Hæstiréttur íslands
Mál nr. 493/1998
Lykilorð
- Fjárdráttur
- Viðurlagaákvörðun
- Húsbrot
- Líkamsárás
|
|
Fimmtudaginn 25. mars 1999. |
|
Nr. 493/1998. |
Ákæruvaldið (Ragnheiður Harðardóttir saksóknari) gegn Einari Sigurjónssyni og Halldóri Lárusi Péturssyni (Brynjar Níelsson hrl.) |
Fjárdráttur. Viðurlagaákvörðun. Húsbrot. Líkamsárás.
E og H voru sakfelldir fyrir hegningarlagabrot. H fyrir fjárdrátt með því að hafa slegið eign sinni á vinnupall sem hann og annar maður höfðu haft í vörslum sínum. E fyrir húsbrot, líkamsárás og brot gegn 1. mgr. 220. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, með því að hafa ruðst heimildarlaust inn í íbúð EJ ásamt tveimur öðrum mönnum, veita honum margskonar áverka og skilja hann eftir bjargarlausan í íbúðinni. Staðfest var niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu og refsingu H. Þá var ákvörðun refsingar E staðfest en hann hafði ekki áfrýjað málinu um annað en viðurlög.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Pétur Kr. Hafstein, Hjörtur Torfason og Hrafn Bragason.
Málinu var áfrýjað til Hæstaréttar að ósk ákærðu með stefnum 25. nóvember 1998 og 2. desember sama ár. Önnur þau, sem voru ákærð með ákæruskjali 2. júní 1998 og sakfelld með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 2. október sama ár, una dómi.
Ákæruvaldið krefst þess, að staðfest verði niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu og refsiákvörðun ákærða Halldórs Lárusar og refsing ákærða Einars verði þyngd.
Af hálfu ákærða Einars er gerð sú krafa, að refsiákvörðun héraðsdóms verði milduð.
Af hálfu ákærða Halldórs Lárusar er aðallega krafist sýknu en til vara vægari refsingar en dæmd var í héraðsdómi.
Ákæruskjalið skiptist í þrjá kafla og eru sakarefni ákærðu hér fyrir dómi ótengd. Með skírskotun til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur um sakfellingu ákærða Halldórs Lárusar og refsiákvörðun beggja ákærðu.
Ákærðu skulu greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, eins og greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur á að vera óraskaður að því er varðar ákærða Einar Sigurjónsson og ákærða Halldór Lárus Pétursson.
Ákærði Einar Sigurjónsson greiði saksóknarlaun í ríkissjóð, 20.000 krónur, og málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Kjartans Reynis Ólafssonar hæstaréttarlögmanns, 40.000 krónur.
Ákærði Halldór Lárus Pétursson greiði saksóknarlaun í ríkissjóð, 20.000 krónur, og málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Brynjars Níelssonar hæstaréttarlögmanns, 40.000 krónur.
Allan annan áfrýjunarkostnað sakarinnar greiði ákærðu óskipt.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 2. október 1998.
Ár 1998, föstudaginn 2. október, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem haldið er í Dómhúsinu við Lækjartorg af Ingibjörgu Benediktsdóttur héraðsdómara, kveðinn upp dómur í sakamálinu nr. 581/1998: Ákæruvaldið gegn [...] Einari Sigurjónssyni, Halldóri Lárusi Péturssyni, [...], sem tekið var til dóms 10. september sl.
Málið er höfðað með ákæruskjali ríkissaksóknara dagsettu 2. júní sl. gegn [...] Einari Sigurjónssyni, kennitala 200464-3119, Suðurgötu 80, Hafnarfirði, Halldóri Lárusi Péturssyni, kennitala 060358-6489, Skipholti 49, Reykjavík, [...] „fyrir eftirgreind brot framin í Reykjavík árið 1997:
I.
Gegn ákærðu B og Halldóri Lárusi fyrir fjárdrátt með því að hafa slegið eign sinni á vinnupall, eign Pallaleigunnar Stoð hf., Skeifunni 8, kennitala 570588-1179, sem ákærðu höfðu í vörslum sínum samkvæmt leigusamningi, dagsettum 30. apríl.
Telst þetta varða við 1. mgr. 247. gr. almennra hegningarlaga nr. 19,1940.
II.
Gegn ákærðu B, Einari og L fyrir eftirgreind brot framin aðfaranótt þriðjudagsins 18. nóvember 1997 að Kleppsvegi 90:
1) Ákærðu öllum fyrir húsbrot með því að ryðjast þar í heimildarleysi inn í íbúð Engilberts Jensen, kennitala 240241-2509.
2) Ákærðu öllum fyrir líkamsárás í ofangreint sinn, með því að veitast í sameiningu með ofbeldi að Engilbert og snúa hann í gólfið, ákærði L að snúa upp á þumalfingur Engilberts, ákærði B að sparka í andlit hans og ákærði Einar að binda hann með reipi á höndum og fótum og vefja lykkju um háls hans og stinga hann margsinnis með hnífi í háls og hnakka, með þeim afleiðingum að hann marðist og bólgnaði yfir hægra augnloki og skarst þar yfir, marðist á enni, marðist og bólgnaði undir vinstra auga og yfir gagnauga, marðist og hruflaðist í hársverði og á höku, blæddi undir hornhimnu í augum og undir slímhúð neðra augnloks hægra megin og árásarþoli hlut fimm skurðsár á hnakka og sár á báðum hnjám, marðist og bólgnaði um vinstri þumalfingur og liðband þar slitnaði.
3) Ákærða Einari fyrir að hóta Engilbert að drepa hann, meðan á líkamsárásinni stóð, ef hann kallaði á hjálp.
4) Ákærðu öllum fyrir þjófnað með því að láta greipar sópa í íbúð Engilberts og stela þaðan símtæki af Uni gerð ásamt símsvara, þráðlausum síma af Tropers gerð, sambyggðum Sherwood hljómflutningstækjum ásamt fjórum hátölurum, Mitsubishi myndbandstæki, Sony útvarpi, Nesco sjónvarpstæki, súrefnistæki, 14 fluguveiðistöngum með veiðihjólum, -línum, -taumum, taumefni og fluguhnýtingarefni, veiðifatnaði og töskum, veiðihníf, tveimur gíturum, skartgripaskríni sem meðal annars innihélt gullhring og ermahnappa, buxum úr flís efni, vasareiknivél og leðurbrydduðum spariskóm, kúlupenna, öskju með gullskeiðum, Orvis veiðigleraugum, tveimur flísatöngum og kveikjara, ásamt fleiri munum, samtals að verðmæti tæplega 2,000,000 króna.
5) Ákærðu öllum fyrir að yfirgefa Engilbert bjargarlausan, í íbúðinni, liggjandi með fyrrgreinda áverka á gólfinu, bundinn á höndum og fótum með lykkju um háls.
Telst háttsemi ákærðu samkvæmt lið 1) varða við 231. gr., samkvæmt lið 2) við 2. mgr. 218. gr. - til vara við 1. mgr. 217. gr. -, samkvæmt lið 3) við 233. gr., samkvæmt lið 4) við 244. gr. og samkvæmt lið 5) við 1. mgr. 220. gr. almennra hegningarlaga.
III.
[...]
IV.
Þess er krafist að ákærðu verði dæmd til refsingar.
Þá krefjast eftirtaldir skaðabóta að tilgreindri fjárhæð:
1) Pallaleigan Stoð hf. af ákærðu B og Halldóri Lárusi, 300.612 krónur auk vaxta samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25, 1987 frá tjónsdegi 30. apríl 1997 en síðan dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga til greiðsludags.
2) Engilbert Jensen af ákærðu B, Einari og L 2.543.189 krónur auk áfallandi kostnaðar og vaxta frá 12. janúar 1998.
3) Sjóvá Almennar tryggingar hf. af ákærða B 6041 krónu ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga frá 24. desember 1997 til greiðsludags.“
I.
