Hæstiréttur íslands

Mál nr. 462/2000


Lykilorð

  • Kærumál
  • Frávísunarúrskurður felldur úr gildi
  • Res Judicata
  • Kröfugerð
  • Stefna


Mánudaginn 22

 

Mánudaginn 22. janúar 2001.

Nr. 462/2000.

Þuríður Gísladóttir

(sjálf)

gegn

íslenska ríkinu

(Skarphéðinn Þórisson hrl.)

             

Kærumál. Frávísunarúrskurður felldur úr gildi. Res Judicata. Kröfugerð. Stefna.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem vísað var frá dómi kröfu Þ þess efnis að íslenska ríkinu yrði gert að draga til baka uppsögn hennar úr starfi á árinu 1992. Fyrir lá að Þ hafði í tveimur fyrri málum vegna uppsagnarinnar krafist greiðslu tiltekinna fjárhæða í skaðabætur. Taldi Hæstiréttur að þótt öll málin þrjú ættu sameiginlega þann grundvöll að Þ teldi uppsögnina hafa verið ólögmæta, fengi það því ekki breytt að í þessu máli væri ekki í skilningi fyrri málsliðar 2. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991 um að ræða sama sakarefni og í fyrri málunum. Málinu yrði því ekki vísað frá dómi á grundvelli síðari málsliðar sama lagaákvæðis. Þ, sem flutti málið sjálf, var ekki lögfræðingur að mennt og varð ekki ráðið af gögnum málsins að henni hefði verið leiðbeint um lagfæringar á orðalagi dómkrafna. Kröfu um frávísun vegna annmarka á kröfugerð Þ var því einnig hafnað. Þá var eigi heldur fallist á það með íslenska ríkinu að vísa bæri málinu frá dómi með vísan til 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991. Frávísunarúrskurður héraðsdóms var því felldur úr gildi.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Gunnlaugur Claessen og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 14. desember 2000, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 22. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 14. desember 2000, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Líta verður svo á að sóknaraðili krefjist þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.

Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur og sóknaraðila gert að greiða kærumálskostnað.

I.

Í héraðsdómsstefnu greinir sóknaraðili frá þeim atvikum að málinu að hún hafi tekið til starfa á rannsóknarstofu Hollustuverndar ríkisins á árinu 1983 og verið þar lausráðin við vinnu með nánar tilgreindum hléum í tengslum við nám þar til í lok árs 1987, þegar hún hafi orðið fastráðin. Á árunum 1988 og 1989 hafi aftur orðið hlé á störfum hennar vegna áframhaldandi náms, en í byrjun árs 1990 hafi hún tekið við starfi deildarstjóra. Á árinu 1991 hafi félagsmenn í stéttarfélagi sóknaraðila tekið sig saman um að láta sig vanta einn dag frá vinnu sökum veikinda, en þetta hafi verið liður í mótmælum háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna vegna setningar bráðabirgðalaga varðandi launakjör þeirra. Þetta hafi sóknaraðili látið hjá líða, en tveir nánar tilgreindir samstarfsmenn hennar hafi orðið varir við að hún væri við vinnu umræddan dag. Eftir það hafi yfirmenn sóknaraðila hafið „bréfaskipti við hana og þótt hún hagaði störfum sínum og samskiptum við yfirmenn og samstarfsfólk samkvæmt bestu vitund var henni sagt upp fyrirvaralaust með bréfi dags. 25. september 1992.” Í málinu krefst sóknaraðili þess að varnaraðili verði dæmdur „til að draga uppsagnarbréf til baka”, en með tilvitnuðum orðum er vísað til bréfsins, sem hér að framan var getið.

II.

Eins og greinir í hinum kærða úrskurði hefur sóknaraðili tvívegis áður höfðað mál í tilefni af fyrrnefndri uppsögn 25. september 1992 á starfi hennar hjá Hollustuvernd ríkisins. Fyrra dómsmálið var höfðað 3. nóvember 1993 á hendur ríkissjóði og krafðist sóknaraðili þess að hann yrði dæmdur til að greiða sér 960.000 krónur í skaðabætur vegna uppsagnarinnar, sem hún taldi í raun hafa verið ólögmæta brottvikningu úr starfi. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 22. apríl 1994 var stefndi í málinu sýknaður af kröfu sóknaraðila. Þeim dómi var ekki áfrýjað til Hæstaréttar. Síðara málið höfðaði sóknaraðili 19. apríl 1999 gegn Hollustuvernd ríkisins og krafðist 45.540.720 króna í skaðabætur vegna sömu uppsagnar úr starfi. Stefndi í málinu krafðist með vísan til 2. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991 að því yrði vísað frá dómi. Var fallist á þá kröfu í úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 11. október 1999, sem var staðfestur með dómi Hæstaréttar 26. sama mánaðar.

