Hæstiréttur íslands

Mál nr. 3/2011


Lykilorð

  • Vátryggingarsamningur
  • Skipting sakarefnis
  • Ábyrgðartrygging


                                                                                              

Fimmtudaginn 20. október 2011.

Nr. 3/2011.

Húsfélagið Hagaflöt 9

(Björgvin Jónsson hrl.)

gegn

Sjóvá-Almennum tryggingum hf.

(Ingvar Sveinbjörnsson hrl.)

Vátryggingarsamningur. Skipting sakarefnis. Ábyrgðartrygging.

H höfðaði mál gegn HI og S. Krafði hann S um greiðslu bóta á grundvelli lögboðinnar starfsábyrgðartryggingar byggingarstjóra sem félagið hafði veitt vegna byggingar fjöleignarhúss á Akranesi, en H taldi byggingarstjóra hússins hafa vanrækt eftirlitsskyldu sína á byggingartíma hússins og þannig valdið honum tjóni. Samkomulag varð um það með aðilum að skipta sakarefni málsins þannig að leyst yrði sérstaklega úr því hvort um eitt eða fleiri tjónsatvik væri að ræða, en í skilmálum vátryggingarinnar kom fram að ábyrgð félagsins vegna hvers einstaks tjónsatviks takmarkaðist við tiltekna fjárhæð. Í niðurstöðu Hæstaréttar segir m.a. að leggja yrði til grundvallar, þótt ætlað gáleysi byggingarstjórans kunni að hafa leitt til margháttaðs tjóns, að ætluð vanræksla hans hafi verið ein órofa heild allt þar til lokaúttekt á byggingarframkvæmdunum fór fram. Staðfesti Hæstiréttur því niðurstöðu héraðsdóms þess efnis að um væri að ræða eitt tjónsatvik í skilningi starfsábyrgðartryggingar byggingarstjóra hússins hjá S.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Eiríkur Tómasson og Viðar Már Matthíasson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 3. janúar 2011. Hann krefst þess að viðurkennt verði að um fleiri en eitt tjónsatvik hafi verið að ræða við byggingu fjöleignarhússins Hagaflatar 9 á Akranesi. Þá krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Áfrýjandi höfðaði mál þetta í héraði og krafði Hjálmar Ingvarsson um skaðabætur að fjárhæð 30.189.859 krónur með tilgreindum vöxtum vegna vanrækslu hans sem byggingarstjóra á eftirliti með byggingu fjöleignarhússins að Hagaflöt 9 á Akranesi. Lokaúttekt á byggingarframkvæmdum fór fram 12. maí 2007 samkvæmt vottorði byggingarfulltrúa Akraneskaupstaðar 20. júlí sama ár. Skaðabótakrafan var reist á matsgerð dómkvadds manns 4. maí 2009, en þar taldi  matsmaðurinn að gerð og búnaði fjöleignarhússins væri áfátt í fimmtán nánar tilgreindum liðum sem lúta að ýmsum verkþáttum við bygginguna. Málið var einnig höfðað gegn stefnda Sjóvá-Almennum tryggingum hf. til greiðslu tiltekinnar fjárhæðar á grundvelli lögboðinnar starfsábyrgðartryggingar byggingarstjóra sem félagið hafði veitt vegna byggingar hússins. Báðir stefndu tóku til varna fyrir héraðsdómi.

Eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi ákvað héraðsdómari í þinghaldi 7. júní 2010 að ósk málsaðila, sbr. 31. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, að skipta sakarefni málsins ,,þannig að fyrst yrði dæmt um það ágreiningsefni hvort um væri að ræða eitt eða fleiri tjónsatvik“, eins og komist er að orði í dóminum. Lét annar stefndu í héraði Hjálmar Ingvarsson þennan þátt málsins ekki til sín taka.

