Hæstiréttur íslands
Mál nr. 219/2011
Lykilorð
- Kærumál
- Kröfulýsing
- Fjármálafyrirtæki
|
|
Þriðjudaginn 24. maí 2011. |
|
Nr. 219/2011. |
Reykjanesbær (Jón G. Briem hrl.) gegn Landsbanka Íslands hf. (Pétur Örn Sverrisson hrl.) |
Kærumál. Kröfulýsing. Fjármálafyrirtæki.
R kærði úrskurð héraðsdóms þar sem kröfu sem hann hafði lýst við slit L hf. var hafnað. Málið átti rætur að rekja til samnings sem R gerði við L hf. um eignastýringu. Við fall L hf. var stærstur hluti eignasafns R í Peningabréfum Landsbankans ISK, og fékk R greidd 68,8% af virði eignar sinnar. Í málinu hélt R því fram að hann hefði gefið fyrirmæli til L hf. um innlausn á fjármunum sínum með tölvupósti fjármálastjóra R 30. september 2008 en það hefði ekki verið gert. Í úrskurði héraðsdóms var ekki fallist á að í tölvupóstinum hefðu falist fyrirmæli R um innlausn á fjármunum hans. Þá var ákvörðun stjórnar LV hf. fyrir opnun markaða 6. október 2008, um að loka fyrir viðskipti með hlutdeildarskírteini í peningamarkaðssjóðum félagsins, talin hafa verið í samræmi við reglur sjóðsins og lög nr. 30/2003 um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði. Eftir slit sjóðsins og fullnaðargreiðslu ætti R ekki rétt til frekari greiðslu frá LV hf. Þá ætti hann ekki heldur neina slíka kröfu á hendur L hf. enda hefði virði eignar hans í umræddum peningamarkaðssjóði verið greitt honum að fullu við slit sjóðsins. Yrði ekki fallist á að L hf. hefði í vörslum sínum fé sem svaraði til mismunar á innlausnarvirði hlutdeildarskírteina R 6. október 2008 og þess sem greitt var við slit peningamarkaðssjóðsins. Enn síður væri uppi sú staða að slíkt fé væri sérgreint í vörslum L hf. í formi peninga. Engin skilyrði væru því til að fallast á að R gæti á grundvelli 1. mgr. 109. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. krafist afhendingar mismunarins frá L hf. í skjóli eignarréttar yfir peningum í vörslum hans. Þá var ekki heldur fallist á að krafa R nyti rétthæðar samkvæmt 112. gr. eða 113. gr. sömu laga. Í dómi Hæstaréttar kom fram að þegar litið væri til málatilbúnaðar R og framlagðra gagna af hans hálfu yrði ekki fallist á að hann hefði í þessu máli sýnt nægilega fram á að skaðabótaskylda L hf. hefði stofnast. Samkvæmt þessu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar var hann staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Viðar Már Matthíasson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 4. apríl 2011, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 11. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 24. mars 2011, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila að fjárhæð 227.093.512 krónur, sem hann lýsti við slit varnaraðila. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess aðallega að framangreindri kröfu hans verði raðað í réttindaröð samkvæmt 109. gr. laga nr. 21/1991 „sem sértökukröfu utan skuldaraðar“, til vara sem forgangskröfu „samkvæmt 1. og 2. mgr. 112. gr. sömu laga“ en að því frágengnu sem almennri kröfu samkvæmt 113. gr. laganna. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur og kærumálskostnaðar.
Skýra ber 1. mgr. 177. gr. laga nr. 21/1991 svo að sóknaraðila hafi verið heimilt að koma að varakröfum sínum í málinu, sbr. til hliðsjónar dóma Hæstaréttar 26. janúar 2011 í málunum nr. 672/2010 og 673/2010. Þegar litið er til málatilbúnaðar sóknaraðila og framlagðra gagna af hans hálfu verður ekki fallist á að hann hafi í þessu máli sýnt nægilega fram á að skaðabótaskylda varnaraðila hafi stofnast. Samkvæmt þessu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað, eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Reykjanesbær, greiði varnaraðila, Landsbanka Íslands hf., 200.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 24. mars 2011.
I.
Héraðsdómur Reykjavíkur skipaði varnaraðila slitastjórn 29. apríl 2009. Slitastjórnin gaf út innköllun til kröfuhafa og lauk kröfulýsingarfresti 30. október sama ár. Sóknaraðili, Reykjanesbær, Tjarnargötu 12, Reykjanesbæ, lýsti kröfu við slit varnaraðila, alls að fjárhæð 231.804.126 krónum, og var krafan færð á kröfuskrá og merkt nr. 1187. Kröfunni var lýst sem sértökukröfu, kröfu utan skuldaraðar, sbr. 109. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991, þar sem sóknaraðili hélt því fram að um væri að ræða sérgreinda eign Reykjanesbæjar í vörslu Landsbanka Íslands hf. Slitastjórn hafnaði kröfunni alfarið og mótmælti sóknaraðili þeirri afstöðu, en ágreiningur aðila varð ekki jafnaður. Í kjölfarið var ákveðið að vísa ágreiningnum til úrlausnar héraðsdóms samkvæmt 120. gr., sbr. 171. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl. Var málið þingfest 10. september 2010.
Samkvæmt greinargerð sinni krefst sóknaraðili þess að kröfu nr. 1187, samkvæmt kröfulýsingu hans frá 22. október 2009, verði raðað þannig í réttindaröð við slitameðferð varnaraðila:
- aðallega sem sértökukröfu, kröfu utan skuldaraðar, samkvæmt 109. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl.,
- til vara sem forgangskröfu samkvæmt 1. og 2. mgr. 112. gr. sömu laga, sbr. 1. og 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002, og
- til þrautavara sem almennri kröfu samkvæmt 113. gr. sömu laga.
Þá krefst hann greiðslu málskostnaðar úr hendi varnaraðila að skaðlausu, að mati dómsins.
Varnaraðili krefst þess að aðalkröfu sóknaraðila verði hafnað með öllu og að vara- og þrautavarakröfu hans verði vísað frá dómi. Til vara krefst hann þess að öllum kröfum sóknaraðila verði hafnað. Þá er krafist málskostnaðar úr hendi sóknaraðila að skaðlausu.
Málið var tekið til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi 8. mars sl.
II.