Krafa sóknaraðila í þessu máli er sem fyrr segir um að varnaraðila verði gert að draga til baka umrædda uppsögn. Kröfur hennar í fyrrnefndum dómsmálum voru hins vegar um greiðslu tiltekinna fjárhæða í skaðabætur. Þótt öll málin þrjú eigi sameiginlega þann grundvöll að sóknaraðili telji uppsögnina hafa verið ólögmæta, fær það því ekki breytt að þegar vegna kröfugerðar hennar í málinu nú er ekki í skilningi fyrri málsliðar 2. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991 um að ræða sama sakarefni og í fyrri málunum tveimur. Verður málinu því ekki vísað frá dómi á grundvelli síðari málsliðar sama lagaákvæðis.

III.

Í málinu leitar sóknaraðili sem fyrr segir dóms um skyldu varnaraðila til að draga til baka bréf 25. september 1992 um uppsögn hennar úr starfi. Þótt sóknaraðili hafi kosið að orða kröfu sína á þennan hátt, verður ekki annað séð en að krafan lúti í reynd að því að fá uppsögnina fellda úr gildi. Sóknaraðili, sem sækir málið sjálf, er ekki lögfræðingur að mennt. Verður ekki ráðið af gögnum málsins hvort henni hafi verið leiðbeint um lagfæringar á orðalagi dómkrafna. Eru því ekki efni að til að fallast á með varnaraðila að vísa verði málinu frá dómi vegna annmarka á kröfugerð sóknaraðila.

Héraðsdómsstefna í málinu fullnægir að efni til þeim skilyrðum, sem greinir í 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991. Er því ekki ástæða til að vísa málinu frá dómi vegna galla á stefnunni, svo sem varnaraðili hefur haldið fram.

Samkvæmt framansögðu verður að fella hinn kærða úrskurð úr gildi og leggja fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. Rétt er að aðilarnir beri hvor sinn kostnað af þessum þætti þess á báðum dómstigum.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og er lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.

Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fellur niður.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 14. desember 2000.

I.

Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar hinn 8. desember, að loknum munnlegum mál­flutningi um framkomna frávísunarkröfu stefndu, var höfðað af Þuríði Gísla­dóttur, kt. 111060-5259, Akraseli 17, Reykjavík, á hendur fjármálaráðherra og um­hverf­isráðherra f.h. Hollustuverndar ríkisins, kt. 490882-0149, Ármúla 1a, Reykjavík, með stefnu þingfestri 19. september 2000.

Dómkröfur stefnanda eru: „Stefnandi krefst þess að stefndu, f.h. ríkissjóðs, verði dæmd til að draga uppsagnarbréf til baka.  Uppsagnarbréfið er dags. 25. september 1992.  Jafnframt krefst stefnandi þess að stefndu verði dæmd til að greiða henni máls­kostnað að skaðlausu samkvæmt mati dómsins og að við ákvörðun málskostnaðar verði tekið tillit til skyldu hennar til að greiða virðisaukaskatt af lögmannsþóknun.”

Dómkröfur stefndu eru þær aðallega, að málinu verði vísað frá dómi, en til vara að stefndu verði sýknuð af dómkröfum stefnanda.  Í báðum tilvikum krefjast stefndu máls­kostnaðar, samkvæmt mati réttarins.

Eins og að framan greinir var málið flutt um frávísunarkröfu stefndu og er sá þáttur einungis til úrlausnar hér.

 

II.

Stefnandi hóf störf hjá Hollustuvernd ríkisins í janúar 1983 og vann þar síðan með hléum ýmis afleysingarstörf og sérverkefni á næstu árum.  Stefnandi var í fullu starfi hjá stefnda frá sumri 1986, en var í leyfi frá störfum, að hluta til á launum, frá október 1988 til ágúst 1989, vegna framhaldsnáms.  Stefnandi hóf þá fullt starf hjá stefnda og starfaði þar á rannsóknarstofu og í byrjun árs 1990 varð hún fag­deild­ar­stjóri.  Stefnanda var sagt upp störfum með bréfi dagsettu 25. september 1992.

