Hæstiréttur íslands
Mál nr. 166/1999
Lykilorð
- Skaðabótamál
- Líkamstjón
- Viðurkenningarkrafa
- Sératkvæði
|
|
Fimmtudaginn 7. október 1999. |
|
Nr. 166/1999. |
Ólafur Eyjólfsson og Heilsugæslustöðin Sólvangi (Valgarður Sigurðsson hrl.) gegn Guðmundi B. Kristjánssyni (Haraldur Blöndal hrl.) |
Skaðabótamál. Líkamstjón. Viðurkenningarkrafa. Sératkvæði.
Sjúkraflutningamaðurinn G féll aftur fyrir sig í stigagangi við flutning sjúklings á sjúkrabörum, þegar læknirinn Ó smeygði sér fram hjá honum og öðrum sjúkraflutningamanni, sem hélt á börunum. Talið var að aðstæður við flutning sjúklingsins hefðu verið erfiðar og erindið af brýnasta tagi. Þóttu ekki hafa verið lögð fram gögn, sem veiktu það mat héraðsdómara, að Ó hefði ekki gætt nægilegrar varúðar, er hann fór niður stigann meðfram sjúkrabörunum í því skyni að opna útidyr hússins. Ekki var talið að krafa G væri niður fallin fyrir tómlæti, en um fjögur ár voru liðin þegar ábyrgð var lýst á hendur Ó og G. Var dómur héraðsdóms, þar sem viðurkennd var sameiginleg bótaskylda Ó og S vegna líkamstjóns G, staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Hjörtur Torfason og Hrafn Bragason.
Áfrýjendur hafa skotið málinu til Hæstaréttar með stefnu 21. apríl 1999. Þeir krefjast sýknu af kröfum stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst aðallega staðfestingar á hinum áfrýjaða dómi um efni málsins, en til vara þess, að ábyrgð á tjóni sínu verði skipt og meiri hluti sakar lagður óskipt á áfrýjendur. Jafnframt krefst hann staðfestingar á málskostnaðarákvæði héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Málavöxtum er lýst í héraðsdómi. Óumdeilt verður að telja, að stefndi hafi orðið fyrir meiðslum, er leiddu til starfsorkuskerðingar, þegar hann féll eða hrasaði aftur fyrir sig við flutning sjúklings á sjúkrabörum niður stiga af efri hæð að Suðurgötu 64 í Hafnarfirði að kvöldi 14. ágúst 1990. Hafi meiðslin valdið forföllum frá vinnu næstu daga og hann þurft að leita til læknis, þannig að yfirboðurum hans á slökkvistöð Hafnarfjarðar hafi verið kunnugt um. Einnig hafi hann skýrt áfrýjandanum Ólafi Eyjólfssyni lækni frá því, að hann hefði meiðst.
Aðstæður við flutning sjúklingsins út úr húsinu voru erfiðar, og erindið jafnframt af brýnasta tagi. Við meðferð málsins í héraði fór dómari á vettvang og skoðaði slysstaðinn ásamt málsaðilum og lögmönnum þeirra. Er það mat hans, að aðstæðurnar gefi til kynna, að læknirinn hafi ekki gætt nægilegrar varúðar, er hann fór niður stigann meðfram sjúkrabörunum í því skyni að opna útidyr hússins. Þetta gerði hann án aðvörunar til sjúkraflutningamannanna. Áfrýjendur hafa ekki lagt fram gögn, er veiki þetta mat dómarans, eða annars leitt að því líkur, að efni séu til að draga niðurstöðu þess í efa. Eðlilegt sýnist að miða við, að stefndi hafi hlotið meiðslin í þessum svifum, enda er það stutt vitnisburði hins sjúkraflutningamannsins.
Að þessu athuguðu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur, með skírskotun til forsendna hans að öðru leyti.
Áfrýjendur greiði stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti, svo sem um er mælt í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur á að vera óraskaður.
