Hæstiréttur íslands

Mál nr. 498/1998


Lykilorð

  • Kynferðisbrot
  • Miskabætur
  • Sérálit


                                                                                                                 

Miðvikudaginn 21. apríl 1999.

Nr. 498/1998.

Ákæruvaldið

(Sigríður J. Friðjónsdóttir saksóknari)

gegn

Sveinbirni Ólafi Sigurðssyni

(Steingrímur Gautur Kristjánsson hrl.)

Kynferðisbrot. Miskabætur. Sérálit.

S var ákærður fyrir nauðgun með því að hafa með líkamlegu ofbeldi þröngvað konunni K til holdlegs samræðis á heimili S. Talið var sannað með hliðsjón af framburði brotaþola og vitna að S hefði brotið gegn 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Var niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu og ákvörðun viðurlaga staðfest og K dæmdar miskabætur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Pétur Kr. Hafstein, Guðrún Erlendsdóttir, Haraldur Henrysson, Hjörtur Torfason og Hrafn Bragason.

Málinu var skotið til Hæstaréttar 14. desember 1998 að ósk ákærða. Krefst ákæruvaldið staðfestingar héraðsdóms, að því er sakfellingu varðar, en þyngingar á refsingu og hækkunar á dæmdri bótafjárhæð.

Ákærði krefst aðallega ómerkingar héraðsdóms og heimvísunar málsins til annarrar meðferðar og dómsálagningar að nýju. Til vara krefst hann sýknu og frávísunar bótakröfu, en til þrautavara vægustu refsingar, sem lög leyfa, og að bætur verði lækkaðar frá því sem dæmt var í héraði.

Málavöxtum er lýst í héraðsdómi. Þar kemur fram að eftir dvöl kæranda og ákærða í íbúð hans aðfaranótt 23. ágúst 1997 ók ákærði stúlkunni í Grafarvog, eins og hún hafði óskað eftir. Segist hún hafa verið grátandi á leiðinni þangað. Ákærði kannast ekki við þetta og kveðst ekki hafa tekið eftir að stúlkan hafi verið í uppnámi. Í  beinu framhaldi þess að stúlkan fór úr bíl ákærða kom hún heim til vinkonu sinnar. Samkvæmt lýsingu vinkonunnar var stúlkan grátandi og í taugalosti, er hún kom til hennar. Kvaðst hún þekkja kæranda vel og taldi ástand hennar greinilega hafa borið  með sér að hún væri verulega hrædd og hefði hún í raun verið sturluð.

Eftir stutta viðdvöl á heimilinu fór kærandi í fylgd vinkonu sinnar á  neyðarmóttöku Sjúkrahúss Reykjavíkur vegna nauðgunar. Lýsti hún þar atburðum á heimili ákærða þá um nóttina í megindráttum á sama veg og hún gerði síðar hjá lögreglu og fyrir dómi, svo sem rakið er í héraðsdómi. Lýsing læknis á neyðarmóttökunni á andlegu ástandi kæranda er mjög á sama veg og fram kom hjá vinkonu hennar. Fyrir dómi kvað læknirinn ekki hafa farið á milli mála að stúlkan hefði orðið fyrir miklu áfalli og verið haldin mikilli hræðslutilfinningu og bjargarleysi. Taldi læknirinn miðað við útlit stúlkunnar og andlegt ástand að ekki kæmi til greina að frásögn hennar væri uppspuni.

Í héraðsdómi er lýst því mati dómsins, sem skipaður var þremur héraðsdómurum, að frásögn kæranda væri trúverðug og hið sama ætti við um framburð vinkonu hennar. Er mat dómenda ítarlega rökstutt. Þegar gögn málsins í heild eru virt verða ekki taldar líkur til þess, að þessi niðurstaða kunni að vera röng, svo að tilefni sé til aðgerða samkvæmt 5. mgr. 159. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sbr. 19. gr. laga nr. 37/1994. Samkvæmt því og að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdómsins verður staðfest niðurstaða hans um sakfellingu ákærða og ákvörðun refsingar.

Um andlega líðan kæranda liggur fyrir framburður hennar, vinkonu hennar og læknis á neyðarmóttöku vegna nauðgunar. Hins vegar nýtur ekki álits sérfræðings um ástand hennar nú og um hugsanleg varanleg áhrif verknaðarins á hana. Þó er ljóst, að slíkur verknaður og hér um ræðir er til þess fallinn að valda þeim, sem fyrir verður, margvíslegum sálrænum erfiðleikum. Á kærandi rétt á miskabótum úr hendi ákærða, sem miðað við fyrirliggjandi gögn þykja hæfilega ákveðnar 400.000 krónur og beri þær vexti, eins og í dómsorði segir. Einnig ber að staðfesta ákvæði héraðsdóms um greiðslu lögmannskostnaðar vegna kröfugerðarinnar.

