Hæstiréttur íslands
Mál nr. 762/2017
Lykilorð
- Kærumál
- Nauðungarsala
- Kæruleyfi
- Frávísun frá héraðsdómi
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Benedikt Bogason og Viðar Már Matthíasson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 30. nóvember 2017 að fengnu kæruleyfi, en kærumálsgögn bárust réttinum 5. desember sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. nóvember 2017 þar sem frumvarpi sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu 14. desember 2016 til úthlutunar á söluverði fasteignarinnar að Tröllateigi 41 í Mosfellsbæ við nauðungarsölu var breytt á þá leið að úthlutun til varnaraðila skyldi hækka um 432.795 krónur. Kæruheimild var í 1. mgr. 79. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. Sóknaraðili krefst þess að áðurgreint frumvarp sýslumanns verði látið standa óbreytt. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
Í kjölfar nauðungarsölu á fyrrgreindri fasteign 30. ágúst 2016 gerði sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu 14. desember sama ár frumvarp til úthlutunar á söluverði hennar. Með bréfi 27. þess mánaðar mótmælti varnaraðili frumvarpinu og krafðist að því yrði breytt þannig að úthlutun til sín yrði hækkuð um 432.795 krónur. Sýslumaður boðaði til fundar 17. janúar 2017 til að fjalla um mótmælin og tók þar ákvörðun um að frumvarpið skyldi standa óbreytt. Af hálfu varnaraðila var mætt á fundinn og því lýst yfir að það yrði „skoðað að kæra ákvörðun sýslumanns til dómstóla.“ Í kjölfarið sendi varnaraðili tölvupóst 24. janúar 2017 til sýslumanns þar sem fram kom að látið yrði „reyna á kæru í þessu tilviki.“ Með bréfi varnaraðila 31. sama mánaðar til Héraðsdóms Reykjavíkur var síðan krafist úrskurðar dómsins vegna ágreinings um úthlutun söluverðsins.
Samkvæmt 1. mgr. 52. gr. laga nr. 90/1991 getur aðili að nauðungarsölu, sem ekki vill una ákvörðun sýslumanns um úthlutun söluverðs, leitað úrlausnar héraðsdóms á ágreiningi um ákvörðunina eftir ákvæðum XIII. kafla laganna. Samkvæmt 2. mgr. 73. gr. þeirra skal sá, sem vill á þann hátt leita úrlausnar héraðsdóms, lýsa því yfir við fyrirtöku sýslumanns á nauðungarsölunni, þar sem sú ákvörðun kemur fram sem leita á úrlausnar um. Ef hlutaðeigandi hefur ekki verið við hana staddur má hann þó að tilteknum skilyrðum fullnægðum koma yfirlýsingu sinni fram bréflega til sýslumanns innan viku frá því honum var kunnugt um ákvörðunina. Komi yfirlýsing fram við fyrirtöku skal bókað um hana í gerðabók ásamt því sem hlutaðeigandi kveðst munu gera kröfu um fyrir dómi. Einnig skal bókað um viðhorf annarra til ágreiningsins og kröfur þeirra að því leyti sem hann getur varðað þá. Að svo búnu skal sýslumaður, svo fljótt sem unnt er, afhenda þeim sem hyggst leita úrlausnar héraðsdóms staðfest eftirrit framlagðra gagna og endurrit út gerðabók að því leyti sem þau varða ágreiningsefnið, sbr. 3. mgr. 73. gr. laganna. Í framhaldi af því skal sá sem leitar úrlausnar héraðsdóms tafarlaust senda honum málsgögnin, sbr. 5. mgr. sömu greinar.
Eftir skýlausum fyrirmælum 2. mgr. 73. gr. laga nr. 90/1991 bar varnaraðila að lýsa því yfir þegar á fundinum 17. janúar 2017, þar sem mætt var af hans hálfu, að leitað væri úrlausnar héraðsdóms um ákvörðunina sem sýslumaður tók þar um ágreining varðandi úthlutun söluverðs. Í þeim efnum var ófullnægjandi að gefa til kynna að tekið yrði til athugunar hvort ágreiningnum yrði síðar vísað til dóms, sbr. dóm Hæstaréttar 23. mars 1994 í máli nr. 105/1994, sem birtur er í dómasafni þess árs á bls. 625. Samkvæmt þessu hefur málið ekki réttilega verið lagt fyrir héraðsdóm og verður af þeim sökum að vísa því þaðan án kröfu.
Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.
Dómsorð:
Máli þessu er vísað frá héraðsdómi.
Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. nóvember 2017.
Mál þetta, sem barst dóminum þann 3. febrúar sl., var þingfest þann 3. febrúar sl. og tekið til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi þann 23. október sl. Dómarinn fékk mál þetta til meðferðar þann 1. júní sl. og hafði engin afskipti haft af því fyrir þann tíma, en með bréfi dómstólaráðs dags. þann 30. maí sl. var dómaranum falið mál þetta til meðferðar. Aðalmeðferð hafði upphaflega verið ákveðin þann 2. maí sl. en féll niður vegna veikinda dómara.
Sóknaraðili er Mosfellsbær, kt. [...], Þverholti 2, Mosfellsbæ.
Varnaraðili er Tollstjóri, kt. [...], Tryggvagötu 19, Reykjavík.
Í kröfu sóknaraðila um úrskurð héraðsdóms voru fleiri taldir upp sem varnaraðilar en undir rekstri málsins var ákveðið að einungis Tollstjóri skyldi vera til varnar í málinu.
Dómkröfur sóknaraðila eru þær aðallega að frumvarpi sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu, sem dagsett er 30. ágúst 2016(svo), um úthlutun uppboðsandvirðis af Tröllateigi 41 í Mosfellsbæ, verði breytt þannig að hann fái allar kröfur sínar vegna fasteignagjalda 2014, skv. kröfulýsingu nr. 0101-2566, greiddar af uppboðsandvirðinu samkvæmt kröfulýsingu hans hjá sýslumanni dagsettri 30. ágúst 2016, alls að fjárhæð 432.795 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af þeirri fjárhæð frá 30. ágúst 2016 til greiðsludags. Til vara er gerð krafa um að greiðslan af nauðungarsöluandvirðinu til sóknaraðila hækki um lægri fjárhæð er gert er ráð fyrir í aðalkröfu. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar samkvæmt reikningi.
Dómkröfur varnaraðila eru þær að öllum kröfum sóknaraðila verði hafnað og að frumvarp sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu dags. 14. desember 2016 vegna úthlutunar á söluverði fasteignarinnar Tröllateigs 41, fnr. 228-6708, Mosfellsbæ, verði óbreytt lagt til grundvallar. Þá er krafist málskostnaðar að mati dómsins.
Það athugast að frumvarp sýslumanns að úthlutunargerð er dagsett 14. desember 2016 en ekki 30. ágúst sama ár eins og í kröfugerð sóknaraðila greinir.
Málavextir.
Málavextir eru þeir að þinglýstir eigendur fasteignarinnar Tröllateigs 41 í Mosfellsbæ, sem munu vera þau A og B, munu ekki hafa staðið skil á greiðslum fasteignagjalda til sóknaraðila álagningarárin 2010 til og með 2016. Vegna vanskilanna mun sóknaraðili hafa krafist nauðungarsölu á fasteigninni þann 9. desember 2011 og hafi þá verið gert ráð fyrir að nauðungarsölumeðferð lyki innan árs í samræmi við meginreglu 2. mgr. 27. gr. laga nr. 90/1991. Henni hafi hins vegar ítrekað verið frestað án samþykkis sóknaraðila, bæði með stjórnvaldsfyrirmælum vegna umsóknar gerðarþola um greiðsluaðlögun og ákvarðana um frestun á framhaldssölu sem gerðar hafi verið með tímabundnum breytingum á lögum um nauðungarsölu. Hafi vanskil því safnast upp og í samræmi við vinnulag sýslumannsembættisins á þeim tíma hafi ekki verið sendar nauðungarsölubeiðnir vegna vanskila eftir að gerðarþolar hafi leitað eftir greiðsluaðlögun, enda hafi sóknaraðili fengið endursendar sams konar beiðnir sem sendar hafi verið eftir að greiðsluskjól hafi komist á. Hafi meðferð nauðungarsölubeiðninnar lokið með framhaldssölu eignarinnar þann 30. ágúst 2016 þar sem Arion banki hf. hafi verið hæstbjóðandi og hafi sóknaraðili lýst kröfum vegna gjaldfallinna lögveðskrafna áranna 2010 til og