Hæstiréttur íslands

Mál nr. 615/2009


Lykilorð

  • Útlendingur
  • Stjórnsýsla


Fimmtudaginn 14. október 2010.

Nr. 615/2009.

Mehdi Kavyanpoor

(Ragnar Aðalsteinsson hrl.)

gegn

íslenska ríkinu

(Skarphéðinn Þórisson hrl.)

Útlendingur. Stjórnsýsla.

Með ákvörðun útlendingaeftirlitsins í apríl 2007, sem staðfest var með úrskurði dóms- og kirkjumálaráðuneytisins í október 2008, var M, írönskum ríkisborgara, synjað um hæli hér á landi sem flóttamanni og jafnframt að honum yrði veitt dvalarleyfi af mannúðarástæðum. M höfðaði mál gegn íslenska ríkinu og krafðist ógildingar á fyrrgreindum ákvörðunum  m.a. á þeim grundvelli að útlendingastofnun hafi, með því að túlka 12. gr. laga nr. 96/2002 um útlendinga of þröngt, staðið í vegi fyrir því að veitt yrði dvalarleyfi af mannúðarástæðum. Þá bar M við form- og efnisgöllum við málsmeðferðina. Talið var að ákvörðun útlendingastofnunar og úrskurður ráðuneytisins hafi verið reist á málefnalegum sjónarmiðum og stjórnvöld við þær ákvarðanir beitt þeim sjónarmiðum sem skylt var að beita samkvæmt 1. mgr. 44.gr., 45. gr. og 12. gr. laga nr. 96/2002. Ákvarðanirnar væru þannig hvorki haldnar form- né efnisannmörkum og íslenska ríkið sýknað af kröfu M í málinu.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Árni Kolbeinsson og Garðar Gíslason.

Áfrýjandi  skaut málinu til Hæstaréttar 27. október 2009. Hann krefst þess að ógiltur verði úrskurður dóms- og kirkjumálaráðuneytisins 2. október 2008 í máli áfrýjanda og felld úr gildi ákvörðun Útlendingastofnunar 2. apríl 2007, þar sem umsókn áfrýjanda um hæli hér á landi sem flóttamanni og veitingu dvalarleyfis af mannúðarástæðum var synjað. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Áfrýjandi, sem kveðst vera frá Íran, leitaði til lögreglunnar á Höfn í Hornafirði 1. febrúar 2005 og sagðist skömmu áður hafa verið látinn í land af flutningaskipi. Daginn eftir sótti hann um hæli hér á landi. Málsatvikum er nánar lýst í hinum áfrýjaða dómi sem og málsástæðum aðila.

Samkvæmt 3. mgr. 50. gr. laga nr. 96/2002 um útlendinga skal Útlendingastofnun af sjálfsdáðum afla nauðsynlegra og aðgengilegra upplýsinga í málum sem þessum. Af gögnum málsins verður ráðið að mál áfrýjanda hafi verið rækilega rannsakað og ekki verður séð að stofnunin hafi látið hjá líða að afla aðgengilegra upplýsinga sem máli gátu skipt fyrir niðurstöðu þess.

Áfrýjandi heldur því fram að Útlendingastofnun hafi ekki gætt hlutlægni með því að fallast ekki á að hann gæfi skýrslu á ný eftir að fram var komið að hann taldi hnökra á þýðingu þeirrar skýrslu er hann gaf 29. ágúst 2005. Áfrýjandi kom að athugasemdum um þau atriði er hann var ósáttur við í þýðingunni og lágu þær fyrir þegar ákvörðun var tekin í máli hans. Þá verður hvorki séð að undirbúningi né formi ákvörðunar stofnunarinnar eða úrskurðar ráðuneytisins hafi að öðru leyti verið áfátt þannig að það geti leitt til þess að kröfur áfrýjanda verði teknar til greina.

Ekki hefur annað verið leitt í ljós en að ákvörðun Útlendingastofnunar og úrskurður ráðuneytisins hafi verið reist á málefnalegum sjónarmiðum og stjórnvöld hafi við þær ákvarðanir beitt þeim sjónarmiðum sem skylt var að beita samkvæmt 1. mgr. 44. gr., 45. gr. og 12. gr. f. laga nr. 96/2002. Hinar umdeildu stjórnvaldsákvarðanir eru þannig hvorki haldnar form- né efnisannmörkum. Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður niðurstaða hans staðfest.

Samkvæmt 166. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 130. gr. sömu laga, verður hvor aðili látinn beri sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

         Málkostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 27. júlí 2009.

Mál þetta sem dómtekið var 30. júní 2009, var höfðað 5. febrúar sama ár.

Stefnandi er Mehdi Kavyanpoor, Fit hostel, Fitjabraut 6, Reykjanesbæ. Stefndu eru íslenska ríkið og Útlendingastofnun.

Dómkröfur stefnanda eru að ógiltur verði með dómi úrskurður dóms- og kirkjumálaráðuneytisins 2. október 2008 í máli stefnanda og dæmt að felld skuli úr gildi ákvörðun Útlendingastofnunar 2. apríl 2007, þar sem umsókn stefnanda um hæli og veitingu dvalarleyfis af mannúðarástæðum var synjað. Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda, að viðbættum virðisaukaskatti á málskostnað eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.

