Hæstiréttur íslands

Mál nr. 228/2009


Lykilorð

  • Hlutafélag
  • Hlutabréf
  • Jafnræði
  • Skaðabætur


Fimmtudaginn 29

 

Fimmtudaginn 29. október 2009.

Nr. 228/2009.

Þorsteinn M. Jónsson

Björn Ingi Sveinsson

Haukur Guðjónsson

Jón Sigurðsson

Katrín Pétursdóttir

Pétur Guðmundarson og

Skarphéðinn Berg Steinarsson

(Ólafur Eiríksson hrl.)

gegn

Vilhjálmi Bjarnasyni

(Guðni Á. Haraldsson hrl.)

 

Hlutafélög. Hlutabréf. Jafnræði. Skaðabætur.

Á hluthafafundi í G 30. apríl 2007 voru Þ o.fl. kjörin í stjórn félagsins. Sama dag lét B af starfi forstjóra með því að gera samning um starfslok við nýkjörna stjórn. Þá voru einnig gerðir tveir samningar af einkahlutafélögum í eigu B um kaup G á samtals 234.957.500 hlutum í félaginu og var hver hlutur seldur fyrir 29 krónur. V, hluthafi í G, höfðaði mál og krafðist skaðabóta, þar sem Þ o.fl. sem stjórnarmenn í G hefðu meðal annars brotið gegn 76. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög og óskráðri meginreglu félagaréttar um jafnræði félagsmanna með því að gera áðurnefnda samninga við tvö einkahlutafélög í eigu B um kaup á hlutum þeirra í G fyrir 29 krónur hvern þegar meðalgengi í viðskiptum í kauphöll hefði verið 26,66 krónur á hlut. Samkvæmt 76. gr. laga nr. 2/1995 er stjórn hlutafélags óheimilt að gera neinar þær ráðstafanir, sem bersýnilega eru fallnar til að afla ákveðnum hluthöfum ótilhlýðilegra hagsmuna á kostnað annarra hluthafa eða félagsins. Talið var að jafnframt yrði að líta til þess að í 55. gr. laganna væri hlutafélagi heimilað að eignast með kaupum eigin hluti, sem mættu þó ekki vera fleiri en 10% af hlutfé þess, en til slíkra ráðstafana þyrfti heimild hluthafafundar til félagsstjórna, þar sem einnig væri afmarkað hæsta og lægsta fjárhæð sem félagið mætti greiða. Í ákvæðinu fælist að hluthafafundur gæti að lögum heimilað stjórn að taka ákvörðun um að félag greiddi í kaupum á eigin hlutum hærra eða lægra verð en næmi markaðsvirði hverju sinni. Þannig fæli 55. gr. laga nr. 2/1995 í sér frávik frá 76. gr. sömu laga. Þegar Þ o.fl. hefðu gert samninga um kaup félagsins á eigin hlutum af einkahlutafélögum B hefði verið í gildi heimild, sem aðalfundur 20. febrúar 2007 hefði veitt stjórninni til slíkra ráðstafana. Áskilnaði 3. mgr. 55. gr. laganna um lægstu og hæstu fjárhæð hefði verið fullnægt með því að setja stjórn félagsins þær skorður að kaupverð eigin hluta mætti ekki víkja meira frá markaðsverði hlutanna í kauphöll en sem svaraði 10% á hverjum tíma, hvort heldur til lækkunar eða hækkunar. Að þessu virtu voru ráðstafanir Þ o.fl. taldar innan þeirra takmarka sem ákvæði laga nr. 2/1995 og samþykkt aðalfundar G 20. febrúar 2007 settu stjórn félagsins með tilliti til jafnræðis milli hluthafa við kaup þess á eigin hlutum. Voru Þ o.fl. því sýknaðir af kröfum V.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen, Ingibjörg Benediktsdóttir og Markús Sigurbjörnsson.

Áfrýjendur skutu málinu upphaflega til Hæstaréttar 9. mars 2009. Ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu þess 22. apríl 2009 og var áfrýjað öðru sinni 12. maí sama ár. Þau krefjast sýknu af kröfum stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms, en til vara að áfrýjendur verði dæmd í sameiningu til að greiða sér 30.290 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 30. apríl 2007 til 29. maí 2008, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Samkvæmt gögnum málsins varð Bjarni Ármannsson forstjóri Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf. í september 1997, en við sameiningu hans við Íslandsbanka hf., sem síðar varð Glitnir banki hf., tók Bjarni við sama starfi þar. Í málinu liggur ekkert fyrir um ráðningarkjör Bjarna í þeim störfum.

Á aðalfundi Glitnis banka hf. 20. febrúar 2007 var meðal annars samþykkt samhljóða svofelld tillaga stjórnar félagsins: „Aðalfundur Glitnis banka hf. veitir stjórn heimild til þess að kaupa eigin hluti í félaginu eða taka þá að veði. Heimild þessi standi í 18 mánuði og takmarkist við að samanlögð kaup og veðsetning hluta fari ekki yfir 10% af heildarhlutafé félagsins á hverjum tíma. Kaupverð hluta skal vera lægst 10% lægra og hæst 10% hærra, en skráð kaup- eða sölugengi í Kauphöll Íslands hf.“ Á sama fundi var einnig samþykkt samhljóða tillaga stjórnar félagsins um starfskjarastefnu þess, sbr. 79. gr. a. laga nr. 2/1995 um hlutafélög eins og þeim var breytt með 3. gr. laga nr. 89/2006. Í henni sagði meðal annars eftirfarandi: „Til viðbótar við föst laun er heimilt að veita forstjóra og stjórnendum kaupaukagreiðslur, starfsfríðindi og annan efnahagslegan ábata sem hér fer á eftir (en er þó ekki tæmandi talinn): ... Kaup og söluréttir á hlutabréfum í Glitni banka hf. og/eða dótturfélögum hans. Gerð er grein fyrir slíku í ársskýrslu félagsins, eftir atvikum með ópersónugreinanlegum hætti, með staðfestingu aðalendurskoðanda þegar við á. Kaupréttir starfsmanna geta á hverjum tíma numið allt að 5% af útgefnu hlutafé bankans. ... Greiðslur til stjórnenda við starfslok skulu að jafnaði einungis byggjast á viðeigandi ráðningarsamningi. Bankanum er þó heimilt við sérstakar aðstæður, ef slík ráðstöfun er í þágu bankans, að gera sérstaka starfslokasamninga við stjórnendur. Þessi starfskjarastefna er leiðbeinandi fyrir stjórn Glitnis banka hf. mæli lög ekki fyrir um annað og tekur í aðalatriðum til þeirra þátta er nefndir eru hér að ofan, án þess þó að takmarkast af þeim.“

Á hluthafafundi í félaginu, sem haldinn var 30. apríl 2007, voru áfrýjendur kjörin í stjórn þess. Þau skiptu með sér verkum þannig að áfrýjandinn Þorsteinn M. Jónsson varð formaður stjórnarinnar og aðrir áfrýjendur meðstjórnendur, en úr þeirra röðum höfðu Jón Sigurðsson og Skarphéðinn Berg Steinarsson átt sæti í fráfarandi stjórn. Þennan sama dag lét Bjarni Ármannsson af starfi forstjóra félagsins með því að gera samning um starfslok við hina nýkjörnu stjórn á fyrsta fundi hennar, en í beinu framhaldi af því gerði hún samning við annan nafngreindan mann um ráðningu hans í starfið. Samningurinn um starfslok Bjarna hefur ekki verið lagður fram í málinu, en á hinn bóginn kaupsamningar, sem hann gerði 30. apríl 2007 í nafni tveggja einkahlutafélaga sinna um kaup Glitnis banka hf. á samtals 234.957.500 hlutum í félaginu. Áfrýjendur undirrituðu þessa samninga af hálfu kaupandans, en í þeim var meðal annars kveðið á um að hver hlutur væri seldur fyrir 29 krónur og skyldi kaupverðið, samtals 6.813.767.500 krónur, greitt með reiðufé í síðasta lagi 18. maí 2007. Óumdeilt er að þessir samningar voru efndir.

Samkvæmt vætti Bjarna Ármannssonar fyrir héraðsdómi áttu lok starfs hans hjá Glitni banka hf. þann aðdraganda að hann hafi í byrjun apríl 2007 tekið ákvörðun um að láta af því og leitað til Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, sem hafi verið fulltrúi stærsta hluthafans í félaginu, FL Group hf., til að ræða það frekar. Þegar liðið hafi á þann mánuð hafi áfrýjandinn Jón, sem þá starfaði hjá síðastnefndu félagi, einnig komið að viðræðum um starfslok Bjarna. Fyrir hafi legið fimm dögum fyrir hluthafafundinn að sjálfkjörið yrði í nýja stjórn Glitnis banka hf. og hafi áfrýjandinn Þorsteinn þá bæst í hóp viðmælenda Bjarna sem tilvonandi formaður stjórnarinnar. Með starfslokasamningi 30. apríl 2007 hafi verið ákveðið að Bjarni fengi greidd laun til loka þess árs og hafi heildarlaun hans á árinu því numið 90.000.000 krónum, en að auki hafi hann samkvæmt samningnum fengið greiddar 100.000.000 krónur í launaauka og innleystan kauprétt að hlutum í félaginu með greiðslu á 381.571.000 krónum. Bjarni kvaðst ekki líta svo á að fyrrnefndir samningar frá 30. apríl 2007 um kaup á hlutum einkahlutafélaga hans í Glitni banka hf. hafi verið hluti af starfslokasamningi hans við félagið, en kaupin hafi verið „hluti af starfslokunum“ með því að þau hafi verið mikilvægur þáttur í því að skilja milli hans og félagsins.

