert bendi til ógjaldfærni varnaraðilans, Austurstrætis 5 ehf. Örðugt gæti reynst að staðreyna tjón þeirra með óyggjandi hætti og rekja það til saknæmrar og ólögmætrar háttsemi varnaraðila. Séu því ekki uppfyllt skilyrði 1. tl. 3. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990 til að koma í veg fyrir lögbann eins og sýslumaður hafi byggt á.
Sóknaraðilar telja að undanskot fjármuna 101 Austurstrætis ehf. til Austurstrætis 5 ehf. leiði til þess að fyrrnefndi aðilinn geti ekki staðið straum af nauðsynlegum útgjöldum vegna félagsins, þ. á m. greiðslu skatta og opinberra gjalda, enda feli þjónustu- og samstarfssamningurinn í raun í sér, að 101 Austurstræti ehf. fái engar tekjur af rekstri félagsins. Fullljóst sé að slíkt kunni að leiða til þess að ábyrgð verði lögð á sóknaraðila, eftir atvikum refsiábyrgð eða refsiviðurlög, sem þeim verði ekki bætt með skaðabótum. Þá sé sóknaraðilinn, Kamran Keivanlou, ekki íslenskur ríkisborgari og því kunni slíkt að leiða til niðurfellingar búsetu- og atvinnuleyfis hans, sem ekki fáist bætt með skaðabótum.
Sóknaraðilar vísa til þess að í ákvörðun sýslumanns er ekki vikið að kröfu þeirra gagnvart varnaraðilanum Borgun hf., sem sé þjónustuaðili Austurstrætis 5 ehf. samkvæmt sérstökum þjónustusamningi. Hann feli í sér að varnaraðilinn, Borgun hf., leggi Austurstræti 5 ehf. til greiðslukortatæki (posa) til hinnar ólögmætu starfsemi félagsins á skemmtistaðnum Austri. Samningurinn feli í sér að Austurstræti 5 ehf. móttaki greiðslur á grundvelli fyrrgreinds posasamnings inn á reikning í eigu félagsins. Engin gögn liggi hins vegar fyrir um það að Austurstræti 5 ehf. hafi leyfi til slíkrar innheimtu og sé félagið ekki á lista Fjármálaeftirlitsins um fyrirtæki sem hafi fengið slík leyfi.
Sóknaraðilar vísa til þess að hagsmunir þeirra af því að lögbann fáist á hinar ólögmætu færslur séu mun meiri en hagsmunir varnaraðila af hinu gagnstæða. Við blasi, að sú athöfn varnaraðila sem lýst hafi verið brjóti gegn lögvernduðum hagsmunum 101 Austurstrætis ehf., og þar með sóknaraðila. Ekki sé eining innan félagsins um úrræði til að stöðva hina ólögmætu starfsemi Austurstrætis 5 ehf. á skemmtistaðnum og því sé sóknaraðilum nauðugur einn sá kostur að setja fram kröfu þessa í sínu nafni en ekki í nafni 101 Austurstrætis ehf. Þó sé augljóst að verði félagið 101 Austurstræti ehf. fyrir tjóni af þessum sökum leiði það óhjákvæmilega til tjóns fyrir sóknaraðila auk þess sem þeim beri skylda til að gæta hagsmuna félagsins með þessum hætti.
Málsástæður varnaraðilans Austurstrætis 5 ehf.
Varnaraðili hafnar alfarið þeim ásökunum sem fram koma í garð hans í lögbannsbeiðninni. Sóknaraðilar hafi ekki lagt fram nein gögn sem styðji fullyrðingar um undanskot fjármuna, refsiverða háttsemi stjórnenda varnaraðila og 101 Austurstrætis ehf., um ætlaðan heimildarskort og þátttöku varnaraðila í meintri misnotkun í starfsemi félagsins sem valdið hafi sóknaraðilum tjóni eða muni valda þeim tjóni. Þvert á móti hafi áðurnefndur samningur tryggt rekstrarhæfni þess, sóknaraðilum til hagsbóta.
