Hæstiréttur íslands
Mál nr. 218/2007
Lykilorð
- Kærumál
- Vanreifun
- Frávísunarúrskurður staðfestur
|
|
Þriðjudaginn 8. maí 2007. |
|
Nr. 218/2007. |
Heimir Guðjónsson(Jón Einar Jakobsson hdl.) gegn Glitni banka hf. (enginn) |
Kærumál. Vanreifun. Frávísunarúrskurður héraðsdóms staðfestur.
H kærði úrskurð héraðsdóms, þar sem máli hans gegn G hf. var vísað frá dómi sökum vanreifunar. Á það var fallist að málsgrundvöllur H væri á reiki. Þá var talið að eins og málið lá fyrir héraðsdómi hefði grundvöllur kröfu H verið svo vanreifaður að rétt hefði verið að vísa því frá dómi. Ekki var talið efni til að hagga því mati þótt H hefði lagt gögn fyrir Hæstarétt, sem var ætlað að skýra á hvaða grunni fjárkrafan væri reist. Hinn kærði úrskurður var því staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Hjördís Hákonardóttir og Hrafn Bragason.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 16. apríl 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 24. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 3. apríl 2007, þar sem máli sóknaraðila gegn varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann aðallega málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar en til vara að málskostnaður og kærumálskostnaður falli niður.
Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
Málavextir eru raktir í hinum kærða úrskurði. Þar er á því byggt að krafa sóknaraðila sé skaðabótakrafa og um það vísað til yfirlýsingar, sem kom fram við munnlegan málflutning, en frávísunin er rökstudd með því að af stefnu verði ekkert um það ráðið á hverju sóknaraðili reisi ætlað tjón sitt eða hvert það sé.
Fallist er á að ekki verði skýrlega ráðið af stefnu málsins hvort krafa sóknaraðila gegn varnaraðila sé skaðabótakrafa eða krafa um endurgreiðslu á 537.688 krónum, sem sóknaraðili greiddi varnaraðila með fyrirvara. Í greinargerð sóknaraðila til Hæstaréttar segir að það komi skýrt fram í stefnu og öðrum framlögðum gögnum að dómkröfur hans séu um „endurgreiðslu fjármuna, sem varnaraðila áskotnuðust úr hendi kæranda á ólögmætan og ósanngjarnan hátt.“ Annars staðar í greinargerðinni segir hins vegar að með ætlaðri ólögmætri háttsemi hafi varnaraðili bakað sóknaraðila „bótaskylt tjón“ er nemi stefnukröfu og að málsgögn séu skýr um aðdraganda tjónsatviks. Málsgrundvöllur sóknaraðila er samkvæmt þessu ennþá á reiki.
Af stefnu má ráða að ein meginmálsástæða sóknaraðila sé sú, að ábyrgð hans á greiðslu skuldabréfs 7. febrúar 2001 hafi fallið niður þegar bifreiðin ON 169 var seld og veðréttindum í henni, sem stóðu til tryggingar á greiðslu skuldarinnar, var aflýst 8. júlí 2004, gegn því að söluandvirðið 200.000 krónur yrði greitt inn á kröfuna, enda hafi ráðstöfun þessi ekki verið gerð með samþykki hans. Það er forsenda þess að framangreint geti hafa haft réttaráhrif að því er varðar skuldbindingu sóknaraðila sem ábyrgðarmanns, eins og hann heldur fram, að sýnt sé fram á að verðmæti bifreiðarinnar hafi verið hærra en að áður greinir. Í stefnunni er ekki gefið til kynna að sóknaraðili hyggist leggja fram gögn, leiða vitni eða beiðast dómkvaðningar matsmanna til að varpa ljósi á hvert hafi verið verðmæti bifreiðarinnar árið 2004. Er þar einungis fullyrt að verðmæti hennar hafi verið meira en 200.000 krónur og raunar meira en numið hafi kröfu varnaraðila á þessum tíma. Þá er þar vísað til þess að sönnunarbyrði „í málinu hvíli öll á herðum“ varnaraðila. Eins og málið lá fyrir héraðsdómi var grundvöllur kröfu sóknaraðila því svo vanreifaður að rétt var að vísa því frá dómi. Ekki eru efni til að hagga mati héraðsdómara að þessu leyti þó að sóknaraðili hafi lagt gögn fyrir Hæstarétt, sem er ætlað að varpa ljósi á verðmæti bifreiðarinnar þegar veðinu var aflétt. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 3. apríl 2007.
I
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar um frávísunarkröfu stefnda mánudaginn 26. marz sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Heimi Guðjónssyni, kt. 221151-6159, Ferjubakka 12, Reykjavík, með stefnu birtri 30. nóvember 2006, á hendur Glitni banka hf., kt. 550500-3530, Kirkjusandi 2, Reykjavík.