með 2016 og móttekið í framhaldinu tillögu sýslumanns að úthlutunargerð þar sem ekki hafi verið fallist á allar kröfur. Hafi kröfum sóknaraðila vegna áranna 2012, 2013 og 2014 verið hafnað með vísan til þess að lögveð krafnanna hafi verið fyrnd þar sem ekki hafi verið gerð sérstök nauðungarsölubeiðni vegna þeirra hverrar og einnar og þá hafi gjöld fallið utan greiðsluaðlögunartímabils gerðarþola. Hafi sóknaraðili fallist á sjónarmið sýslumanns varðandi árin 2012 og 2013 en mótmælt því að lögveð fyrir gjöldum ársins 2014 hefðu verið fyrnd við nauðungarsöluna. Hafi sóknaraðili sent mótmæli vegna frumvarps að úthlutunargerð vegna eignarinnar með bréfi dagsettu 27. desember 2016, en samkvæmt gögnum málsins er frumvarp að úthlutunargerð dagsett 14. desember 2016. Ekki mun hafa tekist að leysa ágreininginn á fundi hjá sýslumanni þann 17. janúar 2017 og hafi sýslumaður ákveðið að frumvarpið skyldi standa óbreytt og skyldi það lagt til grundvallar við úthlutun uppboðsverðsins. Hafi lögmaður sóknaraðila lýst því í tölvupósti þann 24. janúar 2017 að úrlausnar héraðsdóms yrði leitað um ákvörðun sýslumanns. Samkvæmt gögnum málsins mun kröfu sóknaraðila hafa verið lýst með dráttarvöxtum frá 15. janúar 2014.
Málsástæður og lagarök sóknaraðila.
Sóknaraðili byggir á því að krafa hans samkvæmt umræddri kröfulýsingu eigi að koma til greiðslu af nauðungarsöluandvirðinu þegar af þeirri ástæðu að gerð hafi verið krafa um nauðungarsölu á eigninni vegna vanskila ársins 2014 þann 5. febrúar 2016 og hafi hún verið skráð móttekin hjá sýslumanni þann 12. febrúar sama ár. Hafi gerðarþolar þá verið í greiðsluskjóli samkvæmt lögum nr. 101/2010, en samkvæmt 11. gr. þeirra laga hafi kröfuhöfum ekki verið heimilt að krefjast eða taka við greiðslum frá skuldara, gjaldfella skuld, gera fjárnám fyrir skuld, fá bú skuldara tekið til gjaldþrotaskipta eða ráðast í hvers konar aðgerðir til innheimtu krafna. Hafi greiðsluaðlögun verið þinglýst á fasteignina þann 18. febrúar 2011 og hafi greiðsluskjóli gerðarþola fyrst lokið þann 1. desember 2016 þegar málinu hafi lokið án samnings um greiðsluaðlögun og frestun greiðslna. Hafi sóknaraðila sem kröfuhafa því verið óheimilt að gjaldfella skuldina á hendur gerðarþolum á þessu tímabili.
Sóknaraðili byggir ennfremur á því að kröfum hans hafi réttilega verið haldið við vegna lögveðsréttar fasteignagjalda í eign gerðarþola með nauðungarsölubeiðni þann 5. febrúar 2016. Þótt litið sé á fasteignagjöld hvers árs sem eina kröfu sé greiðslunni skipt niður á nokkra gjalddaga, eða níu gjalddaga frá 15. janúar til 15. september og sé eindagi þeirra þrjátíu dögum eftir gjalddaga skv. 5. mgr. 4. gr. laga nr. 4/1995. Greiðslufall hafi ekki orðið fyrr en við vanskil á eindaga og því hafi öll gjöld ársins ekki verið fallin í eindaga. Fyrsta mögulega gjaldfellingartímamark skuldarinnar hafi verið þann 15. febrúar 2014 og fyrst við það tímamark hefði verið hægt að gjaldfella í heild skuld vegna ársins 2014. Hafi tveggja ára fyrningartími lögveðsréttar ekki verið liðinn þegar sóknaraðili hafi lýst kröfu sinni. Beri því að úthluta lýstum lögveðskröfum vegna ársins 2014. Verði ekki fallist á úthlutun ársins 2014 að öllu leyti sé gerð varakrafa um að öll gjöld ársins 2014 að undanskildum janúargjaldaga komi til úthlutunar, enda hafi gjöld sem verið hafi með gjalddaga í febrúar 2014 og síðar sannarlega verið gjaldfallin á næstliðnum 2 árum fyrir nauðungarsölubeiðni sem rofið hafi fyrningu lögveðsréttar viðkomandi kröfu.