Í aðilaskýrslu fyrir héraðsdómi kvaðst áfrýjandinn Þorsteinn hafa komið að viðræðum um starfslok Bjarna Ármannssonar „einhverjum dögum“ fyrir hluthafafund í Glitni banka hf. 30. apríl 2007 þegar legið hafi ljóst fyrir að þar yrði sjálfkjörið í stjórn, en honum hafi ekki verið kunnugt um hvenær þessar viðræður, sem stjórnarformaður og aðstoðarforstjóri FL Group hf. hafi tekið þátt í, hafi byrjað. Samningur um starfslokin hafi síðan „fengið stutta kynningu“ á fundi, sem tilvonandi stjórnarmenn í Glitni banka hf. hafi haldið daginn fyrir hluthafafundinn, en eftir kjör stjórnarinnar hafi yfirlögfræðingur félagsins komið á fund hennar og lýst áliti sínu á kaupsamningunum, sem síðan hafi verið undirritaður af áfrýjendum. Þessir samningar við einkahlutafélög í eigu Bjarna um kaup á hlutum í Glitni banka hf., sem hafi verið tæplega 2% af heildarhlutafé í félaginu, hafi ekki verið hluti af starfslokasamningnum við hann, heldur „bara viðskipti tveggja aðila.“ Þessir kaupsamningar hafi verið gerðir í ljósi þess að félagið og Bjarni hafi verið einhuga um að æskilegt væri að rjúfa öll tengsl milli þeirra og hafi stjórn félagsins talið betra að það keypti hlutina en að Bjarni byði þá til sölu á markaði, enda hefði „þá myndast offramboð á bréfum og þá náttúrulega, samkvæmt lögmáli framboðs og eftirspurnar, þá lækkar verðið og það þjónar ekki hagsmunum hluthafa.“ Gengi hlutanna í þessum kaupum hafi átt rætur að rekja til hugmynda Bjarna, sem hann hafi stutt „gildum rökum“, og hafi verið „fallist á þau rök“, en skömmu áður hafi gengið verið talsvert hærra en það var 30. apríl 2007 og hafi staðið væntingar til að það myndi hækka frekar, sem hafi orðið raunin. Fyrir héraðsdómi gáfu einnig aðilaskýrslur áfrýjendurnir Björn Ingi Sveinsson, Haukur Guðjónsson og Katrín Pétursdóttir, en ekki er ástæða til að rekja efni þeirra.

Í málinu liggur fyrir að meðalgengi í viðskiptum með hluti í Glitni banka hf. í kauphöll hafi 30. apríl 2007 verið 26,66 krónur, en hæsta verð þann dag 26,95 og það lægsta 26,50 krónur. Fyrir þennan tíma hafi verðið komist þar hæst í 28,80 krónur 23. febrúar 2007, en á tímabilinu frá 28. júní til 9. ágúst 2007 og aftur 3. til 16. október sama ár hafi hæsta verð í viðskiptum verið um eða yfir 29 krónur á hlut og náð hámarki 19. júlí í 30,95 krónum. Í lok árs 2007 hafi meðalverð í viðskiptum í kauphöll á hinn bóginn verið 21,95 króna á hlut í Glitni banka hf. Fjármálaeftirlitið tók 7. október 2008 yfir vald hluthafafundar í Glitni banka hf., vék stjórn félagsins frá og setti skilanefnd yfir það á grundvelli 100. gr. a. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, en á aðalfundi í félaginu 20. febrúar 2008 höfðu áfrýjendur aðrir en Björn Ingi Sveinsson og Jón Sigurðsson gengið úr stjórn þess og aðrir tekið sæti þeirra. Eftir gögnum málsins má telja sýnt að hlutir í félaginu séu nú verðlausir.

II

Samkvæmt yfirliti frá Glitni banka hf., sem stefndi hefur lagt fram í málinu, gerðist hann hluthafi í félaginu 20. október 2004 og átti þar orðið 812.582 hluti 30. apríl 2007. Í fundargerð aðalfundar í félaginu 20. febrúar 2008 kom meðal annars fram að stefndi hafi tekið þar til máls í umræðum um skýrslu stjórnar um starfsemi félagsins á árinu 2007 og reikninga þess, gert athugasemdir um þau efni og greint frá því að hann hygðist „höfða mál gegn stjórnarmönnum bankans vegna starfsloka fyrrverandi forstjóra.“ Af því lét stefndi verða með því að höfða mál þetta 21. maí 2008 og beindi kröfum sínum fyrst í stað aðallega að áfrýjendum og til vara Glitni banka hf., en í þinghaldi 14. janúar 2009 féll hann frá kröfum á hendur félaginu. Samkvæmt málatilbúnaði stefnda telur hann áfrýjendur sem stjórnarmenn í félaginu hafa á fundi 30. apríl 2007 brotið gegn ákvæðum 76. gr. laga nr. 2/1995 og óskráðri meginreglu félagaréttar um jafnræði félagsmanna með því að gera áðurnefnda samninga við tvö einkahlutafélög í eigu Bjarna Ármannssonar um kaup á hlutum þeirra í Glitni banka hf. fyrir 29 krónur hvern þegar meðalgengi í viðskiptum í kauphöll hafi verið 26,66 krónur á hlut, en kaupverðið hafi þannig orðið 549.800.550 krónum hærra en markaðsverði nam. Einnig hafi stjórn félagsins skort viðhlítandi heimild til að láta það kaupa eigin hluti og virt að vettugi með kaupunum, sem hafi verið hluti af starfslokasamningi fráfarandi forstjóra, starfskjarastefnuna sem samþykkt hafi verið á aðalfundi 20. febrúar 2007, en að auki hafi í þessu efni verið brotið gegn svonefndri ráðdeildarreglu félagaréttar. Á þessum grunni krefur stefndi áfrýjendur um skaðabætur aðallega að fjárhæð 1.901.442 krónur, sem svari til mismunar á verðmæti áðurnefndra 812.582 hluta hans í Glitni banka hf. 30. apríl 2007 ef annars vegar er miðað við meðalgengi slíkra hluta í kauphöll þann dag, 26,66 krónur, og hins vegar kaupverðið í samningum félagsins við einkahlutafélög í eigu Bjarna Ármannssonar, 29 krónur. Stefndi skýrir varakröfu sína þannig að hann hafi átt 0,00551% hlutafjár í Glitni banka hf. 30. apríl 2007 þegar áfrýjendur hafi sem stjórnarmenn ákveðið að láta félagið greiða fyrir hluti í eigu einkahlutafélaganna tveggja 549.800.550 krónum meira en svaraði markaðsverði, en framangreint hlutfall af þeirri fjárhæð geri 30.290 krónur, sem stefndi krefst í skaðabætur að aðalkröfu frágenginni.

III

Samkvæmt 76. gr. laga nr. 2/1995 er stjórn hlutafélags óheimilt að gera neinar þær ráðstafanir, sem bersýnilega eru fallnar til að afla ákveðnum hluthöfum ótilhlýðilegra hagsmuna á kostnað annarra hluthafa eða félagsins. Um gildissvið þessa ákvæðis, sem tekur mið af almennri reglu um að stjórn hlutafélags beri að gæta jafnræðis milli hluthafa, verður að líta til þess að í 55. gr. laganna er hlutafélagi heimilað að eignast með kaupum eigin hluti, sem megi þó ekki vera fleiri en sem svarar 10% af hlutafé þess, en til slíkra ráðstafana þurfi heimild hluthafafundar til félagsstjórnar, sem aðeins megi veita tímabundið. Áskilið er í þessari lagagrein að heimild hluthafafundar þurfi að taka til hámarksfjölda hluta, sem félagið megi eignast, og „lægstu og hæstu fjárhæð“, sem reiða megi fram sem endurgjald. Í þessu felst að hluthafafundur getur að lögum heimilað stjórn að taka ákvörðun um að félag greiði í kaupum á eigin hlutum hærra eða lægra verð en nemur markaðsverði hverju sinni. Eðli máls samkvæmt felur 55. gr. laga nr. 2/1995 þannig í sér frávik frá fyrirmælum 76. gr. laganna um bann við því að félagsstjórn mismuni hluthöfum, enda getur félag ekki keypt eigin hluti af öðrum en hluthafa, sem eftir framansögðu má gera fyrir hærra eða lægra verð en markaðsverð í skjóli heimildar hluthafafundar. Með því að 55. gr. laganna setur hlutafélagi jafnframt þær skorður að eigin hlutir þess megi ekki fara fram úr 10% af hlutafénu er og ljóst að stjórn þess hvorki getur boðið né ber að bjóða öllum hluthöfum að ganga til slíkra kaupa með sömu kjörum.

Þegar áfrýjendur gerðu 30. apríl 2007 sem stjórnarmenn í Glitni banka hf. samninga um kaup félagsins á eigin hlutum af einkahlutafélögum Bjarna Ármannssonar var í gildi áðurgreind heimild, sem aðalfundur 20. febrúar sama ár hafði veitt stjórninni til slíkra ráðstafana. Í heimildinni var tekið fram að félagið mætti ekki eignast meira en 10% af hlutafé sínu, svo og að kaupverð eigin hluta mætti lægst verða 10% lægra og hæst 10% hærra en gengi á hlutunum í Kauphöll Íslands hf. Í málinu hefur því ekki verið borið við að kaupin, sem hér um ræðir, hafi orðið til þess að Glitnir banki hf. hafi eignast hærra hlutfall af hlutafé sínu en hluthafafundur hafði ákveðið og mælt var fyrir um í 1. mgr. 55. gr. laga nr. 2/1995. Með því að setja stjórn félagsins þær skorður að kaupverð eigin hluta mætti ekki víkja meira frá markaðsverði hlutanna í kauphöll en sem svaraði 10% á hverjum tíma, hvort heldur til lækkunar eða hækkunar, var jafnframt efnislega fullnægt þeim áskilnaði 3. mgr. sömu lagagreinar að tilgreina skuli í heimild hluthafafundar lægstu og hæstu fjárhæð, sem félag megi reiða fram í þessu skyni. Að þessu virtu voru ráðstafanir áfrýjenda, sem hér um ræðir, innan þeirra takmarka, sem ákvæði laga nr. 2/1995 og samþykkt aðalfundar Glitnis banka hf. 20. febrúar 2007 settu stjórn félagsins með tilliti til jafnræðis milli hluthafa við kaup þess á eigin hlutum. Verður því ekki fallist á með stefnda að þessar ráðstafanir hafi falið í sér brot á jafnræðisreglu gagnvart honum, sem varðað geti skaðabótaskyldu áfrýjenda.