Staðfest verður ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað. Dæma ber ákærða til greiðslu alls áfrýjunarkostnaðar málsins, svo sem mælt er fyrir um í dómsorði.

Hjörtur Torfason og Hrafn Bragason gera þá athugasemd að þeir séu sammála framangreindum rökstuðningi, en telji að miðað við málavexti og fordæmi skuli ákvarða refsingu fangelsi í 18 mánuði.

Dómsorð:

Ákærði, Sveinbjörn Ólafur Sigurðsson, sæti fangelsi í tvö ár.

Ákærði greiði K 400.000 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 23. febrúar 1998 til greiðsludags og 50.000 krónur vegna kostnaðar við að halda fram bótakröfunni.

Staðfest er ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað.

Ákærði greiði áfrýjunarkostnað sakarinnar, þar með talin saksóknarlaun í ríkissjóð, 100.000 krónur, og málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Steingríms Gauts Kristjánssonar hæstaréttarlögmanns, 100.000 krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 20. nóvember 1998.

Ár 1998, föstudaginn 20. nóvember er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem háð er í Dómhúsinu við Lækjartorg af Hjördísi Hákonardóttur, héraðsdómara, ásamt meðdómendunum Hirti O. Aðalsteinssyni héraðsdómara og Ingibjörgu Benediktsdóttur héraðsdómara og kveðinn upp svohljóðandi dómur í sakamálinu nr. 368/1998: Ákæruvaldið gegn Sveinbirni Ólafi Sigurðssyni.

Mál þetta sem dómtekið var 22. október 1998 er höfðað samkvæmt ákæru útgefinni af ríkissaksóknara hinn 31. mars 1998 á hendur ákærða Sveinbirni Ólafi Sigurðssyni, kt. 100674-3279, Æsufelli 6, Reykjavík fyrir nauðgun, með því að hafa aðfaranótt laugardagsins 23. ágúst 1997, á heimili sínu að Æsufelli 6, Reykjavík, með líkamlegu ofbeldi þröngvað konunni K, 22 ára, til holdlegs samræðis.

Er þetta talið varða við 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 2. gr. laga nr. 40/1992.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.

Helga Leifsdóttir, héraðsdómslögmaður, krefst miskabóta fyrir hönd K úr hendi ákærða, 1.000.000 króna, auk málskostnaðar að viðbættum virðisaukaskatti og dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga, frá 23. ágúst 1997 til greiðsludags.

Verjandi krefst sýknu af ákæru og að bótakröfu verði vísað frá dómi, til vara krefst hann vægustu refsingar sem lög leyfa og að bótakrafa verði stórlega lækkuð.

Málsatvik og framburður aðila og vitna.

Að morgni laugardagsins 23. ágúst 1997 kl. 09:00 kom kærandi máls þessa, K, á Neyðarmóttöku Sjúkrahúss Reykjavíkur í fylgd vinkonu sinnar I. Kvað hún óþekktan karlmann hafa beitt sig ofbeldi og nauðgað sér þá um morguninn, með því að halda sér niðri, halda fyrir munninn á sér og þröngva sér til samfara og haldið sér í íbúð sinni til klukkan 08:00 um morguninn. Taldi hún manninn vera um 24 ára gamlan og hafi atburðurinn átt sér stað í blokk í Breiðholti. Hún kvaðst hafa hitt manninn í miðborg Reykjavíkur nóttina áður eftir að skemmtistaðir lokuðu og farið með honum í leigubifreið, að því er hún hélt, í samkvæmi. Hún kvaðst hafa verið talsvert drukkin. Hún hafi farið inn í íbúð með manninum, en þegar hún hafi áttað sig á því að þar var ekkert samkvæmi hafi hún viljað fara en hann hafi hindrað hana í því. Hún hafi einu sinni komist fram á gang og náð að hringja á dyrabjöllum annarra íbúða en enginn hafi svarað. Hafi maðurinn þá komið og tekið hana með valdi úr ganginum og borið hana inn í svefnherbergi þar sem hann hafi haft við hana samfarir. Honum hafi orðið sáðlát. Á eftir hafi hann spurt hvort hún myndi nokkuð segja frá og síðan ekið henni á heimilisfang sem hún gaf upp á gömlum gráum Mercedes Benz. Hafi hún þá náð að komast til vinkonu sinnar vitnisins I. Hinn 27. ágúst lagði K fram kæru hjá lögreglu og gaf skýrslu. Lýsti hún þá manninum nánar sem hávöxnum um 190 cm, grönnum, breiðleitum, með blá eða græn augu en dökkar augabrúnir og augnhár. Hafi hann klæðst rauðleitri úlpu. Hún kvað I hafa ekið um Breiðholtið daginn eftir og fundið gamlan gráan Benz með skráningarnúmerinu KE-611 fyrir utan Æsufell 6. Hjá lögreglu hafi hún fengið uppgefið að eigandi bifreiðarinnar væri Guðmundur Ingi Sigurðsson. Kvaðst hún þá hafa farið með vinkonu sinni að Æsufelli 6 og hafi þessi bifreið litið eins út og sú er árásarmaðurinn hafði ekið henni í. Kvaðst hún einnig hafa farið inn í stigaganginn og hafi sér fundist að hún þekkti sig þar.