Áfrýjendur, Ólafur Eyjólfsson og Heilsugæslustöðin Sólvangi, greiði stefnda, Guðmundi B. Kristjánssyni, 120.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
|
Sératkvæði |
|
|
Guðrúnar Erlendsdóttur hæstaréttardómara í hæstaréttarmálinu nr. 166/1999: Ólafur Eyjólfsson og Heilsugæslustöðin Sólvangi gegn Guðmundi B. Kristjánssyni |
Eins og fram kemur í héraðsdómi voru aðstæður til sjúkraflutnings mjög erfiðar niður þröngan, brattan og snúinn stiga hússins að Suðurgötu 64 í Hafnarfirði. Brýnt var að koma sjúklingnum sem fyrst á sjúkrahús, og voru stefndi og áfrýjandinn Ólafur undir miklu álagi. Læknirinn fór ekki niður stigann að nauðsynjalausu heldur til að opna útidyr hússins og flýta fyrir flutningi sjúklingsins. Hann telur sig hafa farið eins varlega og aðstæður framast leyfðu. Engin skýrsla var gerð um atvikið á sínum tíma, og það var ekki fyrr en 1996, 6 árum síðar, að sjúkraflutningsmaðurinn, sem var að störfum með stefnda, skrifaði skýrslu um atvikið, og dómskýrslur voru ekki teknar fyrr en í janúar 1999. Ég tel með öllu ósannað, að áfrýjandinn Ólafur hafi sýnt af sér saknæmt gáleysi, er hann fór niður stigann, og tel að sýkna beri áfrýjendur af kröfu stefnda. Ég tel rétt að fella niður málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 22. janúar 1999.
Ár 1999, föstudaginn 22. janúar, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjaness, sem háð er í Dómhúsinu að Brekkugötu 2, Hafnarfirði, af Jónasi Jóhannssyni héraðsdómara kveðinn upp dómur í máli nr. E-358/1998: Guðmundur Breiðfjörð Kristjánsson gegn Ólafi Eyjólfssyni og Heilsugæslustöðinni Sólvangi, sem dómtekið var 8. sama mánaðar að loknum munnlegum málflutningi.
Málið höfðaði Guðmundur Breiðfjörð Kristjánsson, kt. 300665-5359, Dvergholti 25, Hafnarfirði, á hendur Ólafi Eyjólfssyni, kt. 010847-3469, Lyngbergi 53, Hafnarfirði og Heilsugæslustöðinni Sólvangi, kt. 671289-1299, Hörðuvöllum, Hafnarfirði, með stefnu birtri 17. apríl 1998.
Stefnandi krefst þess að viðurkennd verði með dómi óskipt bótaskylda stefndu á tjóni, sem stefnandi varð fyrir 14. ágúst 1990 er hann féll niður stiga í húsinu nr. 64 við Suðurgötu í Hafnarfirði. Þá krefst stefnandi greiðslu málskostnaðar að viðbættum virðisaukaskatti af málflutningsþóknun.
Stefndu krefjast sýknu af kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar að skaðlausu að mati dómsins.
I.
Aðfaranótt þriðjudagsins 14. ágúst 1990 var stefndi Ólafur vakthafandi læknir á bæjarvakt hjá stefnda Heilsugæslustöðinni Sólvangi, með aðstöðu á slökkvistöðinni í Hafnarfirði. Meðal vakthafandi slökkviliðsmanna sömu nótt voru stefnandi og Jóhannes Rúnar Jóhannsson. Að boði varðstjóra hafði þeim verið falið að sinna tilfallandi sjúkraflutningum um nóttina.
Um klukkan 01 fór stefndi Ólafur í vitjun til sjúklings, sem bjó að Suðurgötu 64 í Hafnarfirði. Þar var karlmaður á sjötugsaldri þungt haldinn. Stefndi taldi að um bráða kransæðastíflu væri að ræða og óskaði strax eftir sjúkrabifreið. Stefnandi og Jóhannes Rúnar fóru á staðinn og komu sjúklingnum fyrir á sjúkrabörum, en bera þurfti hann af efri hæð íbúðarhússins niður þröngan stiga. Á leið sinni niður þurftu sjúkraflutningsmennirnir að lyfta börunum upp fyrir tréhandrið til að koma þeim fyrir tvö 90° horn, efst og neðst í stiganum. Stefnandi gekk aftur á bak niður stigann, með handriðið á vinstri hönd og steinvegg á hægri hönd. Jóhannes Rúnar fylgdi á eftir, með handriðið sér á hægri hönd, en fyrir aftan hann gekk stefndi Ólafur. Áður en kom að seinni vinkilbeygjunni smeygði stefndi sér fyrirvaralaust með fram sjúkrabörunum veggmegin og kom um leið við börurnar, en fyrir honum vakti að opna útidyr við neðsta stigaþrepið og flýta fyrir að sjúklingurinn kæmist út.
