Hæstiréttur íslands
Mál nr. 252/2014
Lykilorð
- Kærumál
- Dómkvaðning matsmanns
- Aðfinnslur
|
|
Föstudaginn
2. maí 2014. |
|
Nr. 252/2014. |
Ákæruvaldið (Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari) gegn X og (Hólmgeir Elías Flosason hdl.) Y (Sveinn Guðmundsson hrl.) |
Kærumál.
Dómkvaðning matsmanns. Aðfinnslur.
Felldur var úr gildi úrskurður héraðsdóms, þar
sem dómkvaddir voru tveir yfirmatsmenn eftir kröfu X og Y í sakamáli ákæruvalds
hendur þeim, með skírskotun til þess að héraðsdómari hefði ekki farið að
meginreglu 2. mgr. 128. gr. laga nr. 88/2008 um að hafa frumkvæði að vali á
matsmönnum.
Dómur
Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur
Börkur Þorvaldsson, Benedikt Bogason og Helgi I. Jónsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar
með kæru 3. apríl 2014 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 11. sama mánaðar. Kærður er úrskurður
Héraðsdóms Suðurlands 1. apríl 2014, þar sem fallist var á kröfu varnaraðila um
að tveir nafngreindir menn yrðu dómkvaddir til að framkvæma yfirmat vegna nánar
tilgreindra atriða í tengslum við mál sóknaraðila á hendur varnaraðilum.
Kæruheimild er í o. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Sóknaraðili
krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir
héraðsdóm „að leita hæfra matsmanna að höfðu samráði við heilbrigðisyfirvöld
eða aðra sérfræðinga hér á landi.“
Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins
kærða úrskurðar.
Með úrskurði héraðsdóms 27. nóvember 2013
var fallist á kröfu varnaraðila um að dómkvaddir yrðu yfirmatsmenn til að svara
tilteknum spurningum vegna matsgerðar Þóru S. Steffensen réttarmeinafræðings 4.
mars 2013. Úrskurðinum var ekki skotið til Hæstaréttar.
Samkvæmt 2. mgr. 128. gr. laga nr. 88/2008
skulu aðilar kvaddir á dómþing þar sem matsbeiðni er tekin fyrir og skal dómari
greina þeim frá því hvern hann hafi í hyggju að kveðja til matsstarfa. Í
athugasemdum um ákvæðið í frumvarpi til fyrrgreindra laga kemur fram að vegna
þess að aðilar sakamáls hafi ekki forræði á sönnunarfærslu með sama hætti og
aðilar að einkamáli sé gengið út frá því að dómari greini málsaðilum frá því
hvern hann hafi í hyggju að kveðja til matsstarfa. Þótt aðilar kæmu sér saman
um hæfan mann til að taka að sér starfann yrði dómari ekki bundinn af slíku
sammæli, þó ekkert mæli á móti því að hann taki tillit til þess eða sjónarmiða
aðila að öðru leyti við val á matsmanni. Þrátt fyrir þetta sé aðilum heimilt að
mótmæla fyrirætlan dómara um að dómkveðja tiltekinn mann til matsstarfa og yrði
dómari, ef til þess kæmi, að leysa úr þvílíkum ágreiningi með úrskurði samkvæmt
133. gr. laganna.
Samkvæmt framansögðu er það meginregla laga
nr. 88/2008 að dómari hafi frumkvæði að vali á matsmanni. Af því leiðir að
eftir að héraðsdómari féllst á umrædda dómkvaðningu yfirmatsmanna 27. nóvember
2013 bar honum þegar í stað að hefjast handa við að velja menn til starfans. Af
gögnum málsins verður á hinn bóginn ráðið að ekkert hafi gerst í því efni fyrr
en eftir að verjendur komu upplýsingum á framfæri við héraðsdómara um að þeir
hefðu fundið nafngreinda menn á netinu sem þeir lögðu til að yrðu dómkvaddir.