Stefndu krefjast þess þeir verði sýknaðir af aðalkröfu stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefndu málskostnað samkvæmt mati dómsins.

Málsatvik:

Að því er fram kemur í gögnum málsins fann lögregla stefnanda 1. febrúar 2005 skammt utan við Höfn í Hornafirði eftir að hringt hafði verið til lögreglunnar og tilkynnt um mann sem væri fótgangandi á leið úr bænum, en maðurinn hefði spurst fyrir um lögreglu eða lestarstöð. Svo hafi virst að hann vissi ekki hvar hann væri staddur, en hann hafi spurt um Kanada og viljað komast þangað og upplýst að hann væri flóttamaður frá Íran. Daginn eftir óskaði stefnandi eftir hæli hér á landi. Mál hans fór í hefðbundna meðferð hjá Útlendingastofnun sem með ákvörðun sinni 2. apríl 2007 synjaði umsókn stefnanda um að honum yrði veitt hæli hér á landi sem flóttamanni og einnig að honum yrði veitt dvalarleyfi af mannúðarástæðum. Þá kom fram í ákvörðunarorðum að stefnanda skyldi vísað frá Íslandi svo fljótt sem verða mætti. Stefnandi kærði ákvörðun þessa til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, sem staðfesti hana með úrskurði sínum 2. október 2008.

Að því er fram kemur í stefnu er aðdragandi þess að stefnandi komi hingað til lands í febrúar árið 2005 flótti hans frá heimalandi sínu, en stefnandi hafi unnið hjá sérstakri hlerunardeild sem tilheyri leyniþjónustu Íran. Í því starfi fólst að honum bar að hlera og taka upp samtöl mikilvægs fólks þar í landi og hafi hann verið einn af fjórum starfsmönnum þeirrar deildar sem sá um það. Um níu mánuðum fyrir komu stefnanda til Íslands hafi tvær af upptökum deildarinnar horfið. Hafi stefnandi ásamt  samstarfsmönnum sínum verið hnepptur í fangelsi og yfirheyrður í fjóra mánuði. Hafi verið um að ræða fangelsi sem ber heitið ,,Ewin“, sem sé sérstaklega ætlað fólki sem tengist með einhverjum hætti stjórnvöldum í Íran og sé talið andsnúið þeim. Á meðan á fangelsisvistinni stóð hafi stefnandi aldrei verið leiddur fyrir dómara. Stefnandi hafi þurft að þola líkamsmeiðingar meðan á dvölinni í fangelsinu stóð, m.a. verið barinn með stígvélum í andlitið og bundið var fyrir augu hans meðan á því stóð. Skömmu eftir að stefnanda og starfsbræðrum hans var sleppt hafi tveir þessara manna látist í bílslysi á grunsamlegan hátt. Hafi stefnandi ekki talið þetta vera tilviljun og metið það svo að líf hans sjálfs væri í hættu enda mjög sérkennilegt að 15-16 dögum eftir að þeir losnuðu úr fangelsi hafi verið ekið á tvo af fjórum þeirra. Annar hafi verið að aka í átt til Norður-Íran en hinn verið fótgangandi þegar ekið var á þá. Stefnandi hafi einnig fengið vísbendingu frá háttsettum einstaklingi í stjórnkerfi Íran um að best væri fyrir hann að fara úr landi.

Stefnandi telur að stjórnvöld í Íran túlki flótta hans frá landinu sem ógn við öryggi ríkisins í ljósi fyrri grunsemda og atvika. Þau líti svo á að stefnandi búi yfir marg­víslegum upplýsingum og leyndarmálum um ráðamenn í Íran vegna eðlis starfa hans fyrir stjórnvöld. Stefnandi hafi ástæðu til að óttast að verði hann sendur aftur til heima­lands síns muni hann verða fyrir ofsóknum af hálfu yfirvalda og verði jafnvel myrtur svo lítið beri á. Hann sé sannfærður um að hann geti ekki leitað til yfirvalda þar í landi til verja sig gegn þeirri ógn sem að honum myndi steðja yrði hann sendur þangað.

Málsástæður og lagarök stefnanda:

Stefnandi byggir kröfu sína á því að úrskurður Útlendingastofnunar sem ráðherra staðfesti þann 2. október 2008 brjóti gegn stjórnsýslulögum nr. 37/1993, einkum 30. gr. og 31. gr. þeirra og útlendingalögum nr. 96/2002 enda sé hann haldinn efnis­annmörkum sem rakin verða hér á eftir.

