Hæstiréttur íslands

Mál nr. 199/2009


Lykilorð

  • Skaðabætur
  • Líkamstjón
  • Örorka


Fimmtudaginn 17

 

Fimmtudaginn 17. desember 2009.

Nr. 199/2009.

Kristján Eggert Guðjónsson

(Benedikt Ólafsson hrl.)

gegn

HB Granda hf.

(Hákon Árnason hrl.)

 

Skaðabætur. Líkamstjón. Örorka.

K lenti í vinnuslysi hjá forvera H í desember 2001. Ekki var deilt um bótaábyrgð H á slysinu en ágreiningur reis um tekjuviðmið til útreiknings á fjárhæð bóta fyrir varanlega örorku af völdum slyssins. Taldi K að óeðlilegt væri að byggja á meginreglunni í 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 um að miða skyldi við þrjú síðustu almanaksárin fyrir slysið, eða tekjuárin 1998, 1999 og 2000. Tekjur hans á árunum 1998 og 1999 gæfu ekki rétta mynd af framtíðartekjum þar sem hann hefði þá verið á reynslutíma hjá H. Byggðist kröfugerð K á því að meta bæri árslaun hans sérstaklega með vísan til 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga og miða við þær tekjur sem hann hefði haft á árunum 2000 og 2001 og hefði mátt vænta áfram. Samkvæmt 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga skulu árslaun tjónþola metin sérstaklega þegar óvenjulegar aðstæður eru fyrir hendi og ætla má að annar mælikvarði sé réttari á líklegar framtíðartekjur hans en sá sem fæst með því að beita aðalreglu 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga. K vísaði til þess að frá upphafi hefði legið fyrir að hann myndi fyrst í stað, þegar hann væri að ná færni í starfi, þiggja laun sem byrjandi en að þeim tíma loknum hækka í launum. Ekkert var þó talið liggja fyrir um hvort um slíkt hefði verið samið. Var því ekki fallist á að K hefði sýnt fram á að um óvenjulegar aðstæður hefði verið að ræða við tekjuöflun hans viðmiðunarárin 1998 til 2000, þannig að annar mælikvarði teldist réttari. Var H sýknaður af kröfu K.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.

 Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 24. apríl 2009 og krefst að stefnda verði gert að greiða sér 3.982.586 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 16. september 2004 til greiðsludags, allt að frádreginni innborgun réttargæslustefnda 30. október 2008 að fjárhæð 1.189.123 krónur. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð og málskostnaður felldur niður.

Áfrýjandi hefur stefnt Vátryggingafélagi Íslands hf. til réttargæslu fyrir Hæstarétti.

Með vísan til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur.

Rétt er að hvor aðila beri sinn málskostnað fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur  25. mars 2009.

Mál þetta, sem dómtekið var 25. febrúar sl., höfðaði Kristján Eggert Guðjónsson, Hafnarbyggð 11, Vopnafirði, á hendur Tanga hf., Hafnarbyggð 7, Vopnafirði, og Vátryggingafélagi Íslands hf. til réttargæslu, með stefnu birtri 16. október 2008. Endanlegar dómkröfur stefnandi eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda skuld að fjárhæð 3.982.586 krónur ásamt dráttarvöxtum skv. III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 16. september 2004 til greiðsludags, allt að frádregnum 1.189.123 krónum, sem stefndi greiddi inn á kröfuna 31. október 2008.  Þá krefst stefnandi málskostnaðar að mati dómsins. Engar kröfur eru gerðar á hendur réttargæslustefnda.

Stefndi krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og tildæmdur málskostnaður úr hans hendi að mati dómsins, en til vara að kröfur stefnanda verði lækkaðar og að málskostnaður verði felldur niður.

Við aðalmeðferð málsins lýstu lögmenn aðila því yfir að Tangi hf. og Grandi hf. hefðu sameinast og héti hið stefnda félag í dag HB Grandi hf.

Málavextir

Hinn 6. desember 2001 lenti stefnandi í vinnuslysi hjá stefnda Tanga hf. á Vopnafirði. Stefnandi var 27 ára á slysdegi og vann þá við flokkara í síldarfrystingu stefnda. Var hann ófaglærður og starfaði sem verkamaður. Hafði hann aðallega unnið við fiskvinnslu og önnur verkamannastörf á lífsleiðinni og frá árinu 1998 hafði hann unnið hjá stefnda og vann þar áfram eftir slysið.