Af hálfu sóknaraðila var tillögu verjenda um yfirmatsmenn andmælt með
tölvubréfi 30. janúar 2014 með þeim rökum að mennirnir væru ekki hæfir til
starfans og að óeðlilegt væri að verjendum væri gefið færi á að „handvelja
matsmenn.“ Þrátt fyrir andmælin aðhafðist héraðsdómari ekkert við að finna aðra
menn til starfans, heldur boðaði til þinghalds 19. mars 2014 þar sem tekin var
fyrir krafa varnaraðila um dómkvaðningu þeirra manna, sem verjendur höfðu bent
á eins og áður greinir.
Þar sem ekki var farið eftir fyrrgreindri
meginreglu laga nr. 88/2008 við dómkvaðningu yfirmatsmanna ber þegar af þeirri
ástæðu að fella hinn kærða úrskurð úr gildi og leggja fyrir héraðsdóm að
dómkveðja hæfa menn til starfans eins og nánar greinir í dómsorði.
Samkvæmt 1. mgr. 171. gr. laga nr. 88/2008
ber að hraða máli eftir föngum. Eins og áður greinir var umrætt yfirmat
heimilað með úrskurði 27. nóvember 2013. Verður að átelja þann drátt sem orðið
hefur á dómkvaðningu yfirmatsmanna.
Dómsorð:
Hinn kærði
úrskurður er felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að dómkveðja hæfa og óvilhalla menn til að framkvæma
yfirmat vegna matsgerðar Þóru S. Steffensen 4. mars 2013 og svara þeim
spurningum sem greinir í yfirmatsbeiðnum.
Úrskurður Héraðsdóms
Suðurlands 1. apríl 2014.
Mál
þetta, sem tekið var til úrskurðar vegna ágreinings um dómkvaðningu
yfirmatsmanna þann 19. mars sl., er höfðað með ákæru ríkissaksóknara dagsettri
30. maí 2013 á hendur ákærðu, X, kt. [...],
dvalarstaður fangelsið að Litla Hrauni og Y, kt. [...],
með sama dvalarstað,
„fyrir stórfellda líkamsárás, með því að hafa
fimmtudaginn 17. maí 2012 í fangaklefa nr. 42 í húsi nr. 3 í Fangelsinu á Litla
Hrauni, í sameiningu veist með ofbeldi að A og veitt honum högg á kvið með þeim
afleiðingum að rof koma á milta A og á bláæð frá miltanu sem leiddi hann til
dauða skömmu síðar sökum innvortis blæðinga.
Brot ákærðu telst varða við 2. mgr. 218. gr.
almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til
refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.“
Þann
17. maí 2012 kl. 19:53 var lögreglu tilkynnt að endurlífgun stæði yfir í
fangelsinu Litla Hrauni á fanganum A, en hann hefði komið í fangelsið daginn
áður og verið í mikilli fíkniefnaneyslu. Hann hafi verið fluttur í herbergi nr.
42 í húsi 3 um kl. 18:00 þennan dag og hafi fangi komið að honum þar sem A hafi
verið búinn að kasta upp og hafi korrað í honum. Stuttu síðar hafi endurlífgunartilraunir
fangavarða og síðar sjúkraflutningamanna hafist. Endurlífgun hafi ekki borið
árangur og hafi Sverrir Gauti Ríkharðsson úrskurðað A látinn kl. 19:55. Þann
22. maí sama ár hafði réttarmeinafræðingur samband við lögreglu og kvaðst hafa
komist að þeirri niðurstöðu að A hefði látist af völdum innvortis áverka sem
stafað hafi af sprungnu milta og rifinni æð og væri áverkinn talinn af völdum
þungs höggs. Eftir að upptökur úr eftirlitsmyndavélum höfðu verið skoðaðar
beindist grunur lögreglu að ákærðu í máli þessu, en þeir voru samfangar A
heitins, og voru þeir þann 24. maí sama ár úrskurðaðir í gæsluvarðhald til 13.
júní sama ár.
