Hæstiréttur íslands

Mál nr. 266/2015


Lykilorð

  • Kynferðisbrot
  • Brot gegn blygðunarsemi
  • Ómerkingu héraðsdóms hafnað


                                     

Fimmtudaginn 14. janúar 2016.

Nr. 266/2015.

Ákæruvaldið

(Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari)

gegn

X

(Sveinn Andri Sveinsson hrl.)

 

Kynferðisbrot. Brot gegn blygðunarsemi. Ómerkingu héraðsdóms hafnað.

X var ákærður fyrir brot gegn blygðunarsemi þriggja lögreglumanna, sbr. 209. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, með því að hafa staðið á gangstétt og horft á lögreglumennina, þar sem þeir sátu inn í lögreglubifreið, og handleikið á sér getnaðarliminn og haldið háttseminni áfram eftir að tveir lögreglumannanna stigu út úr bifreiðinni og gengu í átt að honum. Var X sakfelldur í héraði og dæmdur í þriggja mánaða skilorðbundið fangelsi. Í dómi Hæstaréttar kom fram að X hefði allt frá því að lögregla hafði afskipti af honum neitað að hafa gert annað en að handleika á sér getnaðarliminn er hann var að kasta af sér vatni og í kjölfar þess. Af hálfu ákæruvaldsins hefði því ekki verið mótmælt að áður en hann var handtekinn hefði hann verið að kasta af sér þvagi. Með hliðsjón af því og þegar horft væri til verknaðarlýsingar ákæru, var ekki talið að sú háttsemi sem þar greindi fæli í sér lostugt athæfi samkvæmt 209. gr. almennra hegningarlaga sem getað hefði sært blygðunarsemi lögreglumannanna. Var X því sýknaður.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason og Karl Axelsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 31. mars 2015 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að refsing ákærða verði þyngd.

Ákærði krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af kröfu ákæruvaldsins, til vara að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað, en að því frágengnu að refsing hans verði milduð.

I

Ákærði hefur krafist ómerkingar hins áfrýjaða dóms, annars vegar á þeim grundvelli að héraðsdómara hafi borið að neyta heimildar 4. mgr. 3. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála um að þrír dómarar skipuðu dóm í málinu, og hins vegar með vísan til þess að mat dómsins á sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir dómi sé rangt, sbr. 3. mgr. 208. gr. sömu laga. 

Í 2. mgr. 3. gr. laga nr. 88/2008 er kveðið svo á um að einn héraðsdómari skipi dóm í hverju máli nema svo standi á sem segir í 3. til 5. mgr. greinarinnar. Í 4. mgr. er mælt fyrir um að ef ákærði neiti sök og dómari telji sýnt að niðurstaða kunni að verulegu leyti að ráðast af mati á sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir dómi geti dómstjóri ákveðið að þrír héraðsdómarar skipi dóm í málinu. Tilvitnað ákvæði heimilar að hafa dóm fjölskipaðan við þær aðstæður sem þar er vísað til, en slíkt er ekki skylt. Eins og mál þetta er vaxið eru ekki efni til að fallast á kröfu ákærða um ómerkingu dómsins af þeirri ástæðu að einn héraðsdómari skipi dóm í málinu í samræmi við meginreglu 2. mgr. 3. gr. laga nr. 88/2008. Þá er ekkert fram komið í málinu um að niðurstaða héraðsdóms um mat á sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir dómi sé rangt svo einhverju skipti um úrlausn málsins, sbr. 3. mgr. 208. gr. laganna. Samkvæmt þessu er kröfu ákærða um ómerkingu héraðsdóms hafnað.

II

 Ákærða er gefið að sök ,,brot gegn blygðunarsemi lögreglumannanna A, B og C, aðfaranótt 14. desember 2013  ...  er ákærði stóð á gangstétt og horfði á lögreglumennina, þar sem þeir sátu inni í lögreglubifreið, og handlék á sér getnaðarliminn auk þess sem ákærði hélt háttseminni áfram“ eftir að tveir lögreglumannanna stigu út úr lögreglubifreiðinni og gengu í átt að ákærða.

Ákærði hefur allt frá því að lögregla hafði afskipti af honum umrætt sinn neitað að hafa gert annað en að handleika á sér getnaðarliminn er hann var að kasta af sér vatni og í kjölfar þess. Fyrir dómi bar hann að hugsanlegt væri að lögreglumennirnir hafi séð er hann hristi á sér liminn, til þess að ,,losa sig við síðustu 2,3,4 dropana“. Af hálfu ákæruvaldsins er því ekki mótmælt að áður en ákærði var handtekinn hafi hann verið að kasta af sér þvagi. Með hliðsjón af því og þegar horft er til verknaðarlýsingar ákæru, felur sú háttsemi sem þar greinir ekki í sér lostugt athæfi samkvæmt 209. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 sem getað hafi sært blygðunarsemi þeirra þriggja lögreglumanna er höfðu af honum afskipti umrætt sinn. Ákærði verður því sýknaður af því broti sem honum er gefið að sök.

