Hæstiréttur íslands
Mál nr. 230/2000
Lykilorð
- Kærumál
- Kröfugerð
- Frávísunarúrskurður staðfestur
|
|
Fimmtudaginn 15. júní 2000. |
|
Nr. 230/2000. |
Ástþór Rafn PálssonGuðmundur Pálsson Karl Pálsson og Páll Pálsson (Jón Hjaltason hrl.) gegn Ferðamálasjóði (Jónatan Sveinsson hrl.) |
Kærumál. Kröfugerð. Frávísunarúrskurður staðfestur.
Talið var að af héraðsdómsstefnu yrði ekki annað ráðið en að Á, G, K og P reistu málsókn sína gegn F á 57. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu og miðuðu að því að afla með henni staðfestingar á því að eftirstöðvar skuldabréfa, sem tryggð höfðu verið með veði í fasteignum Á, sem seldar höfðu verið nauðungarsölu, væru fallnar niður. Hljóðan dómkrafna Á, G, K og P þóttu ekki geta þjónað þessu markmiði málshöfðunarinnar og yrðu þær ekki studdar við fyrrnefnt lagaákvæði. Var niðurstaða héraðsdóms um að vísa málinu frá dómi staðfest.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Arnljótur Björnsson og Gunnlaugur Claessen.
Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 5. júní 2000, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 8. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 31. maí 2000, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðilum var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðilar krefjast þess að hinum kærða úrskurði verði hrundið og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefjast þeir málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Eins og lýst er í hinum kærða úrskurði, svo og í dómi Hæstaréttar 9. desember 1999 í fyrra máli sömu aðila, á ágreiningur þeirra rætur að rekja til þess að nánar tilteknar fasteignir, sem voru í eigu sóknaraðilans Ástþórs Rafns Pálssonar, voru seldar nauðungarsölu í mars og apríl 1998. Við nauðungarsöluna leitaði varnaraðili fullnustu á kröfum sínum samkvæmt fjórum skuldabréfum, sem voru tryggð með veði í fasteignunum. Tvö skuldabréfanna voru gefin út af Ástþóri einum, en hin tvö af sóknaraðilunum öllum. Varnaraðili gerðist kaupandi við nauðungarsöluna að hluta hinna veðsettu eigna og greiddi kaupverð þeirra að verulegu leyti með eigin veðkröfu, en að auki fékk hann greiðslu upp í kröfur sínar af söluverði annarra eigna. Taldi varnaraðili eftir sem áður að á skorti að hann hefði fengið kröfur sínar á hendur sóknaraðilunum að fullu greiddar. Hóf hann í kjölfarið aðgerðir til innheimtu eftirstöðva skuldanna hjá sóknaraðilum og hlutaðist meðal annars til um að bú þriggja þeirra voru tekin til gjaldþrotaskipta. Gagnstætt þessu öllu telja sóknaraðilar að varnaraðili hafi fengið kröfur sínar að fullu greiddar við nauðungarsölu umræddra fasteigna, enda hafi mismunur á markaðsverði eignanna, sem varnaraðili gerðist kaupandi að, og söluverðinu, sem hann þurfti að gjalda fyrir þær, verið meira en nægilegt í því skyni.
Af héraðsdómsstefnu verður ekki annað ráðið en að sóknaraðilar reisi málsókn sína á 57. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu og miði að því að afla með henni staðfestingar á því að eftirstöðvar fyrrnefndra krafna varnaraðila á hendur þeim séu fallnar niður. Þrátt fyrir það voru dómkröfur sóknaraðila samkvæmt stefnunni eingöngu þess efnis að varnaraðila yrði gert að greiða sóknaraðilanum Ástþóri 24.209.435 krónur, svo og þeim sama og sóknaraðilunum Karli og Páli hverjum um sig 2.000.000 krónur „í skaðabætur fyrir miska og lánstrauststap“, allt með dráttarvöxtum frá 5. maí 1998 til greiðsludags. Eftir hljóðan þessara dómkrafna geta þær ekki þjónað því markmiði málshöfðunar, sem áður er getið, og verða þær heldur ekki samkvæmt efni sínu studdar við fyrrnefnt lagaákvæði. Þegar af þeirri ástæðu er óhjákvæmilegt að fallast á með héraðsdómara að vísa verði málinu frá dómi.
