Hæstiréttur íslands
Mál nr. 164/2009
Lykilorð
- Eftirlaun
- Tómlæti
|
Fimmtudaginn 21. janúar 2010. |
|
|
Nr. 164/2009. |
Atafl hf. (Sigurmar K. Albertsson hrl.) gegn dánarbúi Sigurðar G. Halldórssonar (Skarphéðinn Pétursson hrl.) |
Eftirlaun. Tómlæti.
S starfaði um árabil hjá K, sem varð að hlutafélaginu A í febrúar 2006, en félagið annaðist um árabil verktöku á vegum Varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli. Í mars 1998 gerði S samning við K um eftirlaun og hóf hann að taka þau 1. nóvember 1999. Á árunum 2004 og 2006 lækkuðu eftirlaun S og var honum tilkynnt að það væri vegna þess að forsendur til útreiknings launa hefðu breyst. Samkvæmt gögnum málsins leitaði umboðsmaður S skýringa á þessu hjá A með takmörkuðum árangri, en frá ársbyrjun 2007 voru eftirlaun hans skert enn frekar. S höfðaði mál, en hann lést undir rekstri þess fyrir héraðsdómi og tók dánarbú hans við aðild að því. Deildu aðilar um hvort ákvæði í samningum, þar sem mælt var fyrir um skerðingu eftirlauna S ef ársvelta félagsins yrði lægri en sem svarar 8.000.000 bandaríkjadölum, hefði eingöngu átt að taka mið af tekjum þess og nú A af verkum á varnarsvæðinu á Keflavíkurflugvelli og sem greitt væri fyrir í þeim gjaldmiðli, eða hvort taka ætti tillit til allra tekna A. Talið var að hefði það verið ætlun samningsaðilanna að leggja til grundvallar að fjárhæð eftirlauna S yrði háð tekjum K af verkum á varnarsvæðinu lægi beint við að það hefði borið að taka það berum orðum fram í samningnum. A yrði að bera hallann af því að það var ekki gert, en í stað þess gæti ekki komið að tveir af fjórum mönnum, sem undirrituðu samninginn af hálfu K, hefðu borið fyrir héraðsdómi að þeir hefðu skilið samninginn á þann veg, sem A taldi réttan, enda lægi ekkert fyrir um að viðsemjandi þeirra hefði gengið út frá sama skilningi, sem ekki væri stoð fyrir í texta samningsins. Þá var talið að ekki yrði litið svo á að S hefði glatað rétti á hendur A vegna tómlætis. Var krafa dánarbús S tekin til greina.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 7. apríl 2009. Hann krefst sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I
Samkvæmt gögnum málsins gerðu fjögur hlutafélög, sem stofnuð höfðu verið í Keflavík á árinu 1957 um verktakastarfsemi í tilteknum iðngreinum, ódagsettan samning um „samvinnu sín á milli um verktöku og samningsgerð þar af leiðandi á vegum Varnarliðsins undir nafninu Keflavíkurverktakar.“ Í samningnum, sem virðist hafa verið gerður á fyrrgreindu ári, var meðal annars kveðið á um framlög félaganna fjögurra í svonefndan samvinnusjóð, sem skyldu nema 5% af „samningsupphæðum allra verka, sem þessir aðilar taka að sér“. Stjórnarformenn félaganna myndu sitja í samvinnunefnd, sem hefði „yfirstjórn hinna sameiginlegu mála“, en framkvæmdastjórar félaganna sætu í framkvæmdaráði og skyldi það ráða starfsmann til að sinna tilteknum verkefnum. Firmanafnið Keflavíkurverktakar mun hafa verið skráð 12. ágúst 1959, en hlutafélögin fjögur síðan stofnað sameignarfélag með sama nafni 30. október 1961.
Á árinu 1957 mun Sigurður G. Halldórsson, sem fæddur var 1923, hafa tekið til starfa hjá Keflavíkurverktökum, fyrst sem ráðgjafi en síðan yfirverkfræðingur og aðstoðarmaður forstjóra. Hann gerði samning við sameignarfélagið 17. mars 1988, þar sem það tók á sig skyldu til að greiða honum til ævilengdar eftirlaun frá því að hann léti þar af störfum að undangengnum eins árs uppsagnarfresti, en þau skyldu nema ⅔ hlutum þeirra launa, sem hann tæki við starfslok, og breytast framvegis í hlutfalli við laun starfsmanns, sem gegna myndi samsvarandi stöðu. Í samningnum, sem áðurgreind samvinnunefnd undirritaði af hálfu félagsins, var kveðið á um að eftirlaunin myndu falla niður ef það hætti starfsemi, svo og að launin skyldu skerðast samkvæmt nánar tiltekinni reiknireglu ef „ársvelta“ félagsins færi niður fyrir 8.000.000 bandaríkjadali. Af gögnum málsins verður ráðið að á árinu 1997 hafi verið byrjaður undirbúningur að því að félögin fjögur, sem stóðu að Keflavíkurverktökum sf., yrðu sameinuð undir heiti samnefnds hlutafélags. Af því varð á stofnfundi Keflavíkurverktaka hf. 20. október 1999 og var við það miðað að það félag tæki yfir réttindi og skyldur eldri félaganna frá 1. júlí á því ári að telja. Þetta hlutafélag hefur frá 3. febrúar 2006 borið nafn áfrýjanda.
Fyrir liggur að samkomulag var gert 30. júní 1999 um starfslok Sigurðar hjá Keflavíkurverktökum sf. og hóf hann að taka eftirlaun samkvæmt fyrrnefndum samningi 1. nóvember sama ár. Óumdeilt er að hann hafi fengið þau laun að fullu greidd úr hendi Keflavíkurverktaka hf. til og með janúar 2004, en 1. febrúar sama ár sendi félagið honum svohljóðandi bréf: „Keflavíkurverktakar hf., tilkynna þér breytingar á eftirlaunum þínum. Forsendur til útreiknings launa hafa breyst og hefur það leitt til lækkunar á eftirlaunum þínum.“ Hvorki verður séð að Sigurði hafi verið veittar frekari skýringar á þessari ákvörðun né að hann hreyft athugasemdum, en eftir gögnum málsins kom hún þegar til framkvæmdar með þeim afleiðingum að eftirlaun hans lækkuðu um 35,6%. Aftur sendi áfrýjandi Sigurði bréf 10. júlí 2006, þar sem greint var frá því að forsendur fyrir útreikningi eftirlaunanna hefðu enn breyst og ættu þau samkvæmt útreikningi að lækka um 58,44%. Sagt var að þessi breyting hefði átt að taka gildi frá byrjun árs 2006, en vegna mistaka hefði ekki orðið af því og Sigurður því fengið ofgreidd eftirlaun á því tímabili. Sú ofgreiðsla kæmi til frádráttar eftirlaunum á tímabilinu til loka árs 2006, en í janúar 2007 yrði útreikningurinn endurskoðaður á ný „með tilliti til dollara tekna fyrirtækisins vegna ársins 2006.“ Samkvæmt gögnum, sem lögð hafa verið fyrir Hæstarétt, leitaði umboðsmaður Sigurðar skýringa á þessu hjá áfrýjanda með takmörkuðum árangri, en frá ársbyrjun 2007 voru eftirlaun hans skert enn frekar og námu upp frá því 3,5% af fjárhæðinni, sem greidd var í lok árs 2003.
Sigurður höfðaði mál þetta 22. júní 2007, en hann lést undir rekstri þess fyrir héraðsdómi og tók stefndi þá við aðild að því. Aðilarnir deila ekki um að fjárhæð dómkröfu stefnda nemi því, sem samanlagt skorti á samkvæmt framansögðu að eftirlaun Sigurðar hefðu verið óbreytt frá fyrra horfi á tímabilinu frá 1. febrúar 2004 til 1. júní 2007. Þá deila aðilarnir heldur ekki um að áfrýjandi beri nú ábyrgð á efndum samnings Sigurðar við Keflavíkurverktaka sf. frá 17. mars 1988. Ágreiningur þeirra lýtur á hinn bóginn að því hvort áðurnefnt ákvæði í samningnum, þar sem mælt var fyrir um skerðingu eftirlauna Sigurðar ef ársvelta félagsins yrði lægri en sem svarar 8.000.000 bandaríkjadölum, hafi eingöngu átt að taka mið af tekjum þess og nú áfrýjanda af verkum á varnarsvæðinu á Keflavíkurflugvelli og sem greitt væri fyrir í þeim gjaldmiðli, eða hvort taka eigi þar tillit til allra tekna áfrýjanda. Samkvæmt málflutningi aðilanna fyrir Hæstarétti eru þeir sammála um að líta svo á að Sigurður hafi þegar fengið full skil á eftirlaunum sínum ef komist verður að þeirri niðurstöðu að samninginn eigi að skýra á fyrrgreinda veginn, en að áfrýjandi standi að öðrum kosti í skuld við stefnda, sem nemur fjárhæð dómkröfu hans, hafi tilkall Sigurðar til frekari eftirlauna ekki fallið niður fyrir tómlæti.