Málavextir eru þeir að Pallaleigan Stoð ehf. og ákærði, B, gerðu með sér samning um leigu á vinnupöllum til stutts tíma 30. apríl 1997 og greiddi B leigu fyrir einn dag. Pallaleigan lagði fram kæru hjá lögreglu á hendur leigutakanum 27. maí 1997 þar sem pöllunum hafði ekki verið skilað og leigutaki ekki fundist. Þann 10. júlí sama ár lagði pallaleigan svo fram bótakröfu á hendur ákærða B vegna pallanna. Málið var síðan fellt niður á grundvelli 112. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991. Málið var tekið fyrir að nýju í kjölfar upplýsingaskýrslu Sólbergs S. Bjarnasonar rannsóknarlögreglumanns frá 15. desember sl., sem vottfest er af Kristni Sigurðssyni rannsóknarlögreglumanni. Báðir hafa staðfest fyrir dómi að efni skýrslunnar sé rétt. Þar kemur fram að í tilefni yfirheyrslu yfir ákærða B í öðru máli hafi hann viljað upplýsa að hann og ákærði, Halldór Lárus, hafi ákveðið að taka á leigu ofangreindan vinnupall í því skyni að kasta eign sinni á hann. Skyldi ákærði, B, leigja pallinn hjá Stoð, en síðan myndi ákærði, Halldór Lárus, stela honum. Átti ákærði, B, að fá 350.000 krónur fyrir sinn þátt, en það hafi ekki gengið eftir. Samkvæmt úrskurði héraðsdóms 17. desember sl. fór fram húsleit daginn eftir í Rafha-húsinu við Lækjargötu í Hafnarfirði, geymslurými sem Halldór Lárus Pétursson hafði á leigu. Þar fannst vinnupallur sem tekinn var vörslu lögreglu. Efnismagn og gerð hans að frátöldum fjórum klemmum og sextán splittum komu heim og saman við lýsingu kæranda á pallinum. Merkingar voru þó frábrugðnar upprunalegum merkingum Pallaleigunnar. Pallaeiningarnar voru auðkenndar með rauðgulri málningu, gulari en sú sem Stoð merkti sína palla með og á stoðunum voru greinilegar rispur sem gátu verið eftir að merkingar voru máðar af þeim. Göngupallarnir voru málaðir á hliðum með hvítri málningu en undir henni leyndist rauð málning sambærileg þeirri sem Stoð notaði til að merkja vinnupalla sína. Það efni sem vantaði upp á var síðan sent frá Grundarfirði af fyrrum leigusala Halldórs. Tæknideild lögreglu tók ljósmyndir af pöllunum og má þar sjá flekki af rauðri málningu. Vinnupallarnir voru afhentir Pallaleigunni Stoð 16. janúar þar sem talið var á grundvelli rannsóknargagna lögreglunnar að um væri að ræða palla þá sem ákærði B tók á leigu.
Ákærðu, B og Halldór Lárus Pétursson, voru báðir yfirheyrðir við rannsókn málsins og fyrir dómi.
Ákærði, B, var upphaflega yfirheyrður 10. júlí 1997 vegna kæru Pallaleigunnar Stoð. Við þá yfirheyrslu kvaðst hann hafa farið með pallana að Bólstaðarhlíð 52, sett þá upp og unnið daglangt við gluggaþrif. Um kvöldið hafi hann sett pallana saman. Daginn eftir hafi hann komið til að sækja pallana en þá hafi þeir verið horfnir. Kvaðst hann hafa talið að pallaleigan hefði tekið umrædda palla og því ekki aðhafst meira í málinu. Í yfirheyrslu 22. desember 1997 hvarf ákærði frá fyrri framburði sínum. Kvaðst hann nú á þeim tíma sem hann tók vinnupallana á leigu hafa verið atvinnulaus og búið á Laugateigi 19 hér í borg, sem er áfangaheimili. Hafi hann kynnst ákærða Halldóri Lárusi, sem einnig bjó þar. Hafi Halldór Lárus boðið sér vinnu við að skúra og skipta um glugga í fjölbýlishúsi við Bólstaðarhlíð. Kvaðst ákærði hafa tekið tilboði Halldórs Lárusar, sem hafi beðið sig um að taka á leigu vinnupalla og háþrýstidælu. Er hann hafi lokið ætlunarverki sínu varðandi pallana hafi hann farið á fund Halldórs Lárusar vegna dælunnar. Hafi Halldór Lárus tjáð sér að hann væri á förum til Grundarfjarðar og hafi hann boðið sér 150.000 króna greiðslu ef ákærði færi og tæki dæluna á leigu og setti hana á sama stað og pallarnir gegn því að Halldór myndi stela þessum hlutum. Kvað ákærði Halldór Lárus hafa sagt sér að ef hann, þ.e. B, myndi lenda í yfirheyrslu hjá lögreglu skyldi hann segja að pöllunum og dælunni hefði verið stolið, þetta hefði hann sjálfur margsinnis gert og framkvæmt með góðum árangri. Kvaðst ákærði hafa harðneitað þessu í fyrstu þar sem hann væri með „fyrirliggjandi dóm í kerfinu“. Ekki hafi komið til að dælan var tekin á leigu en að hann hafi látið pallana eiga sig og ekki skipt sér meira af málinu. Kvaðst ákærði hafa tjáð Halldóri Lárusi að ef einhver vandamál kæmu upp myndi hann kjafta frá. Kvað ákærði Halldór Lárus hafa verið með pallana frá því að hann tók pallana frá Bólstaðarhlíð daginn eftir að ákærði tók þá á leigu. Hafi Halldór Lárus tjáð sér fyrir stuttu að hann hafi farið með þá vestur á Grundarfjörð og þaðan í búslóðageymslu í Rafha-húsinu við Lækjargötu í Hafnarfirði. Kvað ákærði Halldór Lárus hafa átt frumkvæðið að þessu og að hann hefði komið aftan að sér. Hafi það verið ætlun sín að taka þessa vinnupalla á leigu til að vinna það verk sem Halldór hefði boðið sér. Í yfirheyrslu 19. janúar 1998 var ákærða kynnt bótakrafa Pallaleigunnar Stoðar ehf. Hafnaði hann kröfunni þar sem hann kvaðst hafa tekið pallana á leigu til að vinna fyrrgreint verk. Hafi það verið Halldór Lárus sem tók vinnupallana ófrjálsri hendi og hafði þá í sinni vörslu allan tímann. Kvaðst ákærði vísa bótakröfunni alfarið á Halldór, það hafi verið hann sem hafi svikið sig í viðskiptum á þessum tíma.
Fyrir dómi bar ákærði á sama veg og í yfirheyrslu 22. desember sl. nema að því leyti að hann kvaðst ekki hafa ætlað að taka þóknun fyrir að taka pallana á leigu. Kvaðst hann ekki hafa vitað að meðákærði fór með pallana vestur á þessum tíma sem meðákærði tók þá. Aðspurður um breyttan framburð við lögreglurannsókn kvaðst ákærði hafa gert það þar sem Halldór Lárus neitaði að skila þýfi, sbr. 4. lið II. kafla ákæru, sem B hefði geymt hjá honum.
