Hæstiréttur íslands
Mál nr. 258/2012
Lykilorð
- Ávana- og fíkniefni
- Vitni
- Dráttur á máli
- Skilorð
|
|
Fimmtudaginn 18. október 2012. |
|
Nr. 258/2012.
|
Ákæruvaldið (Hulda María Stefánsdóttir saksóknari) gegn Magnúsi Þór Gestssyni (Haukur Örn Birgisson hrl.) Ólafi Páli Ólafssyni og (Steingrímur Þormóðsson hrl.) X (Björgvin Jónsson hrl.) |
Ávana- og fíkniefni. Vitni. Dráttur á máli. Skilorð.
M, Ó og X voru ákærðir fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni með því að hafa haft í vörslum sínum í sölu- og dreifingarskyni 436 kannabisplöntur og 62,10 grömm af kannabislaufum, og hafa um nokkurt skeið fram til þess dags ræktað umræddar plöntur. Ó var að auki ákærður fyrir skjalafals. Í niðurstöðu Hæstaréttar kom meðal annars fram að ekki yrði byggt á framburði bróður X um þátt X í brotinu, þar sem honum hefði ekki verið gerð grein fyrir því við skýrslutöku hjá lögreglu, þar sem hann var yfirheyrður sem sakborningur, að honum væri heimilt að skorast undan því að tjá sig um atriði sem gætu falið í sér refsiverða háttsemi bróður hans. Þetta fengi því þó ekki breytt að staðfesta bæri niðurstöðu héraðsdóms um sakfellingu M, Ó og X fyrir þau brot sem þeir voru ákærðir fyrir. Var þeim gert að sæta fangelsi í 12 mánuði, en þar sem málið hafði dregist mjög hjá lögreglu taldi Hæstiréttur hins vegar rétt að fresta fullnustu hluta refsingarinnar og var hún bundin skilorði. Þá var einnig staðfest ákvæði héraðsdóms um upptöku.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Benedikt Bogason og Þorgeir Örlygsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 16. apríl 2012 í samræmi við yfirlýsingar ákærðu um áfrýjun. Af hálfu ákæruvalds er þess krafist að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur um sakfellingu ákærðu, en að refsing þeirra verði þyngd. Þá er þess krafist að niðurstaða héraðsdóms um upptöku fíkniefna og muna verði staðfest.
Ákærði Ólafur Páll Ólafsson krefst þess að refsing hans verði milduð og hún bundin skilorði.
Ákærðu Magnús Þór Gestsson og X krefjast aðallega sýknu af kröfum ákæruvaldsins, en til vara að refsing þeirra verði milduð.
Mál þetta er af ákæruvaldsins hálfu höfðað á hendur öllum ákærðu fyrir að hafa mánudaginn 2. september 2009 að [...] í Reykjavík haft í vörslum sínum, í sölu- og dreifingarskyni, 436 kannabisplöntur og 62,10 grömm af kannabislaufum, og hafa um nokkurt skeið fram til þess dags ræktað umræddar plöntur. Í forsendum héraðsdóms er um sönnun á sekt ákærðu meðal annars litið til framburðar vitnisins A, sem er bróðir ákærða X. Hann hafi við skýrslutöku hjá lögreglu 21. apríl 2010 staðhæft að ákærðu Magnús Þór, X og Ólafur Páll hafi allir verið saman í ræktuninni, og hafi framburður hans í það skipti ekki borið nein merki þess að hann væri að geta sér til um þetta, svo sem hann síðar hefði staðhæft. Við fyrrgreinda skýrslutöku var A yfirheyrður sem sakborningur. Þess var ekki gætt að benda honum á þann rétt að mega skorast undan því að tjá sig um atriði sem gætu falið í sér refsiverða háttsemi bróður hans samkvæmt 2. mgr. 65. gr., sbr. og b. lið 1. mgr. 117. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Við mat á sönnun um sekt ákærða X verður því ekki byggt á skýrslu A hjá lögreglu. Þetta fær því þó ekki breytt að með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms að öðru leyti verður staðfest niðurstaða hans um að sakfella beri alla ákærðu samkvæmt I. kafla ákæru og að háttsemi þeirra sé þar rétt heimfærð til refsiákvæða. Þá er og með skírskotun til forsendna hins áfrýjaða dóms staðfest að sakfella beri ákærða Ólaf Pál samkvæmt II. kafla ákæru og er háttsemi hans þar réttilega færð til refsiákvæða.
Brot allra ákærðu samkvæmt I. kafla ákæru var vel undirbúið og skipulagt, og þurftu þeir að leigja og útbúa sérstaklega með tilheyrandi kostnaði húsnæði sem hentaði brotastarfseminni og leggja vinnu í ræktun þeirra plantna sem um ræðir. Þótt ræktun plantnanna hafi ekki að öllu leyti verið langt á veg komin þegar upp komst um brot ákærðu, og nokkuð hafi skort á að fíkniefnin hafi náð þeim styrkleika sem að var stefnt, var um að ræða umfangsmikla framleiðslu á fíkniefnum í sölu- og dreifingarskyni. Samkvæmt þessu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms er staðfest sú niðurstaða hans að ákærðu sæti hver um sig fangelsi í 12 mánuði.
