Hæstiréttur íslands
Mál nr. 92/2007
Lykilorð
- Kærumál
- Ákæra
- Stjórnarskrá
- Mannréttindi
- Frávísun frá héraðsdómi
- Sératkvæði
|
|
Föstudaginn 16. mars 2007. |
|
Nr. 92/2007. |
Ákæruvaldið(Helgi Magnús Gunnarsson saksóknari) gegn Einari Benediktssyni (Gísli Baldur Garðarsson hrl.) Geir Magnússyni og(Ragnar Tómas Árnason hdl.) Kristni Björnssyni(Ragnar Halldór Hall hrl.) |
Kærumál. Ákæra. Stjórnarskrá. Mannréttindi. Frávísun máls frá héraðsdómi. Sératkvæði.
Á kærði úrskurð héraðsdóms, þar sem ákæru á hendur E, G og K var vísað frá dómi. Talið var að fyrirkomulag samkeppnislaga hefði ekki verið nógu skýrt um meðferð máls ef grunur vaknaði um að brotið hefði verið gegn lögunum, og þar af leiðandi óskýrt hvernig með skyldi fara ef tilefni þætti til opinberrar rannsóknar jafnhliða meðferð samkeppnisyfirvalda og hvenær beita ætti refsiviðurlögum. Átti það meðal annars við þá stöðu E, G og K að taka þátt í viðræðum og samningum við Samkeppnisstofnun og veita henni upplýsingar, en fella á sama tíma á sig sök með því að málið var síðar tekið til refsimeðferðar. Var því ekki talið nægjanlega fram komið að í lögreglurannsókninni, sem fór fram í kjölfar meðferðar samkeppnisyfirvalda, hefðu þeir, eins og þeirri rannsókn var hagað, fengið notið þeirra réttinda sakborninga, sem mælt er fyrir um í 70. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944 og meginreglum laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Yrði því ákæra ekki reist á þeirri lögreglurannsókn og var niðurstaða héraðsdóms því staðfest.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Garðar Gíslason, Hjördís Hákonardóttir, Hrafn Bragason og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 12. febrúar 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. febrúar 2007, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðilum var vísað frá dómi. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.
Varnaraðilar krefjast þess að úrskurður héraðsdóms verði staðfestur og sakarkostnaður lagður á ríkissjóð, þar með talin málsvarnarlaun skipaðra verjenda þeirra.
I.
Ríkissaksóknari höfðaði mál á hendur varnaraðilum með ákæru 12. desember 2006 fyrir brot gegn samkeppnislögum. Í inngangi ákærunnar segir að varnaraðilar hafi á tímabilinu frá 1. mars 1993 til ársloka 2001, sem forstjórar þriggja nafngreindra olíufélaga, haft ólögmætt samráð, ýmist sjálfir eða fyrir milligöngu undirmanna sinna, með það að markmiði að hafa áhrif á og koma í veg fyrir samkeppni milli félaganna. Það hafi þeir gert með innbyrðis samningum og samstilltum aðgerðum í tengslum við gerð tilboða og við sölu á vörum til viðskiptavina félaganna, skiptingu markaða og við ákvörðun söluverðs, afsláttar, álagningar og viðskiptakjara, auk þess að skiptast á ýmsum upplýsingum um viðskipti og hegðun á markaði svo sem greini í þremur köflum, sem fylgja nefndum inngangi ákærunnar. Ber hinn fyrsti fyrirsögnina „Samráð við gerð tilboða“ og hefur að geyma fimm ákæruliði, annar fyrirsögnina „Markaðsskipting“, sem telur tólf liði, en sá þriðji nefnist „Samráð um ákvörðun verðs á söluvörum, afsláttar, álagningar og viðskiptakjara“ og er í tíu liðum. Ákæruliðir eru samkvæmt því alls 27 talsins og er ákæran löng og ítarleg. Í fjórða kafla er gerð grein fyrir heimfærslu til refsiákvæða. Segir þar að brot allra ákærðu samkvæmt 1. til 5. tölulið í 1. kafla teljist varða við a. lið 2. mgr. 10. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005, sbr. c. lið 1. mgr. 10. gr. áðurgildandi samkeppnislaga nr. 8/1993 og a. lið 2. mgr. 3. gr. laga nr. 107/2000 um breytingu á samkeppnislögum og ennfremur 1. mgr. 42. gr. laga nr. 44/2005 og 1. mgr. 57. gr. laga nr. 8/1993. Þá segir um annan kafla ákærunnar að brot ákærðu samkvæmt einstökum liðum hans nr. 6 til 17 teljist varða við c. lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 44/2005, sbr. b. lið 1. mgr. 10. gr. laga nr. 8/1993 og c. lið 2. mgr. 3. gr. laga nr. 107/2000 og ennfremur 1. mgr. 42. gr. laga nr. 44/2005 og 1. mgr. 57. gr. laga nr. 8/1993. Loks segir um þriðja kafla ákæru að brot samkvæmt liðum nr. 18 til 27 teljist varða við a. lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 44/2005, sbr. a. lið 1. mgr. 10. gr. laga nr. 8/1993 og a. lið 2. mgr. 3. gr. laga nr. 107/2000 og ennfremur 1. mgr. 42. gr. laga nr. 44/2005 og 1. mgr. 57. gr. laga nr. 8/1993. Þá er þess krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar fyrir framangreind brot.
Í hinum kærða úrskurði er greint frá því að málið hafi hafist með rannsókn Samkeppnisstofnunar á ólögmætu samráði þriggja olíufélaga, sem stofnunin hratt af stað með húsleit, haldlagningu skjala og afritun tölvutækra gagna á starfsstöðum félaganna 18. desember 2001, en rannsóknin hafi lotið að grun um brot þeirra á 10. gr. samkeppnislaga nr. 8/1993. Þar er því jafnframt lýst að verulegur hluti þeirra gagna sem fylgdu ákæru til héraðsdóms hafi með beinum hætti stafað frá Samkeppnisstofnun. Þar á meðal hafi verið fundargerðir frá fjölda funda sem stofnunin hélt með starfsmönnum olíufélaganna þriggja, hverju fyrir sig, á tímabilinu 2. apríl 2002 til 23. apríl 2003. Tilgangur stofnunarinnar hafi verið að afla nánari upplýsinga um ætluð samkeppnisbrot félaganna, en þátttaka þeirra í fundunum hafi stefnt að því að ná fram lækkun á stjórnvaldssektum. Ákærðu voru allir meðal fundarmanna. Eftir ítarlega rannsókn komst stofnunin að þeirri niðurstöðu í ódagsettri skýrslu að félögin hefðu á tímabilinu frá 1. mars 1993 til 18. desember 2001 haft með sér víðtækt og ólögmætt samráð, sem fæli í sér mjög alvarleg brot á 10. gr. samkeppnislaga. Í skýrslunni var einnig fjallað um ráðgerða álagningu stjórnvaldssekta á félögin samkvæmt 52. gr. laganna og reifuð sjónarmið um fjárhæð þeirra, en tvö félaganna hefðu lagt sitt af mörkum til að upplýsa málið og gætu því vænst lægri sekta en ella. Voru félögin talin hafa veitt veigamiklar upplýsingar um málsatvik og sér í lagi eitt þeirra gert sitt ítrasta til að tryggja rétta og fullnægjandi upplýsingagjöf starfsmanna sinna. Samkeppnisráð ákvað síðan 28. október 2004 að leggja háar sektir á olíufélögin. Þeirri ákvörðun skutu þau til áfrýjunarnefndar samkeppnismála, sem kvað upp úrskurð í málinu 29. janúar 2005 og lækkuðu sektirnar í öllum tilvikum. Greiddu félögin sektarfjárhæðirnar með fyrirvara um lögmæti þeirra. Þessum þætti er ekki endanlega lokið, því félögin hafa höfðað mál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur gegn Samkeppniseftirlitinu og íslenska ríkinu og krafist þess að úrskurður áfrýjunarnefndar samkeppnismála verði ógiltur, en að því frágengnu að sektir verði lækkaðar.
Áður en stjórnvöld luku þeirri meðferð málsins, sem að framan greinir, átti Samkeppnisstofnun fund með ríkislögreglustjóra 16. júní 2003 þar sem stofnunin greindi frá rannsókn sinni á ætluðu ólögmætu samráði olíufélaganna. Jafnframt var á fundinum boðist til að láta ríkislögreglustjóra í té afrit af frumgögnum Samkeppnisstofnunar, en hann vildi ekki veita þeim viðtöku. Með bréfi 21. ágúst 2003 fól ríkissaksóknari ríkislögreglustjóra að afla gagna hjá Samkeppnisstofnun í því skyni að taka ákvörðun um hvort hefja ætti opinbera rannsókn á ætluðum refsiverðum brotum félaganna og starfsmanna þeirra. Var síðan ákveðið að hefja slíka rannsókn og félögunum kynnt það 30. september sama ár. Með bréfi ríkissaksóknara 23. október 2003 var Samkeppnisstofnun tilkynnt um rannsóknina jafnframt því sem varað var við að leggja stjórnvaldssektir á félögin, en slík ákvörðun var talin geta leitt til þess að ókleift yrði að ná fram kröfu um refsingu og önnur viðurlög á hendur félögunum í refsimáli sem kynni að vera höfðað gegn einstaklingum fyrir brot gegn samkeppnislögum í störfum þeirra hjá olíufélögunum. Ekki var orðið við þeim tilmælum, svo sem áður er komið fram. Með ákæru fylgdi mikill fjöldi rannsóknargagna. Stafar hluti þeirra beinlínis frá Samkeppnisstofnun, en að öðru leyti er um að ræða gögn úr þeirri rannsókn lögreglu, sem stofnað var til síðla árs 2003.
II.
Þegar málið var þingfest 9. janúar 2007 kröfðust ákærðu þess með sérstakri bókun að því yrði vísað frá dómi. Til stuðnings kröfunni tefldu þeir fram röksemdum í sex liðum, en að mati ákærðu ætti hver þeirra ástæðna, sem byggt var á, að leiða ein og sér til þeirrar niðurstöðu sem krafist var. Er gerð grein fyrir röksemdum ákærðu í hinum kærða úrskurði, þar sem héraðsdómur tók afstöðu til allra þeirra sex ástæðna, sem fram voru bornar. Var einni þeirra hafnað, tvær voru taldar eiga að leiða til sýknu ef þær reyndust á rökum reistar, en héraðsdómur féllst á þrjár þeirra fyrir kröfu um frávísun. Var málinu við svo búið vísað frá dómi.
Eitt þeirra atriða, sem byggt var á af hálfu ákærðu og héraðsdómur féllst á, var að einstaklingum yrði ekki gerð refsing vegna þeirrar háttsemi, sem lýst er í ákæru. Var talið að misræmi í ákæru og óglögg lýsing á háttsemi varnaraðila annars vegar og olíufélaganna þriggja hins vegar endurspeglaði óskýrleika samkeppnislaga um það hver eða hverjir gætu borið refsiábyrgð á ólögmætu samráði milli fyrirtækja í skilningi 10. gr., sbr. 1. mgr. 57. gr. áðurgildandi samkeppnislaga nr. 8/1993 með síðari breytingum, og 10. gr., sbr. 1. mgr. 42. gr. núgildandi laga nr. 44/2005 um sama efni. Þótt dæma beri samkvæmt síðastnefndu lögunum verða ákærðu ekki sakfelldir fyrir aðra háttsemi en þá sem lýst var refsiverð í þeim samkeppnislögum, sem í gildi voru þegar atvik málsins urðu og ekki gerð þyngri refsing en orðið hefði eftir þeim lögum, en ákæran nær svo sem að framan greinir yfir tímabilið 1. mars 1993 til ársloka 2001. Meginhluta þess tíma voru í gildi lög nr. 8/1993, sem síðan var breytt með lögum nr. 107/2000, sem giltu út tímabilið. Í úrskurðinum er 10. gr. laganna, sem hér reynir einkum á, tekin upp orðrétt bæði eins og hún var í lögum nr. 8/1993 og eftir breytingar, sem á henni urðu með lögum nr. 107/2000, en greinin svo breytt var tekin orðrétt upp í 10. gr. núgildandi samkeppnislaga nr. 44/2005. Í báðum tilvikum er það sama megineinkenni á 10. gr. að bannaðir eru samningar, samþykktir og samstilltar aðgerðir milli fyrirtækja, sem beinast að ólögmætu markmiði og nánar er lýst. Refsiákvæði 1. mgr. 42. gr. núgildandi laga nr. 44/2005 og samhljóða ákvæði 1. mgr. 57. gr. eldri laga er einnig tekið upp orðrétt í hinum kærða úrskurði. Þá er til þess vísað að í 4. gr. sé að finna orðskýringu á hugtakinu „fyrirtæki“, en í skilningi laganna vísar það jafnt til einstaklinga, félaga og annarra, sem stunda atvinnurekstur eða atvinnustarfsemi gegn endurgjaldi. Refsiákvæðunum er það sameiginlegt að þau hafa ekki að geyma lýsingu á þeirri háttsemi sem lagt er bann við heldur vísa almennt til brota gegn lögunum, reglum og fyrirmælum settum samkvæmt þeim.
Að framan er því lýst að í ákærunni eru varnaraðilar hafðir fyrir sökum vegna háttsemi sem falli undir 10. gr. laga nr. 8/1993, sbr. og lög nr. 107/2000, og talið að þeim verði þess vegna refsað í samræmi við greind ákvæði. Á hinn bóginn er í 52. gr. laga nr. 8/1993, sbr. nú 37. gr. laga nr. 44/2005, kveðið á um stjórnvaldssektir, sem samkeppnisyfirvöld geti lagt á fyrirtæki eða samtök fyrirtækja, sem brjóti gegn bannákvæðum laganna eða ákvörðunum sem teknar hafa verið samkvæmt þeim og er þar vísað sérstaklega til IV. og V. kafla, en kaflarnir hafa meðal annarra ákvæða að geyma 10. gr. Ákvæði 10. gr. kom fyrst fram í lögum nr. 8/1993 og það fyrirkomulag, að samkeppnisráð gæti lagt stjórnvaldssektir á fyrirtæki og samtök fyrirtækja sem brytu gegn bannákvæði greinarinnar, var nýmæli sem var sniðið að löggjöf sem gilti innan Evrópubandalagsins og væntanlegt var að myndi gilda innan Evrópska efnahagssvæðisins. Áður giltu á þessu sviði lög nr. 56/1978 um verðlag, samkeppnishömlur og óréttmæta viðskiptahætti. Höfðu þau ekki að geyma slíka tilhögun. Hins vegar voru í 21. gr. þeirra laga fyrirmæli um að samningar, samþykktir og annað samráð milli fyrirtækja um verð og álagningu væri óheimilt þegar verðlagning væri frjáls. Í 52. gr. þeirra laga var refsiákvæði sem svipaði til 57. gr. laga nr. 8/1993, en ekki var þar heimild til að beita lögaðila sektum eða fyrirmæli um að lögaðili gæti borið ábyrgð á greiðslu sektar sem starfsmaður hans væri dæmdur til að greiða, svo sem er í síðarnefnda ákvæðinu.
