Hæstiréttur íslands
Mál nr. 99/2005
Lykilorð
- Ráðningarsamningur
- Uppsögn
- Vinnulaun
- Orlof
- Útivist
- Skriflegur málflutningur
|
|
Fimmtudaginn 16. júní 2005. |
|
Nr. 99/2005: |
Friðleifur Kristjánsson(Atli Gíslason hrl.) gegn þrotabúi Málunar og spörslunar ehf. (enginn) |
Ráðningarsamningur. Uppsögn. Vinnulaun. Orlof. Útivist. Skriflegur málflutningur.
F, sem hafði starfað fyrir M ehf., stefndi félaginu til greiðslu vangreiddra launa í þrjá mánuði, frá desember 2003 til febrúar 2004, auk orlofs fyrir tímabilið frá júní 2003 til febrúar 2004. Í málinu var ágreiningslaust að uppsagnarfrestur F var einn mánuður. M ehf. hélt því fram að F hafi verið sagt upp störfum í október 2003 og fengið greidd laun í samræmi við það fyrir störf í nóvember sama árs. Þessu var mótmælt af F. Ekki þurfti að taka afstöðu til ágreinings um þetta þar sem F hafði haldið áfram óbreyttum störfum hjá M ehf. um nokkurra vikna skeið í desember 2003. Yrði því hvað sem öðru líður að líta svo á að félagið hefði í verki fallið frá uppsögn F. Í málatilbúnaði F var miðað við að gerðir hans sjálfs síðla í janúar 2004 hafi í reynd falið í sér uppsögn gagnvart félaginu. Var á þetta fallist. Þá var talið að F ætti rétt á að fá greitt orlofsfé til viðbótar umsömdum launum fyrir störf sín. Var því fallist á kröfur F.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Garðar Gíslason og Gunnlaugur Claessen.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 8. mars 2005. Hann krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 824.812 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 241.200 krónum frá 1. janúar 2004 til 1. febrúar sama árs, af 452.400 krónum frá þeim degi til 1. mars sama árs og af 824.812 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti. Samkvæmt 3. mgr. 158. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 12. gr. laga nr. 38/1994, ber að líta svo á að hann krefjist staðfestingar hins áfrýjaða dóms.
I.
Samkvæmt gögnum málsins hóf áfrýjandi störf hjá Málun og spörslun ehf. um miðjan júní 2003. Ekki var gerður skriflegur ráðningarsamningur. Fyrir liggur að áfrýjandi hafi ekki haft fastan vinnustað í störfum þessum, heldur gegnt þeim á mismunandi stöðum, þar sem félagið sinnti verkum hverju sinni, en þangað hafi honum verið beint af forráðamanni þess. Þá er óumdeilt að samið hafi verið um að áfrýjandi fengi 1.200 krónur í jafnaðarkaup á klukkustund, en ágreiningur er á hinn bóginn um hvort orlofsfé hafi átt að vera innifalið í þeirri fjárhæð, sem áfrýjandi mótmælir. Fyrir héraðsdómi var því haldið fram af hálfu félagsins að áfrýjanda hafi vegna verkefnaskorts verið sagt upp störfum með bréfi 31. október 2003, sem lagt hefur verið fram í málinu, og uppsagnarfrestur verið einn mánuður, en að honum loknum hafi áfrýjanda verið gefinn kostur á að starfa áfram við tilfallandi verkefni, sem lokið hafi endanlega í desember á sama ári. Áfrýjandi andmælir því að sér hafi borist uppsögn þessi og kveðst hafa verið við samfelld störf hjá félaginu fram til 18. desember 2003, þegar hlé hafi verið gert á þeim vegna verkefnaskorts. Hafi staðið til að vinna hæfist aftur eftir jólafrí, en ítrekaðar tilraunir hans til að fá upplýsingar um framhald starfa hafi lítinn sem engan árangur borið og honum aðeins verið tjáð að ný verkefni væru í sjónmáli. Ekki er ágreiningur um að áfrýjandi hafi fengið greidd laun til loka nóvember 2003, en hann kveðst ekkert hafa fengið greitt fyrir störf í desember. Hann hafi síðla í janúar 2004 gefist loks upp á því að bíða nýrra verkefna og greiðslu fyrir vinnu í desember og leitað af þeim sökum til stéttarfélags síns. Líti hann svo á að þar með hafi starfi hans hjá félaginu verið sagt upp, en uppsagnarfrestur staðið til loka febrúar 2004.