Ákærði, Halldór Lárus Pétursson, hefur neitað sakargiftum. Hann hefur haldið því fram að hann hafi keypt vinnupalla þá sem fundust á geymslustað hans í Rafha-húsinu í Hafnarfirði stuttu eftir að hann kom af Litla Hrauni í júní eða júlí 1995 eða 1996. Hafi hann keypt vinnupallana af einhverjum verktaka og hafi hann greitt fyrir þá 80.000. krónur með fjórum afborgunum. Viðskipti þessi kvað ákærði hafa farið fram á einhverju ölhúsi borgarinnar. Umræddur verktaki hafi farið með sig út á Granda þar sem fyrir voru atvinnuhúsnæði og sýnt sér pallana þar sem þeir hafi verið ósamsettir. Hafi verktakinn verið á leið úr landi og viljað losna við pallana. Kvað ákærði pallana vera 3 hæðir og toppur. Kvaðst hann hvorki muna gerð né heiti pallanna en að sér hafi verið tjáð af seljanda að þeir væru trúlega tveggja til þriggja ára gamlir, lítið notaðir. Kvaðst ákærði ekkert hafa gert við þá og heldur ekki merkt þá með einhverskonar einkennum. Hann hafi í fyrstu látið pallana liggja óhreyfða útá Granda en síðan farið með þá vestur á Grundarfjörð í byrjun maí 1996. Kvaðst ákærði hafa yfirgefið Grundarfjörð um 20. september 1997 og að vinnupallarnir hefðu farið í búslóðageymslu í Rafha-húsinu 7. nóvember sama ár eftir að Landflutningar hafi flutt þá ásamt búslóð frá Grundarfirði til Reykjavíkur. Við yfirheyrslu var Halldóri tjáð að umræddir pallar kæmu heim og saman við lýsingu kæranda á stolnu pöllunum nema að því leyti að búið sé að afmá merkingar og sprauta yfir. Kvaðst ákærði ekki hafa skýringar á þessu, hann hafi aldrei gert neitt við pallana hvorki afmáð merki né notað þá. Kvaðst ákærði ekki geta lagt gögn til staðfestu viðskipta sinna við hinn óþekkta verktaka og gat heldur ekki um það sagt hvort einhver vitni hefðu verið að þeim viðskiptum. Við yfirheyrslu 21. janúar sl. var ákærða, Halldóri Lárusi, kynnt sú ákvörðun að afhenda pallana Pallaleigunni Stoð auk þess sem honum var kynnt skaðabótakrafa pallaleigunnar. Kvaðst ákærði mótmæla afhendingu pallanna en vildi ekki tjá sig um bótakröfuna. Fyrir dómi var framburður ákærða á sama veg og áður að því undanskildu að hann kvaðst hafa geymt pallana á svölum móður sinnar, sem væri nýlega látin, áður en hann fór með þá vestur á Grundarfjörð og að B hefði aldrei verið í vinnu hjá sér. Þegar ákærða voru sýndar ljósmyndir tæknideildar lögreglu af umræddum pöllum bar hann að þetta væru sínir pallar.
Vitnið, Elvi Baldursdóttir, kvað ungan mann hafa tekið vinnupall á leigu. Hafi pallurinn verið fluttur að Bólstaðarhlíð 52 og settur þar við endann á bílskúr. Kvaðst vitnið hafa reynt að hafa upp á manninum er pallurinn skilaði sér ekki, meðal annars hringt í föður hans sem vissi ekkert um hann né vildi nokkuð af honum vita. Hafi hún auk þess hringt í marga í Bólstaðarhlíð en enginn hafi kannast við að pallurinn hafi verið notaður þar. Einnig hafi hún hringt á sendibílastöðvar til að grennslast fyrir um flutning á pallinum en einnig án árangurs. Þegar vitninu voru sýndar myndir af pöllunum sem fundust í geymslu ákærða, Halldórs Lárusar, kvaðst hún kannast við þá sem pallana sem leigðir voru 30. apríl 1996. Fyrir dómi útskýrir vitnið nánar hvernig hún þekki pallana á eftirfarandi hátt: „Pallarnir okkar eru merktir og við þeir einu sem erum með þetta efni. Við flytjum inn frá fyrirtæki sem heitir Wilhem Leier í Þýskalandi og við þekkjum náttúrlega okkar efni af því við líka merkjum það. Þetta bar heim og saman nákvæmlega við það magn sem hann tók og fékk.“
Vitnið, Helgi Gunnar Jónsson, kannaðist fyrir dómi við pallana á ofangreindum ljósmyndum. Kvaðst hann merkja alla sína palla með rauðum úða. Á pöllum þeim sem væru á myndunum væri búið að afmá merkingar Stoðar og mála yfir. Kvaðst hann í engum vafa um að þetta væru hans pallar. Kvaðst hann hafa einkaumboð á þessum pöllum, um væri að ræða sama efnismagn auk þess sem hægt væri að greina rauða málningu undir hvítu.
Vitnið, Lúðvík Baldur Harðarson, kvaðst hafa afgreitt B með vinnupallana er hann tók þá á leigu. Þegar vitninu voru sýndar myndir af umræddum pöllum kannaðist vitnið við pallana á myndunum, þeir væru pallarnir sem hann hefði afgreitt B með í umrætt sinn. Kvaðst hann þekkja þá á því að um væri að ræða sama efnismagn, hluti af þeim merkingum (rauð málning) er starfsmenn pallaleigunnar hefðu látið á vinnupallana væru á þessum pöllum þó að búið væri að afmá megnið af merkingunum. Þá kvað vitnið að Pallaleigan Stoð ehf. hefði einkaleyfi hér á landi með vinnupalla af gerðinni Layher og eina fyrirtækið með slíka vinnupalla. Kvað vitnið vinnupalla á myndum vera af þessari gerð.
Vitnið, Kristinn Sigurðsson, rannsóknarlögreglumaður, kvað við meðferð málsins að ákærði B hefði veitt lögreglunni upplýsingar um hvar pallarnir voru geymdir og í framhaldi af þeim upplýsingum hafi verið hafist handa við þann verkþátt að finna pallana, sem síðan hafi fundist í húsnæði Rafha í Hafnarfirði, nánar tiltekið í búslóðageymslu sem ákærði, Halldór Lárus, var með á leigu. Pallarnir hafi verið teknir í vörslu lögreglu. Fyrir dómi voru vitninu sýndar myndir af umræddum pöllum og staðfesti hann að þetta væru sömu pallarnir og lögregla haldlagði í Rafha-húsinu.
Niðurstaða.
Ákærði, B, hefur játað að hann hafi tekið vinnupallana á leigu. Hann hefur hins vegar borið úr og í um það í hvaða tilgangi hann gerði það. Ýmist heldur hann því fram að hann hafi tekið pallana á leigu fyrir meðákærða, Halldór Lárus, sem hafi ætlað að útvega honum vinnu við húsaviðgerðir eða að meðákærði og hann hafi gert með sér samkomulag um það að hann tæki að sér að leigja pallana fyrir ákærða, Halldór Lárus, sem hafi svo ætlað að slá eign sinni á pallana. Hann greiddi fyrir þá leigu í einn dag, en hirti ekki um að sjá til þess að þeim væri skilað í lok leigutímans. Framburður hans um það að meðákærði hafi tekið að sér að sjá til þess að pöllunum væri skilað er ekki trúverðugur enda gekk það ekki eftir og ákærði bar sjálfur á því ábyrgð sem leigutaki pallanna. Þegar litið er til þessa reikula framburðar ákærða þykir ljóst að ákærði hafði ekki hreint mjöl í pokahorninu eftir að hann tók pallana á leigu.
Þrátt fyrir neitun ákærða, Halldórs Lárusar, þykir sannað með framburði eigenda og starfsmanna pallaleigunnar Stoðar, vitnanna Elvi Baldursdóttur, Lúðvíks Baldurs Harðarsonar og Helga Gunnars Jónssonar og annarra gagna málsins, einkum ljósmynda tæknideildar lögreglu, að vinnupallar þeir sem fundust á geymslustað í vörslu ákærða, Halldórs Lárusar, séu þeir sömu og ákærði B tók á leigu greint sinn hjá Stoð hf. Frásögn ákærða, Halldórs Lárusar, um það hvernig pallarnir komust í vörslur hans er afar ótrúverðug, enda hefur hann ekki getað gefið neinar haldbærar skýringar á því hvernig þeir komust í hans hendur. Pallarnir komu til Grundarfjarðar stuttu eftir að ákærði, B, tók þá á leigu og er enginn til vitnisburðar um að ákærði, Halldór Lárus, hafi haft palla í sínum fórum fyrir þann tíma. Þykir fyllilega sannað með hliðsjón af gögnum málsins og vitnisburði ofangreindra eigenda og starfsmanna Pallaleigunnar Stoðar að umræddir pallar, sem fundust í vörslum Halldórs Lárusar, séu þeir sömu sem B tók á leigu hjá Stoð. Þrátt fyrir reikulan framburð ákærða, B, í ýmsum atriðum hefur hann þó staðfastlega haldið því fram að ákærði, Halldór Lárus, hafi tekið við pöllunum eftir að hann (B) tók þá á leigu. Verður sá framburður lagður til grundvallar, enda fundust pallarnir í vörslu Halldórs Lárusar. Með hliðsjón af því þykir rétt að leggja frásögn B fyrir dómi af málsatvikum til grundvallar hvað varðar hlut Halldórs í málinu. Að mati dómsins telst það sannað samkvæmt framansögðu að B og Halldór hafi í sameiningu dregið sér pallana í auðgunarskyni. Hafa þeir með því gerst brotlegir við 247. gr. almennra hegningarlaga.