Af ákvæðum laga nr. 56/1978 verður ráðið að eingöngu var gert ráð fyrir að starfsmenn fyrirtækja gætu sætt refsiviðurlögum en ekki fyrirtækin sjálf. Er meðal annars um það deilt í máli þessu hvort það hafi verið ætlun löggjafans með breyttu skipulagi samkeppnismála samkvæmt lögum nr. 8/1993 að bregðast við brotum gegn 10. gr. laganna eingöngu með stjórnvaldssektum á hendur fyrirtækjum samkvæmt 52. gr. þeirra eða einnig með refsingum gagnvart starfsmönnum viðkomandi fyrirtækja samkvæmt 57. gr. Halda ákærðu því fram að starfsmönnum fyrirtækja verði ekki gerð refsing fyrir þá háttsemi sem lýst er í ákæru. Þá halda þeir því einnig fram að við lögreglurannsókn málsins og útgáfu ákæru hafi verið brotið gegn reglum um réttarstöðu sakborninga.
III.
Að framan var vikið að samkeppnislögum nr. 8/1993, en með þeim var tekið upp það fyrirkomulag að samkeppnisráði var fengið það hlutverk að framfylgja boðum og bönnum laganna, þar á meðal fyrirmælum 10. gr. þeirra. Með 52. gr. var ráðinu fengið vald til þess að leggja stjórnvaldssektir á fyrirtæki eða samtök fyrirtækja, sem brytu gegn þessum bannákvæðum. Af orðalagi bannreglnanna, þar á meðal 10. gr., þar sem lagt er bann við nánar tilgreindum samningum, samþykktum og samstilltum aðgerðum á milli fyrirtækja, má ráða að þær eru sniðnar að þessu valdsviði samkeppnisráðs. Af lögunum varð ekki skýrlega ráðið hvernig fara ætti um háttsemi starfsmanna fyrirtækja þeirra sem brytu gegn 10. gr., þótt eðlilega séu það starfsmenn fyrirtækjanna sem koma fram á þeirra vegum og fangelsisrefsing samkvæmt 57. gr. laganna geti eðli máls samkvæmt aðeins tekið til einstaklinga. Engin fyrirmæli voru í lögum nr. 8/1993 um skil á milli heimilda lögreglu til rannsóknar samkvæmt þeim og rannsóknar samkeppnisyfirvalda. Ekki var mælt fyrir um hvernig lögreglu bæri að haga rannsókn sinni væri mál til meðferðar hjá samkeppnisyfirvöldum. Þá var því ósvarað hvort lögreglurannsókn mætti fara fram á sama tíma og rannsókn samkeppnisyfirvalda eða hvort gert væri ráð fyrir að hún fylgdi í kjölfarið. Jafnframt var ekki mælt fyrir um áhrif byrjaðrar lögreglurannsóknar á rannsókn samkeppnisyfirvalda og heimild þeirra til álagningar stjórnvaldssekta við slíkar aðstæður. Þá var ekki kveðið á um hvort gögn eða upplýsingar, sem aflað hefði verið við rannsókn samkeppnisyfirvalda, yrðu afhent lögreglu eða hvort nota mætti slíkar upplýsingar, sem fyrirsvarsmenn félaga hefðu veitt, sem sönnunargögn í opinberu máli gegn þeim. Af því sem að framan hefur verið rakið er ljóst að mikil óvissa ríkti um það hvort lögin gerðu ráð fyrir að bannreglu 10. gr. yrði framfylgt með tvennum hætti og hvort miðað væri við að rannsókn gæti bæði farið fram á stjórnsýslustigi og hjá lögreglu. Var því ekki ljóst hverju varnaraðilar, sem fyrirsvarsmenn félaga sinna, mættu búast við um framhald málsins eftir að rannsókn samkeppnisyfirvalda var hafin.
Að framan er því lýst að Samkeppnisstofnun hafði haldið fjölda funda með fyrirsvarsmönnum olíufélaganna, þar á meðal með varnaraðilum, áður en til þess kom að ríkissaksóknari fól ríkislögreglustjóra að kanna hvort einnig skyldi hefja opinbera rannsókn á ætluðum refsiverðum brotum félaganna og starfsmanna þeirra. Höfðu tvö félaganna veitt veigamiklar upplýsingar um málsatvik og lagt sitt af mörkum til að upplýsa málið og sér í lagi eitt þeirra gert sitt ítrasta til þess að tryggja rétta og fullnægjandi upplýsingagjöf starfsmanna sinna. Enda var þeim gefið tilefni til að ætla að á þann hátt yrðu þær stjórnvaldssektir lægri, sem ákveðnar yrðu, sem varð og raunin. Því er haldið fram af hálfu varnaraðila að olíufélögunum hafi verið gefið til kynna af starfsmönnum Samkeppnisstofnunar, áður en ákveðið var að ganga til samstarfs við stofnunina um að upplýsa málið, að ekki myndi koma til eftirfarandi refsimeðferðar á hendur starfsmönnum þeirra. Þótt starfsmenn Samkeppnisstofnunar verði ekki taldir geta skuldbundið ákæruvaldið með þessum hætti liggur fyrir að gengið var til þessarar samvinnu með fyrrgreindri niðurstöðu um lækkun stjórnvaldssekta, en eins og lögunum er skipað eru það fyrst og fremst samkeppnisyfirvöld sem eiga að framfylgja þeim. Upplýsingar sem fengnar voru frá starfsmönnum félaganna urðu ásamt gögnum, sem fengin voru við húsleit Samkeppnisstofnunar hjá þeim, grundvöllur ákvörðunar samkeppnisráðs um stjórnvaldssektir. Þessar upplýsingar fylgdu öðrum gögnum til lögreglunnar þegar Samkeppnisstofnun lét henni þau í té og urðu þannig einnig grundvöllur rannsóknar lögreglu. Í héraði lýsti ákæruvaldið því yfir að það myndi ekki byggja á fundargerðum Samkeppnisstofnunar með fulltrúum olíufélaganna. Í öðrum gögnum málsins kemur fram að við rannsókn ríkislögreglustjóra hafi að langstærstum hluta verið byggt á þeim gögnum sem hafi verið haldlögð á starfsstöðvum olíufélaganna, enda talið að einungis þau gögn kunni að hafa sönnunargildi í málinu. Við rannsóknina hafi því ekki verið stuðst við áðurnefndar fundargerðir Samkeppnisstofnunar. Óumdeilt er að umræddar fundargerðir voru afhentar lögreglu og að þær fylgdu ákæru til héraðsdóms. Þrátt fyrir framangreindar yfirlýsingar ákæruvaldsins verður ekki séð, eins og rannsókn Samkeppnisstofnunar var háttað, hvernig halda megi aðgreindum þeim gögnum frá stofnuninni sem sóknaraðili telur sig mega reisa ákæru á og skýringum starfsmanna félaganna á þeim gögnum.
Í 70. gr. stjórnarskrárinnar eru ákvæði um að öllum beri réttur til að fá úrlausn um ákæru á hendur sér um refsiverða háttsemi með réttlátri málsmeðferð innan hæfilegs tíma. Í 69. gr. eru jafnframt fyrirmæli um að engum verði gerð refsing nema fyrir háttsemi sem refsiverð er samkvæmt lögum á þeim tíma er hún átti sér stað. Ákvæði þessi eiga sér hliðstæðu í 6. og 7. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem hefur lagagildi hér á landi samkvæmt lögum nr. 62/1994 þar um. Að teknu tilliti til þess hafa framangreind fyrirmæli stjórnarskrárinnar verið skilin svo að meðferð sakamála þurfi að vera með þeim hætti að réttindi sakborninga séu ekki fyrir borð borin og refsiheimildir skýrar. Þá hefur verið litið svo á að það sé þáttur í réttlátri málsmeðferð samkvæmt 6. gr. mannréttindasáttmálans að þeim sem sakaður er um refsiverða háttsemi í skilningi þess ákvæðis sé óskylt að tjá sig eða láta í té upplýsingar sem leitt geti til sakfellingar hans.
Að framan er því lýst hvert var fyrirkomulag laga nr. 8/1993 og laga nr. 107/2000, sbr. nú laga nr. 44/2005. Verður að telja að þetta fyrirkomulag hafi ekki verið nógu skýrt um meðferð máls ef grunur vaknaði um að brotið hefði verið gegn lögunum, og var þar af leiðandi óskýrt hvernig með skyldi fara ef tilefni þætti til opinberrar rannsóknar jafnhliða meðferð samkeppnisyfirvalda og hvenær beita ætti refsiviðurlögum. Á það meðal annars við þá stöðu varnaraðila að taka þátt í viðræðum og samningum við Samkeppnisstofnun og veita henni upplýsingar, en fella á sama tíma á sig sök með því að málið var síðar tekið til refsimeðferðar. Er ekki nægjanlega fram komið að varnaraðilar hafi fengið notið þeirra réttinda sakborninga, sem fyrir er mælt í 70. gr. stjórnarskrár, sbr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, og meginreglum laga nr. 19/1991, í þeirri lögreglurannsókn, sem fram fór í kjölfar meðferðar samkeppnisyfirvalda, eins og henni var hagað. Af þessu leiðir að ákæra verður ekki reist á þessari lögreglurannsókn. Verður málinu á þessum forsendum vísað frá héraðsdómi.
Ákvæði hins kærða úrskurðar um sakarkostnað koma ekki til endurskoðunar eins og málatilbúnaði sóknaraðila er háttað.
Kærumálskostnaður greiðist úr ríkissjóði, eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Allur kostnaður af kærumáli þessu greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðra verjenda varnaraðila, hæstaréttarlögmannanna Gísla Baldurs Garðarssonar og Ragnars Halldórs Hall og Ragnars Tómasar Árnasonar héraðsdómslögmanns, 150.000 krónur til hvers þeirra.
Sératkvæði
Gunnlaugs Claessen
Ég er sammála umfjöllun í I. og II. kafla dóms meirihluta réttarins. Í upphafi síðari kaflans greinir frá kröfu varnaraðila um frávísun málsins, sem þeir gerðu með bókun við þingfestingu þess 9. janúar 2007. Þar segir einnig að til stuðnings kröfunni hafi verið teflt fram röksemdum í sex liðum. Af ástæðum, sem greinir hér á eftir, eru ekki efni til að taka sérstaklega afstöðu til annarra ástæðna en þeirrar fyrstu, sem tilfærð er í bókun varnaraðila, og lýtur að því að ákæra í málinu sé ekki í samræmi við fyrirmæli laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.
Samkvæmt c. lið 1. mgr. 116. gr. nefndra laga skal meðal annars greina í ákæru hvert brotið sé, sem ákært er út af, hvar og hvenær það er talið framið, heiti þess að lögum og önnur skilgreining og loks heimfærsla þess til laga og stjórnvaldsfyrirmæla ef því er að skipta. Til að fullnægja því, sem áskilið er í þessu ákvæði, verður verknaðarlýsing í ákæru að vera það greinargóð og skýr að ákærði geti ráðið af henni einni hvaða refsiverð háttsemi honum er gefin að sök og hvaða refsilagaákvæði hann er talinn hafa brotið, án þess að slík tvímæli geti verið um það að með réttu verði honum ekki talið fært að taka afstöðu til sakargifta og halda uppi vörnum gegn þeim.
Í inngangi ákæru segir að varnaraðilum séu gefin að sök brot gegn samkeppnislögum með því að hafa sem forstjórar þriggja olíufélaga haft ólögmætt samráð „ýmist sjálfir“ eða „fyrir milligöngu undirmanna sinna“ með tiltekin markmið fyrir augum. Í þeim 27 ákæruliðum sem taka við af innganginum er verknaðarlýsing hins vegar orðuð með þeim hætti að olíufélögin þrjú hafi haft með sér nánar tilgreint ólögmætt samráð ýmist „fyrir tilstilli ákærðu“ eða „fyrir tilstilli ákærðu sjálfra og fyrir milligöngu undirmanna þeirra.“ Telja varnaraðilar að ósamræmi sé að þessu leyti milli inngangs ákærunnar og verknaðarlýsingar í einstökum ákæruliðum. Sé ljóst, þegar orðalag í ákærunni sé brotið til mergjar, að í einstökum ákæruliðum sé varnaraðilum í raun gefið að sök að hafa stuðlað að eða veitt aðstoð við brot olíufélaganna gegn samkeppnislögum, en samkvæmt inngangi ákærunnar séu það þeir sjálfir sem hafi brotið lögin. Þá er háttsemi varnaraðilanna sjálfra og hvað þeir eiga að hafa unnið sér til sakar einungis lýst í fimmtán liðum ákærunnar, en í tólf þeirra jafnframt vikið að eða lýst háttsemi undirmanna þeirra. Er samkvæmt því einungis í þremur þessara liða lýst háttsemi varnaraðila einna. Í öðrum ákæruliðum er aðeins lýst háttsemi undirmanna varnaraðila og í enn öðrum er orðalagið með þeim hætti að lýst er háttsemi félaganna sjálfra. Er þannig í ýmsum ákæruliðum ekki lýst berum orðum hlut ákærðu í hinum ætluðu brotum gegn samkeppnislögum. Hins vegar er eins og áður greindi tekið fram að brotin hafi verið framin „fyrir tilstilli ákærðu“ eða „fyrir tilstilli ákærðu sjálfra og fyrir milligöngu undirmanna þeirra.“ Að því virtu, sem að framan greinir, verður fallist á þá niðurstöðu í hinum kærða úrskurði að misbrestur sé á því að brotin séu tilfærð á þann hátt að ætluð háttsemi ákærðu sjálfra sé svo skýr sem skyldi.
Í úrlausn héraðsdómara um þennan lið segir ennfremur að eins og ákæran sé sniðin geti grundvöllur persónulegrar refsiábyrgðar varnaraðila ekki byggst á ákvæðum annarra laga en samkeppnislaga. Við munnlegan flutning málsins hafi hins vegar verið greint frá því af hálfu sóknaraðila að ákæran sé reist á því að varnaraðilar beri allir ábyrgð samkvæmt forstjórastöðu sinni í skilningi laga um hlutafélög og að brot þeirra á 10. gr. samkeppnislaga felist þannig einnig í því að hafa með saknæmum hætti brugðist ríkri eftirlitsskyldu sinni samkvæmt báðum framangreindum lögum. Var yfirlýsing sóknaraðila talin vera til þess fallin að gera málatilbúnað hans óljósari en ella. Í greinargerð sóknaraðila til Hæstaréttar er leitast við að skýra þetta nánar og meðal annars tekið fram að refsiábyrgð varnaraðila samkvæmt ákæru byggist á samkeppnislögum, en þeir geti jafnt bakað sér slíka ábyrgð með beinum ásetningi og saknæmum eftirlitsskorti. Vanræksla á eftirlitsskyldu eða eftir atvikum leiðbeiningarskyldu kunni að baka fyrirsvarsmanni lögaðila refsiábyrgð á verkum undirmanna. Hér sé vísað til gáleysis, en ábyrgðin sé meiri „þegar brot eru framin samkvæmt fyrirmælum eða venjum sem mótaðar eru af fyrirsvarsmanni, þannig að þau eru í raun hluti af annars löglegri starfsemi félagsins og þar með störfum undirmanna. Ákærðu geta því hafa bakað sér refsiábyrgð með einföldu gáleysi með því að hafa látið slík brot viðgangast ...“. Þá sé ekki áskilið í lögum nr. 19/1991 að í ákæru sé lýst huglægri afstöðu ákærða til þess verknaðar, sem ákært er fyrir. Þótt almennt megi fallast á síðastnefnda atriðið með sóknaraðila, falla framangreindar skýringar hans ekki að orðalagi ákæru, sem áður var greint frá, en það bendir þvert á móti til að ákærðu sé gefið að sök að hafa sjálfir framið þau brot sem ákæra lýtur að, falið undirmönnum sínum framkvæmd þeirra eða veitt aðstoð sína við það. Hafi maður hins vegar með saknæmum hætti brugðist eftirlitsskyldu með undirmönnum sínum felur það almennt í sér að hafa ekki gripið til eðlilegra ráðstafana til að koma í veg fyrir brot af þeirra hálfu. Framangreind umfjöllun sóknaraðila um sakargiftir í ákæru felur í sér ósamræmi í málatilbúnaði og er ekki til þess fallin að gera grundvöll málsins skýrari að þessu leyti.