Varnaraðili bendir á að fyrir dóminum sé nú rekið dómsmál vegna vanefnda sóknaraðilans, Alfacom General Trading ehf., á skuldbindingum sínum í tengslum við kaup hans á öllu hlutafé í 101 Austurstræti ehf. Varnaraðili telur ljóst að Alfacom General Trading ehf. ætli sér ekki standa við samninginn. Þegar 101 Austurstræti ehf. hafi verið selt hafi aðilar gert með sér hluthafasamkomulag sem kaupandi hafi þverbrotið, en í því samkomulagi sé skýrt kveðið á um um verklag og verkaskiptingu innan félagsins meðan kaupverðið sé ógreitt. Samkomulagið hafi miðað að því að tryggja hagsmuni beggja samningsaðila með það að markmiði að hámarka hagnað þess og tryggja rekstrarhæfni. Sóknaraðilar hafi hins vegar hvorki efnt samkomulagið né kaupsamninginn heldur gripið til ýmissa óyndisúrræða, allt í því augnamiði að stöðva rekstur veitingastaðarins Austurs.
Varnaraðili vísar til þess að eftir að það lá fyrir að 101 Austurstræti ehf. gæti ekki verið með opna bankareikninga eða greiðslumiðlunarsamninga, hafi það gengið til samninga við varnaraðila um að hann tæki við posagreiðslum og reiðufé tímabundið þar til niðurstaða í málaferlum samningsaðila lægi fyrir. Þá skyldi þjónustusali hafa tiltækan bankareikning er þjónustukaupi hefði afnot af og væri sérgreindur vörslureikningur. Áður en gengið var til samninga hafi verið óskað eftir áliti Fjármálaeftirlitsins á því hvort slíkur samningur gengi gegn lögum og reglum er giltu um greiðslumiðlun. Niðurstaða Fjármálaeftirlitsins hafi verið sú að ekkert í lögum bannaði slíkt. Þá sé ljóst af málatilbúnaði sóknaraðila að grundvallarmisskilnings gæti um eðli prókúru samkvæmt lögum nr. 42/1903 og svokallaðrar prókúru er einstakir aðilar hafi á bankareikningum félaga. Enn fremur gæti misskilnings um heimildir sem framkvæmdastjóri hafi samkvæmt lögum nr. 138/1994 um einkahlutafélög. Umræddur þjónustusamningur sé þannig innan valdheimilda framkvæmdastjóra líkt og gerð annarra verktakasamninga. Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu hafi kveðið upp úr um áhrif þjónustusamningsins vegna veitingaleyfis 101 Austurstrætis ehf. og hafnað kröfu sóknaraðila um beitingu þvingunarúrræða. Varnaraðili hafnar því að hann stundi leyfisskylda starfsemi á veitingastaðnum Austri í skilningi laga nr. 85/2007, enda séu allar tekjur af sölu veitinga færðar í sölukerfi leyfishafans og þannig bókaðar. Þá hafnar varnaraðili því að hinn umþrætti þjónustusamningur sé ekki skuldbindandi fyrir félögin og telur að mat á því sé ekki til umfjöllunar hér. Varnaraðili vísar til þess að fyrirtækjaskrá hafi úrskurðað í máli um ætlaða brottvikningu framkvæmdastjóra 101 Austurstrætis ehf., en með ákvörðun frá 31. október 2014 hafi fyrirtækjaskrá komist að þeirri niðurstöðu að synja bæri skráningu tilkynningar um breytingu á framkvæmdastjórn, þar sem ákvörðunin hafi ekki verið tekin á ályktunarbærum fundi. Valdheimildir framkvæmdastjóra hafi því verið í fullu gildi þegar þjónustusamningurinn var gerður og verði af þeim sökum hvorki bornar brigður á gildi þess samnings né efni samningsins borið undir dómstóla.
Varnaraðili bendir á að sóknaraðilar hafi ekki viljað fallast á þær tillögur leigusalans, Eikar hf., sem fram komi í bréfi frá 26. mars 2015. Þar sé lagt til að stjórn verði skipuð óháðum lögmönnum og endurskoðanda sem hefði eftirlit með fjárreiðum félagsins og að félagið hefði eigin bankareikninga og greiðslumiðlunarsamninga. Varnaraðili telur að þessi háttur á stjórn félagsins, meðan beðið væri niðurstöðu dómsmálsins, tryggði hagsmuni sóknaraðila í hvívetna.