Málsatvik eru þau að 26. mars 2008 gerðu aðilar með sér samning um eignastýringu. Með samningnum tók Landsbanki Íslands hf. að sér að veita sóknaraðila ráðgjöf og þjónustu vegna viðskipta með fjármálagerninga, annast vörslu þeirra og eignastýringu. Í því fólst að varnaraðili tók við fjármunum frá sóknaraðila til fjárfestingar í fjármálagerningum fyrir eigin reikning sóknaraðila, stofnaði í því skyni sérstakan reikning á nafni sóknaraðila, vörslureikning, þar sem eign sóknaraðila í fjármálagerningum skyldi varðveitt.
Í 2. gr. samningsins segir að sú eignastýring sem bankinn taki að sér skuli vera í samræmi við þá fjárfestingarstefnu sem viðskiptavinur samþykki skriflega á hverjum tíma, og skuli fjárfestingarstefnan teljast hluti samningsins, sem viðauki I. Með því veitti sóknaraðili varnaraðila heimild til að stýra fjármunum sínum innan þeirra frávika sem um gat í fjárfestingarstefnunni. Um leið gaf sóknaraðili varnaraðila umboð til þess að kaupa og selja fjármálagerninga í samræmi við fjárfestingarstefnuna, svo og til þess að gera hverjar þær ráðstafanir sem töldust nauðsynlegar og eðlilegar til þess að ná fram markmiðum samningsins. Í því fólst einnig að varnaraðili hafði heimild til þess að fela öðrum lögaðila að annast einstaka þætti samningsins, svo sem vörslu fjármuna, sbr. 4. gr. samningsins og viðauka II. Fram kemur í 6. gr. að fjármunum viðskiptavinar skuli haldið aðgreindum frá fjármunum Landsbanka Íslands hf. og fjármunum annarra viðskiptavina.
Fjármálastjóri sóknaraðila sendi svohljóðandi tölvupóst til varnaraðila 30. september 2008: „Í framhaldi af atburðum síðustu daga hér heima og erlendis, þá viljum við losa fjármagnið okkar úr fastri eignastýringu og hafa það lausara fyrir okkur. Hvernig gerum við slíkt?“ Í kjölfar þessa hafði starfsmaður varnaraðila símasamband við fjármálastjórann. Fjármálastjórinn ræddi einnig símleiðis við sama starfsmann 2. október 2010, og leitaði þá álits á því hvort rétt væri að losa um eignir sóknaraðila. Í hvorugt skiptið voru þó eignir innleystar af vörslureikningi sóknaraðila. Í gögnum málsins liggja fyrir endurrit af símasamtölunum. Með tölvupósti til varnaraðila 6. október 2008 kl. 08:12 óskaði fjármálastjórinn eftir því að allt fjármagn sóknaraðila yrði losað úr ávöxtun og lagt inn á tiltekinn reikning. Starfsmaður varnaraðila svaraði tölvupóstinum kl. 17:15 sama dag og greindi frá því að ekki hefði verið unnt að innleysa peningabréfin þar sem lokað hefði verið fyrir viðskipti þann dag. Tilkynnti starfsmaðurinn að bréfin yrðu innleyst um leið og möguleiki væri á því.
Meðal gagna málsins er fundargerð stjórnar Landsvaka hf. 6. október 2008, en Landsvaki hf. var dótturfélag Landsbanka Íslands hf. og rekstrarfélag fjárfestingarsjóðsins Peningabréf Landsbankans ISK. Á fundinum var tekin sú ákvörðun að loka fyrir viðskipti með hlutdeildarskírteini í öllum peningamarkaðssjóðum Landsvaka hf. í því skyni að tryggja hagsmuni og jafnræði hlutdeildarskírteinishafa. Fjármálaeftirlitinu var tilkynnt um ákvörðunina með tölvupósti sama dag. Tilkynning um ákvörðunina birtist einnig á ytri vef varnaraðila. Engar innlausnir í peningabréfum munu hafa átt sér stað eftir lokun viðskipta föstudaginn 3. október 2008.
Af framlögðum yfirlitum yfir hreyfingar og stöðu eigna sóknaraðila á vörslureikningi hjá varnaraðila má sjá að langstærsta einstaka eign sóknaraðila var Peningabréf Landsbankans ISK og var vægi hennar vel yfir 90% af heildareign sóknaraðila. Samkvæmt eignayfirliti 6. október 2008 nam virði eignar sóknaraðila í Peningabréfum Landsbankans ISK 600.043.925 krónum. Í kjölfar tilmæla frá Fjármálaeftirlitinu og ákvörðunar stjórnar Landsvaka hf. var fjárfestingarsjóðnum slitið 28. október 2008 og sjóðfélögum greiddar út eignir sínar í formi peninga. Útgreiðsluhlutfall til hvers og eins var 68,8%, miðað við síðasta skráða gengi, og var tekið fram að um fullnaðaruppgjör væri að ræða. Samkvæmt því voru sóknaraðila greiddar 412.540.921 króna. Heldur sóknaraðili því fram að enn séu ógreiddar eftirstöðvar eignar hans, miðað við gengi peningabréfa 3. október 2008, samtals 187.503.013 krónur.
Í greinargerð sóknaraðila kemur fram að hann hafi í kröfulýsingu til slitastjórnar varnaraðila einnig krafist greiðslu eftirstöðva markaðsbréfa, sem voru hluti af eignasafni hans í eignastýringu. Sá hluti kröfunnar hefur verið skilinn frá máli þessu og er krafa hans því alls að fjárhæð 227.093.512 krónur, sem hann sundurliðar þannig:
|
Höfuðstóll m.v. 6. október 2008 |
kr. 600.043.925 |
|
Innborgun 4. nóvember 2008 |
kr. -412.540.921 |
|
Eftirstöðvar höfuðstóls m.v. 6. október 2008 |
kr. 187.503.103 |
|
Dráttarvextir til 4. nóvember 2008 |
kr. 13.284.785 |
|
Dráttarvextir til 22. apríl 2009 |
kr. 26.305.714 |
|
Alls |
kr. 227.093.512 |
Við upphaf aðalmeðferðar gáfu skýrslu fyrir dóminum vitnin Þórey I. Guðmundsdóttir, fjármálastjóri sóknaraðila, og Birgir Guðfinnsson, fyrrverandi starfsmaður varnaraðila.