Áfrýjandi höfðaði mál þetta 25. mars 2004 á hendur Málun og spörslun ehf. til heimtu skuldar, sem hann sundurliðar þannig að hann eigi í fyrsta lagi vangreidd laun vegna desember 2003 að fjárhæð 241.200 krónur. Sé þar reiknað með 201 vinnustund, sem sé samanlagður fjöldi unninna stunda í þeim mánuði að viðbættum átta stundum á hverjum stórhátíðardegi, sem ella hefði verið vinnudagur, auk daga þegar hann hafði veikindaforföll. Í öðru lagi krefst áfrýjandi greiðslu á 211.200 krónum í mánaðarlaun vegna janúar 2004, en fjárhæð þessi sé miðuð við 176 vinnustundir, sem fengist hefðu með fullu starfi í dagvinnu þann mánuð. Í þriðja lagi telur áfrýjandi sig eiga rétt á launum í uppsagnarfresti vegna febrúar 2004 að fjárhæð 207.996 krónur og miðar hann þar við 173,33 vinnustundir, en ekki er skýrt nánar í málatilbúnaði hans hvernig þessi stundafjöldi er fundinn. Um þennan lið vísar áfrýjandi að öðru leyti til þess að hann hafi notið réttar til uppsagnarfrests í einn mánuð eftir nánar tilgreindu ákvæði kjarasamnings, sem nái til þeirra sem þiggi mánaðarlaun fyrir störf sín. Þá krefst áfrýjandi í fjórða lagi greiðslu á 188.531 krónu í orlofsfé, sem svari til 10,17% af greiddum launum vegna tímabilsins frá júní til nóvember 2003 og umkrafinna launa fyrir desember sama árs og janúar 2004, svo og af launum í uppsagnarfresti í febrúar 2004. Frá heildarfjárhæð þessara fjögurra liða, 848.927 krónum, dregur áfrýjandi 24.115 krónur vegna skuldar út af vöruúttekt, en þannig fæst fyrrgreind fjárhæð dómkröfu hans, 824.812 krónur. Undir rekstri málsins fyrir héraðsdómi mun bú Málunar og spörslunar ehf. hafa verið tekið til gjaldþrotaskipta og tók stefndi við málsaðild.
II.
Eins og áður greinir hélt stefndi fyrir héraðsdómi því fram að áfrýjanda hafi með bréfi 31. október 2003, sem afhent hafi verið sama dag, verið sagt upp störfum og uppsagnarfrestur samkvæmt því verið á enda í lok nóvember sama árs Við aðalmeðferð málsins í héraði kom fyrir dóm vitni, sem kvaðst hafa starfað með áfrýjanda á þessum tíma og bar að þeim hafi báðum verið afhent uppsagnarbréf við sama tækifæri umræddan dag. Þessu hefur áfrýjandi mótmælt. Ekki þarf að taka afstöðu til ágreinings um þetta, enda hefur ekki verið hnekkt þeirri staðhæfingu áfrýjanda að hann hafi haldið áfram óbreyttum störfum hjá Málun og spörslun ehf. um nokkurra vikna skeið í desember 2003 og hefur í engu verið sýnt fram á að samið hafi verið sérstaklega á því tímabili um önnur ráðningarkjör en áður giltu. Yrði því hvað sem öðru líður að líta svo á að félagið hefði í verki fallið frá uppsögn áfrýjanda. Ekki hefur verið haldið fram að honum hafi verið sagt upp störfum á síðari stigum, en í málatilbúnaði hans er miðað við að gerðir hans sjálfs síðla í janúar 2004 hafi í reynd falið í sér uppsögn gagnvart félaginu. Óumdeilt er að uppsagnarfrestur áfrýjanda hafi verið einn mánuður miðað við mánaðamót og hefur því ekki verið borið við að hann hafi vikist undan störfum í þágu félagsins meðan á frestinum stóð. Við meðferð málsins í héraði voru ekki höfð uppi mótmæli gegn útreikningi áfrýjanda á launum fyrir desember 2003 og janúar 2004 eða á launum í uppsagnarfresti. Samkvæmt því verður að taka þessa kröfuliði að fullu til greina með samtals 660.396 krónum.
