Hæstiréttur íslands
Mál nr. 422/2001
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Þriðjudaginn 13. nóvember 2001. |
|
Nr. 422/2001. |
Sýslumaðurinn á Ólafsfirði(Ástríður Grímsdóttir sýslumaður) gegn X (Sigurður Eiríksson hdl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Með hliðsjón af sakarferli X þótti fullnægt skilyrðum c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 til gæsluvarðhalds yfir honum. Gæsluvarðhaldsúrskurður héraðsdóms var því staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 7. nóvember 2001, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 12. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 7. nóvember 2001, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 12. desember nk. kl. 16. Kæruheimild er í 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.
Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur.
Eins og greinir í hinum kærða úrskurði er varnaraðili meðal annars borinn sökum um að hafa brotist 2. nóvember sl. inn í fiskiskipið Sæþór EA 101, þar sem það var við bryggju á Dalvík, og tekið þaðan deyfilyf, sem ætluð voru til notkunar með sprautu. Varnaraðili gekkst við þessu broti í lögregluskýrslu 5. nóvember sl. Hann er og borinn sökum um að hafa ásamt öðrum nafngreindum manni brotist inn í húsakynni veitingahússins Glaumbæjar á Ólafsfirði 31. október sl., en samkvæmt greinargerð sóknaraðila fyrir Hæstarétti hefur sá maður nú játað fyrir lögreglu að hafa átt hlut að því innbroti ásamt varnaraðila. Svo sem getið er í úrskurði héraðsdómara er í kröfu sóknaraðila um gæsluvarðhald að auki greint frá níu öðrum málum frá þessu ári, þar sem varnaraðili er grunaður um brot gegn almennum hegningarlögum, umferðarlagabrot og fíkniefnalagabrot, en þau mál séu öll til rannsóknar hjá lögreglunni í Reykjavík og Keflavík.
Með dómi Héraðsdóms Norðurlands eystra 11. október sl. var varnaraðili dæmdur í tíu mánaða fangelsi fyrir þjófnað, ölvunarakstur og akstur án ökuréttar í ágúst 2001, svo og fíkniefnalagabrot í desember 2000. Við ákvörðun þeirrar refsingar var tekin upp reynslulausn á 130 daga eftirstöðvum níu mánaða refsivistar, sem varnaraðila var gert samtals að sæta með fjórum dómum Héraðsdóms Norðurlands eystra og Héraðsdóms Vesturlands frá mars, júní og ágúst 2000 fyrir brot gegn almennum hegningarlögum, umferðarlagabrot og fíkniefnalagabrot. Við birtingu dómsins frá 11. október 2001 hinn 2. nóvember sl. tók varnaraðili sér frest til að ákveða hvort dóminum yrði áfrýjað af sinni hendi. Samkvæmt framlögðu sakavottorði hefur varnaraðili þessu til viðbótar fjórum sinnum hlotið dóm á árunum 1998, 1999 og 2000 fyrir brot gegn almennum hegningarlögum, umferðarlagabrot og fíkniefnalagabrot og var þar gert að sæta alls níu mánaða fangelsi.
Þegar þess er gætt, sem að framan greinir, verður að fallast á með sóknaraðila að ætla megi að varnaraðili haldi áfram brotum ef hann heldur frelsi sínu meðan frestur stendur yfir til að áfrýja dómi Héraðsdóms Norðurlands eystra frá 11. október 2001 og öðrum málum hans er ólokið. Áðurgreind brot 31. október og 2. nóvember sl., sem varnaraðili er borinn sökum um, geta varðað hann fangelsisrefsingu. Því er fullnægt skilyrðum c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 til gæsluvarðhalds yfir varnaraðila. Er lengd þess hæfilega mörkuð í úrskurði héraðsdómara, sem samkvæmt þessu verður staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 7. nóvember 2001
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar í gær, er tilkomið vegna kröfu sýslumannsins í Ólafsfirði, dagsett 5. þ.m. og móttekin í gær, þar sem þess er krafist að X [ . . . ] verði úrskurðaður í gæsluvarðhald til 12. desember 2001 kl. 16:00. Er krafan gerð með vísan til b- og c- liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19, 1991.