Krafa áfrýjanda á hendur stefnda í máli þessu er, eins og áður greinir, reist á því að stefndi hafi veitt lögboðna starfsábyrgðartryggingu byggingarstjóra vegna tilgreinds verks. Stefndi hafi veitt ábyrgðartrygginguna, sem feli í sér að honum beri að greiða bætur úr tryggingunni ef vátryggingartaki, byggingarstjórinn, verður skaðabótaskyldur. Áfrýjandi hagnýtir sér rétt sinn samkvæmt 1. mgr. 44. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga og hefur uppi beina kröfu á hendur stefnda sem ber fyrir sig varnir, reistar á vátryggingarsamningi og reglum vátryggingaréttar.

Áfrýjandi kveður byggingarstjórann, sem mál þetta snýst um, hafa haft margs konar skyldur að lögum. Samkvæmt 3. mgr. 51. gr. þágildandi skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 hafi hann verið framkvæmdastjóri byggingarframkvæmda. Hafi hann meðal annars átt að ráða iðnmeistara í upphafi verks og borið ábyrgð á því að byggt væri í samræmi við samþykkta uppdrætti, lög og reglugerðir. Telur áfrýjandi að byggingarstjórinn hafi í mörgum tilvikum vanrækt eftirlitsskyldu sína, eins og matsgerð dómkvadds manns sýni, og þannig bakað sér skaðabótaábyrgð. Vanræksla hans, sem spannað hafi um tveggja ára tímabil og komið fram í  fjölþættum ágöllum á fjöleignarhúsinu að Hagaflöt 9, geti ekki talist einstakt tjónsatvik eins og stefndi haldi fram.

II

Í f. lið 2. gr. laga nr. 30/2004 er hugtakið vátryggingaratburður skilgreint svo að það sé atvik sem samkvæmt vátryggingarsamningi veldur því að til greiðslu bóta af hálfu vátryggingarfélags geti komið. Af orðum ákvæðisins má ráða að útskýring á því, hvaða atvik það séu sem hafi slík áhrif, eigi að vera að finna í vátryggingarsamningi.

Í vátryggingarskírteini, útgefnu af stefnda vegna vátryggingar þeirrar sem hér um ræðir, segir að félagið vátryggi ,,samkvæmt ákvæðum skírteinis þessa og vátryggingarskilmálum félagsins um starfsábyrgðartryggingu byggingarstjóra. Vátryggingarfjárhæð er kr. 6.888.600 í hverju einstöku tjóni. Hámarksbætur eru kr. 20.665.800 á vátryggingartímabilinu.“ Í skilmálum vátryggingarinnar er tekið fram í grein 1.1.: ,,Vátryggt er gegn bótaskyldu, er fellur á vátryggingartaka  sem byggingarstjóra, þegar þriðji maður verður fyrir almennu fjártjóni, sem rakið verður til þess, að ekki hefur verið byggt í samræmi við samþykkta uppdrætti, lög og reglugerðir ...“ Í grein 2.1. segir meðal annars: ,,Vátryggingin tekur til ábyrgðar vegna atvika sem eiga sér stað á vátryggingartímanum og tjón hefur hlotist af.“ Þá kemur fram í grein 3.1. að ábyrgð „félagsins vegna hvers einstaks tjónsatviks takmarkast við“ tiltekna fjárhæð. Hvorki í þessum ákvæðum né í öðrum ákvæðum skilmálanna er að finna útskýringu á því, hvaða telja beri ,,einstakt tjón“ eða ,,einstakt tjónsatvik“. Þar með sker vátryggingarsamningurinn ekki úr því álitaefni sem til úrlausnar er.

Í 3. mgr. 51. gr. þágildandi skipulags- og byggingarlaga var mælt fyrir um að byggingarstjóri skyldi hafa ,,fullnægjandi ábyrgðartryggingu er gildi a.m.k. í fimm ár frá lokum þeirra framkvæmda sem hann stýrði.“ Ekki var þar kveðið nánar á um efni hinnar lögboðnu tryggingar. Í 33. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998, sem enn er í gildi, eru reglur um ábyrgðartryggingu byggingarstjóra. Þar segir meðal annars að byggingarstjóri skuli hafa í gildi tryggingu vegna fjárhagstjóns sem leitt getur af gáleysi í starfi hans. Tryggingin skuli gilda í að minnsta kosti fimm ár frá lokum framkvæmdar, sem hann hefur stýrt, og miðist lok framkvæmdar við dagsetningu lokaúttektar. Í þessari grein er ekki, fremur en í þágildandi lögum, að finna afmörkun á því hvað telja beri eitt tjónsatvik að því er varðar hina lögboðnu ábyrgðartryggingu byggingarstjóra.

