Hæstiréttur íslands

Mál nr. 806/2015

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum (Guðmundur Þórir Steinþórsson aðstoðarsaksóknari)
gegn
X (Páll Rúnar M. Kristjánsson lögmaður)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
  • Gæsluvarðhaldsúrskurður felldur úr gildi

Reifun

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem X var gert að sæta gæsluvarðhaldi. Ekki var talið að rökstuddur grunur beindist að X um að hún hafi gerst sek um háttsemi sem fangelsisrefsing væri lögð við, sbr. 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Var hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson, Benedikt Bogason og Karl Axelsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 30. nóvember 2015, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 30. nóvember 2015, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 14. desember 2015 klukkan 16 og einangrun meðan á því stendur. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, til vara að henni verði gert að sæta farbanni, en að því frágengnu að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími og án takmarkana.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Sóknaraðili hefur ekki sýnt fram á að rökstuddur grunur beinist að varnaraðila um að hún hafi gerst sek um háttsemi sem fangelsisrefsing er lögð við, sbr. upphafsmálslið 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Verður hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi.                    

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 30. nóvember 2015.

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur í dag krafist þess að Héraðsdómur Reykjaness úrskurði að X fd. [...], frá [...], verði með úrskurði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 14. desember 2015, kl. 16:00 og að henni verði gert að sæta einangrun á meðan gæsluvarðhaldi stendur.

 

                Kröfuna byggir lögreglustjóri á a- lið 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.

Í greinargerði með kröfunni segir að síðdegis í gær hafi lögreglan handtekið Y, [...] ríkisborgara, vegna gruns um að hún hafi haft fíkniefni í fórum sínum við komu til landsins með flugi [...] frá Brussel. Var það í kjölfar afskipta tollvarða af henni. Komið hafi í ljós að hún hafði pakkningu af ætluðu kókaíni falda í leggöngum sínum. Lögregla hafi haft upplýsingar um að efnunum yrði veitt viðtaka á hótel [...], [...], Reykjavík, þar sem Y átti einnig pantaða gistingu. Á þeim tímapunkti hafi lögregla einnig haft upplýsingar um að Z, hafi haft aðkomu að málinu. Hafi honum verið veitt eftirför frá [...], Reykjavík, þaðan sem hann fór í beinu framhaldi á gistiheimilið á bifreiðinni [...]. Hafi kærði verið handtekinn þar, grunaður um aðild að málinu. Í kjölfar hafi lögreglan farið aftur að [...] í þeim tilgangi að framkvæma leit í híbýlum Z og unnustu hans, kærðu X. Hafi kærða X verið staðsett þar og hún handtekinn, grunuð um aðild að málinu. Við leitina hafi fundist mikið magn af peningaseðlum, bæði evrur og íslenskar krónur, ætluð fíkniefni, farsímar og töluvert magn af pappírum. Vísast nánar til rannsóknargagna málsins. Rannsókn máls þessa sé í fullum gangi og miði út frá því að upplýsa um hlutverk kærðu í umræddum innflutningi á hinum ætluðu ávana- og fíkniefnum auk þess sem fyrir liggi að afla þarf upplýsinga um ætlað peningaþvætti kærðu. Lögregla telji sig þurfa svigrúm til að vinna nánar úr þeim gögnum sem hún hafi undir höndum og upplýst geti um framangreind atriði auk þess sem fyrir liggi gagnaöflun hér á landi og erlendis um þau atriði og önnur. Vísist nánar til rannsóknargagna.

Þá segir í greinargerðinni að að mati lögreglustjóra séu lagaskilyrði uppfyllt fyrir því að kærðu verði gert að sæta gæsluvarðhaldi. Annars vegar sé verið að rannsaka innflutning á hættulegum ávana- og fíkniefnum sem að mati lögreglu hafi verið flutt hingað til lands í þeim tilgangi að selja þau til ótiltekins fjölda fólks. Hins vegar sé verið að rannsaka þvættisbrot kærðu og e.a. annarra sem henni tengist. Að mati lögreglustjóra sé fyrir hendi rökstuddur grunur um að kærða hafi gerst brotleg við ákvæði laga um ávana-og fíkniefni nr. 65/1974 og 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 auk 264. gr. sömu laga. Lögreglustjóri telji hættu á að kærða kunni að torvelda rannsókn málsins, svo sem með því að afmá merki eftir brot, skjóta undan munum ellegar hafa áhrif á samseka eða vitni, gangi hún laus. Með vísan til alls framangreinds, rannsóknarhagsmuna, a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/ 2008 um meðferð sakamála, 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og laga nr. 65/1974 um ávana-og fíkniefni telji lögreglustjóri brýna rannsóknarhagsmuni standa til að fallist verði á kröfuna og kærðu verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 14. desember 2015, kl. 16:00. Þess sé einnig krafist að kærðu verði gert að sæta einangrun, sbr. b-lið 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, á meðan gæsluvarðhaldi standi, með vísan til framangreindra rannsóknarhagsmuna. 

Kærða mótmælir kröfunni.

Með vísan til þess sem nú hefur verið rakið, svo og rannsóknargagna málsins, er fallist á það með lögreglustjóra að kærða tengist þannig ofangreindri rannsókn og sé því undir rökstuddum grun um að hafa framið brot sem fangelsisrefsing liggur við. Telur dómurinn að gangi kærða laus megi ætla að hún muni torvelda rannsókn málsins með því að skjóta undan munum eða hafa áhrif á samseka eða vitni. Er rannsóknin skammt á veg komin. Samkvæmt þessu telst skilyrðum a- liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála til þess að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi fullnægt og er krafa lögreglustjóra því tekin til greina. Fallist er á að kærða sæti einangrun á meðan á gæsluvarðhaldsvist hennar  stendur sbr. b. lið 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð:

Kærða, X, skal sæta gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 14. desember  nk. kl. 16:00.

Kærða skal sæta einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.