II
Ákvæðið í samningi Sigurðar G. Halldórssonar við Keflavíkurverktaka sf. 17. mars 1988, sem ágreiningur stendur um, hljóðar svo: „Ennfremur eru eftirlaunin háð heildar veltu Keflavíkurverktaka, þannig, að ef veltan minnkar, þá rýrna eftirlaunin sem hér segir: Minnki ársvelta niður fyrir $ 8.000.000.- þá verða eftirlaun næsta árs á eftir reiknuð svo ... Löggiltur endurskoðandi Keflavíkurverktaka annast útreikning þennan. Aukist velta fram yfir $ 8.000.000.- þá veldur það ekki samsvarandi hækkun eftirlauna“. Í samningnum kemur hvorki fram að gengið hafi verið út frá að þessi tiltekna fjárhæð yrði að nást í árlegri veltu félagsins eingöngu með tekjum af verkum þess á varnarsvæðinu á Keflavíkurflugvelli né að aðeins ætti að miða við tekjur, sem greiddar yrðu í bandaríkjadölum. Að því verður að gæta að fram er komið, meðal annars með framburði fyrrum framkvæmdastjóra Keflavíkurverktaka sf. fyrir héraðsdómi, að félagið hafi, bæði áður en samningurinn var gerður og eftir það, aflað tekna í innlendum gjaldmiðli með verkefnum utan varnarsvæðisins, þótt þær hafi ekki verið teljandi hluti af veltu félagsins. Af skírskotun í samningnum til fjárhæðar í bandaríkjadölum einni og sér verða ekki dregnar ályktanir um réttmæti þess skilnings á samningsákvæðinu, sem áfrýjandi ber fyrir sig, enda hlýtur eðli máls samkvæmt að hafa verið Keflavíkurverktökum sf. í hag á tímum samfelldra gengislækkana að binda ekki þessa skerðingarheimild við fasta fjárhæð í íslenskum krónum, heldur við þann erlenda gjaldmiðil, sem stærsti hluti tekna félagsins var þá greiddur í. Hefði það verið ætlun samningsaðilanna að leggja til grundvallar að fjárhæð eftirlauna Sigurðar yrði háð tekjum Keflavíkurverktaka sf. af verkum á varnarsvæðinu liggur af þessum sökum öllum beint við að það hefði borið að taka það berum orðum fram í samningnum. Áfrýjandi verður að bera hallann af því að það var ekki gert, en í stað þess getur ekki komið að tveir af þeim fjórum mönnum, sem undirrituðu samninginn 17. mars 1988 af hálfu Keflavíkurverktaka sf., hafi borið fyrir héraðsdómi að þeir hafi skilið samninginn á þann veg, sem áfrýjandi telur réttan, enda liggur ekkert fyrir um að viðsemjandi þeirra hafi gengið út frá sama skilningi, sem ekki var stoð fyrir í texta samningsins.
Eins og áður greinir tilkynntu Keflavíkurverktakar hf. Sigurði með bréfi 1. febrúar 2004 að eftirlaun hans yrðu frá þeim degi skert um sem svaraði rúmum þriðjungi. Ekkert liggur fyrir um að hann hafi hreyft andmælum gegn því eða gert fyrirvara við útborgun eftirlaunanna á meðan þau voru í því horfi allt til júlí 2006. Fram hjá því verður á hinn bóginn ekki litið að í bréfinu sagði það eitt að forsendur fyrir útreikningi eftirlaunanna hafi breyst og þau lækkað af þeim sökum, en á því voru engar skýringar gefnar. Eins og félagið kynnti þessa ákvörðun fyrir Sigurði, sem þá var kominn á níræðisaldur og hafði engan aðgang að bókhaldsgögnum þess, hafði hann ekki ástæðu til að ætla annað en að lækkun eftirlaunanna ætti sér stoð í áðurgreindu samningsákvæði, eins og það væri réttilega skýrt. Þegar til frekari lækkana kom að liðnu þessu tímabili var brugðist þannig við af hálfu Sigurðar að áfrýjandi gat ekki með réttu gengið út frá því að hann sætti sig við þær breytingar. Að þessu virtu verður ekki litið svo á að stefndi hafi glatað rétti á hendur áfrýjanda vegna tómlætis.
Samkvæmt framangreindu verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms staðfest. Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Atafl hf., greiði stefnda, dánarbúi Sigurðar G. Halldórssonar, 400.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 15. janúar 2009.
Mál þetta, sem dómtekið var 18. desember sl., var höfðað 22. júní 2007.
Stefnandi er dánarbú Sigurðar Halldórssonar,Efstalundi 1, Garðabæ.
Stefndi er Atafl hf. , Byggingu 551, Keflavíkurflugvelli.
Stefnandi krefst þess að hið stefnda félag verði dæmt til að greiða stefnanda 13.584.046 kr., ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 230.390 kr frá 1.2.2004 til 1.3.2004 en af 460.780 kr. frá þeim degi til 1.4.2004, af 691.170 kr. frá þeim degi til 1.5.2004, af 921.560 kr. frá þeim degi til 1.6.2004, af 1.151.950 kr. frá þeim degi til 1.7.2004, af 1.382.340 kr. frá þeim degi til 1.8.2004, af 1.612.730 kr. frá þeim degi til 1.9.2004, af 1.843.120 kr. frá þeim degi til 1.10.2004, af 2.073.510 kr. frá þeim degi til 1.11.2004, af 2.303.900 kr. frá þeim degi til 1.12.2004, af 2.534.290 kr. frá þeim degi til 1.1.2005, af 2.764.680 kr. frá þeim degi til 1.2.2005, af 2.995.070 kr. frá þeim degi til 1.3.2005, af 3.225.460 kr. frá þeim degi til 1.4.2005, af 3.455.850 kr. frá þeim degi til 1.5.2005, af 3.686.240 kr. frá þeim degi til 1.6.2005, af 3.916.630 kr. frá þeim degi til 1.7.2005, af 4.147.020 kr. frá þeim degi til 1.8.2005, af 4.377.410 kr. frá þeim degi til 1.9.2005, af 4.607.800 kr. frá þeim degi til 1.10.2005, af 4.838.190 kr. frá þeim degi til 1.11.2005, af 5.068.580 kr. frá þeim degi til 1.12.2005, af 5.298.970 kr. frá þeim degi til 1.1.2006, af 5.529.360 kr. frá þeim degi til 1.2.2006, af 5.759.750 kr. frá þeim degi til 1.3.2006, af 5.990.140 kr. frá þeim degi til 1.4.2006, af 6.220.530 kr. frá þeim degi til 1.5.2006, af 6.450.920 kr. frá þeim degi til 1.6.2006, af 6.681.310 kr. frá þeim degi til 1.7.2006, af 7.207.286 kr. frá þeim degi til 1.8.2006, af 7.733.262 kr. frá þeim degi til 1.9.2006, af 8.259.238 kr. frá þeim degi til 1.10.2006, af 8.785.214 kr. frá þeim degi til 1.11.2006, af 9.311.190 kr. frá þeim degi til 1.12.2006, af 9.837.166 kr. frá þeim degi til 1.1.2007, af 10.461.646 kr. frá þeim degi til 1.2.2007, af 11.086.126 kr. frá þeim degi til 1.3.2007, af 11.710.606 kr. frá þeim degi til 1.4.2007, af 12.335.086 kr. frá þeim degi til 1.5.2007, af 12.959.566 kr. frá þeim til 1.6.2007 og af 13.584.046 kr. frá þeim degi til greiðsludags
Loks er krafist málskostnaðar úr hendi stefnda.
Stefndi krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda, en til vara að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega.
Þá krefst stefndi málskostnaðar úr hendi stefnanda.
I.
Í stefnu er málsatvikum lýst svo að Sigurður Halldórsson heitinn, hér eftir tilgreindur sem stefnandi, sé fæddur árið 1923. Að loknu stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1943 hafi hann farið til náms í rafmagnsverkfræði í Bandaríkjunum árið 1944, við MIT í Cambridge, Mass. Hann hafi lokið BS prófi þaðan í júní 1946, en framhaldsnám sitt hafi hann stundað við University of Illinois og lokið þaðan MSc prófi árið 1948. Hann hafi hafið störf hjá Póst- og símamálastjórn þegar hann kom heim frá námi, og verið einn af þremur deildarverkfræðingum þar þegar hann ákvað að taka við starfi hjá Sameinuðum verktökum árið 1954. Stefnandi hafi flust yfir til Íslenskra aðalverktaka þegar það félag var stofnað. Hann hafi starfað þar sem yfirmaður áætlanadeildar. Á árinu 1957 hafi stefnandi hafið störf hjá Keflavíkurverktökum, fyrst sem ráðgjafi, en lengst af hafi hann starfað sem yfirverkfræðingur eða aðstoðarmaður forstjóra félagsins og því í raun verið einn af þremur æðstu mönnum þess.