Skaðabótakrafan á hendur byggingarstjóra og krafa áfrýjanda á hendur stefnda um vátryggingarbætur eru reistar á því að byggingarstjórinn hafi vanrækt eftirlitsskyldur sínar á byggingartíma hússins og valdið áfrýjanda þannig margþættu tjóni. Þegar lagt er mat á það, hvort líta beri á ætlaða vanrækslu byggingarstjórans sem eitt tjónsatvik, verður að horfa til þess að áhætta sú, sem vátryggt er gegn, er gáleysi hans við að sinna þeim skyldum sem á honum hvíla við byggingu tilgreinds mannvirkis. Þótt ætlað gáleysi byggingarstjórans í máli þessu kunni að hafa leitt til margháttaðs tjóns verður, í ljósi þess að hér er um að ræða ábyrgðartryggingu, að leggja til grundvallar að ætluð vanræksla hans hafi, eins og málið er vaxið, verið ein órofa heild allt þar til lokaúttekt á byggingarframkvæmdunum fór fram. Því sé um að ræða einn vátryggingaratburð, það er ,,einstakt tjónsatvik“ í skilningi greinar 3.1. í skilmálum starfsábyrgðartryggingarinnar. 

Með þessum athugasemdum verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms staðfest.

Þar sem stefnda hefði verið í lófa lagið að taka af skarið um skýringu á því, hvað telja beri einstakt tjónsatvik, í skilmálum vátryggingarinnar þykir rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu, sbr. 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Dómur Héraðsdóms Vesturlands 4. október 2010.

I

Kröfugerð og sakarskipting

Mál þetta var höfðað 20. janúar 2010 og dómtekið 13. september sama ár. Stefnandi er Húsfélagið Hagaflöt 9 á Akranesi, en stefndu eru Hjálmar Ingvarsson, Vesturási 5 í Reykjavík, og Sjóvá-Almennar tryggingar hf., Kringlunni 5 í Reykjavík.

Í málinu gerir stefnandi þá kröfu að stefnda verði gert að greiða sér 30.189.859 krónur auk nánar tilgreindra vaxta. Jafnframt krefst stefnandi þess að viðurkennt verði að greiðsluskylda stefnda Sjóvár-Almennra trygginga hf. að fjárhæð 28.798.580 krónur með nánar tilgreindum vöxtum sé fyrir hendi. Þá gerir stefnandi kröfu um málskostnað óskipt úr hendi stefndu.

Stefndu krefjast sýknu af kröfum stefnanda og að stefnanda verði gert að greiða stefndu málskostnað. Til vara gera stefndu kröfu um lækkun á kröfu stefnanda. Verði fallist á bótaskyldu krefst stefnda Sjóvá-Almennar tryggingar hf. þess að viðurkenningarkrafa stefnanda verði takmörkuð við 6.888.600 krónur að frádregnu því sem þegar hefur verið greitt.

Stefnandi er húsfélag í fjöleignarhúsinu að Hagaflöt 9 á Akranesi. Um er að ræða nýbyggingu sem stefnandi telur gallaða í ýmsu tilliti, svo sem nánar verður vikið að hér á eftir. Hefur stefnandi höfðað málið á hendur stefnda Hjálmari vegna ábyrgðar hans sem byggingarstjóra hússins, en málið er rekið á hendur stefnda Sjóvá-Almennum tryggingum hf. á grundvelli starfsábyrgðartryggingar byggingarstjóra hjá félaginu. Að ósk aðila tók dómurinn þá ákvörðun 7. júní 2010, samkvæmt heimild í 1. mgr. 31. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991, að skipta sakarefni málsins þannig að fyrst yrði dæmt um það ágreiningsefni hvort um væri að ræða eitt eða fleiri tjónsatvik og er sá ágreiningur hér til úrlausnar. Stefndi Hjálmar hefur ekki látið þennan þátt málsins til sín taka.

