Hæstiréttur íslands
Mál nr. 139/2013
Lykilorð
- Hættubrot
- Ölvun við akstur
- Ásetningur
|
|
Miðvikudaginn 19. júní 2013. |
|
Nr. 139/2013.
|
Ákæruvaldið (Kolbrún Benediktsdóttir saksóknari) gegn X (Björgvin Jónsson hrl.) |
Hættubrot. Ölvun við akstur. Ásetningur.
X var ákærður fyrir brot á 4. mgr. 220. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, með því að hafa ekið undir áhrifum áfengis og með akstrinum stofnað lífi og heilsu þriggja ára sonar síns, sem var farþegi í bifreið hans, í hættu á ófyrirleitinn hátt. Í dómi Hæstaréttar kom fram að ekki nægði að verknaður X samrýmdist verknaðarlýsingu ákvæðisins, heldur yrði ákæruvaldið jafnframt að færa sönnur á að hann hefði haft ásetning til að stofna lífi eða heilsu annarra manna í augljósan háska, sbr. 18. gr. sömu laga. Ekkert var upplýst í málinu um ökuhraða bifreiðarinnar sem X ók í umrætt sinn, aksturslag hans eða stjórntök á henni að öðru leyti. Meðal annars vegna þessa var ekki talið sannað, svo hafið væri yfir skynsamlegan vafa, að X hefði með framferði sínu haft ásetning til að stofna lífi og heilsu sonar síns í augljósan háska. Var X því sýknaður.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Eiríkur Tómasson og Greta Baldursdóttir.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 9. janúar 2013. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að ákærði verði sakfelldur fyrir hættubrot samkvæmt ákæru og hann dæmdur til refsingar.
Ákærði krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms, til vara að sér verði ekki gerð refsing, en að því frágengnu að refsingin verði væg og bundin skilorði.
Í máli því sem hér er til úrlausnar er ákærða gefið að sök brot á 4. mgr. 220. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa 10. maí 2011 ekið bifreiðinni [...]-[...] undir áhrifum áfengis frá leikskólanum [...] við [...] að [...] í Reykjavík og stofnað með akstrinum lífi og heilsu þriggja ára sonar síns, sem var farþegi í bifreiðinni, „í hættu á ófyrirleitinn hátt“ eins og segir í ákæru. Samkvæmt gögnum málsins, einkum sérfræðilegri álitsgerð þeirra A og B og framburði þeirra fyrir dómi, telst sannað svo að hafið sé yfir vafa að ákærði var ofurölvi þegar hann ók bifreiðinni umrætt sinn með son sinn sem farþega í henni eftir að hafa sótt hann í leikskólann.
Samkvæmt 4. mgr. 220. gr. almennra hegningarlaga er refsivert að stofna lífi eða heilsu annarra í augljósan háska í ábataskyni, af gáska eða á annan ófyrirleitinn hátt. Ekki kemur fram í verknaðarlýsingu ákæru þótt ástæða hefði verið til að ákærði hafi með háttsemi sinni stofnað lífi og heilsu barnsins í augljósan háska, svo sem áskilið er í ákvæðinu. Vegna þess að vísað er til ákvæðisins í ákærunni kemur þessi annmarki þó ekki í veg fyrir að úr því verði efnislega leyst hvort ákærði hafi gerst sekur um það brot sem þar er lýst refsivert.
Ekki er nægilegt til að maður verði sakfelldur fyrir brot á 4. mgr. 220. gr. almennra hegningarlaga að sá verknaður sem hann er ákærður fyrir samrýmist verknaðarlýsingu ákvæðisins, heldur verður ákæruvaldið jafnframt að færa sönnur á að hann hafi haft ásetning til að stofna lífi eða heilsu annarra manna í augljósan háska, sbr. 18. gr. sömu laga. Eins og tekið er fram í forsendum hins áfrýjaða dóms er ekkert upplýst um ökuhraða bifreiðarinnar, sem ákærði ók í umrætt skipti, aksturslag hans eða stjórntök á henni að öðru leyti. Þó báru vitnin C og D aðspurðar fyrir dómi að þær hafi ekki tekið eftir neinu athugaverðu við akstur bifreiðarinnar þegar ákærði ók af stað frá leikskólanum. Þá liggur fyrir að hann kom syni sínum fyrir í barnabílstól í aftursæti bifreiðarinnar þótt hann þyrfti aðstoð annars til að festa hann niður í stólinn að sögn vitnanna C og D. Þegar þetta er virt verður ekki talið að sannað sé, svo að hafið sé yfir skynsamlegan vafa, að ákærði hafi með framferði sínu haft ásetning til að stofna lífi og heilsu sonar síns í augljósan háska. Verður því þegar af þeirri ástæðu að sýkna hann af ákæru um brot á áðurgreindu refsiákvæði og staðfesta niðurstöðu hins áfrýjaða dóms, svo og ákvæði hans um sakarkostnað í héraði.