Þórey I. Guðmundsdóttir var sérstaklega spurð um tölvupóst hennar til varnaraðila frá 30. september 2008. Sagði hún að tilefni hans hefðu verið áhyggjur hennar af eignasafni bæjarins hjá varnaraðila, sérstaklega í ljósi atburða síðustu daga. Því hefði hún viljað fá upplýsingar um hvernig hún gæti losað fjármagnið úr fastri eignastýringu, þannig að það yrði lausara til ráðstöfunar fyrir bæjarsjóð. Í kjölfar tölvupóstsins hefði starfsmaður varnaraðila, Birgir Guðfinnsson, hringt í hana og fullvissað hana um að engin áhætta fælist í því að halda fjármunum áfram í eignastýringu. Því hefði ekkert orðið af því að hún innleysti eignirnar. Ekkert hefði heldur orðið af innlausn í framhaldi af símtali hennar við Birgi 2. október 2008. Hefði hann þá einnig sannfært hana um að fjármunir bæjarins væru vel tryggðir hjá varnaraðila.
Í máli Birgis Guðfinnssonar kom fram að hann hefði hringt í Þóreyju 30. september 2008 til þess að leiðrétta þann misskilning að fjármunir bæjarins væru í fastri eignastýringu. Þvert á móti hefðu þeir verið lausir til ráðstöfunar og hefði hann bent Þóreyju á að hún gæti hvenær sem er losað um eignirnar. Hafi hann aldrei haldið aftur af henni að innleysa fjármunina, hefði hún kosið slíkt. Aðspurður sagðist Birgir ekkert hafa vitað um slæma stöðu sjóða Landsvaka hf. á þessum tíma, enda hefði hann ekki starfað hjá Landsvaka hf. Þá sagðist hann aldrei hafa fengið fyrirmæli frá yfirmönnum sínum um að halda viðskiptavinum áfram í sjóðnum. Tók hann fram að hann hefði sjálfur trúað því allt til síðasta dags að sjóðirnir stæðu vel og að eignir sjóðsins væru traustar.
III.
Sóknaraðili byggir á því að viðsemjandi hans hafi verið Landsbanki Íslands hf., varnaraðili í máli þessu. Því mótmæli hann öllum málsástæðum varnaraðila, sem byggi á einn eða annan hátt á því að Landsbanki Íslands hf. hafi ekki verið viðsemjandi hans, eða að eign sóknaraðila hafi verið í vörslu annars aðila. Þó svo að varnaraðili hafi falið öðru þar til bæru fjármálafyrirtæki vörslu eignar sóknaraðila, beri varnaraðili engu að síður fulla og ótakmarkaða ábyrgð gagnvart sóknaraðila á grundvelli laga um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði nr. 30/2003.
Til stuðnings aðalkröfu sinni, um að krafa hans að fjárhæð 227.093.512 krónur eigi að njóta rétthæðar samkvæmt 109. gr. laga nr. 21/1991 við slit varnaraðila, kveðst sóknaraðili vísa til rökstuðnings í greinargerð sinni til slitastjórnar varnaraðila 16. mars 2010, svo og til kröfulýsingar sinnar frá 22. október 2009. Þar komi fram að með tölvupósti fjármálastjóra sóknaraðila 30. september 2008 hafi verið óskað eftir því að allar eignir sóknaraðila yrðu teknar úr fastri eignastýringu og lagðar inn á innlánsreikninga bæjarins. Það hafi síðan verið ítrekað með tölvupósti 6. október 2008 kl. 8:12. Með bréfi lögmanns sóknaraðila frá 25. nóvember 2008 til skilanefndar Landsbanka Íslands hf., NBI hf., og Landsvaka hf., hafi þess verið krafist að staðið yrði við skuldbindingar bankans gagnvart sóknaraðila. Beiðni þessari hafi enn ekki verið sinnt af hálfu varnaraðila og því telji sóknaraðili að hér sé um sérgreinda eign hans að ræða í skilningi 109. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., og búi varnaraðila algjörlega óviðkomandi. Þá liggi fyrir samningur um eignastýringu á milli varnaraðila og sóknaraðila. Í þeim samningi taki varnaraðili að sér að veita sóknaraðila ráðgjöf vegna viðskipta með fjármálagerninga fyrir eigin reikning sóknaraðila, annast vörslu þeirra og eignastýringu. Samkvæmt því hafi varnaraðila verið falið að hafa umsýslu með eign Reykjanesbæjar og halda þeirri eign aðgreindri frá fjármunum varnaraðila og annarra viðskiptavina bankans, sbr. 6. gr. samningsins. Allur samningurinn gefi í skyn að um sérgreinda eign viðskiptavinarins sé að ræða. Í 15. gr. samningsins sé einnig staðfest að viðskiptavinurinn sé réttur eigandi þeirra eigna sem afhentar voru til eiginfjárstýringar og lagðar inn á reikning viðskiptavinarins hjá bankanum í samræmi við samning aðila. Sé því alveg ljóst að hér sé um sérgreinda eign að ræða í skilningi 1. mgr. 109. gr. laga nr. 21/1991, sem sóknaraðili eigi rétt á að fá afhenta sér.
Sóknaraðili bendir á að samkvæmt 1. mgr. 109. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., þurfi tvö skilyrði að vera fyrir hendi til þess að hægt sé að fallast á kröfu hans. Í fyrsta lagi þurfi sóknaraðili að sýna fram á að hann sé eigandi þeirrar eignar sem hann krefji varnaraðila um. Telur hann óumdeilt að svo sé. Í öðru lagi þurfi eignin að vera sérgreind í vörslum varnaraðila. Heldur sóknaraðili því fram að því skilyrði sé einnig fullnægt og bendir í því sambandi á 1., 6. og 15. gr. samnings aðila um eignastýringu, sem og samninginn í heild, en þar komi skýrt fram að fjárhæðin skuli vera sérgreind í vörslum varnaraðila. Varðandi þá skyldu varnaraðila, að halda eign sóknaraðila aðgreindri frá eigin fjármunum, vísar hann einnig til 11. og 12. gr. laga. nr. 108/2007, um verðbréfaviðskipti.