Í 116. gr. laga nr. 19/1991 er tæmandi talið það sem á að koma fram í ákæru. Nokkrir ákæruliðir og þá einkum 8., 19, 20., 21., 22. og 23 liður hennar eru settir fram með þeim hætti að í upphafi er lýst því ólögmæta samráði sem olíufélögunum er gefið að sök í formi samninga og samstilltra aðgerða og inntak þess rakið í stuttu máli. Þar á eftir er því lýst nánar og að því er virðist í dæmaskyni hvernig hið ólögmæta samráð hafi átt sér stað. Er það í sumum tilvikum þannig að lýst er háttsemi ýmissa undirmanna varnaraðila í löngu máli og efni bréfa og samskipti á fundum rakin. Ekki er þörf á slíkri útlistun í ákæru, enda hefur áður verið gerð grein fyrir verknaðarlýsingu með ítarlegum hætti. Felst í þessu skriflegur málflutningur af hálfu sóknaraðila sem brýtur gegn meginreglunni um jafnræði málsaðila.
Að virtum þeim annmörkum á ákæru í heild sinni, sem að framan greinir, verður ekki komist hjá að staðfesta niðurstöðu hins kærða úrskurðar. Ég er sammála meirihluta dómenda um kærumálskostnað.
Sératkvæði
Ólafs Barkar Þorvaldssonar
I.
Í I. og II. kafla atkvæðis meirihluta dómenda er nokkuð lýst efnisatriðum ákæru í málinu og vikið að rannsókn samkeppnisyfirvalda. Eins og rakið er í úrskurði héraðsdóms hafa varnaraðilar borið fyrir sig röksemdir í sex liðum sem þeir telja að leiða eigi til frávísunar málsins frá héraðsdómi. Í fyrsta lagi er á það bent að ákæra sé ekki í samræmi við fyrirmæli 116. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála þar sem verknaðarlýsing sé óskýr um ætlaða refsiverða háttsemi varnaraðila og ákæran hlaðin óþörfum skriflegum útlistunum og málflutningi. Benda þeir jafnframt á að ósamræmi sé milli inngangskafla ákæru og einstakra ákæruliða þar sem í innganginum sé þeim gefið að sök að hafa hver um sig, sem forstjórar olíufélaganna þriggja, brotið gegn samkeppnislögum „ýmist sjálfir eða fyrir milligöngu undirmanna sinna“, en í ákæruliðunum segi að félögin hafi hins vegar haft með sér ólögmætt samráð ýmist „fyrir tilstilli ákærðu“ eða „fyrir tilstilli ákærðu sjálfra og fyrir milligöngu undirmanna þeirra“. Rök fyrir þessum fullyrðingum varnaraðila og gagnrök sóknaraðila eru nánar rakin í úrskurði héraðsdóms, en þau lúta að c. lið 1. mgr. 116. gr. laga nr. 19/1991.
Á því tímabili sem ákæra tekur til hafa samkeppnislög tekið nokkrum breytingum. Líta ber til þess að hafi refsilöggjöf breyst frá því að verknaður var framinn til þess er dómur gengur, skal dæma eftir nýrri lögunum, bæði um refsinæmi verknaðar og refsingu. Hins vegar verður engum gert að sæta refsingu, nema heimild hafi verið til þess í lögum, þegar verk var framið, og ekki þyngri refsingu en orðið hefði eftir þeim lögum, sbr. 1. mgr. 69. gr. stjórnarskrárinnar og 2. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Í 1. mgr. 10. gr. samkeppnislaga nr. 8/1993, eins og hún var áður en henni var breytt með 3. gr. laga nr. 107/2000, sagði: „Samningar og samþykktir, hvort heldur þær eru bindandi eða leiðbeinandi, og samstilltar aðgerðir milli fyrirtækja á sama sölustigi eru bannaðar þegar þær lúta að eða er ætlað að hafa áhrif á: a. verð, afslætti eða álagningu, b. skiptingu markaða eftir svæðum, eftir viðskiptavinum eða eftir sölu og magni, c. gerð tilboða.“ Með 3. gr. laga nr. 107/2000 var ákvæðunum komið í það horf sem nú er samkvæmt gildandi samkeppnislögum nr. 44/2005. Samkvæmt ákvæðunum er lagt bann við öllum samningum og samþykktum milli fyrirtækja, hvort heldur þær eru bindandi eða leiðbeinandi, og samstilltum aðgerðum sem hafa að markmiði eða af þeim leiðir að komið sé í veg fyrir samkeppni, hún sé takmörkuð eða henni raskað. Eru ákvæðin rakin nánar í hinum kærða úrskurði.
Samkvæmt c. lið 1. mgr. 116. gr. laga nr. 19/1991 skal greina í ákæru hvert brotið sé sem ákært er út af, hvar og hvenær það er talið framið, heiti þess að lögum og önnur skilgreining og loks heimfærslu þess til laga og stjórnvaldsfyrirmæla, ef því er að skipta. Við mat á hvort þessum kröfum sé fullnægt verður fyrst og fremst að líta til þess hvort ákæra sé nægilega greinargóð að þessu leyti til að þeim sem ákæru sætir verði ljósar sakargiftir við lestur hennar og eigi þess því kost að verjast þeim.
Varnaraðilum er gefið að sök að hafa á rúmlega átta ára tímabili, sem forstjórar olíufélaga, með margvíslegum hætti sýnt af sér háttsemi sem fól í sér ólögmætt samráð milli félaganna, þannig að varði við ákvæði 10. gr., sbr. 42. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005, sbr. 10. gr. og 57. gr. eldri samkeppnislaga nr. 8/1993. Varnaraðilum er þannig ekki gefið að sök algeng refsilagabrot þar sem ákæra getur verið með einföldu sniði, heldur að hafa á löngum tíma staðið að umfangsmiklum og margþættum brotum gegn tilgreindum bannreglum samkeppnislaga. Svo vörn verði ekki áfátt og dómur verði á málið lagður er ákæruvaldinu nauðsynlegt að tíunda ítarlega í ákærunni samskipti varnaraðila og undirmanna þeirra sem talist geta liður í brotum gegn fyrrgreindum ákvæðum laganna. Verður ekki talið að ætlað ósamræmi í ákæru sé til þess fallið að koma niður á vörnum, enda er háttsemi hvers varnaraðila um sig lýst með tilteknum og nægilega skýrum hætti. Ákæruvaldið hefur þannig ítarlega tilgreint í ákæru hvernig það telur ólögmætt samráð hafa farið fram með athöfnum varnaraðila sjálfra, ýmist með eða án milligöngu undirmanna þeirra. Verði háttsemi varnaraðila eins og henni er lýst í ákæru hins vegar ekki talin refsiverð í einhverjum tilvikum eða öllum leiðir það til sýknu en ekki frávísunar málsins, og þá eftir atvikum á þeim grunni að ákæruatriði séu ekki svo skýr að varnaraðilar teljist hafa gerst sekir um refsiverð brot. Þrátt fyrir að smávægilegt ósamræmi sé á milli inngangs ákæru og ákæruliða verður það ekki talið breyta þessari niðurstöðu.
Þar sem ekki nægir að varnaraðilum megi vera ljósar sakargiftirnar vegna rannsóknar málsins, ef þeim eru ekki gerð fullnægjandi skil í ákæru, þarf hún að vera það ítarleg að hún beri með sér til hvaða tilvika hún tekur. Af þeim sökum og með vísan til þess sem greinir að framan um eðli þeirra brota sem ákæra lýtur að er ekki fallist á að í henni felist slíkur skriflegur málflutningur að leiða eigi til frávísunar málsins. Þar sem héraðsdómari hafði tekið þá afstöðu að vísa bæri málinu frá dómi á þeim grunni að ákæra í málinu væri ekki í samræmi við fyrirmæli laga nr. 19/1991 voru ekki efni fyrir hann að taka sérstaklega afstöðu til annarra röksemda fyrir frávísun málsins.
II.
Varnaraðilar reisa í öðru lagi kröfu sína á því að einstaklingum verði ekki gerð refsing fyrir þá háttsemi sem lýst er í ákæru vegna þess hve samkeppnislög séu og hafi verið óskýr um hverjir geti borið refsiábyrgð á ólögmætu samráði milli fyrirtækja í skilningi 10. gr. laganna. Eru rök varnaraðila og andmæli sóknaraðila rakin í hinum kærða úrskurði.
Fyrir gildistöku samkeppnislaga nr. 8/1993 giltu á þessu sviði lög nr. 56/1978 um verðlag, samkeppnishömlur og óréttmæta viðskiptahætti. Í 21. gr. þeirra voru fyrirmæli sem bönnuðu samninga, samþykktir og annað samráð „milli fyrirtækja“ um verðlagningu þegar hún var frjáls. Samkvæmt 52. gr. laganna var eingöngu mælt fyrir um refsingar einstaklinga en ekki fyrirtækja. Ákvæði samkeppnislaga nr. 8/1993 voru meðal annars sett vegna aðildar Íslands að hinu Evrópska efnahagssvæði. Þá eru 3. gr. laga nr. 107/2000 og 10. gr. núgildandi laga í samræmi við ákvæði 53. gr. EES samningsins og 81. gr. Rómarsáttmálans og gildandi réttur á Evrópska efnahagssvæðinu. Mismunandi mun vera hvort brot gegn þessum ákvæðum varði refsingum samkvæmt landsrétti einstakra aðildarríkja samningsins. Hér á landi er málum þannig skipað að í 42. gr. núgildandi samkeppnislaga eru aðgreindar refsireglur sem vísa til verknaðarlýsinga í öðrum ákvæðum laganna. Var sami háttur hafður á í 57. gr. eldri samkeppnislaga nr. 8/1993. Slík tilhögun er annars nokkuð algeng í sérrefsilöggjöf hér á landi.
Til þess er fyrst að líta að ekki hefur verið fjallað efnislega um málið og er því ósannað að varnaraðilar hafi sýnt af sér þá háttsemi sem ákæran lýtur að og talin er varða við bannreglur 10. gr. eldri og yngri samkeppnislaga, sem rakin eru í kafla I að framan. Þegar komist er að niðurstöðu um hvort lagaregla teljist nægilega skýr refsiheimild verður einkum beitt beinni textaskýringu að því gættu að virða ber ákærða í hag vafa um hvort svo sé. Brot gegn ákvæðum núgildandi samkeppnislaga geta leitt til þess að fyrirtæki sæti stjórnvaldssektum samkvæmt 37. gr. í kjölfar rannsóknar sem fer fram í samræmi við sérstakar málsmeðferðarreglur, sbr. 2. mgr. 8. gr. laganna. Greinin er að mestu sambærileg við 52. gr. laga nr. 8/1993, sbr. einnig 1. mgr. 6. gr. þeirra laga. Ákvæði 42. gr. laga nr. 44/2005 mæla hins vegar, eins og áður segir, fyrir um refsingar vegna samkeppnisbrota. Í 1. mgr. 42. gr. segir að brot gegn lögunum, reglum og fyrirmælum settum samkvæmt þeim varði fésektum eða fangelsi allt að tveimur árum en fangelsi allt að fjórum árum ef sakir eru miklar. Þá megi dæma sviptingu réttinda samkvæmt 68. gr. almennra hegningarlaga og fésekt jafnframt fangelsi ef skilyrði 49. gr. þeirra laga eru fyrir hendi. Einnig segir í 3. mgr. 42. gr. að sektir samkvæmt lögunum megi gera jafnt lögaðila sem einstaklingi. Lögaðila megi ákvarða sekt án tillits til þess hvort sök verði sönnuð á starfsmann hans. Þá segir að hafi starfsmaður lögaðilans framið brot á lögunum eða reglum settum samkvæmt þeim megi einnig gera lögaðila þessum sekt og sviptingu starfsréttinda, enda sé brotið drýgt til hagsbóta fyrir lögaðilann eða hann notið hagnaðar af brotinu. Ákvæði 57. gr. laga nr. 8/1993 voru orðuð með sama hætti.
Eins og áður er nefnt hafa ákvæði 10. gr. eldri og núgildandi samkeppnislaga að geyma bannreglur við tilgreindri háttsemi sem telst vera ólögmætt samráð milli fyrirtækja. Þessi ákvæði lýsa alvarlegustu brotum sem um ræðir gegn lögunum, en samkvæmt refsiákvæðum laganna eru fangelsisrefsingar hörðustu viðurlögin við brotum gegn þeim. Eðli málsins samkvæmt fer samráð milli fyrirtækja fram á þann hátt að einstaklingar koma fram fyrir hönd þeirra. Bannið beinist því ótvírætt að starfsmönnum fyrirtækja og skiptir ekki máli þótt þeir séu ekki nefndir sérstaklega í títtnefndri 10. gr. Þá er ljóst að einungis einstaklingar verða dæmdir til fangelsisvistar en ekki fyrirtæki. Samkvæmt því sem rakið hefur verið um refsiákvæði samkeppnislaga gera bæði eldri og núgildandi lög ráð fyrir því að starfsmönnum fyrirtækja verði gerð refsing fyrir brot gegn þeim. Vísast í því sambandi til ofangreindrar umfjöllunar um 42. gr. laga nr. 44/2005, sbr. 57. gr. laga nr. 8/1993, þar sem beinlínis er vísað til brota starfsmanna gegn þeim.
Ákvæði 12. gr. laga nr. 8/1993 eru samhljóða 12. gr. núgildandi laga nr. 44/2005. Þar er lagt bann við að samtök fyrirtækja ákveði samkeppnishömlur eða hvetji til hindrana sem bannaðar eru. Í 2. mgr. greinarinnar kemur fram að bannið nái til stjórnarmanna, starfsmanna og trúnaðarmanna samtaka fyrirtækja. Ekki verður fallist á með varnaraðilum að álykta skuli frá ákvæði 2. mgr. 12. gr. á þann veg að 10. gr. eldri og núgildandi samkeppnislaga mæli ekki fyrir um fullnægjandi refsiheimild gagnvart starfsmönnum fyrirtækja. Um það má líta til þess að í athugasemdum við ákvæðið í greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 8/1993 segir að tilgangur ákvæðisins sé að koma í veg fyrir „allan vafa um túlkun“. Bendir það frekar til þess að löggjafinn hafi ekki talið slíkan vafa hafa verið uppi um að bann samkvæmt 10. gr. tæki til starfsmanna fyrirtækja.
Að öllu þessu virtu verður ekki talið að ofangreind ákvæði samkeppnislaga valdi slíkum vafa um að starfsmönnum fyrirtækja verði gerð refsing fyrir brot gegn 10. gr. laganna að það varði frávísun málsins frá héraðsdómi. Þess í stað ber að meta við efnislega meðferð málsins hvort háttsemi varnaraðila, eins og henni er lýst í ákæru, sé refsiverð.