Keflavíkurverktakar sf. hafi verið í sameign fjögurra félaga. Félögin hafi verið Rafmagnsverktakar Keflavíkur, Málaraverktakar Keflavíkur, Járniðnar- og pípulagningaverktakar Keflavíkur og Byggingaverktakar Keflavíkur. Svo sem fram komi í útboðs- og skráningarlýsingu fyrir Keflavíkurverktaka hf., útg. 2001, hafi formenn aðildarfélaganna skrifað undir samning 30. október 1961 um rekstur sameignarfélagsins. Keflavíkurverktökum sf. hafi verið breytt í hlutafélag 1. júlí 1999 og gömlu félögin endanlega lögð niður síðar á því ári. Orðrétt segi á nefndri blaðsíðu í útboðs- og skráningarlýsingunni að félagið hafi „að mestu starfað á Keflavíkurflugvelli og unnið fyrir varnarliðið, [...], en einnig tekið að sér verk utan vallar. Þá hefur félagið reist byggingar á eigin kostnað og er þar langstærst eignin Kjarni og Flughótel í Reykjanesbæ.“ Síðar á sömu bls. sé áréttað að félagið hafi tekið að sér verkefni utan vallar og einnig fjárfest í ýmsum fyrirtækjum, aðallega á Suðurnesjum.
Með samningi um eftirlaun 17. mars 1988 hafi Keflavíkurverktakar skuldbundið sig til að greiða stefnanda „eftirlaun, til æviloka, sem nemi 2/3 hlutum af launum hans þegar hann lætur af störfum.“ Samkvæmt 2. gr. samningsins hafi launin átt að breytast í hlutfalli við laun starfsmanns í samsvarandi starfi á hverjum tíma. Fram komi í samningnum að hann sé samþykktur af samvinnunefnd fyrir hönd Keflavíkurverktaka, en samvinnunefnd hafi farið með æðsta vald í málefnum Keflavíkurverktaka sf. Undir samninginn hafi ritað stjórnarformenn félaganna sem að Keflavíkurverktökum stóðu, auk stefnanda sjálfs. Í samningnum sé kveðið á um tvenns konar hugsanlegar takmarkanir á eftirlaunum stefnanda. Sé önnur þeirra bundin því að ef Keflavíkurverktakar hætti starfsemi sinni, þá falli eftirlaunin niður við lok þess árs, sem starfsemin hættir. Hin takmörkunin sé tengd við „heildarveltu Keflavíkurverktaka“. Orðrétt segi um þetta í 3. gr. samningsins:
„Ennfremur eru eftirlaunin háð heildarveltu Keflavíkurverktaka, þannig, að ef veltan minnkar, þá rýrna eftirlaunin sem hér segir: Minnki ársvelta niður fyrir $ 8.000.000.- þá verði eftirlaun næsta árs á eftir reiknuð svo:
Eftirlaun skv. 2. gr. x velta síðasta árs í $
Eftirlaun verði= ----------------------------------------
$ 8.000.000.“
Stefnandi hafi hafið töku eftirlauna 1. nóvember 1999 á grundvelli ofangreinds samnings, en í samræmi við 4. gr. eftirlaunasamningsins hafi hann haldið áfram í ólaunuðu hlutastarfi í þágu stefnda eftir það tímamark. Visar stefnandi í því sambandi m. a. til starfslýsingar yfirverkfræðings sem stefnandi vann fyrir stefnda á árinu 2000, og skipurits, en frá þessum gögnum hafi stefnandi gengið í apríl og maí það ár.
Stefndi hafi tekið við greiðslum frá Keflavíkurverktökum sf. fram til 1. júlí 1999 og frá Keflavíkurverktökum hf. eftir að félagsforminu var breytt sem áður segir og hlutafélagið tók við öllum réttindum og skyldum félaganna fjögurra sem að sameignarfélaginu stóðu, sbr. samrunaáætlun sem birt hafi verið í 98. tbl. Lögbirtingarblaðsins 1999. Um eftirlaunagreiðslur vísar stefnandi til launaseðla sem lagðir hafi verið fram í málinu. Til skýringar tekur stefnandi fram að nafni Keflavíkurverktaka hf. var breytt í Atafl hf. 2. febrúar 2006. Þá beri að athuga að Keflavíkurverktökum hf. hafi verið skipt upp, upphaflega í tvö félög. Stefnandi líti svo á að leggja beri til grundvallar samanlagða veltu allra félaga sem skipt hefur verið út úr upprunalega hlutafélaginu þegar meta eigi viðmiðunarmörk eftirlaunasamningsins. Samkvæmt munnlegum upplýsingum endurskoðanda félagsins sé heildarvelta stefnda yfir þeim mörkum, en stefnandi áskilji sér rétt til að hafa uppi kröfur á þau félög sem skipt hafi verið út með vísan til 133. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög.
Með hliðsjón af ákvæðum samningsins hafi stefnandi verið í góðri trú um að stefndi legði réttar forsendur til grundvallar við útreikninga eftirlauna hans. Hafi hann enga ástæðu haft til að ætla annað en að félagið vildi efna samninginn samkvæmt orðanna hljóðan og án undanbragða. Stefnandi, sem hafi verið orðinn roskinn og hafði ekki gengið heill til skógar vegna alvarlegs heilsubrests, hafi ekki haft ástæðu til að ætla að bréf stefnda til hans 1. febrúar 2004 um breytingar á eftirlaunum, væri byggt á hæpnum forsendum. Hafi stefnandi þá m.a. haft hliðsjón af þeirri hollustu- og trúnaðarskyldu sem hann ber samkvæmt 4. og 5. gr. samningsins og hann taldi vera gagnkvæma. Hafi stefnandi jafnframt staðið í þeirri trú að ekki vekti annað fyrir félaginu en að launa honum af sanngirni fyrir störf hans í þess þágu á umliðnum áratugum og standa við gerða samninga.
Með bréfi 10. júlí 2006 hafi stefnanda verið tilkynnt að forsendur eftirlaunaútreiknings stefnda hefðu breyst og að sú breyting hefði leitt til lækkunar á eftirlaunum stefnanda. Fram hafi komið í bréfinu að um væri að ræða lækkun sem næmi 58,44% af launum og að tímabilið frá janúar 2006 til júlí s.á. hefði verið ofgreitt. Hafi jafnframt verið frá því greint að tekið hefði verið tillit til þess í útreikningi vegna launa fyrir tímabilið júlí 2006 til janúar 2007. Nánari skýringar hafi ekki verið að finna í bréfinu á því hvernig forsendur áttu að hafa breyst.
Af hálfu stefnanda hafi verið óskað eftir leiðréttingu á þessu en þeirri beiðni hafi verið hafnað. Með innheimtubréfi 5. mars sl. hafi hið stefnda félag verið krafið um 11.086.126 kr. vegna vanefnda á eftirlaunagreiðslum árin 2004-2007. Svör lögmanns stefnda hafi borist 23. maí sl. og hafi þar verið ítrekuð andmæli gegn kröfum stefnanda. Í bréfinu komi fram að stefndi telji sig hafa efnt allar samningsbundnar skyldur við stefnanda og þess freistað að styðja þá afstöðu með tilvísunum í eftirlaunasamninginn sem hér liggi til grundvallar. Af lestri bréfs þessa þyki stefnanda ljóst að enginn vilji sé fyrir hendi hjá stefnda til að koma til móts við kröfur hans. Miðað við þær forsendur sem lagðar séu til grundvallar af hálfu hins stefnda félags, fái stefnandi nú einungis 22.850 kr. í eftirlaun á mánuði frá stefnda.
Það hafi orðið stefnanda þung vonbrigði að komast að raun um að fyrirsvarsmenn stefnda hneigðust til óbilgirni í þessum efnum fremur en þess sem kenna mætti við sanngirni. Af hálfu stefnda hafi þess verið freistað að villa um fyrir stefnanda með orðhengilshætti. Að mótteknu bréfi lögmanns stefnda 23. maí 2007 hafi orðið ljóst að stefndi vildi ekki bæta úr fyrri framkomu sinni. Stefnandi sé því knúinn til að leita réttar síns fyrir dómstólum.
II.
Málsatvik eins og þau horfa við stefnda eru þau helst að í máli þessu sé deilt um túlkun á samningi dags. 17. mars 1988 sem stefnandi gerði við sameignarfélagið Keflavíkurverktaka sf. sem hafði kennitöluna 680169-6169 (nafnnúmer 5573-5355). Stefnandi hafi verið starfsmaður þess félags þegar samningur þessi var gerður og þar til hann hóf töku eftirlauna á árinu 1999.