Samkvæmt þessum málsúrslitum greiðist allur áfrýjunarkostnaður málsins úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða fyrir Hæstarétti sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Allur áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun verjanda ákærða fyrir Hæstarétti, Björgvins Jónssonar hæstaréttarlögmanns, 313.750 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 12. desember 2012.
Málið er höfðað með ákæru ríkissaksóknara, dagsettri 2. júlí sl. á hendur ákærða, X, kt. [...]-[...], [...], [...], „fyrir ölvunarakstur og hættubrot, með því að hafa þriðjudaginn 10. maí 2011 ekið bifreiðinni [...]-[...] undir áhrifum áfengis (vínandamagn í blóði 3,00), frá leikskólanum [...], [...] að [...] í Reykjavík þar sem hann stöðvaði bifreiðina, en með akstrinum stofnað lífi og heilsu sonar síns, E sem þá var þriggja ára og var farþegi í bifreiðinni, í hættu á ófyrirleitinn hátt.
Telst þetta varða við 1., sbr. 3. mgr. 45. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 1. gr. laga nr. 48/1997 og 4. mgr. 220. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, til greiðslu alls sakarkostnaðar og til sviptingar ökuréttar skv. 101. og 102. gr. nefndra umferðarlaga, sbr. 25. gr. laga nr. 44/1993 og 18. gr. laga nr. 66/2006.“
Dæmt var um sakirnar í máli þessu 8. nóvember sl. að öðru leyti en því að ákærunni var vísað frá dómi að því er tekur til brots gegn 4. mgr. 220. gr. almennra hegningarlaga, þar sem ákæran væri óljós að þessu leyti. Var sú niðurstaða kærð til hæstaréttar Íslands. Hæstiréttur telur ákæruna vera skýra að þessu leyti og að ákærða megi vera ljóst að hann sé saksóttur fyrir það að hafa stofnað lífi og heilsu sonar síns í hættu á ófyrirleitinn hátt með því að aka ofurölvi með hann sem farþega í bílnum. Þannig hafi brotið verið framið tiltekinn dag og með akstri frá einum stað til annars, eins og nánar sé tilgreint. Hefur héraðsdómurinn verið ómerktur um þetta atriði og málinu vísað heim í hérað til efnisúrlausnar um það.
Málavextir
Fyrir liggur að þriðjudaginn 10. maí 2011 kom ákærði akandi að leikskólanum [...] í [...], Reykjavík að sækja þangað ungan son sinn. Þóttist starfsfólk þar merkja áfengisáhrif á ákærða og tilkynnti um það til lögreglu. Ók ákærði þvínæst heim til sín í [...], þar sem hann var handtekinn.
1. Atriði sem varða akstur og stjórntök ákærða á bílnum [...]-[...] og hvort hann hafi með þeim stofnað lífi og heilsu farþegans í augljósan háska.
Ákærði ók, eftir því sem fram er komið í málinu, um [...], [...], [...], [...], [...] og loks að [...]. Vitni sem sáu hann aka frá barnaheimilinu hafa ekki lýst aksturslagi hans sérstaklega. Allmargar beygjur og gatnamót eru á leiðinni en ekkert liggur fyrir um það í málinu hversu akstri ákærða var háttað þegar hann fór þar um. Þá er ekki vitað um ökuhraða ákærða á þessari leið eða stjórntök hans á bílnum að öðru leyti. Loks er ekki vitað um aðra umferð á þessari leið meðan á akstrinum stóð, en ætla má að hún hafi verið nokkur á þessum tíma dags.
2. Hvort ákærði hafi, vegna ölvunar, verið svo ófær um að aka [...]-[...], að hann hafi með ölvuninni einni saman stofnað lífi og heilsu farþegans í augljósan háska.