Rannsókn málsins hófst af hálfu lögreglu 4. september 2009. Skýrsla var tekin af ákærða Ólafi Páli 9. febrúar 2010 og aftur 14. maí sama ár. Lögregla fór á heimili ákærða X 21. apríl 2010 í þeim tilgangi að boða hann til skýrslutöku vegna rannsóknar málsins og var skýrsla tekin af honum þann sama dag. Ákærði Magnús Þór gaf skýrslu hjá lögreglu 21. apríl 2010 og skýrsla var sem fyrr segir einnig tekin af vitninu A þann sama dag. Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu gaf út ákæru í málinu 29. nóvember 2011, eða rúmum sautján mánuðum eftir síðustu skráðu rannsóknaraðgerðir samkvæmt gögnum málsins. Hefur engin haldbær skýring af ákæruvaldsins hálfu verið gefin á þessum drætti málsins sem er aðfinnsluverður og brýtur í bága við 2. mgr. 53. gr. laga nr. 88/2008 og meginreglu 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar. Þykir þetta eiga að valda því að refsing allra ákærðu verði skilorðsbundin með þeim hætti sem í dómsorði greinir.
Ákvæði héraðsdóms um upptöku og sakarkostnað verða staðfest.
Ákærðu greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin þóknun skipaðra verjenda sinna, sem ákveðin verður að meðtöldum virðisaukaskatti, svo sem nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Ákærðu, Magnús Þór Gestsson, Ólafur Páll Ólafsson og X, sæti hver um sig fangelsi í 12 mánuði, en fresta skal fullnustu 9 mánaða af refsivistinni og sá hluti hennar niður falla að liðnum 4 árum frá uppsögu dóms þessa að telja haldi ákærðu almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Héraðsdómur skal að öðru leyti vera óraskaður.
Ákærðu greiði hver fyrir sig 313.750 krónur í málsvarnarlaun til skipaðra verjenda sinna, hæstaréttarlögmannanna Björgvins Jónssonar, Hauks Arnar Birgissonar og Steingríms Þormóðssonar, en óskipt annan áfrýjunarkostnað málsins, 46.787 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 16. mars 2012.
Mál þetta, sem dómtekið var 5. mars sl., er höfðað af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu með ákæru 29. nóvember 2011, á hendur Magnúsi Þór Gestssyni, kt. [...], [...], Reykjavík, Ólafi Páli Ólafssyni, kt. [...], [...], Reykjavík og X, kt. [...], [...], [...], fyrir eftirtalin brot:
I.
Á hendur öllum ákærðu fyrir fíkniefnalagabrot, með því að hafa mánudaginn 2. september 2009, að [...] í Reykjavík, haft í vörslum sínum, í sölu og dreifingarskyni, 436 kannabisplöntur og 62,10 grömm af kannabislaufum, og hafa um nokkurt skeið fram til þess dags ræktað greindar plöntur.
Brot þetta er talið varða við 2. gr., sbr. 4., 5. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001, og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr., reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002 og auglýsingu nr. 232/2001.
II.
Á hendur ákærða Ólafi Pál Ólafssyni fyrir skjalafals með því að hafa í maí 2009, í blekkingarskyni, gert leigusamning um húsnæði við [...] og þannig komist yfir umráð húsnæðisins, með því að framvísa samningnum með falsaðri undirskrift B í reit fyrir áritun leigutaka og falsaðri undirskrift C í reit votta að undirskrift, í þeim tilgangi að blekkja leigusala húsnæðisins og villa þannig á sér heimildir.
Brot þetta er talið varða við 1. mgr. 155. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 30/1998.
Er þess krafist að ákærðu verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar. Einnig er krafist upptöku á ofangreindum 436 kannabisplöntum og 62,10 grömmum af laufum, sem hald var lagt á, samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001. Jafnframt er krafist upptöku á fjórum vatnsdælum, einum kassa af steinullarpúðum og einu þriggja fasa millistykki en þessir munir voru notaðir við ræktun plantnanna og voru haldlagðir, samkvæmt 7. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001.
Ákærðu, Magnús Þór og X, neita sök. Af hálfu verjenda þeirra er krafist sýknu og greiðslu málsvarnarlauna úr ríkissjóði. Ákærði, Ólafur Páll, játar sök. Af hálfu verjanda ákærða er krafist vægustu refsingar er lög leyfa og greiðslu málsvarnarlauna.
I.kafli ákæru.
Samkvæmt skýrslu lögreglu frá föstudeginum 4. september 2009 höfðu lögreglu borist upplýsingar um að hugsanlega væri verið að rækta kannabisplöntur í íbúð í fjöleignarhúsinu að [...] í Reykjavík. Samkvæmt þessum upplýsingum væri svalahurð að íbúðinni opin til hálfs og hefði hún verið það síðan snemma sumars. Samkvæmt frumskýrslu lögreglu fóru lögreglumenn á staðinn. Fram kemur að dregið hafi verið fyrir glugga í öllum rýmum íbúðarinnar og að hurð að svölum var opin til hálfs. Hafi lögreglumenn knúið dyra án þess að svarað yrði. Til að kanna vettvang nánar hafi lögreglumenn farið upp á svalir við umrædda íbúð. Er þangað kom hafi lögreglumenn veitt athygli ýmsum ummerkjum um framleiðslu fíkniefna, en inn um glugga hafi meðal annars mátt sjá plastbakka sem gjarnan væru notaðir undir litlar kannabisplöntur. Þá hafi mátt finna megna kannabislykt innan úr íbúðinni. Lögreglumenn hafi bankað á svaladyrnar en enginn svarað. Hafi lögreglumenn þá tekið ákvörðun um að fara inn um svaladyr íbúðarinnar. Íbúðin hafi reynst mannlaus. Við yfirferð um íbúðina hafi lögregla sannreynt kannabisræktun í tveim herbergjum. Í öðru þeirra hafi plöntur verið í blómstrun og stutt átt eftir í að vera tilbúnar. Plöntur í hinu herberginu hafi styttra verið komnar. Er tekið fram að um hafi verið að ræða vatnsræktun en kerfi hafi verið útbúin úr PVC klóakrörum fyrir ræktunina. Ekki hafi á þeirri stundu legið fyrir hverjir væru með íbúðina en fram hafi komið í samtölum við nágranna að þrír íslenskir karlmenn hafi sést koma og fara úr íbúðinni. Á staðinn hafi verið boðaður lögmaður til að tryggja réttindi sakborninga. Þá hafi tæknideild lögreglu komið á staðinn.