Stefnandi krefst þess að viðurkennt verði að um fleiri en eitt tjónstilvik sé að ræða við byggingu fjöleignarhússins Hagaflatar 9 á Akranesi í skilningi vátryggingaskilmála og byggingarreglugerðar nr. 441/1998.

Stefnda Sjóvá-Almennar tryggingar hf. gerir þá kröfu að viðurkennt verði að við byggingu hússins hafi verið um að ræða eitt tjónstilvik í skilningi sömu heimilda.

II

Málsatvik og ágreiningsefni

Fjöleignarhúsið að Hagaflöt 9 er á fimm hæðum með 20 íbúðum og kjallara. Trésmiðjan Akur ehf. fékk úthlutað lóðinni Hagaflöt 9–11, en byggingarleyfi var gefið út 11. ágúst 2005. Byggingarfélagið Mosvirki ehf. yfirtók síðan lóðina og hóf framkvæmdir þá um haustið.

Hinn 18. maí 2005 sótti Byggingarfélagið Baula ehf. um byggingarstjóraleyfi vegna framkvæmda að Hagaflöt 9. Í umsókninni var tekið fram að stefndi Hjálmar væri starfandi hjá fyrirtækinu sem byggingafræðingur og var hann tilgreindur sem byggingarstjóri. Byggingarfélagið Baula ehf. var með starfsábyrgðartryggingu hjá stefnda Sjóvá-Almennum tryggingum hf. Hinn 10. júlí 2008 var bú Byggingarfélagsins Baulu ehf. tekið til gjaldþrotaskipta og lauk skiptum 17. desember sama ár.

 Með kaupsamningi 1. febrúar 2006 seldi Mosvirki ehf. húsið til Hagaflatar 9–11 ehf. Samkvæmt samningnum átti að afhenda íbúðir í húsinu í mars 2007, en frágangi lóðarinnar átti að vera lokið í september það ár. Lokaúttektarvottorð byggingarfulltrúa var gefið út 20. júlí 2007.

Þegar lokið var við byggingu hússins seldi Hagaflöt 9–11 ehf. íbúðirnar til núverandi eigenda þeirra og voru þær afhentar á tímabilinu 15. apríl til 11. september 2007. Það ár var húsfélagið stofnað lögum samkvæmt, en það hefur höfðað málið eins og áður er komið fram.

Stefnandi fullyrðir að fljótlega eftir að félagsmenn í húsfélaginu fluttu inn í íbúðirnar hafi komið í ljós að mörgu var ábótavant við frágang sameignar hússins. Einnig heldur stefnandi því fram að ítrekaðar athugasemdir hafi verið gerðar af því tilefni við Mosvirki ehf., sem reisti húsið, byggingarstjóra sem og seljanda íbúða í húsinu. Fór svo að stefnandi aflaði í júlí 2008 úttektar á ástandi hússins frá byggingarverkfræðingi, en þar eru margvíslegar athugasemdir gerðar við framkvæmdina. Jafnframt fékk stefnandi úttekt 20. ágúst 2008 frá BM Vallá ehf., sem framleiddi forsteyptar einingar í húsið. Þar kemur fram að frágangur hafi ekki verið í samræmi við teikningar eða leiðbeiningar framleiðanda.

Hinn 20. janúar 2009 var dómkvaddur matsmaður til að meta ætlaða galla á húsinu og skilaði hann matsgerð sinni í maí sama ár. Í matsgerðinni er kostnaður við fjölþættar úrbætur á húsinu talinn nema 33.715.401 krónu að teknu tilliti til endurgreiðslu virðisaukaskatts. Sú fjárhæð sundurliðast í kostnað við að lagfæra fúgun milli forsteyptra eininga, endurbæta kjallaravegg ofan jarðvegs, laga handrið, gera við kjallaragólf og ruslageymslu, bæta útlitsgalla á veggjum stigapalla hússins, gera við lagnakerfi hússins, ganga frá lóð, endurbæta hitakerfi, laga leka í hitakompu, með gluggum og víðar, auk þess að gera úrbætur á þaki.