Stefnandi telur Útlendingastofnun hafa brotið gegn 10. gr. laga nr. 37/1993 með því að láta hjá líða að kanna þær aðstæður sem stefnandi bar fyrir sig við hælisumsókn og að óeðlilegar kröfur hafi verið lagðar á hann um sönnun á aðstæðum sínum og að Útlendingastofnun hafi farið út fyrir heimild sína við mat á sönnunargögnum og með kröfum um beinar sannanir. Útlendingalög nr. 96/2002 geri ekki ráð fyrir að um­sækjendur um hæli á Íslandi leggi fram beinar sannanir fyrir ástæðum flótta undan ofsóknum en vísað sé til flóttamannasamnings við mat á skilgreiningu flóttamanns í 44. gr. laganna. Samkvæmt alþjóðalögum hafi verið talið að við mat á því hvort efnis­ástæður A-liðar 1. gr. alþjóðasamnings um stöðu flóttamanns eigi við séu óbeinar sem beinar sannanir tækar. Stefnandi heldur því fram að ekki verði gerðar ríkari kröfur til sönnunar í málsmeðferð hælisumsókna en gerðar séu skv. reglugerð Evrópu­sambandsins nr. 343/2003/EB við ákvörðun um það hvaða ríki beri ábyrgð á meðferð umsóknar um hæli, en þar sé í 18. gr. gert ráð fyrir jafnt óbeinum sem beinum sönnunum.

Sem dæmi um þær sönnunarkröfur sem lagðar hafi verið á stefnanda megi nefna að í ákvörðuninni komi fram að ef stefnandi hafi sannanlega setið í fangelsi þá sé ekki ,,ósennilegt að hann eigi að geta fengið vottorð um fangelsisvist“. Stefnandi bendir á að sönnunarbyrðin hvíli á íslenska ríkinu og að það sé með öllu óeðlilegt og ósanngjarnt sem og andstætt skuldbindingum Íslands að þjóðarétti að leggja sönnunarbyrði á flóttamann sem komi allslaus hingað til lands. Stefnandi byggir á því að hin stranga krafa íslenskra stjórnvalda um beinar sannanir í máli hans hafi verið ómálefnaleg og því beri að ógilda úrskurðinn.

Stefnandi bendir á að rannsóknarregla stjórnsýslulaganna sé öryggisregla sem miði að því að mál sé vel upplýst áður en ákvörðun sé tekin svo niðurstaðan verði efnislega rétt hverju sinni. Því tilfinnanlegri eða meira íþyngjandi sem stjórnvaldsákvörðun sé, þeim mun strangari kröfur verði almennt að gera til stjórnvalds um að það gangi úr skugga um að upplýsingar sem búi að baki ákvörðun séu sannar og réttar. Afgreiðsla íslenskra stjórnvalda á hælisumsókn stefnanda snúi að öryggi og lífi hans sjálfs. Ráðuneytið hafi  brotið gegn 10. gr. stjórnsýslulaga með því að sniðganga upplýsingar um raunverulega framgöngu íranskra yfirvalda gegn þegnum sínum.

Stefnandi byggir á því að í úrskurðum stjórnvalda virðist gæta þess misskilnings á grunnreglum stjórnsýsluréttar að framsetning röksemdafærslu aðila hafi bein áhrif á úrlausn stjórnvalds. Stjórnvöldum ber að taka hvert mál til sjálfstæðrar rannsóknar sbr. 10. gr. laga nr. 37/1993. Í báðum niðurstöðunum sé því haldið fram að stefnandi hafi hvergi rökstutt að hann hafi verið ofsóttur vegna skilyrðanna í ákvæði A-liðar 1. gr. alþjóðasamnings um stöðu flóttamanns frá 1951, sbr. viðauka við samninginn frá 1967. Í ákvörðun Útlendingastofnunar segi meðal annars: ,,Umsækjandi hefur ... aldrei tengt mál sitt við stjórnmálaskoðanir eða afstöðu sína til stjórnvalda í Íran” og í úrskurði ráðherra segi: ,,Í umfangsmikilli greinargerð talsmanns kæranda er hvergi rökstutt að kærandi hafi verið ofsóttur vegna a.m.k. eins skilyrðanna, þ.e. kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar í sérstökum félagsmálaflokkum eða stjórnmálaskoðana...”. Telur stefnandi ljóst að umrædd stjórnvöld hafi ekki tekið mál hans til sjálfstæðrar rannsóknar og það hafi leitt til rangrar niðurstöðu í hans máli.

Stefnandi heldur því fram að við rannsókn Útlendingastofnunar hafi ekki verið gætt hlutleysis. Telur hann ljóst af tölvupóstsamskiptum stofnunarinnar við Hólmeiru Gharavi, sem var túlkur í viðtali stefnanda hjá Útlendingastofnun þann 29. ágúst 2005, að túlkurinn hafi ekki gætt hlutleysis við störf sín. Umrædd tölvupóstsamskipti áttu sér stað eftir að stefnandi hafði lesið yfir viðtalið, tekið eftir þýðingarvillum og sent Útlendingastofnun bréf vegna þessa. Í tölvupósti túlksins til stofnunarinnar, þann 13. september 2005, segi orðrétt: ,,Hann [stefnandi] er ósáttur við mig sem túlk og segir að ég skilji ekki málið, væntanlega vegna þess að ég er ekki að tala fyrir honum aðeins hlutlaus túlkur”. Þrátt fyrir að svo virðist sem trúnaðarbrestur hafi átt sér stað milli stefnanda og túlksins hafi henni í beinu framhaldi verið falið af stofnuninni að þýða greinargerð í málinu ,,...jafnvel þó snúist um ósætti umsækjanda [stefnanda] við þína þjónustu...” [sic.]. Útlendingastofnun hafi óskað eftir að túlkurinn þýddi skjöl sem fjallað hafi um gagnrýni á vinnu hennar sjálfrar. Geti þetta ekki talist ásættanleg vinnubrögð af hálfu stjórnvalds, sérstaklega í ljósi þeirra grundvallarmannréttinda sem í húfi séu fyrir stefnanda. Stefnandi telur að það, að úrskurður Útlendingastofnunar byggi meðal annars á þýðingum túlks sem ekki hafi verið hlutlaus, hafi leitt til rangrar niðurstöðu.

