Hæstiréttur íslands
Mál nr. 480/2002
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Miðvikudaginn 23. október 2002. |
|
Nr. 480/2002. |
Ákæruvaldið(Bogi Nilsson ríkissaksóknari) gegn X (Þórir Örn Árnason hdl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Hæstiréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 17. október 2002, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 22. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 16. október 2002, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 27. nóvember nk. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.
Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 16. október 2002.
Ríkissaksóknari hefur lagt fram kröfu þess efnis að kærða, X, verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi þar til dómur gengur í máli hans, en þó ekki lengur en til miðvikudagsins 27. nóvember nk. kl. 16.00.
Í greinargerð Ríkissaksóknara segir að með ákæru ríkissaksóknara, sem útgefin hafi verið 10. júlí sl. hafi verið höfðað opinbert mál á hendur X o.fl., þar sem honum sé gefið að sök brot gegn almennum hegningarlögum með því að hafa staðið að innflutningi á tæpum 30 kg af kannabis í mars sl. Ákærði hafi neitað að hafa komið að innflutningi þessum, en telja verði að sterkur grunur sé fyrir hendi um að hann eigi hlut að máli. Um nánari röksemdir fyrir þeirri fullyrðingu vísist til greinargerðar lögreglustjórans í Reykjavík, sbr. skjal nr. 2.4, bls. 117-118 í framlögðum rannsóknargögnum. Meint brot ákærða teljist varða við 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. lög nr. 64/1974 og geti varðað allt að 12 ára fangelsi. Brotið sé þess eðlis að gæsluvarðhald sé talið nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Ákærði hafi sætt gæsluvarðahaldi í þágu málsins frá 16. apríl sl. Aðalmeðferð í máli ákærða muni fara fram 23. október nk.
Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna, dóms Hæstaréttar frá 1. júlí sl. í máli ákærða (nr. 298/2002) og 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sé þess beiðst að ofangreind krafa nái fram að ganga.
Ákærði hefur neitað að hafa framið brotin sem honum er að sök gefin í ákæruskjali. Meðákærðu, Y og Z, hafa borið fyrir dómi um þátt ákærða X í innflutningi á 30 kg af kannabis til landsins frá Kaupmannahöfn sem nánar er lýst í ákærunni. Ákærði Y hefur viðurkennt að hafa í félagi við ákærða X lagt á ráðin um innflutning á fíkniefninu og að hafa afhent honum 3.000.000 króna til þess að kaupa fyrir helming þess. Ákærði Z hefur viðurkennt að hafa tekið við fíkniefninu af ákærða X í Kaupmannahöfn og búið það til flutnings til Íslands. Að þessu virtu þykir fram kominn rökstuddur og sterkur grunur um að ákærði X hafi framið brot er varðað getur allt að 12 ára fangelsi samkvæmt 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. lög nr. 64/1974 og nr. 32/2001. Með vísan til alvarleika brotsins verður að telja nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna að ákærði sæti áfram gæsluvarðahaldi eins og krafist er. Samkvæmt þessu eru skilyrði 1. og 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 uppfyllt og verður því fallist á kröfu Ríkissaksóknara eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði.
Sigríður Ingvarsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Kærði, X, sæti áfram gæsluvarðhaldi þar til dómur gengur í máli hans þó ekki lengur en til miðvikudagsins 27. nóvember nk. kl. 16.00.