Hæstiréttur íslands

Mál nr. 129/2003


Lykilorð

  • Kærumál
  • Innsetningargerð
  • Haldsréttur


Þriðjudaginn 29

 

Þriðjudaginn 29. apríl 2003.

Nr. 129/2003.

Hrafnhildur Hrafnkelsdóttir

(Róbert Árni Hreiðarsson hdl.)

gegn

Íslenska skófélaginu ehf.

(Helgi Jóhannesson hrl.)

 

Kærumál. Innsetningargerð. Haldsréttur.

Aðilar gerðu með sér samning um rekstur tveggja skóverslana í Reykjavík, þar sem meðal annars var kveðið á um að H sæi um rekstur þeirra, en Í legði til innréttingar sem yrðu í eigu hans. Eftir að H hafði rift samningnum vegna ætlaðra vanefnda Í á samningunum, krafðist Í þess að fá tiltekna lausafjármuni tekna úr vörslum H með innsetningargerð. Óumdeilt var að Í ætti þá lausafjármuni, sem krafa félagsins laut að. Þá var talið að H hafi í málatilbúnaði sínum ekki vísað til neinna atvika sem að lögum gætu leitt af sér haldsrétt henni til handa í umræddum munum. Var því staðfest niðurstaða héraðsdóms, þar sem fallist var á kröfu Í um að félaginu yrði heimilað að fá nánar tiltekna lausafjármuni tekna úr vörslum H með beinni aðfarargerð.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 27. mars 2003, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 8. apríl sl. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 13. mars 2003, þar sem fallist var á kröfu varnaraðila um að honum yrði heimilað að fá nánar tiltekna lausafjármuni tekna úr vörslum sóknaraðila með beinni aðfarargerð. Kæruheimild er í 4. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, sbr. 102. gr. laga nr. 92/1991. Sóknaraðili krefst þess að kröfu varnaraðila um heimild til aðfarargerðar verði hafnað. Þá krefst hún kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur og sér dæmdur kærumálskostnaður.

Eins og greinir í úrskurði héraðsdómara er óumdeilt að varnaraðili eigi þá lausafjármuni, sem hann leitar eftir að fá tekna úr vörslum sóknaraðila með innsetningargerð. Sóknaraðili hefur ekki í málatilbúnaði sínum vísað til neinna atvika, sem að lögum gætu leitt af sér haldsrétt henni til handa í munum þessum. Með þessari athugasemd verður hinn kærði úrskurður staðfestur með vísan til forsendna hans.

Sóknaraðili verður dæmd til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Hrafnhildur Hrafnkelsdóttir, greiði varnaraðila, Íslenska skófélaginu ehf., 150.000 krónur í kærumálskostnað.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 13. mars 2003.

                Með aðfararbeiðni, sem dagsett er 4. desember 2002, krefst Íslenska skófélagið ehf., kt. 620598-2249, Fiskislóð 75, Reykjavík, dómsúrskurðar um að „innréttingar þær sem gerðarbeiðandi setti upp í verslunum gerðarþola skv. samstarfssamningum við gerðarþola dags. 30. mars 2000 og 3. október 2000, verði teknar með beinni aðfarargerð úr vörslum gerðarþola og fengnar undirritaðri [Ragnheiði M. Ólafsdóttur hdl.] f.h. gerðarbeiðanda."

Við þingfestingu málsins 17. janúar sl. var innsetningarbeiðninni mótmælt af hálfu gerðarþola Hrafnhildi Hrafnkelsdóttur, kt. 040458-3019, Stuðlaseli 27, Reykjavík.  Gerir gerðarþoli þær kröfur að synjað verði um hina umbeðnu aðfarargerð og að gerðarbeiðanda verði gert að greiða gerðarþola málskostnað vegna máls þessa sér að skaðlausu.  Þá krefst gerðarþoli að málskot úrskurðar héraðsdómara til æðra dóms fresti aðfarargerð.  Þá krefst gerðarþoli að trygging verði sett af hálfu gerðarbeiðanda fyrir hugsanalegu tjóni gerðarþola nái gerðin fram að ganga.