Samkvæmt skýrslu tæknideildar lögreglu frá 8. september 2009 var íbúðinni skipt í eldhús, baðherbergi og tvö svefnherbergi. Í svefnherbergi, sem merkt var sem rými 1, hafði verið komið fyrir loftræstikerfi. Gluggar höfðu verið byrgðir og útöndun loftræstikerfisins leidd í glugga. Úr lofti hafi hangið 12 gróðurhúsalampar tengdir við tímarofa. Á trébúkkum hafi verið götuð skólprör. Gróðursettar hafi verið 132 kannabisplöntur. Í gegnum hringrör hafði verið leitt vatn í hringrás til að vökva plönturnar. Í öðru svefnherbergi, rými 2, hafði samskonar kerfi verið komið fyrir. Þar hafi 4 gróðurhúsalampar hangið úr lofti. Í þremur plastkössum á gólfi hafi einnig verið kannabisplöntur í ræktun sem ekki hafi verið tengdar vökvunarkerfi. Í herberginu hafi verið 304 plöntur í ræktun. Vettvangur var ljósmyndaður, en ljósmyndir af honum eru á meðal gagna málsins. Þá hafi plöntur verið skornar niður og myndaðar með kvarða. Þá hafi þær verið settar í plastpoka. Plönturnar hafi verið á bilinu 2 til 163 cm á hæð. Þær hafi verið skráðar í efnaskýrslu nr. 16292. Fram kemur að ein planta hafi verið send til rannsóknar hjá Rannsóknarstofu Háskóla Íslands í lyfja- og eiturefnafræði. Samkvæmt efnaskýrslu lögreglu var samtals lagt hald á 436 plöntur í íbúðinni, sem samtals vógu 62,10 grömm.
Samkvæmt matsgerð Rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræði frá 16. september 2009 vegna rannsóknar á sýni nr. 16292 var sýni 124,79 g að þyngd við komu. Eftir þurrkun var þyngd þess 32,36 g. Með smásjárskoðun, gasgreiningu á súlu og massagreiningu hafi fundist að sýnið hafi verið kannabis. Magn tetrahýdrókannabínóls í þurru sýni hafi verið 11 mg/g, sem samsvari 2,9 mg/g í sýninu fyrir þurrkun.
Föstudaginn 18. september 2009 var tekin skýrsla af skráðum leigutaka að íbúðinni að [...]. Kvaðst leigutakinn ekki vita neitt um mál það sem til rannsóknar væri. Með bréfi sama dag, sem móttekið er hjá lögreglu 22. september 2009, lagði leigutakinn fram kæru hjá lögreglu á hendur þeim er falsað hefði nafn leigutakans á ódagsett eintaks húsaleigusamnings um íbúðina.
Húsaleigusamningur um leigu íbúðar að [...] liggur frammi í gögnum málsins. Samkvæmt ákvæði í honum skyldi leiga greiðast inn á tilgreindan reikning. Í málinu liggur einnig frammi viðskiptakvittun frá 7. júlí 2009 þar sem ákærði, Ólafur Páll Ólafsson, leggur inn á reikning sem tilgreindur er í húsaleigusamningi 85.000 krónur.
Lögregla fór 21. apríl 2010 að heimili ákærða, X, í þeim tilgangi að boða hann til yfirheyrslu. Í lögregluskýrslu kemur fram að ákærði hafi svarað í dyrasíma er lögregla hafi knúið dyra. Í framhaldi hafi ákærði komið í anddyri fjöleignarhússins. Hann hafi ekki hleypt lögreglu inn heldur farið aftur inn í íbúð sína. Lögregla hafi á ný knúið dyra og ákærði aftur komið fram. Hafi lögreglu þótt hátterni hans undarlegt. Hafi verið farið á leit við ákærða að hann heimilaði lögreglu leit í íbúðinni. Ákærði hafi synjað fyrir það í fyrstu en síðar heimilað leit. Við leit hafi meðal annars fundist pöntunarstaðfesting á gróðurhúsalömpum. Á meðal rannsóknargagna málsins er pöntunarstaðfesting frá 23. mars 2010. Samkvæmt henni hafa 7 gróðurhúsalampar verið pantaðir hjá tilgreindri verslun í [...] fyrir samtals 369.487 krónur.