Stefnandi kveður stefnda Ólaf hafa annað hvort tekið í eða rekið sig í börurnar með þeim afleiðingum að slinkur hafi komið á þær og jafnvægi burðarmanna hafi raskast. Hafi engu mátt muna að þeir misstu börurnar yfir handriðið og niður stigaopið. Við slinkinn hafi stefnandi fallið aftur fyrir sig og rekið mjóbakið í lítið handrið á útidyravegg, en Jóhannes Rúnar hafi marist á handarbaki. Þeir hafi engu að síður lokið flutningi á sjúkrahús, en á leiðinni hafi stefnandi liðið miklar kvalir, sem leitt hafi niður í nára og eistu.
Stefndi Ólafur kveður sjúkraflutningsmennina hafa gengið hratt niður stigann með sjúkrabörurnar á milli sín. Ekki hafi verið unnt að fara með börurnar niður í einni atrennu heldur hafi þurft að bakka upp að minnsta kosti einu sinni og skáskjóta börunum niður. Sjúkraflutningsmennirnir hafi því þurft að ýta á og toga í börurnar á víxl. Við þær aðstæður hafi jafnvægi stefnanda ekki verið gott og hafi honum einu sinni skrikað fótur og bak hans sveigst aftur og hafnað á handriði neðarlega í stiganum. Eftir það hafi stefndi smeygt sér með fram sjúkrabörunum í því skyni að opna útidyrnar. Í þrengslunum hafi hann óvart snert börurnar, án þess þó að slinkur kæmi á þær. Stefndi hafi síðan farið með sjúkrabifreiðinni á bráðamóttöku Landspítalans, en skömmu eftir komu þangað hafi sjúklingurinn verið úrskurðaður látinn.
Ágreiningslaust er, að stefnandi greindi stefnda Ólafi frá því eftir sjúkraflutninginn að hann hefði fengið slæman bakhnykk í stiganum og að tveimur dögum síðar var hann færður á sjúkrahús til rannsókna. Því er einnig ómótmælt, að við útskrift 23. ágúst 1990 hafi verið búið að staðreyna sprungu í spjaldhrygg stefnanda og áverka á hryggjarliðum, sem rekja má til slyssins 14. sama mánaðar. Stefnandi hefur æ síðan átt við bakmeiðsli að stríða og verið meira og minna undir læknishendi frá því í mars 1993. Hann gekkst undir tvær aðgerðir, annars vegar 1994 og hins vegar 1996, þar sem hryggur hans var spengdur saman.
Stefndi Ólafur kveðst hafa frétt að stefnandi ætti enn við bakmeiðsli að stríða árið 1993 og segir að sér hafi verið ljóst í ágúst 1994 að stefnandi hyggðist gera kröfur á hendur honum vegna slyssins. Framlögð bréf frá 20. ágúst 1994, 21. janúar 1996 og 6. mars 1996 bera með sér að stefndu hafi verið ljóst að málsókn væri í undirbúningi.
Samkvæmt örorkumati dagsettu 9. júní 1998 er stefnandi metinn 100% öryrki í samtals 946 daga frá slysinu, en síðan 25% varanlegur öryrki. Telur stefnandi tjón sitt nema tæplega 12 milljónum króna. Verður ekki fjallað nánar um bætur í þessu máli, enda samkomulag milli málsaðila að ágreiningur um fjárhæð tjóns verði látinn bíða og aðeins verði leyst úr um ætlaða bótaskyldu stefndu.
II.
Í þágu málsmeðferðar fóru héraðsdómari, aðilar og lögmenn þeirra í vettvangsgöngu að Suðurgötu 64 í Hafnarfirði og skoðuðu aðstæður á slysstað. Samkvæmt mælingu reyndist breidd stigans, mæld milli tréhandriðs og stigaveggjar, minnst 96,5 cm. efst og mest 98 cm. neðst í stiganum. Hæð efri brúnar handriðsins frá stigaþrepum nam 89 cm. Þrepin voru talin og reyndust þau fjórtán, auk stigapalls uppi. Grænmálað járnhandrið er neðst í stiganum, á útidyravegg, í sama lit og veggurinn. Lengd handriðsins mældist 86 cm. og hæð frá stigaþrepi 80-83 cm. Af hálfu stefndu er ómótmælt, að stefnandi hafi rekist utan í greint handrið er hann féll aftur fyrir sig í stiganum. Ágreiningur er hins vegar um það hvort hvítmálað járnhandrið, sem liggur með grænmáluðum stigaveggnum hafi verið til staðar á slysdegi. Breidd milli þess handriðs og tréhandriðsins mældist 86,5 cm. efst og 89 cm. neðst í stiganum.
