Hæstiréttur íslands

Mál nr. 309/2017

Emma Agneta Björgvinsdóttir (Steingrímur Þormóðsson lögmaður)
gegn
Sjóvá-Almennum tryggingum hf. (Guðjón Ármannsson lögmaður)

Lykilorð

  • Vátryggingarsamningur
  • Slysatrygging
  • Takmörkun ábyrgðar

Reifun

E og fjölskylda hennar lenti í umferðarslysi árið 2013 þegar bifreið þeirra fauk út af veginum. E krafðist dánarbóta úr heimilistryggingu sem hún hefði keypt hjá S hf. en sonur hennar lést af völdum áverka sem hann hafði hlotið í slysinu. Í vátryggingarskilmálum kom meðal annars fram að vátryggingin næði ekki til slyss sem vátryggður yrði fyrir af völdum skráningarskylds vélknúins ökutækis. Var hafnað þeirri túlkun E að sú takmörkun kæmi eingöngu til skoðunar í þeim tilvikum þegar tjónþoli fengi umræddar bætur úr lögboðinni ábyrgðartryggingu bifreiða. Þá var ekki talið að sérstaka lagaheimild þyrfti til að heimila fyrirvarann í tryggingunni né að ákvæðið væri í andstöðu við ákvæði laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga. Að lokum var talið ósannað að S hf. hefði brotið gegn upplýsingaskyldu sinni samkvæmt 70. gr. laga nr. 30/2004. Var S hf. því sýknað af kröfu E.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson og Greta Baldursdóttir og Ingimundur Einarsson héraðsdómari.

Áfrýjandi skaut málinu upphaflega til Hæstaréttar 6. mars 2017. Ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu þess 19. apríl 2017 og áfrýjaði hún öðru sinni 17. maí sama ár. Hún krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 7.082.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 17. desember 2013 til greiðsludags. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Rétt er að hvor aðila beri sinn kostnað af rekstri málsins fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

                                                                           

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 6. desember 2016.

                Mál þetta, sem höfðað var með stefnu birtri 20. janúar 2015, var dómtekið að lokinni aðalmeðferð 26. október s.l. Stefnandi er Emma Agneta Björgvinsdóttir, Skessugili 17 á Akureyri. Stefndi er Sjóvá-Almennar tryggingar hf. Kringlunni 5 í Reykjavík.

                Stefnandi krefst þess að stefndi greiði sér 7.082.000 krónur með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2011 frá 17. desember 2013 til greiðsludags, auk greiðslu málskostnaðar eins og mál þetta væri ekki gjafsóknarmál.

                Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda og greiðslu málskostnaðar úr hendi hennar.

                Atvik máls

                Þann 1. mars 2013 lenti stefnandi og fjölskylda hennar í umferðarslysi þegar bifreið þeirra fauk út af veginum í Norðurárdal í Skagafirði, skammt frá bænum Silfrastöðum. Sonur stefnanda, Blængur Mikael Bogason, sem þá var á 13. ári, lést af völdum áverka sem hann hlaut í slysinu.

                Stefnandi var með heimilistryggingu hjá stefnda, svokallaða fjölskylduvernd 2, sem m.a. felur í sér slysatryggingu í frítíma. Í 19. gr. skilmála tryggingarinnar segir að félagið greiði m.a. bætur vegna banaslysa og í 20. gr. skilmálanna er kveðið á um fjárhæð dánarbóta. Stefnandi gerði kröfu um greiðslu dánarbóta vegna andláts Blængs á grundvelli framangreindrar tryggingar. Stefndi hafnaði hins vegar kröfu stefnanda og tilkynnti henni þá niðurstöðu með bréfi dagsettu 13. febrúar 2014. Segir í bréfinu að tryggingin nái ekki til bílslysa og er vísað til síðari málsliðar 2. mgr. 19. gr. skilmála tryggingarinnar sem er svohljóðandi: „Vátryggingin nær ekki til slyss sem vátryggður verður fyrir af völdum skráningarskylds vélknúins ökutækis á Íslandi, né slyss af völdum vélknúins ökutækis sem skráð er erlendis þar sem lögboðið er að vátryggja vegna slíkra slysa.“

                Stefnandi skaut málinu til úrskurðarnefndar í vátryggingamálum sem staðfesti niðurstöðu stefnda með úrskurði sínum dagsettum 1. apríl 2014. Stefnandi sættir sig ekki við niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar og hefur af þeim sökum höfðað mál þetta.

