Hæstiréttur íslands

Mál nr. 268/2000


Lykilorð

  • Kærumál
  • Niðurfelling máls


Miðvikudaginn 30

 

Miðvikudaginn 30. ágúst 2000.

Nr. 268/2000.

Greiðabílar hf.

(Dögg Pálsdóttir hrl.)

gegn

Hilmari Ó. Sigurðssyni

(enginn)

                                              

Kærumál. Niðurfelling máls.

G höfðaði mál gegn H. Krafðist H þess að málinu yrði vísað frá dómi og var sú krafa tekin til greina að hluta. Í næsta þinghaldi, sem boðað hafði verið til að lokinni uppkvaðningu úrskurðar um frávísun málsins að hluta, var ekki mætt af hálfu G og engin forföll boðuð. Kvað héraðsdómari þá upp úrskurð þar sem málið var fellt niður og G gert að greiða H málskostnað. G kærði úrskurðinn og taldi að jafna mætti ástæðu fyrir fjarveru lögmanns hans í þinghaldinu til lögmætra forfalla, en lögmaðurinn hafði ranglega fært í dagbók sína um dagsetningu þinghaldsins. Talið var að ástæða fjarveru lögmanns G gæti hvorki talist til lögmætra forfalla í skilningi 1. mgr. 97. gr. laga nr. 91/1991 né yrði henni jafnað til slíkra forfalla. Því hefði héraðsdómara verið rétt að fella málið þegar niður, sbr. b. lið 1. mgr. 105. gr. laga nr. 91/1991, og taka til greina kröfu H um málskostnað. Var úrskurður héraðsdómara um frávísun málsins og greiðslu málskostnaðar staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Arnljótur Björnsson og Gunnlaugur Claessen.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 6. júlí 2000, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 28. júní 2000, þar sem mál sóknaraðila á hendur varnaraðila var fellt niður. Kæruheimild er í k. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess aðallega að hinum kærða úrskurði verði hrundið og lagt fyrir héraðsdómara að boða að nýju til þinghalds í málinu, en til vara að málskostnaður í héraði verði felldur niður eða lækkaður. Þá krefst sóknaraðili kærumálskostnaðar.

Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Sóknaraðili höfðaði málið á hendur varnaraðila 24. febrúar 2000. Varnaraðili tók til varna og krafðist þess aðallega að málinu yrði vísað frá dómi. Málið var munnlega flutt um þá kröfu 16. júní 2000. Hinn 22. sama mánaðar kvað héraðsdómari upp úrskurð að viðstöddum lögmönnum aðilanna, þar sem málinu var að hluta vísað frá dómi. Í lok þinghaldsins var fært til bókar að það yrði næst tekið fyrir á dómþingi 28. júní 2000 kl. 9.30. Í þinghaldi þann dag var ekki mætt af hálfu sóknaraðila og engin forföll boðuð. Kvað þá héraðsdómari upp hinn kærða úrskurð, þar sem málið var fellt niður og sóknaraðila gert að greiða varnaraðila 75.000 krónur í málskostnað.

Í kæru sóknaraðila til Hæstaréttar er sú skýring gefin á fjarveru lögmanns hans í héraði á dómþingi 28. júní 2000 að lögmaðurinn hafi ranglega fært í dagbók sína að þinghaldið yrði háð hinn 29. þess mánaðar kl. 9.30. Lögmaðurinn hafi komist að mistökum sínum um kl. 9.50 að morgni þess 28. og tafarlaust átt símtal við héraðsdómarann, sem þá hafði tekið málið til úrskurðar. Í kærunni kemur og fram að lögmaður varnaraðila hafi í þinghaldinu lagt til við héraðsdómarann að hringt yrði til lögmanns sóknaraðila til að kanna hvað ylli fjarvist þess síðastnefnda, en til þess hafi dómarinn ekki séð ástæðu. Lögmaður varnaraðila hafi ekki óskað sérstaklega eftir því að málið yrði fellt niður, en þegar ljóst hafi orðið að héraðsdómarinn hygðist fara á þann hátt með málið hafi lögmaðurinn gert kröfu um málskostnað. Telur sóknaraðili að jafna megi ástæðu fyrir fjarveru lögmanns hans í þinghaldinu til lögmætra forfalla samkvæmt ákvæði 1. mgr. 97. gr. laga nr. 91/1991. Ef haft hefði verið samband við lögmanninn, eins og lögmaður varnaraðila hafi verið tilbúinn til að gera, hefðu mistök þess fyrrnefnda þegar komið í ljós og þá verið unnt að fresta málinu. Varakröfu sína styður sóknaraðili einkum við þau rök að eins og málið sé vaxið sé eðlilegt að hvor aðili beri sinn kostnað af því, en í því sambandi megi líta til þess að varnaraðili hafi fyrr undir rekstri málsins gert kröfu um frávísun þess, sem hafi að mestu verið hafnað.

Áðurgreind ástæða fyrir fjarveru lögmanns sóknaraðila í þinghaldi 28. júní 2000 getur hvorki talist til lögmætra forfalla í skilningi 1. mgr. 97. gr. laga nr. 91/1991 né verður henni jafnað til slíkra forfalla. Héraðsdómara var því ótvírætt rétt að fella málið þegar niður, sbr. b. lið 1. mgr. 105. gr. sömu laga, og gat þar engu breytt hugsanleg afstaða lögmanns varnaraðila, sem ekkert liggur reyndar fyrir um í málinu annað en frásögn sóknaraðila. Engin efni voru til annars en að verða við kröfu varnaraðila um málskostnað og er fjárhæð hans hæfilega ákveðin í hinum kærða úrskurði. Verður hann því staðfestur.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Kærumálskostnaður fellur niður.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 28. júní 2000.

Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar fyrr í dag um niðurfellingu og málskostnað, er höfðað með stefnu, þingfestri 24. febrúar 2000, af Greiðabílum ehf., kt. 560269-2699, Malarhöfða 2, Reykjavík, gegn Hilmari Ó. Sigurðssyni, kt. 261124-4089, Árskógum 8, Reykjavík.

Stefnandi gerir þær dómkröfur í stefnu, að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda skuld að fjárhæð 542.704 krónur, ásamt dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af tilteknum fjárhæðum frá 1. apríl 1995 til greiðsludags, auk málskostnaðar, en í greinargerð krefst stefndi sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi hans.

Í þinghaldi í dag, sem boðað var til í þinghaldi 16. þessa mánaðar, féll þingsókn niður af hálfu stefnanda og voru engin forföll boðuð. Var málið því tekið til úrskurðar um niðurfellingu og málskostnað, sem stefndi gerði kröfu um úr hendi stefnanda, sbr. 2. mgr. 105. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Samkvæmt framansögðu ber að fella mál þetta niður með vísan til b. liðar 1. mgr. 105. gr. laga nr. 91/1991. Þá þykir rétt, að stefnandi greiði stefnda málskostnað, sem telst hæfilega ákveðinn 75.000 krónur.

Helgi I. Jónsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

Mál þetta er fellt niður.

Stefnandi, Greiðabílar ehf., greiði stefnda, Hilmari Ó. Sigurðssyni, 75.000 krónur í málskostnað.