Eftir þessum úrslitum skal sakarkostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti greiðast úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða eins og þau voru ákveðin í héraði.

Við meðferð málsins fyrir Hæstarétti var Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson hæstaréttarlögmaður fyrst skipaður verjandi ákærða og skilaði greinargerð til réttarins. Síðar var sú skipan afturkölluð og Sveinn Andri Sveinsson hæstaréttarlögmaður skipaður verjandi. Með hliðsjón af þessu verða báðum verjendunum ákveðin málsvarnarlaun að meðtöldum virðisaukaskatti eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákærði, X, er sýkn af kröfu ákæruvaldsins.

Allur sakarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða í héraði, eins og þau voru þar ákveðin, svo og málsvarnarlaun skipaðra verjenda hans fyrir Hæstarétti, hæstaréttarlögmannanna Vilhjálms Hans Vilhjálmssonar og Sveins Andra Sveinssonar, 372.000 krónur til hvors.

                                                           

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 24. mars 2015.

Mál þetta, sem dómtekið var 10. mars sl., er höfðað með ákæru útgefinni af ríkissaksóknara, 12. janúar 2015, á hendur X, kennitala [...], [...], [...] fyrir brot gegn blygðunarsemi lögreglumannanna A, B og C, aðfaranótt 14. desember 2013, skammt frá skemmtistaðnum Spot, Bæjarlind 6 í Kópavogi, er ákærði stóð á gangstétt og horfði á lögreglumennina, þar sem þeir sátu inni í lögreglubifreið, og handlék á sér getnaðarliminn auk þess sem ákærði hélt háttseminni áfram eftir að A og C stigu út úr lögreglubifreiðinni og gengu í átt að ákærða.

Er háttsemi ákærða talin varða við 209. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Er þess krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar. 

Ákærði neitar sök. Af hálfu verjanda er þess krafist aðallega að málinu verði vísað frá dómi, en til vara að ákærði verði sýknaður af kröfum ákæruvalds. Til þrautavara er þess krafist að ákærði verði dæmdur í vægustu refsingu er lög leyfa. Þá er þess krafist að sakarkostnaður, þ.m.t. málsvarnarlaun, verði greiddur úr ríkissjóði.  

Verjanda ákærða var gerð grein fyrir því, er dómkröfur voru hafðar uppi af hans hálfu, að krafa um frávísun hefði átt að koma fram á undan kröfu varðandi efnishlið málsins og að úr henni yrði leyst fyrst með úrskurði, sbr. 2. mgr. 159. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Þess var óskað af hálfu verjanda að leyst yrði úr formkröfum samhliða efnishlið málsins. Á það var fallist af hálfu sækjanda og telur dómurinn heimilt, eins og hér stendur á, að leysa úr formhlið og efnishlið í einni úrlausn.

Eins og fram kemur í skýrslu lögreglu frá aðfaranótt 14. desember 2013 var lögregla þá nótt, kl. 01.40, við eftirlit við skemmtistaðinn Spot, Bæjarlind 6 í Kópavogi. Í skýrslunni kemur fram að lögregla hafi veitt ákærða athygli þar sem hann hafi staðið á gangstétt við suðausturhorn hússins. Ákærði hafi horft á lögreglubifreiðina og sveiflað getnaðarlim sínum í hringi. Það hafi hann gert í nokkra stund á meðan lögreglubifreiðinni hafi verið ekið um bifreiðastæðið. Í þann mund er lögreglubifreiðin hafi verið stöðvuð hafi ákærði byrjað að strjúka getnaðarliminn fram og til baka. Hann hafi ekki sést kasta af sér þvagi þann tíma sem hann hafi handleikið getnaðarliminn í augsýn lögreglumanna. Fram kemur í skýrslunni að lögreglumenn hafi farið út úr lögreglubifreiðinni og kynnt honum ástæður afskipta lögreglu og hafi ákærði brugðist illa við. Hann hafi verið færður inn í lögreglubifreiðina þar sem rætt hafi verið við hann. Á meðal rannsóknargagna málsins er tölvupóstur frá 3. apríl 2014 og í honum segir að diskur úr upptökukerfi lögreglubifreiðar [...], frá aðfaranótt 14. desember 2013, hafi verið forsniðinn og endurnýttur í febrúar 2014.