Málavextir eru þannig raktir, að 2. þ.m. hafi verið brotist inn í m/b Sæþór EA-101, sem lá í Dalvíkurhöfn. Hafi verkjalyfinu Phenergan í stungulyfjaformi verið stolið og hafi X viðurkennt við yfirheyrslu aðild sína að innbrotinu. Aðfaranótt 31. f.m. hafi X komið akandi frá Reykjavík til Akureyrar, en hann hafi verið sviptur ökuréttindum ævilangt. Hafi hann verið handtekinn á Akureyri 5. þ.m. að beiðni Héraðsdóms Reykjavíkur, en mál sé þar til meðferðar þar sem hann sé ákærður og hafi hann ekki mætt þar þrátt fyrir boðanir. Sé fjöldi mála á rannsóknarstigi sem X er grunaður um að eiga þátt í frá því í sumar og haust. Sé hann í fíkniefnaneyslu og atvinnulaus og hafi hann undanfarna daga haldið sig hér á Akureyri að [ . . . ] en þar sé ástunduð neysla fíkniefna og áfengisdrykkja. Bendi gögn til þess að X hafi komið þar með þýfi úr innbroti í Glaumbæ í Ólafsfirði aðfaranótt 31. f.m.
Eftirfarandi mál séu á rannsóknarstigi í Reykjavík og Keflavík:
X hafi verið handtekinn 31. f.m. vegna gruns um fíkniefnavörslur og hafi fíkniefni fundist í bifreið sem hann ók sviptur ökuréttindum í það skipti.
Hann hafi verið handtekinn vegna innbrots, þjófnaðar og vörslu fíkniefna í Smáratorgi í Kópavogi 23. júlí s.l.
Kærður fyrir akstur sviptur ökuréttindum.
Kærður vegna innbrots, þjófnaðar og eignaspjalla að Klapparstíg 40, Reykjavík, 1. júlí s.l.
Kærður vegna neyslu, ölvunaraksturs o.fl.
Kærður vegna innbrots og þjófnaðar í m/s Eldhamar GK 13 þann 1. júní s.l.
Kærður vegna innbrots og þjófnaðar í Miðgarð, Grindavíkurhöfn þann sama dag.
Kærður vegna rangra sakargifta, ölvunaraksturs og aksturs sviptur ökuréttindum þann sama dag.
Sama dag kærður vegna innbrots og þjófnaðar í m/s Arney í Hafnarfjarðarhöfn.
Fleiri mál séu til meðferðar hjá lögreglustjórum, en séu eldri en að framan greinir.
Þá hafi X verið dæmdur 11. f.m. í Héraðsdóms Norðurlands eystra í fangelsi í 10 mánuði óskilorðsbundið. Hafi þar verið um að ræða ölvunarakstur og akstur sviptur ökuréttindum þann 12. ágúst s.l. og innbrot í verslunina Valberg á Ólafsfirði 11. ágúst s.l.
Við birtingu dóms í máli þessu, sem auðkennt er S-212/2001 þann 2. þ.m. hafi hann tekið sér fjögurra vikna frest til ákvörðunar um áfrýjun til Hæstaréttar. Geti hann því ekki hafið afplánun fyrr en að þeim tíma liðnum.
Samkvæmt sakavottorði eigi X að baki yfir hálfan tug fangelsisdóma. Sé því ljóst að X sé síbrotamaður og hafi þegar hafið brotaferil á undanförnum vikum. Sé mikil hætta talin á að hann muni halda brotum áfram þann tíma sem hann gangi laus og sé því nauðsynlegt að láta hann sæta gæsluvarðhaldi þar til dómur er upp kveðinn í Hæstarétti í máli S-212/2001 eða þar til hann hefur hafið afplánun vegna annarra mála. Eigi því hér við ákvæði b- og c- liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19, 1991 þar sem ætla megi að hann muni halda áfram afbrotum á meðan málum hans sé ekki lokið, svo og að hann muni leynast eða koma sér með öðrum hætti undan málsókn og/eða fullnustu refsingar.
Við þingfestingu málsins í gær krafðist réttargæslumaður X, Sigurður Eiríksson hdl., að kröfu sýslumanns yrði hrundið og til vara að gæsluvarðhaldstíminn yrði verulega styttur. Taldi hann umbjóðanda sinn ekki á síðustu vikum hafa verið í jafnmikilli brotastarfsemi og áður. X tók undir kröfu verjanda síns og upplýsti að hann hefði í gær í Reykjavík gefið skýrslu fyrir lögreglu í máli nr. 010-2001-16700 og í máli nr. 010-2001-16697. Er fyrra málið akstur bifreiðar sviptur ökuréttindum og síðara málið kæra vegna ölvunaraksturs og fleira.
Álit dómsins:
Með vísan til þess sem að framan er rakið svo og sakaferils X, sem er óslitinn frá árinu 1993 og virðist þéttast með hækkandi aldri hans, fellst dómurinn á að ætla megi að hann muni halda áfram brotum meðan málum hans er ekki lokið svo og á þær málsástæður aðrar er að framan greinir og er því krafan um gæsluvarðhald tekin til greina að fullu.
Úrskurð þennan kveður upp Ásgeir Pétur Ásgeirsson, héraðsdómari.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
X [ . . . ] skal sæta gæsluvarðhaldi allt til kl. 16:00 miðvikudaginn 12. desember 2001.