Varakrafa sóknaraðila, um að krafa hans njóti rétthæðar samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., byggist að hluta til á sömu sjónarmiðum og til stuðnings aðalkröfu hans, þ.e. að varnaraðili hafi ekki farið að fyrirmælum um innlausn á peningabréfum í vörslum varnaraðila. Þar sem fyrirmæli þessa efnis hafi verið send á formlega réttan hátt til varnaraðila snemma morguns 6. október 2008, er á því byggt að þau fyrirmæli jafngildi ákvöð frá þeim tíma, og að eignsafn sóknaraðila hafi þá breyst úr því að vera safn fjármálagerninga yfir í að vera innstæða í bankanum. Sóknaraðili hafi því ekki þurft að sæta því að bíða eftir að starfsmaður varnaraðila sinnti hinni formlegu afgreiðslu fyrirmælanna.
Verði ekki fallist á ofangreind rök, byggir sóknaraðili einnig á því að fyrirmæli um innlausn peningabréfanna 6. október 2008 hafi verið skýr og hafi starfsmanni bankans borið að framfylgja þeim án tafar. Honum hafi líka mátt vera ljóst mikilvægi þess að afgreiða erindið fljótt, meðal annars með tilliti til ástandsins á fjármálamörkuðum og orða í tölvupósti sóknaraðila frá 30. september 2008. Telur sóknaraðili að annað hvort megi fella það undir ásetning eða stórfellt gáleysi af starfsmanni varnaraðila að sinna ekki fyrirmælunum strax, og beri varnaraðili ábyrgð á því sem vinnuveitandi hans. Vanrækslan sé brot á 18. og 19. grein laga nr. 108/2007, um verðbréfaviðskipti, sem geymi fyrirmæli um hvernig beri að sinna viðskiptafyrirmælum á þessu sviði. Einnig sé vanrækslan brot á samningi aðila í heild, sem leitt hafi til tjóns fyrir sóknaraðila. Þannig hafi eign sóknaraðila, 600.043.925 krónur, sem átti að standa inni á bankareikningi hans samkvæmt fyrirmælunum, ekki staðið þar, en hafi þess í stað verið bundin í fjármálagerningum sem verðféllu verulega þangað til andvirði þeirra var greitt út. Telur sóknaraðili sig eiga skaðabótakröfu á hendur varnaraðila vegna tjónsins. Taki hún ekki aðeins til fjárhæðarinnar sem tapaðist, 227.093.512 króna, heldur einnig til stöðu hennar sem innstæðu samkvæmt 112. gr. gjaldþrotalaga nr. 21/1991, þar sem ella fáist ekki fullar bætur. Fái þessi niðurstaða stuðning í dómi Hæstaréttar frá 1988, bls. 358.
Sem frekari röksemd fyrir bótaábyrgð varnaraðila byggir sóknaraðili á því að fjárfestingar peningamarkaðssjóðsins hafi verið í ósamræmi við kunngerða fjárfestingarstefnu hans, skort hafi á að skýr skil væru milli hagsmuna Landsvaka hf. og varnaraðila og hafi varnaraðili vanrækt að gæta hagsmuna sóknaraðila, sem og annarra eigenda peningabréfa varnaraðila. Um þetta megi vísa til laga nr. 30/2003, um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði, sérstaklega 19. og 62. gr. þeirra laga.
Að því er þrautavarakröfuna varðar kveðst sóknaraðili eingöngu setja hana fram til þess að fá endanlega ákvörðun um hvar kröfunni skuli skipað í réttindaröð, fari svo að dómurinn fallist hvorki á aðalkröfu né varakröfu hans. Til stuðnings kröfunni er vísað til röksemda fyrir aðal- og varakröfu, svo sem við á. Einnig telur sóknaraðili að þau samningsbrot varnaraðila, sem hann lýsir hér að framan, séu grundvöllur bótaskyldu hans gagnvart sóknaraðila og að sú ákvörðun varnaraðila að fylgja ekki eftir þeirri fjárfestingarstefnu sem ákveðin hafi verið við upphaf samnings aðila, hafi valdið sóknaraðila því tjóni sem liggi fyrir. Ljóst sé að varnaraðili hafi ekki sinnt þjónustu sinni í samræmi við samning aðila og ekki í samræmi við 19. gr. laga um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði nr. 30/2003. Hafi varnaraðili borið ábyrgð á því að upplýsa sóknaraðila um raunverulega stöðu peningamarkaðssjóða hans, þannig að sóknaraðila gæfist tækifæri til að taka upplýsta ákvörðun um að draga úr eða bæta í fjárfestingu sína hjá varnaraðila. Með því að fara í bága við skýran samning aðila og leyna raunverulegri stöðu sjóðsins hafi varnaraðili valdið sóknaraðila gífurlegu fjárhagslegu tjóni.
Um lagarök vísar sóknaraðili til laga um gjaldþrotaskipti nr. 21/1991, sérstaklega 109., 112. og 113. gr. þeirra. Þá er vísað til meginreglna samningaréttarins og kröfuréttarins um skuldbindingargildi samninga og meginreglna skaðabótaréttarins um bótaskyldu vegna ólögmætra samningsbrota. Einnig vísast til laga um verðbréfaviðskipti nr. 108/2007, sérstaklega 18. og 19. greinar, og laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002, svo og til laga 30/2003, um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði. Málskostnaðarkrafan er reist á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.
IV.