Ákærði gaf skýrslu fyrir dómi, sem og lögreglumennirnir A, B og C, en þeir höfðu afskipti af ákærða umrætt sinn. Einnig komu fyrir dóminn tveir vinir ákærða, sem voru honum samferða þetta kvöld.

Í frásögn ákærða af atvikum kemur fram að hann ásamt tveim félögum sínum hafi verið að skemmta sér saman umrætt sinn og hafi þeir farið að skemmtistaðnum Spot í Kópavogi. Einn félaganna hafi farið í röð fólks við inngang í húsið en ákærði og hinn félaginn farið afsíðis því ákærði hafi viljað kasta af sér þvagi. Ákærði hafi vikið sér til hliðar og farið með húsinu og nærri ruslagám. Snjór hafi verið yfir öllu og félagi hans hafi beðið eftir honum við húshorn ekki fjarri inngangi í húsið. Hafi ákærði staðið við niðurfall og verið að kasta af sér þvagi. Skyndilega hafi hann séð lögreglubifreið nálgast og litið til hliðar vegna þess. Hafi hann lokið við að kasta af sér þvagi og hrist lim sinn til að losa sig við síðustu dropana. Lögreglumenn hafi lagt lögreglubifreiðinni og tveir lögreglumenn komið út. Er þeir hafi komið að ákærða hafi hann verið búinn að renna upp buxnaklaufinni. Þeir hafi beðið hann um að koma í lögreglubifreiðina og gripið létt undir handleggi hans um leið. Hann hafi talið að þeir vildu ræða stuttlega við sig og hann hvorki tekið því vel né illa. Hann hafi hikað í för sinni að lögreglubifreiðinni. Inni í henni hafi hann átt von á því að honum yrði tjáð að hann mætti ekki kasta af sér þvagi hvar sem væri. Þeir hafi hins vegar sagt að hann hafi verið að fróa sér.

Ákærði kvaðst hafa orðið orðlaus við þetta. Hann hafi tjáð lögreglumönnum að hann hafi einfaldlega verið að kasta af sér þvagi. Kvaðst hann hafa spurt lögreglumennina hvort samtal þeirra væri ekki örugglega tekið upp á myndatökubúnað í lögreglubifreiðinni og jafnframt beðið þá um að fara út og aðgæta vettvang til að sannreyna að ákærði hafi kastað af sér vatni. Lögreglumennirnir hafi ekki orðið við því og eftir nokkrar umræður í lögreglubifreiðinni, þar sem ákærði hafi reynt að leiða lögreglumönnum fyrir sjónir að hann hefði einungis verið að kasta af sér þvagi, hafi honum verið leyft að yfirgefa bifreiðina. Ákærði kvaðst hafa drukkið áfengi þetta kvöld og verið undir áhrifum, en ekki fullur.

Lögreglumennirnir A, B og C komu fyrir dóminn. Var framburður þeirra nokkuð á einn veg. Kváðust þeir hafa verið á vakt umrætt kvöld við skemmtistaðinn Spot í Kópavogi.

A kvaðst hafa setið í framsæti lögreglubifreiðarinnar farþegamegin og C verið í aftursæti bifreiðarinnar. Ákærði hafi verið á bifreiðastæði fjarri inngangi við skemmtistaðinn er lögreglubifreiðinni hafi verið ekið um bifreiðastæði við staðinn. Ákærði hafi tekið til við að sveifla getnaðarlim sínum í hringi og snúið að lögreglubifreiðinni. Lögreglumenn hafi ákveðið að ræða við hann og snúið lögreglubifreiðinni við. Ákærði hafi þá tekið til við að strjúka getnaðarlim sinn fram og til baka og beint hreyfingunum í átt að lögreglu. Hann hafi snúið baki í skemmtistaðinn og horft á lögreglubifreiðina allan tímann og hafi athöfnunum augljóslega verið beint að lögreglumönnunum. Enginn hafi verið í nágrenni við ákærða og lögreglubifreiðinni verið ekið hægt um bifreiðaplanið og hann því verið dágóða stund í athöfnum sínum. A og C hafi farið út úr lögreglubifreiðinni og rætt við hann og hafi hann verið ósáttur við afskipti lögreglu. Hann hafi verið færður yfir í lögreglubifreiðina þar sem rætt hafi verið við hann og hafi samskiptin þar verið tekin upp á upptökubúnað. Ákærði hafi verið frjáls ferða sinna eftir það. A kvað ekki útilokað að ákærði hafi verið að kasta af sér þvagi á þessum stað en það hafi hann ekki gert eftir að lögregla hafi veitt honum athygli. Þrátt fyrir að þetta hafi gerst að næturlagi hafi A séð háttsemi ákærða greinilega og hafi B upplifað háttsemi hans sem væri hún af kynferðislegum toga.