Með bréfi 28. ágúst 2008 óskaði stefnandi upphaflega eftir afstöðu stefnda Sjóvár-Almennra trygginga ehf. til bótaskyldu félagsins úr ábyrgðartryggingu byggingarstjóra hússins, stefnda Hjálmars. Því erindi var svarað með bréfi 22. október sama ár þar sem stefnda hafnaði að greiða bætur úr tryggingu byggingarstjórans sökum þess að ekki hefði verið leitt í ljós að hann hefði ekki byggt húsið í samræmi við samþykkta uppdrætti, lög og reglugerðir.

Eftir að hafa aflað matsgerðar krafðist stefnandi á ný greiðslu úr ábyrgðartryggingu hjá stefnda Sjóvá-Almennum tryggingum hf. með bréfi 20. maí 2009. Því erindi svaraði stefnda með bréfi 26. júní sama ár þar sem fallist var á greiðsluskyldu að fjárhæð 3.525.542 krónur. Stefnandi fór þess á leit með bréfi 21. júlí 2009 að stefnda endurskoðaði afstöðu til greiðsluskyldu en þeirri málaleitan var hafnað með bréfi 26. ágúst sama ár. Í því bréfi var tekið fram að kæmi til málshöfðunar væri vátryggingarfjárhæð starfsábyrgðartryggingar aðeins 6.888.600 krónur.

Hinn 8. október 2009 gerðu stefnandi og stefnda Sjóvá-Almennar tryggingar samkomulag um að tryggingarfélagið greiddi bætur að því marki sem félagið hafði viðurkennt greiðsluskyldu. Í samkomulaginu var tekið fram að stefnandi gerði áskilnað um að höfða mál til heimtu frekari bóta. Einnig var tekið fram að stefnandi hefði ekki fallist á afstöðu stefndu um hámarksgreiðslu að fjárhæð 6.888.600 krónur og að stefnandi teldi að um væri að ræða fleiri en eitt tjónstilvik.

III

Málsástæður stefnanda

Stefnandi vísar til þess að við stjórn framkvæmda hvers mannvirkis skuli vera byggingarstjóri, sbr. 1. mgr. 51. gr. skipulags- og byggingarlaga, nr. 73/1997. Á honum hvíli sú skylda að taka fullnægjandi ábyrgðartryggingu er gildi í að minnsta kosti fimm ár frá lokum þeirra framkvæmda er hann stýrði, sbr. 3. mgr. sömu greinar. Um trygginguna séu síðan nánari ákvæði í byggingareglugerð, nr. 441/1998, en samkvæmt grein 33.2 skuli tryggingin nema minnst 5 milljónum króna bundið vísitölu vegna hvers tjónsatviks.

Stefnandi bendir á að markmiðið að baki lagareglum um skyldutryggingu byggingarstjóra hafi verið að treysta stöðu tjónþola og auka neytendavernd. Að gættu þessu telur stefnandi að skýra verði ákvæði reglugerðar og tryggingaskilmála á þann veg að bygging hússins að Hagaflöt 9 með fjölþættum og eðlisólíkum göllum teljist ekki eitt tjónsatvik. Til stuðnings þessu bendir stefnandi á að bygging húss sé kostnaðarsöm framkvæmd og því væri ófullnægjandi með öllu ef húsbygging, þar sem í hlut ætti fjöldi iðnmeistara, teldist eitt tjónsatvik.

Stefnandi telur að ákvæði reglugerðar og vátryggingaskilmála séu óljós um hvað átt sé við með tjónsatvik, en þann vafa verði að skýra tjónþola í hag. Að öðrum kosti sé viðbúið að tjónþoli sitji uppi með ótryggða kröfu á hendur byggingarstjóra, en þess sé ekki að vænta að einstaklingur hafi bolmagn til að greiða jafn háar kröfur og reyni á í málum af þessu tagi.