Dómkröfur stefnanda eru þær, að stefnda verði gert að greiða stefnanda skuld að fjárhæð kr. 537.688 auk dráttarvaxta frá 31.10. 2006 til greiðsludags og málskostnað að skaðlausu, að viðbættum virðisaukaskatti á þóknun lögmanns, að mati dómsins.
Dómkröfur stefnda eru þær aðallega, að kröfum stefnanda verði vísað frá dómi, en til vara, að stefndi verði sýknaður af kröfum stefnanda. Í báðum tilvikum er þess krafizt, að dæmdur verði málskostnaður að mati dómsins
II
Málavextir
Málsatvik eru þau, að hinn 7. febrúar 2001 seldi stefnandi Valgerði Kristjánsdóttur, kt. 010953-2359, bifreið sína, Ford Econoline húsbíl nr. ON-169. Kaupandi greiddi kr. 200.000 í peningum, en hluti kaupverðs var greiddur með því að kaupandi gaf út veðskuldarbréf, að fjárhæð kr. 650.000, dags. 7. febrúar 2001. Bréfið var óverðtryggt og skyldi greiðast með sjö afborgunum á þriggja mánaða fresti, í fyrsta sinn þann 03.05. 2001. Bréfið var tryggt með 1. veðrétti í hinni seldu bifreið. Sjálfskuldarábyrgðarmenn á bréfinu voru Ingibjörg Hulda Tove Markhus, og Halldór Örn Kristjánsson. Hinn 16. febrúar 2006 seldi stefnandi bréfið stefnda, þá Íslandsbanka hf., útibúi bankans í Hafnarfirði. Við framsalið gekkst stefnandi í sjálfskuldarábyrgð á greiðslu bréfsins, ásamt öllum þeim kostnaði, sem leiða kynni af vanskilum þess.
Að beiðni útgefanda bréfsins var skilmálum þess breytt hinn 28. maí 2001 með samþykki stefnanda, en þá námu eftirstöðvar skuldarinnar kr. 636.739, þar af vanskil kr. 72.995,40. Breytingarnar fólu í sér, að eftirstöðvarnar skyldu greiðast með 24 afborgunum á 1 mánaða fresti, í fyrsta skipti hinn 03.07. 2003. Vaxtagjalddagar skyldu vera 12, hinn fyrsti 3. júlí 2001. Vextir skyldu reiknast frá 28.05. 2001. Að öðru leyti héldust ákvæði bréfsins óbreytt.
Stefndi kveður útgefanda bréfsins hafa fengið sendan innheimtuseðil vegna hverrar afborgunar frá stefnda, og á sjöunda degi vanskila hvers gjalddaga hafi útgefandi og ábyrgðarmennirnir þrír fengið vanskilatilkynningu frá stefnda. Síðasta tilkynning, lokaviðvörun, hafi verið send útgefanda og ábyrgðarmönnum þann 25.03. 2003, en eftir það hafi skuldabréfið farið í lögfræðilega innheimtu hjá Lögmönnum Hafnarfirði. Þann 04.07. 2003 hafi verið send út greiðsluáskorun á stefnanda og birt fyrir eiginkonu hans þann 08.07. 2003. Samtals hafi vanskil þá numið kr. 592.157. Þann 26.09. 2003, hafi verið greiddar kr. 50.000 inn á kröfuna, og sama fjárhæð þann 21.11. 2003. Á tímabilinu frá 03.02. 2004 til 23.04. 2004, hafi verið greiddar samtals kr. 100.000 til viðbótar. Að beiðni útgefanda bréfsins, eiganda bifreiðarinnar ON-169, hafi stefndi heimilað, að bifreiðin yrði seld frjálsri sölu með því skilyrði, að allt söluandvirðið, kr. 200.000 greiddist upp í kröfuna. Það hafi gengið eftir, sbr. innborgun kr. 200.000, dags. 10.06. 2004, og hafi stefndi samþykkt, að veðinu yrði aflýst, sbr. aflýsingarstimpill sýslumannsins í Vestmannaeyjum, dags. 8. júlí 2004.
Stefndi kveður kr. 50.000 hafa greiðzt inn á kröfuna þann 09.08. 2004 og sama fjárhæð þann 08.11. 2004. Á tímabilinu frá 20.05. 2003 til 08.11. 2004 hafi því greiðzt samtals kr. 500.000 inn á kröfuna. Þann 22.04. 2005, hafi verið sent út áminningarbréf á útgefanda sem og ábyrgðarmenn bréfsins. Í kjölfar áminningar hafi útgefandi bréfsins, sem og stefnandi, haft samband við Lögmenn Hafnarfirði. Þann 25.01. 2006 hafi verið send út greiðsluáskorun á stefnanda, og í beinu framhaldi hafi verið gert fjárnám hjá stefnanda þann 14.06. 2006 í eignarhluta stefnanda í fasteigninni Ferjubakka 12, fastanr. 204-7657, í Reykjavík, og í bifreiðunum YE-296 og UG-369. Þann 13.07.2006 hafi svo verið send út beiðni um nauðungarsölu, en til hennar hafi ekki komið, þar sem stefnandi hafi greitt kröfuna þann 31.10. 2006.