Þeim F og C, starfsmönnum á leikskólanum [...], ber saman um það að áfengisþefur hafi verið af ákærða þegar hann kom að sækja barnið og að áfengisáhrif hafi verið greinanleg á honum. Hafi hann verið breyttur í fasi og hreyfingum og skrafhreifnari en venjulega. Þá segja þær að hann hafi fengið hjálp hjá einhverjum nærstöddum við að festa barnið í bílstólinn.
Lögreglumönnunum G og H ber saman um það að áfengisþefur hafi verið af ákærða þegar þeir hittu hann að akstrinum loknum og að fas hans hafi bent til þess að hann væri undir áhrifum áfengis. H segir auk þess að ákærði hafi verið áberandi ölvaður og slagað lítið eitt. Hafi hann virst langdrukkinn.
Samkvæmt staðfestri álitsgerð tveggja sérfræðinga rannsóknastofu háskólans í lyfja- og eiturefnafræði, þeirra A og B lyfjafræðings, sem unnin var að beiðni lögreglustjóra segir svo:
„Í bréfinu er beðið um mat á niðurstöðum úr etanólmælingu í blóð- og þvagsýnum nr. 59590, 59592 og 59591. Sýnin voru rannsökuð á Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði þann 19. maí sl. (rannsóknanúmer RLE 110984). Etanólstyrkur í blóðsýni 59590 mældist 3,15 , í blóðsýni 59592 mældist 3,00 og í þvagsýni 59591 mældist 3,97 (endanlegar niðurstöður 3,00 , 2,85 og yfir 3,1 ). Blóðsýni 59590 var tekið kl.17:28, þvagsýnið kl. 17:36 og blóðsýni 59591 kl. 18:35. Í bréfi embættisins er beðið um að lagt verði mat á ölvunarástand meints ökumann um kl: 16:16. Í framburður ökumannsins kemur fram að hann hafi drukkið 5 stk. af 33 cl Faxe bjór (4,6 %) milli kl. 16:16 og 16:25.
Þegar áfengis er neytt fer hið virka efni þess, etanól, gegnum slímhúð meltingarvegarins yfir í blóðrásina. Þetta er venjulega kallað frásog. Meðan þessu fer fram fer styrkur etanóls hækkandi í blóðinu. Þegar neyslu etanóls er hætt líður nokkur tími þar til allt það etanól, sem kann að vera í maga og þörmum hefur náð að frásogast. Venjulega er gert ráð fyrir að því ljúki innan 1-2 klukkustunda (þættir sem hafa þar áhrif eru t.d. hvort drukkið er á fastandi maga, tegund og magn áfengis). Þá fer styrkur etanóls í blóði að falla. Hann fellur með nokkuð jöfnum hraða, sem er einstaklingsbundinn og getur verið 0,12 -0,25 á klst. U.þ.b. 2 % af neyttu etanóli skilst óumbreytt úr líkamanum og þá fyrst og fremst með þvagi. Útskilnaður etanóls úr blóði í þvag hefst strax og frásog etanóls í blóð hefst úr meltingarvegi. Þetta gerist hægt í byrjun en etanólstyrkur þvagsins eykst svo jafnt og þétt. Hátt hlutfall milli etanólstyrks í þvagi og blóði bendir til að talsverður tími sé frá því að viðkomandi losaði þvag síðast og einnig er það sterk vísbending að etanól í blóði hafi verið fallandi á þeim tíma sem sýnin voru tekin. Lágt hlutfall bendir hins vegar til, að drykkju hafi nýlega verið hætt og frásogi ekki lokið. Þegar jafnvægi er milli þvags og blóðs er hlutfallið nálægt 1,2 - 1,3.
Á niðurstöðum úr etanólmælingunum sést að etanólstyrkur hefur u.þ.b. náð hámarki í blóði viðkomandi ökumanns um kl. 17:28. Það styður niðurstaða úr seinna blóðsýni 59592 og einnig hlutfallið milli þvags og blóðs (1,3). Drykkja á fimm 33 cl bjórum (4,6 % ) samsvarar 60 g af etanóli. Í 80 kg karlmanni gæti etanólstykur eftir slíka drykkju mælst 0,7 til 1,5 að algjöru hámarki. Samkvæmt því og þegar litið er á hinn geysiháa etanólstyrk í blóðinu og sér í lagi þvaginu (áfengiseitrun?) um kl. 17:30, er nær öruggt að viðkomandi ökumaður hefur neytt mun meira áfengis fyrr um daginn. Samkvæmt framansögðu hefur viðkomandi ökumaður verið mjög ölvaður, þegar hann ók bifreiðinni kl 16:16.“
Í málinu eru engar almennar upplýsingar um færni manna til þess að stjórna bíl á mismunandi stigum ölvunar eða hvort munur geti verið manna á milli að þessu leyti. Þá er ljóst af gögnum málsins að læknir var ekki kvaddur til þess að meta færni ákærða til þess að stjórna bíl.