Rétt er að aðilarnir beri hver sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur um annað en málskostnað.
Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður héraðsdóms Reykjavíkur miðvikudaginn 31. maí 2000
I
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 8. maí sl., eftir að dómari málsins hafði gefið lögmönnum málsaðila kost á að tjá sig um formhlið máls í samræmi við 100. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, er höfðað með stefnu, birtri 27. janúar 2000. Málið var þingfest 8. febrúar 2000.
Stefnendur eru Ástþór Rafn Pálsson, kt. 261057-3879, Vesturtúni 26, Álftanesi, Guðmundur Pálsson, kt. 200654-4639, Hólagötu 33, Vestmannaeyjum, Páll Pálsson, kt. 250266-3169, Kleppsvegi 44, Reykjavík og Karl Pálsson, kt. 280368-5719, Austurströnd 6, Seltjarnarnesi.
Stefndi er Ferðamálasjóður, kt. 630179-0689, Hverfisgötu 6, Reykjavík.
Dómkröfur stefnanda eru eftirfarandi:
Að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda Ástþóri Rafni samtals 24.209.435 krónur, með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987, með síðari breytingum frá 5. maí 1998 til greiðsludags.
Að stefndi greiði stefnendunum Ástþóri Rafni, Páli og Karli, hverjum um sig 2.000.000 krónur í skaðabætur fyrir miska og lánstrauststap að mati réttarins, ásamt með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga frá 5. maí 1998 til greiðsludags.
Að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnendum málskostnað að fullu að skaðlausu þar með talinn matskostnað dómkvaddra matsmanna.
Dómkröfur stefnda eru þær að stefndi verði alfarið sýknaður af öllum kröfum stefnenda og stefnendum verði in solidum gert að greiða stefnda málskostnað.
II
Málatilbúnaður stefnanda
Þar sem dómarinn hefur tekið þá ákvörðun að fjalla um málið með tilliti til þess hvort gallar séu á því sem varðað geti frávísun án kröfu, sbr. 1. mgr. 100. gr. laga nr. 91/1991, þykir óhjákvæmilegt að reifa málatilbúnað stefnenda nokkuð nákvæmlega en hann er í stórum dráttum á þessa leið.
Stefnendur kveðast hafa keypt saman af stefnda á árinu 1991 fasteignirnar Herjólfsgötu 4, Heiðarveg 3, neðri hæð, Heiðarveg 3, netagerð á efri hæð, Heiðarveg 3, íbúð á efri hæð, og 1. hæð Heiðarvegar 1 en áður hafi þeir átt 2., 3., og 4. hæð hússins en sú fasteign sé nefnd Heimir. Hafi þeir rekið þessar fasteignir saman undir nafninu Hótel Bræðraborg. Guðmundur hafi afsalað hluta sínum til Páls, Karls og Ástþórs Rafns 14. mars 1995, en Páll og Karl afsalað sínum hlutum til Ástþórs Rafns 27. júlí 1995. Stefnendur hafi keypt eignirnar 1991 fyrir 50. m.kr. Útborgun hafði verið 10 m.kr. en fyrir eftirstöðvunum, 40 m.kr. hafi stefnendur gefið út tvö veðskuldabréf 20. maí 1991, tryggð með l. veðrétti í eignunum, öðrum en Heimi, annað að fjárhæð 20 m.kr. en hitt USD 332.336,32.
Áður en salan hafi farið fram til Ástþórs Rafns hafi bræðurnir þrír leitað eftir samþykki stefnda, sem 1. veðréttarhafa annarra eigna en Heimis, að hann leysti þá undan ábyrgð á bréfunum. Á það hafi stefndi ekki fallist nema með þeim afarkostum að þeir yrðu hver um sig að setja húseignir sínar að veði fyrir fjórum milljónum til enn frekari trygginga fyrir sjóðinn. Á þetta hafi þeir ekki fallist en engu að síður hafi verið gengið frá sölunni og afsölunum þinglýst.