Fyrir héraðsdómi var þeim lið í kröfu áfrýjanda, sem varðar greiðslu orlofsfjár, mótmælt á þeirri forsendu að samið hafi verið um að það væri innifalið í þeirri fjárhæð, sem hann hafi fengið í jafnaðarkaup fyrir hverja vinnustund. Var því haldið fram að launaseðlar áfrýjanda hafi borið þetta með sér og hann aldrei hreyft andmælum gegn því meðan á störfum hans stóð. Áfrýjandi hefur á hinn bóginn staðhæft að launaseðlar, sem hér um ræðir og ná til mánaðanna júní, júlí, ágúst, september og október 2003, hafi verið afhentir honum með eftirgangsmunum í einu lagi í nóvember á því ári. Um þetta ágreiningsefni er til þess að líta að á launaseðlum fyrir fjóra fyrstu mánuðina er meðal annars ýmist að finna orðin „Tímakaup með orlofi“, „Tímakaup m. orlofi“ eða „m/orlofi“. Á þeim öllum er hins vegar í sérstökum lið með fyrirsögninni „Orlof Áunnir tímar“ tiltekinn stundafjöldi, sem svarar til 10,17% af þeim vinnustundum, sem komu hverju sinni fram á launaseðli og kaup var greitt fyrir. Í launaseðli fyrir október 2003 var ekki vikið að því að orlofsfé væri innifalið í tímakaupi, en aftur var á sama hátt og áður greinir getið um áunna tíma til orlofs. Stefndi verður að bera sönnunarbyrði fyrir því að samið hafi verið um þá skipan að orlofsfé væri innifalið í tímakaupi áfrýjanda. Gögnin, sem stefndi fyrir héraðsdómi bar fyrir sig til stuðnings þessu, benda samkvæmt framansögðu öðrum þræði til þess gagnstæða. Eru því engin efni til annars en að fallast á með áfrýjanda að hann eigi rétt á að fá greitt orlofsfé til viðbótar umsömdum launum fyrir störf sín. Útreikningi hans á þessum lið í dómkröfu, sem hann telur alls 188.531 krónu, hefur ekki verið andmælt sérstaklega og verður hann því tekinn að fullu til greina.
Áfrýjandi hefur sem fyrr segir viðurkennt í málatilbúnaði sínum að hann standi í skuld við stefnda vegna vöruúttekar, sem hann telur nema 24.115 krónum. Ekki hefur verið sýnt fram á að sú fjárhæð eigi með réttu að vera hærri, svo sem borið var við af stefnda í héraði. Samkvæmt öllu framansögðu verður stefndi því dæmdur til að greiða áfrýjanda 824.812 krónur með vöxtum, eins og nánar greinir í dómsorði.
Stefnda verður gert að greiða áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem ákveðinn er í einu lagi svo sem í dómsorði segir.
Dómsorð:
Stefndi, þrotabú Málunar og spörslunar ehf., greiði áfrýjanda, Friðleifi Kristjánssyni, 824.812 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 241.200 krónum frá 1. janúar 2004 til 1. febrúar sama árs, af 452.400 krónum frá þeim degi til 1. mars sama árs og af 824.812 krónum frá þeim degi til greiðsludags.
Stefndi greiði áfrýjanda samtals 400.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 22. desember 2004.
Hinn 4. nóvember 2004 var stefndi úrskurðaður gjaldþrota og var Jón Auðunn Jónsson hrl.,sem sótti þingið skipaður skiptastjóri þrotabús stefnda. Lögmaður stefnda taldi sig því ekki hafa umboð til frekari afskipta af málinu þ.á.m. til endurflutnings. Skiptastóri þrotabús stefnda lýsti því yfir að hann muni ekki láta málið frekar til sín taka þ.a.m. ekki endurflytja það. Málið var því dómtekið að nýju án endurflutnings.
Stefnandi er Friðleifur Kristjánsson, kt. [...], Dvergholti 3, Hafnarfirði, en stefndi var Málun og spörslun ehf., kt. 660101-2330, Lautasmára 4, Kópavogi, en verður nú þrotabú stefnda.