Af hálfu Pallaleigunnar Stoðar ehf. hefur verið lögð fram skaðabótakrafa á hendur ákærðu, samtals að fjárhæð 300.612 krónur auk vaxta, eins og getið er í ákæru. Krafan er órökstudd og ekki studd gögnum. Ber því þegar af þeirri ástæðu að vísa henni frá.
II.
Þriðjudaginn 18. nóvember 1997 kl. 02:59 var lögregla kvödd að Kleppsvegi 90 í Reykjavík. Samkvæmt frumskýrslu lögreglu hitti lögregla á staðnum tilkynnendur, Guðjón Þór Pétursson og Þröst Jónasson. Í húsinu var Engilbert Jensen sem kvaðst hafa orðið fyrir árás þriggja manna auk þess sem þeir hafi rótað í hirslum hans í einhvern tíma og haft á brott með sér ýmis verðmæti, sem nánar er lýst í ákæru. Kvað Engilbert mennina hafa misþyrmt honum, bundið hann höndum og fótum, sett snöru um háls hans og skilið hann þannig eftir liggjandi á gólfinu í forstofunni. Auk þess hefðu þeir haft í hótunum við hann. Fengin var sjúkrabifreið á staðinn sem flutti Engilbert á slysadeild Sjúkrahúss Reykjavíkur til aðhlynningar. Á staðinn komu Kristján Ingi Kristjánsson rannsóknarlögreglumaður og Kristján Kristjánsson tæknideildarmaður. Eftir nokkra eftirgrennslan lögreglu voru ákærðu B, Einar Sigurjónsson og L Svavarsson, handteknir síðar þennan sama dag. Þremenningarnir viðurkenndu allir aðild sína að málinu en greindi nokkuð á um þátt hvers um sig.
Áður en vikið verður að framburði ákærðu og vitna þykir rétt að rekja fyrirliggjandi læknisvottorð. Í vottorði Curtis P. Snook, læknis á slysa- og bráðamóttöku Sjúkrahúss Reykjavíkur 18. nóvember 1997, er áverkum kæranda við komu á sjúkrahús sama dag, lýst svofellt:
„Við skoðun kom í ljós að hann var með mikla bólgu og blámi yfir hægra augnloki og var þar mikið hæmatom. Augað algjörlega sokkið þennan bjúg 2-3 cm langur skurður sem nær þvert yfir augnlok. Það voru 5 x 5 cm mar og hruflsár á enni, húðblæðingar og hruflsár í hársverði hægra megin, subconjunctival blæðing í hægra auga, þekur þetta um fjórðung til helming af sclera. Á vinstra auga er hann einnig með subconjunctival blæðingu nær yfir fjórðung af sclera. Það voru haematoma neðan við vinstra auga, hruflsár á höku ca. 1 x 1 cm, hruflsár framan á hálsi, mar ca 4 x 4 cm yfir vinstra gagnauga, diffuse roði yfir nefi, grunnir skurðir aftan á hnakka, 4 talsins, hver um sig um 3-5 cm að lengd, 0.5 cm skurðsár aftan á hnakka sem samrýmist oddi á hvössum hníf og myndast þar lítil hola innan við 0.5 cm á dýpt. Hann var mjög aumur yfir kviði hægra megin undir brjóstkassa og aftan til á thorax hægra megin. Það var hruflsár 2 x 3 cm á hné, tognunar á báðum ökklum og mar á vinstri hendi. Röntgenmyndir af þumli sýndu ekki brot, þvag stixað fyrir blóði og var ekki að finna blóð í þvagi. Ljósmyndir voru teknar af áverkum. Sár á augabrún var deyft og saumað. Búið var um þumal með þumalgipsspelku. Sjúklingurinn var lagður inn á gæsludeild í umsjón skurðdeildar Sjúkrahúss Reykjavíkur af slysa- og bráðamóttöku til frekari meðferðar og eftirlits. Endurkoma er áætluð hjá Magnúsi Páli Albertssyni m.t.t. hugsanlegs liðbandsáverka í vinstri þumli. Samkvæmt sjúkraskýrslu hafði þessi maður orðið fyrir mjög grófu ofbeldi og hlaut hann af nokkuð alvarlega áverka, sem ráða má af því, að lifran skyldi rupterað við áverkann. Ekki koma þó fram nein einkenni um alvarlegan áverka í líffærum. Hafi ekki komið fram ný eða óvænt einkenni eftir þessi atvik, ættu batahorfur að vera góðar.“
Þá liggur fyrir læknisvottorð Eiríks Gunnlaugssonar deildarlæknis á bæklunarlækningadeild Sjúkrahúss Reykjavíkur 29. desember sl. og kemur þar eftirfarandi fram: „Við upphafsskoðun var mikil bólga og blámi yfir svæðinu í kringum vinstri þumalfingur, bæði handarbaksmegin og lófalægt. Það voru veruleg hreyfi- og þreifieymsli um metacarpophalangeal liðinn og voru eymslin meira ulnart. Það var ekki hægt að meta stöðugleikann í MCP-liðnum vegna bólgu og verkja. Sem upphafsmeðferð við þumalfingursáverkanum fékk Engilbert þumalspelku úr gipsi. Lagðist síðan inn á skurðdeild með aðra áverka og er vísað í sögu að því leyti í vottorði frá skurðdeild.
Gangur: Daginn eftir var vinstri hönd Engilberts rtg. mynduð og segir í svari rtg.deildar: „Brot greinast ekki. Subluxations staða er í metacarpophalangeal lið í þumalfingri þannig að nærkjúkan er vægt hliðruð radialt." Því áframhaldandi grunur um skaða á þumalfingri vinstri handar. Því var gipsið tekið og stöðugleiki ulnar collateral ligamentsins metinn. Til þess þurfti að leggja deyfingu í medianus taugina og superficial radial greinina þurfti að deyfa þar sem ekki var hægt að taka á liðbandinu vegna verkja. Þegar sú deyfing hafði tekið staðfesti það gruninn að ulnar collateral ligament væri slitið. Það er að segja greinilega laflaus þumalfingurinn um metacarpophalangeal lið vinstra þumalfingurs þegar það var prófað miðað við hægra megin. Fékk því áfram þumalspelku og settur á verkja- og bólgueyðandi lyf. Settur upp til aðgerðar á vegum Bæklunarlækningadeildar þegar pláss fengist á skurðstofu og bólgan hefði minnkað í fingrinum. Þann 27.11.1997 var Engilbert síðan kallaður til aðgerðar þar sem í staðdeyfingu var opnað inn að liðbandinu og kom þá í ljós að það var gauðrifið. Var það því saumað. Náðist vel saman en nauðsynlegt var að meðhöndla áverkann áfram í gipsi í að minnsta sex vikur. Við skoðun hálfum mánuði eftir aðgerð var sárið vel gróið. Minnkandi bólga í þumalfingrinum og endurkoma áætluð eftir fjórar vikur til þess að taka gipsið. Vert er að geta að Engilbert er rétthentur.
Álit: Slit í ulnar collateral ligamenti í vinstra þumalfingurs. Áverki sem kemur vel og heim saman við þá sögu sem sjúklingur gefur. Áverki sem telst alvarlegur handaráverki. Sé ekki gerð aðgerð á þessu og liðbandið saumað verður þumallinn til lítilla eða engra nota í framtíðinni þar sem þetta er aðalliðband þumalfingurs til að stabilisera á móti gripi. Þrátt fyrir að liðbandið sé saumað tekur það marga mánuði að ná fullum styrk og liðleika í fingurinn og ekki hægt að segja að fullu nú um lokaárangur.