III.
Stefnandi byggir málsókn sína á almennum skaðabótareglum og reglum um húsbóndaábyrgð, en slysið verði alfarið rakið til þess að stefndi Ólafur hafi tekið í eða rekið sig í sjúkrabörurnar er hann hafi að nauðsynjalausu verið að troða sér með fram börunum í kröppum og þröngum stiga með þeim afleiðingum að stefnandi hafi hlotið áverka sína. Verði tjónið alfarið rakið til þessa gáleysis stefnda Ólafs, en meðstefndi Heilsugæslustöðin Sólvangi beri húsbóndaábyrgð á honum, þar sem hann hafi verið vakthafandi læknir hjá meðstefnda er slysið varð og verið að sinna læknisstarfi.
IV.
Stefndu byggja málsvörn sína á því, að slysið verði rakið til hreinnar óhappatilviljunar, en stefnandi hafi verið að sinna sjúkraflutningi við mjög erfiðar aðstæður í þröngum, bröttum og snúnum stiga er hann hafi misst fótanna og slasast. Stefndi Ólafur hafi ekki sýnt af sér gáleysi er metið verði honum til sakar, þrátt fyrir að hann hafi snert sjúkrabörurnar lítillega þegar hann hafi smeygt sér fram hjá börunum, enda rangt og ósannað að slinkur hafi komið á börurnar við þá snertingu, sem valdið hafi því að stefnandi hafi misst jafnvægi í stiganum og slasast. Beri því að sýkna stefndu af kröfum stefnanda. Þá er sýknukrafan einnig á því byggð, að stefnandi hafi með tómlæti sínu fyrirgert öllum rétti til bóta úr hendi stefndu, þar sem hann hafi látið undir höfuð leggjast að tilkynna slysið til yfirboðara sinna og ekki gert rek að kröfum á hendur stefndu fyrr en með birtingu stefnu 17. apríl 1998.
Stefndu vísa um lagarök til reglna skaðabótaréttarins um bætur fyrir tjón af völdum réttarbrota utan samninga, einkum til reglna um bótagrundvöll, sakarábyrgð og um sönnunarskyldu tjónþola. Málskostnaðarkröfuna styðja stefndu við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
V.
Jóhannes Rúnar Jóhannsson, nú lögmaður í Reykjavík, kom fyrir dóm vegna málsins og skýrði frá helstu málsatvikum á sama veg og stefnandi. Vitnið staðhæfði að stefndi Ólafur hefði rekið sig í sjúkrabörurnar er hann hefði troðist fram hjá vitninu og þannig valdið því að slinkur hefði komið á börurnar, sem leitt hefði til slyss stefnanda. Vitnið kvaðst ekki muna hvort járnhandrið hefði verið á stigaveggnum milli hæða.
Magnús Bjarnason ellilífeyrisþegi bar fyrir dómi að hann hefði verið viðstaddur er sjúkraflutningsmenn færðu bróður hans í sjúkrabörum út úr íbúð á efri hæð hússins nr. 64 við Suðurgötu, en vitnið bjó og býr enn í kjallara hússins. Vitnið kvaðst ekki muna hvort komið hefði til erfiðleika við flutning bróður síns niður stigann eða hvort stefndi Ólafur hefði smeygt sér með fram börunum meðan á flutningi stóð og opnað útidyr. Vitnið kvaðst ekki muna hvort búið hefði verið að setja hvítt járnhandrið á stigavegginn milli hæða er slysið varð, en gat þess að handriðið hefði verið sett upp fyrir eiginkonu hins látna, en hún hefði átt erfitt með gang.
Sigurður Ólafsson var vakthafandi varðstjóri á slökkvistöðinni í Hafnarfirði er slys stefnanda bar að höndum. Vitnið bar fyrir dómi að sjúkrabörur þær sem notaðar voru 14. ágúst 1990 hefðu verið um 55 cm. á breidd og u.þ.b. 200 cm. langar.
VI.