Umboðsmaður stefnanda er Hulda Rós Rúriksdóttir hdl. en umboðsmaður stefnda Málunar og spörslunar ehf. var Hilmar Ingimundarson hrl., en skiptastjóri þrotabúsins er Jón Auðunn Jónsson, hrl.
I. Dómkröfur.
1. Stefnandi gerir endanlegar kröfur um að stefndi verði dæmdur til að greiða honum skuld að fjárhæð 824.813 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 af 241.200 krónum frá 01.01.2004 til 01.02.2004, af 452.452 krónum frá 01.02.2004 til 01.03.2004, af 824.812 krónum frá 01.03.2004 til greiðsludags.
Þá er krafist málskostnaðar skv. framlögðum málskostnaðarreikningi að fjárhæð 351.970 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.
2. Stefndi hefur aðallega krafist þess að hann verði sýknaður af öllum kröfur stefnanda, en til vara er krafist lækkunar á kröfum hans.
II. Málavextir.
Stefnandi hóf þann 11. júní 2003 störf hjá stefnda sem rekur málningarfyrirtæki. Ekki var gerður skriflegur ráðningarsamningur við stefnanda, en óumdeilt er að hann skyldi fá greiddar 1200 krónur fyrir hverja unna klukkustund. Stefnanda var greitt eftir vinnuframlagi og kvaðst hann hafa haldið dagbók um vinnustundir þær, sem hann vann hjá stefnda og hafði hann fengið laun sín greidd mánaðarlega samkvæmt því og fékk jafnframt afhenta launaseðla um greidd laun. Á launaseðlunum kemur fram, að launin séu með orlofi, en þar er ekki sundurgreint hve mikill hluti launa sé orlofsfé. Stefnandi fékk launaseðla fyrir mánuðina júní, júlí, ágúst, september og október 2003, en ekki nóvember, þó að hann hafi fengið laun greidd fyrir þann mánuð 207.600 krónur.
Fram kemur hjá stefnda að hann hafi sagt stefnanda upp störfum með uppsagnarbréfi 31. október 2003, en uppsagnarfrestur samkvæmt kjarasamningi væri einn mánuður. Það hafi hins vegar orðið að samkomulagi milli þeirra, að stefndi skyldi útvega stefnanda störf við málun í desember ef einhver vinna félli til, en í því samkomulagi hafi ekki falist að uppsögnin félli úr gildi, enda hafi stefnandi verið jafnframt í vinnu annars staðar, en á vegum stefnda t.d. að Sólasölum 4, Kópavogi. Hjá stefnanda kom fram að hann hefði unnið með venjulegum hætti í desember 2003 og hafi stefndi látið hann vita sem fyrr hvar hann ætti að mæta til vinnu hverju sinni. Þann 18. desember 2003 hafi lokið ákveðnu verki sem hann vann fyrir stefnda og hafi þá verið fyrirsjáanlegt að ekki yrðu fleiri verk fyrr en eftir jól og áramót og kemur ekki fram hjá stefnanda, að hann hafi fengið uppsagnarbréf í október 2003. Hann kvað stefnda hafa tjáð sér að vinna hæfist aftur eftir áramót. Stefndi hafði samt ekki samband við hann eftir áramót og honum hafði ekki tekist að ná sambandi við stefnda þrátt fyrir hringingar til hans. Hann kvað fyrirsvarsmann stefnda svo hafa hringt í sig um miðjan janúar 2004 og tjáð honum að engin verkefni væru fyrir hendi, en að þau kæmu innan tíðar. Eftir það hafði stefnandi oft hringt í stefnda í janúar 2004, en svarið alltaf verið að engin vinna væri fyrirliggjandi hjá stefnda. Stefnandi hafði þá farið til Eflingar, stéttarfélags síns og jafnframt sótt um atvinnuleysisbætur. Í framhaldi hafði stéttarfélagið sent stefnda bréf dags. 26. janúar 2004 um vangreidd laun til stefnanda fyrir desember 2003 og janúar 2004.