Stefnandi kveður ákvörðun um að heimila að selja bifreiðina frjálsri sölu hafa verið tekna á eindæmi stefnda, og hafi hún hvorki verið borin undir stefnanda né aðra sjálfskuldarábyrgðarmenn. Hann kveðst ekki hafa fengið tilkynningar frá stefnda um vanskil á bréfinu. Hins vegar hafi honum borizt greiðsluáskorun frá lögmönnum stefnda hinn 8.7. 2003 um greiðslu á kr. 592.157 vegna vanskila á bréfinu. Áskorun þessari hafi ekki verið fylgt eftir fyrr en með fjárnámi í eigum stefnanda hinn 14. júní 2006 fyrir kr. 625.844, samkvæmt aðfararbeiðni frá Lögmönnum í Hafnarfirði, en beiðnin hafi borizt sýslumanninum í Hafnarfirði þá skömmu áður, en hún hafi þó verið dagsett 19.8. 2003. Að stefnanda fjarstöddum hafi verið gert fjárnám í íbúð hans að Ferjubakka 12 og bifreiðunum YE-296 og UG-369. Í ágúst 2006 hafi stefnanda borizt tilkynning sýslumannsins í Reykjavík um fyrirhugaða nauðungarsölu á 50% eignarhluta stefnanda í íbúðinni að Ferjubakka 12. Í framhaldi af því hafi stefnandi leitað lögmannsaðstoðar, m.a. til að leita eftir fullnustu í því veði, sem hann hafi talið vera fyrir hendi samkvæmt skuldabréfinu. Hafi þá komið í ljós, að aðför hefði verið reynd hjá aðalskuldara og öðrum ábyrgðarmönnum á skuldabréfinu, án árangurs. Enn fremur hafi sýslumaðurinn í Vestmannaeyjum, sem á sínum tíma hafði þinglýst veðskuldabréfinu, upplýst, að bréfinu hefði verið aflýst hinn 8. júlí 2004 og bifreiðin þar með leyst úr veðböndum að beiðni Lögmanna Hafnarfirði, dags. 24. júní 2004.
Stefnandi kveðst hafa mótmælt skuldarinnheimtu og óskað eftir, að fyrrnefndum fjárnámsgerðum í eigum sínum yrði aflétt, en því hafi verið synjað. Þá hafi staðið fyrir dyrum skilmálabreyting á áhvílandi láni á íbúð hans, og jafnframt hafi stefnandi haft vonir um að geta selt a.m.k. aðra þá bifreið, sem gert hafi verið fjárnám í. Hvorugt hafi verið unnt að framkvæma vegna fjárnámsins. Til að forðast frekara tjón hafi stefnandi gripið til þess ráðs að fá lán hjá föður sínum og greiða kröfur stefnda með fyrirvörum um óréttmæti krafna og áskilnaði um rétt til endurkröfu.
III
Málsástæður stefnanda
Stefnandi byggir kröfur sínar á því, að með aflýsingu á veðinu, án samráðs við sig og án þess að fyrir lægi samþykki hans, hafi stefndi tekið alla ábyrgð á, að frekari greiðslur fengjust inn á kröfur stefnda, og hafi stefnandi sjálfur þar með verið leystur undan ábyrgð sinni. Hann hafi misst þá réttarvernd, sem hann hafi haft með þinglýsingu veðréttarins, og rétt til að leysa til sín veðskuldarbréfið. Með samningi stefnda við aðalskuldara hafi jafnvel stofnazt nýr samningur með þeim, sem stefnandi beri ekki ábyrgð á. Stefnandi kveður bifreiðina ON-169 hafa verið meira virði en hafi numið kr. 200.000 á þeim tíma, sem hún hafi verið leyst úr veðböndum og raunar meira virði en numið hafi kröfufjárhæð stefnda á þeim tíma. Hann staðhæfi, að sjálfur hefði hann getað fengið hærra verð fyrir bifreiðina, og hefði hún raunar nýtzt honum betur sjálfum sem eign, ef honum hefði verið gefinn kostur á að leysa hana til sín. Sönnunarbyrði í málinu hvíli öll á herðum stefnda. Stefnandi verði því fyrir ósanngjörnu og óréttmætu tjóni, fái hann ekki endurgreitt það fé, sem hann hafi neyðzt til að greiða stefnda.
Krafan sé einnig niður fallin vegna fyrningar og/eða tómlætis.