Sóknaraðili bendir sérstaklega á það að sóknaraðili sé stjórnvald og beri sem slíkur að hafa í heiðri reglur stjórnsýsluréttar og viðhafa vandaða stjórnsýsluhætti. Beri sóknaraðila að hafa í heiðri meðalhófsregluna og beita ekki íþyngjandi úrræðum gegn íbúum nema að því marki sem nauðsynlegt sé. Beri að líta til þeirra sjónarmiða við innheimtu fasteignagjalda og að gjaldfella ekki gjöld nema nauðsyn krefji. Þá renni fasteignagjöld til samfélagslegra þarfa og samreksturs sveitarfélags og séu fasteignagjöld mikilvægur þáttur í tekjuöflun sveitarfélaga á sama tíma og þeim sé skylt að ganga eins skammt og mögulegt sé við innheimtu.
Sóknaraðili vísar til VIII. og XIV. kafla laga nr. 90/1991, 7. gr. laga nr. 4/1995 og 11. gr. laga nr. 101/2010 og ákvæða laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda, einkum IV. kafla.
Málsástæður og lagarök varnaraðila.
Varnaraðili byggir á því að fasteignagjöldum fylgi lögveðsréttur sem fyrnist á 2 árum, sbr. 7. gr. laga nr. 4/1995. Þegar greiðslufall hafi orðið á fyrstu greiðslu hafi öll gjöld ársins gjaldfallið og miðist upphaf fyrningarfrests við það tímamark. Samkvæmt 5. mgr. 4. gr. laganna falli öll gjöld ársins í gjalddaga við vanskil og gjalddagi þeirra sé því 15. janúar 2014. Hafi því verið meira en 2 ár frá gjalddaga þegar nauðungarsölubeiðni sóknaraðila hafi borist embætti sýslumanns þann 12. febrúar 2016 og lögveðsréttur sóknaraðila því ekki lengur fyrir hendi. Þá lýsi sóknaraðili kröfunni í einu lagi og virðist útreikningur dráttarvaxta miðast við 15. janúar 2014 líkt og fram komi í fylgiskjali kröfulýsingar en ekki við 15. febrúar sama ár. Virðist hann því byggja á því sjálfur að gjalddagi gjaldanna sé 15. janúar 2014. Gjöld ársins 2014 hafi ekki fallið undir greiðsluaðlögun gerðarþola við nauðungarsöluna en heimild til hennar hafi verið veitt þann 16. febrúar 2011. Sjónarmið um að 1. mgr. 11. gr. laga nr. 101/2010 hafi vægi í málinu séu því röng. Kröfur sem verði til eftir að heimild til að leita greiðsluaðlögunar sé veitt séu undanskildar greiðslufresti, sbr. 3. mgr. 11. gr. laganna. Af því leiði að þær kröfur sem stofnist eftir 16. febrúar 2011 hafi aldrei getað fallið undir frest skv. 1. mgr. 11. gr. laganna. Umsókn gerðarþola um greiðsluaðlögun hafi því ekki verið hindrun fyrir því að hægt væri að krefjast nauðungarsölu vegna vangoldinna gjalda ársins 2014. Þá telur varnaraðili að sjónarmið um að sóknaraðili sé stjórnvald hafi ekki þýðingu fyrir úrlausn málsins.
Varnaraðili vísar um málskostnað til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Niðurstaða.