Fram kemur hjá stefnda að stefnandi hafi á tímabilinu frá 11.-16. desember 2003 tekið út málningarefni án heimildar vegna eigin starfa og hafi hann með því gerst freklega brotlegur við vinnuréttarsamband þeirra og hafi ekki verið óskað frekari starfa af hans hálfu eftir þetta. Því hafi hann ekki átt rétt til frekari launa og því síður til frekari uppsagnar.
III. Málsástæður og lagarök.
1. Kröfu sína byggir stefnandi á afhentum launaseðlum, tímaskráningu í desember 2003 og á ákvæðum kjarasamnings Eflingar-stéttarfélags og Samtaka atvinnulífsins. Gerð sé krafa um greiðslu launa vegna unninna stunda í desembermánuði 2003 samkvæmt tímaskráningu stefnanda, sem hann hélt saman á því tímabili. Vegna janúarmánaðar 2004 sé gerð krafa um greiðslu 176 stunda en sá fjöldi vinnustunda sé fundinn þannig að reiknaðar eru 8 klst. fyrir hvern virkan dag og jafnframt vegna 1. janúar. Gerð sé krafa um greiðslu eins mánaðar í uppsagnarfresti og byggi sú krafa á ákvæðum kjarasamnings, grein 12.1.2, (bls. 31) þar sem segi að mánaðarkaupsmenn eigi ávallt eins mánaðar uppsagnarfrest. Stefnandi hafi fengið nýja vinnu þann 2. mars 2004. Kröfu sína um greiðslu orlofs byggi stefnandi á ákvæðum kjarasamnings, kafla 4.1. (bls. 18). Gerð sé krafa um greiðslu uppsafnaðs orlofs frá upphafi starfstíma til loka febrúarmánaðar 2004. Fjárhæð orlofskröfu sé reiknuð miðað við heildarlaun frá upphafi starfstíma í samræmi við afhenta launaseðla. Þá sé fjárhæð vegna desember-febrúar reiknuð miðað við kröfugerð stefnanda. Vísað til þess að vegna mistaka hafi ekki í fyrri bréfum verið gerð krafa um greiðslu launa á uppsagnarfresti og uppsafnaðs orlofs. Kröfu stefnanda um greiðslu uppsafnaðs orlofs vegna nóvembermánaðar 2003 reikni stefnandi miðað við að unnar hafi verið 173,33 stundir í nóvembermánuði, en stefnandi líti svo á að hann hafi fengið laun greidd vegna nóvembermánaðar, en engan launaseðil afhentan.
Krafa stefnanda sundurliðast með eftirgreindum hætti:
Vangreidd laun í desember 2003: kr.241.200,-
-201 klst x 1.200 kr/klst
Vangreidd laun í janúar 2004: kr.211.200,-
-176 klst x 1.200 kr/klst
Vangreidd laun á uppsagnarfresti í febrúar 2004: kr.207.996,-
-173,33 klst x 1.200 kr/klst
Uppsafnað orlof:
-10,17% af heildarlaunum skv. afhentum launas. kr.100.256,-
-10,17% vegna nóvember 2003, reiknað af 207.600 kr.21.113,-
-10,17% af umkröfðum launum v. des. 2002-feb. 2004 kr.67.162,-
Heildarkrafa kr. 848.927,-
Stefnandi hafi verið félagsmaður í Eflingu-stéttarfélagi á því tímabili er krafa hans stofnaðist.
Vísað er til meginreglu vinnu-, kröfu- og samningaréttar um að laun beri að greiða í samræmi við umsamda launataxta skv. gildandi ráðningar- og/eða kjarasamningi. Vísist um réttindi hans aðallega til 1.,2., 3., 4. og 12. kafla kjarasamnings félagsins. Jafnframt sé vísað til laga nr. 55/1980 um starfskjör launafólks o.fl. aðallega 1. gr. laga nr. 28/1930 um greiðslu verkkaups, laga nr. 30/1987 um orlof, aðallega 1.,7., og 8. gr. og laga nr. 19/1979 um rétt launafólks til uppsagnarfrests o.fl. Byggt sé á því að stefndi hafi vanefnt bindandi ráðningarsamning við stefnanda með því að greiða ekki umsamnin laun og uppfylla aðrar samningsskyldur sínar. Samkvæmt framangreindum réttarheimildum og samningum sé greiðsluskylda stefnda ótvíræð. Um sönnun sé jafnframt vísað til stjórnunarréttar stefnda og þess að hann er bókhaldsskyldur að lögum.