Varnaraðili hafnar því alfarið að uppfyllt séu skilyrði 109. gr. laga nr. 21/1991 til þess að verða við aðalkröfu sóknaraðila um afhendingu fjármuna utan skuldaraðar. Því til stuðnings bendir hann á að sem hlutdeildarskírteinishafi í Peningabréfum Landsbankans ISK hafi sóknaraðili einungis átt kröfu á hendur peningamarkaðssjóði samkvæmt hlutdeild sinni í þeim sjóði, og hafi sú hlutdeild verið vistuð á vörslureikningi sóknaraðila hjá varnaraðila, allt í samræmi við samning aðila um eignastýringu. Hinn 28. október 2008 hafi sóknaraðili fengið greidd 68,8% af hlutdeild sinni í peningabréfum, líkt og allir aðrir sjóðfélagar, í kjölfar slita á sjóðnum, útgreiðslu til sjóðfélaga og afskráningar peningabréfanna í Kauphöll Íslands. Um fullnaðargreiðslu hafi verið að ræða. Því séu engir fjármunir sérgreindir í vörslum varnaraðila, og skilyrði til afhendingar fjármuna utan skuldaraðar þar af leiðandi ekki fyrir hendi. Varnaraðili leggur einnig áherslu á að sóknaraðili hafi aldrei átt kröfu á hendur varnaraðila á grundvelli hlutdeildar sinnar í peningabréfum, enda óumdeilt að innlausn á peningabréfum sóknaraðila hafi ekki átt sér stað. Gögn, er fylgdu kröfulýsingu sóknaraðila, styðji málstað varnaraðila, en á yfirliti sem fylgdi kröfulýsingu hans komi fram að 6. október 2008 hafi hann átt 600.043.925 krónur í Peningabréfum Landsbankans ISK, en við slit peningabréfasjóðsins 28. október 2008 hafi hann fengið greiddar 412.540.912 krónur. Sýni þessi gögn ótvírætt að innlausn hafi aldrei átt sér stað af hálfu varnaraðila, og því eigi sóknaraðili ekki sérgreinda eign í fórum varnaraðila í skilningi 109. gr. laga nr. 21/1991. Í þessu sambandi vísar varnaraðili einnig til samskipta sinna við sóknaraðila, sem sjá megi af gögnum málsins, en þar komi fram að starfsmaður sóknaraðila hafi aldrei látið í það skína að beiðni hans um innlausn á peningabréfum hafi verið virt að vettugi. Hins vegar hafi starfsmaður sóknaraðila með tölvupósti 6. október 2008 óskað innlausnar peningabréfanna. Fram til þess tíma hafi sóknaraðili því ekki gefið varnaraðila nein viðskiptafyrirmæli, sem virt höfðu verið að vettugi. Vísar varnaraðili hér einnig til þess að sami starfsmaður sóknaraðila hafði samband við starfsmann varnaraðila 2. október 2008, þar sem fram kom að hann hefði verið að velta því fyrir sér hvort æskilegt væri að innleysa peningabréfin. Samkvæmt samtalinu hafi það verið mat starfsmanns sóknaraðila að láta peningabréfin óhreyfð. Varnaraðili leggur jafnframt áherslu á að í 17. gr. eignastýringarsamnings aðila sé tekið fram að sóknaraðila sé ljós sú áhætta að fjárfesta í fjármálagerningum og að eignasafn hans geti rýrnað á samningstímanum.
Með vísan til ofanritaðs krefst varnaraðili þess að aðalkröfu sóknaraðila verði hafnað.
Varnaraðili bendir á að sóknaraðili hafi í kröfulýsingu sinni ekki lýst þeim kröfum sem hann geri nú sem vara- og þrautavarakröfu. Því hafi slitastjórn varnaraðila ekki fjallað um þær kröfur á fundi til jöfnunar ágreiningi samkvæmt 2. mgr. 120. gr. laga nr. 21/1991. Með bréfi slitastjórnar varnaraðila til héraðsdóms hafi því einungis verið leitað úrlausnar dómsins á þeim ágreiningi aðila hvort krafa sóknaraðila fullnægði skilyrðum 109. gr. laga nr. 21/1991. Af þeirri ástæðu krefjist varnaraðili þess að vara- og þrautavarakröfu sóknaraðila verði vísað frá dómi. Um leið bendir varnaraðili sérstaklega á að lögmannsstofan Réttur hafi fyrir hönd sinna umbjóðenda dregið mótmæli sín við kröfu sóknaraðila til baka, m.a. sökum þess að sóknaraðili lýsti ekki forgangskröfu samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991. Telji héraðsdómur hins vegar ekki efni til að fallast á frávísunarkröfu varnaraðila, eða hafna varakröfum sóknaraðila af ástæðum sem þegar hafi verið raktar, kveðst varnaraðili alfarið mótmæla málsástæðum sóknaraðila að baki þeim og telur þær bæði ósannaðar og órökstuddar. Þess í stað leggur hann áherslu á eftirfarandi:
Hann telur óumdeilt að innlausn á peningabréfum sóknaraðila hafi aldrei átt sér stað, eins og rakið sé hér að framan. Á grundvelli 2. mgr. 53. gr. laga nr. 30/2003 og reglna fyrir Peningabréf Landsbankans ISK hafi stjórn Landsvaka hf. hins vegar tekið ákvörðun um lokun fyrir viðskipti með peningabréfin fyrir opnun markaða 6. október 2008. Tilgreint ákvæði laga nr. 30/2003 byggi á því sjónarmiði að tryggja jafnræði hlutdeildarskírteinishafa, og telur sóknaraðili að skýra verði ákvæðið, sem og reglur fyrir Peningabréf Landsbankans ISK, á þá leið að frestun innlausna taki gildi um leið og fyrir liggi slík ákvörðun stjórnar rekstrarfélags. Mótmælir varnaraðili því að með þeirri ákvörðun hafi stofnast beinn kröfuréttur sóknaraðila á hendur varnaraðila, enda sé engin lagastoð fyrir slíku, né samningsbundinn réttur.
Sem hlutdeildarskírteinishafi í peningabréfum hafi sóknaraðili einungis átt kröfu á hendur peningamarkaðssjóði samkvæmt hlutdeild sinni í þeim sjóði, og hafi sú hlutdeild verið vistuð á vörslureikningi sóknaraðila hjá varnaraðila. Hinn 28. október 2008 hafi sóknaraðili fengið greidd 68,8% af hlutdeild sinni í Peningabréfum Landsbankans ISK, líkt og allir aðrir sjóðfélagar, í kjölfar slita á sjóðnum, útgreiðslu til sjóðfélaga og afskráningar í Kauphöll Íslands. Þar hafi verið um fullnaðargreiðslu að ræða. Sú krafa sem hér sé deilt um, þ.e. mismunur af þeirri fjárhæð sem sóknaraðili átti í peningabréfum og þess sem sóknaraðili fékk greitt út 28. október 2008, geti með engu móti talist innstæða í skilningi laga nr. 98/1999. Sóknaraðili hafi þannig hvorki fyrr né síðar átt kröfu á hendur varnaraðila á grundvelli framangreindrar hlutdeildar sinnar í peningabréfunum, og enn síður eigi hann innstæðukröfu á hendur varnaraðila, enda óumdeilt að innlausn peningabréfanna hafi ekki farið fram 6. október 2008.