Varnaraðili bendir á að sóknaraðilar hafi haldið því ranglega fram að sölutekjum 101 Austurstrætis ehf. sé skotið undan til varnaraðila og að félagið geti því ekki staðið við greiðslu nauðsynlegra útgjalda og opinberra gjalda. Gögn séu lögð fram er sýni framkvæmd samningsins, sem tryggi aðgang 101 Austurstrætis ehf. að fjármunum sínum, einmitt í þeim tilgangi að geta staðið við skuldbindingar sínar og um leið tryggt rekstarhæfni veitingastaðarins Austurs. Varnaraðili vísar í þessu samhengi til yfirlits bankareiknings félagsins, sem varðveiti fjármuni þjónustukaupans og greiðslur útgjalda, þ.m.t. staðgreiðslu, virðisaukaskatt, laun, sem og reikninga birgja.
Varnaraðili telur að að sú staðhæfing sóknaraðila um að lögbann tryggi hagsmuni þeirra fái ekki staðist. Framlögð gögn sýni hins vegar að hagsmunir seljanda félagsins séu í verulegri hættu fáist lögbann sett, enda sé rekstri 101 Austurstrætis ehf. í raun sjálfhætt þar sem félagið geti ekki tekið við posagreiðslum sem séu vel yfir 90% af innheimtum tekjum vegna sölu veitinga og áfengis.
Varnaraðili byggir á því að sóknaraðilar, sem fari saman fram með beiðnina, séu ekki réttir aðilar að málinu. Jafnvel þó talið yrði að sóknaraðilarnir Kamran og Gholamhossein væru eigendur alls hlutafjár í Alfacom General Trading ehf., njóti þeir ekki aðildarhæfis til að fara fram með kröfuna í því formi sem hún sé sett fram. Þeir hagsmunir sem téðir sóknaraðilar telji sig vernda á grundvelli kaupsamningsins frá 16. október 2013 geti ekki varðað þá, en á þeim grunni einum telur varnaraðili að hafna beri lögbannskröfunni. Með sama hætti telur varnaraðili að kröfu sóknaraðila sé ekki beint að réttum aðila, sbr. þau skilyrði sem fram komi í 24. gr. laga nr. 30/1990. Samkvæmt lagagreininni megi leggja lögbann við byrjaðri athöfn einstaklings eða fyrirsvarsmanns félags eða stofnunar. Engrar heimildar njóti til að leggja slíkt lögbann á athöfn lögaðila.
Varnaraðili telur lögbannskröfuna mjög óskýra og víðtæka er valdi því að ekki sé hægt að fallast á hana óbreytta. Krafan lúti ekki að banni tiltekinnar athafnar, heldur leiði hún til þess, verði á hana fallist, að þjónustusamningur aðila sé ógiltur með öllu, en slíka kröfu geti sóknaraðili einungis haft uppi í almennu einkamáli. Varnaraðili bendir á að sóknaraðilar geti tryggt með öðrum hætti hagsmuni sína, sem þeir telji í hættu með því að fjármunir 101 Austurstrætis ehf. séu geymdir á vörslureikningi varnaraðila. Það myndu þeir gera ef þeir féllust á framangreindar tillögur Eikar hf. Þá bendir varnaraðili á að þetta ástand hafi varað frá janúar 2015 en það hafi fyrst verið með beiðni í júlí sama ár sem óskað var lögbanns.
Varnaraðili mótmælir viðbótarkröfu sóknaraðila um að lagt verði fyrir sýslumann að leggja á lögbann í samræmi við lögbannsbeiðni sem of seint fram kominni. Þá telur varnaraðili að krafan, eins og hún hafi verið sett fram í bréfi til dómsins, valdi því að sóknaraðilar hafi ekki lögvarða hagsmuni af því að fá úrslausn hennar. Eigi því að hafna henni ex offio.
Hvað varðar málskostnaðarkröfu vísar varnaraðili til þess að sóknaraðilar hafi höfðað málið án nokkurs tilefnis og haft uppi staðhæfingar sem séu rangar og haldlausar og alls ekki í samræmi við fyrirliggjandi gögn sem sóknaraðilar hafi haft undir höndum en kosið að leggja ekki fram. Að þessu leyti sé málatilbúnaður sóknaraðila ámælisverður og beri því að dæma þá til að greiða málskostnað óskipt að viðbættu álagi samkvæmt 2. mgr. 131. gr. laga nr. 91/1991.
Málsástæður varnaraðilans Borgunar hf.