Keflavíkurverktakar sf. hafi haft það hlutverk að koma fram sem samningsaðili gagnvart Bandaríkjaher fyrir hönd sameigenda sinna, Byggingaverktaka Keflavíkur ehf., Járn- og pípulagningarverktaka Keflavíkur ehf., Málaraverktaka Keflavíkur ehf. og Rafmagnsverktaka Keflavíkur ehf. vegna verktöku þessara aðila á varnarsvæðinu í Keflavík. Starfsemi Keflavíkurverktaka sf. hafi eingöngu lotið að þessum viðskiptum en sameigendurnir hafi einnig stundað hver fyrir sig verktakastarfsemi utan varnarsvæðisins. Verksvið stefnanda hafi ekki varðað starfsemi þessara aðila utan varnarsvæðisins.
Fyrir liggi að á árinu 1999 hafi umrædd verktakafyrirtæki ákveðið að sameina starfsemi félaganna í eitt félag. Með þeirri sameiningu hafi orðið til Keflavíkurverktakar hf., kt. 411191-2159 (nú Atafl hf.) og hafi hluthafar í hverju framangreindra félaga fengið hluti í hinu nýja félagi í samræmi við samninga aðila þar um.
Sameignarfélagið Keflavíkurverktakar sf. hafi hins vegar hætt starfsemi og verið slitið. Rangt sé því sem fullyrt sé í stefnu að Keflavíkurverktökum sf. hafi verið breytt í hlutafélagið Keflavíkurverktakar hf. Eftir þessa breytingu hafi hið nýja hlutafélag; Keflavíkurverktakar hf., komið fram sem samningsaðili bæði utan og innan varnarsvæðis en á þessum tíma hafi meginhluti starfsemi félagsins verið á varnarsvæðinu.
Eins og sjáist á gögnum málsins hafi hlutabréf í Keflavíkurverktökum hf. verið sett á almennan hlutabréfamarkað á árinu 2001. Félagið hafi raunar verið tekið af markaði fyrri hluta árs 2002 þegar meginhluti hlutafjár komst á eina hendi seinni hluta árs 2001.
Vegna breytinga hjá Bandaríkjaher hafi á næstu árum dregið verulega úr starfsemi stefnda á varnarsvæðinu og hafi henni lokið á síðasta ári þegar herinn fór með stuttum fyrirvara. Þegar sá í hvað stefndi hafi stefndi hafið í auknum mæli að hasla sér völl í almennri verktakastarfsemi og í eigin framleiðslu. Starfsemi stefnda sé í dag alfarið í almennri verktakastarfsemi og eigin framleiðslu á innlendum markaði.
Stefndi líti svo á að stefnandi hafi hafið töku eftirlauna frá 1. júlí 1999. Fyrir liggi að þó samruni framangreindra hlutafélaga hafi verið miðaður við 1. júlí 1999 að þá hafi hið nýja félag ekki verið skráð í hlutafélagaskrá fyrr en í nóvember 1999. Stefnandi hafi því aldrei verið í starfi hjá því félagi heldur hafið töku eftirlauna í tengslum við að Keflavíkurverktökum sf. var slitið og starfsemi þess félagsins varð hluti af starfsemi stefnda.
Stefndi telji sérstaka ástæðu til þess að mótmæla harðlega málatilbúnaði stefnanda í stefnu um að stefndi sýni óbilgirni og verið sé að freista þess að að villa um fyrir stefnanda með orðhengilshætti. Stefndi hafi ekki gert annað en að gera grein fyrir því hvernig hann telji rétta túlkun réttarsamnings aðila vera, rökstutt það ítarlega.
III.
Við aðalmeðferð málsins gaf Kári Arngrímsson framkvæmdastjóri stefnda aðilaskýrslu, en skýrslur vitna gáfu Guðmundur Pétursson, Jón Halldór Jónsson, Jóhann R. Benediktsson, Sigurður H. Guðmundsson, María Þorgrímsdóttir og Guðmundur Kjartansson.
Kári Arngrímsson framkvæmdastjóri stefnda kvaðst hafa starfað hjá Keflavíkurverktökum sf. 1996 og starfað síðan undir mismunandi rekstrarfyrirkomulagi. Hann hefði í fyrstu séð um tilboð og samninga við varnarliðið. Áður hefði hann starfað hjá Aðalverktökum á vellinum og varnarliðinu. Hann hefði haft lítil samskipti við stefnanda sem hefði séð um svokallaðan húsunarsamning.
Hann kvað hlutverk Keflavíkurverktaka sf. hafa verið viðhald en Aðalverktaka nýbyggingar til að byrja með en síðan hefði þetta breyst og Aðalverktakar meira farið í viðhaldsverk en Keflavíkurverktakar í þjónustusamninga.. Þessi félög hefðu haft einokunarstöðu á Keflavíkurflugvelli og verið úthlutað verkefnum. Samið hefði verið um hvert verk. Stefnan hefði verið sú að Keflavíkurverktakar sf. störfuðu eingöngu innnan varnarsvæðisins (innan vallar) fyrir varnarliðið og að félagið væri ekki með starfsemi utan vallar meðan einokun væri til staðar.
Er fyrsta útboð hafi farið fram á vegum Nató árið 1996 hafi menn séð að breytingar væru framundan varðandi verktöku. Önnur fyrirtæki hafi viljað komast inn á völlinn og umræður hafi verið um að herinn væri á förum úr landi. Þetta hafi verið pólitískt þrætuefni í þjóðfélaginu. Óvissa hafi því skapast.
Hann kvað sameignarfélagið hafa komið fram gagnvart varnarliðinu vegna félaganna fjögurra, en sjálf hefðu félögin séð um framkvæmdir. Þá hefði verið þarna félagið Húsun sem stefnandi hefði séð um að mestu. Þá hefðu félögin fjögur verið með starfsemi utan vallar hvert fyrir sig og átt eignir þar. Tekjur félaganna utan vallar hefðu ekki komið inn í uppgjör á rekstri Keflavíkurverktaka sf. að hann vissi.
Vitnið kvaðst hafa komið að mati eigna félaganna fjögurra við sameiningu þeirra og stofnun Keflavíkurverktaka hf.
Vitnið kvað tilkynningu hafa komið árið 1999 um að öll verk yrðu boðin út eftir árið 2004. Fimm ára aðlögun hefði verið veitt. Einokun yrði afnumin í áföngum. Félagið hefði boðið í verk og fengið sum vegna reynslu og þekkingar. Uppfyllt kröfur varnarliðsins. Aðlögunin og verktakan hefði fengið skyndilegan endi í janúar 2002 er félaginu var tilkynnt að það fengi ekki frekari verkefni á vellinum eftir gamla laginu. Verktöku með gamla laginu hefði hins vegar í raun lokið í október 2001. Aðlögunin hefði því ekki verið til 2004 heldur til 2001. Verktöku á Keflavíkurflugvelli hafi því lokið í október 2001 eftir gamla laginu. Áfram hefði þó verið boðið í verk á vellinum. Verkum fyrir herinn hefði lokið endanlega árið 2006.
Vitnið kvaðst þekkja til eftirlaunasamnings stefnanda. Mikil umræða hefði verið um eftirlaunasamninga sem hefðu verið mismunandi. Óánægja hefði verið meðal stjórnenda. Stefnandi og Jón H. Jónsson hefðu verið með samninga sem aðrir höfðu ekki. Skýrt hefði komið fram í umræðunni að samningarnir væru tengdir verktöku á Keflavíkurflugvelli. Miða hefði átt við tekjur á vellinum af starfseminni á vellinum. Tekjur frá varnarliðinu hefðu þannig átt að standa undir eftirlaunasamningunum.
Hann kvað ársveltu Atafls hafa verið 3-4 milljarða íslenskar krónur árið 2007. Engar tekjur séu í erlendri mynt. Hann staðfesti að framkvæmdir Keflavíkurverktaka utan vallarsvæðisins, svo sem fyrir Tal, 1997, vinnu við loftræstikerfi í Heiðaskóla, vinnu við að fjarlægja asbest í Fellaskóla og byggingu fjölnota íþróttahúss í Reykjanesbæ. Félagið hefði verið með mikla reynslu og sérfræðiþekkingu á ýmsum sviðum, t.d. í að fjarlægja asbest, byggingu loftnetsmastra ofl. Þarna hefði verið um sérhæfða vinnu að ræða. Almenna stefnan hefði hins vegar verið að sinna ekki verkum utan vallar meðan einokun ríkti.