Af hálfu stefnanda er einnig á því byggt að Útlendingastofnun og ráðherra sem æðra stjórnvald hafi brotið gegn 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 með því að láta hjá líða að kanna aðstæður hans við mat á því hvort borið hafi veita honum dvalarleyfi af mann­úðarástæðum skv. 12. gr. f. laga nr. 96/2002. Þannig hafi ekki verið kannað hvort hinn langi tími sem afgreiðsla málsins hafi tekið hafi gert það að verkum að stefnandi hafi með tengst landi og þjóð sem er annað skilyrði beitingar ákvæðisins. Þá hafi verið látið hjá líða að kanna hvort áskilnaður 12. gr. f um mannúðarsjónarmið ættu við. Látið hafi verið nægja að fullyrða að þrátt fyrir að stefnandi hafi dvalið hér á landi um tíma, hafi sótt íslenskunámskeið og kynnst hér fólki þá verði ekki talið að stefnandi hafi sérstök tengsl við Ísland. Svo virðist af rökstuðningnum að þar sem stefnandi eigi hvorki fjölskyldu né ættmenni hér á landi þá hafi hann engin tengsl við það, þrátt fyrir að hafa nú búið hér í þrjú og hálft ár. Fullyrðing stjórnvalda byggist ekki á rannsóknum. Stefnandi heldur því fram að skortur á upplýsingum um þennan þátt hafi leitt til þess að honum hafi ekki verið veitt dvalarleyfi af mannúðarástæðum.

Stefnandi telur að verði hann sendur aftur til Íran sé líf hans í mikilli hættu og að hann hafi mjög raunverulegar ástæður til að óttast ofsóknir af hálfu yfirvalda og því eigi ákvæði 45. gr. laga nr. 96/2002 við um hann. Telur stefnandi jafnframt að jafnvel þó flóttamannahugtakið skv. 44. gr. sömu laga væri ekki talið eiga við þá ætti undan­tekningarákvæði 12. gr. f laganna að gera það, en þar segir m.a. að heimilt sé að veita útlendingi dvalarleyfi ef rík mannúðarsjónarmið standi til þess. Hljóta það að teljast rík mannúðarsjónarmið að senda stefnanda ekki aftur til lands þar sem hann óttast um líf sitt.

Stefnandi reisir kröfu sína á því að Útlendingastofnun hafi, með því að túlka skilyrði 12. gr. f laga nr. 96/2002 ótæpilega þröngt, staðið í vegi fyrir að honum yrði veitt hér dvalarleyfi af mannúðarástæðum og því sé niðurstaða hennar efnislega röng. Af niðurstöðu ákvörðunar Útlendingastofnunar megi ráða að eina ástæða þess að mannúðarsjónarmið 12. gr. f laganna komi til álita sé þegar stjórnvald hefur komist að þeirri niðurstöðu að viðkomandi stafi ekki hætta af því að vera sendur til heimalands. Það sama megi segja um beitingu ráðuneytisins á sama ákvæði en þá sé lagt til grundvallar að bíði stefnanda ekki ofsóknir af hálfu stjórnvalda við komu til Íran verði ekki talið að mannréttindi verði á honum brotin við endursendingu þangað og því komi 12. gr. f ekki til skoðunar. Stefnandi heldur því fram að þessi skilningur leiði til þess að undantekningarreglan í 12. gr. f komi aldrei til skoðunar enda njóta þeir útlendingar sem eigi á hættu ofsóknir við heimsendingu þegar verndar 45. gr. laga nr. 96/2002. Tilgangur 12. gr. f er að ná til þeirra tilvika þegar aðstæður útlendings eru þannig að hann uppfylli ekki skilyrði 44. gr. laga nr. 96/2002 um réttarstöðu flóttamanns en rík mannúðarsjónarmið standi til þess að honum verði veitt hér dvalar­leyfi. Stefnandi heldur því fram að við mat á mannúðarsjónarmiðum verði að horfa til mannréttindasáttmála Evrópu eins og hann hefur verið lögfestur með lögum nr. 62/1994, mannréttindaákvæða íslensku stjórnarskrárinnar nr. 33/1944 og þeirra mannréttindasáttmála sem Ísland er aðili að.