Varnaraðili Borgun hf. mótmælir málsástæðum sóknaraðila, og sér í lagi að því leyti sem þær beinast að honum. Varnaraðili telur að höfnun sýslumanns á lögbannsbeiðni sóknaraðila sé lögum samkvæmt og haggi málatilbúnaður sóknaraðila fyrir dómi jafnframt í engu þeirri niðurstöðu. Varnaraðili telur einnig að kröfugerð sóknaraðila, eins og hún sé úr garði gerð, fái eftir atvikum ekki staðist réttarfarsreglur, en þess sé ekki sérstaklega krafist að ákvörðun sýslumanns verði breytt á ákveðinn veg en hann mótmælir viðbótarkröfu sóknaraðila um að lagt verði fyrir sýslumann að leggja á lögbann í samræmi við lögbannsbeiðni sem of seint fram kominni
Varnaraðili vísar til þess að ekki verði annað ráðið en að hinn umþrætti samningur sé til hagsbóta fyrir rekstur 101 Austurstrætis ehf. og tryggi að kortaviðskipti geti átt sér stað á skemmtistaðnum Austri, sem félagið reki. Engin ástæða sé til annars en að ætla að farið sé eftir samningnum í einu og öllu og annað sé í öllu falli ósannað, meðal annars ásakanir sóknaraðila um að samningurinn feli í sér undanskot eigna. Þá sé samningur á milli varnaraðila málsins um leigu á posa staðlaður að öllu leyti. Meðvarnaraðili, Austurstræti 5 ehf., sé með bankareikning í Landsbankanum og þannig sé ekkert því til fyrirstöðu að Borgun hf. geti tekið á móti færslum frá félaginu.
Varnaraðili bendir á að hann sé ekki aðili að hinum umþrætta samningi. Sé lagt lögbann „við því að gerðarþolinn Austurstræti 5 ehf. hagnýti sér réttindi eða sinni skyldum sínum skv. þjónustu- og samstarfssamningi á milli 101 Austurstrætis ehf. og gerðarþolans Austurstrætis 5 ehf.“, sbr. fyrri þátt lögbannsbeiðninnar, þá leiði af sjálfu sér að forsendur samnings varnaraðila við meðvarnaraðila Austurstræti 5 ehf. um frekari efndir, bresti, uns ágreiningur sóknaraðila og Austurstrætis 5 ehf. sé til lykta leiddur. Þannig standi engir sjálfstæðir lögvarðir hagsmunir eða lögvarinn réttur til þess að hafa uppi kröfur um lögbann vegna fyrrgreinds samnings milli varnaraðila sérstaklega, sbr. síðari þátt lögbannsbeiðninnar, líkt og sóknaraðilar hafi hins vegar einnig krafist, sbr. 1. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990.
Þá telur varnaraðili, að minnsta kosti hvað hans þátt málsins varðar sérstaklega, að sóknaraðilar hafi ekki sýnt fram á, eða það sé í öllu falli vanreifað, að réttarreglur skaðabótaréttarins tryggi ekki nægilega hagsmuni þeirra, sbr. 1. tölul. 3. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990 og af þeim ástæðum sé skilyrðum lögbanns ennfremur ekki fullnægt. Sóknaraðilar hafi og sjálfir lýst því yfir að vegna ágreinings innan 101 Austurstrætis ehf. hafi félaginu, í kjölfar fyrrgreindra uppsagna Íslandsbanka hf. og varnaraðilans Borgunar hf., „ekki verið unnt að stofna til nýrra bankaviðskipta við önnur fjármálafyrirtæki“. Þá leiði væntanlega af sjálfu sér að verði fallist á lögbannsbeiðni sóknaraðila sé rekstrarhæfni 101 Austurstrætis ehf. þvert á móti komið í uppnám, hagsmunaaðilum til tjóns. Varnaraðili andmælir því jafnframt sérstaklega að kröfuréttarsamband hans og meðvarnaraðila, Austurstrætis 5 ehf., geti talist brjóta gegn „lögvörðum rétti“ sóknaraðila málsins, enda hafi varnaraðili hvorki stjórnunar- né eignatengsl við aðila samningsins. Samningurinn brjóti heldur hvorki í bága við lög né skilmála Borgunar hf. og sé öðrum staðhæfingum mótmælt. Auk þess geti varnaraðili, kjósi hann svo, alltaf vikið frá eigin skilmálum og jafnvel þótt svo væri ekki, myndi það aldrei skapa sóknaraðilum málsins neinn rétt og sé annað í öllu falli ósannað og vanreifað.