Ákærði kom til yfirheyrslu hjá lögreglu 2. september 1997. Hann kannaðist við að hafa komið heim með stúlku aðfaranótt laugardagsins 23. ágúst og að hafa átt við hana samfarir í íbúð sinni en fullyrti að það hefði verið með hennar vilja. Mercedes Benz bifreiðina kvað hann vera skráða eign bróður síns og kvaðst hann hafa ekið stúlkunni á bifreiðinni í Grafarvog um kl. 08:00 um morguninn.

Óumdeilt er að aðilarnir hittust fyrir framan Hótel Borg um nóttina og tóku leigubifreið saman upp í Breiðholt ásamt tveimur öðrum mönnum sem héldu áfram á bifreiðinni er þau fóru út.

Á Neyðarmóttöku var ástand og útlit K skoðað. Lýsir læknirinn því að í viðtalinu sitji hún í hnipri, niðurlút og sé greinilegur hrollur í henni þótt hún sé í pelsjakka. Hún sé útgrátin, rauð í kringum augun og málning hafi runnið til. Segi frekar fátt, virki lokuð og mjög miður sín. Á síðbuxum hennar séu tvær saumsprettur, utanvert á vinstra læri og á mjöðm. Á vinstri framhandlegg séu tveir litlir kringlóttir vel afmarkaðir marblettir, radialt rétt ofan við úlnlið, sem gætu verið eftir fast tak með fingrum. Á burðarbörmum hafi sést hvítir blettir sem gætu verið sæðisvökvi.

Ákærði neitar sök. Hann skýrir svo frá fyrir dóminum að hann hafi hitt K fyrir utan Hótel Borg og hafi þeim litist vel hvoru á annað. Hann kvað þau hafa hitt einhverja konu sem hafi borið á stúlkuna að hún væri fíkniefnaneytandi og hafi þær þrasað. Þau hafi tekið leigubifreið ásamt frænda hans, Borgþóri Gústafssyni, sem hann hafi verið með þarna, og vitninu Hilmari Hannessyni. Við leigubifreiðastöðina hafi Borgþór lent í einhverjum stympingum og hafi K ætlað að blanda sér í málið en hann hafi tekið í hana og haldið aftur af henni, kvað hann hugsanlegt að hún hefði fengið framangreinda marbletti við það. Í leigubifreiðinni hafi Borgþór setið í framsæti og Hilmar aftur í ásamt þeim. Þau hafi verið að kyssast í bifreiðinni á leiðinni upp í Æsufell 6. Þar hafi þau tvö farið út en hinir tveir haldið áfram í bifreiðinni. Stúlkan hafi gengið í átt að Æsufelli 4, hafi henni verið óglatt. Hann hafi spurt hvort hún vildi ekki koma í hans íbúð og kasta upp þar. Hún hafi svo aldrei kastað upp. Hann kvaðst hafa séð að stúlkan var undir áhrifum áfengis. Hann kvaðst ekki hafa haldið á henni inn í húsið, en haldið utan um hana. Þegar inn var komið hafi þau sest í sófa og verið að kyssast. Síðan hafi hann leitt hana inn í svefnherbergi. Þau hafi klætt sig úr einhverjum fötum. Hann hafi síðan hjálpað stúlkunni við að fara úr einhverju. Þau hafi haft stuttar samfarir, honum hafi orðið sáðlát, hann kvaðst aldrei nota smokk. Kvað hann stúlkuna hafa verið fullan þátttakanda í samförunum og ekki sýnt neinn mótþróa. Þau hafi síðan klætt sig og spjallað saman og hann hafi ekið henni í Grafarvog. Hann kvaðst hafa drukkið áfengi þetta kvöld. Hann kannaðist ekki við að stúlkan hefði reynt að komast í burtu og kvaðst myndu muna það ef hún hefði farið út á gang. Hann kvaðst ekki muna eftir því að stúlkan bæði hann að hringja á leigubifreið, ekki muna eftir því að stúlkan færi á salernið, ekki muna eftir því að buxur hennar hefðu rifnað þegar hann tók hana úr þeim, ekki muna eftir því að hún færi að gráta, ekki eftir því að hann tæki jakka hennar í pant, og minntist ekki samræðna um eyðni. Hann kvað ekkert hafa verið talað um samkvæmi og taldi stúlkuna hafa komið með sér heim vegna þess að henni hefði litist vel á hann. Hann neitaði því að nokkuð í fari stúlkunnar hefði bent til þess að hún vildi ekki vera með honum. Hann kannaðist ekki við að hafa spurt hana hvort hún myndi nokkuð kæra. Hann taldi hana ekki hafa verið miður sín þegar hann keyrði hana í Grafarvoginn.