Niðurstaða
Samkvæmt 4. mgr. 220. gr. almennra hegningarlaga skal sá maður sæta fangelsi allt að 4 árum, sem í ábataskyni, af gáska eða á annan ófyrirleitinn hátt stofnar lífi eða heilsu annarra í augljósan háska. Af ákvæðinu er því ljóst að ekki nægir til sakfellis að athæfi manns sé þannig farið að það valdi öðrum manni háska heldur verður athæfið augljóslega að gera það. Í ákærunni er ákærði saksóttur fyrir það að stefna lífi og heilsu E í „hættu“ sem ætla verður að standi þar í merkingunni háski.
Sem fyrr segir er ekkert upplýst um ökuhraða ákærða á leiðinni úr [...] í [...]. Ekki liggur annað fyrir en að aksturinn hafi verið áfallalaus og ekkert hefur verið upplýst um aksturslag hans og stjórntök að öðru leyti. Er því ósannað að ákærði hafi með aksturslagi og stjórntökum sínum á bílnum stofnað lífi og heilsu E í augljósan háska.
Samkvæmt 3. mgr. 45. gr. umferðarlaga telst ökumaður óhæfur til þess að stjórna ökutæki ef vínandamagn í blóði hans nemur 1,20 eða meira eða ef vínandamagn í lofti, sem hann andar frá sér, nemur 0,60 milligrömmum í lítra lofts eða meira. Í málflutningi sækjandans hefur sá skilningur komið fram, að sé ökumaður „óhæfur“ til þess að stjórna ökutæki í skilningi 3. mgr. 45. gr. umferðarlaga, megi það jafngilda því að hann stefni heilsu og lífi farþega síns í „augljósan háska“. Er ekki kunnugt um að saksókn fyrir brot gegn 4. mgr. 220. gr. almennra hegningarlaga hafi áður verið byggð á þessu sjónarmiði. Í ákvæði 3. mgr. 45. gr. umferðarlaga felst sakarlíkindaregla, sem styðst við augljós réttarvörslu- og samræmissjónarmið, en á hinn bóginn áskilur hegningarlagabrotið ásetning, sbr. 18. gr. þeirra laga. Getur dómurinn ekki fallist ekki á þetta sjónarmið ákæruvaldsins og hafnar því að heimilt sé að byggja á sakarlíkindareglu 3. mgr. 45. umferðarlaga þegar til álita kemur hættubrot samkvæmt 4. mgr. 220. gr. almennra hegningarlaga.
Þegar svo haft er í huga að engin læknisrannsókn fór fram til þess að rannsaka ökufærni ákærða eftir að hann var handtekinn og það jafnframt að í málinu hafa ekki verið lagðar fram upplýsingar almenns eðlis, um það hvernig ökufærni manna fer eftir ölvunarstigi þeirra og þá hvort sú færni geti verið mismunandi eftir mönnum, telst vera ósannað, þrátt fyrir það, sem upplýst er um greinanleg áfengisáhrif á ákærða og um vínandamagn í honum, að hann hafi, ölvunar vegna, verið svo ófær um að aka bílnum í umrætt sinn, að hann hafi með ölvuninni einni saman stofnað lífi og heilsu farþegans í augljósan háska.
Samkvæmt því sem hér hefur verið ályktað ber að sýkna ákærða af ákærunni og leggja á ríkissjóð 150.000 króna málsvarnarlaun verjandans, Björgvins Jónssonar hrl., þ. á m. vegna kæru. Eru þau dæmd með virðisaukaskatti.
Pétur Guðgeirsson héraðsdómari kvað upp dóminn.
DÓMSORÐ:
Ákærði, X, er sýkn af ákæru í máli þessu.
Málsvarnarlaun verjandans, Björgvins Jónssonar hrl., 150.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.