Samantekið: Ráðist var á Engilbert og togað illþyrmilega í vinstri þumalfingur þannig að ulnar collateral ligament slitnaði. Saumað saman í aðgerð. Á fyrir höndum nokkra vikna gipsmeðferð og að öllum líkindum nokkra mánaða endurhæfingu á þumalfingurinn. Alvarlegur áverki sem nauðsynlegt er að laga þar sem þumalfingur verður annars til lítilla nota, ekki hægt að segja til um lokaárangur aðgerðar þar sem það stutt er liðið frá því að liðbandið var saumað.“
Samkvæmt vottorði Tryggva B. Stefánssonar sérfræðings í almennum skurðlækningum frá 30. janúar sl. er ljóst að Engilbert var lagður inn á B-6 deild Sjúkrahúss Reykjavíkur aðfaranótt 18. nóvember sl. þar sem teknar voru af honum röntgenmyndir af andlitsbeinum, hálshrygg, brjósthrygg, lungum, vinstri hönd, hægri þumli. Segir í vottorðinu að þær hafi allar verið eðlilegar og einnig ómskoðun í kvið. Hann var útskrifaður af deildinni daginn eftir.
Ákærði, B, neitaði við fyrstu yfirheyrslu lögreglu og fyrir dómi í tilefni kröfu um gæsluvarðhald, að hann hefði tekið þátt í verknaði þeim sem hér um ræðir. Kvaðst hann hafa verið hjá kunningja sínum, Halldóri Lárusi Péturssyni, þessa nótt. Við síðari yfirheyrslu breytti hann framburði sínum. Lýsti hann atvikum svo að hann hefði verið á Ölkjallaranum ásamt hópi fólks og að förinni hefði verið heitið heim til Halldórs Lárusar. Hafi Halldór vísað fólkinu á brott en eftir hafi verið ákærði ásamt meðákærðu, Lárusi og Einari. Kvaðst ákærði hafa fengið lykla hjá Halldóri af bíl sem hann hafði geymt hjá honum fyrr um daginn. Á þessu augnabliki hafi kviknað hugmyndin að því að fara í hefndarskyni heim til Engilberts í fylgd Einars og Lárusar. Kvaðst ákærði lengi hafa þekkt Engilbert, sem oft hefði selt honum eiturlyf. Hafi hann beðið Lárus að keyra bílinn þar sem hann hefði sjálfur tekið tvær eða þrjár Mogadon-töflur og drukkið einn bjór. Kvað ákærði Lárus hafa keyrt eftir sínum ábendingum heim til Engilberts. Hafi þeir lagt bílnum fyrir aftan bíl Engilberts og kvaðst ákærði hafa sagt við Lárus að þeir skyldu fá að hringja hjá honum. Kvaðst ákærði hafa spurt Engilbert eftir að hann opnaði hvort þeir mættu hringja og hefði Engilbert svarað því neitandi. Hafi Lárus þá slegið Engilbert fyrirvaralaust í magann og slegið Engilbert þannig nokkrum sinnum. Kvað ákærði Engilbert hafa fallið á grúfu og hrópað eitthvað og hafi Einar þá stokkið á hann og sagt honum að þegja. Fljótlega hafi Einar beðið sig um eitthvað til að binda Engilbert með og kvaðst ákærði, B, þá hafa bent honum á hvítt band sem var upprúllað og lá við hliðina á þeim. Kvaðst ákærði hafa farið fram hjá Engilbert og inn í herbergið hans þar sem hann vissi að allar veiðigræjurnar hans voru. Hafi hann tekið þær saman ásamt myndbandstæki, sjónvarpi og fleira dóti og byrjað að bera það út í bíl ásamt Lárusi. Þegar hann hafi gengið fram hjá Engilbert með myndbandstækið hafi hann eitthvað verið að öskra og kvaðst B þá hafa sparkað einu sinni í ennið á honum. Á meðan á þessu stóð hafi Einar setið á bakinu á Engilbert og verið með hníf í annarri hendinni. Kvaðst ákærða hafa brugðið nokkuð þegar hann sá rispur á hálsi Engilberts og öskrað til Einars: „Hvern djöfulinn ertu að gera, þú drepur hann ekki.“ Kvaðst ákærði síðan hafa borið allt dótið út í bíl sem hann hefði valið sjálfur og hafi Lárus hjálpað sér, að sinni beiðni. Að endingu hafi hann sest undir stýri og flautað en ekið af stað þegar Einar og Lárus birtust ekki, kvaðst hann hafa orðið hræddur um hvað þeir væru að gera Engilbert. Varðandi stolnu munina kvaðst ákærði hafa ekið vestur á Seltjarnarnes, alveg út á Gróttu þar sem golfvöllurinn væri og hent öllu góssinu í sjóinn. Ástæður verknaðarins kvað hann vera að hefna sín fyrir hrottalega nauðgun sem Engilbert hafi framið á sér á heimili sínu um mánaðamótin ágúst-september sama ár. Síðar breytti ákærði framburði sínu varðandi tímasetningu nauðgunarinnar en kvað hana hafa átt sér stað um mánaðamótin sept. - okt.
Fyrir dómi bar ákærði í meginatriðum á sama veg og í síðargreindri yfirheyrslu, en hann kvað nú að ástæður fyrir verknaðinum hafi verið þær að hann hafi verið blankur og boðist peningar ef hann færi og ýtti við Engilbert. Hafi verið um nokkurs konar handrukkun að ræða. Einnig breytti ákærði fyrri framburði sínum um það að hann hefði hent þýfinu út í sjó heldur kvaðst hann hafa farið með munina heim til Halldórs. Hann kvaðst hafa ekið burt frá heimili Engilberts án Lárusar og Einars þar sem honum hafi ekki litist á það sem þar var að gerast. Kvaðst hann að öðru leyti staðfesta lögregluskýrslur.
Ákærði, Einar Sigurjónsson, kvaðst hafa hitt B og Lárus á Ölkjallaranum kvöldið sem atburðurinn átti sér stað og að þeir hafi síðan farið í partý heim til Halldórs Lárusar ásamt fleira fólki. Hafi Halldór ekki hleypt þeim inn og þeir þremenningar haft sig á brott í bíl sem var þarna fyrir utan og hafi Lárus setið undir stýri. Kvaðst ákærði hafa talið að þeir væru að fara í partý. Þegar komið var að húsi nokkru hafi hann og B farið að dyrunum, bankað og birtist maður í dyraopinu. Maður þessi hafi ekki viljað hleypa þeim inn og hafi B þá lamið hann. Kvaðst ákærði svo hafa gengið inn á eftir B og stjakað við honum, þ.e. B, og hafi hann þá slegið sig í hausinn. Kvað hann B og Lárus hafa verið á þeytingi fram og til baka um íbúðina með hluti og að B hafi röflað um að húsráðandinn skuldaði sér eitthvað. Kvaðst ákærði hafa setið inni á gólfi í einu herberginu á meðan á þessu stóð og verið að leika sér með veiðigirni. Hafi Lárus svo kallað á sig og sagt að B væri farinn og að þeir hafi rölt eitthvað í burtu frá húsinu og stuttu síðar tekið leigubíl. Aðspurður kvaðst ákærði ekki hafa gert manninum neitt, sem var inni í húsinu, og þvertók fyrir að hafa tekið upp hníf. Kannaðist hann hvorki við að hafa bundið hann né hótað honum lífláti. Hann hafi heldur ekki orðið var við að einhver gerði manninum eitthvað. Þegar hann yfirgaf húsið kvað hann manninn hafa legið á sama stað með lífsmarki en kvaðst ekki hafa gert sér grein fyrir því hvort hann væri bundinn eða ekki. Ákærði gat ekki svarað því hvernig munir í eigu Engilberts komust undir hans hendur og sem fundust í fórum hans við handtöku. Kvaðst ákærði ekki hafa tekið muni þá sem settir voru í pant hjá leigubílstjóranum sem ók þeim af staðnum og voru eign Engilberts. Um ástand sitt umrætt kvöld kvaðst ákærði hafa drukkið samfleytt í tvo daga, auk þess að hafa neytt bæði lyfja og fíkniefna og ástand sitt því mjög slæmt. Hafi hann verið í sínum eigin hugarheimi inni í húsi mannsins.