Stefndi var með ábyrgðartryggingu hjá réttargæslustefnda Vátryggingafélagi Íslands hf. (VÍS). Var ekki deilt um bótaábyrgð stefnda á slysinu og ákvað VÍS f.h. stefnda að bæta tjón stefnanda samkvæmt fyrirliggjandi örorkumati Björns Daníelsson lögfræðings og Yngva Ólafssonar læknis, dags. 17. mars 2004, en þar var varanleg örorka hans metin 25%, varanlegur miski 25% og stöðugleikapunktur ákveðinn 15. febrúar 2002. Tók stefnandi við bótunum með fyrirvara en ágreiningur reis um tekjuviðmið til útreiknings á fjárhæð bóta fyrir varanlega örorku af völdum slyssins. Við uppgjörið voru einnig ofáætlaðar um 884.915 krónur þær félagslegu bætur sem stefnandi fékk frá Tryggingastofnun ríkisins, og koma skyldu til frádráttar skaðabótum skv. 5. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Greiddi VÍS stefnda sem nam hinni ofáætluðu fjárhæð, að viðbættum vöxtum, hinn 30. október 2008.

Ágreiningur aðila um tekjuviðmið felst í því að stefnandi telur að miða beri framtíðartekjutap hans við þær tekjur sem hann hafði á árinu sem slysið varð og árinu þar á undan, þ.e. á árunum 2000 og 2001. Beri því að meta árslaun hans sérstaklega með vísan til 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga. Stefndi telur hins vegar að miða skuli við þrjú síðustu almanaksárin fyrir slysið, eða tekjuárin 1998, 1999 og 2000., sbr. 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga.

Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi kveðst hafa ráðist til starfa hjá stefnda á árinu 1998. Það ár og stóran hluta ársins 1999 hafi hann unnið störf sem byrjandi og fengið laun greidd samkvæmt því. Á árinu 2000 hafi hann öðlast þá starfsreynslu að tekjur hans hafi hækkað til muna og hafi tekjurnar fyrir árin 2000 og 2001 verið miklu hærri en árin á undan. Hafi árstekjur hans hjá stefnda, frá því hann hóf þar störf á árinu 1998 og fram að slysdegi, verið eftirfarandi, framreiknað með launavísitölu til stöðugleikapunkts:

Árið 1998,  1.031.994  x  224,8/170,4 = 1.361.457

Árið 1999,  1.528.034  x  224,8/182,0 = 1.887.374

Árið 2000,  2.668.553  x  224,8/196,4 = 3.054.432

Árið 2001,  2.661.378  x  224,8/212,4 = 2.816.645

Stefnandi byggir á því að miða beri framtíðartekjutap hans við þær tekjur sem hann hafði á slysdegi 6. desember 2001, en þær tekjur hafi verið nánast óbreyttar undangengin tvö ár, þ.e. árin 2000 og 2001. Hafi ekkert bent til annars en að hann myndi njóta sambærilegra tekna áfram hefði slysið ekki orðið. Hins vegar gefi tekjuviðmið áranna 1998 og 1999 alls ekki rétta mynd af þeim tekjum sem hann hafi mátt vænta í framtíðinni. Tekjur hans árin 2000 og 2001 hafi verið miklu hærri en árin á undan en hann hafi þá verið á reynslutíma hjá félaginu. Fyrir liggi yfirlýsing frá vinnuveitanda um að hann hefði haldið starfi sínu og tekjum áfram hefði hann ekki lent í slysinu. Telji stefnandi því að óvenjulegar aðstæður hafi verið fyrir hendi árin 1998 og 1999 og því eigi 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga við í þessu tilviki. Beri því að meta tekjutap hans til framtíðar miðað við þær tekjur sem hann hafi haft árin 2000 og 2001 og mátti vænta fyrirfram.

Samkvæmt ofangreindu miðist stefnukrafan því við meðaltal tekjuáranna 2000 og 2001, framreiknað miðað við breytingar á launavísitölu til stöðugleikapunkts, en að frádregnum greiðslum skv. 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga. Sundurliðist krafan því þannig:

 

Bætur fyrir varanlega örorku (2.935.539 x 1,06 x 13,705 x 25%)

10.661.364

Greiddar bætur frá almannatryggingum

(1.115.085)

Greitt úr slysatryggingu launþega

(881.047)

Greitt af VÍS 16.09.2004

(4.682.636)

 

3.982.586

 

Þá komi og til frádráttar framangreind greiðsla frá VÍS að fjárhæð 884.915 krónur sem innt hafi verið af hendi 30. október 2008.

