Hæstiréttur íslands
Mál nr. 667/2012
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
|
|
Fimmtudaginn
1. nóvember 2012. |
|
Nr.
667/2012. |
Lögreglustjórinn
á höfuðborgarsvæðinu (Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari) gegn X (Stefán Karl Kristjánsson hdl.) |
Kærumál.
Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi áfram sæta
gæsluvarðhaldi, á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð
sakamála, var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Eiríkur Tómasson og Þorgeir Örlygsson.
Varnaraðili
skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 31. október 2012, sem barst réttinum ásamt
kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 31. október
2012, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins
28. nóvember 2012 klukkan 16, en þó ekki lengur en þar til dómur gengur í máli
hans. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð
sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði
felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili
krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Varnaraðili
hefur sætt gæsluvarðhaldi frá 29. júlí 2012. Honum er gefið að sök að hafa að
kvöldi 28. sama mánaðar veist A með hnífi með þeim afleiðingum meðal annars að
brotaþoli hafi hlotið stungusár vinstra megin á brjóstkassa þannig að hnífurinn
hafi gengið inn í vinstra lunga hans og valdið loftbrjósti. Gæsluvarðhald
varnaraðila frá 9. ágúst 2012 hefur verið reist á 2. mgr. 95. gr. laga nr.
88/2008. Í þremur dómum Hæstaréttar í málum nr. 539/2012 uppkveðnum 10. ágúst
2012, nr. 589/2012 uppkveðnum 7. september það ár og í máli nr. 626/2012
uppkveðnum 4. október sama ár hefur verið fallist á að sterkur grunur leiki á
að varnaraðili hafi framið afbrot sem varðað getur 10 ára fangelsi. Í
síðastnefnda dóminum er áréttað að sú ályktun verði dregin af þeim sakargiftum
sem varnaraðili er borinn að hann sé hættulegur umhverfi sínu, verði hann
látinn laus, þannig að áframhaldandi gæsluvarðhald sé nauðsynlegt með tilliti
til almannahagsmuna, sbr. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Ákæra var gefin út
á hendur varnaraðila 24. september 2012 vegna hins ætlaða brots og málið
þingfest 3. október sama ár. Enginn óþarfa dráttur hefur orðið á meðferð
málsins. Verður fallist á með héraðsdómi að enn séu skilyrði til þess að
varnaraðili sæti gæsluvarðhaldi þann tíma sem mælt er fyrir um í hinum kærða
úrskurði. Verður hann því staðfestur.
Varnaraðili
lýsti yfir kæru til Hæstaréttar þegar eftir uppkvaðningu hins kærða úrskurðar.
Hann hefur ekki skilað greinargerð til Hæstaréttar og hefur hvorki við meðferð
málsins í héraði né hér fyrir dómi bent á nein ný atvik sem gerst hafa frá því
að dómur Hæstaréttar í máli nr. 626/2012 var kveðinn upp, sem réttlætt geti að
hinum kærða úrskurði yrði skotið til Hæstaréttar. Er kæra úrskurðarins því með
öllu að ófyrirsynju.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 31.
október 2012.
Ríkissaksóknari hefur
krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði ákærða, X, [...], til að sæta
áframhaldandi gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 28. nóvember 2012 kl.
16:00, en þó ekki lengur en þar til dómur gengur í máli hans.
Í greinargerð lögreglu
kemur fram að X sæti nú ákæru ríkissaksóknara vegna tilraunar til manndráps með
því að hafa laugardagskvöldið 28. júlí sl. veist að A með hnífi og hafa veitt
honum stungusár á brjóstkassa þar sem hnífurinn hafi gengið inn í vinstra lunga
hans. Brotið sé talið varða við 211. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga
nr. 19/1940. Vitni séu að atburðinum.
Ákærði hafi sætt
gæsluvarðhaldi frá 29. júlí sl. fyrst með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur í
máli R-386/2012, á grundvelli rannsóknarhagsmuna, en síðan frá 9. ágúst sl. sjá
úrskurð í máli R-399/2012 á grundvelli 2. mgr. 95. gr. sml.
og 6. september sl. sjá úrskurð í máli R-427/2012 og nú síðast með úrskurði í
máli R-465/2012. Úrskurðum þessum hafi ákærði öllum skotið til Hæstaréttar sem
hafi staðfest þá, sjá mál Hæstaréttar nr. 523/2012, 539/2012, 589/2012 og
626/2012. Þrír síðastnefndu dómarnir séu um að ákærði skyldi sæta
gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 95. gr. sml.
Ákæra ríkissaksóknara
hafi verið þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur 3. október sl. Verjandi ákærða
hafi fengið frest til að skila greinargerð fyrir hans hönd til 2. nóvember nk.
Í ljósi atvikalýsingar ákæru ríkissaksóknara á hendur X sem staðfesti að ákærði
sé undir sterkum grun um að hafa framið brot sem að lögum geti varðað 10 ára
fangelsi. Telur ákæruvaldið að öðrum skilyrðum 2. mgr. 95. gr. sml. sé einnig fullnægt.
Með vísan til
framangreinds, framlagðra gagna og 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð
sakamálamála sé þess krafist að krafan nái fram að ganga.
Ákærði hefur setið í
gæsluvarðhaldi frá 29. júlí 2012 vegna gruns um tilraun til manndráps. Hefur
ákæra verið gefin út á hendur honum af þessu tilefni og er brotið talið varða
við 211. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en til vara við
2. mgr. 218. gr. sömu laga. Ákærumálið var þingfest í héraðsdómi 3. október sl.
og mun ákærði hafa neitað sök. Með vísan til fyrirliggjandi gagna og dóma
Hæstaréttar Íslands, nú síðast frá 4. október 2012 í máli nr. 629/2012, er á
það fallist að sterkur grunur leiki á því að ákærði hafi framið afbrot sem að
lögum getur varðað tíu ára fangelsi og að brotið sé þess eðlis að gæsluvarðhald
sé nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna, enda liggja ekki fyrir nýjar
upplýsingar er gefa tilefni til annarrar niðurstöðu. Skilyrðum 2. mgr. 95. gr.
laga nr. 88/2008 er því fullnægt og verður krafa sóknaraðila því tekin til greina
eins og hún er fram sett, en ekki þykir ástæða til að marka varðhaldinu skemmri
tíma.
Ásmundur Helgason
héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Ákærði, X, [...], skal
áfram sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 28. nóvember 2012 kl. 16:00,
en þó ekki lengur en þar til dómur gengur í máli hans.