Þinglýstir eigendur fasteignarinnar að Tröllateigi 41 í Mosfellsbæ stóðu ekki skil á greiðslum fasteignagjalda til sóknaraðila álagningarárin 2010 til og með 2016, en samkvæmt 7. gr. laga nr. 4/1995 fylgir lögveð í fasteign þeirri, sem fasteignaskattur er lagður á, og skal hann ásamt dráttarvöxtum í tvö ár frá gjalddaga ganga fyrir öllum öðrum veðkröfum er á eigninni hvíla. Eigendur eignarinnar leituðu greiðsluaðlögunar samkvæmt lögum nr. 101/2010 og var þeim veitt slík heimild þann 16. febrúar 2011 og var henni þinglýst tveimur dögum síðar. Greiðsluskjóli sem fylgdi þeirri heimild mun hafa lokið þann 1. desember 2016. Samkvæmt 3. mgr. 11. gr. sömu laga nær frestun greiðslna ekki til krafna sem verða til eftir að heimild til að leita greiðsluaðlögunar hefur verið veitt. Sóknaraðili krefst þess að krafa hans vegna fasteignagjalda fyrir árið 2014 samkvæmt kröfulýsingu hans frá 30. ágúst 2016 eigi að koma til greiðslu af nauðungarsöluandvirðinu þegar af þeirri ástæðu að gerð hafi verið krafa um nauðungarsölu á eigninni vegna vanskila ársins 2014 þann 5. febrúar 2016 og hafi hún verið skráð móttekin hjá sýslumanni þann 12. febrúar sama ár. Varnaraðili byggir á því að meira en 2 ár hafi verið liðin frá gjalddaga fasteignagjaldanna þann 15. janúar 2014 þegar nauðungarsölubeiðni sóknaraðila hafi borist embætti sýslumanns þann 12. febrúar 2016 og lögveðsréttur sóknaraðila sé því fyrndur.
Samkvæmt 5. mgr. 4. gr. laga nr. 4/1995 er eindagi fasteignaskatts þrjátíu dögum eftir gjalddaga og fellur allur skattur ársins í gjalddaga ef vanskil verða. Ágreiningur aðila í máli þessu snýst um það hvort greiðslufall hafi orðið þegar fyrsta afborgun með gjalddaga 15. janúar 2014 var ekki innt af hendi eða hvort miða eigi við eindaga þrjátíu dögum síðar, eða þann 15. febrúar sama ár. Hugtakið eindagi hefur í lagaframkvæmd verið skilið þannig að frá gjalddaga og fram að því tímamarki sé skuldara heimilt að inna greiðslu af hendi án nokkurra afleiðinga, t.d. er alkunna að dráttarvextir reiknast ekki fyrr en eftir eindaga. Verður því að skilja hugtakið vanskil í 5. mgr. 4. gr. sömu laga svo að ekki verði talið að greiðslufall hafi orðið á fasteignaskatti fyrr en að honum ógreiddum að loknum eindaga. Var krafa sóknaraðila því ófyrnd þegar beiðni um nauðungarsölu á umræddri eign barst sýslumanni þann 12. febrúar 2016, sbr. 2. mgr. 12. gr. laga nr. 90/1991. Verða kröfur sóknaraðila því teknar til greina eins og nánar greinir í úrskurðarorði. Eftir þessum úrslitum verður varnaraðila gert að greiða sóknaraðila 600.000 krónur í málskostnað að meðtöldum virðisaukaskatti.
Hjörtur O. Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð:
Frumvarpi sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu, sem dagsett er 14. desember 2016, um úthlutun uppboðsandvirðis af Tröllateigi 41 í Mosfellsbæ, er breytt þannig að sóknaraðili, Mosfellsbær, fær allar kröfur sínar vegna fasteignagjalda 2014, skv. kröfulýsingu nr. 0101-2566, greiddar af uppboðsandvirðinu samkvæmt kröfulýsingu hans hjá sýslumanni dagsettri 30. ágúst 2016, alls að fjárhæð 432.795 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af þeirri fjárhæð frá 30. ágúst 2016 til greiðsludags.
Varnaraðili, Tollstjóri, greiði sóknaraðila 600.000 krónur í málskostnað að meðtöldum virðisaukaskatti.