Kröfur um dráttarvexti, þ.m.t. vaxtavexti styðji stefnandi við reglur III. kafla laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, með síðari breytingum. Krafan um málskostnað styðjist við XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Krafa um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun sé reist á lögum númer nr. 50/1988. Stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur og beri honum því nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefndu.
2. Sýknukröfu sína byggir stefndi á því að hann skuldi stefnanda ekki þessi laun, en hann hafi fengið greidd þau laun, sem hann eigi rétt á m.v. ráðningarkjör, enda hafi stefnandi verið við vinnu annarsstaðar í janúar og febrúar.
Varakröfu sína um lækkun stefnukröfu er á því reist að stefndi eigi skuldajafnaðarkröfu á hendur stefnanda að fjárhæð 27.355 krónur vegna úttektar stefnanda á málningarvörum í nafni stefnda, þá eigi stefnandi að draga frá kröfum sínum laun, sem hann hafi fengið frá öðrum í desember 2003 og janúar og febrúar 2004. Þá sé orlofskröfu stefnanda mótmælt, þar sem orlofið hafi verið innifalið í tímakaupinu.
Stefndi vísi til skuldbindingar samninga og kröfuréttar og kjarasamninga varðandi uppsagnarfrest, þá sé vísað til trúnaðarskyldu launþega gagnvart vinnuveitanda.
IV. Sönnunarfærsla.
Stefnandi og fyrirsvarsmaður stefnda gáfu aðilaskýrslu í málinu og vitni báru Stefanía Ósk Þórisdóttir, [...], eiginkona stefnanda og Anton Tjörvi Jónsson, [...].
V. Niðurstöður.
Í málinu er ágreiningslaust að stefnandi réðst í vinnu hjá stefnda 11. júní 2003 og hann skyldi fá greitt í jafnaðarkaup 1.200 krónur á tímann og var kaupið greitt mánaðarlega miðað við vinnuframlag stefnanda, en hann færði í dagbók um fjölda þeirra unnar vinnustunda fyrir stefnda og skilaði svo til hans tímaskýrslu þar um, og voru launaútreikningar stefnda byggðir á þessum tímaskýrslum.
Ágreiningslaust er og að stefnandi átti rétt á eins mánaða uppsagnarfresti, en hins vegar voru launakjör stefnanda ekki þannig að hann væri á föstu mánaðarkaupi.
Uppsagnarbréfið til stefnanda er dagsett 31. október 2003 og í yfirlýsingu og vitnisburði Antons Tjörva Jónssonar, sem og vann hjá stefnda á sama tíma og stefnandi og er málarasveinn kemur fram, að vitnið hafi fengið uppsagnarbréf á sama tíma og stefnandi og þeim hafi verið afhent bréfin samtímis og ástæða uppsagnarinnar hafi verið fyrirsjáanlegur verkefnaskortur hjá stefnda og hafði vitnið hætt vinnu í framhaldi af því eða í lok uppsagnarfrests. Af hálfu stefnda er því og haldið fram að stefnandi hafi þurft uppsagnarbréfið vegna umsóknar um atvinnuleysisbætur og notað það þannig, er því ekki sérstaklega mótmælt.
Í málinu verður því við það miðað að stefnandi hafi fengið uppsagnarbréf eins og haldið er fram af stefnda og hann hafi í nóvember unnið í uppsagnarfrestinum. Hann hafi hinsvegar sóst eftir vinnu áfram hjá stefnda í desember eftir því sem verkefni féllu til, en jafnframt unnið hjá öðrum svo sem við húseignina Sólsali 4 í Kópavogi.
Samkvæmt tímafærslum stefnanda í dagbók sína í desember 2003 hefur hann haft nokkuð stöðuga vinnu hjá stefnda fram að 13. desember, en eftir það minnkar vinnan og 18. desember er skráður síðasti dagur í vinnu hjá stefnda og að hann hafði ekki verið boðaður til starfa eftir það.