Stefnandi mótmælir þeirri túlkun ráðuneytisins að hann hafi ekki ástæðu til að óttast um líf sitt þar sem liðin séu 3 ár síðan umræddir atburðir hafi átt sér stað. Ekki verði séð að þetta mat byggist á gögnum og raunar fer þessi fullyrðing þvert gegn niðurstöðum opinberra skýrslna um ástand mannréttindamála í Íran. Stefnandi heldur því fram að þessar staðreyndarvillur eigi þátt í því að komist hafi verið að rangri niðurstöðu á stjórnsýslustigi. Telur stefnandi að af þessu megi sjá að stjórnvöld hafi brugðist rannsóknarskyldu sinni, sbr. 10. gr. laga nr. 37/1993.

Stefnandi telur rökstuðning ráðherra ófullnægjandi og í sumum tilvikum óboðlegan. Er í því sambandi sérstaklega bent á að því sé haldið fram að frásögn stefnanda um ferðaleið hans hingað til lands sé ótrúverðug einkum þar sem honum hafi ekki verið byrgð sýn á leiðinni og að honum hafi mátt vera ljóst hvar hann væri hverju sinni. Þannig hefði hann getað sótt um hæli í fyrsta örugga landi sem hann kom til. Þetta hafi hann ekki gert heldur hafi hann eingöngu sótt um hæli hér þegar honum var ljóst að hann kæmist ekki til Kanada. Stefnandi heldur því fram að það geti ekki verið boðleg rök í úrskurði vegna hælisleitanda á Íslandi, að þar sem ljóst sé að hann var ekki bundinn og keflaður alla leiðina frá Íran til Íslands, hafi hann í raun ekki verið í neinni hættu. Telur stefnandi að þar sem slík rök hafi verið höfð til grundvallar úrskurðinum þá sé ljóst að hann geti ekki verið efnislega réttur og því beri að ógilda hann.

Stefnandi stefnir Útlendingastofnun til varnar í máli þessu, enda hafi stofnunin tekið þá ákvörðun sem deilt sé um í máli þessu. Því er haldið fram að stofnunin sé aðildarhæf í merkingu 1. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 enda hafi hún vald til að taka ákvarðanir um réttindi og skyldur skv. 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Útlendingastofnun hafi lögvarða hagsmuni af því að taka til varna er ákvörðun hennar er véfengd fyrir dómstólum í merkingu 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991. Þeir hagsmunir snúi m.a. að því að fá tækifæri til að verja sig og jafnframt koma að gagnlegum upplýsingum í málinu. Þá telur stefnandi að honum beri nauðsyn til að stefna Útlendingastofnun til ógildingar á ákvörðun stofnunarinnar enda sé markmið málsóknar hans að fá ákvörðun hennar hnekkt ekki síður en úrskurði dóms- og kirkjumálaráðherra.

Aðild ráðherra sem æðra stjórnvalds er reist á því að hann eigi lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins enda hafi ákvörðun hans þau réttaráhrif sem bundin sé við stjórnvaldsákvörðun, hvort sem hann hafi staðfest ákvörðun Útlendingastofnunar eða breytt henni. Þá er byggt á því að ráðherra hafi nær takmarkalausa heimild til endur­skoðunar stjórnvaldsákvörðunar Útlendingastofnunar og geti í því sambandi borið fyrir sig nýjar málsástæður. Ráðherra sé æðra sett stjórnvald gagnvart Út­lendingastofnun, en samkvæmt almennum reglum stjórnsýsluréttar sé talið að ráðherra hafi sömu stjórnunarheimildir gagnvart lægra settu stjórnvaldi og innan ráðuneytisins, nema kveðið sé á um annað í lögum og því ríkari ástæða til að telja að hann hafi lögvarða hagsmuni af úrlausn dómsmáls sem snýst um ákvörðun hans á kærustigi.

Málsástæður og lagarök stefndu:

Stefndu mótmælir því sem röngu sem kemur fram í stefnu varðandi það að í ákvörðun Útlendingastofnunar, sem ráðherra staðfesti, hafi verið brotið gegn, 30. og 31. gr. stjórn­sýslulaga, nr. 37/1993. Í tilvitnuðum ákvæðum sé vísað til málsmeðferðar æðra stjórnvalds og geti því ákvörðun Útlendingastofnunar, sem sé lægra sett stjórnvald, ekki verið í andstöðu við þau. Stefndu mótmæla sem því sem röngu að Útlendingastofnun hafi brotið gegn 10. gr. laga nr. 37/1993 með því að láta hjá líða að kanna aðstæður þær sem stefnandi bar fyrir sig við hælisumsókn og hafa lagt á hann óeðlilegar kröfur við umsóknina. Ekki verði gerðar ríkari kröfur um sönnun við málsmeðferð hælisumsókna er gerðar eru í reglugerð Evrópusambandsins nr. 343/2003/EB, en stefnandi vísi sérstaklega til 18. gr. reglugerðarinnar. Stefndu benda á, að reglugerðin fjalli um það hvaða aðildarríki skuli bera ábyrgð á meðferð hælisumsóknar, en ekki um efnislega meðferð umsóknar innan viðkomandi ríkis. Þessi tilvísun stefnanda hafi ekkert gildi, en í reynd hafi stjórnvald frjálst sönnunarmat við meðferð hælisumsóknar. Hvorki í flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna né í bókun um réttarstöðu flóttamanna frá 1967 séu leiðbeiningar um þetta. Í handbók um réttarstöðu flóttamanna frá Flóttamannastofnun SÞ séu um þetta leiðbeiningar og komi fram í 195. lið að það sé grundvallaratriði að umsækjandi láti í té allar upplýsingar og í 196. og 197. lið séu nánari reglur, m.a. komi þar fram að minni kröfur um sannanir þýði ekki að ósannaðan framburð beri að telja réttan ef hann samræmist almennt ekki frásögn umsækjandans.