Ákærði, Magnús Þór, kvaðst hafa farið með meðákærða, Ólafi Páli, að [...] í Reykjavík í þrjú til fjögur skipti, en í húnæðinu hafi meðákærði staðið að ræktun á kannabisplöntum. Ákærði kvaðst hafa staðið í þeirri trú að meðákærði stæði einn að ræktuninni og að meðákærði hafi einn átt hugmyndina. Meðákærða hafi ákærði kynnst í gegnum A og meðákærða, X, en ákærði og meðákærði, X, hafi verið saman í grunnskóla. Þeir félagarnir hafi allir verið að spila saman tölvuleiki á þessum tíma og þekkst í gegnum það. Meðákærði, Ólafur Páll, hafi tekið húsnæðið á leigu. Hafi ákærði aðstoðað meðákærða við að bera búnað til ræktunar upp í íbúðina. Meðákærði, X, hafi einnig aðstoðað við það. Ákærði kvaðst ekki hafa aðstoðað meðákærða við að setja upp kerfið, eins og tímarofa eða vökvakerfi. Á verkstæði föður ákærða hafi ákærði sýnt meðákærða og A hvernig kerfi til að rækta kannabis virkaði. Hafi ákærði áður verið með slíka ræktun í [...] í Kópavogi, sem hann hafi verið tekinn með. Þá kvaðst ákærði hafa látið meðákærða, Ólaf Pál, hafa 5 iðnaðarlampa úr fyrri ræktun sinni, einhverjar keðjur til að halda kerfinu uppi, eitthvað af steinull og tímarofa. Búnaðurinn hafi verið notaður, en nýr sennilega kostað um 70.000 krónur. Annað hafi meðákærði, Ólafur Páll, sennilega keypt í [...]. Eftir að meðákærði, Ólafur Páll, hafi verið búinn að setja upp kerfið hafi meðákærði leitað til ákærða varðandi ráð við ræktunina. Í þeim tilgangi hafi ákærði komið aftur í íbúðina ásamt meðákærða, Ólafi Páli, en meðákærða hafi verið kunnugt um fyrri afskipti ákærða af sambærilegri ræktun. Hafi meðákærði leitað skýringa á því af hverju blöð af kannabisplöntunni ættu til að beyglast. Ákærði kvaðst ekki hafa vitað neitt meira um ræktunina heldur en meðákærði þegar uppi var staðið. Hafi því einungis verið um ráðgjöf að ræða. Ákærði kvaðst ekki vita hve oft meðákærði, X, hafi komið í íbúðina, en hann hafi verið í öll þau skipti er ákærði hafi komið þangað. Einhverju sinni hafi meðákærði, Ólafur Páll, beðið ákærða og meðákærða, X, um að fara í íbúðina, en meðákærði hafi haft áhyggjur af því að vökvakerfið læki. Ákærðu hafi ekki verið með lykil að íbúðinni og hafi hurð að henni verið ólæst. Er ákærðu hafi komið í íbúðina hafi verið búið að taka plönturnar niður. Hafi ákærða grunað að meðákærði, Ólafur Páll, hafi vitað af því og að lögregla myndi sennilega handtaka ákærðu í kjölfarið grunaða um ræktunina. Það hafi þó ekki gerst. Síðar hafi ákærði farið aftur í íbúðina, ásamt meðákærða Ólafi Páli, og hafi kerfið þá verið tekið niður. Meðákærði, Ólafur Páll, hafi alltaf verið með lykil að íbúðinni er ákærðu hafi farið þangað með honum. Ekki kvaðst ákærði vita hver hafi átt að fá afrakstur ræktunarinnar. Þá kvaðst ákærði ekki vita hvaðan meðákærði hafi fengið fræ til ræktunarinnar. Ákærða hafi fundist óþægilegt að koma í húsnæðið á meðan ræktunin hafi verið í gangi en ákærði hafi þá verið á skilorði. Hafi það verið dómgreindarskortur hjá ákærða. Ákærði kvaðst ekki hafa vitað til þess að meðákærði, X, hafi verð með lykla að íbúðinni í [...]. Ekki væri þó útilokað að meðákærði hafi verið með lykil er þeir hafi farið saman til að aðgæta með leka í ræktuninni. Þá hafi ákærða ekki verið kunnugt um að meðákærði, X, hafi látið einhvern búnað í té í sambandi við ræktunina.
Ákærði, X, kvaðst engin tengsl hafa haft við ræktunina í [...]. Hafi hann þekkt meðákærða, Ólaf Pál, og ásamt honum komið í þrígang í [...]. Hafi ákærði staðið í þeirri trú að meðákærði, Ólafur Páll, stæði einn að ræktuninni. Ákærði kvaðst hafa kynnst meðákærða, Ólafi Páli, í gegnum félagana og tölvuspil, auk þess sem meðákærði hafi um hríð unnið hjá ákærða í [...]. Ákærði kvaðst ekki þekkja til aðkomu meðákærða, Magnúsar Þórs, að ræktuninni. Ákærði vissi þó til þess að meðákærði, Ólafur Páll, hafi sótt ráð til meðákærða, Magnúsar Þórs, varðandi ræktunina. Þá kvaðst ákærði ekki vita hver hafi átt hugmyndina að ræktuninni eða hver hafi komið búnaðinum upp. Ákærði hafi ekki aðstoðað við neitt því tengt. Þá hefði ákærði enga vitneskju haft um hver hafi komið ræktuninni fyrir. Er ákærði hafi komið fyrst í íbúðina hafi verið búið að koma plöntum fyrir. Í eitt skipti hafi ákærði, ásamt meðákærða Magnúsi Þór, farið í íbúðina. Hafi hurð að íbúðinni verið ólæst. Meðákærði, Ólafur Páll, hafi beðið ákærðu um að fara á staðinn en meðákærði hafi staðið í þeirri trú að búið hafi verið að fjarlægja ræktunina. Ekki hafi ákærði haft neina vitneskju um hver hafi átt að njóta ágóða af ræktuninni. Ákærði staðfesti að lögregla hefði lagt hald á pöntunarstaðfestingu á heimili ákærða vegna kaupa á gróðurhúsalömpum. Hafi ákærði einfaldlega verið að skoða þessa hluti, en ekkert meira verið á bak við það.