Ákærði, L Svavarsson, lýsir atburðum áður en farið var heim til Engilberts á sambærilegan hátt og B og Einar. Þegar komið var heim til Engilberts kvaðst ákærði ekki hafa vitað hver ætti heima þarna né í hvaða erindagjörðum B væri. Það hefði þó komið fram hjá B eftir að bíllinn var stöðvaður að þarna í húsinu byggi maður sem hann þyrfti að ræða og tala við um óuppgerða hluti. Kvaðst ákærði hafa í fyrstu setið í bílnum en farið svo á eftir B og Einari en skilið lykilinn eftir í svissinum. B hafi bankað á hurðina og kallað hvort einhver væri heima og að Engilbert hafi komið til dyra á náttsloppnum og hafi hann samstundis þekkt hann. B hafi sagt eitthvað á þá leið: „Ég þarf að ræða ýmisleg mál við þig og þú ert búinn að vera að skvíla á mig og á aðra menn úti í bæ og nú verður gengið í skrokk á þér.“ Í sömu andrá ruddist B inn og ýtti Engilbert til hliðar. Hafi hann fallið í gólfið við þetta, lent á grúfu. Hann hafi greinilega meitt sig við fallið því það blæddi úr höfði hans. Fyrir dómi sagði ákærði að B hefði veitt Engilbert högg í anddyrinu, en hann hafi ekki séð með hvaða hætti, hann hafi ekki séð B sparka í höfuðið á Engilbert. Ákærði, Lárus, kvaðst ekki viss um hvort það var B eða Einar sem batt Engilbert en B hafi rekið hnéð í andlitið á Engilbert og hann stunið mikið við það. Kvaðst ákærði hafa haft áhyggjur af því hvernig B gekk í skrokk á Engilbert og haft orð á því en þá hefði B sagt að þetta væri allt í lagi því þarna við hliðina byggi blindur og heyrnarlaus maður og þeir þyrftu ekki að hafa áhyggjur. Kvað ákærði Einar hafa setið á baki Engilberts og tekið hníf úr brúnu slíðri og gert sig líklegan til að stinga Engilbert og hafi ákærði sagt honum að hætta þessu. Einar hafi hætt þessu en þó pikkað með hnífnum í hálsinn á Engilbert. Kvað ákærði B hafa kýlt í síðuna á Engilbert og byrjað síðan að bera ýmislegt dót út úr íbúð Engilberts, þar á meðal veiðistengur, sjónvarp, myndband, Adidastösku með ýmsu dóti, tvær gítartöskur með gíturum í og ýmsu öðru dóti sem Lárus kvaðst ekki hafa séð. Sjálfur kvaðst hann ekki hafa tekið neitt en Einar hafi tekið hnífinn í brúna slíðrinu sem hann hafði verið með. Um ástand Engilberts við brottför kvað ákærði hann hafa legið bundinn á gólfinu og að blætt hafi úr andliti hans en að hann hafi þurrkað framan úr honum blóðið. Kvaðst hann ekki hafa getað leyst hann vegna þess að B hafi læst útidyrahurðinni og að Einar hafi látið öllum illum látum fyrir utan og talið réttast að hypja sig þar sem hann óttaðist hvað Einar og B hefðu gert Engilbert. Hafi B verið stunginn af á bílnum og löbbuðu þeir Einar heim til stúlku sem ákærði þekkti og hafi þeir beðið hana um að hringja á leigubíl. Síðar hafi þeir stöðvað leigubíl og farið niður í bæ. Munir þeir sem fundust á ákærða og sem hann setti í pant hjá leigubílstjóranum kvað hann B hafa rétt sér þegar þeir voru fyrir utan hjá Engilbert. Varðandi líkamsárásina kvaðst ákærði ekki hafa átt neinn þátt í henni. Um sitt eigið líkamsástand kvaðst ákærði ekki hafa verið búinn að drekka mikið áfengi en tekið eina töflu af Seroxat.
Vitnið, Engilbert Jensen, kvaðst hafa verið á leið í háttinn um klukkan 2:00 þegar bankað var ónotalega eða valdsmannslega á dyrnar hjá sér. Hafi hann brugðið sér í slopp, opnað dyrnar og fyrir utan hafi staðið þrír menn og kvaðst hann hafa kannast við einn þeirra sem L Svavarsson en hina tvo hefði hann ekki þekkt þar sem fremur skuggsýnt var við dyrnar. Kvað vitnið L fyrst hafa spurt sig hvort þeir mættu hringja. Hann hafi neitað því en þeir ruðst inn og einn þeirra gripið í þumalputtann á sér. Honum hafi sortnað fyrir augu, en það næsta sem hann mundi var að hann lá á fjórum fótum á gólfinu og verkjaði mikið í þumalputtann. Kvaðst vitnið hafa hrópað og öskrað eins hátt og hann gat til að reyna að vekja athygli nágranna en fékk engin viðbrögð þaðan. Skyndilega hafi annar árásarmannanna komið og haldið hnífi að hálsi hans og hnakka. Sá sem hafi gert þetta hafi verið með hása rödd og ívið minni en hinn. Maðurinn hafi haldið hnífnum að hálsinum og hótað því að stinga hann ef hann hætti ekki að hrópa. Kvaðst vitnið ekki hafa hætt að hrópa enda verið viss um að sér stæði lífshætta af mönnunum en þá hafi sá stærri komið og sparkað af öllu afli í höfuð hans og beðið þann litla um að þagga niður í sér. Við þetta kvaðst Engilbert hafa vankast og nánast misst meðvitund við sparkið. Við rannsókn málsins sagði vitnið að sá sem sparkaði hafi sagst vera að hefna sín fyrir Geira frænda, Ásgeir Ebenesersson, en fyrir dómi kvaðst hann ekki hafa hugmynd um hvers vegna þeir hafi ráðist inn til sín. Eftir þetta hafi mjög dregið af vitninu og hann hafi hætt að hrópa. Sá hási, minni, hafi á meðan á þessu stóð haldið hnífnum að hálsi sínum og hnakka en síðan byrjað að binda hendur hans með grönnum kaðli að skipan þess stærri sem þarna var og tekið síðan eina lykkju og vafið um hálsinn en það hafi verið sér til happs að hann hafi getað sett hökuna niður og þannig komið í veg fyrir að lykkjan hertist um hálsinn en ef það hefði gerst hefði hann aldrei getað leyst sig af sjálfsdáðum. Kvað vitnið þann hása hafa hvað eftir annað hótað sér lífláti en Lárus hefði þá beðið hann að láta ekki svona og sett tusku undir andlit sitt svo hann gæti þurrkað blóð sem vætlaði úr enni og auga. Að endingu hafi sá hási bundið fætur sínar með sjónvarpssnúru sem þarna var. Kvað vitnið Lárus og þann hærri hafa á meðan á þessu stóð gramsað og leitað um alla íbúðina og byrjað síðan að bera ýmislegt dót út. Hafi hann heyrt bíl ekið að útidyrunum og síðan hafi dótið verið borið út og hafi þar verið á ferðinni aðallega Lárus og og sá hærri. Kvaðst vitnið ekki hafa þorað að fylgjast mikið með því sem þremenningarnir voru að gera en eftir nokkurn tíma hafi þeir gert sig líklega til að fara og hafi sá stóri sagt við sig áður en hann fór að þeir kæmu aftur og myndu þá leysa hann. Hafi hann síðan farið út, lokað hurðinni og tekið í hurðarhúninn til að ganga úr skugga um að það væri læst. Kvaðst Engilbert hafa byrjað að reyna að losa sig og það tekist eftir nokkrar mínútur en að hann hafi fengið algert áfall eftir það og skolfið eins og hrísla. Að því búnu hafi hann farið út í bíl sinn og hringt þar í vin sinn, Guðjón Þór Pétursson, sem hafi komið að vörmu spori ásamt Þresti Jónassyni vinnufélaga sínum. Kvaðst hann hafa notað bílasímann þar sem mennirnir hefðu slitið símann hans úr sambandi áður en þeir fóru. Vitnið bar fyrir dómi að hann hafi nánast ekkert fengið af þýfinu aftur en kvað ákærða B hafa boðið sér það á 100.000 krónur.