Um lagarök kveðst stefnandi vísa til ákvæða skaðabótalaga nr. 50/1993, en stefnukröfur séu grundvallaðar á 2. mgr. 7. gr. Krafa um dráttarvexti sé reist á 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 og krafa um málskostnað á 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Málsástæður og lagarök stefnda

Stefndi kveður sýknukröfu sína á því byggða að með þegar uppgerðum bótum úr hendi réttargæslustefnda VÍS hafi stefnandi fengið það tjón sitt bætt að fullu sem hann eigi lögvarinn rétt til úr hendi stefnda. Því til stuðnings bendi hann á eftirfarandi:

Það sé meginregla, sbr. 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga, sbr. 6. gr. laga nr. 37/1999, að árslaun til ákvörðunar bóta fyrir varanlega örorku skuli vera meðalvinnutekjur tjónþola þrjú síðustu almanaksár fyrir slysdag. Hafi stefndi einmitt miðað við það við útreikning og uppgjör á bótunum til stefnanda fyrir varanlega örorku. Hafi þá verið litið til þess að stefnandi hafi verið 27 ára að aldri á slysdegi og hafi síðastliðin þrjú ár unnið hjá sama vinnuveitanda, en engar breytingar væntanlega á atvinnuhögum hans.

Hins vegar skorti skilyrði 2. mgr. 7. gr. sömu laga fyrir því að víkja megi frá meginreglunni í 1. mgr. 7. gr. og ákveða bætur sérstaklega, en skilyrði 2. mgr. séu þau tvö að óvenjulegar aðstæður séu fyrir hendi og að ætla megi að annar mælikvarði sé réttari á líklegar framtíðartekjur tjónþola. Sé ósannað að svo standi á í tilviki stefnanda, en um það hafi hann sönnunarbyrði. Liggi ekkert fyrir um það að aðstæður stefnanda hafi verið óvenjulegar í skilningi 2. mgr. 7. gr. þrjú síðustu almanaksár fyrir slysið. Hafi ekkert verið óvenjulegt við starfsferil eða tekjusögu stefnanda á því tímabili né aðrar kringumstæður. Sé ekkert óvenjulegt við það þó starfsmaður sé á reynslutíma í upphafi starfs hjá fyrirtæki eins og í tilviki stefnanda né heldur við það að tekjur hjá fiskvinnslufyrirtæki eins og stefnda séu misháar milli ára, ekki síst þegar stór hluti launanna ráðist af vaktavinnu og yfirvinnu eins og í tilviki stefnanda. Ráðist það fyrst og fremst af aflabrögðum og því hversu viljugir menn séu til að taka vaktir og vinna yfirvinnu hversu háar tekjur starfsmanna verði hjá fiskvinnslufyrirtæki frá einu ári til annars og sé ekkert óvenjulegt við það. Hins vegar sé rangt hjá stefnanda og ósannað að hann hafi verið á reynslutíma allt árið 1999. Liggi ekkert annað fyrir en að hann hafi það ár haft sömu laun og aðrir í sömu vinnu.

Samkvæmt öllu framangreindu verði ekki séð að önnur tekjuviðmiðun sé réttari í tilviki stefnanda en tekjuviðmiðunin skv. meginreglunni í 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga. Hafi stefnandi ekki sannað að sú tekjuviðmiðun sem hann byggi kröfur sínar á sé réttari mælikvarði á líklegar framtíðartekjur hans né að aðstæður hans á slysdegi hafi verið óvenjulegar. Beri því að hafna öllum kröfum stefnanda og sýkna stefnda.

Stefndi segir varakröfu sína byggða á því að verði talið að meta beri árslaun sérstaklega þá séu meðaltekjur verkafólks þrjú síðustu árin fyrir slysið réttari mælikvarði á líklegar framtíðarvinnutekjur stefnanda en sá mælikvarði sem stefnandi miði við. Stefnandi sé ófaglærður og hafi fyrir slysið unnið ýmis verkamannastörf og engin breyting hafi verið fyrirsjáanleg á því.

Þá sé kröfu um dráttarvexti mótmælt frá fyrri tíma en dómsuppsögudegi en til vara frá fyrri tíma en þingfestingardegi. Hafi stefnandi ekki sett fram sundurliðaða kröfu vegna hinnar umstefndu bótafjárhæðar fyrr en með stefnu í málinu, en þá hafi verið liðin fjögur ár frá bótauppgjöri. Eigi stefnandi í öllu falli ekki rétt á dráttarvöxtum fyrir það tímabil.