Ákærði, Ólafur Páll, kvaðst hafa staðið einn að ræktuninni að [...] og hann sjálfur átt hugmyndina að ræktuninni. Hugmyndina hafi ákærði fengið í mars 2009, en þá hafi faðir ákærða greinst með alvarlegan sjúkdóm og ákærði sjálfur verið í neyslu á þeim tíma. Ákærði kvaðst hafa verið búinn að vinna fyrir meðákærða, X. Meðákærða, Magnús Þór, hafi ákærði þekkt minna. Ákærði hafi heyrt af því að meðákærði, Magnús Þór, þekkti til ræktunar frá því í [...] í Kópavogi. Kvaðst ákærði hafa leitað til meðákærða, Magnúsar Þórs, með ráð varðandi ræktunina. Meðákærði hafi gefið ákærða búnað í tengslum við ræktunina, en um hafi verið að ræða keðjur, kastara og svamp. Vatnskerfið sjálft og rafkerfi því tengt hafi ákærði keypt í [...]. Ekki kvaðst ákærði muna hve mörg ljós hann hafi verið með í ræktuninni, en hann hafi fengið 4 eða 5 kastara hjá meðákærða, Magnúsi Þór. Meðákærði, X, hafi verið eins konar tengiliður við meðákærða, Magnús Þórs. Ákærði kvaðst ekki áður hafa sett upp viðlíka búnað og tengdist ræktuninni í [...]. Kerfið hafi hann sett upp einn, þó svo nokkrir vinir ákærða hafi aðstoðað hann í upphafi. Meðákærðu hafi ekki tekið þátt í því. Er ákærði var ítrekað spurður um þetta af verjendum meðákærðu kvað hann meðákærðu eitthvað getað hafa aðstoðað við að koma búnaðinum upp í íbúðina. Ekki kvaðst ákærði hafa velt fyrir sér hve mikið magn af kannabis hann fengi út úr ræktuninni. Ákærði kvaðst hafa fengið nokkra afleggjara í ræktunina í gegnum leiðir er hann hafði. Hafi hann sjálfur sett kannabisplönturnar í kerfið. Um tíma hafi ákærði haldið að kominn væri leki í kerfið. Hafi hann beðið meðákærðu um að fara að aðgæta með það. Það hafi sennilega verið í september 2009. Ákærði kvað sig þó hafa grunað að búið væri að taka kerfið niður og því hafi hann ætlað að koma sök á meðákærðu í málinu. Ákærði kvaðst telja að meðákærðu hafi komið tvisvar til þrisvar sinnum í íbúðina. Ákærði kvaðst einn hafa verið með lykil að íbúðinni en hurð að henni hafi verið ólæst er ákærði hafi beðið meðákærðu um að fara þangað. Búnaður til ræktunarinnar hafi verið nokkuð dýr. Hafi kostnaðurinn sennilega verið í kringum 2.000.000 krónur. Við það hafi bæst húsaleiga, 85.000 krónur á mánuði. Ákærði hafi ekki haft yfir þessum fjármunum að ráða. Hafi hann fengið fjármuni hjá ýmsum vinum sínum. Þá hafi hann um þetta leyti verið í hálfu starfi hjá [...]. Ákærði kvaðst hafa ætlað að selja afrakstur framleiðslunnar.
Er ákærði, Ólafur Páll, gaf skýrslu hjá lögreglu 9. febrúar 2010 bar hann að meðákærði, X, og A hafi beðið ákærða um að borga leigu vegna íbúðar að [...]. Ákærði, X, hafi látið ákærða fá reiðufé til að greiða húsaleiguna og reikningsnúmer til að leggja greiðsluna inn á. Hafi ákærði fengið á bilinu 5.000 til 10.000 krónur í hvert skipti sem hann hafi lagt inn leigugreiðslur. Hann hafi sennilega lagt leigugreiðslur þrisvar sinnum inn á reikning. Hafi ákærða grunað að eitthvað ólöglegt færi fram í íbúðinni. Ákærði, X, og A hafi síðar komið að máli við ákærða og spurt hann hvort hann vildi aðstoða þá við aðra ræktun. Hafi ákærði samþykkt það. Sú ræktun hafi átt að vera í samstarfi við ákærða, X, A og ákærða, Magnús Þór. Ræktunin hafi verið undirbúin í húsnæði að [...] í Reykjavík og ákærði unnið að henni. Eftir að ræktunin hafi verið stöðvuð í [...] hafi meðákærði, X, tjáð ákærða að hann þyrfti ekki að aðstoða lengur við ræktunina. Hafi ákærði aldrei komið að ræktuninni í [...]. Er ákærði gaf skýrslu á ný fyrir lögreglu 14. maí 2010 lýsti ákærði því að hann hafi í byrjun sjálfur mest verið með ræktunina í [...]. Meðákærðu hafi hjálpað ákærða við uppsetninguna. Þeir hafi hins vegar ekki aðstoðað við ræktunina. Ákærði kvaðst í fyrri framburði sínum hafa ákveðið að bera á meðákærðu rangar sakir.