Þá telji stefnandi, að kostnaður stefnda vegna innheimtunnar sé óhóflegur og óskýr, en þrátt fyrir eftirleitan hafi ekki tekizt að fá nákvæma sundurgreiningu og skýringu á ýmsum kostnaðarliðum, sem honum hafi verið gert að greiða.
Stöðumunur sé greinilegur á aðilum, en stefndi hafi yfir að ráða reynslu og sérþekkingu á sviði skuldabréfaviðskipta. Vísað sé til margdæmdrar reglu um að gera verði sérstakar og ríkar kröfur til stofnana á borð við stefnda, að þær sýni vandvirkni og aðgæzlu í viðskiptum með verðbréf ásamt sanngirni gagnvart viðskiptamönnum sínum og neytendum. Stefnandi telji, að stefndi hafi ekki komið fram á þann hátt, sem ætlazt verði til af bankastofnun. Hún hafi sýnt honum ósanngirni og breytt andstætt góðri viðskiptavenju.
Vaxta sé krafizt frá tjóndegi, eða þeim degi, er stefndi nýtti sér fjármunina. Stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur. Varnarþing sé heimilisvarnarþing stefnda.
Stefnandi vísar til almennra reglna skaðabótaréttar, svo sem culpa-reglu, samningalaga nr. 7/1936, einkum 36. gr., laga um samningsveð nr. 75/1997, m.a. 9. gr., 14. gr., 19.-20. gr. og 23. gr., sem og til almennra reglna kröfuréttar. Enn fremur sé skírskotað til laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, svo sem 19. gr. þeirra laga, laga um neytendalán og samkomulags um notkun ábyrgða með fjármálafyrirtækjum, neytendasamtaka og viðskiptaráðuneytis frá 1. nóvember 2001. Þá sé vísað til fyrningarlaga nr. 14/1905, svo sem 4. tl. 3. gr., og aðfararlaga nr. 90/1989, m.a. 9. gr. og 52. gr. Dráttarvaxtakrafa eigi stoð m.a. í III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 með síðari breytingum. Krafa um málskostnað sé reist á 130. gr. laga nr. 91/1991. Krafa um virðisaukaskatt sé reist á l. nr. 50/1988.
Málsástæður stefnda
Aðalkrafa stefnda er sú, að málinu verði vísað frá dómi og er sá þáttur málsins einungis hér til úrlausnar.
Frávísunarkröfu sína byggir stefndi á því, að kröfur stefnanda séu verulega vanreifaðar í stefnu. Þannig sé óljóst, hvort krafa stefnanda sé skaðabótakrafa, eða hvers eðlis hún sé annars. Þannig sé til dæmis talað um endurgreiðslu skuldar í dómkröfum, en svo vísað til culpareglu í lagarökum. Stefnandi reyni ekki að útskýra, hvert tjón hans sé, eða nákvæmlega hvernig það sé til komið. Þannig sé ekkert um það að finna í gögnum málsins, hvað stefnandi telji, að hafi verið eðlilegt verð fyrir téðan bíl, og á hverju það byggi. Almennt séu kröfur stefnanda og málsástæður verulega óljósar að þessu leyti.
Þá telji stefndi, að krafa stefnanda um dráttarvexti sé andstæð reglum um skýran málatilbúnað, enda komi ekki fram í dómkröfum, hvert viðmið dráttarvaxta sé, sem sé andstætt áskilnaði í 11. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001.
IV
Forsendur og niðurstaða
Eins og málatilbúnaði stefnanda er háttað þykir ekki fyllilega ljóst, hvort krafa hans sé skaðabótakrafa eða skuldakrafa, en í munnlegum málflutningi um frávísunarkröfu kom fram, að krafan sé um skaðabætur úr hendi stefnda. Af málavaxtalýsingu og málsástæðum stefnanda verður ekkert um það ráðið, á hverju hann reisir meint tjón sitt eða hvert meint tjón hans sé. Hann slær fram fullyrðingu um, að bifreiðin ON-169 hafi verið meira virði en kr. 200.000 á þeim tíma, sem hún var leyst úr veðböndum, án þess að gera tilraun til þess að styðja þessa staðhæfingu gögnum eða staðreyna, að raunvirði hennar hafi verið annað og hærra. Eru kröfur hans vanreifaðar í svo verulegum atriðum, að ekki verður lagður á það efnisdómur og ekki verður úr því bætt undir rekstri málsins. Verður því ekki hjá því komizt að vísa málinu frá dómi.
Eftir þessum úrslitum ber að dæma stefnanda til að greiða stefnda málskostnað, sem þykir eftir atvikum hæfilega ákveðinn kr. 100.000.
Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Málinu er vísað frá dómi.
Stefnandi, Heimir Guðjónsson, greiði stefnda, Glitni banka hf., kr. 100.000 í málskostnað.