Niðurstaða

Eins og fyrr hefur verið rakið snýst ágreiningur málsaðila eingöngu um það að stefnandi telur að við uppgjör réttargæslustefnda á bótum til hans vegna varanlegrar örorku sé óeðlilegt að byggja á meginreglunni í 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga um að miða skuli við þrjú síðustu almanaksárin fyrir slysið, eða tekjuárin 1998, 1999 og 2000. Tekjur hans á árunum 1998 og 1999 gefi ekki rétta mynd af framtíðartekjum hans þar sem hann hafi þá verið á reynslutíma hjá hinu stefnda félagi. Byggist kröfugerð stefnanda á því að meta beri árslaun hans sérstaklega með vísan til 2. mgr. tilvitnaðrar 7. gr. og miða við þær tekjur sem hann hafi haft á árunum 2000 og 2001 og mátt vænta áfram.

Samkvæmt 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga skulu árslaun tjónþola metin sérstaklega þegar óvenjulegar aðstæður eru fyrir hendi og ætla má að annar mælikvarði sé réttari á líklegar framtíðartekjur hans en sá sem fæst með því að beita aðalreglu 1. mgr. 7. gr. um meðalatvinnutekjur tjónþola sjálfs síðustu þrjú almanaksárin fyrir þann dag er tjón varð.

Til þess að unnt sé að fallast á kröfu stefnanda um að beitt verði ákvæði 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga og miða við þær tekjur sem hann hafði á árunum 2000 og 2001 til ákvörðunar bóta verður hann að leiða líkur að því að aðstæður hans hafi á einhvern hátt verið óvenjulegar á viðmiðunartímabilinu að því er tekjuöflun varðar, þannig að annar mælikvarði teljist réttari hvað það varðar. Hefur stefnandi vísað til þess að frá upphafi hafi verið út frá því gengið og legið fyrir að hann myndi fyrst í stað, meðan hann væri að ná færni í starfi, þiggja laun sem byrjandi en að þeim tíma loknum hækka í launum. Ekkert liggur þó fyrir um hvort um eitthvað slíkt hefði verið samið eða hvaða væntingar stefnandi mátti hafa hvað þetta varðar.

Einar Víglundsson, sem starfaði sem framleiðslustjóri hjá stefnda frá árinu 1997 til ársins 2008, gaf símaskýrslu við aðalmeðferð málsins. Kom meðal annars fram hjá honum að breyting hefði orðið á framleiðsluháttum stefnda í kring um áramótin 1999 til 2000 sem hefði leitt til þess að stefnandi og fleiri í hans sporum hefðu „komist framar í goggunarröð“ innan fyrirtækisins en annars hefði orðið. Þegar slíkt gerist fái viðkomandi yfirleitt einhverjar hækkanir á taxta auk þess sem þeir eigi meiri möguleika á að fá vakta- og yfirvinnu og yfirborganir á laun. Þá kom fram hjá stefnanda fyrir dómi að mikið hefði verið að gera hjá honum á árinu 2000 vegna mikilla landana hjá stefnda.

Eins og að framan hefur verið rakið námu tekjur stefnanda 1.031.994 krónum árið 1998, 1.528.034 krónum árið 1999 og 2.668.553 krónum árið 2000. Stefnandi slasaðist í desember árið 2001 og námu tekjur hans á því ári 2.661.378 krónum. Þá liggur fyrir að laun hans námu 2.154.777 krónum á árinu 2003, 3.161.496 krónum árið 2004, 3.124.448 krónum á árinu 2005, 3.421.592 krónum árið 2006, 4.119.876 krónum árið 2007 og 4.720.752 krónum á árinu 2008. Loks má ráða af upplýsingum úr fyrirliggjandi matsgerð vegna örorku stefnanda að tekjur hans á árinu 1997, árið áður en hann hóf störf hjá stefnda, hafi verið mjög svipaðar og tekjur hans á árinu 1998 og tekjur hans árið 2002, árið eftir slysið, hafi verið nokkru lægri en árið 2001 en svipaðar og árið 2003. Árið 2002 var vinnuframlag hans þó eitthvað skert vegna afleiðinga slyssins.

Að virtu því sem hér hefur verið rakið verður ekki fallist á að stefnandi hafi sýnt fram á að um óvenjulegar aðstæður hafi verið að ræða við tekjuöflun hans viðmiðunarárin 1998 til 2000 eins og skýra verður þessi orð í 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga. Verður því að sýkna stefnda af dómkröfum stefnanda.

Með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála þykir rétt að hvor aðila beri sinn kostnað af málinu.

Ásgeir Magnússon héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

Dómsorð:

Stefndi, HB Grandi hf., er sýkn af kröfum stefnanda, Kristjáns Eggerts Guðjónssonar.

Málskostnaður fellur niður.