III.
Ég er sammála niðurstöðu héraðsdómara um þriðja og fjórða lið frávísunarkröfu varnaraðila með þeim athugasemdum að líta má til þess að við skýringu á 1. mgr. 4. gr. viðauka nr. 7 við samning um verndun mannréttinda og mannfrelsis, sbr. lög nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu, hefur ekki verið talið að sú aðstaða að fyrirtæki hafi sætt refsikenndum viðurlögum komi í veg fyrir að einstaklingur þurfi síðar að þola málsmeðferð og refsingu vegna sömu atvika og lágu til grundvallar í máli fyrirtækisins. Vegna ákvæða 70. gr. stjórnarskrárinnar og 6. gr. framangreinds samnings, sbr. lög nr. 62/1994, og með hliðsjón af því hvernig síðastgreint ákvæði hefur verið skýrt af mannréttindadómstól Evrópu, kann það að brjóta gegn rétti varnaraðila til að fella ekki sök á sjálfa sig ef skýrslur sem þeir gáfu fyrir samkeppnisyfirvöldum verða notaðar sem sönnunargögn í refsimáli gegn þeim. Í héraði lýsti ákæruvaldið yfir því að það myndi ekki byggja á fundargerðum Samkeppnisstofnunar með fulltrúum olíufélaganna. Í öðrum gögnum málsins kemur ennfremur fram að við rannsókn ríkislögreglustjóra hafi að langstærstum hluta verið byggt á þeim gögnum sem voru haldlögð á starfsstöðvum olíufélaganna enda sé talið að einungis þau gögn kunni að hafa sönnunargildi í málinu. Við rannsóknina hafi því ekki verið stuðst við áðurnefndar fundargerðir Samkeppnisstofnunar. Ber dómara við efnisumfjöllun máls að meta þýðingu þessara skýrslna varnaraðila og eftir atvikum annarra gagna í þessu ljósi og í samræmi við þær sönnunarreglur sem koma fram í 45. gr. til 48. gr. laga nr. 19/1991.
IV.
Samkvæmt 2. mgr. 66. gr. laga nr. 19/1991 hvílir sú afdráttarlausa skylda á lögreglu að hún skuli hvenær sem þess er þörf hefja rannsókn út af vitneskju eða grun um að refsivert brot hafi verið framið hvort sem henni hefur borist kæra eða ekki. Getur ríkissaksóknari gefið fyrirmæli í þeim efnum sem hann og gerði í þessu tilviki. Leiddi sú rannsókn lögreglu til útgáfu ákæru á hendur varnaraðilum. Samkvæmt 111. gr. laganna skal sérhver refsiverður verknaður sæta ákæru, nema annað sé sérstaklega ákveðið í lögum. Einnig segir í 112. gr. laganna að þegar ákærandi hefur fengið gögn máls í hendur og gengið úr skugga um að rannsókn sé lokið athugi hann hvort sækja skuli mann til sakar eða ekki. Ef ákærandi telur það sem fram er komið ekki nægilegt eða líklegt til sakfellis lætur hann við svo búið standa, en ella leggur hann málið fyrir dóm samkvæmt 116. gr. laganna. Hefur ákæruvaldið svigrúm til mats á því hvenær ákært skuli í máli og verður ekki fallist á með héraðsdómara að einhverju skipti við þetta mat hvort undirmenn varnaraðila skyldu jafnframt ákærðir. Þaðan af síður er fallist á með héraðsdómara að um augljósa og hróplega mismunun sé að ræða milli starfsmanna félaganna í skilningi 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 eða 65. gr. stjórnarskrárinnar. Í þessu sambandi má nefna að varnaraðilar voru allir forstjórar félaganna og því helstu stjórnendur þeirra. Samkvæmt framansögðu verður ekki fallist að vísa beri málinu frá héraðsdómi á þessum grundvelli.
V.
Loks reisa varnaraðilar kröfu sína á þeim grunni að refsikrafa ákæruvalds sé andstæð banni við því að leggja oftar en einu sinni refsingu á aðila fyrir sömu háttsemi. Hafa ber í huga að stjórnvaldssektir þær sem lagðar hafa verið á vegna ólögmæts samráðs voru lögum samkvæmt lagðar á félögin sjálf en ekki einstaka starfsmenn þeirra. Þá er í þessu máli gerð krafa um að varnaraðilum verði sem forstjórum umræddra félaga gert að sæta refsingu fyrir hið meinta ólögmæta samráð en ekki er gerð krafa um að félögin sjálf sæti refsiviðurlögum. Með hliðsjón af þessu og því sem fram kemur í kafla III hér að framan tel ég að staðfesta beri niðurstöðu hins kærða úrskurðar að þessu leyti. Verður ekki séð að ákvæði 3. mgr. 57. gr. laga nr. 8/1993, sbr. nú 3. mgr. 42. gr. laga nr. 44/2005, breyti þessari niðurstöðu þó að á sjónarmið sem þar koma fram geti meðal annars reynt við innheimtu sekta sem varnaraðilum kann að vera gert að sæta.
VI.
Samkvæmt öllu framansögðu tel ég að fella beri úrskurð héraðsdóms úr gildi og leggja fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar og láta málskostnað í héraði bíða efnisúrlausnar, en kærumálskostnað falla niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. febrúar 2007.
Ríkissaksóknari höfðaði mál þetta með ákæru útgefinni 12. desember 2006 á hendur ákærðu, Einari Benediktssyni, Geir Magnússyni og Kristni Björnssyni, til refsingar fyrir brot á samkeppnislögum, „með því að hafa, á tímabilinu frá 1. mars 1993 til ársloka 2001, ákærði Geir sem forstjóri Olíufélagsins hf., ákærði Einar sem forstjóri Olíuverzlunar Íslands hf. og ákærði Kristinn sem forstjóri Skeljungs hf., haft ólögmætt samráð, ýmist sjálfir eða fyrir milligöngu undirmanna sinna, með það að markmiði að hafa áhrif á og koma í veg fyrir samkeppni milli félaganna, með innbyrðis samningum og samstilltum aðgerðum í tengslum við gerð tilboða og við sölu á vörum til viðskiptavina þeirra, með því að skipta milli félaganna mörkuðum, og við ákvörðun söluverðs, afsláttar, álagningar og viðskiptakjara, auk þess að skiptast á ýmsum upplýsingum um viðskipti þeirra og hegðun á markaði svo sem hér greinir: [...]“ Er sakargiftum nánar lýst í 27 töluliðum, sem skipað er í I.-III. kafla ákæru. Loks er háttsemin færð til refsiákvæða í IV. kafla og hún talin varða ýmist við a. eða c. lið 2. mgr. 10. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005, sbr. ýmist a., b. eða c. liði 1. mgr. 10. gr. samkeppnislaga nr. 8/1993, sbr. a. eða c. liði 2. mgr. 3. gr. laga nr. 107/2000 um breytingu á samkeppnislögum nr. 8/1993, sbr. ennfremur 1. mgr. 42. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005, sbr. 1. mgr. 57. gr. samkeppnislaga nr. 8/1993.
Á þingfestingardegi 9. janúar síðastliðinn kröfðust ákærðu þess að málinu verði vísað frá dómi og tefldu fram margvíslegum rökum því til stuðnings. Vegna eðlis og umfangs málsins var boðað til málflutnings 26. janúar, þar sem sækjandi og verjendur tjáðu sig um formhlið máls, en að því búnu var það tekið til úrskurðar.
Ákærðu telja að rannsókn málsins og ákæra séu haldin slíkum annmörkum að ekki verði úr bætt undir rekstri málsins og því verði efnisdómur ekki réttilega lagður á sakarefni. Sökum þessa beri að vísa málinu frá dómi samkvæmt 4. mgr. 122. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Röksemdir ákærðu eru þessar:
1. Ákæra samrýmist ekki kröfum 116. gr. laga um meðferð opinberra mála.
2. Einstaklingum verður ekki gerð refsing fyrir þá háttsemi sem lýst er í ákæru.
3. Ákæran er ekki reist á viðhlítandi rannsókn sakargifta.
4. Við rannsókn málsins og útgáfu ákæru var brotið gegn reglum um réttarstöðu sakborninga.
5. Útgáfa ákæru er andstæð jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar nr. 33/1944.
6. Refsikrafa í málinu er andstæð banni við því að leggja oftar en einu sinni refsingu á aðila fyrir sömu háttsemi.
Ákæruvaldið krefst þess að synjað verði um frávísunarkröfur ákærðu og að málið verði tekið til efnismeðferðar.
I.
Forsögu málsins má rekja til rannsóknar Samkeppnisstofnunar á ólögmætu samráði Olíufélagsins hf., Olíuverzlunar Íslands hf. (Olís) og Skeljungs hf., sem stofnunin hratt af stað með húsleit, haldlagningu skjala og afritun tölvutækra gagna á starfsstöðum olíufélaganna 18. desember 2001, en rannsóknin laut að grun um brot fyrirtækjanna á 10. gr. samkeppnislaga nr. 8/1993.
Af 26 skjalamöppum, sem fylgdu ákæru, eru 10 möppur sem stafa með beinum hætti frá Samkeppnisstofnun, þar af ein með fundargerðum stofnunarinnar, en hún hélt tuttugu fundi með starfsmönnum Olíufélagsins á tímabilinu frá 2. apríl 2002 til 23. apríl 2003, sjö fundi með starfsmönnum Olís á tímabilinu frá 9. ágúst til 4. desember 2002 og fimm fundi með starfsmönnum Skeljungs á tímabilinu frá 25. október til 8. nóvember 2002. Tilgangur Samkeppnisstofnunar var að afla nánari upplýsinga um ætluð samkeppnisbrot fyrirtækjanna, sem á móti freistuðu þess að ná fram lækkun á yfirvofandi stjórnvaldssektum. Meðal fulltrúa Olíufélagsins, sem sátu slíka fundi, voru ákærði Geir, Bjarni Bjarnason framkvæmdastjóri fjármálasviðs, Heimir Sigurðsson framkvæmdastjóri markaðssviðs smásölu, Ragnar Bogason fyrrverandi framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs og Þórólfur Árnason fyrrum framkvæmdastjóri markaðssviðs. Meðal fulltrúa Olís voru ákærði Einar, Jón Ólafur Halldórsson framkvæmdastjóri markaðssviðs stórnotenda, Kristján Bjarnar Ólafsson framkvæmdastjóri fjármálasviðs og Thomas Möller framkvæmdastjóri markaðssviðs smásölu. Meðal fulltrúa Skeljungs voru ákærði Kristinn, Friðrik Þorgeir Stefánsson framkvæmdastjóri markaðssviðs stórnotenda, Gunnar Karl Guðmundsson aðstoðarforstjóri og Margrét Guðmundsdóttir framkvæmdastjóri markaðssviðs smásölu. Nefndir upplýsingagjafar eiga sammerkt að hafa talist til yfirstjórnenda fyrirtækjanna, þeir fengu allir réttarstöðu sakbornings við lögreglurannsókn málsins og þeirra er víða getið í einstökum ákæruliðum.
Í ódagsettri skýrslu Samkeppnisstofnunar er komist að þeirri niðurstöðu að olíufélögin hafi haft með sér yfirgripsmikið, ólögmætt samráð á tímabilinu frá 1. mars 1993 til 18. desember 2001, sem feli í sér mjög alvarleg brot á 10. gr. samkeppnislaga og þau beri jafna ábyrgð á. Í framhaldi eru reifuð sjónarmið varðandi ákvörðun stjórnvaldssekta samkvæmt 52. gr. laganna og vikið að samstarfi fyrirtækjanna við að upplýsa málið og lækkun sekta af þeim sökum. Segir í skýrslunni að Olíufélagið geti vænst 30-50% lækkunar á væntanlegri sektarfjárhæð og Olís 20-30% lækkunar, að uppfylltum tilgreindum skilyrðum Samkeppnisstofnunar, en fyrirtækin voru talin hafa veitt henni veigamiklar upplýsingar um málsatvik, sem fólu í sér mikilvæga viðbót við fyrirliggjandi sönnunargögn, sér í lagi Olíufélagið, sem hefði gert sitt ítrasta til að tryggja rétta og fullnægjandi upplýsingagjöf starfsmanna sinna. Öðru máli þótti gegna um Skeljung, en að mati Samkeppnisstofnunar hafði fyrirtækið ekki veitt slíkar upplýsingar að leitt gætu til sektarlækkunar. Umrædd skýrsla mun hafa verið send olíufélögunum 5. desember 2003.
Áður, eða 21. ágúst 2003, hafði Ríkissaksóknari falið Ríkislögreglustjóranum að afla gagna hjá Samkeppnisstofnun til að unnt væri að taka afstöðu til þess hvort hefja ætti opinbera rannsókn á ætluðum, refsiverðum brotum olíufélaganna og starfsmanna þeirra. Að fengnum gögnum frá stofnuninni tilkynnti Ríkislögreglustjórinn, í bréfi til olíufélaganna 30. september 2003, að hafin væri rannsókn á hendur fyrirsvarsmönnum þeirra vegna ætlaðra brota á 10. gr. samkeppnislaga og lögum nr. 145/1994 um bókhald. Samkeppnisstofnun var tilkynnt formlega um upphaf lögreglurannsóknar í bréfi Ríkissaksóknara 23. október 2003 og þess óskað að stofnunin tæki fullt tillit til þeirrar staðreyndar, sem og mögulegrar dómsmeðferðar. Jafnframt voru samkeppnisyfirvöld vöruð við því að leggja stjórnvaldssektir á olíufélögin, enda gæti slík ákvörðun girt fyrir möguleika á því að framfylgja kröfu um refsingu og önnur viðurlög á hendur félögunum í refsimáli gegn einstaklingum, sem hefðu drýgt þá háttsemi er væri grundvöllur viðurlaga á hendur félögunum vegna brota á samkeppnislögum.
Er skemmst frá því að segja að samkeppnisyfirvöld virtu tilmæli Ríkissaksóknara að vettugi, en á grundvelli rannsóknar Samkeppnisstofnunar ákvað samkeppnisráð 28. október 2004 að sekta Olíufélagið (nú Ker hf.) um 605.000.000 króna, Olís um 880.000.000 króna og Skeljung um 1.100.000.000 króna. Fyrirtækin skutu þeirri ákvörðun til áfrýjunarnefndar samkeppnismála, sem kvað upp þann úrskurð 29. janúar 2005 að Olíufélagið skyldi greiða 495.000.000 króna sekt, Olís 560.000.000 króna sekt og Skeljungur 450.000.000 króna sekt. Er óumdeilt að fyrirtækin greiddu þær sektir, þó með fyrirvara um lögmæti þeirra, en fyrir héraðsdómi er nú rekið mál olíufélaganna á hendur Samkeppniseftirlitinu og íslenska ríkinu til ógildingar á nefndum úrskurði, en ellegar lækkunar á fjárhæð sekta (mál réttarins nr. E-4965/2005).
Í þágu lögreglurannsóknar málsins aflaði Ríkislögreglustjórinn viðbótargagna, meðal annars um innra skipulag olíufélaganna. Þá var bókhald þeirra rannsakað, svo sem 5 skjalamöppur bera með sér. Lyktir urðu þær að ekkert kom fram sem benti til þess að brotið hefði verið gegn ákvæðum bókhaldslaga. Teknar voru skýrslur af 76 einstaklingum, á tímabilinu 21. október 2003 til 8. maí 2005, en þar af höfðu 36 réttarstöðu sakbornings á einhverju stigi máls. Þær skýrslur fylla 7 skjalamöppur í rannsóknargögnum. Ákærðu færðust undan að tjá sig um sakarefni. Hið sama gerðu 17 aðrir sakborningar.