Kærandi K kvaðst hafa verið með þremur vinkonum sínum á Kaffibrennslunni þetta kvöld þar til staðnum var lokað, eftir að þær fóru þaðan hafi þær orðið viðskila. Hún kvað vitnið I ekki hafa verið með. Hún kvaðst hafa hitt tvo menn fyrir utan Hótel Borg, ákærða og eldri mann sem hafi verið með lítilsháttar skegg. Hafi ákærði kallað hann frænda sinn. Aðspurð kannaðist hún við að þarna hefði verið einhver eldri kona og eitthvað hafi þær verið að tala. Henni hafi ekki litist illa á ákærða og hún hafi verið spennt fyrir að komast í samkvæmi. Hún kvaðst hafa spurt þá hvort þeir vissu um samkvæmi. Hafi þeir þá játað því og hafi sér litist vel á það, hún gæti hafa haldið utan um ákærða en telur sig ekki hafa kysst hann. Þau hafi tekið leigubifreið. Kvað hún það geta verið rétt að hún hafi blandað sér í slagsmál við leigubifreiðastöðina. Hún kvaðst ekki vera viss um hvort eldri maðurinn hafi verið með í bifreiðinni eða farið út. Hún kvaðst hafa verið mjög drukkin og hafi henni orðið óglatt í bifreiðinni. Hún kvaðst ekki muna eftir ferðinni í leigubifreiðinni að öðru leyti en þá hafi hún ekki verið hrædd. Þegar hún komst út úr bifreiðinni í Breiðholti hafi hún þurft að kasta upp og hafi ekki hugsað um annað þá stundina. Maðurinn hafi sagt að það væri best að hún kæmi upp í íbúðina og kastaði upp þar. Hún hafi þó ekki kastað upp og hafi farið með manninum inn í íbúðina og hafi ekkert verið hrædd við hann. Hún hafi einfaldlega verið á leið í samkvæmi, hann hafi boðið henni í samkvæmi. Þegar inn var komið hafi hún hins vegar áttað sig á því að þarna var ekkert samkvæmi. Hann hafi lagst ofan á hana. Hún hafi viljað fara og beðið hann að hringja á leigubíl, sagst vera þreytt, en hann hafi tekið því illa og verið pirraður af því að hún vildi ekki kynnast sér. Hann hafi tekið jakkann hennar og ekki viljað að hún færi, sagt að það tæki því ekki af því að klukkan væri orðin svo margt. Svo kveðst hún muna að þau hafi aftur verið inni í svefnherberginu. Hann hafi beðið hana að fara úr sokkum og skónum og hafi hún gert það, þá hafi hann tekið hana harkalega úr buxunum og nærbuxunum og ætlað að nauðga henni. Hún hafi ekki orðið vör við að buxurnar rifnuðu. Hún hafi þá gripið til þess ráðs að segjast vera með eyðni. Hafi hann þá stungið puttanum upp í leggöng hennar og sagt að hann smitaðist ekki við þetta. Þarna hafi hún verið orðin rosalega hrædd og eina hugsunin hafi verið sú að komast út úr íbúðinni. Hún hafi beðið um að fá að fara á klósettið og hafi hann samþykkt það, þá hafi hún farið beint út og tekist að hringja á bjöllum á tveimur eða þremur íbúðum frammi á ganginum. Kvaðst hún þá hafa verið ber að neðan og í mussu að ofan. Hún hafi svo hlaupið að enda gangsins þar sem hún hafi haldið að væri stigi niður, en það hafi aðeins reynst vera útskot. Kvaðst hún hafa verið að leita að útgönguleið. Hún kvaðst hafa verið svo skelfingu lostin að hún hafi ekki vitað hvað hún var að gera. Þá hafi maðurinn komið að