Meðal
rannsóknaraðgerða lögreglu var að fara fram á að dómkvaddir yrðu tveir
óvilhallir matsmenn til að framkvæma rannsókn á gögnum sem aflað hafði verið úr
öryggismyndavélum fangelsisins. Nánar tiltekið var þess óskað að lagt yrði mat
á eftirfarandi atriði:
1.
Hvort
sjá megi af upptökunum að hinum látna hafi eða hafi ekki verið ógnað. Hafi honum verið ógnað þá af hverjum og á
hvaða hátt.
2.
Hvort
sjá megi af upptökunum að hinn látni hafi eða hafi ekki upplifað ógn eða aðra
samsvarandi upplifun.
3.
Hvaða
hegðunarmynstur sýna aðrir fangar af sér á upptökunum á gangi 4 í húsi 3 fyrir
komu X og Y inn á ganginn.
4.
Hvaða
hegðunarmynstur sýna aðrir fangar af sér á upptökunum á gangi 4 í húsi 3 eftir
komu X og Y inn á ganginn.
5.
Er
hægt að lesa eitthvað úr hegðun X og Y eftir hið meinta brot af upptökunum.
6.
Hvað
sýnir/lýsir hegðun annarra fanga á upptökunum eftir hið meinta brot að mati
matsmanna.
Með
úrskurði dómsins þann 20. júní 2012 var fallist á að umbeðið mat færi fram og
þann 28. júní sama ár voru Gísli H. Guðjónsson, sérfræðingur í réttarsálfræði
og dr. Jón Friðrik Sigurðsson dómkvaddir til starfans. Matsgerð þeirra er
dagsett 10. október 2012 og er þar að finna svör við ofangreindum spurningum að
undanskilinni 4. spurningu.
Þann
12. júní 2012 var Þóra Steffensen réttarmeinafræðingur dómkvödd að kröfu
lögreglustjórans á Selfossi til að leggja mat á eftirfarandi:
1.
Hvers
konar áverki er það sem veldur því að milta springur ásamt því að áverkar verði
á nálægum æðum?
2.
Hvaða
krafta þarf til að miltað springi?
3.
Hvort
mögulegt sé að fall í fangaklefa hafi getað valdið áverkum þeim sem greinir í matsspurningum
1 og 2?
4.
Hvaða
kraftar eða utanaðkomandi þættir geta leitt til áverka þeirra er greinir í
matsspurningum 1 og 2?
5.
Hvort
aðstæður inni í fangaklefa A hafi getað leitt til þess að áverkinn hafi orðið
við fall?
6.
Er
eitthvað sem kemur fram við krufningu á líki A sem leiðir líkur að því að
miltað hafi sprungið af öðrum ástæðum? Svo sem lyf eða hugsanleg veikindi?
7.
Er
hægt að segja til um hvenær A hafi fengið áverka þá er greinir í matsspurningum
í 1 og 2 og leggja mat á það hversu fljótt áverkarnir drógu hann til dauða?
8.
Þekkir
matsmaður dæmi um það hvort mögulegt sé
að fall manns á hlut eins og þá sem voru í fangaklefanum umrætt sinn
kunni að valda áverkum eins og hinn látni hlaut?
9.
Hvort
niðurstöður krufningar geti sagt til um hvort áverkar hafi orðið af mannavöldum
eða falli?
Matsgerð
Þóru er dagsett 4. mars 2013 og er þar að finna svör við framangreindum
matsspurningum.
Mál
þetta var þingfest þann 11. júní sl. og neituðu ákærðu sök. Við fyrirtöku
málsins þann 10. júlí sl. lögðu verjendur ákærðu fram matsbeiðnir sem annars
vegar lutu að störfum sálfræðinganna Gísla H. Guðjónssonar prófessors og Jóns
Friðriks Sigurðssonar prófessors en þeir lögðu mat á framgöngu ákærðu sem sjá
mátti á myndböndum og hins vegar matsbeiðni sem laut að mati Þóru Steffensen
réttarmeinafræðings á mögulegri dánarorsök hins látna. Þá var óskað tiltekinnar
gagnaöflunar. Í þinghaldi þann 2. október sl. óskuðu verjendur bókað að
matsbeiðnir þær er þeir hefðu lagt fram í málinu væru allar yfirmatsbeiðnir. Í því
þinghaldi var af hálfu ákæruvaldsins fallist á að verjendur og sakborningar
fengju á einhvern hátt aðgang að þeim upptökum sem til væru í málinu og þá var
ekki lagst gegn þeirri ósk verjendanna að tiltekin vitni yrðu leidd fyrir
dóminn. Dómkvaðningu yfirmatsmanna var hins vegar mótmælt af hálfu
ákæruvaldsins og fór fram málflutningur um þann ágreining í sama þinghaldi.