Hér áður er í helstu atriðum greint frá málsástæðum, sem stefndi reisir málsókn sína á, en þeim er jafnframt nánar lýst í hinum áfrýjaða dómi. Ef frá er talin málsástæða hans, sem lýtur að broti gegn reglum um jafnræði hluthafa og afstaða hefur þegar verið tekin til, er þeim það sammerkt að þær eru reistar á ávirðingum í garð áfrýjenda vegna starfa þeirra í stjórn Glitnis banka hf., sem gætu ef réttar væru fellt á þau skaðabótaábyrgð gagnvart félaginu eða eftir atvikum refsiábyrgð, en ekki skaðabótaskyldu gagnvart einstökum hluthöfum. Verða áfrýjendur því sýknuð af kröfum stefnda.

Rétt er að aðilarnir beri hvert sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Áfrýjendur, Þorsteinn M. Jónsson, Björn Ingi Sveinsson, Haukur Guðjónsson, Jón Sigurðsson, Katrín Pétursdóttir, Pétur Guðmundarson og Skarphéðinn Berg Steinarsson, eru sýkn af kröfum stefnda, Vilhjálms Bjarnasonar.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 23. janúar 2009.

Mál þetta, sem var dómtekið 14. janúar sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Vilhjálmi Bjarnasyni, Hlíðarbyggð 20, Garðabæ, á hendur Þorsteini M. Jónssyni, Laufásvegi 73, Reykjavík, Birni Inga Sveinssyni, Kelduhvammi 12b, Hafnar­firði, Hauki Guðjónssyni, Sævarlandi 20, Reykjavík, Jóni Sigurðssyni, Unnarbraut 17, Seltjarnarnesi, Katrínu Pétursdóttur, Bakkavör 40, Seltjarnarnesi, Pétri Guðmundarsyni, Urriðakvísl 26, Reykjavík og Skarphéðni Berg Steinarssyni, Melhaga 1, Reykjavík, með stefnu birtri 21. maí 2008.

Dómkröfur stefnanda eru þær aðallega að stefndu verði dæmd in solidum til þess að greiða stefnanda 1.901.442 kr. með vöxtum skv. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 30. apríl 2007 til þingfestingardags, en frá þeim degi með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 til greiðsludags. 

Til vara að stefndu verði dæmd in solidum til þess að greiða stefnanda 30.290 kr. með vöxtum skv. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 30. apríl 2007 til þingfestingar­dags, en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðslu­dags.

Að stefndu verði dæmd in solidum til þess að greiða stefnanda málskostnað að mati réttarins.

Dómkröfur stefndu eru þær að þau verði sýknuð af kröfum stefnanda og þeim tildæmdur málskostnaður, auk virðisaukaskatts, úr hans hendi.

Málavextir.

Frá miðjum september 1997 hafði Bjarni Ármannsson verið forstjóri Glitnis banka hf. og forvera hans, Fjárfestingabanka atvinnulífsins. Hann lét af störfum 30. apríl 2007 og er mál þetta tilkomið vegna starfsloka hans.

Á aðalfundi Glitnis hf.  20. febrúar 2007, var samþykkt tillaga stjórnar þess efnis að aðalfundur veitti stjórninni heimild til þess að kaupa eigin hluti í félaginu. Heimildin var samþykkt til 18 mánaða. Kaupverð skyldi vera lægst 10% lægra og hæst 10% hærra en skráð kaup- eða sölugengi í Kauphöll Íslands hf. Á fundinum var einnig samþykkt  tillaga stjórnar um starfskjarastefnu bankans til samræmis við 79. gr. a laga nr. 2/1995 um hlutafélög. Þar kom fram að heimilt væri að veita forstjóra til viðbótar við föst laun, kaupaukagreiðslur, starfsfríðindi og árangurstengdar kaupauka­greiðslur. Í starfskjarastefnunni var að finna eftirfarandi ákvæði: „Greiðslur til stjórnenda við starfslok skulu að jafnaði einungis byggjast á viðeigandi ráðningar­samningi. Bankanum er þó heimilt við sérstakar aðstæður, ef slík ráðstöfun er í þágu bankans, að gera sérstaka starfslokasamninga við stjórnendur.“

Hinn 30. apríl 2007 var haldinn hluthafafundur í Glitni hf. og ný stjórn kosin. Hana skipuðu Þorsteinn M. Jónsson, Björn Ingi Sveinsson, Haukur Guðjónsson, Jón Sigurðsson, Katrín Pétursdóttir, Pétur Guðmundarson og Skarphéðinn Berg Steinars­son, þ.e. stefndu málsins. Lárus Welding var ráðinn bankastjóri. Daginn áður komu stefndu til óformlegs fundar og var þeim þá m.a. kynntur samningur við Bjarna Ármannson, sem gerður hafði verið með fyrirvara um samþykki stjórnar.

Hinn 30. apríl 2007 tók stjórnin þá ákvörðun að samþykkja samninginn um  kaup á hlutum Bjarna Ármannssonar í bankanum en það voru 234.957.500 hlutir. Kaupverð á hlut var 29 kr. Þannig nam kaupverðið 6.813.767.500 kr. Sama dag, þ.e. 30. apríl,  voru skráð 98 viðskipti í OMX Kauphöll Íslands með bréf í bankanum. Meðalverð á hlut var 26.66 kr. Hæsta verð þennan dag var 26.95 kr. og lægsta verð kr. 26.50.  Hinn 30. apríl 2007, var stefnandi hluthafi í Glitni hf. og átti hann 812.582 hluti.

Á aðalfundi Glitnis hf. hinn 20. febrúar 2008, tók stefnandi til máls og tilkynnti fundarmönnum að hann gerði athugasemdir og að hann hygðist höfða mál gegn stjórnarmönnum vegna starfsloka fyrrverandi forstjóra. Þannig óskaði hann þess að bókað yrði að hann greiddi atkvæði gegn ársreikningi bankans. Einnig óskaði hann ítarlegra svara um starfskjarastefnu bankans.

Hinn 11. apríl 2008 sendi lögmaður stefnanda bréf til Glitnis banka hf. og óskað m.a. upplýsinga um hvort að baki viðskiptunum með hlutabréfin hafi legið eldri samningur. Í svari Glitnis hf. frá 30. apríl 2008, kom fram að samningur um kaupin hefði verið gerður í tengslum við starfslok Bjarna Ármannssonar hinn 30. apríl 2007. Að baki viðskiptunum hefðu ekki legið fyrir eldri samningar.

Hinn 14. apríl 2008 óskaði lögmaður stefnanda eftir nánar tilgreindum upplýsingum frá OMX Kauphöll Íslands um viðskiptin með hlutabréfin. Í bréfi kauphallarinnar frá 23. apríl 2008 kom fram að kauphöllinni væri ekki kunnugt um samninga er legið hefðu að baki þessum viðskiptum. Þá kom fram í svarinu að fjöldi hluta hafi verið 234.957.500  og verð pr. hlut hefði verið 29, en meðalverð pr. hlut í stefnda Glitni hf.  hinn 30. apríl 2007, var 26.66 kr. 

Hinn 8. maí 2008 voru stefndu sendar kröfur um greiðslu skaðabóta til handa stefnanda. Með bréfi 14. maí 2008 var óskað eftir frekari skýringum á útreikningi kröfunnar.  Hann var sendur hinn 15. maí 2008.  Skaðabótaábyrgð stefndu var síðan hafnað með bréfi 16. maí 2008.  Því er mál þetta höfðað. 

Málsástæður og lagarök stefnanda.

Stefnandi byggir fyrst og fremst á því að brotin hafi verið jafnræðisregla félagaréttar sem aftur leiði til skaðabótaábyrgðar.

Í fyrsta lagi er byggt á því að stjórn Glitnis hf. sem hlutafélags, sem skráð er á opinberum hlutafélagamarkaði, sé háð ákvæðum laga nr. 2/1995 um hlutafélög, ákvæðum laga  um fjármálastarfsemi nr. 161/2002 og skráðum jafnt sem óskráðum grunnreglum um verðbréfaviðskipti fjármálafyrirtækja. Þannig sé það grunnregla félagaréttar að stjórnum félaga sé óheimilt að mismuna einstökum hluthöfum og gera þannig betur við aðra á kostnað hinna. Þessa reglu má finna í 76. gr. hlutafélagalaga nr. 2/1995: „Félagsstjórn, framkvæmdastjóri og aðrir þeir er hafa heimild til að koma fram fyrir hönd félagsins mega ekki gera neinar þær ráðstafanir sem bersýnilega eru fallnar til þess að afla ákveðnum hluthöfum eða öðrum ótilhlýðilegra hagsmuna á kostnað annarra hluthafa eða félagsins.“  

Í athugasemdum við frumvarp að hlutafélagalögum nr. 32/1978, kemur fram að með greininni sé verið að lögfesta þá meginreglu félagaréttar, að félagsstjórn beri að gæta hagsmuna allra hluthafa félagsins. Þá verður að krefjast þess af stjórn við­skiptabanka að viðskipti hennar með hluti í félaginu séu gerð af trúverðugleika, þannig að gætt sé fulls jafnræðis og hlutlægni, sbr. 6. gr. laga nr. 33/2003 um verð­bréfa­viðskipti sem í gildi voru á þessum tíma.  Þau viðskipti sem að framan eru rakin, þar sem stjórn bankans kaupir hluti fyrrverandi forstjóra á 549 milljónum króna yfir meðalverði geta varla talist samrýmast þessum meginreglum. Að greiða slíka fjárhæð að óþörfu til eins hluthafa feli í sér bersýnilega mismunun og aflar einum hluthafa ótilhlýðilegra hagsmuna á kostnað hinna. Þannig mátti stjórn Glitnis hf. ekki taka einn hluthafa þess út, jafnvel þótt hann hefði gegnt stöðu forstjóra, og gera við hann samning um kaup á bréfum hans á yfirverði sem öðrum hluthöfum bauðst ekki. Þannig mismunaði stjórnin hluthöfum og gerði betur við einn en aðra.  Þannig braut stjórn Glitnis hf. grunnreglu félagaréttar um jafnræði og 76. gr. hlutafélagalaga nr. 2/1995.