A kvaðst enga aðkomu hafa átt að ræktuninni í [...]. Ákærðu væru allir vinir hans og ákærði, X, bróðir hans. Þeir félagar hafi allir spilað tölvuleiki saman og tengst í gegnum það. A kvaðst talsvert hafa verið með ákærða, Ólafi Páli, en minna með ákærða, Magnúsi Þór. A kvaðst ekki hafa vitað hver hafi staðið að ræktuninni að [...], en þangað hafi A komið einu sinni. Þá hafi ákærðu einnig verið á staðnum. A hafi einungis skoðað sig um og því næst sest í sófa í stofu. Hafi hann meira verið samferða ákærðu í þetta sinn. Hafi ákærða á sínum tíma grunað að ákærðu stæðu allir að ræktuninni. Hafi hann einfaldlega ekki verið með þetta atriði á hreinu. A gaf skýrslu hjá lögreglu í tvígang sama dag 21. apríl 2010. Í fyrra sinnið kvaðst hann ekkert kannast við ræktunina í [...]. Í seinni skýrslutökunni síðar sama dag kvaðst A vilja breyta fyrri framburði sínum. Kvað hann ákærða, Magnús Þór, vera með ræktunina. Er A hafi farið á staðinn hafi hann farið með ákærðu, Magnúsi Þór og X. Hafi A tekið mynd af tímastilli sem notaður hafi verið við ræktunina á síma sinn á verkstæði föður ákærða, Magnúsar Þórs. Ákærðu, Magnús Þór, Ólafur Páll og X, hafi boðið A að taka þátt í þessari ræktun en hann ekki viljað það. Ákærði, Magnús Þór, væri heilinn á bak við ræktunina.
D kvaðst búa að [...] í Reykjavík. Framkvæmdir hafi verið í gangi við húseignina sumarið 2009. Hafi hún séð drengi er leigt hafi íbúð í húsinu en á virkum dögum kæmi D oft heim í hádeginu. Drengirnir hafi verið kurteisir og yfirleitt tveir saman. Hafi henni verið tjáð að ungir háskólanemar væru með íbúðina á leigu. Hafi henni þótt einkennilegt að ekkert ,,partýstand“ hafi fylgt þessum ungu háskólanemum. Sumarið 2009 hafi verið heitt sumar. Hafi hún veitt athygli að ávalt hafi verið dregið fyrir glugga í eldhúsi íbúðar drengjanna. Hafi henni þótt það grunsamlegt. Þá hafi hún heyrt hljóð koma frá íbúðinni og hafi verið eins og viftur væru þar sífellt í gangi. Hafi hún hringt til lögreglu og gert grein fyrir þessum grunsemdum sínum.
E kvaðst búa að [...]. Hafi henni þótt einkennilegt að gluggar þessarar íbúðar hafi verið ,,blokkeraðir“ og að svalahurð að íbúðinni hafi alltaf verið opin, hvort sem var að nóttu eða degi. Ekki hafi hún orðið vör við mikinn umgang um íbúðina. Hafi hún haft vitneskju um að ungir drengir væru með íbúðina á leigu. Sonur E, þá á þrettánda ári, hafi sagt henni að hann hafi hitt frænda sinn, ákærða, X, á staðnum. Hafi D mætt ákærða einhverju síðar. Þá hafi D verið farið að gruna að eitthvað væri ekki eins og ætti að vera. Í eitt sinn hafi hún gengið á eftir ákærða, X, upp stiga í fjöleignarhúsinu, en þá hafi ákærði verið einn á ferð. Hafi hún af ásettu ráði gengið hægt því hún hafi ætlað að reyna að sjá inn í íbúð drengjanna um leið og ákærði færi inn. Ákærði hafi hins vegar af ásettu ráði beðið með að fara inn í íbúðina uns D væri farin fram hjá henni. Ekki hafi hún séð hvort ákærði hafi notað lykil við að komast inn í íbúðina. D kvaðst ekki munu hafa borið kennsl á ákærða, X, nema vegna þess að sonur hennar hafi þekkt frænda sinn. Sonur hennar hafi séð ákærða nokkrum sinnum í [...]. D hafi verið tjáð af nágrönnum að drengir þeir er væru með íbúðina á leigu væru fleiri en tveir.
Jón Gunnar Sigurgeirsson lögreglumaður staðfesti þátt sinn í rannsókn málsins. Hafi hann verið einn af þeim lögreglumönnum er farið hafi á staðinn umrætt sinn. Lögreglu hafi borist ábendingar um að eitthvað grunsamlegt væri í gangi í íbúðinni. Á leigusamningi um íbúðina hafi komið fram nafn leigutaka. Sá hafi verið yfirheyrður, en hann hafi ekki virst tengjast málinu. Þá hafi verið upplýst um þann sem greitt hafi húsaleiguna. Það hafi komið lögreglu á sporið. Í framhaldi hafi íbúi í húsinu greint frá því að frændi sonar hennar væri einn af þeim er kæmi í íbúðina. Íbúðin hafi verið læst er lögreglu hafi borið að garði. Hafi lögreglumenn farið inn um svaladyr íbúðarinnar. Hurðin hafi verið lokuð með vír, sem klippa hafi þurft á. Jón Gunnar kvaðst þeirrar skoðunar að ólíklegt væri að einn aðili stæði að viðlíka ræktun og hafi verið í [...]. Talsverða þekkingu þyrfti til.