Varnaraðili bendir einnig á að í samningi aðila um eignastýringu sé sérstaklega tekið fram í 11. gr. að varnaraðili beri ekki ábyrgð á tjóni sem sóknaraðili kunni að verða fyrir, nema slíkt leiði af vanefndum sem rekja megi til stórfellds gáleysis eða ásetnings af hálfu starfsmanna sóknaraðila. Sóknaraðili hafi þó ekki sýnt fram á slíkt. Í sama ákvæði komi einnig fram að varnaraðili beri ekki ábyrgð á tjóni sem stafi af óviðráðanlegum orsökum, til að mynda viðskiptabanni eða öðrum álíka tilvikum. Telur varnaraðili að jafna megi ákvörðun stjórnar Landsvaka hf., um frestun innlausna að morgni 6. október 2008, til óviðráðanlegra orsaka þess að ekki reyndist unnt að innleysa peningabréf sóknaraðila, eins og fyrirhugað hafði verið. Í þessu ljósi hafnar varnaraðili með öllu þeirri málsástæðu sóknaraðila að starfsmaður varnaraðila hafi sýnt af sér ásetning eða stórfellt gáleysi með því að sinna ekki fyrirmælum sóknaraðila. Að auki telur hann málsástæðu þessa ósannaða og órökstudda. Hinu sama gegni um þær staðhæfingar sóknaraðila að hann hafi óskað eftir því 30. september 2008 að andvirði peningabréfa sóknaraðila yrði lagt inn á innlánsreikning hjá varnaraðila, eða að fjárfestingar peningamarkaðssjóðsins hafi verið í ósamræmi við kunngerða fjárfestingarstefnu. Telur varnaraðili sérstaka ástæðu til að benda á að sóknaraðili hafi lýst því yfir í eignastýringarsamningi að honum hafi verið ljós sú áhætta að fjárfesta í fjármálagerningum, og að eignasafn hans gæti rýrnað á samningstímanum, sbr. 17. gr. samningsins. Loks bendir varnaraðili á að meint fjártjón sóknaraðila sé ósannað. Því hafni hann með öllu bótakröfu sóknaraðila.
Kröfum sínum til stuðnings kveðst varnaraðili vísa til laga nr. 30/2003, um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði, laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., laga nr. 108/2007, um verðbréfaviðskipti, og laga nr. 98/1999 um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta. Einnig vísar hann til reglna um peningabréf, stjórnvaldsfyrirmæla og ákvarðana Fjármálaeftirlitsins.
Málskostnaðarkrafan styðst við 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, sbr. og 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991.
V.
Eins og fram hefur komið á mál þetta rætur að rekja til samnings aðila um eignastýringu, en með þeim samningi tók varnaraðili við fjármunum frá sóknaraðila til fjárfestingar í fjármálagerningum, veitti sóknaraðila ráðgjöf og þjónustu vegna viðskipta með fjármálagerninga og annaðist vörslu þeirra og stýringu. Í þessu skyni stofnaði varnaraðili sérstakan vörslureikning á nafni sóknaraðila, þar sem eign sóknaraðila var varðveitt. Samkvæmt samningum skyldi eignastýringin vera í samræmi við fjárfestingarstefnu sem sóknaraðili ákvað á hverjum tíma og taldist hluti samningsins. Var varnaraðila heimilt að stýra fjármunum sóknaraðila innan þeirra frávika sem þar var getið. Með samningnum gaf sóknaraðili varnaraðila jafnframt umboð til þess að kaupa og selja fjármálagerninga í samræmi við fjárfestingarstefnuna. Tekið var fram að sóknaraðila væri ljós sú áhætta sem fælist í viðskiptum með fjármálagerninga og að eignasafn hans gæti rýrnað á samningstímanum.
Samkvæmt framlögðum eignayfirlitum var stærstur hluti eignasafns sóknaraðila í Peningabréfum Landsbankans ISK, fjárfestingarsjóði sem rekinn var af Landsvaka hf., dótturfélagi varnaraðila, og var sú eign, í formi hlutdeildarskírteina, varðveitt á vörslureikningi sóknaraðila hjá varnaraðila. Með því móti var fjármunum sóknaraðila haldið aðgreindum frá fjármunum varnaraðila og annarra viðskiptavina hans, allt í samræmi við fyrirmæli 6. gr. áðurnefnds samnings aðila og 11. gr. laga nr. 108/2007, um verðbréfaviðskipti. Af samningi aðila verður ekki annað ráðið en að fjárfesting varnaraðila í Peningabréfum Landsbankans ISK hafi bæði rúmast innan heimildar hans og fjárfestingarstefnu sóknaraðila, a.m.k. liggja hvorki fyrir gögn sem bent geta til annars, né verður séð að sóknaraðili hafi nokkurn tíma hreyft athugsemdum við samsetningu eignasafnsins á vörslureikningi sínum. Ekki liggja heldur fyrir gögn sem stutt geta þá staðhæfingu sóknaraðila að fjárfestingar umrædds fjárfestingarsjóðs hafi verið í ósamræmi við hans eigin fjárfestingarstefnu.
Ekki er fallist á þau rök sóknaraðila að í tölvupósti fjármálastjóra hans frá 30. september 2008 til varnaraðila hafi falist fyrirmæli um innlausn á fjármunum sóknaraðila. Þykir orðalag tölvupóstsins, endurrit símtala, framburður fjármálastjórans fyrir dómi og síðari samskipti fjármálastjórans við varnaraðila taka af öll tvímæli í þá veru. Óumdeilt er hins vegar að fjármálastjórinn óskaði eftir því að allt fjármagn sóknaraðila yrði losað úr eignastýringu árla morguns 6. október 2008, og að andvirðið yrði lagt á tiltekinn reikning sóknaraðila. Til þess kom þó ekki þar sem stjórn Landsvaka hf. hafði fyrir opnun markaða þann dag tekið ákvörðun um að loka fyrir viðskipti með hlutdeildarskírteini í peningamarkaðssjóðum félagsins, þ.á m. Peningabréfum Landsbankans ISK, í því skyni að tryggja hagsmuni og jafnræði hlutdeildarskírteinishafa. Var Fjármálaeftirlitinu þegar kynnt sú ákvörðun stjórnarinnar. Samhliða var tilkynnt um ákvörðunina á ytri vef varnaraðila.