Vegna aðildar málsins bendir varnaraðili að lokum á að ekki verði einatt ráðið að sóknaraðilum sé „nauðugur einn sá kostur að setja kröfu fram þessa í sínu nafni en ekki í nafni 101A“, sem að lögum væri hinn eiginlegi tjónþoli en ekki sóknaraðilar, líkt og dómaframkvæmd á sviði félagaréttar beri skýrt með sér. Þá verði heldur ekki ráðið að „verði félagið 101A fyrir tjóni af þessum sökum leiði það óhjákvæmilega til tjóns fyrir gerðarbeiðendur“, en það sé sóknaraðila að sýna fram á þetta.
Varnaraðili vísar að öðru leyti til málatilbúnaðar meðvarnaraðila Austurstrætis 5 ehf., að því marki sem hann falli að málatilbúnaði varnaraðila.
IV
Niðurstaða
Í máli þessu, sem réttilega er borið undir dóminn á grundvelli V. kafla laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl., innan þess frests og með þeim hætti sem mælt er fyrir um í 1. mgr. 33. gr. laganna, er deilt um þá ákvörðun sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu að synja kröfu sóknaraðila um að lagt verði lögbann við tilteknum athöfnum varnaraðila í tengslum við þjónustu- og samstarfssamning sem varnaraðilinn Austurstræti 5 ehf. og 101 Austurstræti ehf. gerðu með sér 21. janúar 2015. Nánar tiltekið mælir samningurinn fyrir um að fyrrnefnda félagið innheimti greiðslur fyrir síðarnefnda félagið, sem eru inntar af hendi í gegnum greiðslukortavélar (posa) í eigu varnaraðilans Borgunar hf. að Austurstræti 7, þar sem veitingastaðurinn Austur er rekinn í nafni 101 Austurstrætis ehf. Eru greiðslurnar lagðar inn á bankareikning í eigu varnaraðilans Austurstræti 5 ehf. og stendur jafnframt heimild til samkvæmt samningum að leggja aðra fjármuni sem verða til í rekstri 101 Austurstrætis ehf. inn á sama reikning. Sýslumaðurinn synjaði lögbannsbeiðninni með bréfi til sóknaraðila, dagsettu 21. júlí 2015, án þess að boða aðila til fyrirtöku og endursendi sóknaraðila beiðnina ásamt fylgigögnum, þar sem sýslumaður taldi skilyrði 24. gr. laga nr. 31/1990 ekki vera fyrir hendi. Af bréfi sýslumanns má ráða að sú ákvörðun hafi einkum byggst á ákvæðum 1. tl. 3. mgr. þeirrar lagagreinar.
Í 1. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990 segir að lögbann megi leggja við byrjaðri eða yfirvofandi athöfn einstaklings eða fyrirsvarsmanns félags eða stofnunar „ef gerðarbeiðandi sannar eða gerir sennilegt að athöfnin brjóti eða muni brjóta gegn lögvörðum rétti hans, að gerðarþoli hafi þegar hafist handa um athöfnina eða muni gera það og að réttindi hans muni fara forgörðum eða verða fyrir teljandi spjöllum verði hann knúinn til að bíða dóms um þau.“
Í bréfi sínu til dómsins kröfðust sóknaraðilar þess að ákvörðun sýslumanns yrði felld úr gildi. Við munnlegan málflutning gerðu þeir til viðbótar kröfu um að lagt yrði fyrir sýslumann að leggja á lögbann í samræmi við lögbannsbeiðnina. Með vísan til 1. mgr. 111. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga nr. 31/1990 og 1. mgr. 91. gr. laga nr. 90/1989 ber að vísa viðbótarkröfu þessari frá dómi þar sem varnaraðilar hafa ekki samþykkt að hún komist að.