Vitnið, Guðjón Þór Pétursson, kvaðst hafa farið heim til Engilberts umrædda nótt eftir að Engilbert hefði hringt í sig í mikilli geðshræringu. Hafi hann farið ásamt félaga sínum, Þresti Jónassyni. Kvað vitnið aðkomuna sýnu verri en hann átti von á og hafi hann beðið Þröst að hringja eftir aðstoð. Hafi Engilbert sagt sér að þrír menn hefðu ráðist á sig og að hann hefði kannast við einn þeirra, Lárus. Hafi einn þeirra, lítill með ráma rödd, haft í hótunum við hann og verið með hníf á lofti og annar sparkað í andlit hans. Kvaðst vitnið minnast þess að Engilbert hefði talað um að Lárus hafi reynt að draga úr aðförinni að honum. Einnig kvað vitnið Engilbert hafa á orði að einhver þeirra hefði sagst vera að hefna fyrir Geira frænda, betur þekktur sem Ásgeir E. Þórðarson.
Vitnið, Þröstur Jónasson, staðfesti að hann hefði komið á heimili Engilberts umrædda nótt og aðkoman hafi verið frekar ljót. Húsið hafi hreinlega verið í rúst og Engilbert blóðugur á höndum og með sár á höfði auk þess sem hann hafi verið í miklu uppnámi. Kvað vitnið Engilbert hafa sagt að það hefðu komið inn þrír menn og ráðist á sig, bundið sig og keflað og gengið yfir hann á gólfinu á meðan þeir báru húsmuni og hluti út úr íbúðinni hjá sér og að hann hafi þekkt einn þeirra á röddinni. Kvaðst vitnið ekki minnast þess að Engilbert hafi nefnt þátt hvers og eins.
Vitnið, Kristján Ingi Kristjánsson, rannsóknarlögreglumaður, kvaðst hafa komið á vettvang kl. 03:05 og rætt við Guðjón Þór Pétursson. Inni í íbúðinni hafi allt verið á tjá og tundri. Stuttu síðar hafi hann farið upp á slysadeild og rætt við Engilbert. Engilbert hafi verið með talsverða áverka og átt erfitt með hreyfingar. Kvað vitnið Engilbert hafa greint sér frá því að þrír karlmenn hafi bankað hjá sér um nóttina. Hafi hann þekkt einn manninn sem L. Þeir hafi ruðst inn til hans og ráðist á hann. Einn mannanna hafi snúið upp á þumalfingur hans og hafi honum síðan verið hent niður í gólfið á kviðinn. Einhver hafi stokkið ofan á hann og rist hnakka hans og háls með einhverju oddhvössu. Hann hafi við þetta öskrað upp og einn mannanna sparkað í höfuð hans 1 sinni eða tvisvar. Síðan hafi þeir bundið hendur hans fyrir aftan bak með bláu reipi og fætur hans með sjónvrpssnúru. Hafi stórséð á Engilbert og að hann hafi getað tjáð sér að hann kannaðist við einn af mönnunum, L.
Vitnið, Kristján Kristjánsson rannsóknarlögreglumaður, kvað rannsókn tæknideildar umrædda nótt aðallega hafa verið í því fólgna að ljósmynda vettvanginn eins og hann leit út og að leita að ummerkjum eftir það sem hafði gerst þarna. Vitnið sagði að annað bandið sem Englilbert kvaðst hafa verið bundinn með hafi verið nælonband en hitt sjónvarpskapall eða hluti af sjónvarpskapli.
Niðurstaða.
Ákærðu hafa játað að hafa komið á heimili Engilberts aðfaranótt þriðjudagsins 18. nóvember 1997. Lýsing þeirra á málsatvikum er nokkuð samhljóða fram að inngöngu þeirra á heimili Engilberts. Þá greinir hins vegar á um málsatvik eftir að inn í hús hans var komið. Ákærði, B, hefur játað að hafa stolið þýfi því sem greint er í ákæru af heimili Engilberts en neitar að hafa tekið þátt í líkamsárásinni að öðru leyti en því að hann hafi sparkað einu sinni í ennið á honum. Kveður hann Lárus og Einar hafa átt hér hlut að máli. Ákærðu, Lárus og Einar, neita báðir að hafa tekið þátt í líkamsárásinni og þjófnaðinum. Lárus kveður Einar og B hafa ráðist á Engilbert og staðhæfir að B hafi stolið þýfinu frá honum. Einar kvaðst ekki hafa orðið var við að einhver hafi veist að Engilbert en kveður meðákærðu hafa verið á þeytingi um íbúðina með muni. Vitnið, Engilbert, kveðst ekki viss um hver hafi veist að sér við inngönguna en lýsir því svo að bæði B og Einar hafi veist að honum þegar inn var komið og að Einar hafi hótað honum hvað eftir annað lífláti. Kveður hann B og Lárus hafa auk þess borið ýmislegt dót út.
Ljóst er af því sem rakið hefur verið að ákærðu ruddust allir í heimildarleysi inn á heimili Engilberts umrætt sinn. Með því hafa þeir gerst sekir um brot gegn 231. gr. almennra hegningarlaga. Þegar litið er til framburðar vitnisins Engilberts, sem fær stoð í framburði ákærða L og læknisvottorða sem rakin hafa verið, þykir sannað að ákærðu, B og Einar, veittust í sameiningu með ofbeldi að Engilbert, sneru hann í gólfið, bundu hann höndum og fótum og vöfðu lykkju um háls hans og veittu honum áverka þá sem í ákæru greinir, að undanskildu því að eins og ákæru er háttað þykir ósannað að þeir hafi snúið upp á vinstri þumalfingur Engilberts með þeim afleiðingum að liðband hans slitnaði.
Óljóst er hvernig þætti þeirra hvors um sig var nákvæmlega háttað, en af vætti Engilberts, sem fær stoð í framburði ákærðu B og Lárusar, þykir fyllilega sannað að það hafi verið ákærði Einar sem stakk hann margsinnis með hníf í háls og hnakka, og með játningu ákærða B að hann hafi sparkað í andlit Engilberts. Sú atlaga ákærða, Einars, að stinga Engilbert með hnífi var mun hættulegri en annar þáttur árásarinnar. Þar sem ákærða, B, er ekki gert að sök að hafa tekið þátt í að vefja lykkju um háls Engilberts og binda hann með reipi á höndum og fótum verður hann ekki sakfelldur fyrir þann verknað. Verknaður ákærða, B, sem hann hefur hér verið sakfelldur fyrir, varðar við 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 10. gr. laga nr. 20/1981, en verknaður ákærða, Einars, verður felldur undir 2. mgr. 218. gr. fyrrgreindra laga, sbr. sbr. 10. gr. laga nr. 20/1981.
Þegar litið er til framburðar vitnisins Engilberts og neitunar ákærða, L, telst hins vegar ósannað að hann hafi tekið þátt í líkamsárásinni á hendur Engilbert, með þeim hætti sem honum er að sök gefið í ákæru, og er hann því sýknaður af þeirri háttsemi.
Vitnið Engilbert hefur borið að annar tveggja ákærðu, sem hann ekki bar kennsl á á staðnum, hafi hótað sér lífláti á meðan á árásinni stóð. Kemur lýsing hans heim og saman við ákærða Einar. Hvorki framburður meðákærðu né annað það sem fram er komið í málinu styður þessa fullyrðingu. Ber því gegn neitun ákærða Einars að sýkna hann af þeirri háttsemi sem honum er að sök gefin í 3. lið II. kafla ákæru.