Í öðru lagi er byggt á því að stjórn Glitnis hf. geti ekki vísað um heimild sína til kaupheimildar á eigin hlutum sem samþykkt var á aðalfundi Glitnis hf. Sú heimild stríði gegn skýru lagaákvæði 76. gr. hlutafélagalaga nr. 2/1995. Þá stríði sú heimild gegn óskráðri jafnræðisreglu félagaréttar sem á við um hlutafélög. Þá hafi heimildin ekki verið í samræmi við 3. mgr. 55. gr. hlutafélagalaga nr. 2/1995, þar sem engin fjárhæð hafi verið tilgreind sem efri eða neðri mörk, heldur einungis hundraðshluti. Slíkt sé í andstöðu við skýrt orðalag ákvæðisins. Þá verði að túlka slíka heimild eftir ráðdeildar- og jafnræðisreglu. Þannig hafi stjórnin einungis notað heimild sína gagnvart einum hluthafa á kostnað hinna. Slíkt megi hún ekki út frá grunnreglu félagaréttar um jafnræði hluthafa.  

Í þriðja lagi er byggt á því að það geti ekki talist eðlilegt þegar stjórn hlutafélags kaupi hluti af forstjóra þess á yfirverði sem nemur um 8,77 hundraðs­hlutum af meðalverði þess dags sem kaupin fóru fram. Þannig hafi stjórn félagsins greitt fyrir hluti fyrrverandi forstjóra félagsins 549.800.550 kr. umfram það verð sem viðgengst á markaði þann dag sem viðskiptin fóru fram. Stjórn félagsins sé falið að fara vel með fjármuni bankans og það geti varla talist eðlileg ráðstöfun né ráðvönd að kaupa hluti á yfirverði sem nemur rúmum 549 milljónum króna. Stjórnarmönnum Glitnis hf. bar á þessum tíma að sýna ráðdeild og henni bar þannig að hafa hagsmuni félagsins og hluthafa í huga áður en slík viðskipti voru ákveðin. Þessi ákvörðun beri þess ekki merki heldur sé með henni verið að ausa úr sjóðum bankans fjármunum sem hefði verið hægt að ávaxta með betri hætti eða greiða út sem arð til hluthafa. 

Þá er á því byggt að félagið Glitnir hf. hafi enga þörf haft fyrir það að kaupa hluti Bjarna Ármannssonar, hvað þá á 8,77% yfirverði. Þannig sé um óþarfa eyðslu að ræða hjá stjórninni sem hún beri ábyrgð á skv. ráðdeildarreglu félagaréttar. Hér sé ekki um einsdæmi að ræða í ráðdeildarleysi stjórnarinnar. Þannig hafi  510 milljónir verið greiddar Frank O. Reite, við starfslok hans, en hann gegndi stöðu framkvæmda­stjóra hjá bankanum í Noregi í 3 ár.

Um sé að ræða ólögmæt sjálfsafgreiðsluviðskipti milli forstjóra og stjórnar bankans sem leitt hafi til tjóns fyrir bankann og hluthafa hans. Stjórn félagins hafi borið að láta hagsmuni félagsins og hluthafa ganga fyrir hagsmunum forstjórans. Viðskiptin bendi ekki til þess að svo hafi verið gert, þvert á móti. 

Í fjórða lagi byggir stefnandi á því að samningur sá sem gerður var við Bjarna Ármannsson, hafi brotið gegn þeirri starfskjarastefnu sem bankinn hafði sjálfur sett sér með heimild í 79. gr. a laga nr. 2/1995 um hlutafélög. Þannig hafi sá samningur sem gerður var ekki verið innan þeirra heimilda sem starfskjarastefnan fól í sér. Í starfskjarastefnu bankans segi að greiðslur til stjórnenda við starfslok skuli að jafnaði einungis byggjast á viðeigandi ráðningarsamningi. Bankinn hafi nú staðfest að sá samningur hafi ekki að geyma ákvæði um kaup á yfirverði og því hafi stjórnar­mönnum og bankanum verið óheimilt að semja um slíkt yfirverð. Þannig hafi samningur stjórnarmanna og bankans við fyrrverandi forstjóra ekki verið í þágu bankans, heldur þvert á móti.

Stefnandi heldur því fram að stjórn Glitnis hf. beri skaðabótaábyrgð gagnvart stefnanda. Þannig hafi stjórnin ekki gætt hagsmuna hluthafa er hún gekk frá umræddum viðskiptum. Hún hafi mismunað einstökum hluthöfum, ekki sýnt ráðdeild við meðferð á eignum félagsins og þannig valdið félaginu og um leið einstökum hluthöfum tjóni. Hún hafi þannig ekki virt þá grunnreglu sem er að finna í 76. gr. hlutafélagalaga nr. 2/1995 og eigi því með vísan til 134. gr. sömu laga að greiða skaðabætur til stefnanda.

Stefnandi telur að tjón sitt megi beinlínis rekja til athafna stefndu. Það hafi verið fyrirsjáanlegt bæði fyrir stefnanda og aðra hluthafa. Ef stjórn Glitnis hf. hefði boðið stefnanda að kaupa 812.582 hluti hans á genginu 29 í stað 26.66 hefði hann hagnast um 1.901.442 kr. Þannig er það í raun það tjón sem hann varð fyrir. Á sama hátt urðu aðrir hluthafar fyrir tjóni og þannig braut stjórn félagsins grunnregluna um jafnræði sem ríkja á milli hluthafa almenningshlutafélags sem skráð er á markaði.  

Þannig er á því byggt að stjórnarmenn Glitnis hf., þ.e. stefndu, hafi á ólög­mætan hátt, af ásetningi eða gáleysi, brotið skráðar sem óskráðar reglur hluta­félagaréttar, ákvæði laga nr. 2/1995 um hlutafélög og grunnreglu félagaréttar um jafnræði hluthafa og eigenda félaga.  Með þessu hafi stjórnin valdið stefnanda tjóni sem stjórnarmenn eigi með vísan til almennu sakarreglunnar og ákvæðis 134. gr. laga nr. 2/1995 að bæta þeim.

Aðalkrafa stefnanda miðast við að hann hafi hinn 30. apríl 2007, átt 812.582 hluti í Glitni hf.  Þann dag keypti stjórn bankans hluti forstjórans og hluthafans Bjarna Ármannssonar á genginu 29. Ef hún hefði boðið stefnanda að kaupa af honum hans hluti á þessum tíma hefði söluverð numið 23.564.878 kr.  Sama dag hefði hann svo getað keypt þessa hluti aftur á genginu 26.66 eða fyrir 21.663.436 kr. og hagnast þannig um 1.901.442.

Varakrafa stefnanda miðast við að heildarhlutafé Glitnis hf. hafi þennan dag verið 14.880.701.303 kr. Stjórn Glitnis hf. stóð hinn 30. apríl 2007 að kaupum á 234.957.500 hlutum forstjórans og hluthafans Bjarna Ármannssonar á genginu 29 en ekki 26,66 sem var meðalgengi þess dags. Þannig rýrnaði fé bankans að óþörfu um 549.800.550 kr. Hlutur stefnanda í heildarhlutafé bankans nam á þessum degi 0,00551 hundraðhlutum. Tap stefnanda sem hluthafa nam 30.290 kr. 

Málsástæður og lagarök stefnda

Krafa stefndu um sýknu er byggð á því að sú ákvörðun stjórnar á stjórnarfundi Glitnis banka hf., hinn 30. apríl 2007, að samþykkja samning um kaup á hlutabréfum fráfarandi forstjóra, hafi verið tekin með hagsmuni hluthafa og bankans í huga og byggðist hún á upplýstu mati stjórnarmanna á efnislegu innihaldi þess samnings er samþykktur var, að teknu tilliti til þess félags er átti í hlut og þeirra heimilda er stjórnarmenn höfðu.

Stefndu telja að því fari fjarri að stefnanda hafi tekist að sanna að hann hafi orðið fyrir skaðabótaskyldu tjóni vegna verka stefndu, en ljóst er að um kröfu stefn­anda gilda almennar skaðabótareglur, auk 2. ml. 1. mgr. 134. gr. laga um hlutafélög nr. 2/1995. Sönnunarbyrði um sök stefndu og tjón stefnanda hvílir alfarið á stefnanda og sú sönnun hefur ekki tekist.

Stefnandi byggir mál sitt á nokkrum málsástæðum. Í fyrsta lagi er á því byggt að stefndu hafi brotið grunnreglu félagaréttar um jafnræði og 76. gr. hlutafélagalaga. Í öðru lagi er á því byggt að stefndu geti ekki vísað um heimild sína til kaupheimildar á eigin hlutum sem samþykkt var á aðalfundi Glitnis banka hf. Sú heimild stríði gegn skýru lagaákvæði 76. gr. hlutafélagalaga, auk þess sem heimildin hafi ekki verið í samræmi við 3. mgr. 55. gr. hlutafélagalaga. Í þriðja lagi er á því byggt að það geti ekki talist eðlilegt að kaupa hlutabréf á hærra gengi en meðalverði viðskiptadags. Um hafi verið að ræða óþarfa eyðslu og ólögmæt sjálfsafgreiðsluviðskipti. Í fjórða lagi byggir stefnandi á að samningurinn hafi brotið gegn starfskjarastefnu Glitnis banka hf. sem sett var með heimild í 79. gr. a hlutafélagalaga  Öllum málsástæðum stefnanda er mótmælt sem tilhæfulausum.