II.
Ákærðu telja ólík rök leiða til þess, hvort heldur ein sér eða virt heildstætt, að vísa beri málinu frá dómi. Verður nú gerð grein fyrir helstu röksemdum ákærðu og andsvörum ákæruvaldsins, í sömu röð og áður greinir. Niðurstöður dómsins eru raktar í III. kafla.
1.
Ákærðu byggja í fyrsta lagi á því að ákæra sé ekki í samræmi við fyrirmæli 1. mgr. 116. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Komi þar einkum tvennt til; annars vegar að verknaðarlýsing sé óskýr hvað varðar hlut ákærðu í ætlaðri refsiverðri háttsemi og hins vegar að ákæra sé hlaðin skriflegum útlistunum um ætlaða refsiverða háttsemi þeirra fyrirtækja, sem þeir veittu forstöðu og feli þannig í sér skriflegan málflutning. Máli sínu til stuðnings benda ákærðu á að í inngangskafla ákæru sé þeim gefið að sök að hafa hver um sig, sem forstjórar olíufélaganna þriggja, brotið gegn samkeppnislögum með því að hafa haft ólögmætt samráð á tilgreindu árabili, „ýmist sjálfir eða fyrir milligöngu undirmanna sinna“. Þegar háttsemi þeirra sé síðan lýst í 1.-27. tölulið ákærunnar bregði svo við að fyrirtækjunum er gefið að sök hið ólögmæta samráð, ýmist „fyrir tilstilli ákærðu“ eða milligöngu undirmanna þeirra. Telja ákærðu að hér sé um svo alvarlegt misræmi að tefla að ómögulegt sé að halda uppi fullnægjandi vörnum gegn sakargiftum. Ekki bæti úr skák notkun ákæruvaldsins á hugtökunum „tilstilli“ og „milligöngu“, sem bendi fremur til þess að ákærðu eigi að hafa aðstoðað aðra við að fremja ætluð samkeppnisbrot, en lagastoð skorti til að refsa fyrir hlutdeild á grundvelli samkeppnislaga. Þá gagnrýna ákærðu að í ákæru sé óvíða lýst þætti þeirra hvers og eins í ætluðum brotum og þannig látið að því liggja að sök sé jöfn. Þá séu víða tíunduð margþætt samskipti annarra yfirmanna og undirmanna fyrirtækjanna, sem leiða eigi til persónulegrar refsingar á hendur ákærðu, jafnvel þótt í mörgum tilvikum hafi þeir ekki getað vitað um nefnd samskipti. Slík ákærusmíð bendi ótvírætt til hlutlægrar refsiábyrgðar ákærðu vegna saknæmrar háttsemi starfsmanna fyrirtækjanna, sem hvorki fái staðist á grundvelli samkeppnislaga né laga um hlutafélög, en síðarnefnd lög falli utan ákæru. Hugleiðingar ákæruvaldsins um refsiábyrgð á grundvelli þeirra laga hafi því enga þýðingu fyrir málsúrslit. Loks benda ákærðu á að ákæra sé hlaðin skriflegum málflutningi og vafasömum ályktunum, sem sé meira og minna tekið upp úr rannsóknargögnum Samkeppnisstofnunar og eigi ekki heima í ákæruskjali. Keyri um þverbak ítarlegar útlistanir í 8., 19., 21., 22., 23. og 26. tölulið, sem feli í sér „smásögur“ af ætluðum samskiptum annarra en ákærðu. Með slíkri ákærusmíð sé ekki aðeins brotið á rétti ákærðu til að koma að skriflegum málflutningi, til jafns við ákæruvaldið, heldur feli hún einnig í sér fullkomna stýringu ákæruvaldsins á því hvernig sönnunarfærslu yrði háttað við efnismeðferð málsins.
Af hálfu ákæruvaldsins er því mótmælt að ákæra brjóti gegn fyrirmælum 1. mgr. 116. gr. laga um meðferð opinberra mála, en ætluð brot ákærðu séu umfangsmikil og því verði að gera þeim nokkur skil í verknaðarlýsingu ákæru, svo að ákærðu geti tekið til skynsamlegra varna. Ákæra sé engu síður eins knöpp og kostur sé og feli fráleitt í sér skriflegan málflutning. Þá sé hártogun að deila á ætlað ósamræmi milli inngangskafla ákæru og hinna 27 töluliða hennar, en óumdeilt sé að ætluð brot voru framin í rekstri fyrirtækjanna, sem ákærðu beri hver og einn persónulega ábyrgð á samkvæmt forstjórastöðu sinni í skilningi hlutafélagalaga. Í því felist rík eftirlitsskylda, en ekki hlutlæg ábyrgð á störfum annarra og dugi til refsiábyrgðar einfalt gáleysi ákærðu samkvæmt samkeppnislögum. Loks er á það bent að ákæra lýsi hvergi ætluðum hlutdeildarbrotum, enda sé ekki á slíku byggt af hálfu ákæruvaldsins.
2.
Ákærðu reisa kröfu um frávísun í öðru lagi á því að einstaklingum verði ekki gerð refsing fyrir þá háttsemi, sem lýst er í ákæru. Því til staðfestu benda þeir einkum á orðalag 10. og 57. gr. samkeppnislaga nr. 8/1993 með áorðnum breytingum, sem sé óbreytt í 10. og 42. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005 að því leyti, sem hér skipti máli. Þá vísa þeir til skilgreiningar á hugtakinu „fyrirtæki“ í 4. gr. laganna. Ákærðu telja að af nefndum lagaákvæðum verði ekki dregin önnur haldbær ályktun en að þau girði fyrir að einstaklingum verði refsað fyrir brot á 10. gr. Samanburðarskýring við önnur ákvæði laganna, ekki síst 12., 25. og 27. gr. hinna eldri laga, leiði til sömu niðurstöðu. Málið sé því ranglega höfðað á hendur ákærðu og beri þegar af þeirri ástæðu að vísa því frá dómi, sbr. 69. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944, sbr. 7. gr. laga nr. 97/1995 og 1. mgr. 7. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. samnefnd lög nr. 62/1994, sbr. og dómur Mannréttindadómstóls Evrópu 27. febrúar 2001 í máli Ecer og Zeyrek gegn Tyrklandi. Til stuðnings sömu lögskýringu vísa ákærðu enn fremur til yfirlýsts markmiðs samkeppnislaga og órofa tengsla við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið (EES-samninginn), sbr. samnefnd lög nr. 2/1993, ákvæða 81. gr. Rómarsáttmála Evrópusambandsins (ESB) og samkeppnisreglugerðar ESB nr. 17/1962, sbr. nú reglugerð nr. 1/2003. Þá benda ákærðu á frumvarp til breytinga á samkeppnislögum nr. 44/2005, sem taki af öll tvímæli um að einstaklingum verði ekki refsað fyrir háttsemi þá, sem lýst er í 10. gr. núgildandi laga. Loks telja ákærðu að leiði framangreind rök ekki til frávísunar málsins samkvæmt hefðbundinni dómaframkvæmd þá sé einsætt að sömu rök muni leiða til sýknu. Efnismeðferð máls sé því bersýnilega þýðingarlaus, enda fái hún engu breytt um þá niðurstöðu. Því beri dóminum, ekki síst í ljósi augljósra mannréttinda ákærðu, að taka af skarið og kveða upp frávísunarúrskurð í stað þess að láta þá þola umfangsmikla aðalmeðferð máls að ófyrirsynju.
Af hálfu ákæruvaldsins er því mótmælt að réttmætur vafi leiki á skýrleika refsiheimilda 42. gr. núgildandi samkeppnislaga, sbr. áður 57. gr. laga nr. 8/1993. Þá sé bannregla 10. gr. jafn skýr og ótvíræð. Komi því ekki til álita að vísa málinu frá dómi á grundvelli 69. gr. stjórnarskrárinnar eða 1. mgr. 7. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Ágreiningur lúti að því hvort heimilt sé að refsa einstaklingum fyrir brot á 10. gr. samkeppnislaganna. Telur ákæruvaldið að svo sé og vísar í því sambandi til meginreglu refsiréttarins um persónulega ábyrgð einstaklinga á eigin athöfnum og athafnaleysi. Þá er því mótmælt að samanburður á 10. og 12. gr. samkeppnislaga hafi raunhæfa þýðingu, en verði litið svo á hljóti slíkur samanburður að gilda eingöngu um aðra starfsmenn en stjórnendur fyrirtækja. Einnig er mótmælt öllum samanburði við reglur evrópsks samkeppnisréttar, enda sé bæði EFTA ríkjum og ESB ríkjum í sjálfsvald sett hvort þau lögfesti sérstakar refsiheimildir á hendur einstaklingum eður ei fyrir brot á samkeppnisreglum í rekstri fyrirtækja. Óháð framansögðu er það álit ákæruvaldsins að telji dómstólar að einstaklingum verði ekki refsað fyrir brot á 10. gr. samkeppnislaga þá beri að vísa málinu frá dómi í samræmi við kröfu ákærðu, enda væri önnur niðurstaða óhóflega íþyngjandi í garð ákærðu og því óforsvaranleg með tilliti til réttinda þeirra sem sakborninga í opinberu máli. Ákæruvaldið vísar loks til hæstaréttardóms 6. apríl 2006 í máli nr. 150/2005, sem hafi fordæmisgildi við túlkun á skýrleika refsiheimilda í skilningi 69. gr. stjórnarskrárinnar.
3.
Ákærðu styðja frávísunarkröfu í þriðja lagi á því að ákæran sé ekki reist á viðhlítandi rannsókn sakargifta. Þeir benda á að Samkeppnisstofnun hafi ekki aðeins hafið rannsókn málsins og lokið henni að nær fullu, heldur einnig stýrt henni með ólögmætum hætti, eins og nánar verði vikið að undir 4. lið. Aðdragandi lögreglurannsóknar sé því einkar óvenjulegur, eins og viðurkennt sé í aðalskjalaskrá Ríkislögreglustjórans, en þar segi að embættið hafi „að langstærstum hluta byggt á sömu gögnum og haldlögð voru á starfsstöðvum olíufélaganna ...“ Lögreglurannsókn beri þessa augljós merki, en viðbótargögn hafi ekki varpað frekara ljósi á málsatvik. Þá hafi öll úrvinnsla lögreglu mótast af gögnum frá Samkeppnisstofnun, ekki síst einhliða skráningu og vafasömum ályktunum, sem dregnar hafi verið af fjölmörgum fundum stofnunarinnar með ákærðu og öðrum starfsmönnum olíufélaganna, eins og fundargerðir stofnunarinnar beri með sér. Telja ákærðu að hér skipti verulegu máli ólíkt hlutverk samkeppnisyfirvalda annars vegar og lögreglu hins vegar, þar sem hafa beri í huga markmið samkeppnislaga og tilgang upplýsingagjafar gagnvart samkeppnisyfirvöldum, sem nánar verði skýrt undir í 4. lið, en á umræddum stjórnvöldum hvíli ekki sama skylda og á lögreglu til að gæta hlutleysis og fyllstu óhlutdrægni við rannsókn mála, sbr. 31. og 66.-68. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Þá draga ákærðu í efa að heimilt hafi verið að afhenda Ríkislögreglustjóranum frumrannsóknargögn málsins, á þann hátt sem gert hafi verið og vísa í því sambandi til 50. gr. og 50. gr. a. samkeppnislaga nr. 8/1993 með áorðnum breytingum, sbr. nú 34.-35. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005. Loks telja ákærðu ámælisvert að lögregla hafi látið undir höfuð leggjast að rannsaka hvort fótur væri fyrir því að Samkeppnisstofnun hafi lofað eða gefið ádrátt um að málið yrði ekki sent til lögreglu, að uppfylltum skilyrðum stofnunarinnar um samvinnu olíufélaganna, þrátt fyrir ótvíræðar vísbendingar um slík fyrirheit í framburðarskýrslum sakborninga hjá lögreglu. Að öllu þessu gættu er það álit ákærðu að eiginleg lögreglurannsókn hafi ekki farið fram og að svo freklega hafi verið brotið á rétti þeirra til eðlilegrar og réttlátrar málsferðar í skilningi 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994 og 70. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944, sbr. 8. gr. laga nr. 97/1995, að óhjákvæmilegt sé að vísa málinu frá dómi.
Ákæruvaldið mótmælir því að ekki hafi farið fram sjálfstæð og óháð lögreglurannsókn vegna þeirra sakargifta, sem getið er í ákæru. Teknar hafi verið fjöldi skýrslna af ákærðu, öðrum sakborningum á rannsóknarstigi og vitnum, en ákærðu og fleiri valið þann kost að tjá sig ekki um kæruefni. Þeim hafi engu síður verið frjálst að leggja fram ótakmörkuð gögn til skýringar á eigin málstað. Ákæruvaldið bendir og á að málið hafi verið komið til ára sinna þegar lögreglurannsókn hófst og því eðlilegt að hefja ekki frumrannsókn á nýjan leik, auk þess sem rannsóknin hafi lotið að sömu atvikum og rannsókn Samkeppnisstofnunar, þótt andlag hennar væri annað. Loks beri að hafa í huga að fjölmörgum kæruatriðum hafi verið sleppt við útgáfu ákæru. Í ljósi framanritaðs telur ákæruvaldið engin rök fyrir frávísun málsins, enda lúti gagnrýni ákærðu að atriðum, sem eftir atvikum geti til leitt til sýknu.
4.
Ákærðu styðja frávísunarkröfu í fjórða lagi á því að við rannsókn málsins og útgáfu ákæru hafi verið brotið gegn reglum um réttarstöðu sakborninga. Þeir benda á að Samkeppnisstofnun hafi haldlagt fjölda gagna við húsleit 18. desember 2001, þar á meðal persónulegan tölvupóst starfsmanna. Í framhaldi hafi stofnunin samið eigin leikreglur við frumrannsókn málsins og beitt olíufélögin miklum þrýstingi til samstarfs við lausn þess, með fyrirheitum um lækkun stjórnvaldssekta, ef þau létu í té nýjar og mikilvægar upplýsingar um málsatvik og um leið óbeinum hótunum um hærri sektir, ef félögin sýndu ekki fullan samstarfsvilja, svo sem komið hafi á daginn í tilviki Skeljungs. Jafnframt hafi þeim verið lofað að málið yrði ekki kært til lögreglu og Olíufélaginu og Olís gefið fyrirheit um að ekki yrði amast við samrekstri þeirra á dótturfélaginu Olíudreifingu ehf. Félögin hafi því öll séð sig knúin, beint eða óbeint, til samvinnu á grundvelli 39. gr., sbr. 57. gr. þágildandi samkeppnislaga. Félögin séu hins vegar lögaðilar og geti því ekki gefið munnlegar upplýsingar. Sökum þessa hafi stjórnir félaganna lagt hart að ákærðu og öðrum starfsmönnum að mæta á fundi Samkeppnisstofnunar og upplýsa málið eftir föngum, enda hagsmunir félaganna augljósir af slíkri upplýsingagjöf. Að sama skapi hafi réttur ákærðu og annarra verið fyrir borð borinn, en þeir hafi verið þvingaðir til að bera sakir á sjálfa sig á fundum Samkeppnisstofnunar, án þess að njóta réttarstöðu sakborninga samkvæmt 32., 33. og 51. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, en þó í trausti þess að um trúnaðarupplýsingar væri að ræða, sem ekki yrðu framsendar lögreglu. Umrædd gögn hafi engu síður verið afhent lögreglu, þar á meðal fundargerðir Samkeppnisstofnunar með skýrslum ákærðu og annarra starfsmanna og þær notaðar með beinum hætti við lögreglurannsókn málsins, svo sem tugir yfirheyrslna á lögreglustigi beri með sér. Telja ákærðu einsætt að umæddra sönnunargagna hafi verið aflað með ólögmætum hætti og að með notkun þeirra hafi Samkeppnisstofnun, lögregla og síðar ákæruvaldið brotið svo freklega á rétti ákærðu til réttlátrar málsmeðferðar í skilningi 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994 og 70. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944, sbr. 8. gr. laga nr. 97/1995, að vísa beri málinu frá dómi. Jafnframt benda þeir á að önnur niðurstaða myndi leiða til þess að lögregla gæti við rannsóknir á sviði samkeppnismála látið samkeppnisyfirvöldum eftir að yfirheyra sakborninga og vitni, án þess að viðkomandi skýrslugjafar njóti samsvarandi réttarstöðu og þannig sniðgengið fyrrgreind ákvæði almennra laga, stjórnarskrár og mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. og dómar Mannréttindadómstólsins 25. febrúar 1993 í máli Funke gegn Frakklandi og 17. desember 1996 í máli Saunders gegn Stóra Bretlandi.