Stefnandi vísar til þess að þau mistök sem hafi verið gerð við byggingu hússins séu margvísleg og fjarri því að vera svo samofin í tíma og rúmi að þau verði virt sem eitt tjónsatvik. Til samanburðar bendir stefnandi á reglur skaðabótaréttar um að skoða verði hvert saknæmt tilvik og afleiðingar af því sem eitt tjónsatvik.

IV

Málsástæður stefnda Sjóvár-Almennra trygginga hf.

Stefnda heldur því fram að frá upphafi hafi verið litið svo á að hvert verk eða framkvæmd hefði eina vátryggingafjárhæð. Þessi framkvæmd hafi ekki sætt andmælum af hálfu stjórnvalda, enda hafi þetta verið talið í samræmi við lög og góða viðskiptahætti á þessu sviði. Einnig bendir stefnda á að þess séu dæmi að samið hafi verið um hærri vátryggingafjárhæð fyrir einstök verk, en svo hafi ekki verið gert í þessu tilviki.

Stefnda heldur því fram að stefnandi hafi í málatilbúnaði sínum blandað saman reglum skaðabótaréttar og vátryggingaréttar. Hér verði að gæta að því að gera greinarmun á annars vegar afleiðingum skaðaverks og hins vegar vátryggingaatburði. Með tjónsatviki sé átt við tiltekið verk eða framkvæmd og lúti tryggingin að eftirliti með því verki. Sé eftirliti ófullnægjandi reyni á ábyrgðina en sú vanræksla verði ekki sundurliðuð í fleiri afleiðingar sem leiði af þeirri vanrækslu, enda sé um að ræða sama eftirlitið sem telja verði samfellt og beinist að einu húsi eða verki sem fari fram á grundvelli tiltekins byggingarleyfis.

Þegar um er að ræða ábyrgð byggingarstjóra telur stefnda að sú ábyrgð sé bundin tilteknu verki og að ábyrgðartímabilið sé fimm ár frá lokaúttekt og því megi líta svo á að ábyrgð byggingarstjóra verði virk við úttektina. Fram að þeim tímamörkum hafi byggingaraðili eða byggingarstjóri tök á því að bæta úr því sem aflaga hefur farið. Því verði að líta á lokaúttekt sem tjónsdag.

V

Niðurstaða

Samkvæmt 1. mgr. 51. gr. skipulags- og byggingarlaga, nr. 73/1997, skal byggingarstjóri vera við stjórn framkvæmda hvers mannvirkis. Um störf byggingarstjóra segir í 3. mgr. sömu greinar að hann sé framkvæmdastjóri byggingarframkvæmda. Hann ráði iðnmeistara í upphafi verks með samþykki eiganda eða samþykkir ráðningu þeirra og samsvarandi gildi um uppsögn iðnmeistara. Einnig segir að byggingarstjóri beri ábyrgð á því að byggt sé í samræmi við samþykkta uppdrætti, lög og reglugerðir. Þá er tekið fram að byggingarstjóri skuli hafa fullnægjandi ábyrgðartryggingu er gildi að minnsta kosti í fimm ár frá lokum þeirra framkvæmda sem hann stýrði.

Á grundvelli skipulags- og byggingarlaga hefur verið sett byggingarreglugerð, nr. 441/1998, en þar er að finna samhljóða ákvæði í 32. gr. um starfssvið byggingarstjóra. Einnig eru nánari ákvæði um ábyrgðartryggingu byggingarstjóra í 33. gr. reglugerðarinnar, en þar segir í grein 33.1 að byggingarstjóri skuli hafa í gildi tryggingu vegna fjárhagstjóns sem leitt getur af gáleysi hans í starfi. Jafnframt segir að þessari tryggingarskyldu verði meðal annars fullnægt með því að kaupa starfsábyrgðartryggingu hjá vátryggingarfélagi, sem starfsleyfi hefur hér á landi. Sú trygging skuli gilda í að minnsta kosti 5 ár frá lokum framkvæmdar sem hann hefur stýrt og miðist lok framkvæmda við dagsetningu lokaúttektar. Um þessa tryggingu segir síðan í grein 33.2 að tryggingin skuli nema minnst 5 milljónum króna vegna „hvers einstaks tjónsatviks“, en heildarfjárhæð tryggingarbóta innan hvers tólf mánaða tímabils skuli nema minnst 15 milljónum króna. Taka þessar fjárhæðir breytingum í samræmi við byggingavísitölu 1. janúar hvert ár.              