Vitnið Guðmundur Pétursson kvaðst hafa starfað hjá Keflavíkurverktökum sf. árin 1982- 2000. Hann kvaðst hafa unnið verk utan vallar fyrir félagið. 1987-1988 vegna asbests í Fellaskóla, 1998 til 1999 vegna loftræstkerfis í Heiðaskóla, 1998 og 1999 vegna byggingar turna fyrir Tal og byggingu íþróttahúss. Þetta hefðu verið þokkaleg verk en ekki kvaðst hann muna veltuna.
Vitnið Jón Halldór Jónsson fyrrverandi forstjóri Keflavíkurverktaka sf. kvaðst hafa hafið störf á vellinum árið 1958 en látið af störfum um áramótin 1999- 2000. Hann hefði verið framkvæmdastjóri Byggingarverktaka og forstjóri sameignafélagsins síðustu 10-15 árin. Hann kvað tekjur félagsins bæði hafa stafað af vinnu innan vallar og utan, þó meira innan vallar frá varnarliðinu. Hann greindi frá ýmsum verkefnum utan vallar.
Vitnið Jóhann R. Benediktsson kvaðst hafa verið einn stofnenda Keflavíkurverktaka sf. Hann hefði verið í stjórn Málaraverktaka alla tíð og verið formaður Málaraverktaka seinni hlutann og í stjórn Keflavíkurverktaka sf.. Síðustu 5 árin hefði hann verið forstjóri Málaraverktaka. Hann hefði hætt árið 2000. Hann kvaðst hafa ritað undir eftirlaunasamning stefnanda sem nefndarmaður í Samvinnunefnd Keflavíkurverktaka. Formenn allra aðildarfélaganna hefðu setið í nefndinni. Samvinnunefndin hefði ekkert hlutverk haft varðandi tekjur utan vallar. Hann hefði skilið eftirlaunasamning stefnanda svo að tekjur Keflaíkurverktaka sf. vegna verktöku fyrir varnarliðið ættu að standa undir samningnum. Það hefði og verið skilningur hans að takmörkun samkvæmt samningi kæmi til ef tekjur af varnarliði minnkuðu eða hyrfu. Hann hefði litið svo á að tekjur félaganna vegna verka utan vallar ætti ekki að leggja til grundvallar er ákvarða ætti grundvöll útreiknings vegna eftirlaunasamnings stefnanda. Þá ætti vinna vegna undirverktöku fyrir Aðalverktaka og aðra innan vallar sem ekki var greidd í dollurum ekki hafa átt að koma til viðmiðunar við útreikning eftirlaunanna. Samvinnugjald hefði eingöngu verið greitt af tekjum frá varnarliðinu.
Vitnið Sigurður H. Guðmundsson kvaðst hafa verið stjórnarformaður hjá Rafmagnsverktökum og í 2 ár í stjórn Keflavíkurverktaka hf. Frá árinu 1999. Hann hefði hætt árið 2001. Hann hefði frá upphafi verið aðili að Keflavíkurverktökum sf. Hann hefði verið í samvinnunefnd félagsins og skrifað undir eftirlaunasamning stefnanda. Einn frá hverju félaganna fjögurra hefði verið í samvinnunefndinni. Nefndin hefði ekkert haft með tekjur utan vallar að gera. Hann hefði í fyrstu neitað að skrifa undir samninginn og ekki gert það fyrr en hann hafði fengið þær skýringar að sá varnagli væri í samningnum, að kæmi til þess að varnarliðstekjur minnkuðu eða hyrfu þá félli eftirlaunaréttur stefnanda niður eða skertist en engin ábyrgð lenti á félögunum. Miðað hefði verið við tekjur í dollurum. Hann hefði viljað fá það staðfest að sá varnagli væri að ef félag hætti starfsemi þá þyrftu félögin ekki að ábyrgjast eftirlaunasamninginn.
Vitnið María Þorgrímsdóttir launafulltrúi og starfsmannastjóri Atafls hf. kvaðst hafa byrjað að vinna hjá Keflavíkurverktökum sf. í september 1981 sem ritari og við símavörslu. Á árinu 1997 hefði hún farið að starfa við starfsmannamálin. Hún hefði séð um útreikninga á eftirlaunagreiðslum stefnanda. Miðað hefði verið við dollaratekjur félagsins á vellinum. Fyrst hefði reynt á skerðingu eftirlaunanna í febrúar 2004 vegna ársins 2003. Þá hefðu dollaratekjur félagsins verið byrjaðar að lækka. Það hefði verið staðfest af endurskoðanda stefnda. Stefnanda hefði verið sent bréf um þetta. Engar athugasemdir hefðu komið frá honum. Engin lækkun hefði komið til árið 2005, en árið 2006 hefði skerðing komið til og aftur árið 2007. Engin formleg athugasemd hefði komið frá stefnanda vegna ársins 2006. Vitnið kvað laun starfsmanna aðildarfélaganna vegna vinnu á vellinum hafa verið greidd af hverju félagi fyrir sig en laun skrifstofumanna Keflavíkurverktaka sf hafi verið greidd af því félagi. Vitnið kvað stefnanda hafa greitt af sínum launum í lífeyrissjóð eins og aðrir starfsmenn. Eftirlaunasamningurinn hafi verið umfram það.
Guðmundur Kjartansson varð endurskoðandi Keflavíkurverktaka sf. árið 1996. Hann var einnig endurskoðandi félaganna fjögurra sem stóðu að Keflavíkurverktökum sf. Kvaðst hann hafa unnið mikið í samrunaferlinu fyrir félögin fjögur sem sameinuðust í Keflavíkurverktökum hf. Við samrunann hafi Keflavíkurverktökum sf. verið slitið svo og félaginu Húsun og hafi eignir og skuldir félaganna verið færðar til Keflavíkurverktaka hf. í ákveðnum hlutföllum.
Samvinnugjaldskyld velta hafi verið vegna verktöku fyrir varnarliðið. Tekjur utan vallar hafi verið færðar hjá félögunum sjálfum. Hlutdeild félaganna í tekjum á varnarsvæðinu hafi verið grundvöllur eftirlauna stefnanda. Tekjur frá varnarliðinu í dollurum hafi verið viðmiðið. Við stofnun Keflavíkurverktaka hf. hafi engar kröfur komið frá stefnanda um útvíkkun eftirlaunasamnings hans.
IV.
Málsástæður og lagarök stefnanda.
1. Aðild.
Af hálfu stefnanda er talið að ljóst megi vera að Atafl hf. hafi yfirtekið réttindi og skyldur Keflavíkurverktaka hf. sem tóku við réttindum og skyldum Keflavíkurverktaka sf. Óumdeilt sé að sömu félög hafi staðið að rekstri Keflavíkurverktaka sf. og keflavíkurverktaka hf. Megi í því sambandi m.a. vísa til samrunaáætlunar frá 8. september 1999. Fram komi í 1. gr. samrunaáætlunarinnar að nýtt félag Keflavíkurverktakar hf. yfirtaki réttindi og skyldur yfirteknu félaganna í samræmi við ákvæði XIV. kafla hlutafélagalaga nr. 2/1995. Þá segi í 5. gr. áætlunarinnar: „Keflavíkurverktakar hf. skal taka við öllum eignum og skuldum svo og öðrum réttindum og skyldum yfirteknu félaganna frá og með 1. júlí 1999.“ Þessu til frekari staðfestingar vísar stefnandi til bréfs þáverandi lögmanns Keflavíkurverktaka dagsetts 4. febrúar 2003.
Í málinu geti því ekki verið um það deilt að stefndi sé réttur aðili málsins. Þannig sé það stefnda að svara til ábyrðar gagnvart stefnanda á grundvelli starfslokasamningsins sem við hann var gerður.
2. Stefnandi byggir á því að stefndi beri ábyrgð á grundvelli skýrra samningsákvæða.
2.a Miða beri við rekstur félagsins í heild.