Varnaraðilar telja að málinu eigi að vísa frá ex offico þar sem af framangreindu leiði að sóknaraðilar hafi ekki lögvarða hagsmuni af því að fá kröfuna, eins og hún hafi verið sett fram í bréfi þeirra til dómsins, tekna til greina. Samkvæmt 33. gr. laga nr. 31/1990 getur gerðarbeiðandi m.a. krafist úrlausnar héraðsdómara um ákvörðun sýslumanns um synjun lögbannsgerðar með því að tilkynna það sýslumanni innan viku frá því honum verður sú ákvörðun kunn. Engin áskilnaður er gerður í lögum um að jafnframt sé þess krafist í málinu að lagt verði fyrir sýslumann að leggja á lögbann. Er því hafnað að réttarfarsleg nauðsyn standi til þess að sú krafa verði gerð og eru því ekki efni til þess að vísa kröfu frá sóknaraðila, um að ákvörðun sýslumanns verði felld úr gildi, á þessum grundvelli.
Eins og fram hefur komið eru sóknaraðilarnir Gholamhossein Mohammad Shirazi og Kamran Keivanlou eigendur alls hlutafjár í sóknaraðilanum Alfacom General Trading ehf. sem er hluthafi í 101 Austurstræti ehf. Þeir sitja jafnframt í stjórn hins síðarnefnda félags. Þá sitja í stjórninni varnaraðilinn Ásgeir Kolbeinsson og Kolbeinn Pétursson. Ásgeir er jafnframt skráður framkvæmdastjóri en ágreiningur er um stöðu hans innan félagsins. Sóknaraðilinn Alfacom General Trading ehf. keypti allt hlutafé í 101 Austurstræti ehf., en starfsemi þess er að reka skemmtistaðinn Austur, af framangreindum Ásgeiri og Bakkagranda ehf. með kaupsamningi dagsettum 17. október 2013. Alfacom General Trading ehf. hefur greitt helming kaupverðsins og tekið við helmingi hlutafjárins. Eftirstöðvar kaupverðsins, sem áttu að greiðast innan 14 mánaða frá undirritun kaupsamningsins, eru ógreiddar og hefur það sem eftir stendur af hlutafénu ekki verið afhent. Fyrir dóminum er rekið mál í tengslum við efndir kaupsamningsins þar sem aðilar hans hafa uppi kröfur á hendur hvor öðrum vegna meintra vanefnda á samningnum.
Sóknaraðilar byggja á því að þjónustu- og samstarfssamningurinn frá 21. janúar 2015, sem Ásgeir Kolbeinsson gerði sem framkvæmdastjóri fyrir hönd 101 Austurstrætis ehf. við varnaraðilann Austurstræti 5 ehf., án vitneskju sóknaraðila og að því er þeir telja í trássi við lög nr. 138/1994 um einkahlutafélög, fari í bága við hagsmuni fyrrnefnda félagsins. Fyrir liggur að Ásgeir er varamaður í stjórn Austurstrætis 5 ehf. Með bréfi dagsettu 20. apríl 2015 til varnaraðilans Austurstrætis 5 ehf. lýstu sóknaraðilarnir Kamran og Gholamhossein Mohammad því yfir fyrir hönd 101 Austurstrætis ehf. að samningnum væri rift. Var skorað á sama varnaraðila að fjarlægja allar greiðsluvélar úr húsakynnum 101 Austurstrætis ehf. og skila þegar öllum rekstrartekjum sem hann hefði innheimt á grundvelli samningsins. Varnaraðilinn hefur ekki orðið við áskorunum þessum en hann staðhæfir að umræddum tekjum hafi alfarið verið varið í þágu rekstrar 101 Austurstrætis ehf. og mótmælir fullyrðingum sóknaraðila um að þeim sé skotið undan. Þá hafa sóknaraðilar ítrekað reynt að stöðva viðskipti samkvæmt samningum eftir öðrum leiðum m.a. með því að gera varnaraðilanum Borgun hf. viðvart um framangreinda riftun og krefjast þess að hann hlutist til um að greiðslukortavélar verði fjarlægðar úr húsakynnum 101 Austurstrætis ehf. Það hefur Borgun hf. ekki viljað fallast á.