Yfirmatsbeiðnir
verjenda vegna mats Þóru Steffensen voru samhljóða og er þess óskað að hinir
dómkvöddu matsmenn leggi mat sitt á spurningar og svör fyrra mats og að
sérstaklega verði lagt mat á og svarað eftirgreindum spurningum:
1.
Voru
sjáanlegir áverkar útvortis á líki A, og ef svo var ekki, hversu líklegt eða
ólíklegt sé að manni verði með höggi af mannavöldum veittir þeir áverkar sem um
ræðir í tilfelli hins látna, án sjáanlegra útvortis áverka?
2.
Var
leitað eftir efninu buprenorphine (Subutex) í blóði hins látna er hann lést? Ef já, hversu
mikið eða lítið var af efninu í blóði hins látna?
3.
Eru
uppköst, ógleði, svimi og/eða óstöðugleiki dæmi um þekktar aukaverkandi af
notkun efnisins buprenorphine (Subutex)?
4.
Af
efnagreiningu á blóði hins látna að dæma, fundust einhver efni (lyf,
lyfjaleifar eða annað) sem hafa sömu einkenni eða aukaverkanir og taldar eru í
matsspurningu nr. 3?
5.
Af
krufningu og/eða skoðun á líki að dæma, hversu langur tími leið líklegast frá
því að A hlaut áverka þar til hann lést?
6.
Af
krufningu og/eða skoðun á líki að dæma, hversu langur tími gæti mögulega
hafa liðið frá því að A hlaut áverka þar til hann lést?
7.
Voru
einhver efni í blóði hins látna sem gætu hafa orðið þess valdandi að honum
blæddi hraðar en ella?
8.
Er
útilokað að áverkar þeir sem drógu A til dauða séu til komnir vegna falls hans
í klefa, s.s. á gólf, rúmbrík, stól, borð, salerni eða hvaðeina annað sem
fyrirfinnst í klefa hans? Þessari spurningu óskast svarað miðað við þær
forsendur að hinn látni hafi staðið á gólfi, staðið á rúmi, staðið á stól eða
salerni, eða staðið á borði.
9.
Er
útilokað að áverkar þeir sem drógu A til dauða séu til komnir vegna
endurlífgunartilrauna, s.s. við hjartahnoð? Skal við svar spurningarinnar gera
ráð fyrir framkvæmd endurlífgunartilraunarinnar af faglærðum einstaklingi
annars vegar og ófaglærðum hins vegar.
10.
Af
krufningu og/eða skoðun á líkinu að dæma, er hægt að fullyrða að áverkar þeir
sem drógu hinn látna til dauða séu af
mannavöldum?
Verjendur
rökstuddu yfirmatsbeiðnina með þeim hætti að í ljósi þess hversu frábrugðin
niðurstaða Þóru Steffensen hafi verið miðað við krufningarskýrslu Reginu Preuss sé nauðsynlegt að
fá annað mat. Þá hafi engir matsfundir verið haldnir og sé mat Þóru því
meingallað að formi og efni. Telja verjendur að vegna þess hversu mál þetta er
viðkvæmt og ákærðu þekktir hér á landi sé nauðsynlegt að fá erlenda sérfræðinga
til verksins. Hafa verjendur lagt til að Dr. Jan-Peter
Sperhake og Dr. Klaus Püschel, prófessor, verði dómkvaddir til starfans. Með
úrskurði dómsins uppkveðnum þann 27. nóvember sl. var fallist á þá kröfu
verjenda ákærðu að dómkvaddir yrðu yfirmatsmenn til að svara þeim spurningum
sem greinir í yfirmatsbeiðnum vegna matsgerðar Þóru Steffensen
réttarmeinafræðings og vegna matsgerðar sálfræðinganna Gísla H. Guðjónssonar og
Jóns Friðriks Sigurðssonar. Þeim úrskurði var ekki skotið til Hæstaréttar
Íslands.