Í framhaldi af yfirtöku Ástþórs Rafns á árinu 1995 hafi hann einn gefið út tvö veðskuldabréf dags. 10. október 1995, fyrir öllum vanskilum sem þá hafi verið að fjárhæð 4.250.000 krónur og USD 67.815,54. Bréfin hafi verið þinglýst með 5. veðrétti samhlíða á 2., 3. og 4. hæð hússins nr. 1 við Heiðarveg. Í stefnu er bréfum þessum ítarlega lýst. Stefnendur kveða öll lánin eftir þetta hafa verið talin skuldir Ástþórs Rafns í bókhaldi stefnda. Hafi stefnendur litið svo á, að með þessu hafi stefndi í raun samþykkt afsöl Guðmundar, Karls og Páls til Ástþórs Rafns.
Ástþóri Rafni hafi ekki tekist að greiða afborganir af lánunum, svo að eignirnar hafi verið seldar á nauðungaruppboði að kröfu stefnda 11. mars og 1. apríl 1998. Á uppboðunum hafi stefndi lýst skuldum, samtals 54.026.252 krónum, tryggðum með 1. veðrétti í öðrum eignum en Heimi, en skuldum tryggðum með veði í Heimi samtals 6.607.066 krónum. Í stefnu skora stefnendur á stefnda að leggja fram í máli þessu sundurliðun á báðum lýstum kröfum á uppboðunum.
Stefnendur kveða Ástþór Rafn hafa ætlað að selja eignirnar frjálsri sölu eftir áramótin 1997/1998 og því fengið sölumat Fasteignamarkaðar Vestmannaeyja s.f., en ekki gefist ráðrúm til frjálsra sölutilrauna.
Á nauðungaruppboðinu 11. mars 1998 hafi Páll Helgason keypt Heiðarveg 3, neðri hæð og Heiðarveg 3, efri hæð en stefndi Herjólfsgötu 4, Heiðarveg 1, 1. hæð og Heiðarvegi 3, íbúð. Íslandsbanki h.f. hafi síðan keypti 2., 3. og 4. hæð, Heiðarvegar 1 á uppboðinu 1. apríl 1998. Boð framangreindra í eignirnar hafi öll verið samþykkt 5. maí 1998, gerð upp í framhaldinu og afsölum þinglýst samkvæmt því.
Stefnendur telja, að þar sem stefndi hafi keypt Herjólfsgötu 4, l. hæð Heiðarvegar l og íbúð á efri hæð Heiðarvegar 3 á uppboðinu hafi honum borið bar skylda til, samkvæmt l. mgr. 57. gr. laga um nauðungarsölu, nr. 90/1991, að gera upp veðskuldirnar með þeim hætti sem fyrir sé mælt í greininni. Stefnendur hafi þingfest mál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur 21. nóvember 1998. Þá hafi ekki legið fyrir þær upplýsingar um framkvæmd nauðungaruppboðsins 11. mars 1998, er nú liggi fyrir, né legið fyrir mat dómkvaddra manna á uppboðsverðmæti eigna þeirra, er stefndi hafi boðið í og fengið úthlutað í sinn hlut eftir uppboðið. Hafi í málinu verið gerðar kröfur um að stefnda verði dæmt skylt að færa niður áhvílandi veðskuldir á eignum þeim, er í hans hlut komu skv. fyrirmælum 1. mgr. 57. gr. laga um nauðungarsölu nr. 90/1991, brott yrðu felldar kröfur stefnda í gjaldþrotabú stefnenda og stefndi greiddi stefnendunum Ástþóri Rafni, Páli og Karli hverjum um sig 2. m.kr. Í héraði hafi stefndi verið sýknaður en Hæstiréttur vísað málinu frá héraðsdómi með dómi 9. desember 1999. Sé mál þetta höfðað að nýju til að fá efnisdóm í málinu en stefnendur telja að bætt hafi verið úr formgöllum þeim er leitt hafi til frávísunar.
Í málinu liggur fyrir matsgerð dómkvaddra matsmanna þar sem eignir sem stefnda voru lagðar út á uppboðinu við samþykki boðs 8. maí 1998 voru metnar á samtals 59.5 m.kr., miðað við þau greiðslukjör sem eignirnar voru seldar gegn.