Þar sem stefnandi rekur málið sem skaðabótamál ber honum að sýna fram á að hann hafi orðið fyrir tjóni og það tjón megi rekja til sakar stefndu. Sönnunarbyrðin er alfarið á hendi stefnanda. Sú sönnun hefur ekki tekist. Í stefnu er ekki reifað með hvaða hætti kaup Glitnis banka hf. á umræddum hlutabréfum leiddi til tjóns stefnanda. Ekki er reynt að sýna fram á hvernig hagur hluthafa versnaði vegna aðgerða stefndu og/eða Glitnis banka hf. eða af hverju hækkun bréfa í bankanum kom ekki stefnanda til góða eins og öðrum hluthöfum. Að mati stefnanda vantar í málsókn þessa rök­stuðn­ing fyrir framangreindu svo samhengi sé á milli málsástæðna og krafna stefnanda.

Mun nú farið í hverja og eina málsástæðu stefnanda fyrir sig, en fyrstu tveimur málsástæðunum verður svarað saman.

Um fyrstu og aðra málsástæðu stefnanda. Í 76. gr. hlutafélagalaga segir að þeir sem komi fram fyrir fyrirtæki megi ekki gera neinar þær ráðstafanir sem bersýnilega eru til þess fallnar að afla ákveðnum hluthöfum eða öðrum ótilhlýðilegra hagsmuna á kostnað annarra hluthafa eða félagsins. Enginn ágreiningur er um nauðsyn þessarar lagareglu. Því er aftur á móti harðlega mótmælt að stefndu hafi brotið jafnræðisreglu félagaréttar gagnvart stefnanda.

Stefndu telja augljóst að sú ákvörðun þeirra að samþykkja samning sem gerður var við Bjarna Ármannsson hafi ekki falið í sér ákvörðun sem var bersýnilega til þess fallin að afla honum ótilhlýðilegra hagsmuna á kostnað stefnanda, annarra hluthafa eða Glitnis banka hf.

Stefndu telja rétt að skýra aðdraganda forstjóraskiptanna. Hinn 30. apríl 2007 var Lárus Welding ráðinn forstjóri Glitnis banka hf. Tók hann við starfinu af Bjarna Ármannssyni sem hafði gegnt starfi forstjóra í 10 ár. Bankinn er í dag íslensk-norsk bankasamstæða með starfsemi í fjölda landa, sem þjónar viðskiptavinum víðsvegar að. Gefur að skilja að vanda þurfti vel til verka við forstjóraskiptin, enda er verðmyndun bankans á markaði, auk þess sem bankinn lýtur eftirliti hinna ýmsu aðila og matsfyrir­tæki meta hann með reglubundnum hætti, meðal annars lánshæfismati. Allar verulegar breytingar geta haft áhrif á skoðun markaðsaðila og matsfyrirtækja á bankanum og því nauðsynlegt að forstjóraskipti gangi greiðlega fyrir sig, ekki síst í ljósi þess að fráfarandi forstjóri var búinn að vera í starfi í 10 ár.

Eitt af þeim atriðum sem nauðsynlegt var að ræða ítarlega við forstjóraskiptin var uppgjör við fráfarandi bankastjóra, enda var hann stór hluthafi í bankanum á þeim tíma. Ljóst var frá upphafi viðræðna að báðir aðilar, það er bankinn annars vegar og fráfarandi forstjóri hins vegar, vildu að stór hluti hlutafjáreignar forstjóra yrði keyptur. Var ekki ágreiningur um það.

Viðræður fóru því af stað um það gengi sem nota átti til viðmiðunar kaup­unum, en ljóst var af hálfu Glitnis banka hf. að líta þyrfti til markaðsgengis bréfanna og þróunar verðmætis þeirra. Þess ber að geta að á tímabilinu frá byrjun maí 2006 fram í byrjun apríl 2007 hafði gengi bréfa bankans hækkað frá 17 og upp í 27, eða um 60%, en gengið hafði hæst farið í 28.80 hinn 23. febrúar 2007. Á þeim tíma var talið líklegt að gengi bankans myndi hækka frekar. Síðar kom í ljós að það mat manna var rétt, enda fór gengi bréfa í bankanum hæst í tæplega 31 um miðjan júlí 2007, eða um tveimur og hálfum mánuði eftir umrædd viðskipti með bréf fráfarandi bankastjóra.

Með allt þetta í huga var ákvörðun tekin um að bera undir fyrsta fund nýrrar stjórnar bankans, en í henni sátu stefndu, umræddan samning við fráfarandi forstjóra sem gerður hafði verið með fyrirvara um samþykki stjórnar. Umsamið var að hluta­bréf fráfarandi forstjóra yrðu keypt á genginu 29, en gengi bréfa í bankanum hafði farið hæst í tæplega þá fjárhæð síðustu vikurnar fyrir viðræður, auk þess sem væntingar aðila stóðu til frekari hækkana bréfanna, sem síðar gekk eftir.

Með vísan til þessa, eðlis starfseminnar og þess að fráfarandi forstjóri hafði samþykkt að vinna að því, í samstarfi við bankann og nýjan forstjóra, að forstjóra­skiptin gengju greiðlega fyrir sig, þar með talið með þeim ferðalögum til viðskipta­vina, lánveitenda og matsaðila er því fylgdu, þá tók ný stjórn þá upplýstu ákvörðun að samþykkja umræddan samning.  Þess ber að geta að fundinn sat sem ritari stjórnar þáverandi yfirlögfræðingur bankans, Einar Páll Tamimi. Aðspurður upplýsti hann stjórnarmenn um að það væri skoðun hans að umræddur samningur bryti ekki í bága við lög, samþykktir félagsins og fyrri ákvarðanir hluthafafundar.

Ákvörðun stjórnarmanna var því tekin með hagsmuni bankans að leiðarljósi og fól í sér það mat stjórnarmanna að samningur við Bjarna Ármannsson væri til hags­bóta fyrir bankann, innan heimilda stjórnar og í samræmi við þróun gengis bréfa í bankanum og væntingar aðila um frekari vöxt hans.

Við mat á viðmiðunargengi í viðskiptunum var tekið mið af markaðsgengi bréfanna, þróunar þeirra mánuðina þar á undan og væntingar stjórnenda bankans til gengisþróunar. Samningsaðilar voru sammála um að eðlilegt væri, að teknu tilliti til þess að Bjarni var að láta af störfum eftir 10 ára stjórnun bankans, að Glitnir banki hf. keypti verulegan hluta hlutabréfa hans. Það var grundvallarforsenda beggja aðila.

Hvorki jafnræðisregla félagaréttar né 76. gr. hlutafélagalaga gera það að skilyrði að viðskipti bankans með eigin bréf eigi sér ætíð stað á markaði á því gengi sem er þá stundina í kauphöll. Í 55. gr. hlutafélagalaga kemur það skýrt og greinilega fram að það samræmist jafnræðisreglu félagaréttar og 76. gr. hlutafélagalaga að hlutafélagi sé veitt heimild til að kaupa eigin bréf á hærra eða lægra verði en gerist á markaði. Ef slíkt væri talið ósamrýmanlegt jafnræðisreglu félagaréttar stæðist ákvæði laganna ekki.

Viðurkennt er að hluthafafundi sé heimilt að veita stjórn félags heimild til að kaupa eigin bréf. Ákvæði laganna um kaup á eigin bréfum er að rekja til annarrar félagaréttartilskipunar EB og er því fyrrgreint ekki einskorðað við Ísland.

Á grundvelli fyrrgreindrar heimildar var bankanum heimilt að kaupa hlutabréf fráfarandi forstjóra á hærra eða lægra gengi en markaðsgengi viðskiptadags, svo framarlega sem slíkt væri ekki bersýnlega til þess fallið að afla fráfarandi forstjóra ótilhlýðilegra hagsmuna á kostnað stefnanda og annarra hluthafa. Svo var ekki í  því tilviki sem hér um ræðir. Er þessari málsástæðu stefnanda því mótmælt.

Stefnandi heldur því einnig fram að umrædd heimild hafi ekki verið í samræmi við 3. mgr. 55. gr. hlutafélagalaga, þar sem engin fjárhæð hafi verið tilgreind sem efri eða neðri mörk. Slíkt sé í andstöðu við skýrt orðalag ákvæðisins. Því er mótmælt.

Þegar félög eru skráð á opinberum markaði þá er ekki nauðsynlegt að tiltaka sérstaka fjárhæð sem efri og neðri mörk heldur er nægilegt að tiltaka viðmið við kaup/sölugengi í kauphöll. Með slíkri tengingu er hámarks- og lágmarksfjárhæð skýr og greinileg á hverjum tíma. Ástæða þessa er sú að þar sem verðmyndun í Glitni banka hf. á sér stað á markaði, og því háð stöðugum breytingum, þá er ómögulegt að ákvarða hæsta og lægst verð í krónum. Réttara er að tiltaka í heimild hluthafafundar hlutfall af markaðsverði á hverjum tíma, líkt og gert var. Þessari málsástæðu er því mótmælt.