og haldið á henni inn í íbúðina, hún telur sig hafa öskrað og beðið hann að sleppa sér. Hann hafi verið sterkur. Hún telur að atburðurinn á ganginum hafi tekið tvær til þrjár mínútur. Maðurinn hafi verið rosalega reiður, hann hafi öskrað hvort hún ætlaði að gera honum þetta erfitt. Hann hafi hent henni á rúmið og spurt hvort hún væri að reyna að vekja á sér athygli. Hún hafi grátið og grátið og verið orðin gífurlega hrædd. Hafi hann haldið fyrir munninn á henni þannig að henni fannst hún vera að kafna og haldið henni fast niðri á meðan hann var að nauðga henni. Hún kvaðst hafa snúið höfðinu til hliðar til þess að geta andað. Á eftir hafi hann ítrekað spurt hvort henni hafi þótt þetta gott og hafi hún neitað því. Hún hafi beðið hann um að hringja á leigubifreið, en hann hafi sagst ætla að aka henni heim. Hún hafi klætt sig í allt nema sokkana, sem hún hafi troðið í töskuna, og sótt jakkann inn í óhreina tauið á baðinu. Spurð um saumsprettur á buxum kvaðst hún ekki hafa orðið vör við þegar þær komu, en ekki vita til þess að þær hafi verið til staðar. Þau hafi farið niður í bifreiðastæði að Benz og hann hafi ekið henni í Grafarvoginn. Hafi hún sagst vera að fara til systur sinnar og að hún vildi ekki fara beint heim. Í raun hafi hún verið að fara til vinkonu sinnar. Ákærði hafi sagt við hana að þetta væri í fyrsta skipti sem hann gerði svona lagað og hafi spurt hvort hún ætlaði að segja einhverjum frá þessu. Hún hafi verið grátandi í bifreiðinni en ekki móðursjúk og grátandi þegar hún var að hringja bjöllunni. Hún kvaðst hafa verið viti sínu fjær af hræðslu þegar hún losnaði frá manninum og komst inn til vinkonu sinnar vitnisins I. Hún hafi síðan sagt henni frá því sem komið hafði fyrir og vitnið I hafi ekið henni á Neyðarmóttökuna. Kvað hún annað ekki hafa komið til greina en að kæra manninn. Hún kvað þennan atburð hafa orðið til þess að hún flutti að heiman frá foreldrum sínum. Hafi faðir hennar kennt henni um það sem hafði skeð. Henni hafi liðið mjög illa á eftir og verið frá vinnu í eina og hálfa viku og kveðst hafa hætt í skóla, en sé nú byrjuð aftur og stundi nám í kvöldskóla [...]. Hún kvaðst aðeins hafa farið í einn tíma hjá sálfræðingi, hún hafi verið komin svo mikið inn í sig að hún hafi ekki getað hugsað sér að tala við sálfræðing. Nú eigi hún kærasta sem hafi hjálpað henni mikið. Hún kvað ákærða hafa tekið mikið frá sér og valdið sér mikilli vanlíðan og hún kvaðst vera mjög reið. Við endurkomu á Neyðarmóttöku 12. september 1997 skráir læknirinn að hún hafi flutt frá foreldrum, bragði ekki áfengi eftir atburðinn, virki spennt og eigi erfitt með að ræða atburð, vilji ekki ræða viðbrögð foreldra og sé hikandi í afstöðu til sálfræðings. K staðfesti að hún hefði farið á staðinn með lögreglu eftir atburðinn og áttað sig á tveimur af þeim íbúðum þar sem hún hringdi bjöllum en ekki fleirum. Hún kvaðst vera [...] cm á hæð og hafa verið [...] kg. á þyngd þegar atburðurinn átti sér stað.