                Helstu málsástæður og lagarök stefnanda

                Stefnandi byggir á því að hún eigi rétt til greiðslu dánarbóta úr hendi stefnda vegna andláts sonar síns sem lést af slysförum. Andlát hans hafi verið vátryggingaratburður svo sem það hugtak er skilgreint í g- og f-lið 62. gr. laga nr. 30/2004, sem falli undir svokallaða fjölskylduverndartryggingu sem stefnandi hafi tekið hjá hinu stefnda vátryggingafélagi, sbr. 61. og 62. grein laga nr. 30/2004, um vátryggingarsamninga. Auk þess vísar hún til h-liðar 62. gr. varðandi vátryggingarskírteinið sem hún kveður geyma þá persónutryggingu sem stefnandi hafi haft hjá félaginu.

                Stefnandi byggir í fyrsta lagi á því að sú undanþága á ábyrgð stefnda sem fram komi í 2. mgr. 19. gr. skilmála tryggingarinnar feli í sér ábyrgðartakmörkun sem sé í andstöðu við ófrávíkjanleg ákvæði II. hluta laga nr. 30/2004, um vátryggingarsamninga, sbr. 63. gr. laganna. Heimilar takmarkanir á ábyrgð komi fram í 86.–89. gr. laganna og þar sé ekki að finna takmörkun af því tagi sem 19. gr. skilmálanna kveði á um. Ábyrgðartakmörkunin feli í sér svokallaða hlutlæga ábyrgðartakmörkun en slíkar takmarkanir séu óheimilar eftir gildandi lögum. Þá beri stefndi sönnunarbyrðina fyrir því að tjónið falli undir undanþáguákvæði skilmálanna, þ.e. að slysið hafi orðið með þeim hætti eða við þær aðstæður, að það falli undir undanþáguákvæði í skilmálum. Það sé ósannað enda dugi stefnda ekki að benda á skilmálana til stuðnings staðhæfingu sinni.

                Í öðru lagi hafi stefnandi tekið tryggingu fyrir hættu á frístundaslysi fjölskyldunnar (dánaráhættu) og verið í góðri trú um að slík trygging væri fyrir hendi án þeirra takmarkana sem stefndi beri nú fyrir sig, enda komi þær ekki fram á vátryggingarskírteininu og stefndi hafi ekki upplýst stefnanda sérstaklega um þær. Þá hafi stefnandi aldrei skrifað undir tryggingarskilmálana, sem séu staðlaðir og samdir einhliða af félaginu og feli í sér undanþáguákvæði sem ekki eigi sér stoð í lögum. Vísar stefnandi til 94. gr. laga nr. 30/2004, til stuðnings þessari málsástæðu.

                Samkvæmt ofangreindu byggir stefnandi á því að hún eigi réttmæta og löglega kröfu til bóta úr frítímaslysatryggingunni skv. meginreglu 3. mgr. 35. greinar í lögum um vátryggingarsamninga.

                Sem frekari rökstuðning fyrir kröfu byggir stefnandi á því að umdeilt ákvæði í 19. gr. vátryggingarskilmálanna sé reist á þeirri forsendu að þeir sem slasist í umferðarslysum fái yfirleitt fullar bætur á grundvelli lögboðinna vátrygginga bifreiða og því sé yfirleitt ekki þörf á frekari tryggingum vegna umferðarslysa. Það eigi hins vegar ekki við í tilviki stefnanda þar sem hún eigi ekki rétt á dánarbótum úr ábyrgðartryggingu bifreiðarinnar vegna sonarmissis síns. Beri því tað túlka 19. gr. skilmálanna á þann veg að takmörkunin eigi því aðeins við ef bætur fáist úr ábyrgðartryggingu bifreiðarinnar eða slysatryggingu skv. 92. gr. laganna. Sú túlkun fái stoð í 20. gr. skilmálanna þar sem skýrt sé kveðið á um, að valdi slys dauða vátryggðs greiðist til rétthafa bóta sú fjárhæð sem tilgreind er í vátryggingarskírteini. Leiki einhver vafi á túlkun skilmálanna beri að túlka þau stefnanda í hag, enda séu skilmálarnir staðlaðir og samdir einhliða af stefnda. Vísar stefnandi í þessu sambandi til 36. gr. b í samningalögum nr. 7/1936.