Í aðdraganda þessarar málshöfðunar hafi stefndi haldið því fram að réttindi stefnanda hafi eingöngu átt að miðast við starfsemi á varnarsvæðinu en ekki aðra starfsemi félagsins. Stefnandi telji að þetta fái ekki staðist. Samkvæmt 2. gr. samningsins eigi stefnandi rétt til eftirlauna til æviloka. Í þessu birtist tilgangur samningsins, sem hafa beri að leiðarljósi við túlkun hans, þ.e. að tryggja hafi átt stefnanda eftirlaun um ókomin ár og við breytilegar aðstæður. Tillit til þeirra lögmála sem atvinnurekstur lýtur leiði til þess að ganga verði út frá að samningsaðilar hafi tekið mið af breytingum sem kynnu að verða á svarfssviði stefnda á samningstímanum. Af umfjöllun á bls. 8 í skráningarlýsingu fyrir Keflavíkurverktaka hf. frá árinu 2001, sem lögð var fram í málinu megi glögglega sjá að stjórnendum stefnda hafi verið þetta ljóst, en þar segir orðrétt m.a.: „[m]arkaðurinn á varnarsvæðinu ræðst mjög af því, hverju Atlantshafsbandalagið og bandarísk stjórnvöld á hverjum tíma ákveða að verja í framkvæmdir á Íslandi. Þetta er sveiflukennt því hér mótast fjárveitingar af viðhorfum um ástand og horfum í alþjóðamálum ásamt því hverjar séráherslur einstakra aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins eru í öryggis og varnarmálum. Viss óvissa skapast af þessu fyrir Keflavíkurverktaka h.f. því er ráðlegt fyrir félagið að sækja í auknum mæli inn á íslenska byggingamarkaðinn og á þann hátt tryggi betur rekstur félagsins með því að starfa jöfnum höndum á tveimur mörkuðum, þeim íslenska og á varnarsvæðunum.“
Á sama stað komi fram að félagið hafi „tekið að sér verkefni fyrir aðra aðila og má þar nefna uppsetningu á dreifikerfi GSM fyrir Tal hf., Íslandssíma hf., Terra dreifikerfi fyrir Línu.net hf., viðhald á rafmagns- og loftræstikerfi í Kringlunni og almenn viðhaldsverkefni í Flugstöð Leifs Eiríkssonar [...]. Félagið býr yfir mikilli reynslu á sviði hvers konar byggingariðnaðar sem gerir því kleift að taka að sér fjölmörg verkefni sem munu bjóðast á næstu árum. Stjórn Keflavíkurverktaka og stjórnendur stefna að því að styrkja félagið enn frekar á komandi árum með því að auka verkefni félagsins utan vallar eins og þegar hefur verið byrjað á.“
Af framangreindu megi ráða að stefnda hafi mátt vera ljóst - og stefnandi mátt leggja til grundvallar - að rekstur félagsins var háður ytri aðstæðum á hverjum tíma. Gögn málsins beri með sér að félagið hafi verið farið að láta töluvert til sín taka utan Keflavíkurflugvallar meðan stefnandi var þar við störf. Vísist um slík verkefni stefnda til almennrar málsatvikalýsingar hér að framan, auk ofangreindrar skráningarlýsingar fyrir Keflavíkurverktaka hf. þar sem fram komi að velta félagsins utan vallar hafi árið 2000 verið um 103 milljónir króna.
Hvorki fyrr né síðar hafi verið gerður fyrirvari af hálfu stefnda um aðgreiningu rekstrar innan og utan Keflavíkurflugvallar.
Staðreyndir málsins sýni að stefndi hafði fyrir starfslok stefnanda ráðist í mikilsháttar framkvæmdir utan flugvallarsvæðisins.
2.b. Heildarvelta félagsins er ekki undir viðmiðunarmörkum samningsins.
Í aðdraganda málshöfðunar þessarar hafi stefndi haldið því fram að stefnandi eigi ekki rétt til þess að velta stefnda „af annarri starfsemi en á varnarsvæðinu“ verði reiknuð sem hluti af þeirri veltu sem tilgreind er í 3. gr. eftirlaunasamningsins.
Í 3. gr. samningsins komi fram að eftirlaunin séu háð heildarveltu Keflavíkurverktaka. Krafa stefnanda lúti að því að fá þetta samningsákvæði efnt. Samningurinn geri ráð fyrir því að stefndi hafi borð fyrir báru komi til þess að heildarvelta félagsins fari niður fyrir viðmiðunartölu, sem sé 8.000.000 bandaríkjadala. Samningsaðilum hafi verið frjálst að velja hvaða gjaldmiðil sem var, en ekkert í samningnum að öðru leyti styðji þá skýringu sem stefndi kjósi að bera fyrir sig nú. Val gjaldmiðils geti eitt og sér ekki haft úrslitaáhrif að því er varðar efnislegt inntak samningsins.
Framlagðir ársreikningar stefnda sýni að heildarvelta félagsins nemi vel rúmlega ofangreindri viðmiðunarfjárhæð. Gegn skýru orðalagi samningsins geti stefndi ekki hafnað greiðsluskyldu, né fullyrt að eftirlaun stefnanda hafi verið bundin við veltu vegna verktöku fyrir Bandaríkjaher.
Hugsanlegar breyttar áherslur í rekstri breyti engu um þessa grundvallarstaðreynd málsins. Inntak skyldu stefnda ráðist af efni eftirlaunasamningsins sem um ræðir. Hvergi sé þar gefið til kynna að skuldbindingar stefnda séu skilyrtar að því er varðar starfsemi félagsins á Keflavíkurflugvelli eða tekjum þess í einum gjaldmiðli. Atvinnurekstur eigi sér ekki stað í tómarúmi og afkoma fyrirtækja sé undir því komin að þau lagi sig að breyttum aðstæðum og nýjum tímum. Megi þetta heita algild staðreynd og geti stefndi því ekki borið því við sem vörn að rekstur félagsins hafi breyst eða viðfangsefni þess. Skuldbindingar félagsins standi óhaggaðar hvað sem slíkum breytingum kunni að líða.
3. Samningurinn mælir fyrir um gagnkvæmar skyldur sem stefndi hefur ekki staðið við fyrir sitt leyti.
Af lestri eftirlaunasamningsins sé ljóst að hann mælir fyrir um gagnkvæm réttindi og skyldur. Fyrir liggi að stefndi gegndi ólaunuðu hlutastarfi í þágu stefnda eftir að eftirlaunaaldri samkvæmt samningnum var náð. Efndi hann með því þær skyldur sem á hann voru lagðar með samningnum. Af hálfu stefnanda hafi því ekki vrið borið við að breytingar á starfsemi félagsins réttlættu að efndaskylda hans væri niður fallin. Stefndi hafi þáð vinnuframlag stefnanda en virðist nú vilja víkja sér undan skyldum sínum. Af hálfu stefnanda sé á því byggt að samningurinn mæli fyrir um gagnkvæmar skyldur, sem stefnandi hafi fyrir sitt leyti efnt. Með vísan til meginreglunnar um skuldbindingargildi samninga sé þess krafist að stefnda verði gert að standa við sinn hluta samningsins.
4. Skýra ber eftirlaunasamninginn stefnanda í hag
Eftirlaunasamningur stefnda hafi sem fyrr segir verið samþykktur af stjórnarformönnum allra félaganna fjögurra sem aðild áttu að Keflavíkurverktökum og sátu í samvinnunefnd.
Í framkvæmd hafi eftirlaunasamningar af þeirri tegund sem hér um ræðir verið viðurkenndir og fallist á að þeir geti haft langan gildistíma. Breyttar aðstæður og rekstrarumhverfi hafi ekki haft áhrif í því sambandi. Eftirlaunasamningar hafi einnig verið skýrðir tilgangsskýringu.
Ástæða sé til að árétta að í samningnum er ekki gert ráð fyrir að stefnandi njóti góðs af aukinni veltu stefnda. Samkvæmt túlkun stefnda ætti stefnandi þannig að bera skarðan hlut frá borði í hvora áttina sem afkoma félagsins þróaðist. Slík túlkun sé ótæk, enda ljóst að ætlun samningsaðila hafi verið að tryggja afkomu stefnanda að loknu farsælu starfi hans í þágu Keflavíkurverktaka sf. Við skýringu samningsins beri að hafa þennan megintilgang hans að leiðarljósi.
5. Skipting félagsins samkvæmt XIV. kafla hlutafélagalaga.
Á stjórnarfundi í Keflavíkurverktökum hf. 15. ágúst 2002 hafi verið samþykkt að skipta félaginu á grundvelli XIV. kafla hlutafélagalaga og skyldi skiptingin miðast við 1. júlí 2002. Eignum félagsins hafi verið skipt á milli Keflavíkurverktaka hf. og Mænis ehf. (áður Vallarfasteigna ehf.). Nafni Keflavíkurverktaka hf. hafi sem fyrr segir verið breytt í Atafl hf. 2. febrúar 2006. Stefnandi líti svo á að leggja beri til grundvallar samanlagða veltu allra félaga sem skipt hefur verið út úr upprunalega hlutafélaginu þegar meta eigi viðmiðunarmörk eftirlaunasamningsins. Samkvæmt munnlegum upplýsingum endurskoðanda félagsins sé heildarvelta stefnda yfir þeim mörkum, en stefnandi áskilji sér rétt til að hafa uppi kröfur á þau félög sem skipt hefur verið út með vísan til 133. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög.
6. Útreikningur stefnukröfunnar
Höfuðstóll stefnukröfunnar nemur þeim mismun sem er á launagreiðslum sem stefnandi hefur móttekið og því sem stefnandi telur sig eiga rétt á samkvæmt títtnefndum eftirlaunasamningi.
Um lagarök almennt vísar stefnandi til meginreglna kröfuréttar og samningaréttar, sérstaklega um skuldbindingargildi samninga. Um varnarþing vísast til 32. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
V.