Tölulegur grundvöllur undir stefnukröfum er eftirfarandi.
Kröfulýsing stefnda í uppboðseignirnar skv. 2 veðskuldabr. á 1. veðr. 54.026.252 kr.
Útlagt fé stefnda vegna kaupa hans á uppboðseignunum, sbr. yfirlýsingu
sýslumannsins í Vestmannaeyjum, dags. 19. okt.1999, 4.982.658 kr.
Samtals 59.008.910 kr.
Úthlutað til stefnda samkvæmt frumvörpunum fjórum frumvörpum
upp í framangreindar veðskuldabréfskröfur, 23.718.345 kr.
Mismunur, sem stefndi á eftir að fá greiddan af veðskuldunum, 35.290.565 kr.
Eignir sem stefndi fékk í sinn hlut á uppboðinu, skv. mati
dómkvaddra manna, 59.500.000 kr.
Frá dregst mismunur, sem að framan greinir, sem
stefndi átti eftir að fá til að ljúka veðskuldunum, 35.290.565 kr.
Mismunur eða sá sölugróði stefnda á uppboðinu, sem stefnendur í máli
þessu krefjast að greiddur verði Ástþóri Rafni, þinglýstum eiganda
eignanna, er uppboð fór fram 24.209.435 kr.
Stefnendur telja að fjarstæða hafi verið hjá stefnda að halda gjaldþrotakröfum uppi á hendur stefnendunum Ástþóri Rafni, Páli og Karli. Sé því eins og í fyrra máli gerðar kröfur um 2 m.kr. skaðabætur til hvers þeirra vegna lánstraustspjalla og miska, með vísan til almennu skaðabótareglunnar og til heimildar 3. mgr. 66. gr. um gjaldþrotalaga nr. 21/1991. Stefnda hafi mátt vera það ljóst þegar eftir uppboðið 11. mars 1998, að skilyrði skorti og hann ætti ekki réttmæta kröfu á hendur stefnendum. Stefnendur telja að slíkar bætur verði sóttar í einkamáli eftir almennum reglum og þær megi dæma þótt krafa um gjaldþrotaskipti hafi verið tekin til greina.
Um lagarök vísa stefnendur m.a. til 1. og 2. mgr. 57. gr. laga um nauðungarsölu nr. 90/1991. Varðandi miska og lánstraustsspjöll er vitnað til 3. mgr. 66. gr. laga um gjaldþrotaskipti nr. 21/1991, Þá telja stefnendur alla meðferð stefnda í sambandi við uppboðsmálið ótímabæra, í bága við góða viðskiptahætti og ólöglega með hliðsjón af 3. kafla samningalaga nr. 7/1936, sbr. einkum 36. gr.
III
Málsástæður og lagarök stefnda sem hér skipta máli
Í greinargerð stefnda eru gerðar athugasemdir við málatilbúnað stefnenda. Vakin er athygli á því að dómur hafi gengið í Hæstarétti 9. desember 1999 í máli milli aðila þessa máls um áþekkt sakarefni og hafi niðurstaða réttarins verið sú að dómkröfum stefnenda hafi verið vísað frá héraðsdómi.
Bent er á að í stefnu komi fram að mál þetta sé höfðað til að fá efnisdóm í málinu, er bætt hafi verið úr formgöllum, er leiddu til frávísunar samkvæmt hæstaréttardómnum. Samkvæmt því virðist sem stefnendur telji sig vera að leita eftir efnisdómi um það sakarefni sem til umfjöllunar hafi verið í fyrra málinu, eftir að þeir hafi bætt úr formgöllum sem leitt hafi til frávísunar fyrra málsins frá héraðsdómi.
Af hálfu stefnda er ekki fallist á það með stefnendum, að með máltilbúnaði þeirra í þessu máli hafi verið bætt úr annmörkum á máltilbúnaði þeirra í fyrra málinu, þannig að unnt sé nú að verða við kröfum þeirra um að; "fá færðar eða felldar niður eftirstöðvar krafna, sem stefndi naut veðréttar fyrir í áðurnefndum fasteignum en fékk ekki fullnustu á við nauðungarsölu þeirri, með heimild í 57. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu". svo vitnað sé orðrétt til Hæstaréttardómsins um það sem fyrir stefnendum hafi vakað í fyrra málinu.