Í þinghaldi þann 19. mars sl. var tekinn til úrskurðar
ágreiningur aðila varðandi það hvaða yfirmatsmenn skyldi dómkveðja til að
leggja mat á skýrslu Þóru Steffensen en frestað var að leysa úr ágreiningi
vegna dómkvaðningar yfirmatsmanna vegna matsgerðar ofangreindra sálfræðinga.
Af
hálfu ákæruvalds er því mótmælt sérstaklega að erlendir sérfræðingar verði
fengnir til yfirmatsins og bent er á að það sé hlutverk dómsins að finna
óvilhalla menn til verksins. Ekki hefur af hálfu ákæruvalds verið bent á aðra
matsmenn sem teldust hæfari til starfans.
Niðurstaða.
Í
1. mgr. 52. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála er mælt fyrir um að
rannsókn sakamála sé í höndum lögreglu nema öðruvísi sé fyrir mælt í lögum.
Samkvæmt 86. gr. laganna getur lögregla leitað til sérfróðra manna þegar þörf
er á sérfræðilegri skoðun eða rannsókn til að upplýsa mál, s.s. læknisskoðun,
efnafræðilegri rannsókn, rithandarrannsókn eða bókhaldsrannsókn. Ef ástæða er
til getur lögregla eða ákærandi farið fram á að dómkvaddur verði matsmaður skv.
128. gr. laganna, en þannig háttaði einmitt til í þessu máli. Í 2. mgr. 127.
gr. laga nr. 88/2008 segir að dómari leggi sjálfur mat á atriði sem krefjast
almennrar þekkingar og menntunar eða lagaþekkingar. Í 1. mgr. 128. gr. er svo mælt fyrir um að ef
ekki verður farið svo að sem segir í 2. eða 3. mgr. 127. gr. kveður dómari einn
eða tvo matsmenn, ef honum þykir þörf á, til að framkvæma mat eftir skriflegri
beiðni aðila. Ákærandi eða ákærði geta hvor um sig beiðst mats eftir að mál
hefur verið höfðað. Þá segir í 131. gr. laganna að aðili geti krafist yfirmats
þar sem tekin verði til endurmats þau atriði sem áður hafa verið metin og skulu
yfirmatsmenn vera fleiri en matsmenn voru en að öðru leyti gilda ákvæði
128.-130. gr. laganna um yfirmat.
Dómurinn
hefur fallist á þá kröfu ákærðu að dómkvaddir verði yfirmatsmenn til að meta
þau atriði sem greinir í framangreindri matsbeiðni þeirra. Verjendur hafa lagt
til að tilteknir erlendir sérfræðingar verði fengnir til starfans en af hálfu
ákæruvalds hefur því verið mótmælt án þess að bent hafi verið á aðra hæfa
sérfræðinga. Dómurinn hefur undir höndum upplýsingar um þá sem verjendur hafa
lagt til að verði dómkvaddir og verður af þeim upplýsingum ekki annað ráðið en
að þeir séu fyllilega hæfir til starfans. Verða því Dr. Jan-Peter
Sperhake og Dr. Klaus Püschel, prófessor, dómkvaddir til starfans.
Hjörtur O. Aðalsteinsson dómstjóri kveður upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð:
Dr.
Jan-Peter Sperhake og Dr. Klaus Püschel, prófessor, eru
dómkvaddir sem yfirmatsmenn til að svara þeim spurningum sem greinir í
yfirmatsbeiðnum á dómskjölum nr. 14 og 15 vegna matsgerðar Þóru Steffensen
réttarmeinafræðings.