Í vátryggingaskilmálum stefnda Sjóvár-Almennra trygginga hf. fyrir starfsábyrgðartryggingu byggingarstóra segir um gildissvið vátryggingarinnar að tryggt sé gegn bótaskyldu, sem fellur á vátryggingataka sem byggingarstjóra, þegar þriðji maður verður fyrir almennu fjártjóni, sem takið verður til þess að ekki hafi verið byggt í samræmi við samþykkta uppdrætti, lög og reglugerðir, sbr. 3. mgr. 51. gr. skipulags- og byggingarlaga, enda hafi vátryggingataki með undirritun sinni staðfest ábyrgð sína á hlutaðeigandi mannvirki fyrir byggingarfulltrúa og tjónið falli undir þá ábyrgð að lögum. Um vátryggingafjárhæðina segir að ábyrgð félagsins vegna hvers einstaks tjónsatviks takmarkist við 5 milljónir króna, en heildargreiðsla vegna allra tjónstilvika innan hvers tólf mánaða vátryggingatímabils getur þó ekki orðið hærri en 15 milljónir. Að teknu tilliti til hækkunar miðað við vísitölu nema bætur samkvæmt vátryggingaskírteini stefnda 6.888.600 krónur vegna hvers tjónsatviks og 20.665.800 krónum vegna vátryggingatímabilsins.

Svo sem áður er rakið deila aðilar um hvort þeir fjölþættu annmarkar á húsinu að Hagaflöt 9 á Akranesi, sem stefnandi telur galla á eigninni, séu eitt eða fleiri tjónsatvik með tilliti til starfsábyrgðartryggingar byggingarstjóra. Telur stefnandi að um sé að ræða fleiri tjónsatvik en stefnda Sjóvá-Almennar tryggingar hf. telur að framkvæmdin í heild sinni við að reisa húsið geti aðeins verið eitt tjónsatvik.

Starfsábyrgðartrygging byggingarstjóra tekur til þess tjóns sem þriðji maður verður fyrir vegna gáleysis byggingarstjóra í starfi. Samkvæmt þessu nær vátryggingaatburður til þess að byggingarstjóri vanrækir lögboðnar skyldur sínar við að hafa eftirlit með því að byggt sé í samræmi við samþykkta uppdrætti, lög og reglugerðir. Sú vanræksla á eftirliti við framkvæmdina, sem byggingarstjóri tekur að sér að stýra með samningi við eiganda verksins, telst eitt tjónsatvik í skilningi starfsábyrgðartryggingar og gildir þá einu hvort greint verður á milli þeirra afleiðinga sem af vanrækslunni leiða. Er þess þá að gæta að byggingarstjóri er vátryggður vegna skaðabótaskyldu sem hann fellir á sig með því að rækja ekki eftirlitið með framkvæmdinni. Jafnframt verður ekki talið að lagasjónarmið um neytendavernd geti leitt til annarrar niðurstöðu, enda getur sá skilningur sem stefnandi leggur í vátryggingaskilmála hæglega leitt til lakari vátryggingaverndar við önnur verk byggingarstjóra á sama vátryggingatímabili. Samkvæmt þessu verður viðurkenningarkrafa stefnda Sjóvár-Almennra trygginga hf. tekin til greina eins og greinir í dómsorði.

Í þessum þætti málsins gera aðilar ekki kröfu um málskostnað.

Benedikt Bogason, héraðsdómari, kveður upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð:

Viðurkennt er að tjón stefnanda, Húsfélagsins Hagaflatar 9, vegna ætlaðra galla við smíði hússins sé eitt tjónsatvik í skilningi starfsábyrgðartryggingar byggingarstjóra hússins hjá stefnda Sjóvá-Almennum tryggingum hf.