Stefndi telur að hvorki kröfugerð stefnenda í máli þessu né málatilbúnaður þeirra að öðru leyti gefi þeim kost á að ná því fram sem fyrir þeim hafi vakað í fyrra málinu, þ.e. að færa niður eða fella eftirstöðvar krafna stefnda á hendur þeim skv. tveimur skuldabréfum, útgefnum 22. maí 1991. Af hálfu stefnda er því haldið fram að hér sé í raun á ferðinni allt annað mál, byggt á sama grunni og eldra málið. Þetta lýsi sér fyrst og fremst í sjálfri kröfugerð málsins, en einnig í málatilbúnaði stefnenda að öðru leyti. Sameiginlegt með málunum sé þó sú dómkrafa stefnenda, að stefndi verði dæmdur til að greiða þeim stefnendum Ástþór Rafni, Karli og Páli tiltekna fjárhæð sem bætur fyrir miska og lánstrauststap.
Í greinargerð stefnda kemur fram að varnir hans í málinu afmarkist af málatilbúnaði stefnenda í heild, svo sem hann birtist í stefnu málsins og framlögðum gögnum. Af hálfu stefnda eru gerðar athugasemdir við lýsingu stefnenda á málsatvikum. Því er mótmælt að stefnandi, Ástþór Rafn hafi sætt afarkostum af hálfu stefnda þegar samið hafi verið um uppgreiðslu vanskila á árinu 1995. Þá er því mótmælt sem röngu að öll lánin sem hvílt hafi á eignum stefnenda hafi verið talin skuldir Ástþórs Rafns í bókhaldi stefnda, enda hafi beiðni stefnenda um að hann yfirtæki einn skuldirnar verið hafnað.
Af hálfu stefnda er bent á að engar sjálfstæðar efniskröfur séu hafðar uppi af hálfu stefnanda, Guðmundar Pálssonar. Gengur stefndi út frá því að dómari málsins vísi af þeim sökum þeim hluta málsins sem að honum snýr frá dómi frá án kröfu.
Af hálfu stefnda er því hafnað að krafa um greiðslu á meintum sölugróða stefnda af kaupum á framangreindum fasteignum á uppboði verði reist á 1. mgr. 57. gr. nr. 90/1991, um nauðungarsölu. Það ákvæði hafi einvörðungu að geyma heimild fyrir skuldara til að krefjast þess að kaupandi (kröfuhafi) slíkra eigna við nauðungarsölu, sem jafnframt naut veðréttinda í eigninni, færi niður eftirstöðvar skuldarinnar, svo sem þær standi eftir nauðungarsöluna, að hluta eða í heild að því marki sem hærra endursöluverð (markaðsverð) eignarinnar en kaupverð eignarinnar á nauðungaruppboðinu veitir svigrúm til. Söluhagnaður umfram eftirstöðvar skuldarinnar sé að sjálfsögðu að fullu eign uppboðskaupandans.
Stefndi telur stefnendur ekki hafa fært fram neinar réttarheimildir sem styðji að uppboðsþolar eigi rétt til að fá greiddan til sín söluhagnað að hluta eða að öllu leyti af endursölu á fasteignum eða lausafé, sem seljandi hafi aflað sér með kaupum á nauðungaruppboði.
Stefndi bendir á að stefnendur hafa ekki uppi kröfur í máli þessu, sem lúti að því, að viðurkenndur verði réttur þeirra til að fá niðurfærðar eða felldar niður eftirstöðvar skulda þeirra við stefnda skv. tveimur skuldabréfum, sem stefnendur gáfu sameiginlega út til stefnda 20. maí 1991. Út á slíkar kröfur hafi fyrra málið gengið, svo sem nánar sé rakið í hæstaréttardómi frá 9. janúar 1999. Þar sé einnig að finna leiðbeiningar til stefnenda um það hvernig þeim hafi borið að haga kröfugerð sinni í þeim efnum svo unnt væri að fella efnisdóm um þær. Stefndi telur að stefnendur hafi leitt hjá sér allar slíkar leiðbeiningar. Af því leiði að ekki sé unnt að taka afstöðu í málinu til þess, hvort og þá í hvaða mæli stefnendur eigi niðurfærslurétt samkvæmt 1. mgr. 57. gr. laga nr. 90/1991.