Jakob Kristinsson prófessor á Rannsóknarstofu í lyfja-og eiturefnafræði staðfesti matsgerð frá 16. september 2009. Miðað við rannsóknir áranna 2008 til 2010 hafi magn tetrahýdrókannabínóls í þurru sýni þeirrar plöntu er send hafi verið til rannsóknar mælst talsvert undir miðgildi mælinga þeirra ára. Miðgildið væri 35 mg/g og meðaltalið 40 mg/g. Sú planta er rannsökuð hafi verið hafi reynst vera 11 mg/g.
Niðurstaða:
Ákærðu er gefið að sök fíkniefnalagabrot, með því að hafa mánudaginn 2. september 2009, að [...] í Reykjavík, haft í vörslum sínum í sölu og dreifingarskyni, 436 kannabisplöntur og 62,10 g af kannabislaufum og að hafa um nokkurt skeið fram til þess dags ræktað greindar plöntur. Ákærðu, Magnús Þór og X, neita báðir sök. Ákærði, Ólafur Páll, játar sök. Ákærðu, Magnús Þór og X, hafa fyrir dómi staðhæft að þeir hafi að engu leyti tengst ræktuninni að [...]. Hafi þeir einungis komið þangað í fáein skipti. Ákærði, Magnús Þór, ber að hann hafi veitt meðákærða, Ólafi Páli, tiltekin ráð varðandi ræktunina og lánað honum lampa og fleiri muni til að nota við hana. Að öðru leyti hafi hann ekki komið nærri henni og einskis átt að njóta varðandi afraksturinn. Ákærði, X, staðhæfir að hann hafi ekkert lagt til ræktunarinnar og einskis átt að njóta af henni. Viðurkenna ákærðu, Magnús Þór og X, að þeir hafi í eitt skipti farið inn í íbúðina í [...] án þess að ákærði, Ólafur Páll, hafi verið með í för en íbúðin hafi þá verið ólæst.
Framburður ákærða, Ólafs Páls, hefur ekki verið á einn veg við rannsókn og meðferð málsins. Þannig staðhæfði hann í fyrstu yfirheyrslu hjá lögreglu að meðákærðu hefðu borið ábyrgð á ræktuninni og ákærði í upphafi einungis tekið að sér að greiða húsaleigu fyrir ákærðu inn á tilgreindan reikning. Síðar hafi ákærða verið boðið að taka þátt og þá í tengslum við ræktun annars staðar í Reykjavík. Síðar breytti hann þessum framburði sínum og bar þá að hann bæri einn ábyrgð á ræktuninni í [...]. Athygli vekur að fyrsti framburður ákærða er nokkuð nákvæmur um tiltekin atriði sem samrýmast rannsóknargögnum málsins. Þannig bar ákærði til að mynda að hann hafi í þrígang greitt húsaleigu fyrir meðákærðu inn á tilgreindan reikning. Samkvæmt húsaleigusamningi um húsnæðið var það leigt frá 1. maí 2009. Ræktunin var tekin niður í framhaldi af húsleit lögreglu 4. september 2009. Kemur þetta nokkuð heim og saman við þennan upphaflega framburð ákærða um fjölda leigugreiðslna. Þá er einnig til þess að líta að framburður vitnisins A hefur ekki verið á einn veg, en vitni þetta þekkti vel til ákærðu. Staðhæfði hann í skýrslutöku hjá lögreglu 21. apríl 2010 að ákærðu væru allir saman í ræktuninni. Bar framburður hans í það skipti þess engin merki að hann væri að geta sér til um þetta, svo sem hann síðar hefur staðhæft.
Ræktun sú er fram fór að [...] var nokkuð umfangsmikil. Hafði fullkomnum búnaði verið komið fyrir og augljóslega þurft staðgóða þekkingu til að koma honum upp. Þannig tengdist búnaðinum meðal annars tímarofi og án nokkurs vafa þurft kunnáttumann til að ganga frá rafmagnstengingum á honum og öðrum búnaði. Kostnaður við búnaðinn hefur hlaupið á verulegum fjárhæðum, en ákærði, Ólafur Páll, hefur staðhæft að heildarkostnaður við hann hafi numið um 2.000.000 króna. Til viðbótar kemur húsaleiga, en samkvæmt húsaleigusamningi var húsaleiga á mánuði 85.000 krónur. Þrátt fyrir þetta bar ákærði, Ólafur Páll, að hann hafi lítil fjárráð haft og fengið lánaða fjármuni fyrir þessum kostnaði hjá vinum sínum. Hefur hann enga frekari grein getað gert fyrir því. Í þessu ljósi er ósennilegt að ákærði, Ólafur Páll, hafi einn staðið að ræktuninni. Eins og áður sagði virðast verulegir fjármunir hafa verið settir í ræktunina í [...] og miðað við þá starfsemi sem þar var í gangi þykir einnig ósennileg sú staðhæfing ákærðu að hurð að íbúðinni hafi verið ólæst er ákærðu, Magnús Þór og X, fóru þangað inn án meðákærða. Þykir þetta óræk vísbending um að aðrir ákærðu en ákærði, Ólafur Páll, hafi einnig verið með lykla að íbúðinni. Þá verður að telja ósennilegt að ákærði, Magnús Þór, hafi einskis átt að njóta af ræktuninni í [...] í ljósi þess að hann lagði töluverðan búnað til við ræktunina. Þá er til þess að líta að vitni sem á þessum tíma bjuggu að [...] hafa borið að tveir eða fleiri drengir hafi vanið komur sínar í íbúðina í [...]. Rakst ungur drengur þar ítrekað á frænda sinn, ákærða X, en það leiddi meðal annars til þess að grunur féll á ákærða, X, um að hann tengdist málinu. Þegar til þeirra atriða sem að framan greinir er litið, er það mat dómsins að hafið sé yfir skynsamlegan vafa að ákærðu hafi allir átt þátt í því að rækta kannabisplönturnar að [...] og allir haft þær í vörslum sínum í sölu og dreifingarskyni. Verða þeir því allir sakfelldir samkvæmt I. kafla ákæru og er háttsemi ákærðu rétt heimfærð til refsiákvæða í ákærunni.