Um þriðju málsástæðu stefnanda. Þessari málsástæðu stefnanda er mótmælt. Það hefur þegar verið rakið hvernig lög um hlutafélög gera ráð fyrir því að félag geti keypt eigin hluti á hærra og lægra verði en meðalverði viðskiptadags. Stefndu benda einnig á að það var sameiginleg forsenda samningsaðila að Glitnir banki hf. myndi kaupa stóran hluta af hlutabréfaeign fráfarandi forstjóra í félaginu. Var því eðlilegt þegar um slíkt er að ræða að líta til gengisþróunar bréfa í Glitni banka hf., annarra atriða tengdum starfslokum og væntingar til gengisþróunar.

Því er mótmælt að um ólögmæt sjálfsafgreiðsluviðskipti hafi verið að ræða milli forstjóra og bankans, auk þess sem því er mótmælt að stefndu hafi látið hagsmuni fráfarandi forstjóra ganga fyrir hagsmunum bankans og hluthafa.

Stefndu telja einn besta mælikvarðann á ákvörðun þeirra vera viðbrögð markaðarins við forstjóraskiptunum og tilkynningum um kaup á hlutabréfum forstjóra. Telji hluthafar félagsins að forstjóraskipti og uppgjör við starfslok forstjóra, í þessu tilviki á hlutafjáreign hans, hafi skaðað félagið eða valdið því tjóni þá er það fljótt að koma í ljós í viðskiptum með hlutabréf í bankanum. Í kjölfar umræddra viðskipta lækkuðu hlutabréf ekki í bankanum. Í raun hækkaði gengi bréfanna ört og fór hæst í tæplega 31 þann 19. júlí 2007, sem er um 16% hækkun á tveimur og hálfum mánuði. Sýnir þetta að mati stefndu svo ekki verður um villst að fjárfestar á markaði töldu umræddan samning ekki neikvæðan fyrir bankann.

Það sem skiptir einna mestu máli hvað varðar meinta skaðabótaábyrgð stefndu er að ákvörðun stjórnar sem byggð er á mati þeirra, mati sem framkvæmt er á upplýstan hátt í góðri trú um réttmæti ákvörðunar og með hagsmuni hluthafa og félags að leiðarljósi, hefur ekki í för með sér skaðabótaskyldu, þrátt fyrir að síðar komi í ljós að matið hafi verið rangt. Í því tilfelli sem hér um ræðir var matið rétt og framkvæmt með hagsmuni hluthafa og bankans í huga. Gengi hlutabréfa í bankanum hækkaði eftir að ákvörðun var tekin og því ómögulegt að gera sér grein fyrir því tjóni sem stefnandi kveður sig hafa orðið fyrir. Málsástæðu þessari er því mótmælt.

Um fjórðu málsástæðu stefnanda. Því er haldið fram af hálfu stefnanda að ákvörðun stefndu um að samþykkja samning um kaup á hlutafé fráfarandi forstjóra bankans hafi brotið gegn starfskjarastefnu sem samþykkt var á aðalfundi bankans hinn 20. febrúar 2007. Þessu er mótmælt.

Eins og fram kemur í fundargerð aðalfundar Glitnis banka hf., nær starfskjara­stefnan yfir helstu grundvallaratriði í starfs- og launakjörum forstjóra og stjórnenda bankans. Greiðslur til stjórnenda við starfslok skulu að jafnaði einungis byggjast á viðeigandi ráðningarsamningi. Bankanum sé þó heimilt við sérstakar aðstæður, ef slík ráðstöfun er í þágu bankans, að gera sérstaka starfslokasamninga við stjórnendur. Kemur síðan fram að starfskjarastefnan sé leiðbeinandi fyrir stjórn bankans.

Af þessu er ljóst að það að gera samning við fráfarandi forstjóra, sem stjórnaði bankanum í 10 ár með þeim árangri að virði hans tuttugufaldaðist, um kaup á hluta­bréfum í hans eigu á genginu 29 braut ekki í bága við samþykkta starfskjarastefnu.

Fyrir það fyrsta eru reglur starfskjarastefnunnar leiðbeinandi og greiðslur stjórnenda skuli að jafnaði byggjast á viðeigandi ráðningarsamningi. Með vísan til þess getur ákvörðun stjórnar sem ekki byggist á starfskjarastefnunni, sem á þó ekki við hér, aldrei bakað stjórnarmeðlimum skaðabótaskyldu vegna brots á starfskjara­stefnunni, enda er hún leiðbeinandi.

Í tilviki stefndu var mat þeirra, meðal annars með vísan til heimildar hluthafafundar byggðri á 55. gr. hlutafélagalaga, að um mjög sérstakar aðstæður væri að ræða, auk þess sem ákvörðun um kaup á hlutafé fráfarandi forstjóra var að mati stefndu í þágu hluthafa og Glitnis banka hf. samanber það sem fyrr hefur komið fram. Ekkert í málinu sýnir að fyrrgreint mat stefndu hafi verið rangt, óskuldbindandi eða baki þeim skaðabótaskyldu gagnvart hluthöfum bankans, hvorki með vísan til almennra skaðabótareglna né 134. gr. hlutafélagalaga  Er málsástæðum þessum því mótmælt.

Að lokum vilja stefndu ítreka að samkvæmt meginreglum félagaréttar þá skapar ákvörðun stjórnenda félags, ákvörðun sem tekin er samkvæmt mati þeirra, í góðri trú og með hagsmuni hluthafa og félags að leiðarljósi, þeim ekki skaða­bótaskyldu. Þarf frekari rökstuðnings við eigi skaðabótaskylda að koma til. Stefndu fylgdu samþykktum bankans, ákvörðunum hluthafafundar, eigin samvisku og lögum nr. 2/1995 í hvívetna er ákvörðun var tekin um að samþykkja kaup á hlutafé fráfarandi bankastjóra á genginu 29. Sú ákvörðun var upplýst, tekin eftir mat á eðli viðskiptanna, gengisþróun hlutafjár í bankanum og eftir upplýsingar yfirlögfræðings bankans um að samningurinn bryti ekki í bága við samþykktir félagsins, lög og ákvarðanir hluthafafundar.

Vilja stefndu árétta og leggja áherslu á að markaðir hafa breyst gríðarlega síðastliðið ár. Aðstæður í þjóðfélaginu, og í raun heiminum öllum, eru allt aðrar en þær voru í lok apríl 2007. Mat á því hvort ákvörðun sé skaðabótaskyld eða ekki verður að miðast við aðstæður á þeim tíma sem ákvörðun er tekin en ekki á þeim tímapunkti sem málshöfðun á sér stað eða síðar.

Viðskipti með hlutabréf eru í eðli sínu áhættufjárfesting. Gengi bréfa getur breyst ört og þarf það á engan hátt að endurspegla hæfni stjórnenda félagsins, fremur markaðsaðstæður hverju sinni. Stefnandi hefði hæglega getað selt hlutabréf sín tveimur mánuðum eftir umrædd viðskipti og hagnast verulega að teknu tilliti til þess gengis er samþykkt var í viðskiptum við fráfarandi bankastjóra. Stefnandi kaus þó, eftir því sem stefndu best vita, að selja ekki bréf sín á því tímamarki og verður að bera hallan af því.

Því er alfarið mótmælt að stefnandi geti, rúmlega ári eftir ákveðin viðskipti og þegar gengi hlutabréfa hefur lækkað umtalsvert, komið og krafist skaðabóta sér til handa á grundvelli viðskiptanna. Benda má á að stefnandi samþykkti á aðalfundi hinn 20. febrúar 2007, bæði heimild til kaupa á eigin bréfum félagsins á 10% hærra og lægra gengi en markaðsgengi og starfskjarastefnu félagsins. Getur hann því ekki komið í dag og sagt heimild og starfskjarastefnu ólögmæta. Slíkt gengur ekki og er ekki í samræmi við lög og reglur um viðskipti með hlutabréf. Stefnanda, sem gefur sig út fyrir að vera sérfræðingur á sviði hlutafjárviðskipta, ætti að vera þetta kunnugt.

Um dómkröfur stefnanda. Aðalkrafa stefnanda að fjárhæð 1.901.442 krónur er byggð á mismun söluverðs hlutafjár stefnanda í Glitni banka hf. miðað við gengið 29 annars vegar og hins vegar gengið 26.66. Varakrafa stefnanda að fjárhæð 30.290 krónur er byggð á meintu tjóni hans af umþrættum viðskiptum að teknu tilliti til hlutdeildar hans í heildarhlutafé bankans. Báðum kröfum stefnanda er mótmælt.

Fyrir það fyrsta vilja stefndu benda á að ómögulegt er fyrir þá að gera sér grein fyrir því hvort fjárhæðir krafna stefnanda séu byggðar á hlutafjáreign stefnanda í bankanum. Ástæða þessa er sú að í gögnum málsins eru engar upplýsingar um hluta­fjáreign stefnanda. Stefndu geta því ekki gert sér grein fyrir því hvort stefnandi hafi átt 812.582 hluti í Glitni banka hf. hinn 30. apríl 2007, meira eða minna.

Við þetta má bæta að það er meginregla í skaðabótarétti að einungis ber að bæta sannað tjón en ekki ímyndað eða áætlað. Sönnunarbyrðin um að stefnandi hafi orðið fyrir tjóni er alfarið hjá stefnanda sjálfum, meintum tjónþola. Slík sönnun hefur ekki tekist. Báðar kröfur stefnanda eru byggðar á ímyndaðri atburðarrás, það er hefðu ákveðnir atburðir gerst þá hefði tjón stefnanda orðið að ákveðinni fjárhæð. Slíkt er ekki í samræmi við sönnunarreglur skaðabótaréttar, enda ber stefnanda að sanna raunverulegt tjón sitt af meintri skaðabótaskyldri ákvörðun.