Af hálfu stefnda er mótmælt þeim skaðabótakröfum stefnenda sem reistar eru á því að gjaldþrotaskipta hafi verið krafist á búum þeirra að ófyrirsynju. Stefndi telur að stefnendur hafi hvorki sýnt fram á að skilyrði 3. mgr. 66. gr. laga nr. 21/1991 séu til staðar né önnur skilyrði skaðabótaréttarins vegna uppboðsmálanna eða gjaldþrotaskipta á búum stefnenda.
V
Niðurstöður
Bú stefnenda, Ástþórs Rafns, Páls og Karls eru undir gjaldþrotaskiptum. Stefndi hefur lýst kröfum vegna ógreiddra eftirstöðva veðskuldabréfa í bú þeirra. Ekki hefur verið látið reyna á réttmæti þeirra krafna í ágreiningsmáli vegna gjaldþrotaskipta, sbr. 120. og 171. gr. gjaldþrotalaga nr. 21/1991. Skiptastjórar í umræddum þrotabúum hafa eftir að mál þetta var höfðað veitt umræddum stefnendum heimild til að reka mál þetta á eigin ábyrgð og á eigin kostnað fyrir héraðsdómi.
Með vísan til 1. og 2. mgr. 130. gr. gjaldþrotalaga nr. 21/1991 reka þeir því mál þetta í eigin nafni en til hagsbóta fyrir þrotabúin að því leyti sem þrotabúin eiga að njóta þeirra hagsmuna sem kunna að vinnast í máli þessu.
Við þingfestingu málsins 8. febrúar sl. var þess krafist af hálfu stefnda að stefnendum yrði gert að setja fram málskostnaðartryggingu í samræmi við b-lið 1. tl. 133. gr. laga nr. 91/1991. Með úrskurði héraðsdóms Reykjavíkur 14. apríl sl. var stefnendunum, Ástþóri Rafni, Páli og Karli gert að leggja fram málskostnaðartryggingu að fjárhæð 500.000 krónur. Var slík trygging lögð fram í þinghaldi 28. febrúar sl.
Við fyrirtöku málsins 14. apríl sl. var þess krafist af hálfu stefnanda að lagt yrði fram nýtt dómskjal sem hafði að geyma nýja dómkröfu um viðurkenningu á því að stefnda hafi borið að fella niður kröfur sínar samkvæmt skuldabréfum nr. 847 og 848 er síðar voru gerðar í þrotabú stefnenda Karls og Páls, 33.685.699 krónur á hvorn þeirra og í þrotabú Ástþórs Rafns að fjárhæð 44.075.916 krónur. Einnig voru í skjalinu skýringar á kröfugerð stefnenda. Af hálfu stefnda var framlagningu skjalsins mótmælt og einnig því að umrædd krafa kæmist að. Ákvað dómarinn að synja um framlagningu skjalsins þar sem það innihéldi viðbótarkröfu sem ekki kæmist að í málinu gegn mótmælum af hálfu stefnda.
Í stefnu er rakinn gangur dómsmáls sem áður var rekið milli málsaðila og lauk með því að Hæstiréttur vísaði því frá héraðsdómi með dómi 9. desember 1999. Í stefnu kemur beinlínis fram að mál þetta sé höfðað til þess að fá efnisdóm í málinu, enda hafi verið bætt úr formgöllum sem leitt hafi til frávísunar samkvæmt hæstaréttardómi. Í kafla sem ber yfirskriftina lagarök segir að dómkröfur séu byggðar á 1. og 2. mgr. 57. gr. laga um nauðungarsölu nr. 90/1991. Varðandi kröfu um miska og lántraustspjöll er þó einnig vísað til 3. mgr. 66. gr. laga um gjaldþrotaskipti og 3. kafla samningalaga nr. 7/1936, einkum 36. gr. Dómkröfur eru þannig reistar á sömu lagarökum og dómkröfur í fyrra máli milli aðila.