Ákæruvaldið tekur undir þann málatilbúnað ákærðu að verksvið samkeppnisyfirvalda annars vegar og lögregluyfirvalda hins vegar sé um margt óljóst samkvæmt samkeppnislögum og að valdsvið þeirra skarist að einhverju leyti. Slíkt fyrirkomulag sé óæskilegt, en byggist engu síður á settum lögum. Hins vegar sé rangt að ákærðu eða aðrir hafi verið beittir ólögmætri þvingun við upplýsingagjöf á rannsóknarstigi máls og ekki hafi komið til lögmætra þvingunarráðstafana samkeppnislaga, svo sem dagsekta. Rannsókn málsins og útgáfa ákæru brjóti því fráleitt gegn tilvitnuðum ákvæðum um réttarvernd borgaranna gagnvart ríkisvaldinu. Ákæruvaldið bendir jafnframt á að tvö olíufélaganna, Olíufélagið hf. og Olís hf., hafi sjálf óskað eftir samstarfi við Samkeppnisstofnun og þau viljað upplýsa um ólögmætt samráð í von um lækkun fjársekta. Þegar af þeirri ástæðu hafi félögin fyrirgert rétti til að bera fyrir sig að þau eða einstakir starfsmenn þeirra hafi að óvilja borið sakir á sjálfa sig. Þá séu fundargerðir Samkeppnisstofnunar einungis hluti sönnunargagna málsins og muni ákæruvaldið ekki byggja á þeim, en að auki sé dómstólum í sjálfsvald sett að víkja þeim til hliðar á grundvelli reglna um frjálst sönnunarmat. Slík ákvörðun geti eftir atvikum leitt til sýknu, en varði ekki frávísun málsins frá dómi.
5.
Fimmta röksemd ákærðu fyrir frávísun málsins lýtur að því að með útgáfu ákæru í málinu hafi ákæruvaldið brotið jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944, sbr. 3. gr. laga nr. 97/1995, sem og jafnfræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, en sömu grunnreglu megi finna stoð víða í lögum um meðferð opinberra mála, einkum 31. og 111. gr. laganna. Því til stuðnings er bent á að aldrei fyrr hafi einstaklingar sætt ákæru fyrir samkeppnisbrot fyrirtækja þrátt fyrir fjölda sambærilegra mála, sem lokið hafi með sektarákvörðun samkeppnisyfirvalda, án lögreglurannsóknar. Að auki hafi ákærðu verið valdir úr hópi fjölda annarra yfirstjórnenda olíufélaganna þriggja, sem hljóti að teljast viðriðnir sömu brot á 10. gr. samkeppnislaga og því jafnsekir um slík brot, hafi þau verið framin á annað borð. Ákæruvaldið hafi því misbeitt valdi sínu á augljósan og grófan hátt, sem réttlæti frávísun málsins, en ella hafi jafnræðisregla stjórnarskrárinnar enga raunhæfa þýðingu.
Ákæruvaldið mótmælir framangreindum málatilbúnaði og bendir á að aldrei fyrr hafi svo stórt samkeppnismál komið upp á yfirborðið hér á landi og því stoði ákærðu ekki að bera það saman við önnur samkynja mál. Ákærðu eigi það sammerkt að hafa verið forstjórar viðkomandi olíufélaga á rannsóknartímabilinu og hafi brot þeirra því verið talin mun alvarlegri en brot annarra starfsmanna fyrirtækjanna. Jafnfræðis hafi því verið gætt, með því að ákæra einungis forstjórana þrjá og málefnaleg sjónarmið ráðið því að sleppa öðrum starfsmönnum fyrirtækjanna við ákæru.
6.
Ákærðu byggja í sjötta lagi á því að refsikrafa í málinu sé andstæð banni við því að leggja oftar en einu sinni refsingu á aðila fyrir sömu háttsemi, sem kveðið sé á um í 4. gr. samningsviðauka nr. 7 við mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994 með áorðnum breytingum. Þeir benda á að Mannréttindadómstóll Evrópu hafi túlkað hugtakið „refsivert brot“ í skilningi 1. mgr. 6. gr. sáttmálans á þann veg að álagning stjórnvaldssekta á borð við heimildir 52. gr. samkeppnislaga nr. 8/1993, sbr. nú 37. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005, teljist refsiviðurlög í skilningi 1. mgr. 6. gr. og vísa í því sambandi til dóms 8. júní 1976 í máli Engels o.fl. gegn Hollandi og dóms 23. október 1984 í máli Östurk gegn Þýskalandi. Þá hafi Mannréttindanefnd Evrópu kveðið upp úr um það að lögaðilar skuli njóti réttlátrar málsmeðferðar samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. álit nefndarinnar í máli Sociéte Stenuit gegn Frakklandi, sem fylgt hafi dómi Mannréttindadómstólsins 27. febrúar 1992. Í máli þessu liggi fyrir endanleg ákvörðun samkeppnisyfirvalda um þungar refsingar á hendur olíufélögunum í formi hárra fjársekta, sem falli innan gildissviðs 1. mgr. 4. gr. nefnds samningsviðauka og útiloki þar með að heimilt sé að stofna til nýrrar málsmeðferðar til úrlausnar um sömu háttsemi. Ákærðu telja að áfellisdómur yfir þeim, sem fyrirsvarsmönnum sömu félaga, myndi þannig leiða til frekari refsinga eða refsikenndra viðurlaga á hendur fyrirtækjunum, en samkvæmt niðurlagsákvæði 3. mgr. 57. gr. samkeppnislaga nr. 8/1993, sbr. nú 3. mgr. 42. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005, séu lögaðilar ábyrgir fyrir greiðslu sekta á hendur starfsmönnum sínum vegna brota á samkeppnislögum. Umrædd ábyrgðarregla girði því fyrir að ákærðu geti sætt sakamálameðferð vegna ætlaðra brota á 10. gr. samkeppnislaga, enda byggi málatilbúnaður ákæruvaldsins alfarið á sömu atvikum og lágu til grundvallar við ákvörðun nefndra stjórnvaldssekta. Að þessu gættu og þar sem olíufélögin hafi engin tök á að gæta réttar síns í hinu nýja máli beri að vísa því frá dómi samkvæmt 4. mgr. 122. gr. laga um meðferð opinberra mála, sbr. og 2. mgr. 138. gr. laganna, enda myndi önnur niðurstaða brjóta gegn rétti félaganna samkvæmt 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmálans.
Ákæruvaldið segir óumdeilt að stjórnvaldssektir séu refsingar í skilningi mannréttindasáttmála Evrópu, en mótmælir engu síður að 4. gr. samningsviðauka nr. 7 eigi hér við, enda sæti olíufélögin ekki ákæru. Breyti engu um þá niðurstöðu þótt fyrirtækin beri ábyrgð á greiðslu fjársekta, sem ákærðu kunni eftir atvikum að verða dæmdir til að greiða, enda gætu lyktir málsins allt eins orðið þær að ákærðu verði dæmdir til fangelsisrefsingar. Í því tilviki kæmi sjónarmið um ætlaða tvöfalda refsingu ekki til álita, sem á móti leiði til þess að bíða verði efnisdóms í málinu.
III.
Rök ákærðu fyrir frávísun málsins skarast að einhverju leyti, enda byggja þau á sömu grunnsjónarmiðum um réttarstöðu sakborninga og réttláta málsmeðferð. Mun dómurinn taka mið af þessu í áliti sínu og eftir atvikum fjalla í samfellu um fleiri en einn hinna sex liða hér að framan.
Um 1. lið frávísunarkröfu.
Eins og rakið er í upphafi þessa úrskurðar er ákærðu gefið að sök brot á 10. gr. samkeppnislaga, með því að hafa, á tilgreindu árabili, „ákærði Geir sem forstjóri Olíufélagsins hf., ákærði Einar sem forstjóri Olíuverzlunar Íslands hf. og ákærði Kristinn sem forstjóri Skeljungs hf., haft ólögmætt samráð, ýmist sjálfir eða fyrir milligöngu undirmanna sinna, með það að markmiði að hafa áhrif á og koma í veg fyrir samkeppni milli félaganna, með innbyrðis samningum og samstilltum aðgerðum í tengslum við gerð tilboða og við sölu á vörum til viðskiptavina þeirra, með því að skipta milli félaganna mörkuðum, og við ákvörðun söluverðs, afsláttar, álagningar og viðskiptakjara, auk þess að skiptast á ýmsum upplýsingum um viðskipti þeirra og hegðun á markaði [...]“ Sakargiftum er nánar lýst í 27 töluliðum ákærunnar, sem nær allir eru því sama marki brenndir að við nánari lýsingu á sakarefni er olíufélögunum, ýmist öllum eða tveimur í senn, borið á brýn hið ólögmæta samráð samkvæmt framansögðu, „fyrir tilstilli ákærðu“ og „fyrir milligöngu undirmanna þeirra“. Þannig eru aðeins þrír töluliðir, nr. 1, 18 og 25, sem lýsa eingöngu persónulegum gjörðum ákærðu, þó ávallt með þeim formerkjum að í raun hafi olíufélögin, tvö eða fleiri, haft með sér hið ætlaða, ólögmæta samráð. Þegar ákæran er skoðuð kemur einnig í ljós að fimmtán töluliðir lýsa því að einhverju leyti hvað ákærðu eigi sjálfir að hafa gert til að vinna sér til sakar, en þar af eru tíu töluliðir, sem jafnframt lúta að ætlaðri háttsemi nafngreindra undirmanna, sem oftar en ekki voru framkvæmdastjórar hjá viðkomandi olíufélögum. Þá eru sex töluliðir, sem lýsa eingöngu ætlaðri háttsemi nafngreindra undirmanna, sem leiða beri til refsiábyrgðar ákærðu, fyrir brot framin í rekstri fyrirtækjanna, tveggja eða fleiri. Loks eru sjö töluliðir, sem lýsa því án frekari tilgreiningar hvernig ákærðu og undirmenn þeirra hafi framið tiltekin brot í rekstri sömu fyrirtækja.
Þegar metið verður hér á eftir hvort ákærðu sé unnt að taka til fullnægjandi varna gegn ákærunni ber að hafa framangreind atriði í huga, sem og þá staðreynd að ætluð brot þeirra voru framin á árunum 1993-2001. Þá var í gildi 10. gr. samkeppnislaga nr. 8/1993, sem breytt var með lögum nr. 107/2000. Óháð þeirri lagabreytingu mælti 10. gr. fyrir um bann við ýmsum samkeppnishömlum „milli fyrirtækja“, án þess að víkja orðum að þátttöku yfirstjórnenda í sömu samkeppnisbrotum.
Samkvæmt c. lið 1. mgr. 116. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála skal greina í ákæru hvert brotið sé, sem ákært er út af, hvar og hvenær það er talið framið, heiti þess að lögum og önnur skilgreining og loks heimfærsla þess til laga. Tilgangur þessa ákvæðis er sá að ákærði geti ráðið af ákæru einni og verknaðarlýsingu hennar hvaða háttsemi honum er gefin að sök og hvernig sú háttsemi megi teljast refsiverð, en slík tilgreining er forsenda þess að hann geti varist sakargiftum á fullnægjandi hátt. Að sama skapi verður ákæra að vera svo skýr að dómari geti gert sér glögga grein fyrir sakargiftum og réttilega lagt dóm á sakarefni því til samræmis, enda verður ákærði ekki sakfelldur fyrir aðra hegðun en þá, sem í ákæru greinir, sbr. 1. mgr. 117. sömu laga. Ákvæði 116. gr. fela í sér tæmandi talningu á því, sem koma á fram í ákæru. Af því leiðir að í ákæru á ekki vísa til atvika í löngu máli, sem ekki lúta að lýsingu sakarefnis og heimfærslu til refsiákvæða, sbr. hæstaréttardómur 21. júlí 2006 í máli nr. 353/2006.
Ákæra er löng og verknaðarlýsing ítarleg, enda málið umfangsmikið og sakarefni margþætt. Er þó ekki fallist á með ákærðu að í henni felist skriflegur málflutningur, sem leiða beri til frávísunar málsins.
Ekki fer á milli mála að í ákæru er tilgreint hver séu ætluð brot á 10. gr. samkeppnislaga, hvenær þau eru talin framin, heiti þeirra og heimfærsla til refsiákvæða. Ákæran lýsir í öllum tilvikum ætluðu, ólögmætu samráði olíufélaganna, sem fram hafi farið fyrir tilstilli ákærðu og eftir atvikum milligöngu undirmanna þeirra. Á hinn bóginn er verulegur misbrestur á því að brotin séu tilfærð á þann hátt að ætluð háttsemi ákærðu sjálfra sé svo skýr sem skyldi. Ákæranda hefur bersýnilega verið vandi á höndum við ákærusmíð, ekki síst í ljósi þess að ákærðu neituðu að tjá sig um sakarefni við lögreglurannsókn málsins. Hvílir ákæran því að verulegu leyti á gögnum, sem Samkeppnisstofnun aflaði við rannsókn sama máls á stjórnsýslustigi. Rót vandans kristallast í því að stofnunin rannsakaði eingöngu ætluð brot olíufélaganna á 10. gr. samkeppnislaga, en lögreglurannsókn laut að ætluðum brotum 36 starfsmanna þeirra, vegna sömu atvika. Eins og ákæra er sniðin getur grundvöllur persónulegrar refsiábyrgðar ákærðu aldrei byggst á ákvæðum annarra laga en samkeppnislaga. Sækjandi upplýsti engu síður við munnlegan málflutning að ákæran byggi á því að ákærðu beri hver og einn ábyrgð samkvæmt forstjórastöðu sinni í skilningi hlutafélagalaga, sbr. nú lög nr. 2/1995 og að brot þeirra á 10. gr. samkeppnislaga felist í því, að einhverju leyti í það minnsta, að hafa með saknæmum hætti brugðist ríkri eftirlitsskyldu samkvæmt þeim lögum og samkeppnislögum. Er háttsemi af þeim toga þó hvergi lýst með glöggum hætti í ákæru. Þá ber að hafa í huga að í 68. gr. hlutafélagalaga er kveðið á um ábyrgð félagsstjórnar og framkvæmdastjóra á málefnum félags, starfsemi, daglegri stjórnun og meiri háttar ákvarðanatöku, sem er að mörgu leyti samofin. Að þessu gættu er umrædd yfirlýsing ákæruvaldsins til þess eins fallin að gera málatilbúnað þess óljósari en ella. Óháð yfirlýsingu sækjanda má hæglega skilja verknaðarlýsingu í ákæru á þann veg að ætluð refsiábyrgð ákærðu hvíli að einhverju leyti á saknæmri háttsemi undirmanna þeirra, sem ekki eru bornir sökum í málinu. Á þetta ekki síst við um 2., 3., 8., 9., 13. og 24. tölulið ákæru. Frá sjónarhóli ákærðu er því ekki fráleitt að ætla að í raun sé um hlutlæga refsiábyrgð að tefla. Yfirlýsing ákæruvaldsins um hið gagnstæða getur engu um það breytt, enda verður ákæruskjal, eitt og sér, að uppfylla kröfur c. liðar 1. mgr. 116. gr. laga um meðferð opinberra mála.