Málsástæður og lagarök stefndu
A. Sýkna lækkun
Stefndi telur ekki vera ágreining um að stefnda hafi tekið að sér gagnvart stefnanda að efna skuldbindingar Keflavíkurverktaka sf. samkvæmt eftirlaunasamningi dags. 17. mars 1988. Þær skuldbindingar hafi á engan hátt orðið víðtækari eða meiri en hvíldu á Keflavíkurverktökum sf. við að stefnda tók að sér að efna samninginn gagnvart stefnanda enda ekki um það samið sérstaklega.
Niðurstaða þessa máls að efni til velti því á túlkun umrædds samnings með hliðsjón af þeim atvikum sem að framan er lýst. Þeim sjónarmiðum sem byggt sé á í stefnu um túlkun sé mótmælt.
Samkvæmt 1. gr. samningsins skyldi stefnanda vera heimilt að segja upp störfum hvenær sem er eftir að hann hefði náð 67 ára aldri og hætta störfum einu ári síðar eða fyrr ef um semdist og þá hefja töku eftirlauna samkvæmt samningnum. Í 2. gr. komi fram að réttur til eftirlauna sé til æviloka og skyldu þau miðast við 2/3 af launum þegar látið væri af störfum og breytast í hlutfalli við laun eftirmanns í samsvarandi starfi. Í 3. tl. sé veigamikil takmörkun eftirlaunarétti stefnanda:
„Eftirlaun samkvæmt samningi þessum eru þó takmörkuð sem hér segir:
Hætti Keflavíkurverktakar starfsemi sinni, þá falla eftirlaunin niður við þess árs, sem starfsemin hættir. Ennfremur eru eftirlaunin háð heildar veltu Keflavíkurverktaka, þannig að ef veltan minnkar, þá rýrna eftirlaunin sem hér segir:
Minnki ársvelta niður fyrir $8.000.000.- þá verðir eftirlaun næsta árs á eftir reiknuð svo:
Eftirlaun verði = Eftirlaun skv. 2. grein x velta síðasta árs í $
$8.000.000.-
Löggiltur endurskoðandi Keflavíkurverktaka annast útreikning þennan. Aukist velta fram yfir $8.000.000.- þá veldur það ekki samsvarandi hækkun eftirlauna fram yfir það, sem segir í 2. grein þessa samnings.”
Stefnda hafi tekið við starfsemi Keflavíkurverktaka sf., vinnuveitanda og viðsemjanda stefnanda, sem fólst eins og áður greinir, eingöngu í starfsemi á varnarsvæðinu í Keflavík fyrir bandaríska herinn og komi tilvísun til ársveltu í dollurum til af því. Auk þess hafi félagið tekið við verktakastarfsemi þeirra hlutafélaga sem sameinuðust utan vallar.
Með vísan til forsögu framangreinds ákvæðis og aðstöðu aðila á þeim tíma megi vera ljóst að eftirlaunasamningur stefnanda átti ekki að miðast við heildarveltu sameigenda Keflavíkurverktaka sf. en það sé í raun sú viðmiðun sem stefnandi byggir á nú. Ef það hefði átt að vera viðmiðunin hefði það þurft að koma fram í eftirlaunasamningnum.
Samkvæmt framangreindu takmörkunarákvæði hafi verið gert ráð fyrir að eftirlaunaréttur stefnanda gæti að fullu fallið niður hættu Keflavíkurverktakar sf. starfsemi sinni. Það sé einmitt það sem hafi gerst enda hafi starfsemi Keflavíkurverktaka sf. eingöngu verið bundin við verktöku á varnarsvæðinu fyrir bandaríska herinn. Ekkert í eftirlaunsamningnum gefi stefnanda tilefni til að ætla að skerðing skv. 3. tl. samningsins yrði reiknuð eftir veltutekjum í íslenskum krónum vegna viðskipta utan varnarsvæðis. Stefnda hafi á engan hátt samþykkt slíkt eða tekið á sig víðtækari skyldur en títtnefndur samningur kveður á um.
Með hliðsjón þessu verði að túlka samninginn þannig að þar sem þeirri starfsemi sem Keflavíkurverktakar sf. sinntu og færðu félaginu tekjur í dollurum hafi verið hætt, falli eftirlaunaréttur stefnanda niður. Sé það fyllilega eðlileg og sanngjörn túlkun á samningi aðila enda ljóst að eftirlaunasamningur sá er mál þetta snýst um grundvallaðist á starfsemi fyrir varnarliðið en sú starfsemi hafi verið með allt öðrum hætti en sú almenna verktakastarfsemi sem stefnda varð að sækja í eftir að verkefnum fyrir varnarliðið fækkaði.
Enginn grundvöllur sé fyrir þeirri túlkun á eftirlaunarétti stefnanda að hann eigi rétt til þess að velta stefnda af annarri starfsemi en á varnarsvæðinu verði reiknuð sem hluti af veltu þeirri sem tilgreindur 3. tl. samningsins vísar til. Mótmælt sé sjónarmiðum í stefnu um að grundvöllur sé til að skýra samninginn stefnanda í hag að því leyti sem samningurinn kynni að vera óskýr. Engin stoð sé fyrir þeirri kröfu stefnanda að leggja eigi saman veltu stefnda og Mænis ehf. til þess að reikna viðmiðunartekjur vegna skerðingarákvæðis. Starfsemi Mænis ehf. þau ár sem kröfugerð nær til sé stefnanda með öllu óviðkomandi. Þá eigi það sér enga stoð að stefnandi eigi rétt til þess að velta stefnda í íslenskum krónum verði umreiknuð yfir í dollara og skerðing reiknuð miðað við það.
Útreikningur á eftirlaunum stefnanda hafi ætíð farið fram á grundvelli veltu frá varnarsvæðinu og ekki sætt athugasemdum af hálfu stefnanda fyrr en á árinu 2007. Fyrst hafi reynt á lækkun samkvæmt 3. tl. samningsins á árinu 2004 í samræmi við útreikninga endurskoðanda eins og samningurinn áskildi. Umboðsmanni stefnanda hafi verið tilkynnt um þá lækkun með bréfi dags.1. febrúar 2004.
Þar sem óverulegar breytingar á veltu á varnarsvæðinu urðu á árinu 2004 frá fyrra ári hafi endurskoðandi stefnda ákveðið að gera ekki breytingu á eftirlaunagreiðslum á árinu 2005. Með bréfi dags. 10. júlí 2006 hafi umboðsmanni stefnanda verið tilkynnt um breytingar á eftirlaunagreiðslu og sendur útreikningur með leiðréttingum vegna ársins 2006. Hafi þessi breyting byggst á útreikningi endurskoðanda stefnda. Þetta hafi engum athugasemdum sætt af hálfu stefnanda. Ekki stoði fyrir stefnanda að halda fram að tilkynningar þessar hafi ekki þýðingu vegna heilsubrests stefnanda enda verði að ætla að umboðsmaður hans hafi verið hæfur til þess að móttaka og meta efni tilkynningaranna. Stefnandi hafi í raun fallist á túlkun stefnda og útreikninga endurskoðanda stefnda með því að gera ekki athugasemdir við breytingar sem sannanlega voru tilkynntar. Tilvísun stefnanda til 4. og 5. tl. samningsins hafi enga þýðingu um þetta atriði. Á því sé einnig byggt að samningsaðilar hafi fyrirfram ákveðið að fela endurskoðanda útreikning eftirlauna og túlka verði ákvæðið þannig að þeir útreikningar séu endanlegir.
Eins og áður greinir hafi bandarísk yfirvöld tekið ákvörðun um það á árinu 2006 að hætta starfsemi á varnarsvæðinu og hafi tekjur stefnda af starfsemi fyrir herinn það ár einungis numið 279.853 dollurum samkvæmt útreikningum endurskoðanda stefnda og skyldi hlutfall af launum því vera 3,5%. Stefnda hafi greitt stefnanda mánaðarlega í samræmi við það á árinu 2007 og muni gera til ársloka en þá muni eftirlaunaréttur stefnanda skv. samningi á dómskjali nr. 3 endanlega falla niður enda hafi þeirri starfsemi sem eftirlaunaréttur stefnanda grundvallaðist á verið hætt.
Samkvæmt framangreindu sé því haldið fram að sýkna beri stefnda af fjárkröfum stefnanda.
Verði ekki á það fallist sé höfð uppi varakrafa um lækkun en eins og áður greinir sé stefnda ekki ljóst hvernig stefnufjárhæðin er reiknuð.
Stefndi byggir sýknukröfu sína á almennum reglum samninga- og kröfuréttar. Um málskostnaðarkröfur er vísað til 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991.
IV.