Vitnið Hilmar Þór Hannesson kvaðst minnast þess að hafa hitt ákærða og stúlku í Lækjargötu við leigubifreiðastöð umrætt kvöld þar sem hann hafi staðið í röðinni. Borgþór Gústafsson kunningi hans hafi verið þar og hafi hann verið mjög drukkinn. Taldi vitnið að ákærði og stúlkan hefðu látið vel hvort að öðru og hefði hann ekki séð neitt athugavert við það. Staðfesti hann við meðferð málsins lýsingu sína í skýrslunni. Á leiðinni í leigubifreiðinni hafi Borgþór verið að spjalla við bifreiðastjórann frammi í. Minntist hann þess ekki að rætt hefði verið um samkvæmi. Taldi hann að stúlkan hefði ekki verið mikið drukkin. Þeir Borgþór hafi farið í Kópavog heim til Borgþórs. Taldi hann þau hafa verið að koma af Tunglinu, þau hafi hist þar. Taldi vitnið sig hafa verið að skemmta sér með Borgþóri í bænum þetta kvöld.

Vitnið I kvaðst hafa kynnst K árið 1993 og hafi þær verið bestu vinkonur síðan. K hafi komið og hafi hún hamast á bjöllunni og þegar hún kom inn hafi hún verið í taugalosti og móðursýkiskasti, gersamlega brjáluð. Hafi hún gargað: „Hann ætlar að drepa mig, hann ætlar að drepa mig”. Lætin hafi vakið börnin hennar og hafi hún farið inn til þeirra og þá heyri hún K garga frammi að henni hafi verið nauðgað. Hún hafi verið sjúskuð og skrýtin og kvaðst vitnið fyrst hafa haldið að hún væri dauðadrukkin. Þegar hún hafi róast hafi þetta farið að skýrast. Vitnið kvaðst aldrei hafa séð K í svona ásigkomulagi. Hún hafi séð hana miður sín og drukkna en það hafi ekki verið eins og í þetta skipti. Nánar aðspurð kvað hún K hafa verið grátandi, rosalega hrædda, gersamlega sturlaða. Kvaðst vitnið ekki verið í vafa um að hún væri að segja sannleikann. Hún hafi sagt sér að hún hefði verið niðri í bæ og týnt vinkonum sínum og svo hitt fólk sem var að fara í samkvæmi. Hún hafi ætlað með í samkvæmi, sem ekki hafi reynst vera samkvæmi. Hún hafi reynt að komast út en ekki tekist það, m.a. látist ætla á salernið og hlaupið fáklædd út á gang. Á eftir hafi maðurinn ekið henni heim svo hún færi ekki til lögreglunnar, hann hafi haft áhyggjur af því að hún kærði þetta. Hann hafi talað um að sleppa því að aka henni heim, og þá hafi hún orðið hrædd um að hann ætlaði að ganga frá sér og sagt að hún skammaðist sín svo mikið og vildi ekki fara heim og hvort hann vildi ekki aka henni til systur sinnar. Hann hafi stoppað annars staðar við [...] og hún hafi getað hlaupið í burtu. Vitnið kvaðst hafa hringt upp á Neyðarmóttöku og þær hafi farið strax og hún var búin að koma börnunum fyrir. Hún kvað K hafa eins og truflast við þennan atburð og verið annarleg í nokkra mánuði, hún hafi alltaf verið úti og það hafi verið eins og ekkert skipti hana máli. Hún hafi ekki farið í vinnu í viku á eftir. Faðir hennar hafi ásakað hana vegna þess að hún fór með manninum í leigubifreiðinni. Nú sé þetta breytt.

Vitnið Anna Þ. Salvarsdóttir, læknir, kvaðst hafa tekið á móti K á Neyðarmóttöku og muna eftir því. Kvað hún hana hafa borið dæmigerð einkenni þeirra sem hafi orðið fyrir kynferðisbroti. Hún hafi greinilega orðið fyrir miklu áfalli, verið mjög miður sín, liðið mjög illa, haft einkenni um alvarlegt kreppuástand. Marblettir sem voru á henni hafi verið nýir og gætu komið heim og saman við það að henni hafi verið haldið. Hún hafi lýst vel rosalegri hræðslutilfinningu og bjargarleysi, enginn hafi svarað dyrabjöllum sem hún hafi hringt á. Hún hafi lýst því að árásarmaðurinn hafi haldið fyrir munninn á henni svo það heyrðist ekki í henni. Hún hafi sagt að hann hafi óttast að hún myndi kæra, en hún hafi verið ákveðin í því, hún hafi komið nánast beint frá atburðinum. Vitnið kvað sjaldnast vera sjáanlega ytri áverka á brotaþolum í þessum málum. Það hafi verið saumsprettur á buxunum. Vitnið kvaðst ekki hafa verið í vafa, miðað við andlegt ástand K, að hún segði satt frá atburði. Vitnið lýsti því að við endurkomu hefðu orðið miklar breytingar á högum K, hún hafi verið frekar lokuð og dauf og búin að eiga erfitt. Eftir áfall sem þetta sé eðlilegt að fólk sé frá vinnu, hafi hún boðið henni vottorð til lengri tíma en viku en hún hafi ekki þegið það. Frásögn vitnisins er í samræmi við gögn Neyðarmóttöku, sem liggja frammi í málinu.