II.kafli ákæru.
Ákærði, Ólafur Páll, játar sök samkvæmt II. kafla ákæru. Með vísan til þeirrar játningar hans, sem samrýmist gögnum málsins, verður ákærði sakfeldur samkvæmt II. kafla ákæru og er háttsemi hans þar rétt heimfærð til refsiákvæða.
Ákærði, Magnús Þór, er fæddur í ágúst 1985. Frá árinu 2002 hefur ákærði gengist undir sátt hjá sýslumanninum í Kópavogi 2003 vegna umferðarlagabrots. Þá var ákærði á árinu 2005 dæmdur í skilorðsbundið fangelsi fyrir tilraun til þjófnaðar og gripdeild. Á árinu 2004 var hann dæmdur í 5 mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir brot gegn 4. mgr. 220. gr. laga nr. 19/1940 og brot gegn umferðarlögum. Loks var ákærði dæmdur 18. febrúar 2010 í 9 mánaða fangelsi fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni. Var hinn skilorðsbundni dómur frá 2007 þá dæmdur upp.
Ákærði, Ólafur Páll, er fæddur í maí 1990. Samkvæmt sakavottorði hefur ákærði ekki áður gerst sekur um refsiverða háttsemi svo kunnugt sé.
Ákærði, X, er fæddur í [...] 1985. Á árunum 2002 til 2006 var ákærði fimm sinnum dæmdur fyrir brot gegn ákvæðum almennra hegningarlaga, umferðarlaga og laga um ávana- og fíkniefni. Þá gekkst hann á því tímabili í tvígang undir sáttir fyrir brot gegn umferðarlögum.
Refsing ákærðu er ákveðin með hliðsjón af 2. mgr. 70. gr. laga nr. 19/1940. Þá er við ákvörðun refsingar ákærða, Magnúsar Þórs, til þess að líta að refsingin er hegningarauki við refsidóm frá 18. febrúar 2010. Verður refsing í því tilviki ákveðin með hliðsjón af 78. gr. laga nr. 19/1940. Með hliðsjón af öllu þessu, hreins sakaferils ákærða, Ólafs Páls, og játningar hans, umfangi framleiðslunnar og magns tetrahýdrókannabínóls í þeim plöntum er voru í ræktun, sæti ákærðu hver um sig fangelsi í 12 mánuði. Með hliðsjón af háttsemi ákærðu verður refsing ekki skilorðsbundin að neinu leyti.
Með vísan til lagaákvæða í ákæru eru upptæk gerð til ríkissjóðs plöntur og búnaður eins og nánar greinir í dómsorði.
Ákærðu greiði sakarkostnað samkvæmt sakarkostnaðaryfirliti og málsvarnarlaun skipaðra verjanda sinna, að teknu tilliti til virðisaukaskatts, með þeim hætti er í dómsorði greinir. Við ákvörðun málsvarnarlauna er tekið tillit til þess að ákærða, Ólafi Páli, var skipaður nýr verjandi í upphafi aðalmeðferðarinnar á sama tíma og fyrri verjandi var leystur undan starfa sínum.
Af hálfu ákæruvalds flutti mál þetta Fanney Björk Frostadóttir fulltrúi lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu.
Mál þetta dæmir Símon Sigvaldason héraðsdómari.
D ó m s o r ð :
Ákærðu, Magnús Þór Gestsson, Ólafur Páll Ólafsson og X, sæti hver um sig fangelsi í 12 mánuði.
Upptæk eru gerð til ríkissjóðs 436 kannabisplöntur, 62,10 grömm af laufum, fjórar vatnsdælur, einn kassi af steinullarpúðum og eitt þriggja fasa millistykki, sem lögregla lagði hald á við rannsókn málsins.
Ákærði, Ólafur Páll, greiði einn 25.100 krónur í sakarkostnað. Þá greiði ákærðu allir óskipt 106.296 krónur í sakarkostnað. Að auki greiði ákærði, Magnús Þór málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Hauks Arnar Birgissonar hæstaréttarlögmanns 225.900 krónur, ákærði, Ólafur Páll, málsvarnarlaun skipaðra verjenda sinna, Inga Freys Ágústssonar héraðsdómslögmanns, 138.050 krónur og Reynis Loga Ólafssonar héraðsdómslögmanns 87.850 krónur og ákærði, X, málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Guðmundar St. Ragnarssonar héraðsdómslögmanns 225.900 krónur.