                Málsástæður og lagarök stefnda

                Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að stefnandi hafi ekki sýnt fram á að hún eigi rétt á dánarbótum úr frítímaslysatryggingu sem hún hafi tekið hjá stefnda. Samkvæmt skýrum skilmálum vátryggingarinnar nái hún ekki til slyss sem vátryggður verður fyrir af völdum skráningarskylds vélknúins ökutækis, sbr. undanþágu slíkra slysa í 19. gr. skilmálanna. Ljóst sé að sonur stefnda hafi látist í umferðarslysi sem falli undir framangreinda undantekningu.

                Undanþágan brjóti ekki í bága við ákvæði laga nr. 30/2004. Stefndi mótmælir þeim skilningi sem stefnandi leggur í umrætt ákvæði 63. gr. laga um vátryggingarsamninga. Sú undanþága sem 19. gr. skilmála vátryggingarinnar hafi að geyma feli ekki í sér frávik frá ákvæðum laga um vátryggingarsamninga eins og stefnandi haldi fram. Um sé að ræða undanþágu er varði umfang tryggingarinnar en ekki þann lágmarksrétt sem lög um vátryggingarsamninga tryggi. Þá mótmælir stefndi því sem röngu að ákvæði 63. gr. vátryggingarsamningslaga verði skilið á þá lund að ákvæði 86.–93. gr. laganna feli í sér tæmandi talningu á undanþágum og afmörkunum sem stefnda sé heimilt að setja fram gagnvart vátryggingartökum. Framangreind ákvæði hindri ekki að stefnda sé heimilt að semja um umfang frítímaslysatryggingarinnar eins og gert sé með því að undanþiggja þau slys sem skráningarskylt vélknúið ökutæki valdi. Þá hafi stefnandi ekki sýnt fram á hvernig skilmálinn brjóti í bága við ákvæði laganna eða að hvaða marki hið meinta brot hafi leitt til lakari stöðu stefnanda, enda njóti stefnandi þeirrar lágmarksverndar sem lögin geri ráð fyrir. Stefnandi beri sönnunarbyrði fyrir slíkum fullyrðingum sem hún hafi ekki hafi axlað.

                Stefndi mótmælir sem rangri tilvísun stefnanda til ákvæðis 87. gr. laga nr. 30/2004, um vátryggingarsamninga, sem fjallar um ábyrgðartakmörkun vegna hættulegrar starfsemi. Umrætt ákvæði tengist ekki atvikum máls og skjóti ekki stoðum undir kröfur stefnanda.

                Þá mótmælir stefndi því sem röngu að umrædd takmörkun á ábyrgð í 19. gr. skilmálanna feli í sér hlutlæga ábyrgðartakmörkun sem hafi ekki gildi eftir að ákvæði laga nr. 30/2004 tóku gildi eins og stefnandi haldi fram í stefnu. Einnig sé því mótmælt sem röngu að undanþágan þurfi að hafa sérstaka stoð í lögum þannig að á henni verði byggt eins og stefnandi haldi fram. Verði slík túlkun hvorki ráðin af ákvæðum laga um vátryggingarsamninga né öðrum lögum.