Vitnið Benedikt H. Benediktsson, rannsóknarlögreglumaður, staðfesti að hafa tekið lögregluskýrslur varðandi málið. Kvaðst hann muna að stúlkan hefði átt erfitt með að segja frá atburðinum, henni hefði liðið illa og þetta hefði tekið tíma. Vitnið taldi hana þó hafa lýst atburðinum, hefði hann ekki þurft að leiða hana. Vitnið staðfesti að hafa talað við íbúa á staðnum og farið með K á staðinn. Gat vitnið ekki munað hvort K var upplýst um það hverjir hefðu verið heima í íbúðunum áður en hún benti á þær dyr á vettvangi þar sem hún taldi sig hafa hringt, en samkvæmt almennum starfsvenjum myndi það ekki hafa verið gert. Spurður um aðstæður á vettvangi kvað hann K hafa bent á skot við stiga og sagst hafa farið þar og haldið að það væri stigagangur niður og út, þá hafi maðurinn komið. Taldi vitnið að útgangur sæist greinilega í birtu.

Niðurstaða.

Mikið ber í milli í frásögn ákærða og K um framvindu mála í íbúð ákærða að Æsufelli 6 í Reykjavík að morgni laugardagsins 23. ágúst 1997. Vitnum er þar ekki til að dreifa. Um atburðarásina á undan og á eftir ber þeim nokkurn veginn saman, svo sem ljóst er af framburði þeirra sem rakinn er hér að ofan. Óumdeilt er að samfarir áttu sér stað á milli ákærða og K, sæði fannst við læknisrannsókn á K. Ekki voru áverkar á henni utan tveir litlir nýir marblettir. Vitnið Anna Salvarsdóttir, læknir, telur að marblettirnir gætu stafað af því að K hefði verið haldið. Ákærði telur sig hafa tekið fast í K við leigubifreiðastöðina er hún hafi ætlað að blanda sér í slagsmál milli frænda hans og annars. Er þarna einnig hugsanleg skýring á marblettunum. Saumsprettur á buxum K gætu hafa komið við það er ákærði tók hana úr þeim, en um það verður ekki fullyrt. Ákærði hefur neitað sakargiftum og öllum þeim atriðum í frásögn stúlkunnar sem styðja kæru hennar. Bæði hafa verið staðföst í framburði sínum.

K reyndist erfitt vegna geðshræringar að skýra frá málinu fyrir dóminum, en sagði þó skýrt frá því sem fyrir hana hafði komið. Í frásögn sinni lýsir hún því að hún hafi komist fram á gang og reynt að vekja athygli á sér með því að hringja á dyrabjöllur nærliggjandi íbúða. Hún kveðst hafa verið viti sínu fjær af hræðslu á því stigi. Var hún ekki viss um hvort hún hefði hringt á tveimur eða þremur dyrabjöllum. Við vettvangsrannsókn kvaðst hún viss um að hafa hringt dyrabjöllum íbúða 1.b. og 1.d. Við rannsókn lögreglu hafði áður komið í ljós að íbúð 1.b. var mannlaus þennan morgunn og íbúi í 1.d. var heyrnarlaus á öðru eyra og kvaðst ekki myndu hafa vaknað við dyrabjöllu ef hann hefði legið á heilbrigða eyranu. Konur sem bjuggu í íbúðum 1.a. og 1.e. höfðu ekki orðið varar við að dyrabjöllu væri hringt né við hávaða frá gangi. Önnur var sofandi, en hin var með tveggja ára gamalt barn og taldi sig hafa verið vakandi. K telur sig hafa hrópað frammi á ganginum, en þetta hafi verið mjög stutt stund áður en ákærði náði henni aftur inn í íbúðina. Ekkert í þessari frásögn þykir vera ósennilegt eða veikja framburð K. Þegar hræðsluástand hennar er haft í huga þykir ekki tortryggilegt að hún skyldi ekki hlaupa beint út úr húsinu, en þar var hún ókunnug staðháttum. Hún var fáklædd og leitaði eftir hjálp og kveðst ekki hafa áttað sig á útgöngudyrunum. Af hálfu ákærða er því haldið fram að K hafi ekki verið sjálfri sér samkvæm og gætt hafi mikillar ónákvæmni hjá henni, til dæmis hafi hún ekki munað hversu margir voru í leigubifreiðinni og að hún hafi farið með ákærða í „samkvæmið” þótt hinir farþegarnir kæmu ekki með. K hefur lýst því að hún hafi verið mjög drukkin og veik af drykkjunni, hefur ákærði staðfest að sést hafi að hún var drukkin og að henni hafi verið óglatt þegar þau komu út úr bifreiðinni. Þykir þetta ástand hennar skýra framangreint á fullnægjandi hátt. K taldi sig vera að fara í samkvæmi. Ósannað er hins vegar að ákærði hafi tjáð henni að hann vissi um samkvæmi og má vera að hann hafi farið með hana heim í góðri trú um að þau ætluðu að vera saman og að hann hafi ekki gert sér ljóst að hún kom með honum á fölskum forsendum.