Í reglum fyrir Peningabréf Landsbankans ISK, sem eru meðal ganga málsins, kemur fram að Landsvaki hf. skuli gefa út skilríki fyrir eignarréttindum að sjóðnum, í formi hlutdeildarskírteina, til þeirra sem fá sjóðnum fjármuni til ávöxtunar. Átti eigandi slíks skírteinis að njóta réttarstöðu lánardrottins gagnvart sjóðnum, og skyldu allir eigendur að sjóðnum eiga sama rétt til tekna og eigna sjóðsins í hlutfalli við eign sína, sbr. 2. mgr. 7. gr. reglna sjóðsins. Samkvæmt 9. gr. og 1. mgr. 10. gr. reglnanna var Landsvaka hf. skylt að leysa til sín hlutdeildarskírteini á svonefndu innlausnarvirði, sem reiknað yrði daglega, og átti að ráðast af markaðsvirði samanlagðra eigna sjóðsins á útreikningsdegi að frádregnum skuldum, „deilt niður á heildarfjölda útgefinna og óinnleystra hlutdeildarskírteina“. Viðskipti með hlutdeildarskírteini í Peningabréfum Landsbankans ISK skyldu fara fram samdægurs, bærist ósk um viðskipti fyrir kl. 16:00. Í 2. mgr. 10. gr. sömu reglna er tekið fram að Landsvaka hf. sé þó heimilt undir sérstökum kringumstæðum að fresta innlausn hlutdeildarskírteina. Skuli slík frestun vera almenn og taka til allra hlutdeildarskírteina, og henni einungis beitt mæli sérstakar ástæður og hagsmunir eigenda hlutdeildarskírteina með því. Í dæmaskyni er þar nefnd lokun kauphallar og ef sjóðurinn stendur frammi fyrir svo miklum kröfum um innlausn að ekki sé unnt að mæta þeim nema með sölu eigna, sem geti tekið einhvern tíma. Þá segir þar að komi til frestunar beri þegar að tilkynna slíkt til Fjármálaeftirlitsins og auglýsa hana opinberlega. Samkvæmt 13. gr. reglnanna tekur stjórn Landsvaka hf. ákvörðun um slit eða skipti á sjóðnum.
Ljóst er af ofansögðu að ákvörðun stjórnar Landsvaka hf. 6. október 2008, um að loka fyrir viðskipti með hlutdeildarskírteini í peningamarkaðssjóðum félagsins, var í samræmi við fyrirmæli umræddra reglna, sbr. og 2. mgr. 53. gr. laga nr. 30/2003, um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði. Tók ákvörðunin þegar gildi og gat sóknaraðili ekki vænst þess, fremur en aðrir sjóðfélagar, að brugðist yrði við beiðni hans um innlausn hlutdeildarskírteina frá þeim tíma. Í því sambandi er minnt á að varnaraðila bar engin skylda til að sinna slíku erindi strax. Að öllu óbreyttu bar honum hins vegar að gera það sama dag og beiðni barst.
Í kjölfar tilmæla Fjármálaeftirlitsins og ákvörðunar stjórnar Landsvaka hf. var Peningabréfum Landsbankans ISK slitið 28. október 2008 og sjóðfélögum greiddar út eignir sínar í formi peninga. Útgreiðsluhlutfall var 68,8%, miðað við síðasta skráða gengi hlutdeildarskírteina, og fékk sóknaraðili því greidda 412.540.921 krónu. Tekið var fram að um fullnaðaruppgjör væri að ræða. Eftir slit sjóðsins og fullnaðargreiðslu átti sóknaraðila því ekki rétt til frekari greiðslu frá Landsvaka hf. á grundvelli fyrrum eignar sinnar í formi hlutdeildarskírteina í Peningabréfum Landsbankans ISK. Af því leiðir að hann á heldur enga slíka kröfu á hendur varnaraðila, enda var virði eignar hans í umræddum peningamarkaðssjóði greitt honum að fullu við slit sjóðsins. Með þetta í huga verður með engu móti fallist á að varnaraðili hafi í sínum vörslum fé, sem svari til mismunar á innlausnarvirði hlutdeildarskírteina sóknaraðila 6. október 2008, og þess sem greitt var við slit peningamarkaðssjóðsins. Enn síður er sú staða uppi að slíkt fé sé sérgreint í vörslum varnaraðila í formi peninga sem sannanlega tilheyri sóknaraðila. Af þessari ástæðu eru engin skilyrði til að sóknaraðili geti á grundvelli 1. mgr. 109. gr. laga nr. 21/1991 krafist afhendingar mismunarins frá varnaraðila í skjóli eignarréttar yfir peningum í vörslum hans. Verður aðalkröfu hans því hafnað.
Í kröfulýsingu sinni til slitastjórnar varnaraðila lýsti sóknaraðili kröfu sinni aðeins sem kröfu utan skuldaraðar samkvæmt 1. mgr. 109. gr. laga nr. 21/1991, að fjárhæð 231.804.126 krónur. Slitastjórn hafnaði kröfunni og var sóknaraðila bréflega tilkynnt sú afstaða 16. febrúar 2010. Með bréfinu var jafnframt boðað til kröfuhafafundar 24. febrúar 2010. Tekið var fram að vildi kröfuhafi mótmæla afstöðu slitastjórnar til kröfu sinnar þyrftu þau mótmæli að berast eigi síðar en á boðuðum fundi. Að öðrum kosti mætti vænta þess að afstaða slitastjórnar teldist endanleg, sbr. 3. mgr. 120. gr. laga nr. 21/1991. Sóknaraðili mótmælti afstöðu slitastjórnar til kröfunnar á stöðluðu eyðublaði slitastjórnar 22. febrúar, og lutu mótmæli hans einungis að því að kröfunni væri hafnað. Fram kom þar að hann myndi skila greinargerð vegna mótmæla sinna. Í texta eyðublaðsins er tekið fram að óski kröfuhafi eftir því að rökstyðja mótmæli sín frekar, sé honum bent á að koma skriflegri greinargerð þess efnis til slitastjórnar.