                Stefndi telur ljóst, og í raun óumdeilt, að sonur stefnanda hafi orðið fyrir slysi af völdum skráningarskylds vélknúins ökutækis á Íslandi og falli slysið því undir undanþágu 19. gr. skilmála frítímaslysatryggingar sem stefnandi tók hjá stefnda. Það megi líka sjá af því að stefnandi sjálf hafi gert kröfu um og fengið bætur vegna síns eigin líkamstjóns, úr ábyrgðartryggingu bifreiðarinnar TE-866, sem ekki hefið verið unnt nema af því að slysið hlaust af notkunar umræddrar bifreiðar. Stefndi mótmælir sem röngum þeim fullyrðingum í stefnu að stefndi þurfi að færa fyrir þessu einhver ríkari og viðameiri rök en þegar hafi verið gert eða að honum beri að benda á hvar slíkt eigi sér „stoð“. Um frjálsa ábyrgðartryggingu sé að ræða en ekki lögbundna tryggingu og hafi stefndi því svigrúm til þeirra takmarkana á bótasviðinu sem undanþágan mæli fyrir um. Byggir það m.a. á meginreglunni um samningsfrelsi aðila.

                Þá mótmælir stefndi þeirri staðhæfingu stefnanda að túlka beri ákvæði umdeilds skilmála á þann veg að bætur vegna umferðarslyss falli því aðeins utan tryggingarsviðs tryggingarinnar að bætur fáist úr ábyrgðartryggingu bifreiðarinnar.

      Stefndi byggir á því að hann hafi sinnt upplýsinga- og tilkynningarskyldu sinni í samræmi við ákvæði laga nr. 30/2004. Við töku vátryggingarinnar hafi stefndi sinnt öllum þeim skyldum sem mælt er fyrir um í ákvæðum XI. kafla laga nr. 30/2004, um vátryggingarsamninga. Í því sambandi veitti stefndi stefnanda upplýsingar um gildistíma vátryggingarsamningsins, skilmála, iðgjöld og takmarkanir á gildissviði vátryggingarinnar, sbr. ákvæði 64. gr. laganna. Stefnandi hafi ekki lagt fram nein gögn sem veiti vísbendingar um að umrædd upplýsingaskylda hafi verið vanrækt. Stefndi mótmælir fullyrðingum stefnanda, um að hún hafi ekki verið upplýst sérstaklega um takmarkanir á tryggingunni, sem röngum og í öllu falli sem ósönnuðum. Engin skylda hafi hvílt á stefnda að fá undirritun stefnanda á tryggingarskilmálana. Þá mótmælir stefndi því að tilkynningarskylda samkvæmt 94. gr. laga nr. 30/2004 eigi við í málinu, en greinin fjalli um tilkynningu á ábyrgðartakmörkunum sem rakin eru í XIII. kafla laganna. En jafnvel þótt umrætt ákvæði yrði talið eiga við í tilviki stefnda, þá byggir hann á því að hann hafi sent stefnanda fullnægjandi tilkynningu með tölvupósti þann 13. febrúar 2014 þar sem kröfum stefnanda er hafnað og meðal annars vísað til undanþágunnar í 19. gr. skilmála vátryggingarinnar.

                Vátryggingarskírteini tryggingarinnar tilgreini að um vátrygginguna gildi annars vegar skírteinið sjálft og hins vegar vátryggingaskilmálar stefnda. Vátryggingarskírteinið geti þar af leiðandi ekki staðið eitt og sér til grundvallar vátryggingunni eins og stefnandi ýi að í stefnu. Stefnda sé þannig heimilt að takmarka gildissvið eða fjárhæðir sem fram koma á vátryggingarskírteini og vísa þar til þeirra skilmála sem gilda um vátrygginguna. Vísast um það meðal annars til ákvæðis 10. gr. laga nr. 30/2004, um vátryggingarsamninga.

Stefndi mótmælir því sem röngu og ósönnuðu að stefnandi eigi rétt á umkröfðum bótum með vísan til grundvallarreglna vátryggingaréttar, eins og stefnandi haldi fram. Auk þess mótmælir stefndi, sem rangri, tilvísun stefnanda til meginreglu 3. mgr. 35. gr. laga um vátryggingarsamninga og telur að krafa stefnanda verði ekki byggð á slíku ákvæði sem fjallar um útreikning bóta og vátryggingarverðmæti.