Stefnendur hafa aflað matsgerðar dómkvaddra matsmanna um verðmæti fasteiga þeirra sem stefndi fékk útlagðar eftir nauðungarsölu á þeim. Niðurstaða matsmanna var sú að verðmæti eignanna, miðað við þau greiðslukjör sem þær voru seldar gegn, næmi 59.008.910 krónum. Matsgerð þessi var lögð fram í Hæstarétti í fyrra máli aðila en var talin of seint fram komin.
Kröfugerð stefnenda er hins vegar byggð upp með allt öðrum hætti nú en í fyrra málinu. Stefnendur byrja á að reikna út þær kröfur sem stefndi lýsti í uppboðsandvirði allra þeirra eigna sem hér um ræðir á grundvelli tveggja veðskuldabréfa á 1. veðrétti og bætir við þeirri fjárhæð sem stefndi varð að leggja út vegna kaupa á þeim eignum sem hann fékk í sinn hlut á uppboðinu og fá út 59.008.910 krónur. Frá þeirri fjárhæð draga stefnendur það sem stefndi fékk úthlutað upp í kröfur sínar samkvæmt frumvörpum til úthlutunar uppboðsandvirðis eða 23.718.345 krónur. Mismuninn 35.290.565 krónur telja þeir þá fjárhæð sem stefndi eigi eftir að fá til að ljúka veðskuldunum og draga hann frá verðmæti fasteignanna sem stefndi eignaðist, samkvæmt matsgerð, eða 59.500.000 krónum. Útkomuna, 24.209.435 krónur, nefna þeir sölugróða stefnda.
Fyrir liggur að stefndi fékk þrjár eignir útlagðar sem hæstbjóðandi á uppboðum 11. mars 1998. Um var að ræða Herjólfsgötu 4 en söluverð á uppboðinu var 15.500.000 krónur og af því rann 12.068.891 króna til greiðslu á kröfu stefnda samkvæmt veðskuldabréfi á 1. veðrétti. Einnig íbúð á efri hæð Heiðarvegar 3 en söluverð hennar var 500.000 krónur og af því runnu 495.000 krónur til greiðslu á kröfu stefnda samkvæmt veðskuldabréfi á 1. veðrétti. Loks 1. hæð Heiðarvegar 1 en söluverð hennar var 7.500.000 krónur og af því rann 5.953.451 króna til greiðslu á kröfu stefnda samkvæmt veðskuldabréfi á 1. veðrétti.
Í útreikningum stefnenda er ekkert tillit tekið til þess að kaupverð þeirra eigna sem stefndi fékk útlagðar sem hæstbjóðandi var samtals 23,5 m.kr. Draga stefnendur ekki kaupverð eignanna frá matsverði þeirra eins og rétt hefði verið ef ætlun stefnenda var að finna meintan hagnað stefnda af kaupunum. Þess í stað líta þeir svo á að stefndi hafi fengið greiddar samtals 18.517.342 krónur af andvirði umræddra eigna, sem ásamt 5.211.003 krónum, sem stefndi fékk greitt af söluverði eignarhluta sem aðrir keyptu, eigi að koma til frádráttar skuldum stefnenda við stefnda. Þar sem ekki er tekið tillit til kaupverðs eignanna í útreikningi á sölugróða er útilokað að líta svo á að umræddar 18.517.342 krónur hafi í raun verið greiddar og eigi að koma til lækkunar kröfunum.
Í þinghaldi 14. apríl og aftur 8. maí var lögmanni stefnenda gefinn kostur á að skýra framangreinda útreikningsaðferð en engar frekari skýringar fengust. Samkvæmt framansögðu verður ekki betur séð en að aðferð stefnenda við útreikning á meintum sölugróða sé haldin stórfelldum annmörkum, auk þess sem sundurliðun á meintum sölugróða hverrar eignar vantar. Alvarlegur annmarki telst því vera á grundvelli málsins að þessu leyti.
Í stefnu eru ekki færð fram nein rök eða réttarheimildir nefndar því til stuðnings að stefnda beri að standa stefnanda, Ástþóri Rafni, skil á meintum sölugróða umræddra eigna. Mat dómkvaddra matsmanna getur með engu móti stutt slíkan málatilbúnað og tilvísun til 1. mgr. 57. gr. laga nr. 20/1991 á engan veginn við eins og kröfugerð er háttað.