Ekki reyndist unnt að jafna ágreining um viðurkenningu á kröfu sóknaraðila á boðuðum kröfuhafafundi 24. febrúar 2010 og skilaði sóknaraðili greinargerð til slitastjórnar, sem móttekin var 17. mars 2010. Ítrekaði sóknaraðili þar mótmæli sín og færði fram rök fyrir þeim. Í lok greinargerðarinnar tók hann fram að teldi slitastjórn að krafa hans nyti ekki rétthæðar samkvæmt 109. gr. laga nr. 21/1991, þá ætti að flokka hana í kröfuröð samkvæmt 112. gr. sömu laga, enda væri um innstæðu að ræða í skilningi laga um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, sbr. og 102. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki.
Með bréfi slitastjórnar 25. mars 2010 var sóknaraðili boðaður til nýs fundar, þar sem leitast skyldi við að jafna ágreining um kröfu hans. Af gögnum má sjá að til fundarins voru einnig boðaðir kröfuhafar sem áður höfðu mótmælt kröfu sóknaraðila. Fundurinn var haldinn 19. apríl 2010 og mætti lögmaður sóknaraðila til hans. Í fundargerð slitastjórnar er ekki vikið orði að greinargerð sóknaraðila frá 17. mars 2010, og er hún ekki nefnd í upptalningu þeirra gagna sem lágu frammi á fundinum. Af þeim sökum verður ekki séð að slitastjórn hafi nokkru sinni tekið til umfjöllunar síðbúin rök sóknaraðila um að krafa hans ætti að njóta rétthæðar sem forgangskrafa samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991, yrði ekki fallist á hana sem kröfu utan skuldaraðar. Í ljósi þessa er það mat dómsins að sóknaraðila hafi verið heimilt að gera þær varakröfur sem hann gerir í greinargerð sinni til dómsins, enda verður ekki við hann sakast þótt slitastjórn hafi ekki fjallað um þær kröfur á fundi sínum til jöfnunar ágreiningi, sbr. 2. mgr. 120. gr. laga nr. 21/1991. Verður því hafnað kröfu varnaraðila um að varakröfum sóknaraðila verði vísað frá dómi.
Til stuðnings varakröfu sóknaraðila, þess efnis að viðurkenna beri kröfu hans sem forgangskröfu samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991, virðist einkum á því byggt að varnaraðili hafi ekki sinnt skyldum sínum með því að fara ekki að fyrirmælum fjármálastjóra sóknaraðila um innlausn á peningabréfum, annars vegar 30. september 2008, en hins vegar að morgni 6. október 2008. Síðari fyrirmælin hafi jafngilt ákvöð, sem leitt hafi til þess að frá þeim tíma breyttist eignasafn sóknaraðila úr því að vera safn fjármálagerninga yfir í það að vera innstæða í bankanum. Að öðru leyti eru málsástæður hans óljósar, en helst má skilja þær þannig að sóknaraðili telji varnaraðila bera bótaábyrgð á tjóni sem sóknaraðili hafi orðið fyrir vegna vanrækslu starfsmanns varnaraðila. Svari fjárhæð tjónsins til þeirrar fjárhæðar sem tapaðist í viðskiptunum, 227.093.512 krónum, og eigi sóknaraðili tilkall til þeirrar fjárhæðar, sem innstæðu.
Hér að framan hefur verið komist að þeirri niðurstöðu að tölvupóstur frá fjármálastjóra sóknaraðila 30. september 2008 fól ekki í sér fyrirmæli um innlausn á peningabréfum hans. Ekki var hins vegar unnt að verða við fyrirmælum fjármálastjórans um innlausn 6. október 2008, þar sem sama dag var lokað fyrir viðskipti með hlutdeildarskírteini í peningamarkaðssjóðum Landsvaka hf. Varnaraðila var því bæði ómögulegt og óheimilt að verða við óskum sóknaraðila. Um leið er áréttað að varnaraðila bar aðeins skylda til að sinna fyrirmælum sóknaraðila samdægurs, en ekki tafarlaust. Með engu móti er því unnt að fallast á þau rök sóknaraðila að beiðni hans um innlausn hafi undir þessum kringumstæðum jafngilt ákvöð og að eignasafn hans hafi frá þeim tíma breyst úr því að vera safn fjármálagerninga yfir í það að vera innstæða í bankanum. Því síður verður á það fallist að starfsmaður varnaraðila hafi sýnt af sér ásetning eða stórfellt gáleysi með því að bregðast ekki við erindinu, eða á einhvern hátt sýnt af sér þá vanrækslu að færi í bága við 18. og 19. gr. laga um verðbréfaviðskipti nr. 108/2007. Með öllu er einnig haldlaus sú óljósa málsástæða að meint tjón sóknaraðila geti talist innstæða í skilningi laga um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta nr. 98/1999, sbr. og 102. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki. Loks lætur sóknaraðili þess ógetið hvernig meint skaðabótakrafa hans rúmast innan 112. gr. laga nr. 21/1991. Að þessu virtu verður varakröfu sóknaraðila því hafnað.
Skilja verður þrautavarakröfu sóknaraðila þannig að hún sé skaðabótakrafa vegna meintra samningsbrota varnaraðila. Dómurinn hefur áður komist að þeirri niðurstöðu að engin gögn styðji þá fullyrðingu sóknaraðila að varnaraðili hafi að einhverju leyti brotið í bága við skyldur sínar samkvæmt samningi aðila um eignastýringu eða fyrir fram kunngerðri fjárfestingarstefnu sóknaraðila. Jafnframt hefur því verið hafnað að starfsmaður varnaraðila hafi sýnt af sér ásetning eða stórfellt gáleysi með því að bregðast ekki við ósk sóknaraðila um tafarlausa innlausn peningabréfa að morgni 6. október 2008. Að öðru leyti hefur sóknaraðili ekki sýnt fram á að fyrir hendi séu önnur skilyrði til þess að bótaábyrgð verði felld á varnaraðila. Þegar af þeirri ástæðu verður þrautavarakröfunni hafnað.
Samkvæmt framanrituðu er niðurstaða dómsins sú að hafna beri öllum kröfum sóknaraðila í máli þessu. Með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, sbr. og 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., verður sóknaraðila gert að greiða varnaraðila málskostnað, sem ákveðst hæfilegur 450.000 krónur.
Ingimundur Einarsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Kröfu sóknaraðila, Reykjanesbæjar, alls að fjárhæð 227.093.512 krónur, sem hann lýsti við slit varnaraðila, Landsbanka Íslands hf., er hafnað.
Sóknaraðili greiði varnaraðila 450.000 krónur í málskostnað.