                Stefndi mótmælir sem röngu og ósönnuðu að ákvæði 36. gr. b í samningalögum verði beitt um það álitaefni sem uppi sé í málinu. Skilmálar tryggingarinnar séu skýrir og ekki vafi uppi um túlkun þeirra. Auk þess beri að lesa og skýra skilmála tryggingarinnar heildstætt án þess að slíta þá úr samhengi.

                Forsendur og niðurstaða

                Í máli þessu er deilt um það hvort stefnandi eigi rétt til dánarbóta vegna andláts sonar hennar á grundvelli frístímaslysatryggingar sem hún keypti hjá stefnda og var í gildi á þeim tíma þegar sonur hennar varð fyrir slysi og lést.

                Kjarni og raunar eini ágreiningur þessa máls lýtur að því hvort ákvæði 2. mgr. 19. gr. vátryggingarskilmála tryggingar stefnanda hjá stefnda fái staðist. Í umræddri grein skilmálanna er bótasvið tryggingarinnar skilgreint. Þar segir m.a. í 1. mgr. að félagið greiði bætur vegna slyss sem vátryggður verði fyrir í frítíma enda leiði það til dauða, varanlegrar læknisfræðilegrar örorku, tímabundins missis starfsorku o.fl. Þá er í 2. mgr. 19. gr. skilgreint hvað átt er við með slysi og getið um takmarkanir á gildissviði tryggingarinnar. Um þá takmörkun sem hér er deilt um segir: „Vátryggingin nær ekki til slyss sem vátryggður verður fyrir af völdum skráningarskylds vélknúins ökutækis á Íslandi, né slyss af völdum vélknúins ökutækis sem skráð er erlendis þar sem lögboðið er að vátryggja vegna líkra slysa.“

                Óumdeilt er í málinu að sonur stefnanda lést í umferðarslysi hér á landi. Samkvæmt orðanna hljóðan fellur því sá atburður undir framangreinda takmörkun á ábyrgð stefnda sem kemur fram í 2. mgr. 19. gr. Er því hafnað þeirri túlkun stefnanda á umræddum skilmálum að þessi takmörkun komi eingöngu til skoðunar í þeim tilvikum þegar tjónþoli fái umkrafðar bætur úr lögboðinni ábyrgðartryggingu bifreiða. Styðst sú túlkun hvorki við orðalag skilmálanna sjálfra, sem að mati dómsins er skýrt og ótvírætt, né önnur viðhlítandi gögn.

                Stefnandi byggir á því að stefnda sé óheimilt að bera fyrir sig umdeilt ákvæði 19. gr. skilmálanna. Byggir hann í fyrsta lagi á því að ákvæðið fari í bága við ófrávíkjanleg ákvæði II. kafla laga nr. 30/2004, um vátryggingarsamninga, sbr. 63. gr. þeirra. Af málflutningi stefnanda verður helst ráðið að sérstaka lagaheimild þurfi til að heimila þann fyrirvara sem er að finna í 19. gr. skilmála stefnda. Á það fellst dómurinn ekki. Í þessu sambandi ber að leggja til grundvallar að í lögum um vátryggingasamninga er almennt ekki fjallað um umfang vátryggingar. Því gildir sú almenna regla samningaréttar að aðilar hafi heimild til að semja um það atriði. Þá er því jafnframt hafnað að tilvísun stefnanda til 87. gr. laganna eigi við í málinu þegar af þeirri ástæðu að umdeilt ákvæði í skilmálum stefnda lýtur ekki að almennum takmörkunum á bótaskyldu vegna þátttöku vátryggingartaka í hættulegri starfsemi, svo sem efni greinarinnar lýtur að. Af sömu ástæðu er því hafnað að stefnda beri að sanna að stefnandi hafi fyrirgert rétti sínum til bóta með þátttöku í slíkri starfsemi og jafnframt að stefnda hafi borið, með vísan til 94. gr. laga nr. 30/2004, að tilkynna stefnanda að hann hygðist bera fyrir sig fyrirvara af þessu tagi..