Ákærði, B, hefur haldið því fram að hann og ákærði, Lárus, hafi borið þýfið, sem getið er í 4. lið II. kafla ákæru, út úr íbúðinni. Er þetta í samræmi við vitnisburð Engilberts, sem kvað ákærða Lárus og „þann hærri“ hafa gramsað og leitað um alla íbúðina og byrjað síðan að bera ýmislegt dót út, svo og framburð ákærða, Einars, sem kvað þá B og Lárus hafa verið á þeytingi með hluti fram og til baka um íbúðina. Ljóst er af framburði ákærða, B, að hann fékk mestmegnið af þýfinu í sinn hlut, en lítill hluti þýfisins fannst á ákærða, Lárusi. Lárus hefur hins vegar neitað því að hann hafi tekið þátt í að bera þýfið út úr íbúðinni. Þegar framangreint er virt þykir fyllilega sannað að ákærðu, B og Lárus, hafi gerst sekir um þá háttsemi sem þeir eru ákærðir fyrir í 4. lið II. kafla ákæru. Sýnt þykir af framburði ákærðu að þeir fóru ekki í þjófnaðarskyni í íbúðina. Hefur ákærði, Einar, staðfastlega neitað því að hann hafi tekið þátt í þjófnaði munanna. Meðákærðu hafa ekki borið það á hann og vitnið Engilbert hefur borið að á meðan ákærði Einar þjarmaði að honum hafi meðákærðu borið út þýfið. Ákærði, Lárus, hefur haldið því fram að ákærði Einar hafi stolið hníf á staðnum, en öðru er ekki til að dreifa því til staðfestingar. Telst samkvæmt þessu ósannað að ákærði, Einar, hafi tekið þátt í þjófnaðinum á verðmætunum í íbúð Engilberts.
Ákærðu, B og Einar, komu Engilbert í það ástand sem nánar er lýst er í 5. lið II. kafla ákæru og skildu hann þannig eftir við brottför sína. Sá verknaður þeirra varðar við 1. mgr. 220. gr. almennra hegningarlaga. Ákærði, Lárus, hefur verið sýknaður af líkamsárásinni sem lýst er í 2. lið II. kafla ákæru og hefur hann því ekki gerst brotlegur við þetta lagaákvæði Er hann því sýknaður af þessum lið ákæru.
III.
[...]
IV.
Viðurlög.
[...]
Ákærði, Einar, hefur frá árinu 1980 hlotið 10 refsidóma fyrir skjalafals, þjófnað, þjófnaðartilraun, fjársvik, tilraun til fjársvika og hilmingu auk brota gegn umferðarlögum og lögum um ávana- og fíkniefni. Auk þessa hefur ákærði hlotið 4 sáttir fyrir brot gegn umferðarlögum, lögum um ávana- og fíkniefni. Nemur samanlögð óskilorðsbundin refsivist hans nú tæpum 15 árum. Síðast hlaut ákærði dóm 19. desember 1988, 14 ára fangelsi fyrir manndráp, brot gegn 211. gr. almennra hegningarlaga. Í júní 1992 og ágúst sl. gekkst hann undir sátt vegna fíkniefnabrota. Þann 9. nóvember 1996 hlaut hann reynslulausn í 3 ár á eftirstöðvum refsingar, 1680 dögum. Samkvæmt bréfi Fangelsismálastofnunar ríkisins 2. september sl. hefur ákærði ekki afplánað eftirstöðvarnar. Ákærði hefur með brotum þeim, sem hann hefur verið sakfelldur fyrir í máli þessu, rofið skilorð reynslulausnarinnar. Ber því nú samkvæmt 1. mgr. 42. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 3. gr. laga nr. 16/1976 og með hliðsjón af 60. gr. sömu laga að dæma hann nú í einu lagi fyrir brot þau, sem hér er fjallað um og hina 1680 daga óloknu refsivist. Með hliðsjón af sakaferli ákærða, og þegar litið er til þess að líkamsárás hans var fólskuleg og framin í félagi við annan, þykir refsing hans með vísan til 77. gr. almennra hegningarlaga hæfilega ákveðin fangelsi í 6 ár.
Ákærði, Halldór Lárus, hefur frá árinu 1974 sætt refsingu 33 sinnum fyrir umferðarlagabrot, áfengislagabrot, fíkniefnabrot og hegningarlagabrot, einkum skjalafals og auðgunarbrot. Hann á að baki 19 refsidóma. Síðast var hann dæmdur 17. júlí 1997 í sekt fyrir fíkniefnalagabrot og gekkst undir sátt fyrir sama brot í júní sl. með sektargreiðslu. Síðast hlaut hann óskilorðsbundna refsingu 1995, 5 mánaða fangelsi auk sviptingar ökuréttar ævilangt fyrir brot gegn ávana- og fíkniefnalögum og umferðarlögum. Brotaferill ákærða hefur verið nær óslitinn, en hann hefur ekki sætt refsingu fyrir hegningarlagabrot síðan árið 1987, þá 12 mánaða fangelsi. Frá því ári hefur hann hins vegar 9 sinnum sætt refsingu fyrir brot gegn ávana- og fíkniefnalögum, samtals 9 mánaða óskilorðsbundið fangelsi auk sektarrefsinga. Refsing hans þykir með vísan til sakaferils hans hæfilega ákveðin fangelsi í 6 mánuði.
[...]
Ákærðu, [...], Einar, [...], voru allir úrskurðaður í gæsluvarðhald í tilefni rannsóknar máls þessa, ákærði B 19. nóvember sl. kl. 15.15 til 3. desember sl. kl. 18.00, samtals 15 daga, ákærði Lárus 18. nóvember sl. kl. 22.33 kl. til 3. desember sl. kl. 18.00, samtals 15 daga, ákærði Einar frá 19. nóvember sl. kl. 15.55 til 28. janúar 1998 kl. 16.00, samtals 71 dag og ákærði Róber Örn 6. desember sl. kl. 22.48 til 10. sama mánaðar kl. 01.27, samtals 4 daga. Skal gæsluvarðhald ákærðu, B, Einars og L, koma til frádráttar refsingu og enn fremur komi gæsluvarðhald Róberts Arnar til afplánunar refsingar hans.
Af hálfu Engilberts var lögð fram 12. janúar sl. skaðabótakrafa sú sem getið er í ákæru á hendur ákærðu, B, Einari og L, samtals að fjárhæð 2.543.189 krónur. Ákærðu hafna kröfunni alfarið. Krafist er samtals 1.881.881 vegna fjárhagslegs tjóns, þar af 5.581 króna vegna lækniskostnaðar, og bóta fyrir miska og þjáningar, samtals 500.000 krónur auk innheimtulauna. Með kröfunni fyrir fjárhagslega tjónið fylgir listi yfir horfna og eyðilagða muni úr innbúi Engilberts, sbr. 4. liður II. kafla ákæru. Kröfunni fylgja ófullnægjandi gögn og verður henni vísað frá í heild sinni að öðru leyti en því að tekin er til greina krafa um lækniskostnað að fjárhæð 5.581 króna ásamt vöxtum, eins og getur í dómsorði, enda fylgja henni gögn til rökstuðnings. Krafan um þjáningar og miska er ósundurliðuð og vanreifuð og verður henni einnig vísað frá dómi.
[...]
Ákærðu B, Einar, Halldór Lárus og L, eru dæmdir til að greiða óskipt saksóknarlaun í ríkissjóð, 100.000 krónur.
[...]
Ákærði, Einar, er dæmdur til að greiða málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Kjartans Reynis Ólafssonar hæstaréttarlögmanns, 80.000 krónur.
Ákærði, Halldór Lárus, er dæmdur til að greiða málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Steingríms Þormóðssonar héraðsdómslögmanns, 50.000 krónur.
[...]
Annan sakarkostnað eru ákærðu öll dæmd til að greiða óskipt.
Dómsorð:
[...]
Ákærði, Einar Sigurjónson, sæti fangelsi í 6 ár. Frá refsingu hans dragist gæsluvarðhaldsvist hans, 71 dagur.
Ákærði, Halldór Lárus Pétursson, sæti fangelsi í 6 mánuði.
[...]
Ákærðu, B og Einar, greiði Engilbert Jensen, kt. 240241-2509, í skaðabætur 5.581 krónu ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 2. október 1998 til greiðsludags.
Ákærðu, B, Einar, Halldór Lárus og [...], greiði óskipt saksóknarlaun í ríkissjóð, 100.000 krónur.
[...]
Ákærði, Einar, greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Kjartans Reynis Ólafssonar hæstaréttarlögmanns, 80.000 krónur.
Ákærði, Halldór Lárus, greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Steingríms Þormóðssonar héraðsdómslögmanns, 50.000 krónur.
[...]
Annan sakarkostnað greiði ákærðu öll óskipt.