Helstu málavextir eru að 30. mars 2000 gerðu aðilar með sé svokallaðan samstarfssamning um rekstur verslunar í Kringlunni 4-12.  Í samningnum segir m.a. að verslunin skuli vera í eigu gerðarþola og gerðarþoli sjá um rekstur hennar með ákveðnum undantekningum, þ. á m. að gerðarbeiðandi leggi til innréttingar (hönnun, uppsetningu og efni) í verslunina er séu í eigu gerðarbeiðanda og gerðarbeiðandi sjái um allt viðhald á.  Þá sjái gerðarbeiðandi um öll auglýsingar og kynningarmál fyrir verslunina á samningstímanum, en samningstíminn var ákveðinn frá 1. apríl 2000 til 1. apríl 2005.

                Þann 3. október 2000 gerðu aðilar með sér annan samstarfssamning um rekstur verslunar í Smáralind í Kópavogi.  Þar segir m.a. að verslunin sé í eigu gerðarþola og gerðarþoli sjái um allan rekstur hennar með ákveðnum undantekningum.  Þar segir að gerðarbeiðandi greiði sams konar innréttingar í verslunarrýmið og eru í Studio Skæði í Kringlunni, sbr. sundurliðun er þar greinir, og verði í eigu gerðarbeiðanda. Þá sjái gerðarbeiðandi um öll auglýsingar og kynningarmál fyrir verslunina á samnings-tímanum en samningstíminn var ákveðinn frá 3. október 2000 til 3. október 2005.

                Með bréfi til gerðarbeiðanda 18. júlí 2002 rifti gerðarþoli framangreindum samningum aðila og bar við að gerðarbeiðandi hefði verulega vanefnt samningana gerðarþola til tjóns.  Og með bréfi til gerðarbeiðanda  28. október 2002 kvaðst gerðarþoli eiga skaðabótakröfu á hendur gerðarbeiðanda, samtals að fjárhæð 6.573.520 kr.  Í bréfinu lagði gerðarþoli fram ákveðna tillögu um hvernig leysa mætti ágreining aðila um uppgjör á skiptum þeirra.

                Með bréfi til gerðarþola 5. nóvember 2002 hafnaði gerðarbeiðandi bótakröfu gerðarþola, en lýsti því jafnframt yfir, að hann væri tilbúinn að selja gerðarþola innréttingar þær sem til staðar væru í verslunum gerðarþola á „ásættanlegu verði".  Tekið var fram að kæmi ekki fram viðunandi kauptilboð frá gerðarþola innan 15 daga, myndi gerðarbeiðandi hefja aðgerðir til að fjarlægja innréttingar sínar úr verslunum gerðarþola.

                Með bréfi til gerðarbeiðanda 13. nóvember 2002 ítrekaði gerðarþoli fyrri kröfur sínar en kvaðst vonast til að samningar gætu náðst um lyktir þessara ágreiningsmála aðila.  Jafnframt tók gerðarþoli fram að hann áskildi sér allan rétt til að fara með ágreining aðila fyrir dómstóla tækist ekki að jafna hann innan 7 daga.

                Þann 17. janúar sl. tók lögmaður gerðarbeiðanda við stefnu gerðarþola þar sem gerðarbeiðanda var stefnt til að mæta á dómþingi  23. sama mánaðar.  Stefnukröfur eru:

1.       Að viðurkennd verði með dómi riftun stefnanda á 2 samstarfssamningum á milli stefnanda og stefnda hinn fyrri dags. 30. mars árið 2000 og hinn síðari dags. 3. október s.á. ...

2.       Að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda skaðabætur að fjárhæð kr. 11.648.080.- auk dráttarvaxta af kr. 7.148.080.- frá 28. nóvember 2002 til þess tíma, þegar mánuður er liðinn frá birtingu stefnu í máli þessu, en af kr. 11.648.080.- frá og með þeim degi til greiðsludags í samræmi við ákvæði vaxtalaga ...

3.       Að viðurkenndur verði með dómi haldsréttur stefnanda í innréttingum, sem stefndi telst eiga, í verslunum stefnanda í verslunarmiðstöðinni Kringlunni 4-12 í Reykjavík annars vegar og verslunarmiðstöðinni Smáralind í Kópavogi hins vegar til tryggingar framsettum skaðabótakröfum stefnanda hér að ofan á hendur stefnda.