Fram komi í ákvörðun Útlendingastofnunar að lagt hafi verið heildstætt mat á framburð hans og gögn og leitast við að kanna frásögn hans með hliðsjón af viðurkenndum gögnum um ástand í Íran. Niðurstaðan, sem staðfest hafi verið í úrskurði ráðuneytis hafi verið byggð á frásögn stefnanda sjálfs og sé því mótmælt að gerðar hafi verið óhóflegar kröfur um sönnun, enda að verulegu leyti byggt á frásögn stefnanda sjálfs með hliðsjón af trúverðugleika hans og gögnum málsins. Að mati stefndu sé eðlilegt að gera ráð fyrir að stefnandi gæti fengið vottorð um fangelsisvist sína, en óeðlilegt og óheppilegt að íslensk stjórnvöld reyni að afla gagna beint um umsækjanda í heimalandi hans.

Mál umsækjanda hafi verið rækilega rannsakað af hálfu stefndu, skilríki verið rækilega könnuð og fingrafararannsókn gerð og kannað eins og unnt var að hann væri í raun frá Íran. Tilraunir til að afla upplýsinga um stofnun þá sem stefnandi nefnir í frásögn sinni „Dadstan“, hafi ekki skilað árangri. Ekki hafi fundist upplýsingar sem nýst gætu í málinu um ástandið í Íran í ýmsum erlendum skýrslum, en þó hafi verið aflað upplýsinga úr skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins frá 8. mars 2006.

Ekki sé rétt að gerðar hafi verð óhóflegar kröfur um sönnun í málinu. Ætlast sé til þess að frásögn hælisleitanda sé trúverðug og sjálfri sér samkvæm. Þá sé mikilvægt að hælisleitandi skýri frá öllu sem hann er spurður um og sýni fullan samstarfsvilja. Útlendingastofnun hafi leitast við að kanna frásögn stefnanda með hliðsjón af viðurkenndum gögnum um ástand mála í Íran og byggt niðurstöðuna á hans eigin frásögn, bæði í skýrslutöku hjá lögreglu og viðtali hjá stofnuninni.

Varðandi það sem kemur fram í stefnu um samskipti við túlk, þar sem ekki hafi verið gætt hlutleysis er tekið fram af hálfu stefndu að athugasemdir hafi verið teknar til greina eins og skýrt komi fram í bréfi stofnunarinnar frá 13. október 2005. Ekki sé alltaf auðvelt að fá túlka, en viðkomandi túlkur sé eini túlkurinn í persnesku á lista sem unnin hafi verið að beiðni stjórnvalda af formanni félags löggiltra dómtúlka og skjalaþýðenda, en listinn liggur frammi í málinu. Stefndu telja ekki hafa verið sýnt fram á að túlkurinn hafi verið mótdrægur stefnanda heldur þvert á móti og telja ástæðu til að ætla að stefnanda hafi verið í nöp við kvenkyns túlk vegna menningarlegra atriða frá sínu heimalandi. Þá hafi stefnandi komið að öllum sínum athugasemdum varðandi túlkun og þýðingu áður en ákvörðun hafi verið tekin.

Stefndu byggja á því að stefnandi hafi ekki sýnt fram á að hann uppfylli skilyrði þess að geta talist flóttamaður. Hvergi komi fram að hann hafi verið ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis eða aðildar að samtökum vegna stjórnmálaskoðana og geti ekki eða vilji ekki þess vegna færa sér í nyt vernd heimalands. Stefnandi geti því ekki talist vera flóttamaður í viðurkenndum, alþjóðlegum skilningi þess hugtaks.

Stefndu telja frásögn stefnanda um för sína hingað til lands ótrúverðuga og hafa tekið verulegum breytingum. Til dæmis sé verulega óljóst um hvaða lönd hann hafi farið og ótrúverðugt að geta engu um það lýst. Lýst hafi verið mismunandi ferðaleið og gefnar upp mismunandi tímasetningar. Ljóst sé að ekki hafi vakað fyrir stefnanda að fara til fyrsta örugga lands til að sækja um hæli, heldur hafi hann viljað komast til Kanada. Það liggi fyrir að áður en stefnandi kom til Íslands hafi hann farið um lönd þar sem hann hefði getað sótt um hæli og verði að telja það veikja frásögn hans um ástæður hælisumsóknar að hann gerði það ekki. Auk þess sé sú afstaða ótæk af hálfu hælisleitanda að vilja ekki skýra frá öllu sem skipti máli. Þá hafi stefnandi sagst ekki vera eftirlýstur í Íran.