                Með vísan til framangreinds er það niðurstaða dómsins að umdeilt ákvæði í skilmálum stefnda feli í sér afmörkun á gildissviði tryggingarinnar og slíkt samningsákvæði sé ekki í andstöðu við ákvæði laga nr. 30/2004, um vátryggingarsamninga. Þá er orðalag 19. gr. skýrt og ótvírætt og koma því ekki til álita í málinu þau sjónarmið og lagaákvæði sem lúta að túlkun óskýrra samningsákvæða.

                Í öðru lagi byggir stefnandi á því að stefndi geti ekki borðið fyrir sig umdeilt ákvæði skilmálanna þar sem stefndi hafi ekki upplýst umsækjanda sérstaklega um þessar takmarkanir á tryggingunni, þær komi ekki fram á vátryggingarskírteininu og stefnandi hafi aldrei undirritað skilmálana. Í stefnu vísar stefnandi til 94. gr. laga nr. 30/2004 til stuðnings þessari málsástæðu en við munnlegan flutning málsins vísaði hann til 70. gr. sömu laga.

                Hvað fyrra lagaákvæðið varðar hefur að framan verið tekin afstaða til þess að tilkynningarskylda samkvæmt því ákvæði á ekki við í málinu. Í 70. gr. er kveðið á um það að þegar samningur um persónutryggingu hefur verið gerður skuli tryggingafélag afhenda vátryggingartaka skírteini til staðfestingar á því að samningur sé kominn á og vísa til skilmála, auk þess sem afhenda skal skilmálana sjálfa. Þá er í 2. mgr. kveðið á um það hvað koma skuli fram í vátryggingarskírteini.

                Ekki verður séð að ágreiningur sé um það að stefnandi fékk vátryggingarskírteinið í hendur og jafnframt að í því sé vísað til skilmála tryggingarinnar. Fallist er á það með stefnda að nægjanlegt sé, til að skyldum samkvæmt 70. gr. sé fullnægt, að vísa til skilmála tryggingarinnar í skírteininu og árétta við tryggingartaka að kynna sér efni þeirra enda séu þeir afhentir með skírteininu eða gerðir aðgengilegir með öðrum hætti. Það er því ekki þörf á því að tryggingartaki undirriti skilmálana sjálfa til að þeir teljist hluti samnings aðila. Stefnandi hefur ekki útskýrt nánar eða leitt líkur að því, svo sem með framlagningu gagna eða vitnisburðar fyrir dómi, að stefndi hafi ekki sinnt þeirri skyldu sinni að láta stefnanda í té skilmála tryggingarinnar eða með öðrum hætti brotið gegn skyldum sínum samkvæmt nefndu ákvæði. Gegn staðhæfingu stefnda er því ósannað að hann hafi brotið gegn upplýsingaskyldu sinni samkvæmt ákvæðinu. Þegar af þeirri ástæðu getur stefnandi ekki reist kröfu sína á þeirri málsástæðu að vanræksla stefnda á því að veita henni fullnægjandi upplýsingar veiti henni rétt til umkrafinna bóta.

                Með vísan til þess rökstuðnings sem að framan er rakið verður stefndi sýknaður af öllum kröfum stefnanda. Með hliðsjón af atvikum máls og stöðu aðila er rétt að málskostnaður falli niður. Stefnandi nýtur gjafsóknar samkvæmt gjafsóknarleyfi dagsettu 17. mars 2015. Allur gjafsóknarkostnaður hennar greiðist því úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar, Steingríms Þormóðssonar hrl., sem er hæfilega ákveðinn 820.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

                Mál þetta flutti Sveinbjörn Guðlaugsson hdl. fyrir stefnanda og Ingvi Snær Einarsson hdl. fyrir stefnda.

                Ingibjörg Þorsteinsdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn.

Dómsorð:

                Stefndi, Sjóvá-Almennar tryggingar hf., eru sýkn af kröfu stefnanda, Emmu Agnetu Björgvinsdóttur. Málskostnaður fellur niður. Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar, Steingríms Þormóðssonar hrl., 820.000 krónur.