Hvað varðar kröfu um skaðabætur á grundvelli almennra skaðabótareglna þá er markmið skaðabóta að gera tjónþola eins settan og hann var fyrir tjónið. Stefndu sjá ekki, með vísan til þessa markmiðs skaðabóta, hvaða tjóni stefnandi hefur orðið fyrir. Eftir umþrætt viðskipti var staða stefnanda sú sama, það er hann átti sama eignarhluta í bankanum, virði þess eignarhluta skertist ekki, þvert í mót jókst virði eignarhluta hans. Stefnandi var því eins eða betur settur fyrir og eftir umræddan samning. Ekkert tjón er til staðar og engin orsakatengsl milli starfshátta bankans og meints tjóns.

Ekkert liggur fyrir um að stefnandi hefði selt hlutafé sitt á genginu 29 hefði honum verið það boðið. Hafi stefnandi haft áhuga á því að selja hlutafé sitt á umræddu gengi hinn 30. apríl 2007 eða næstu daga þar á eftir og teldi hann stefndu eða bankann hafa brotið á rétti sínum með samningi við fráfarandi forstjóra, þá hefði verið hægur leikur fyrir stefnanda að krefjast þess þá þegar að bankinn keypti hlutafé hans á umræddu gengi. Það gerði hann ekki og hefur í raun ekki enn krafist þess. Sönnunarbyrði um að stefnandi hafi orðið fyrir tjóni liggur alfarið hjá honum og sú sönnun hefur ekki tekist.

Sé það rétt að stefnandi teldi umrætt gengi, það er 29, það hagstætt, þá er erfitt að sjá af hverju hann seldi ekki hlutafé sitt í bankanum einhvern tíma á tímabilinu 28. júní 2007 til 9. ágúst 2007, en þann tíma var gengi hlutafjár í bankanum yfir 29 og fór hæst í tæplega 31. Að mati stefndu sýnir þetta að stefnandi hafði trú á Glitni banka hf., líkt og stefndu, og hafði ekki hug á því að selja bréf sín í bankanum og því varð hann ekki fyrir tjóni hinn 30. apríl 2007.

Að mati stefndu er því fullljóst að hvorki skilyrði sakarreglunnar né 134. gr. hlutafélagalaga eru uppfyllt. Ekki er um brot á samþykktum Glitnis banka eða lögum nr. 2/1995 að ræða. Gáleysi er ekki sannað, ólögmætið er ekkert og tjónið ekki til staðar. Orsakatengsl á milli háttsemi bankans og meints tjóns er vanreifað í stefnu og ómögulegt fyrir bankann að gera sér grein fyrir því.

Hvað varðar varakröfu stefnanda þá virðist hún byggð á því að hlutafjáreign hans hafi orðið verðminni eftir viðskiptin en fyrir. Er ómögulegt að sjá rökin að baki því, enda er krafan ekki rökstudd á nokkurn hátt í stefnu. Verðmæti hlutafjár stefnanda jókst þvert á móti næstu daga, vikur og mánuði eftir viðskiptin.

Það að félag á markaði kjósi að nota hluta fjármuna sinna í viðskipti sem hluthafar þess eru ekki sáttir með gerir það ekki að verkum að stjórnarmenn í félaginu verði skaðabótaskyldir gagnvart hluthöfum. Verk stjórnarmanna eru metin á markaði og markaðurinn leit þau ekki neikvæðum augum.

Með vísan til framangreinds er öllum málsástæðum og rökum stefnanda því mótmælt.

Varðandi dráttarvaxtakröfu stefnanda þá er henni mótmælt, enda enn ekki komnar fram þær upplýsingar sem þörf er á til að meta fjárhæð bóta, sbr. 2. mgr. 9. gr. laga nr. 38/2001.

Um málskostnað vísa stefndu  til 1. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Krafa um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun er reist á lögum nr. 50/1988, þar sem lögmönnum er gert að innheimta virðisaukaskatt af þjónustu sinni. Stefndu eru ekki virðisaukaskattskyld og því ber þeim nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefnanda.

Forsendur og niðurstaða

Ágreiningur málsins lýtur að því hvort stefndu, sem skipuðu stjórn Glitnis banka hf., hafi verið heimilt að kaupa fyrir hönd bankans hlut Bjarna Ármannssonar í Glitni banka hf. á genginu 29.  Og ef ekki, hvort þau hafi bakað sér skaðabótaábyrgð.

Stefndu voru kosin í stjórn Glitnis banka hf. á hluthafafundi 30. apríl 2007. Samkvæmt 68. gr. laga um hlutafélög nr. 2/1995 fer stjórnin með málefni félagsins og ber meðal annars að gæta þess að starfsemi félagsins sé í réttu og góðu horfi. Meginverkefni stjórnar og jafnframt skylda hennar er því að gæta hagsmuna félagsins og einnig þar með að gæta hagsmuna allra hluthafa. Samkvæmt 76. gr. hlutafélagalaga er félagsstjórn ekki heimilt að gera neinar þær ráðstafanir sem bersýnilega eru fallnar til þess að afla ákveðnum hluthöfum eða öðrum ótilhlýðilegra hagsmuna á kostnað annarra hluthafa eða félagins. Stefnandi byggir á því að með þeirri ráðstöfun sinni að kaupa hlutabréf Bjarna Ármannsson í Glitni banka hf. á genginu 29 hafi stefndu brotið gegn 76. gr. hlutafélaga.

Hinn 30. apríl 2007 lét Bjarni Ármannsson af starfi sem forstjóri Glitnis banka hf. eftir tíu ára starf. Samkvæmt gögnum málsins fékk hann m.a. við starfslok sín í sinn hlut 571 milljón króna en inni í þeirri fjárhæð eru laun hans allt árið 2007, þ.e. 90 millj. kr. Fyrir dómi upplýsti Bjarni að hann hefði þegar endurgreitt bankanum 370 millj. kr. Vegna starfsloka Bjarna óskaði hann eftir því að hlutir hans í bankanum yrðu keyptir á 29 kr. hver hlutur, en meðalmarkaðsvirði þann dag var 26.66. Fyrir öll hlutabréfin á genginu 29 fékk Bjarni greiddar rúmar 6,813 milljónir kr. Vegna þessa mismunar á genginu fékk hann í sinn hlut 549.800.550 kr. og lýtur ágreiningur málsins að þeirri fjárhæð. Við starfi Bjarna tók Lárus Welding. Samkvæmt kaupréttar­samningi bankans við hann var verð á hverjum hlut til hans 26.66  Sá samningur var gerður 2. maí 2007. 

Að mati dómsins brutu stefndu ákvæði 76. gr. hlutafélagalaga með því að gera samning við Bjarna Ármannsson um kaup á hlutum hans á genginu 29. Öðrum hlut­höfum var ekki boðið slíkt verð fyrir sína hluti. Dómurinn lítur svo á að ráðstöfun þessi sé bersýnilega fallin til þess að afla Bjarna óhæfilegra hagsmuna á kostnað bankans og annarra hluthafa í bankanum. Þá hafa stefndu ekki sýnt fram á með haldbærum rökum að þörf hafi verið fyrir bankann að greiða Bjarna yfirverð fyrir hluti hans í bankanum. Hér er um gífurlegar fjárhæðir að ræða sem stjórnin samþykkti að greiða Bjarna. Skiptir hér engu máli þótt þetta sé aðeins lítill hluti af markaðsvirði bankans.

Ágreiningslaust er að meðalgengi hluta í Glitni banka hf. hinn 30. apríl 2007 var 26.66. Bjarni vildi hins vegar fá 29 kr. á hlut. Því hefur ekki verið haldið fram að stjórnin hafi reynt að semja við Bjarna um lægri fjárhæð, heldur hafi hún einfaldlega orðið við kröfu Bjarna. Af þessu tilefni er rétt að líta á gengi hluta í bankanum og er hér miðað við dagslokaverðið. Í ársbyrjun 2007 var gengið 23.60 og í árslok 21.95. Fyrstu fjóra mánuði ársins 2007 fór gengið hæst í 28.30, hinn 26. febrúar 2007 eða tveimur mánuðum fyrir starfslok Bjarna. Þann eina dag var gengi bankans yfir 28. Gengið var t.d. 25.50 hinn 25. apríl 2007 og fór annars hæst að öðru leyti á þessum mánuðum í 27.70, þ.e. hinn 8. mars 2007. Að jafnaði var gengið á milli 26 og 27.10 á þessu tímabili. Það var einungis á tímabilinu 10. júlí–8. ágúst 2007 og aftur 4.–15. október 2007 sem gengið var 29 og hærra og endaði svo eins og áður segir í 21.95 í árslok 2007. Miðað við gengi hluta fyrstu fjóra mánuði ársins voru engin rök til þess hjá stefndu að kaupa hlutabréfin á genginu 29. Að mati dómsins var hér um ólögmæta ákvörðun að ræða. 

Þótt Bjarni Ármannsson hafi, að áliti stefndu, staðið sig vel í starfi og það hafi verið sameiginlegur vilji bankans og Bjarna Ármannssonar að slíta á tengsl hans við bankann við starfslok hans, þá var það ólögmætt að greiða honum yfirverð fyrir hluti hans í bankanum. Hann hafði gegnt störfum í bankanum í tíu ár og eins og framan greinir fengið í sinn hlut við starfslokin rúmar 6,835 millj. kr.  Það að greiða Bjarna til viðbótar yfirverð fyrir hluti sína í bankanum við þessar aðstæður er ráðstöfun sem bersýnilega er fallin til þess að afla honum ótilhlýðilegra hagsmuna á kostnað bankans og annarra hluthafa og fellur undir háttsemi þá sem 76. gr. hlutafélagalaga tekur til.

Dómurinn hafnar þeirri málsástæðu stefndu, að ef stjórnin hefði ekki gengið að kaupum á hlut Bjarna á yfirgengi þá hefði hann sett bréfin í sölumeðferð sem hefði leitt til offramboðs bréfa með þeim afleiðingum að gengi bréfanna hefði lækkað. Að mati dómsins er hér um hreinar getgátur að ræða og ekki trúverðugar. Engin rök eru fyrir þessari málsástæðu og er hún haldlaus.