Stefnandi hafi engin þau tengsl við Ísland að efni séu til að veita honum dvalarleyfi af öðrum ástæðum. Hér eigi hann enga fjölskyldu eða ættmenni, en kveðst eiga bæði eiginkonu og barn í heimalandi sínu. Stefnandi hafi verið á Íslandi frá 2005 og telja stefndu afar ósennilegt að honum verði gert mein við endurkomu, ekki síst í ljósi þess að hann sé ekki eftirlýstur í heimalandinu. Stefnandi hafi ekki leitt að því líkur að mannréttindi verði brotin á honum við heimkomu til Íran.

Stefndu telja að gætt hafi verið meðalhófs í máli stefnanda Af gögnum málsins megi sjá að ákveðið hafi verið að framkvæma ekki brottvísun strax og mælst til þess að hann fengi bráðabirgðadvalarleyfi. Í bréfi ráðuneytis til Útlendingastofnunar um þetta komi fram að mikilvægt sé að stefnandi sýni samstarfsvilja til að tryggja örugga heimför hans þegar til hennar kæmi og hafi verið komið mjög til móts við stefnanda að þessu leyti. Áður en úrskurður hafi verið kveðinn upp í máli stefnanda í dómsmálaráðuneyti, hafi hann gert kröfur um að réttaráhrifum úrskurðar yrði frestað, en ekki hafi verið sýnt fram á í málinu að skilyrði 33. gr. laga nr. 96/2002 fyrir slíku hafi átti við.

Þá mótmæla stefndu að öðru leyti málatilbúnaði, málsástæðum og lagarökum stefnanda sem röngum og ósönnuðum.

Niðurstaða:

Í skýrslu lögreglunnar á Höfn frá 1. febrúar 2005 kemur fram að stefnandi hafi litlar upplýsingar viljað veita til að byrja með og verið varkár, eftir að lögregla hafði fundið hann fótgangandi á leið úr bænum og tekið hann upp í lögreglubíl og fært á lögreglustöð. Hann virtist í byrjun halda að hann væri í Kanada, upplýsti að hann væri flóttamaður frá Íran og vildi komast til Kanada þar sem hann ætti vini. Fram kom við yfirheyrslu  að stefnandi hefði verið settur í land af flutningaskipi og hefði gengið 2-3 klukkustundir á Höfn, sem verði að teljast ólíklegt, en hugsanlegt að hann hafi verið látinn í land austar og fengið far á Höfn. Strax í þessari skýrslutöku kom fram af hálfu stefnanda að hann hefði unnið fyrir leyniþjónustu í Íran við að hlera síma og eftir að gögn hefðu horfið þar hefði hann ásamt þremur samstarfsmönnum sínum verið settur í fangelsi í fjóra mánuði þar sem hann hafi verið yfirheyrður og þurft að þola minniháttar líkamsmeiðingar öðru hvoru. Tveir samstarfsmannanna hafi látist í bílslysi á grunsamlegan hátt skömmu eftir að þeir voru látnir lausir. Stefnandi hafi þá ákveðið að flýja því hann hafi ekki viljað taka þá áhættu að verða drepinn. Í viðtali hjá Útlendingastofnun 29. ágúst 2005 koma fram fyllri upplýsingar um þessi atriði og fleira er varðar starf hans í Íran, fangelsun og aðdraganda þess að hann fór úr landi og upplýsingar um ferðalagið frá Íran til Íslands. Þá kemur fram að stefnandi á fjölskyldu í heimalandinu, meðal annars konu og barn og hafi hann verið í sambandi við fjölskyldu sína eftir að hann kom til Íslands.

Ekki liggja fyrir í málinu sérstakar upplýsingar um stöðu mála í Íran sem stutt geti þær fullyrðingar stefnanda að honum sé hætta búin af því að snúa aftur þangað. Í ákvörðun Útlendingastofnunar frá 2. apríl 2007, sem staðfest var með úrskurði dóms­málaráðuneytisins 2. október 2008, kemur fram að engar upplýsingar hafi fundist um stofnun þá er stefnandi kvaðst hafa starfað hjá og að nánast ómögulegt hafi verið að finna upplýsingar í alþjóðlegum skýrslum, svo sem frá Amnesty International, Human Rights watch, British Home Office og Udlændingeservicen, sem nýst gætu í máli umsækjanda. Í skýrslu Bandaríska utanríkisráðuneytisins um stöðu mannréttindamála í Íran frá 8. mars 2006, US Department of State, Country Reports on Human Rights Practices – 2005 – Iran, sé þó vikið að mannréttindabrotum í Íran og sé þar vísað til geðþóttaákvarðana og ólöglegra ákvarðana varðandi sviptingu lífs, m.a. varðandi einstaklinga sem yfirvöld í Íran telji hafa leitast við að ógna öryggi ríkisins.

Niðurstaða Útlendingastofnunar byggist á því að ekkert bendi til þess að stefnanda bíði dauði eða ómannúðleg meðferð í Íran, verði hann sendur þangað, enda hafi hann ekki tengt mál sitt við stjórnmál eða afstöðu hans til stjórnvalda og ekki verði séð af frásögn hans að yfirvöld hafi litið  á meinta aðild hans að hvarfi á upptökum sem yfirlýsta andstöðu við stjórnvöld, en stofnunin hafi engar upplýsingar fundið sem bendi til þess að ríkisborgarar Íran sem sótt hafi um hæli megi eiga von á vansæmandi meðferð við heimkomu.

Samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 73/1993 skal stjórnvald sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því. Þá ber Útlendingastofnun samkvæmt 3. mgr. 50. gr. laga um útlendinga að afla nauðsynlegra og aðgengilegra upplýsinga af sjálfsdáðum þegar teknar eru ákvarðanir samkvæmt 1. og 2. mgr. sömu lagagreinar, m.a. í málum um vernd gegn sendingu úr landi, réttarstöðu flóttamanns og hæli. Af framangreindu verður ráðið að Útlendingastofnun hafi af sjálfsdáðum leitað eftir upplýsingum varðandi málið eins og kostur var og ekki að sjá að stofnunin hafi látið hafi hjá líða að afla aðgengilegra upplýsinga. Þá verður ekki litið svo á að fram sé komið í málinu að rannsóknarregla 10. gr. stjórnsýslulaga hafi verið brotin.

Af hálfu stefnanda er á því byggt að ekki hafi verið gætt hlutleysis við rannsókn Útlendingastofnunar á máli hans og vísar hann þar til samskipta við túlk þann sem fenginn var til að túlka viðtöl við stefnanda hjá Útlendingastofnun. Telur stefnandi að túlkurinn hafi ekki gætt hlutleysis í starfi sínu og hafi hann kvartað við stofnunina vegna þess, en sama túlki hafi þrátt fyrir það verið falið að þýða greinargerð í málinu. Slíkt geti ekki verið ásættanleg vinnubrögð af hálfu stjórnvalds og úrskurður sem byggi á slíkum vinnubrögðum hafi leitt til rangrar niðurstöðu. Af þeim gögnum málsins sem þetta varðar, því sem fram er komið í málinu um þetta atriði og með hliðsjón af því að annar túlkur var fenginn til að þýða viðtal Útlendingastofnunar við hann, verður ekki séð að brotið hafi verið á stefnanda að þessu leyti þannig að leiði til ógildingar niðurstaðna yfirvalda í máli hans.

Stefnandi reisir kröfu sína einnig á því að Útlendingastofnun hafi, með því að túlka þröngt skilyrði 12. gr. f laga nr. 96/2002, staðið í vegi fyrir því að stefnanda yrði veitt hér dvalarleyfi af mannúðarástæðum. Þess vegna sé niðurstaða stofnunarinnar efnislega röng. Í 12. gr. f nefndra laga er gert ráð fyrir að heimilt sé að veita útlendingi dvalarleyfi hér á landi þótt ekki sé fullnægt öllum skilyrðum 11. gr. laganna, ef rík mannúðarsjónarmið standi til þess eða vegna sérstakra tengsla hans við landið. Ekki er að mati dómsins unnt að fallast á það með stefnanda að ofangreind skilyrði séu fyrir hendi í máli hans og vísast meðal annars um það til forsendna í úrskurði dómsmálaráðuneytisins þar sem lagt er mat á það hvort ofangreindum skilyrðum til undanþágu frá skilyrðum 11. gr. laga nr. 96/2002, sem fram koma í 12.gr. f sömu laga, sé fullnægt.

Af hálfu stefnanda er því einnig haldið fram að annmarkar séu á rökstuðningi dóms­málaráðuneytis fyrir niðurstöðu sinni, hann sé ófullnægjandi og jafnvel óboðlegur og vísar þar einkum til umfjöllunar ráðuneytisins um frásögn stefnanda af ferð hans hingað til lands og því að þar sem honum hafi ekki verið byrgð sýn alla leiðina, hefði hann átt að geta sótt um hæli í fyrsta örugga landi sem komið var til. Er því haldið fram af hálfu stefnanda að skilja megi af úrskurði ráðuneytisins að þar sem stefnandi hafi ekki verið bundinn og keflaður alla leiðina frá Íran til Íslands, hafi hann í raun ekki verið í neinni hættu og þar sem slík rök hafi verið höfð til grundvallar úrskurðinum sé ljóst að hann geti ekki verið efnislega réttur og beri að ógilda hann. Slíkur málatilbúnaður af hálfu stefnanda breytir ekki niðurstöðu málsins.

Það verður því niðurstaða málsins að ekki hafi verið sýnt fram á að ólöglega hafi verið staðið að ákvörðun Útlendingastofnunar og úrskurði dómsmálaráðuneytis í máli hans og verða stefndu því sýknaðir af kröfum hans.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans, Arnars Þ. Jónssonar hdl., sem þykir hæfilega ákveðin 400.000 krónur án virðis­aukaskatts.

Dóminn kvað upp Anna M. Karlsdóttir, settur héraðsdómari.

D Ó M S O R Ð:

Stefndu, Íslenska ríkið og Útlendingastofnun, eru sýknuð af kröfum stefnanda, Mehdi Kavyanpoor, í máli þessu.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans, Arnars Þ. Jónssonar hdl., 400.000 krónur.