C bar á sama veg um atvik. Hann kvað lögreglubifreiðinni hafa verið ekið fram hjá ákærða og hafi hann snúið að lögreglu og sveiflað getnaðarlim sínum í hringi. Lögreglubifreiðinni hafi verið ekið framhjá ákærða, henni snúið við og hún stöðvuð nærri honum. Hann hafi horft á lögreglu allan tímann og tekið til við að strjúka getnaðarliminn fram og til baka. Hegðun ákærða hafi alls ekki verið eðlileg og henni beint að lögreglumönnunum sem hafi fundist þessar aðfarir hans óþægilegar. Lögreglubifreiðin hafi því verið stöðvuð og þeir rætt við ákærða. Hafi ákærði sett getnaðarlim sinn í buxurnar rétt áður en lögreglumennirnir hafi komið að honum. Ákærði hafi ekki brugðist vel við afskiptum lögreglu og hafi C metið það svo að hann væri undir áhrifum áfengis. C kvaðst ekki hafa séð hann kasta þvagi á bílastæðinu. Samtalið við ákærða hafi verið tekið upp á upptökukerfi í lögreglubifreiðinni. Kerfið hafi verið í gangi og ákærði m.a. talað í átt að myndavélinni en hann hafi viljað koma skilaboðum til vina sinna innan lögreglunnar. C hafi ekki séð neinn í nágrenni við ákærða á staðnum. Þrátt fyrir rökkur úti hafi hann séð atburðarásina vel.

B kvaðst hafa veitt ákærða athygli þar sem hann hafi staðið við hlið skemmtistaðarins og virst vera að kasta af sér þvagi. Hann hafi í það minnsta haldið um getnaðarlim sinn. Er lögreglubifreiðinni hafi verið ekið nær honum hafi hann snúið sér í átt að bifreiðinni og um leið handfjatlað getnaðarlim sinn og snúið honum í hringi. B kvaðst hafa snúið lögreglubifreiðinni við og í augnablik litið af ákærða. Er hann hafi aftur séð til hans hafi hann tekið til við að strjúka getnaðarlim sinn fram og aftur. Hann hafi snúið að lögreglumönnunum og beint athöfnum sínum að þeim. Hann hafi svo hætt þessu og sett lim sinn í buxurnar er lögreglumennirnir, A og C, hafi gengið að honum. Hann hafi verið færður í lögreglubifreiðina og verið ósáttur við afskipti lögreglumannanna. B hafi látið samstarfsmenn sína vita að búið væri að kveikja á upptöku upptökubúnaðar í lögreglubifreiðinni. B kvaðst ekki vera í neinum vafa um að ákærði hafi verið að gera meira en að kasta af sér þvagi þegar lögreglumenn hafi komið að honum; hann hafi handfjatlað lim sinn allan þann tíma sem það hafi tekið B að aka fram hjá honum, snúa lögreglubifreiðinni við og stöðva í framhaldi. B sagði að einhver hafi staðið í nágrenninu nærri húshorni og hafi viðkomandi verið talsvert frá ákærða. Lögreglumenn hafi ekki aðgætt sérstaklega með vettvang, þ.e. hvort ákærði hafi verið búinn að kasta af sér þvagi áður en lögreglumenn hafi komið að. Þrátt fyrir rökkur hafi þeir greinilega séð athafnir ákærða.

Fyrir dóminn komu tveir vinir ákærða. Annar þeirra kvaðst hafa farið rakleitt í röð fyrir framan inngang staðarins. Hinn kvaðst hafa fylgt ákærða en ákærði hafi viljað kasta af sér þvagi áður en þeir félagar færu inn. Hafi hann ekki fylgt honum alla leið en reiknaði með að ákærði hafi kastað af sér þvagi, en ákærði hafi staðið álengdar. Myrkur hafi verið úti og hann ekki séð nákvæmlega það sem ákærði hafi aðhafst. Að auki hafi verið nokkur fjarlægð á milli þeirra.   