Samkvæmt 2. mgr. 55. gr. hlutafélagalaga getur félag aðeins eignast hluti í félaginu samkvæmt heimild hluthafafundar. Samkvæmt 3. mgr. sömu greinar verður í heimildinni að greina lægstu og hæstu fjárhæð sem félagið má reiða fram sem endur­gjald fyrir hlutina. Á aðalfundi bankans hinn 20. febrúar 2007 veitti hluthafafundur stjórn bankans heimild til að kaupa eigin hluti í félaginu. Þar er miðað við lægst 10% lægra verði og hæst 10% hærra verði en skráð kaup- eða sölugengi í Kauphöllinni er. Ljóst er að hér er um misræmi að ræða þar sem lögin kveða á um að heimildin verði að vera bundin við fjárhæð en ekki tilgreindan hundraðshluta miðað við skráð kaup- eða sölugengi. Þótt stefndu hafi borið því við að auðveldara sé að miða við hundraðshluta af markverðsverði og það sé gert í dönskum rétti, þá breyti það því ekki að ákvæði 3. mgr. 55. gr. hlutafélagalaganna kveða á um ákveðnar fjárhæðir. Engin mörk eru tilgreind í ákvæðinu og er því hluthafafundi heimilt að tilgreina hvaða fjárhæðir sem er. Stjórnin verður eftir sem áður að miða ráðstafanir sínar við hagsmuni félagsins og hlutahafa. Í ljósi þess hvernig heimild hluthafafundar frá 20. febrúar 2007 er orðuð og með vísan til 3. mgr. 55. gr. hlutafélagalaganna lítur dómurinn svo á að stjórninni hafi einnig af þessum orsökum skort heimild til að kaupa hlut Bjarna í bankanum á yfirverði.

Með lögum nr. 89/2006, sem tóku gildi 1. október 2006, var gerð breyting á lögum um hlutafélög nr. 2/1995. Við hlutafélagalögin frá 1995 bættist ný grein, þ.e. 79. gr. a. Þar er kveðið á um skyldu stjórnar félags til að samþykkja starfskjarastefnu félags varðandi laun og aðrar greiðslur til forstjóra og annarra æðstu stjórnenda félagsins. Samkvæmt 79. gr. a skal jafnframt koma fram í starfskjarastefnunni hvort og þá við hvaða aðstæður og innan hvaða ramma heimilt sé að greiða eða umbuna stjórnendum og stjórnarmönnum til viðbótar grunnlaunum, m.a. eins og segir í 3. tl. 1. mgr. 79. gr. a, í formi:  „Hlutabréfa, kaup- og söluréttar, forkaupsréttar og annars konar greiðslna sem tengdar eru hlutabréfum í félaginu eða þróun verðs á hlutabréfum í félaginu.“  Samkvæmt 2. mgr. 79. gr. a er starfskjarastefnan bindandi fyrir félags­stjórnina að því er varðar greiðslur skv. fyrrgreindum 3. tölul. 1. mgr. Að öðru leyti er starfskjarastefnan leiðbeinandi fyrir félagsstjórnina nema ákveðið hafi verið í samþykktum félagsins að hún skuli vera bindandi.

Í athugasemdum með frumvarpinu sem lagt var fram á Alþingi árið 2006 kemur fram að ástæða þessa ákvæðis séu hneykslismál sem komið hafi upp erlendis vegna óhóflegra starfskjarasamninga stjórnenda. Þessi mál hafi einnig átt þátt í því að vekja menn til umhugsunar um það hvernig fyrirtækjum sé stjórnað hér að landi og hvernig koma megi í veg fyrir að svipuð hneykslismál komi upp hérlendis.  Hneykslismálin dragi úr trausti almennings og fjárfesta á viðskiptalífinu og fjármála­mörkuðum. Markmiðið með þessu nýja ákvæði var meðal annars að styrkja íslenskt efnahagslíf.

Á aðalfundi Glitnis banka hf. hinn 20. febrúar 2007 var samþykkt starfskjara­stefna bankans. Þar segir m.a. að starfskjarastefnan nái yfir helstu grundvallaratriði í starfs- og launakjörum forstjóra og stjórnenda. Svo segir: „Greiðslur til stjórnenda við starfslok skuli að jafnaði einungis byggjast á viðeigandi ráðningarsamningi.  Bankanum  er þó heimilt við sérstakar aðstæður, ef slík ráðstöfun er í þágu bankans, að gera sérstaka starfslokasamninga við stjórnendur.“ Þá segir að starfskjarastefnan sé til leiðbeiningar fyrir stjórn Glitnis banka hf. mæli lög ekki fyrir um annað.

Fram kom við skýrslutöku fyrir dómi af Þorsteini M. Jónssyni og Bjarna Ármannssyni að bankinn gerði starfslokasamning við Bjarna Ármannsson er hann hætti störfum. Samningurinn liggur ekki fyrir í málinu, en báðir báru það fyrir dómi að um trúnaðarmál væri að ræða. Fyrir dómi hafa stefndu neitað því að kaup bankans á hlutabréfum Bjarna hafi verið hluti af starfslokasamningnum. Við blasir að kaupin voru gerð vegna starfsloka Bjarna hjá bankanum. Gegn neitun stefndu, og með vísan til þess að samningurinn hafi ekki verið lagður fram, og þess sem að framan greinir, lítur dómurinn svo á að ósannað sé að kaup bankans á hlutabréfunum á yfirverði sé ekki hluti af samningskjörum Bjarna við starfslok hans.

Í fyrirliggjandi yfirlýsingu frá Glitni banka hf. frá 30. apríl 2008 kemur fram að ekki aðrir samningar en þeir sem gerðir voru 30. apríl 2007 lágu til grundvallar kaupum bankans á bréfum Bjarna Ármannssonar. Samkvæmt framangreindri starfskjarastefnu Glitnis hf. var engin heimild til þess fyrir stjórn bankans að kaupa hlutabréf Bjarna á yfirverði við starfslok hans. Braut því þessi ráðstöfun stefndu einnig í bága við 1. og 2. mgr. 79. gr. a hlutafélagalaganna.

Samkvæmt 4. mgr. 79. gr. a hlutafélagalaganna skal rökstyðja í gerðabók félagsstjórnar ef vikið er frá starfskjarastefnu félagsins.  Gerðabókin liggur ekki fyrir í málinu, en aðspurður fyrir dómi minnist ritari stjórnar, Einar Páll Tamimi, þess ekki að svo hafi verið gert.

Stefndu byggja á því að þeir hafi tekið ákvörðun um kaup á hlutum Bjarna Ármannssonar eftir að yfirlögfræðingur bankans hafi lagt blessun sína yfir samn­inginn. Að mati dómsins er málsástæða þessi haldslaus. Stefndu skipuðu stjórn hlutafélagsins. Á þeim hvíldu skyldur samkvæmt hlutafélagalögum. Á þeim hvílir einnig ábyrgð samkvæmt sömu lögum. Því þýðir ekki fyrir stefndu að skýla sér á bak við starfsmann bankans, þótt yfirlögfræðingur sé.

Þegar á allt framangreint er litið er það niðurstaða dómsins að stjórn Glitnis banka hf., þ.e. stefndu, hafi hvorki gætt hagsmuna bankans né hluthafa er hún gekk frá kaupum á hlutum Bjarna Ármannssonar á yfirverði. Stjórnin mismunaði einnig hluthöfum bankans. Henni bar að sýna ráðdeild við meðferð eigna bankans en það gerði hún ekki í þessu tilfelli. Niðurstaða dómsins er því sú að stefndu hafi bakað sér skaðabótaábyrgð með samningsgerð þessari og beri því með vísan til 134. gr. hlutafélagalaga og almennu skaðabótareglunnar að greiða stefnanda bætur.

Aðalkrafa stefnanda byggist á því að honum beri bætur að fjárhæð 1.901.442 kr. þar sem honum hafi ekki verið gefinn kostur á því að selja bankanum hlutabréf sín á genginu 29 og kaupa þau aftur á genginu 26.66. Þar sem stjórn Glitnis hf., þ.e. stefndu, öfluðu Bjarna Ármannssyni ótilhlýðilegra hagsmuna á kostnað annarra hluthafa og félagsins, þá mismunuðu þau hluthöfum bankans. Stefndu bera ábyrgð á því. Með því að fyrir liggur gengi er hlutir Bjarna Ármannsonar voru keyptir á, svo og meðalverð á hvern hlut samkvæmt gengi í Kauphöllinni þennan dag, þá telst nægjanlega sannað að stefnandi hafi orðið af hagnaðarvon vegna þessarar ólögmætu ráðstöfunar stefndu. Ekki er tölulegur ágreiningur í málinu. Ber því  að taka aðalkröfu stefnanda til greina.  Bæturnar skulu bera vexti skv. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 30. apríl 2007 til þingfestingardags sem var 21. maí 2008, en dráttarvexti skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi og til greiðsludags 

Með vísan til 130. gr. laga um meðferð einkamála ber stefndu in solidum að greiða stefnanda málskostnað, sem ákveðst 900.000 kr. og hefur þá ekki verið tekið tillit til virðisaukaskatts.

Af hálfu stefnanda flutti málið Guðni Á. Haraldsson hrl.

Af hálfu stefndu flutti málið Ólafur Eiríksson hrl.

Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

                                DÓMSORÐ

Stefndu,  Þorsteinn M. Jónsson, Björn Ingi Sveinsson, Haukur Guðjónsson, Jón Sigurðsson, Katrín Pétursdóttir, Pétur Guðmundarson og  Skarphéðinn Berg Steinarsson, greiði stefnanda, Vilhjálmi Bjarnasyni, in solidum 1.901.442 kr. með vöxtum skv. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 30. apríl 2007 til 21. maí 2008, en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags  og 900.000 kr. í málskostnað.