4.       Að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.

             Gerðarbeiðandi byggir á því að óumdeilt sé að hann eigi umræddar innréttingar sem hann hafi sett upp í verslunum gerðarþola eins og um hafi verið samið við gerðarþola.  Gerðarþoli hafi rift samningum aðila sem veitti gerðarþola afnot að þessum eignum gerðarbeiðanda.  Gerðarþoli hafi eigi að síður hafnað að láta innréttingarnar af hendi.  Með vísun til 78. gr. laga nr. 90/1989 beri því að veita gerðarbeiðanda heimild til innsetningargerðar án undangengis dóms eða réttarsáttar svo sem krafist er.

                Gerðaþoli byggir á því að hann eigi stórfelldar fjárkröfur á hendur gerðarþola.  Hann hafi neyðst til að rifta samningum við gerðarbeiðanda.  Ákvæði samninga aðila sem varði innréttingar gerðarbeiðanda í verslunum gerðarþola séu þó enn í gildi milli aðila m.a. vegna þess að hagsmunir gerðarþoli að halda sérhönnuðum innréttingum í húsnæði sínu séu mun ríkari hagsmunum gerðarbeiðanda af því að rífa niður innréttingarnar.  Þá liggi fyrir að beðið sé eftir dómi þar sem m.a. er gerð krafa um viðurkenningu á haldsrétti gerðarþola að þessum innréttingum.

Niðurstaða:  Ekki er deilt um eignarétt gerðarbeiðanda að innréttingum sem gerðarbeiðandi setti upp í verslunum gerðarþola samkvæmt samningum við gerðarþola 30. mars 2000 og 3. október 2000, en samningum þessum var rift með bréfi lögmanns gerðarþola 18. júlí 2002.  Gerðaþoli telur sig hins vegar eiga haldsrétt í nefndum innréttingum.

                Af hálfu gerðarbeiðanda er haldsrétti gerðarþola mótmælt þar sem gerðarþoli hafi ekki lagt neitt til innréttinganna, hvorki fé, efni né vinnu.  Gerðarþoli telur sér heimilt að halda þessum eignum gerðarbeiðanda í sínum vörslum á grundvelli þess að eiga skaðabótakröfu á hendur gerðarbeiðanda en gerðarbeiðandi hafnar því að svo sé. Skaðabótakrafan er því umdeild.

                Samkvæmt framangreindu og gögnum málsins að öðru leyti verður ályktað að gerðarbeinandi eigi umræddar innréttingar og jafnframt að gerðarþoli hafi ekki öðlast ótvíræðan haldsrétt í þeim.  Verður því að fallast á kröfu gerðarbeiðanda um innsetningu í innréttingar í vörslum gerðarþola sem hann lýsir svo:  Smáralind: 2 sjónvörp, hátalarar, hljómflutningstæki, 1 DVD spilari.  Kringlan: 3 sjónvörp, hátalarar, hljómflutningstæki, 1 vídeó.  Í báðum verslununum er um að ræða allar hillur á veggjunum bæði á vinstri og hægri hönd þegar komið er inn í verslanirnar. (Sjá á meðfylgjandi teikningu.)  Einnig afgreiðsluborð og uppsetningarborð úti á gólfi.  Ljóskastarar á braut í versluninni í Smáralind og 4 ljóskastarar yfir inngangi þeirrar verslunar. 

Ekki er fallist á kröfu gerðarþola um að málskot úrskurðar fresti aðfarargerð.  Einnig er hafnað kröfu gerðarþola um að trygging verði sett af hálfu gerðarbeiðanda fyrir hugsanlegu tjóni gerðarþola nái gerðin fram að ganga en lagastoð skortir fyrir slíkri kröfu.

Páll Þorsteinsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

ÚRSKURÐARORÐ:

                Gerðarbeiðanda, Íslenska skófélaginu ehf., er heimilt með innsetningargerð að taka úr vörslum gerðarþola, Hrafnhildar Hrafnkelsdóttur, muni staðsetta í verslunum gerðarþola í Smáralind: 2 sjónvörp, hátalarar, hljómflutningstæki, 1 DVD spilari, og í  Kringlunni: 3 sjónvörp, hátalarar, hljómflutningstæki, 1 vídeó.  Í báðum verslununum allar hillur á veggjunum bæði á vinstri og hægri hönd þegar komið er inn í verslanirnar.  Einnig afgreiðsluborð og uppsetningarborð úti á gólfi.  Ljóskastara á braut í versluninni í Smáralind og 4 ljóskastara yfir inngangi þeirrar verslunar.