Niðurstaða:

                Krafa ákærða um frávísun byggir á því að málatilbúnaði ákæruvalds sé verulega áfátt, vegna ágalla á rannsókn málsins. Þeir aðilar sem farið hafi með rannsókn þess og útgáfu ákæru hafi ekki gætt að þeirri hlutlægni við rannsóknina sem af þeim megi ætlast. Lögregla hafi látið eyða diski með myndupptöku úr lögreglubifreiðinni og hafi umrætt gagn skipt miklu fyrir málsvörn ákærða. Þá hafi lögreglumenn ekki gætt að því að rannsaka vettvang vegna staðhæfinga ákærða um að hann hafi verið að kasta af sér þvagi.

Leysa ber úr ágreiningi um frávísun máls með úrskurði, áður en leyst er úr efnishlið máls. Að teknu tilliti til þess að krafa um frávísun kom fram undir málflutningi og eins og rökstuðningi ákærða fyrir frávísun var háttað í máli þessu, telur dómurinn sér fært að leysa úr frávísunarkröfu ákærða í þessum dómi, enda í samræmi við ósk ákærða. Að því er framangreindan rökstuðning varðar er til þess að líta að myndupptaka úr lögreglubifreiðinni umrætt sinn, hefði ekki sannreynt brot ákærða þar sem það á að hafa átt sér stað áður en upptaka var sett af stað. Þá er til þess að líta að sakarefni málsins varðar ekki þá staðreynd hvort ákærði hafi kastað af sér þvagi áður en lögreglumenn komu á vettvang, heldur varðar það athafnir ákærða á meðan lögreglumenn voru á vettvangi. Í þessu ljósi, og þar sem ekki hefur verið sýnt fram á annað er á mis hefur farið við rannsókn málsins, verður kröfum ákærða um frávísun málsins frá dómi hafnað.

Að því er sakarefni málsins varðar neitar ákærði sök. Kveðst hann ekki hafa viðhaft þær athafnir er lýst sé í ákæru. Þrír lögreglumenn, sem afskipti höfðu af ákærða þessa nótt, komu fyrir dóminn. Er framburður þeirra á einn veg um að ákærði hafi sveiflað getnaðarlim sínum í hringi og beint þeirri háttsemi að lögreglumönnunum. Er lögreglubifreiðinni hafi verið lagt hafi ákærði tekið til við að strjúka getnaðarlim sinn fram og til baka. Þessum athöfnum hafi öllum verið beint að lögreglumönnunum þrem. Ákærði hafi ekki hætt háttseminni fyrr en lögreglumennirnir, A og C, hafi verið komnir nærri ákærða. Ákærði hafi ekki kastað af sér þvagi á þeim tíma er lögreglumennirnir hafi veitt honum athygli.

Með hliðsjón af þessum samhljóða framburðum lögreglumannanna er komin fram lögfull sönnun um að ákærði hafi handleikið á sér getnaðarliminn með tilgreindum hætti auk þess sem hann hafi haldið háttseminni áfram eftir að lögreglumennirnir, A og C, stigu út úr lögreglubifreiðinni og gengu í átt að honum.

Með lostugu athæfi í skilningi 209. gr. laga nr. 19/1940 er átt við athöfn af kynferðislegum toga sem gengur skemmra en samræði og önnur kynferðismök. Hafa lögreglumennirnir lýst því að það hafi verið óþægilegt að horfa á aðfarirnar og að þær hafi verið af kynferðislegum toga. Hlutrænt séð og eins og aðstæðum var háttað í umrætt sinn verður að líta svo á að athafnir ákærða, þ.e. að handleika getnaðarlim sinn í nokkurn tíma, með því að sveifla honum í hringi og strjúka hann fram og aftur og beina þeim athöfnum að lögreglumönnunum þrem, hafi verið lostugt athæfi í skilningi ákvæðisins. Sú háttsemi ákærða var til þess fallin að særa blygðunarkennd þeirra. Þegar til þessa er litið er sannað að ákærði hafi framið það brot sem í ákæru greinir og er háttsemin rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru. 

                Ákærði er fæddur í september 1962. Sakaferill hans skiptir ekki máli við ákvörðun refsingar. Með hliðsjón af atvikum þessa máls er refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 3 mánuði, sem heimilt er að skilorðsbinda með þeim hætti er í dómsorði greinir.    

Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda, að teknu tilliti til virðisaukaskatts, svo sem í dómsorði er mælt fyrir um.

Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Þorbjörg S. Gunnlaugsdóttir aðstoðarsaksóknari.

Símon Sigvaldason héraðsdómari kveður upp dóminn.

                                                                                  D ó m s o r ð :

                Ákærði, X, sæti fangelsi í 3 mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá birtingu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

                Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Bjargar Valgeirsdóttur héraðsdómslögmanns,  736.560 krónur.