Í máli þessu sætir ekki ágreiningi að við stofnun Keflavíkurverktaka hf. tók það félag yfir skyldur þær sem áður höfðu hvílt á Keflavíkurverktökum sf. varðandi eftirlaunasamning þann sem gerður var við stefnanda Sigurð Halldórsson þann 17. mars 1988 og undirritaður var af Samvinnunefnd fyrir hönd Keflavíkurverktaka sf. Þá er ekki tölulegur ágreiningur í málinu. Ágreiningur aðila snýst í aðalatriðum um hvernig beri að túlka umræddan samning.
Eins og áður hefur verið rakið byggir stefndi sýknukröfu sína á því að viðmið samningsins hafi verið tekjur í bandaríkjadölum vegna verktöku innan varnarsvæðisins á Keflavíkurflugvelli fyrir bandaríska varnarliðið sem þar var. Samkvæmt eftirlaunasamningnum skyldu eftirlaun stefnanda skerðast hlutfallslega eftir ákveðinni formúlu ef ársvelta félagsins á varnarsvæðinu færi undir 8.000.000 bandaríkjadali og falla niður með öllu ef félagið hætti starfsemi sinni. Hafa eftirlaun stefnanda verið skert í samræmi við þessa túlkun stefnda á samningnum.
Af hálfu stefnda er á hinn bóginn byggt á því að viðmið eftirlaunasamningsins skuli vera heildartekjur félagsins ár hvert án tillits til hvar teknanna hafi verið aflað. Í samningnum sé ekki tekið fram að viðmiðið séu tekjur innan vallar. Taka hefði átt það fram í samningnum ef svo hefði átt að vera. Þá komi fram í samningnum að átt sé við heildartekjur félagsins. Því sé ekki hægt að álykta að einvörðungu sé átt við tekjur frá varnarliðinu.
Til þess ber að líta að þegar eftirlaunasamningurinn var undirritaður höfðu Keflavíkurverktakar sf. og félögin fjögur sem stóðu að því félagi svo og Aðalverktakar einokunaraðstöðu á varnarsvæðinu varðandi öll verk fyrir varnarliðið. Stóð félagið sjálft því ekki mikið í verkum utan varnarsvæðisins. Fyrir verk fyrir varnarliðið var greitt í bandaríkjadölum. Má af málsgögnum og dómskýrslum ráða að megintekjur félagsins hafi komið frá varnarliðinu í bandaríkjadölum á þeim tíma er eftirlaunasamningurinn var undirritaður. Verður því að telja eðlilegt að tekjur í bandaríkjadölum hafi verið hafðar sem viðmið varðandi skerðingu eftirlaunanna á þeim tíma. Fram kom í vitnisburði þeirra Jóhanns R. Benediktssonar og Sigurðar H. Guðmundssonar, sem rituðu undir eftirlaunasamninginn sem fulltrúar í Samvinnunefndinni f.h. Keflavíkurverktaka sf., að þeir hafi litið svo á að með 8.000.000 bandaríkjadala ársveltu sem viðmiði í eftirlaunasamningnum væri átt við tekjur félagsins innan varnarsvæðisins.
Í málinu hefur hér að framan verið getið um þróun mála á varnarsvæðinu sem leiddi til þess einkaréttur þeirra félaga sem þar höfðu starfað í verktöku var afnuminn og verk almennt boðin út. Það leiddi til þess eins og rakið hefur verið að Keflavíkurverktakar sf. og síðar Keflavíkurverktakar fóru í meiri mæli að horfa til verka utan vallar. Þá kom að því að bandaríski herinn fór af landi brott og þar með féllu allar tekjur í bandaríkjadölum niður. Sýnt hefur verið fram á að Keflavíkurverktakar sf. voru í ýmsum verkum utan varnarsvæðisins meðan stefnandi var enn við störf hjá félaginu.
Líta ber til þess að eftirlaunasamningi stefnanda, sem gerður var árið 1988, var ætlað að gilda í langan tíma eða til æviloka stefnanda og til æviloka eiginkonu stefnanda lifði hún mann sinn. Mátti samningsaðilum því vera ljóst að ýmsar breytingar gætu átt sér stað á svo löngum tíma, t.d. varðandi veru bandaríska hersins hér á landi. Hafi ætlun aðila verið sú að viðmið eftirlaunasamningsins við stefnanda væri einvörðungu tekjur félags af verktöku fyrir varnarliðið hefði verið eðlilegt og nærtækt að taka það skýrlega fram í samningnum. Verður stefndi að bera hallann af því að það var ekki gert.
Enda þótt tvö vitni, sem undirrituðu eftirlaunasamninginn f.h. stefnda, hafi fyrir dómi borið að þau hafi talið að miða bæri við lágmarkstekjur frá varnarliðinu við útreikning á eftirlaununum, telur dómurinn engu að síður á grundvelli skýringar á ákvæðum eftirlaunasamningsins samkvæmt orðanna hljóðan og tilgangi samningsins, að við útreikning á eftirlaunum stefnanda hverju sinni hafi borið að taka mið af öllum tekjum stefnda, hvort sem þær voru í erlendum eða íslenskum gjaldmiðli og án tillits hvaðan þær komu. Er því ekki fallist á túlkun stefnda á efni samningsins að þessu leyti, enda er þess hvergi getið í samningnum að miða bæri við tekjur á varnarsvæðinu einvörðungu. Ekki er fallist á að líta beri svo á að stefnandi hafi fallist á túlkun stefnda með því að andmæla ekki sérstaklega skerðingum sem hann hefur sætt. Samkvæmt framansögðu þykir því rétt að fallast á kröfur stefnanda í málinu. Engar forsendur eru til lækkunar stefnukröfunnar samkvæmt varakröfu stefnda. Verður stefndi því dæmdur til að greiða stefnanda 13.584.046 krónur með dráttarvöxtum eins og í dómsorði greinir.
Eftir úrslitum málsins atvikum ber að dæma stefnda til að greiða stefnanda 900.000 krónur í málskostnað. Hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.
Finnbogi H. Alexandersson héraðsdómari kveður dóminn upp.
Dómsorð:
Stefndi, Atafl hf., greiði stefnanda, dánarbúi Sigurðar Halldórssonar, 13.584.046 kr., ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 230.390 kr frá 1.2.2004 til 1.3.2004 en af 460.780 kr. frá þeim degi til 1.4.2004, af 691.170 kr. frá þeim degi til 1.5.2004, af 921.560 kr. frá þeim degi til 1.6.2004, af 1.151.950 kr. frá þeim degi til 1.7.2004, af 1.382.340 kr. frá þeim degi til 1.8.2004, af 1.612.730 kr. frá þeim degi til 1.9.2004, af 1.843.120 kr. frá þeim degi til 1.10.2004, af 2.073.510 kr. frá þeim degi til 1.11.2004, af 2.303.900 kr. frá þeim degi til 1.12.2004, af 2.534.290 kr. frá þeim degi til 1.1.2005, af 2.764.680 kr. frá þeim degi til 1.2.2005, af 2.995.070 kr. frá þeim degi til 1.3.2005, af 3.225.460 kr. frá þeim degi til 1.4.2005, af 3.455.850 kr. frá þeim degi til 1.5.2005, af 3.686.240 kr. frá þeim degi til 1.6.2005, af 3.916.630 kr. frá þeim degi til 1.7.2005, af 4.147.020 kr. frá þeim degi til 1.8.2005, af 4.377.410 kr. frá þeim degi til 1.9.2005, af 4.607.800 kr. frá þeim degi til 1.10.2005, af 4.838.190 kr. frá þeim degi til 1.11.2005, af 5.068.580 kr. frá þeim degi til 1.12.2005, af 5.298.970 kr. frá þeim degi til 1.1.2006, af 5.529.360 kr. frá þeim degi til 1.2.2006, af 5.759.750 kr. frá þeim degi til 1.3.2006, af 5.990.140 kr. frá þeim degi til 1.4.2006, af 6.220.530 kr. frá þeim degi til 1.5.2006, af 6.450.920 kr. frá þeim degi til 1.6.2006, af 6.681.310 kr. frá þeim degi til 1.7.2006, af 7.207.286 kr. frá þeim degi til 1.8.2006, af 7.733.262 kr. frá þeim degi til 1.9.2006, af 8.259.238 kr. frá þeim degi til 1.10.2006, af 8.785.214 kr. frá þeim degi til 1.11.2006, af 9.311.190 kr. frá þeim degi til 1.12.2006, af 9.837.166 kr. frá þeim degi til 1.1.2007, af 10.461.646 kr. frá þeim degi til 1.2.2007, af 11.086.126 kr. frá þeim degi til 1.3.2007, af 11.710.606 kr. frá þeim degi til 1.4.2007, af 12.335.086 kr. frá þeim degi til 1.5.2007, af 12.959.566 kr. frá þeim til 1.6.2007 og af 13.584.046 kr. frá þeim degi til greiðsludags.
Stefndi greiði stefnanda 900.000 krónur í málskostnað.