Frásögn K þykir vera trúverðug og telur dómurinn ekki vera vafa á því að hún skýri rétt frá atburðinum. Ákærði staðfestir að hafa verið með K í íbúðinni á þessum tíma. Vitni hafa borið um ástand og frásögn K í beinu framhaldi af atburðinum. Vinkona K, vitnið I, ber að hún hafi komið til sín um áttaleytið um morguninn og verið þá verulega hrædd og miður sín og ólík sjálfri sér. Þetta vitni þykir trúverðugt. K fer síðan beint á Neyðarmóttöku Sjúkrahúss Reykjavíkur og er hún komin þangað um klukkan níu. Staðfestir vitnið Anna Salvarsdóttir, læknir, að hún hafi þá borið öll einkenni manneskju sem orðið hefur fyrir alvarlegu áfalli og að hún hafi lýst hræðslu og bjargarleysi. Vitnin I og Anna efuðust ekki um sannleiksgildi frásagnar hennar umræddan morgun. Ástand K eftir atburðinn getur ekki samræmst lýsingu ákærða á því sem þeim fór í milli. Ákærði hafði greinilega líkamlega yfirburði. Þykir sannað að K hafi verið mótfallin samförunum og hafi verið beitt þvingun. Er þetta byggt á frásögn hennar og ástandi eftir atburðinn, sem tvö vitni hafa lýst á sama hátt. Vitnið Anna Salvarsdóttir, læknir, lýsti því að sjaldnast sjáist líkamlegir áverkar á brotaþolum í nauðgunarmálum. Ákærði og K höfðu ekki sést fyrir þetta kvöld. Hún var ekki í föstu sambandi. Verður ekki séð að hún hafi haft neina ástæðu til þess að bera á ákærða rangar sakir. Ekki þykir vera vafi á því að ákærði hafi þröngvað K til samfara með valdi og ógnandi framkomu. Er ákærði fundinn sekur um háttsemi þá sem lýst er í ákæru og er þar rétt heimfærð til refsiákvæðis.

Ákærði hefur tvisvar hlotið refsingu fyrir ölvunarakstur, með sátt á árinu 1995 og sektardómi hinn 20. febrúar 1998. Brot það sem hér er til umfjöllunar var framið fyrir dóminn og er því um hegningarauka að ræða samanber 78. gr. almennra hegningarlaga. Ákærði hefur ekkert sér til málsbóta. Það er honum engin afsökun fyrir því að hindra stúlkuna í að fara þegar hún vildi og þvinga fram vilja sínum til kynmaka, að hann hafi verið í góðri trú um að hún hefði komið með honum í því skyni. Við refsingu hans ber að hafa hliðsjón af 77. gr. almennra hegningarlaga. Þykir refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í 2 ár.

Ljóst er að atburðurinn sem ákærði hefur hér verið sakfelldur fyrir hefur haft alvarlegar afleiðingar fyrir K bæði andlega og félagslega, þykir hún eiga rétt til miskabóta úr hendi ákærða og eru þær hæfilega ákveðnar kr. 800.000 auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 23. febrúar 1998 til greiðsludags, en ákærða var birt bótakrafan 23. janúar 1998, og lögfræðikostnaðar án virðisaukaskatts kr. 50.000.

Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með taldar kr. 100.000 í saksóknarlaun í ríkissjóð og kr. 100.000 í málsvarnarlaun til skipaðs verjanda síns, Haraldar Arnar Ólafssonar héraðsdómslögmanns.

Af hálfu ákæruvaldsins var málið flutt af Sigríði J. Friðjónsdóttur, settum saksóknara.

Uppsaga dóms þessa hefur dregist vegna embættisanna dómsforseta.

Dómsorð:

Ákærði, Sveinbjörn Ólafur Sigurðsson, sæti fangelsi í 2 ár.

Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með taldar kr. 100.000 í saksóknarlaun í ríkissjóð og kr. 100.000 í málsvarnarlaun til skipaðs verjanda síns, Haraldar Arnar Ólafssonar héraðsdómslögmanns.

Ákærði greiði K kr. 800.000 í miskabætur auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 23. febrúar 1998 til greiðsludags og kr. 50.000 í lögfræðikostnað.