Ágreiningslaust er að stefnandi slasaðist 14. ágúst 1990 við flutning sjúklings milli hæða í íbúðarhúsinu nr. 64 við Suðurgötu í Hafnarfirði. Er slysið bar að höndum voru stefnandi og Jóhannes Rúnar Jóhannsson, báðir reyndir sjúkraflutningsmenn, að bera sjúklinginn niður þröngan stiga við erfiðar aðstæður. Stefndi Ólafur, sem er læknir, gekk á eftir þeim niður stigann. Áður hafði hann undirbúið sjúklinginn fyrir flutning út í sjúkrabifreið. Er hann varð þess áskynja að útidyr voru lokaðar smeygði hann sér fyrirvaralaust með fram sjúkrabörunum í því skyni að opna dyrnar fyrir sjúkraflutningsmönnunum. Rak hann sig þá í börurnar. Sannað er með vitnisburði Jóhannesar Rúnars, að við snertinguna hafi slinkur komið á börurnar og jafnvægi burðarmanna raskast með þeim afleiðingum að stefnandi féll aftur fyrir sig og slasaðist. Er ómótmælt af hálfu stefndu, að mjóbak stefnanda hafi rekist í grænmálað járnhandrið neðst í stiganum. Þótt umræddur sjúklingur væri í lífshættu bar stefnda Ólafi, við greindar aðstæður, að bíða þess að sjúkraflutningsmennirnir óskuðu aðstoðar, en ella að gera þeim viðvart að hann hyggðist ganga með fram börunum og gefa þeim kost á að stöðva burðinn á meðan. Stefndi lét þær varúðarráðstafanir undir höfuð leggjast og fór ekki einasta niður stigann án samráðs við sjúkraflutningsmennina, heldur valdi þann kost að fara veggmegin með fram sjúkrabörunum í stað þess að ganga á milli þeirra og tréhandriðs við stigaop, en með því hefði stefndi dregið úr hættu á því að eitthvað færi úrskeiðis ef hann hreyfði við börunum. Telur dómurinn samkvæmt framanröktu að stefndi Ólafur hafi ekki viðhaft nægilega aðgát og að slys stefnanda verði rakið til þess. Þykir engu breyta um þá niðurstöðu hvort hvítmálað járnhandrið, sem fyrr er getið, hafi legið með stigaveggnum, en ósannað er að handriðið hafi verið til staðar á slysstundu.
Af hálfu meðstefnda Heilsugæslustöðvarinnar Sólvangs er því ekki mótmælt, að stefndi Ólafur hafi verið að sinna læknisstarfi fyrir heilsugæsluna er slysið bar að höndum og að hann teljist starfsmaður hennar í skilningi skaðabótaréttar. Stefndu bera því óskipta bótaábyrgð gagnvart stefnanda.
Gögn málsins bera með sér að stefnandi hafi átt við bakmeiðsli að stríða frá slysdegi, en alvarleiki þeirra hafi ekki verið ljós fyrr en á árinu 1993. Einnig verður ráðið af málsgögnum að ábyrgð hafi formlega verið lýst á hendur stefndu í ágúst 1994 og staðfesti stefndi Ólafur fyrir sitt leyti að svo hefði verið, í aðilaskýrslu fyrir dómi. Þykir stefnandi þannig hafa gert rek að kröfu sinni innan hæfilegs tíma. Krafan er því ekki fallin niður fyrir sakir tómlætis.
Í ljósi framangreindra málsúrslita ber að dæma stefndu óskipt til greiðslu málskostnaðar. Þykir hann hæfilega ákveðinn 250.000 krónur. Hefur þá verið tekið tillit til skyldu stefnanda samkvæmt lögum nr. 50/1988 til að greiða virðisaukaskatt af þóknun til lögmanns síns.
Undirritaður héraðsdómari tók við málinu 1. október 1998, en hafði fram að þeim tíma engin afskipti af meðferð þess.
Jónas Jóhannsson héraðsdómari kvað upp dóminn.
Dómsorð:
Stefndu, Ólafur Eyjólfsson og Heilsugæslustöðin Sólvangi, kt. 671289-1299, bera óskipta bótaábyrgð á tjóni, sem stefnandi, Guðmundur Breiðfjörð Kristjánsson, varð fyrir er hann féll niður stiga í húsinu nr. 64 við Suðurgötu í Hafnarfirði.
Stefndu greiði stefnanda óskipt 250.000 krónur í málskostnað.