Samkvæmt framansögðu er fallist á með ákærðu að verknaðarlýsing ákæru sé í heild svo óljós, þegar kemur að tilgreiningu á háttsemi ákærðu, að ekki sé unnt að verjast henni á fullnægjandi hátt. Breytir engu um þá niðurstöðu þótt eftir atvikum mætti ráða fram úr sakarefni samkvæmt 1., 5., 7., 18. og 25. tölulið, sem lýsa ekki háttsemi annarra en ákærðu sjálfra og olíufélaganna, sem þeir veittu forstöðu, enda eru þeir ákæruliðir og aðrir svo tengdir innbyrðis að ekki þykir rétt að taka þá til efnismeðferðar eina sér. Aðrir annmarkar eru þess eðlis að ófært er að fella efnisdóm á málið og varða því frávísun samkvæmt 4. mgr. 122. gr. laga um meðferð opinberra mála.
Um 2. lið frávísunarkröfu.
Framangreint misræmi í ákæru og óglögg lýsing á háttsemi ákærðu annars vegar og olíufélaganna þriggja hins vegar endurspeglar óskýrleika samkeppnislaga um það hver eða hverjir geti borið refsiábyrgð á ólögmætu samráði milli fyrirtækja í skilningi 10. gr., sbr. 1. mgr. 57. gr. eldri samkeppnislaga nr. 8/1993 með áorðnum breytingum og 10. gr., sbr. 1. mgr. 42. gr. núgildandi samkeppnislaga nr. 44/2005. Hitt er ljóst, að ákærðu verða ekki sakfelldir fyrir aðra háttsemi en þá, sem lýst var refsiverð í hinum eldri samkeppnislögum og ekki gerð þyngri refsing en orðið hefði eftir þeim lögum. Er regla þessi leidd af 1. mgr. 1. gr. og 1. mgr. 2. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. og 1. mgr. 69. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1994, sbr. 7. gr. laga nr. 97/1995. Því til samræmis mun dómurinn einblína á samkeppnislögin frá 1993.
Markmiði lagana er lýst í 1. gr. Þar segir að markmið þeirra sé að efla virka samkeppni í viðskiptum og þar með vinna að hagkvæmari nýtingu framleiðsluþátta þjóðfélagsins. Skal þetta gert með því að vinna gegn óhæfilegum hindrunum og takmörkunum á frelsi í atvinnurekstri, vinna gegn óréttmætum viðskiptaháttum, skaðlegri fákeppni og samkeppnishömlum og með því að auðvelda aðgang nýrra keppinauta að markaði. Samkvæmt 2. gr. taka lögin til hvers konar atvinnustarfsemi, án tillits til þess hvort hún sé rekin af einstaklingum, félögum, opinberum aðilum eða öðrum. Í 4. gr. er að finna orðskýringu á hugtakinu „fyrirtæki“, sem í skilningi laganna tekur jafnt til einstaklinga, félaga og annarra, sem stunda atvinnurekstur eða atvinnustarfsemi gegn endurgjaldi. Refsinæmi háttsemi ákærðu, sem lýst er í ákæruskjali, grundvallast á 10. gr. laganna, sem óbreytt hljóðaði svo:
„Samningar og samþykktir, hvort heldur þær eru bindandi eða leiðbeinandi, og samstilltar aðgerðir milli fyrirtækja á sama sölustigi eru bannaðar þegar þær lúta að eða er ætlað að hafa áhrif á
a. verð, afslætti eða álagningu,
b. skiptingu markaða eftir svæðum, eftir viðskiptavinum eða eftir sölu og magni,
c. gerð tilboða.
Samvinna á sama sölustigi um leiðsögn við útreikning á verði, afslætti og álagningu er bönnuð.“
Umþrættri lagagrein var breytt með 3. gr. laga nr. 107/2000, sem tók gildi 6. desember sama ár. Frá þeim degi hljóðaði hún svo:
„Allir samningar og samþykktir milli fyrirtækja, hvort heldur þær eru bindandi eða leiðbeinandi, og samstilltar aðgerðir sem hafa að markmiði eða af þeim leiðir að komið sé í veg fyrir samkeppni, hún sé takmörkuð eða henni raskað eru bannaðar.
Bann þetta tekur m.a. til samninga, samþykkta og samstilltra aðgerða sem:
a. áhrif hafa á verð, afslætti, álagningu eða önnur viðskiptakjör með beinum eða óbeinum hætti,
b. takmarka eða stýra framleiðslu, mörkuðum, tækniþróun eða fjárfestingu,
c. skipta mörkuðum eða birgðalindum,
d. mismuna viðskiptaaðilum með ólíkum skilmálum í sams konar viðskiptum og veikja þannig samkeppnisstöðu þeirra,
e. setja sem skilyrði fyrir samningagerð að hinir viðsemjendurnir taki á sig viðbótarskuldbindingar sem tengjast ekki efni samninganna, hvorki í eðli sínu né samkvæmt viðskiptavenju.“
Þótt eigi skipti hér máli samkvæmt framansögðu var 10. gr., svo breytt, tekin orðrétt upp í 10. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005. Samanburður á 10. gr. í upphaflegri mynd og eftir breytinguna 6. desember 2000 sýnir að áhöld eru um hvort ætluð háttsemi ákærðu falli í öllum tilvikum undir verknaðarlýsingu 10. gr. í upphaflegri mynd, sér í lagi að því er varðar ætlað samráð um viðskiptakjör, sem lýst er í III. kafla ákæru. Er ekki efni til að elta ólar við slíkt, af ástæðum, sem nú verða raktar.
Refsiákvæði samkeppnislaga, sem unnt er að fylgja eftir í ákærumáli, má finna í 57. gr. samkeppnislaganna með áorðnum breytingum, sbr. nú 42. gr. laga nr. 44/2005. Er 1. mgr. beggja laga samhljóða, svo:
„Brot gegn lögum þessum, reglum og fyrirmælum settum samkvæmt þeim varða fésektum eða fangelsi að tveimur árum en fangelsi allt að fjórum árum ef sakir eru miklar. Dæma má sviptingu réttinda skv. 68. gr. almennra hegningarlaga og fésekt jafnframt fangelsi ef skilyrði 49. gr. almennra hegningarlaga eru fyrir hendi.“
Í 52. gr. samkeppnislaga, sbr. nú 37. gr. laga nr. 44/2005, er á hinn bóginn kveðið á um stjórnvaldssektir, sem samkeppnisyfirvöld geta lagt á fyrirtæki eða samtök fyrirtækja, meðal annars vegna brota á 10. gr. laganna.
Óháð úrslitum málsins að öðru leyti er einsætt að ákærðu eru ekki „fyrirtæki“ í skilningi 4. gr. samkeppnislaga. Ber að hafa þetta í huga við mat á því hvort heimilt sé að refsa þeim fyrir brot á 10. gr. laganna, sem bannar tiltekna samninga og samstilltar aðgerðir „milli fyrirtækja“. Umrædd 10. gr. lýsir ekki ábyrgð á hendur öðrum en fyrirtækjum, ólíkt 1. mgr. 12. gr., sem bannar samtökum fyrirtækja að ákveða tilteknar samkeppnishömlur eða hvetja til tiltekinna hindrana, meðal annars í skilningi 10. gr. og leggur að auki sams konar bann á stjórnarmenn slíkra samtaka, starfsmenn þeirra og þá sem valdir eru til trúnaðarstarfa í þágu samtakanna, sbr. 2. mgr. Er ástæða til að huga nánar að inntaki þessa ákvæðis, en í athugasemdum er fylgdu frumvarpi til 12. gr. laganna segir að 1. mgr. hnykki á sambærilegri ábyrgð einstakra fyrirtækja og samtaka fyrirtækja að þessu leyti, en um 2. mgr. segir að „[til] þess að koma í veg fyrir allan vafa um túlkun er tekið fram í 2. mgr. að bannið taki einnig til stjórnarmanna samtaka [...] og annarra samkvæmt framansögðu. Ákvæði 10. og 12. gr. er skipað í sama kafla samkeppnislaga, sem ber heitið „Bann við samkeppnishömlum“. Í ljósi þessa er ríkari ástæða en ella til að kanna hvort löggjafinn hafi veitt svipaðar eða sambærilegar leiðbeiningar um túlkun á 10. gr. Er skemmst frá því að segja að svo er ekki. Í frumvarpinu er hins vegar tekið fram að telji samkeppnisyfirvöld að fyrir liggi ólögmætt samráð í skilningi 10. gr., þá geti þau „lagt á stjórnvaldssekt“. Í sama frumvarpi er einnig tekið fram að lögin séu sett til að treysta löggjöf á sviði samkeppnismála, til að mæta skyldum, sem fylgja áformaðri þátttöku í Evrópska efnahagssvæðinu og endurskoða og samræma samkeppnisreglur því til samræmis.
Af framansögðu er nærtækt að draga þegar þá ályktun að 10. gr. samkeppnislaga taki aðeins til fyrirtækja, en ekki einstakra starfsmanna þeirra og að ólíkt því sem gildir um 12. gr. laganna sé óheimilt að refsa einstaklingum fyrir brot á 10. gr., með vísan til refsiákvæðis 1. mgr. 57. gr. En hér kemur fleira til skoðunar. Við setningu 3. gr. laga nr. 107/2000 benti löggjafinn á, í frumvarpi með breytingarlögunum, að nauðsynlegt væri að skerpa ákvæði samkeppnislaga og vísaði meðal annars til fákeppni í olíuviðskiptum, en gildandi samkeppnislög væru „ekki það verkfæri sem dugar til að sporna við samkeppnishömlum markaðsráðandi fyrirtækja“. Téðu frumvarpi væri ætlað að ráða bót á þessu, með fjölgun úrræða, sem unnt væri að beita gegn samkeppnishömlum og með því að gera gildandi ákvæði sama efnis í senn „skilmerkilegri“ og „skýrari“. Í engu var þó hreyft við fyrri túlkun á 10. gr. samkeppnislaga, en áréttað að lagagreinin tæki til ólögmæts samráðs „milli fyrirtækja“, sem sporna yrði gegn. Á þessu varð engin breyting í meðförum Alþingis á frumvarpi til samkeppnislaga nr. 44/2005 og í athugasemdum við 10. gr. laganna var látið við það sitja að vísa til gildandi laga, ákvæða EES-samningsins og 81. gr. Rómarsáttmála ESB. Í téðu frumvarpi er jafnframt vísað til 57. gr. eldri laga varðandi túlkun á refsiákvæði 42. gr., en í frumvarpi til hinna eldri laga er vísað til réttarframkvæmdar samkvæmt fyrri lögum nr. 56/1978 um verðlag, samkeppnishömlur og óréttmæta viðskiptahætti, án þess að vikið sé að refsiábyrgð einstaklinga.
Að áliti dómsins veita framangreind atriði enn ríkari vísbendingar um að 10. gr. samkeppnislaga sé ekki ætlað að taka til refsiábyrgðar framkvæmdastjóra eða annarra starfsmanna fyrirtækja. Því til stuðnings má benda á að þegar lög nr. 44/2005 voru sett var ætlað, ólögmætt samráð olíufélaganna og meintur þáttur ákærðu í slíku athæfi í hámæli í þjóðfélagsumræðu. Má því ætla að rík ástæða hefði verið til að skerpa á refsiábyrgð samkeppnislaga að þessu leyti, ef löggjafarvilji stóð til þess. Skýringar á óbreyttum löggjafarvilja kann hins vegar að vera að leita í samkeppnisákvæði 81. gr. Rómarsáttmálans, sem er nær orðrétt fyrirmynd 10. gr. eins og henni var breytt með lögum nr. 107/2000, samkeppnisreglugerðum ESB nr. 17/1962 og 1/2003 og viðurkenndri túlkun í Evrópurétti um að umrætt bann skuli ekki teljast af refsiréttarlegum toga. Fær sú skýring samhljóm með fyrrgreindu markmiði samkeppnislaga.
En fleira kemur til skoðunar. Við munnlegan málflutning vöktu verjendur ákærðu máls á því að fyrir Alþingi lægi stjórnarfrumvarp til breytinga á núgildandi samkeppnislögum. Var téðu frumvarpi útbýtt 25. janúar 2007, sem þingmáli nr. 522. Auk þess að skerpa ábyrgð fyrirtækja og skýra heimildir samkeppnisyfirvalda til að leggja á fyrirtæki stjórnvaldssektir er í frumvarpinu lagt til að lögfest verði nýtt ákvæði, 41. gr. a., sem kveður á um refsiábyrgð allra starfsmanna og stjórnarmanna fyrirtækja eða samtaka fyrirtækja, sem framkvæma, hvetja til eða láta framkvæma samráð, sem brýtur gegn 10. og 12. gr. laganna. Þá er tilraun og hlutdeild í slíkum brotum lýst refsiverð. Í athugasemdum með nefndu frumvarpi segir að helstu breytingar, sem frumvarpið feli í sér, séu meðal annars þær „að refsiábyrgð einstaklinga vegna brota gegn samkeppnislögum verði afmörkuð nánar en samkvæmt gildandi lögum. Tiltekin samráðsbrot verði lýst refsiverð, sbr. 10. gr. og 12. gr. samkeppnislaga“. Er í þessu sambandi vísað til niðurstaðna nefndar forsætisráðherra um viðurlög við efnahagsbrotum, sem frumvarpið byggi á. Umrædd nefnd skilaði skýrslu sinni 12. október 2006. Þar segir að nauðsynlegt sé „að einstaklingar geti sætt refsiábyrgð vegna þátttöku í ólögmætu samráði“, sem og „að nýtt refsiákvæði sé skýrt og sú háttsemi sem refsing er lögð við verði tilgreind með eins nákvæmum hætti og mögulegt er“.