Þá kemur til álita hvernig meta skuli störf stefnanda fyrir stefnda í desember og hvort þau hafi áhrif á fyrri uppsögn. Af því sem rakið hefur verið er ljóst að uppsögnin var vegna fyrirsjáanlegs verkefnisskorts og er fram komið hjá stefnda, að tvö hús sem átti að sandsparsla hafi dottið út og hjá stefnanda kom fram að síðasti vinnudagur hans hjá stefnda var 18. desember 2003 og þá átti að sjá til hvort frekari vinnu yrði að hafa í janúar og þá talað um að allt færi í gagn eftir jól.
Það er ekki staðfest af stefnda að stefnanda hafi verið lofuð vinna eftir jól, heldur virðist hafa orðið trúnaðarbrestur milli þeirra.
Það er því mat réttarins að ekki sé um að ræða svo fast og langvarandi vinnusamband eftir uppsögnina að stefnandi hafi átt rétt á eins mánaðar uppsagnarfresti, en með vísun til liðar 12.1.2 framangreinds kjarasamnings er fallist á að stefnandi hafi átti rétt á viku uppsagnarfresti frá 18. desember 2003, er honum var tilkynnt að ekki væri frekari vinnu að hafa í bili.
Stefndi hefur ekki lagt fram neina tímaskráningu um vinnu stefnanda og verður að styðjast við tímaskráningu stefnanda á dskj. nr. 8, sem stefndi hefur ekki mótmælt um þar skráða vinnustaði nema Sólarsali 4, og óumdeilt að þar er stefnandi ekki að vinna á vegum stefnda og eru þeir tímar sem tilgreindir eru við þann stað ekki taldir með. Samkvæmt því hefur stefnandi unnið 112 klukkustundir hjá stefnda og verið veikur 15. og 16. desember og á hann rétt á 16 tíma launum vegna þess. Þá þykir hann eiga rétt á greiðslu 40 vinnustunda í uppsagnarfresti eða allt 168 klst. á 1200 krónur og því eru vangreidd laun til stefnanda sem stefnda ber að greiða 201.600 krónur. Frá því dregst gagnkrafa stefnda sem samsvarar lækkun stefnanda á kröfu sinni um 24.115 krónur og gerir það þá 177. 485 krónur.
Fallist er á að stefndi greiði dráttarvexti skv. III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 af þessari fjárhæð frá 1. janúar 2004 til greiðsludags.
Þegar litið er til framburðar stefnda og vitnisins Antons Tjörva þykir ljóst, að umsamin laun stefnanda voru 1200 krónur á tímann að meðtöldu orlofi. Þegar litið er til umsamdra vinnutaxta samkvæmt framangreindum kjarasamningi eru 1200 krónur á tímann svo langt yfir jafnaðarkaup, sem ákveðið yrði samkvæmt þeim, að 10,17% rúmast vel inn í 1200 króna tímakaupinu, án þess talið verði að þá sé það komið niður fyrir umsamin lágmarkslaun, enda hefði stefnanda borið að mótmæla því þegar í stað, ef hann taldi launaseðlana ranga að þessu leyti, en þar voru tilgreindar sérstaklega greiðslur lífeyrisiðgjalda og félagsgjalda og þá hefði átt að geta 10,17% orlofsframlags sbr. 1. mgr. 7. gr. laga nr. 30/1987, en í 3. mgr. sömu greinar er tekið fram að heimilt sé að greiða mánaðarkaupsmönnum orlofslaun á sama tíma og reglubundnar launagreiðslur, svo sem virðist hafa verið gert hjá stefnda, og því ekki verið ástæða til að reikna út og tilgreina orlofslaunin sem frádráttarlið.
Krafa stefnanda vegna ógreiddra orlofslauna er því ekki tekin til greina.
Eftir þessum úrslitum ber að dæma stefnda til að greiða stefnanda 116.143 krónur og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts af málflutningsþóknun.
Guðmundur L. Jóhannesson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
DÓMSORÐ
Stefndi, þrb. Málunar og spörslunar ehf., greiði stefnanda, Friðleifi Kristjánssyni 177.485 krónur auk dráttarvaxta skv. III. kafla laga nr. 38/2001 frá 1. janúar 2004 til greiðsludags.
Stefndi greiði stefnanda 116.143 krónur í málskostnað, virðisaukaskattur af málflutningsþóknun er innifalinn.