Fyrir liggur að djúpstæður ágreiningur er milli stjórnarmanna í 101 Austurstræti ehf. og stjórn félagsins óstarfhæf. Er því ekki eining innan hennar til að taka ákvörðun um málarekstur á hendur varnaraðilum vegna hins umþrætta þjónustu- og samstarfssamnings. Í því ljósi verður að líta svo á að sóknaraðilinn Alfacom General Trading ehf. hafi lögvarða hagsmuni af því, sem hluthafi í félaginu, að leita lögbanns í því skyni að hindra að félagið verði af fjármunum sem því tilheyra. Hins vegar er ekki fallist á að sóknaraðilarnir Kamran og Gholamhossein Mohammad eigi í krafti stjórnarsetu sinnar í félaginu aðild að lögbannsmáli þessu og ber að hafna kröfum þeirra þegar af þeirri ástæðu, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga nr. 31/1990 og 1. mgr. 91. gr. laga nr. 90/1989. Þá er ekki fallist á það með varnaraðilanum Austurstræti 5 ehf. að orðalag 24. gr. laga nr. 31/1990 standi því í vegi að unnt sé að leggja lögbann á athöfn lögaðila enda sýnir dómaframkvæmd að nægilegt sé að athöfnin eigi sér stað með einhverjum hætti á vegum eða í nafni félags.
Lögbann er í eðli sínu neyðarráðstöfun sem ekki verður beitt nema fyrir liggi að almenn úrræði komi ekki að nægu haldi, enda sé þá fullnægt öðrum skilyrðum 24. gr. laga nr. 31/1990. Dómurinn getur fallist á það með sóknaraðila að vafi leiki á um heimildir framkvæmdastjóra 101 Austurstrætis ehf. til að gera umræddan samning fyrir hönd félagsins, sérstaklega í ljósi þess að hann kann að eiga hagsmuna að gæta vegna tengsla sinna við viðsemjandann. Hins vegar hefur varnaraðilinn Austurstræti 5 ehf. lagt fram gögn sem styðja málstað hans um að fjármunir sem varnaraðilinn innheimtir á grundvelli samningsins sé varið í rekstur 101 Austurstrætis ehf. en ekki skotið undan í rekstri þess eins og sóknaraðili byggir á. Þá er til þess að líta að lagðar hafa verið fram raunhæfar tillögur af leigusala fasteignarinnar Austurstrætis 7, þar sem rekstur skemmtistaðarins Austurs fer fram, um hvernig unnt sé að tryggja rekstarhæfni 101 Austurstrætis ehf. þar til niðurstaða fæst í dómsmáli því sem rekið er vegna kaupa Alfacom General Trading ehf. á öllu hlutafé í félaginu. Í tillögum þessum felst m.a. að stjórn félagsins yrði skipuð óháðum aðilum sem hafi eftirlit með fjárreiðum félagsins og að varnaraðilinn Austurstræti 5 ehf. komi ekki frekar að rekstri félagsins, heldur hafi það eigin bankareikninga og greiðslumiðlunarsamninga. Sóknaraðili er hins vegar ekki til viðræðu um framangreinda tillögu eða um aðra raunhæfa lausn til að stöðva innheimtu varnaraðilans Austurstrætis 5 ehf. samkvæmt hinum umþrætta þjónustu- og samstarfssamningi. Með vísan til framangreinds verður að telja að sóknaraðili hafi því ekki sýnt fram á með fullnægjandi hætti að hann muni verða fyrir teljandi spjöllum sé hann knúinn til að bíða dóms, auk þess sem aðrar leiðir eru færar til að tryggja hagsmuni hans. Er því hafnað kröfu sóknaraðila um að felld verði úr gildi ákvörðun sýslumanns að hafna lögbanni.
Með hliðsjón af úrslitum málsins ber að dæma sóknaraðila til að greiða óskipt 500.000 krónur í málskostnað til hvors varnaraðila fyrir sig en ekki þykja efni til að taka til greina kröfu varnaraðilans Austurstræti 5 ehf. um álag á málskostnað.
Kolbrún Sævarsdóttir héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Vísað er frá dómi kröfu sóknaraðila, Alfacom General Trading ehf., Gholamhosseins Mohammads Shirazi og Kamrans Keivanlou, um að lagt verði fyrir sýslumanninn á höfuðborgarsvæðinu að leggja á lögbann í samræmi við lögbannsbeiðni þeirra.
Hafnað er kröfu sóknaraðila um að ákvörðun sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu, dagsett 21. júlí sl., um að synja lögbannsbeiðni sóknaraðila og að lagt verði fyrir sýslumann að leggja á lögbann í samræmi við beiðnina verði felld úr gildi.
Sóknaraðilar greiði óskipt 500.000 krónur í málskostnað til hvors varnaraðila fyrir sig, Austurstrætis 5 ehf. og Borgunar hf.