Samkvæmt framansögðu er uppbygging kröfugerðar stefnenda og lýsing málsástæðna ekki þannig hagað að séð verði að stefnendur krefjist niðurfærslu á skuldum í samræmi við 1. mgr. 57. gr. laga nr. 20/1991. Það gerir málatilbúnað stefnenda hins vegar mjög óskýran að því er haldið fram í stefnu að verið sé að fá efnisdóm um sama sakarefni og í fyrra máli aðila og að vísað er til umræddrar lagagreinar um niðurfærslu skulda í kafla um lagarök.
Skaðabótakröfur þeirra Ástþórs Rafns, Páls og Karls vegna miska og lánstrauststaps virðast grundvallaðar á því að stefnda hafi borið að færa niður kröfur sínar á grundvelli 1. mgr. 57. gr. laga nr. 20/1991 vegna þeirra verðmæta sem hann fékk í hendur við útlagningu umræddra þriggja eigna á nauðungarsölum 11. mars 1998. Sem fyrr segir hafa stefnendur ekki fengið dóm um réttmæti slíkrar niðurfærslu og í þessu máli hafa þeir ekki gert kröfu um slíka niðurfærslu eða fært rök fyrir réttmæti hennar. Skaðabótakröfur þessar eru eingöngu studdar fyrrgreindum útreikningum um meintan sölugróða og fullyrðingum um ótímabæra og ólögmæta meðferð stefnda við uppboðsmálið. Útreikningar þessir þykja algerlega ófullnægjandi og þeir eða málatilbúnaður stefnanda að öðru leyti ekki til þess fallin að vera grundvöllur undir skaðabótakröfu vegna meintrar saknæmrar og ólögmætrar háttsemi stefnda.
Jafnframt þykir ljóst er að stefnendur hafa ekki nema að litlu leyti lagað málatilbúnað sinn að þeim ábendingum sem fram komu í hæstaréttardómi frá 9. desember 1999. Þess í stað hafa stefnendur kosið að haga kröfugerð með allt öðru móti en í fyrra málinu en þó áfram byggt á svipuðum málsástæðum sem falla engan veginn að breyttri kröfugerð.
Samkvæmt e-lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 skal í stefnu greina svo glöggt sem verða má málsástæður sem stefnandi byggir málsókn sína á, svo og önnur atvik sem þarf að greina til þess að samhengi málsástæðna verði ljóst, en þessi lýsing skal vera gagnorð og svo skýr að ekki fari milli mála hvert sakarefnið er.
Samkvæmt framansögðu þykir langur vegur frá að lýsing stefnanda á málsástæðum sé glögg og mikið vantar á að samhengi kröfugerðar, málsástæðna og lagaraka svo og málsástæðna innbyrðis sé ljóst. Af því leiðir að verulegum erfiðleikum er háð að sjá hvert sakarefnið í málinu er og má sjá þess merki í greinargerð stefnda. Er málatilbúnaður stefnenda til þess fallinn að takmarka möguleika stefnda á að halda uppi efnislegum vörnum í málinu. Lýsing málsástæðna og annarra atvika fær þannig með engu móti samrýmst ákvæði e-liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 en úr slíkum annmarka verður ekki bætt undir rekstri málsins. Eru því svo verulegir ágallar á málatilbúnaði stefnanda að vísa ber málinu í heild frá dómi án kröfu.
Með vísan til 2. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 þykir rétt að stefnendur greiði óskipt stefnda 100.000 krónur í málskostnað.
Jón Hjaltason hrl. hefur farið með mál þetta af hálfu stefnenda en Jónatan Sveinsson hrl. af hálfu stefnda.
Úrskurð þennan kvað upp Sigurður Tómas Magnússon héraðsdómari.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Máli þessu er vísað frá dómi án kröfu.
Stefnendur, Ástþór Rafn Pálsson, Guðmundur Pálsson, Páll Pálsson og Karl Pálsson greiði óskipt stefnda, Ferðamálasjóði, 100.000 krónur í málskostnað.