Stefnandi kveður að á árinu 1991 hafi komið til mótmælaaðgerða starfsmanna ríkis­stofnana í kjölfar bráðabirgðalaga, sem sett hafi verið í tilefni af kjarasamningum þeirra.  Hafi mótmælin falist í því að starfsmenn tilkynntu veikindi einn vinnudag.  Stefnandi kveðst ekki hafa tekið þátt í þessum mótmælaaðgerðum og hafa, einn starfs­manna, mætt til vinnu umræddan dag.  Þennan dag hafi deildarstjóri og settur for­stöðu­maður komið á vinnustaðinn og séð stefnanda að störfum.  Í kjölfar þessa hafi settur forstöðumaður og starfandi framkvæmdastjóri stefnda hafið bréfaskipti við stefn­anda og síðan sagt henni upp störfum með bréfi dagsettu 25. september 1992.  Stefndu telja þessar fullyrðingar stefnanda hreinan uppspuna.

 

III.

Stefnandi byggir kröfu sína á því, að ástæður þess að ótímabundnum ráðn­ing­ar­samn­ingi hennar við Hollustuvernd ríkisins, staðfestum af fjármálaráðuneytinu, hafi verið sagt upp með bréfi dagsettu 25. september 1992, megi rekja til þess að stefnandi hafi ekki tekið þátt í mótmælum stéttarfélags stefnanda, Félagi íslenskra nátt­úru­fræð­inga.  Ekki hafi verið unnt að segja upp ráðningarsamningnum á þessum grunni.  Upp­sögnin hafi verið brot á 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, nr. 62/1994, sbr. lög nr. 25/1998 og 75. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, lög nr. 33/1944, sbr. lög nr. 97/1995.  Því verði að draga uppsögnina til baka.

Kröfu um málskostnað byggir stefnandi á 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einka­mála. 

 

IV.

Stefndu byggja kröfu sína um frávísun málsins á því að krafan hafi áður verið dæmd að efni til og verði því ekki á ný borin undir sama eða hliðsettan dóm, sbr. 2. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.  Héraðsdómur í máli stefnanda frá 22. apríl 1994 sé bindandi fyrir hana um það sakarefni sem hér sé til umfjöllunar, sbr. 1. mgr. 116. gr. sömu laga.

Þá beri að vísa málinu frá ex officio, þar sem dómkrafa stefnanda, eins og hún sé sett fram, sé ódómtæk og utan valdheimilda dómstólsins.

Einnig byggja stefndu frávísunarkröfu sína á því, að samhengi þeirrar málsástæðu stefnanda, um að meint aðgerðarleysi stefnanda í mótmælaaðgerðum stéttarfélags hafi leitt til uppsagnar hennar, sé það óljóst, að vísa beri málinu frá, án tillits til annarra þátta, sbr. d., e. og g. –liði 80. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

Stefnandi krefst þess, að frávísunarkröfu stefndu verði hrundið og sér verði dæmdur málskostnaður í þessum þætti málsins.  Byggir hún á því, að um nýtt mál milli aðila sé að ræða um aðra kröfu, en dæmt hafi verið um áður.

 

V.

Krafa stefnanda í máli þessu lýtur að lögmæti uppsagnar hennar úr starfi hjá stefnda, Hollustuvernd ríkisins.  Fyrir liggur að stefnandi hefur tvívegis áður höfðað mál vegna áðurgreindrar uppsagnar stefnanda úr starfi.  Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur dagsettum 22. apríl 1994, var ríkissjóður sýknaður af kröfu stefnanda um skaða­bætur vegna uppsagnar á fyrrgreindum ráðningarsamningi, sem stefnandi taldi hafa verið ólögmæta brottvikningu úr stöðu.  Síðara máli stefnanda, vegna sömu upp­sagnar úr starfi, var vísað frá dómi með dómi Hæstaréttar Íslands, dagsettum 26. október 1999.  Þó svo að krafa stefnanda nú sé að stefndu verði gert að draga upp­sögnina til baka og  byggt á þeirri málsástæðu að ástæða uppsagnarinnar hafi verið sú, að stefnandi hafi ekki tekið þátt í mótmælaaðgerðum stéttarfélags síns, er dómur Héraðsdóms Reykjavíkur frá 22. apríl 1994 bindandi um sakarefnið, þar sem dæmt var um gildi uppsagnarinnar.  Verður ekki annað séð en að þá þegar hafi verið tilefni til að halda fram þeirri málsástæðu, sem stefnandi teflir nú fram kröfu sinni til stuðnings, í því máli.  Þegar af þeirri ástæðu ber því, samkvæmt 2. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991, að vísa máli þessu frá dómi.

Samkvæmt þessari niðurstöðu ber að dæma stefnanda til að greiða stefndu máls­kostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 50.000 krónur.

Hervör Þorvaldsdóttir, héraðsdómari, kvað upp úrskurð þennan.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Máli þessu er vísað frá dómi.

Stefnandi greiði stefndu 50.000 krónur í málskostnað.