Þótt ekki þyki það góð latína að vísa til laga de lege ferenda telur dómurinn að ákærðu hafi fært afar sterk rök fyrir því að óheimilt sé að refsa þeim á grundvelli 1. mgr. 57. gr. samkeppnislaga nr. 8/1993 fyrir þátttöku í ólögmætu samráði milli fyrirtækja í skilningi 10. gr. laganna með áorðnum breytingum, sbr. nú 10. gr., sbr. 1. mgr. 42. gr. laga nr. 44/2005. Því til stuðnings má enn fremur benda á orðalag 3. mgr. 57. gr. eldri laga, sbr. nú 3. mgr. 42. gr. laga nr. 44/2005, þar sem vísað er til þess að sektir samkvæmt lögunum megi gera jafnt lögaðila sem einstaklingi án tillits til þess hvort „sök“ verði sönnuð á starfsmanninn, enda hafi hann gerst brotlegur gegn lögunum. Er slíkri „sök“ lýst í 12. gr. laganna, en eigi í 10. gr. Þá leiðir gagnályktun af dómi Hæstaréttar 15. mars 2002 í máli nr. 91/2002 til sömu niðurstöðu, sem og af dómi réttarins 6. apríl 2006 í máli nr. 150/2005, sem ákæruvaldið vitnaði til í málflutningi, en í þeim málum var vígstaðan sú að háttsemi sakborninga, sem voru í fyrirsvari fyrir einkahlutafélög, var nægjanlega lýst í efnislýsingu viðkomandi sérrefsilagaákvæða og varð því heimfærð undir refsiákvæði sömu laga. Hér horfir á hinn bóginn svo að í 10. gr. samkeppnislaga er ekki gerð tilraun til að lýsa háttsemi, sem unnt er að refsa fyrirsvarsmanni fyrir vegna ólögmæts samráðs milli fyrirtækja. Þetta er kjarni málsins. Almenn lýsing í 1. mgr. 57. gr. samkeppnislaga getur engu um það breytt í ljósi 1. mgr. 69. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. og 1. mgr. 7. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, en samkvæmt þeim verður engum gert að sæta refsingu nema hann hafi gerst sekur um háttsemi, sem var refsiverð samkvæmt lögum á þeim tíma þegar hún átti sér stað eða má fullkomlega jafna til slíkrar háttsemi. Er tilgangur slíkra mannréttindaákvæða að tryggja að refsireglur almennra laga séu í senn skýrar og fyrirsjáanlegar hinum almenna borgara.
Að öllu því virtu, sem nú hefur verið rakið, er það álit dómsins að 10. gr. samkeppnislaga veiti ekki viðhlítandi lagastoð til að unnt sé að refsa einstaklingum fyrir þá háttsemi, sem þar er lýst, en ákærðu ber að njóta alls skynsamlegs vafa í því sambandi samkvæmt reglunni in dubio pars mitior est sequenda.
Af dómaframkvæmd Hæstaréttar, meðal annars dómum réttarins 28. október 2004 í máli nr. 251/2004 og 5. október 2000 í máli nr. 238/2000, má ráða að þegar sjálfstæða verknaðarlýsingu skortir í viðkomandi refsilöggjöf þá sé refsiheimild eigi svo skýr í skilningi 1. mgr. 69. gr. stjórnarskárinnar að unnt sé að refsa manni og að sú niðurstaða leiði til sýknu. Í báðum málum staðfesti rétturinn því niðurstöðu héraðsdóms um sýknu. Mál þetta er á frumstigi dómsmeðferðar. Efnismeðferð getur engu breytt um þá niðurstöðu að ákærðu verður ekki gerð refsing fyrir brot á 10. gr. samkeppnislaga og brestur því lagaskilyrði til að sækja þá til saka. Að þessu gættu og með vísan til 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 8. gr. laga nr. 97/1995, sem kveður á um léttláta málsmeðferð fyrir dómi, samsvarandi sjónarmiða í 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og loks með skírskotun til 4. mgr. 122. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála þykir ákæran ekki tæk til efnismeðferðar.
Um 3. og 4. lið frávísunarkröfu.
Samkvæmt 31. gr. laga um meðferð opinberra mála skulu þeir sem fara með ákæruvald og annast rannsókn mála vinna að því að hið sanna og rétta komi í ljós og gæta jafnt að þeim atriðum, sem horfa til sýknu og sektar. Er nánar mælt fyrir um rannsóknir mála í 66. gr., en markmið þeirra er að afla allra nauðsynlegra gagna til þess að ákæranda sé fært að ákveða að rannsókn lokinni hvort sækja skuli mann til sakar, svo og að afla gagna til undirbúnings aðalmeðferðar, sbr. 67. gr. Meðal þess sem rannsaka skal og afla eru öll tiltæk gögn um þann verknað, sem rannsókn lýtur að og upplýsinga um öll atvik, sem ætla má að geti skipt máli, sbr. 68. gr. Ákærðu byggja á því að verulegir ágallar séu á rannsókn þessa máls, bæði í framangreindu tilliti og að því leyti að gróflega hafi verið brotið gegn réttarstöðu þeirra samkvæmt 32.-33. gr. og eftir atvikum 51. gr. laganna á meðan olíufélögin þrjú sættu rannsókn Samkeppnisstofnunar. Beri af þeim sökum að vísa málinu frá dómi, enda stríði önnur niðurstaða gegn rétti ákærðu samkvæmt 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Eru sjónarmið ákærðu nánar rakin hér að framan.
Samkvæmt 112. gr. laganna um meðferð opinberra mála skal ákærandi, þegar hann hefur fengið gögn máls í hendur, ganga úr skugga um að rannsókn sé lokið. Að þeirri athugun lokinni ber honum annað hvort að láta rannsaka málið betur, telji hann þess þörf, en ellegar tekur hann ákvörðun um hvort rétt sé að sækja mann til sakar á grundvelli fyrirliggjandi gagna og gefur eftir atvikum út ákæru. Slíkt mat er falið ákæranda og sætir ekki endurskoðun dómstóla. Á hinn bóginn geta verið slíkir ágallar á rannsókn máls, sem bersýnilega verður ekki bætt úr undir rekstri þess og leiða af þeim sökum til frávísunar á grundvelli 4. mgr. 122. gr. laganna.
Samkeppnisyfirvöld sinna því lögboðna hlutverki að rannsaka ætluð brot fyrirtækja og samtaka fyrirtækja á samkeppnislögum, sbr. 39.-40. gr. samkeppnislaga nr. 8/1993 og nú 19.-20. gr. laga nr. 44/2005. Rannsókn samkeppnisyfirvalda á hendur olíufélögunum þremur er ekki til úrlausnar í þessu máli. Meinbugir á þeirri málsmeðferð geta hins vegar rýrt sönnunarstöðu ákæruvaldsins samkvæmt reglum 45.-48. gr. laga um meðferð opinberra mála og valdið því að ekki verði byggt á gögnum, sem aflað var á frumstigi rannsóknar. Á þetta ekki síst við um skýrslugjöf ákærðu og annarra, sem mættu á fundi Samkeppnisstofnunar, án þess að njóta réttarverndar samkvæmt 32.-33. gr. og 51. gr. laganna. Er ekki loku skotið fyrir það að umrædd skýrslugjöf og fundargerðir stofnunarinnar orki á framgang málsins fyrir dómi vegna áhrifa á lögreglurannsókn þess og þá aðeins ákæruvaldinu í óhag. Á hitt er að líta að lögregla aflaði viðbótargagna, rannsakaði bókhald olíufélaganna og yfirheyrði ríflega 70 einstaklinga í því skyni að varpa ljósi á málsatvik. Þá hafa ákærðu, enn sem komið er, ekki bent á nein þau gögn, sem ákæruvaldið hafi vanrækt að leggja fyrir dóminn. Mat á árangri lögreglurannsóknar og þeim atriðum, sem ákærðu vísa til, bíður því efnismeðferðar og sætir ekki frávísun vegna ágalla á formhlið máls.
Um 5. lið frávísunarkröfu.
Samkvæmt 111. gr. laga um meðferð opinberra mála skal sérhver refsiverður verknaður sæta ákæru, nema annað sé sérstaklega ákveðið í lögum. Í máli þessu liggur fyrir yfirlýsing ákæruvaldsins um að ætluð brot ákærðu hafi verið talin mun alvarlegri en brot annarra starfsmanna olíufélaganna þriggja og að sú staðreynd hafi átt ríkan þátt í því að framkvæmdastjórar félaganna og aðrir starfsmenn, sem getið eru í verknaðarlýsingu ákæru, hafi ekki verið sóttir til saka. Er staðhæft að málefnaleg sjónarmið hafi legið þar að baki. Markmið jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er að tryggja samræmi við túlkun og beitingu laga. Því til samræmis ber að leysa úr sambærilegum málum á sambærilegan hátt. Óumdeilt er að umrætt ákvæði gildir um meðferð ákæruvalds. Fallist er á með ákærðu að samkeppnislög gera í engu greinarmun á minni og meiri háttar brotum fyrirtækja og einstaklinga á þeim lögum. Er þetta ljóst af refsiákvæðum 57. gr. laga nr. 8/1993 og samsvarandi ákvæðum 42. gr. núgildandi laga. Refsiábyrgð samkvæmt lögunum ræðst því ekki af slíkum mælikvarða. Í ljósi þessa er ekki einsætt að lögmæt sjónarmið hafi búið að baki þeirri ákvörðun að ákæra eingöngu forstjóra olíufélaganna, en hefjast ekki handa gagnvart öðrum, ætluðum brotamönnum, sem eins virðist hafa verið ástatt um. Sú ákvörðun samrýmist heldur ekki skýru ákvæði 111. gr. laganna um meðferð opinberra mála.
Almennt gildir sú regla að sakborningur getur ekki vísað til þess að aðrir hafi komist upp með að brjóta af sér með líkum hætti og hann sjálfur, án þess að sæta ákæru. Eru þekkt dæmi þessa af sviði umferðarlaga, þar sem tveir ökumenn aka með líkum hraða og annar sleppur með skrekkinn, en eigi hinn. Í þeim tilvikum er þó fráleitt unnt að halda því fram að viðkomandi ökumenn hafi verið viðriðnir brot hvors annars eða að um samverknað hafi verið að tefla. Vígstaðan er gjörólík í þessu máli. Eins og áður er rakið byggir ákæruvaldið ákæru á því að ákærðu beri refsiábyrgð á háttsemi nafngreindra undirmanna, þar á meðal fjölmargra framkvæmdastjóra olíufélaganna þriggja, sem ákæruvaldið telur viðriðna ætluð brot ákærðu og í augum margra myndu teljast sekir, ef ekki jafnsekir og ákærðu um sum þau brot, sem lýst er í ákæru, enda eiga viðkomandi að hafa komið að sömu brotum með beinum og afgerandi hætti. Verður því vart dregin önnur ályktun en að sömu einstaklingar hafi gerst sekir um brot á 10. gr. samkeppnislaga, ef marka má málatilbúnað ákæruvaldsins á hendur ákærðu.
Samkvæmt framansögðu er það álit dómsins að eins og saksókn er háttað í þessu máli sé um svo augljósa og hróplega mismunun að ræða í skilningi 11. gr. stjórnsýslulaga, sbr. og jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944, sbr. 3. gr. laga nr. 97/1995, að ekki verður við unað, enda liggja engin rök fyrir í málinu, sem réttlætt geta eða skýrt á haldbæran hátt af hverju ákærðu sæta einir ákæru, þrátt fyrir yfirlýsingu ákæruvaldsins um refsiverð brot annarra yfirstjórnenda olíufélaganna. Er hér um að ræða bersýnilegan annmarka við útgáfu ákæru, sem felur ekki aðeins í sér brot á 111. gr. laga um meðferð opinberra mála heldur einnig brot á fyrrnefndri jafnræðisreglu og leiðir af þeim sökum einn sér til þess að vísa ber ákærunni frá dómi á grundvelli 4. mgr. 122. gr. síðastnefndra laga.
Um 6. lið frávísunarkröfu.
Eins og áður er rakið hefur olíufélögunum þremur verið gert að greiða hundruð milljóna króna stjórnvaldssektir fyrir brot á 10. gr. samkeppnislaga samkvæmt úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála 29. janúar 2005. Þeim úrskurði hefur nú verið skotið til dómstóla til ógildingar á nefndri stjórnvaldsákvörðun, en ellegar til lækkunar á sektarfjárhæð. Þegar að þessu virtu og með skírskotun til hæstaréttardóms 8. júní 2006 í máli nr. 248/2006 er ekki fallist á með ákærðu að fyrir liggi endanleg ákvörðun um álagningu téðra stjórnvaldssekta, svo að til álita komi ákvæði 1. mgr. 4. gr. 7. viðauka við mannréttindasáttmála Evrópu um bann við að refsing verði oftar en einu sinni lögð á sama lögaðila eða einstakling fyrir sömu háttsemi. Að svo stöddu getur niðurlagsákvæði 3. mgr. 57. gr. samkeppnislaga nr. 8/1993, sbr. nú 3. mgr. 42. gr. laga nr. 44/2005 engu breytt um þá niðurstöðu, en téð ákvæði leggja þá ótvíræðu skyldu á lögaðila að ábyrgjast greiðslu sektar, sem starfsmaður hans er dæmdur til að greiða vegna brota á lögunum, enda sé brotið tengt starf hans hjá sama lögaðila. Verður krafa ákærðu um frávísun málsins því ekki tekin til greina á þeim grunni.
IV.
Með hliðsjón af niðurstöðum dómsins um 1., 2. og 5. lið frávísunarkröfu ákærðu er málinu hér með vísað frá dómi. Í ljósi þeirra málsúrslita og með vísan til grunnraka 1. mgr. 166. gr. laga um meðferð opinberra mála ber að fella allan sakarkostnað á ríkissjóð. Ákæruvaldið hefur ekki lagt fram sakarkostnaðaryfirlit samkvæmt 2. mgr. 168. gr. téðra laga, sbr. 6. gr. laga nr. 81/2005. Liggur þó fyrir að stofnað hefur verið til sakarkostnaðar vegna verjandastarfa á lögreglurannsóknarstigi máls. Ber að greiða þann kostnað úr ríkissjóði, sem og málsvarnarlaun Gísla Baldurs Garðarssonar hæstaréttarlögmanns, skipaðs verjanda ákærða Einars, málsvarnarlaun Ragnars Tómasar Árnasonar héraðsdómslögmanns, skipaðs verjanda ákærða Geirs og málsvarnarlaun Ragnars Halldórs Hall, skipaðs verjanda ákærða Kristins. Með hliðsjón af eðli og umfangi máls og að teknu tilliti til vinnuskýrslna tveggja síðastnefndra verjenda og ólíkri aðkomu allra verjenda að rannsókn og meðferð málsins, þykja laun verjanda ákærða Einars hæfilega ákveðin 2.231.040 krónur, laun verjanda ákærða Geirs 3.597.428 krónur og laun verjanda ákærða Kristins 3.597.428 krónur, allt að teknu tilliti til greiðslu virðisaukaskatts í úrskurðarorði.
Jónas Jóhannsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
ÚRSKURÐARORÐ:
Máli þessu er vísað frá dómi.
Sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin 2.231.040 króna málsvarnarlaun Gísla Baldurs Garðarssonar hæstaréttarlögmanns, skipaðs verjanda ákærða Einars Benediktssonar, 3.597.428 króna málsvarnarlaun Ragnars Tómasar Árnasonar héraðsdómslögmanns, skipaðs verjanda ákærða Geirs Magnússonar og 3.597.428 króna málsvarnarlaun Ragnars Halldórs Hall hæstaréttarlögmanns, skipaðs verjanda ákærða Kristins Björnssonar.